Keypti rautt hjól í gær

Ég er að smitast af þessu panikástandi í samfélaginu. Ég er veik heima og get þess vegna ekki komist í bankann til að taka út minn örsmáa peningavarasjóð. Ég er dáldið stressuð , því það vill svo til að í fyrsta skipti í mörg ár þá á ég afgang á bankareikning því ég hef verið að öngla saman fyrir nýlegri  bíl, bíllinn minn er árgerð 1996 og þó hann standi sig afar vel þá er hann orðinn roskinn og þolir ekki miklar ferðir út fyrir borgarmörkin úr þessu. Það er hins vegar nauðsynlegt hjá mér  upp á næsta sumar að geta skotist úr bænum í skógrækt sem ég er með bæði í Borgarfirði og á Suðurlandi, mér sýnist allt benda til þess að tómstundir mínar og ferðalög verði næstu ár mestmegnis innanlands, það er ekkert útlit fyrir að ég eða aðrir Íslendingar höfum efni á að flandrast um heiminn og eyða dýrmætum gjaldeyri í það næstu misseri.

Þetta er nú ekki alvont, ég hlakka til að vera meira á Íslandi og taka þátt í að rækta upp landið og njóta þess að vera í þessu fallega landi. Hins vegar þarf ég að komast út fyrir borgarmörkin og til þess þarf bíl og bensín. En svona er lífið, kannski verður ekkert eftir af bílasjóðnum mínum eftir helgina og kannski verður ekki til neinn gjaldeyrir til að ég geti keypt bensín næsta sumar.

Þá verð ég bara fegin að hafa Öskjuhlíðina og Heiðmörkina og Esjuna hérna innan borgarmarkanna. Og að Orkuveitan ætli ekki að selja Hvammsvík.

Í gær keypti ég hjól, ég bað dóttur mína að fara í útsöluna í Markinu og hún keypti handa mér rautt fallegt hjól sem stendur nú í stofunni hjá mér eins og djásn og tákn um nýja tíma á Íslandi og tákn um hvað er að gerast akkúrat núna. Hjólið kostaði 26.320 kr íslenskar og er þriggja gíra af gerðinni Bronco Windsor.

Þetta er sem sagt plan B ef bankakerfið klikkar um helgina og allt hrynur.

Ég á rauðu hjóli.
Lífið er ekki alslæmt.


mbl.is Engin hætta á olíukreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Það er gott að hjóla. Ég hef gert það í 20 ár og ekki dottið nema einu sinni. Heiman að frá manni og þangað sem maður þarf að fara eru sjaldan fleiri kílómetrar en 7. Meðalhraði hjólreiðamanns, eins og okkar, er 17 km á klukkustund. Meðalhraði bifreiðaunnenda á Miklubrautinni er 44 km á klukkustund. Við erum bara helmingi lengur að komast á milli staða en þeir á bílunum og þess vegna leggjum við bara þeim mun fyrr af stað en þeir.

Kveðja
Ben.Ax. 

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 3.10.2008 kl. 23:00

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

já það er hollt og gjaldeyrissparandi að hjóla. umhverfiscænt líka það er ömurlegt ástand en kannski hvetur kreppan okkur líka til að lifa meira í sátt við umhverfið og vera minni eyðsluklær.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.10.2008 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband