Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Grafarþögn er góð

Gaman að heyra að Economist hælir Grafarþögn eftir Arnald. Það er góð bók eins og raunar allar bækur Arnalds en Grafarþögn og Röddin heilla mig samt mest.  Mér finnst alltaf Arnaldur vera meira að skrifa um einhverja veru sem er stærri en einstaklingarnir, mér finnst hann vera að skrifa um borgina sem einhvers konar lífveru. Hann er að teikna upp landslag af borginni með því að láta vettvang bóka sinna gerast í hinum ýmsu borgarhverfum. Ég spái í hvers vegna kaflaheitin í bókinni Sendiherrann eftir Braga Ólafsson heita líka götunöfnum.  Mér fannst það vera líka einhvers konar landslag. Hugsanlega er svona uppteiknun einn liður í því að losna undan hinu línulega, tölusetta formi prentaðrar skáldsögu.

Ólafur Jóhann velur ekki frumleg nöfn fyrir stigskiptingar  milli kafla og myndlíkingar í sínum sögum. Nöfn eins og Níu lyklar og svo mánaðarheiti í nýju bókinni sína það. Ef til vill er ást hans á tölusetningum tengt bakgrunni hans í eðlisfræði. En það hefði kannski verið frumlegra að nota efnafræðiformúlur sem kaflaskiptingar.  Hringrás kolefnis er kannski alveg eins góð kaflafyrirsögn eins og hver önnur.


mbl.is Economist hælir Grafarþögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðferð og skutl

Ég var að hlusta á Kastljós áðan. Þar var viðtal við Sigmund Ernir. Hann er traustur og trúverðugur fréttamaður og ég hef fulla trú á því að Kompás hafi unnið eins vel og hann lýsir umfjöllunina um meðferðina sem breytist í martröð. Ég horfði  áðan á  Kompásþáttinn á Netinu. Ég horfði líka áðan á viðtalið við Tom Stephens sem hefur nú verið handtekinn og er grunaður um morð á vændiskonum í  Ipswich.

Það er eitthvað líkt með þessari fjölmiðlaumfjöllun hér heima á Íslandi og í Bretlandi um þessi tvo ólíku mál og það er eitthvað líkt með þessum málum.  Málið í Bretlandi er auðvitað sýnu alvarlegra og ég er ekki að bera þessi mál saman til að sverta mannorð einhvers með að bera saman bandingjaleiki og morð heldur til að benda á hve kynferðisleg smánun og misþyrmingar á konum er  vinsælt yrkisefni  fjölmiðla og reyndar líka aðalþemað í mörgu af því skemmtiefni sem okkur er boðið upp á.  Ef til vill eru þetta galdrabrennur og ofsóknir nútímans, í báðum tilvikum er um grunaða en ekki sakfellda að ræða og á einhvern hátt er þetta fréttaefni eins konar fréttaklám, fréttagildið og athyglin sem málin fá eru tengt því að hér er kynbundið ofbeldi, afbrigðilegt kynlíf sem byggir á valdi eins og valdaleysi annarra,  niðurlæging og  smánun á konum og sögur af varnarlausum konum króuðum af í vonlausri aðstöðu. Sögur af bráð og veiðimanni. Sögur af ófreskjum og því sem þær éta.  

Í báðum málum eru konurnar illa haldnir eiturlyfjasjúklingar. Það er líka líkt að í báðum tilvikum hafa fréttamenn tekið viðtöl við hina grunuðu og þeir eru lýstir upp sem persónur í "profiling" eins og í sakamálasögum.  Tom Stephens virðist hafa notið þess að skutla vændiskonunum sem voru myrtar milli staða og var að eigin sögn í einhvers konar trúnaðarsambandi við þær. Hann segir: ""They'd quite often want a lift to get their drugs and I would give them a lift and it was better for me like that and that's how it developed into a friendship with a number of the girls." 
 

Reyndar sé ég að umræðan á BBC er að einhverju leyti um vændi  og hvernig eigi að vernda vændiskonur. Það er áætlað að 80 þúsund manns vinni við vændi á Bretlandseyjum og þar af séu 4 af hverjum 5 konur. Það er hins vegar til marks um á hvaða stigi umræðan er að aðallausnin er talið að koma upp viðurkenndum vændishverfum.  Það er nú hins vegar kannski þannig að vændiskonur eru í mestri hættu að vera drepnar af þeim sem skutla þeim milli staða.


mbl.is Guðmundur lætur tímabundið af störfum fyrir Byrgið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrgið, Konukot, Vogur, brauðfætur og kvalalosti

Félagar mínir í Femínistafélaginu stóðu á sínum tíma mörg að söfnun vegna Konukots sem er afdrep fyrir heimilislausar konur sem nánast alltaf eru líka í bullandi óreglu eða alvarlega veikar á geði. Þegar undirbúningur að því afdrepi stóð yfir þá spurði ég "Hvers vegna í ósköpunum þarf sérstakan samastað fyrir konur, er ekki sams konar ógæfa að vera maður og kona við þannig aðstæður?"  Þau sögðu mér þá að þannig væri það ekki, konur í óreglu væru útsettar fyrir alls konar kynbundið ofbeldi á stöðum fyrir heimilislausa af karlmönnum sem þá staði sækja sem annað hvort nýttu sér ástand og úrræðaleysi kvenna til að svala kynfýsnum sínum eða sem hefðu hagmuni af því að konan héldist  áfram á götunni í neyðarvændi sem framfleytti þeim. 

í gærkvöldi var sýndur í sjónvarpi þáttur um stjórnanda trúfélags sem rekur meðferðarheimili fyrir mjög langt leidda fíkla og þar var eftir því sem ég best veit (ég hef ekki séð þáttinn, eingöngu umfjöllun í fréttum og á bloggi) haldið fram að viðkomandi hefði verið í kynferðissambandi við nokkrar konur sem á þeim tíma hefðu verið í meðferð á þessum stað. Þetta var tengt við umræðu um kvalalosta.

Ég veit lítið um þetta einstaka mál nema það sem ég sé á skrifum annarra og vona að fólk dæmi ekki aðra nema fyrir liggi sekt þeirra af þeim aðilum sem eiga að segja til um sekt eða sýknu. Það að vera ásakaður í fjölmiðli um eitthvað er ekki sama og að vera fundinn sekur fyrir dómstólum. 

En það getur verið að það séu engin lagaákvæði og engar vinnureglur meðferðarstofnana sem taka á  eða leggja bann við því að meðferðaraðili  sem ekki tilheyrir þeim starfstéttum sem hafa siðareglur sé í kynferðissambandi við þann sem er í meðferð. Það eru siðareglur meðal lækna og sálfræðinga og fleiri fagstétta sem taka á svona málum og ég hef fylgst með að einn liður  í menntun umönnunarstétta er að kenna þeim að vera vakandi fyrir ýmis konar mögulegri misneytingu þeirra sem njóta umönnunar og vita hvað á að gera ef grunur vaknar um slíkt.  Það ætti að vera skilyrði til að fá fé frá opinberum aðilum að þar sé eftirlit og völd fengin fagfólki sem fylgir siðareglum og sem hefur sérstaka skólun í að taka á málum sem þessum  og reyna að fyrirbyggja mögulega misnotkun starfsmanna á skjólstæðingum.

Það er hins vegar þannig að þeir sem sjálfir hafa verið djúpt sokknir og hafa frelsast á einhvern hátt ná stundum betur til þeirra sem eru á kafi í   óreglu, skilja betur aðstæður fíkla því þeir hafa verið þar sjálfir og trúarsannfæring getur oft smitað út frá sér og kærleiksríkt  trúfélagið veitt skjól þeim sem hefur verið útskúfað af öllum. Það skjól og það samfélag er ekki síður mikilvægt eftir að meðferð lýkur og ég reyndar held að það sé ein ástæðan fyrir því að slík meðferð er oft árangurríkari en að fara bara inn á Vog og eiga svo að standa á eigin fótum eftir að út er komið. Þeir eigin fætur eru því miður oftast brauðfætur.

Kona sem ég þekki sagði mér frá föður sínum sem var gífurlegur alkóhólisti og allir hans bræður að hún hefði einu sinni keyrt föður sinn á Vog í einni af ótal ferðum hans þangað og þau fóru yfir Hellisheiðina og henni tókst ekki að halda honum þurrum á leiðinni, hann sagðist ekki geta farið inn á Vog nema drekka í sig kjark og hún hafði ekkert val, hún varð að horfa upp á hann þamba bjór í bílnum á leiðinni yfir heiðina eða hann hefði hlaupið út í óbyggðirnar. Hún keyrði hann beint á Vog og við tók  nokkurra vikna meðferð á Vogi þar sem allt gekk vel og vonir kviknuðu eins og þær gera alltaf hjá aðstandendum og honum sjálfum um að nú myndi hann hafa það. Þegar meðferðinni var lokið þá hringdi hann til dóttur sinnar og ætlaði að koma beint til hennar. Hann féll á leiðinni. Einhverra hluta vegna gat hún ekki náð í hann og  og hann fékk ekki annað far svo hann tók leigubíl. Hún er sannfærð um að hann ætlaði að standa sig og þegar hann hringdi í hana og þegar hann lagði af stað út frá Vogi en eitthvað gerðist, bíltúrinn sem átti bara að vera beint frá Vogi og nokkkurra mínútu leið heim til hennar í leigubíl varð ennþá ein hrösunin. Hann lét leigubílinn koma við í Ríkinu og hann sást ekki í einhverja sólarhringa. 

Það hafa margir sem allir hafa afskrifað náð að fóta sig aftur í lífinu með aðstoð af samblandi af trú og meðferð og það þarf að skoða líka hvað er gott gert og virkar í meðferðinni hjá Byrginu sem og öðrum trúfélögum sem taka við þeim fíklum sem verst eru settir.  

En það er þörf þjóðfélagsumræða að beina kastljósinu að því hve útbreitt og algengt kynbundið ofbeldi er - líka á stöðum þar sem megintilgangurinn er að veita einhvers konar skjól og umönnun og betrunarvist.  Það er svo sannarlega gróft kynbundið ofbeldi ef stjórnandi meðferðarstofnunar stundar kynlíf sem einkennist af kvalalosta með konum sem eru í meðferð á stofnun sem viðkomandi stýrir. Ég hef fylgst með bloggumræðunni um þetta mál og bloggpistill Ómars Valdimarssonar vakti mig til umhugsunar um hvernig sama orðræða er notuð til að réttlæta vændi og réttlæta kynbundið ofbeldi eins og hugsanlegt er að átt hafi sér stað. Ómar segir m.a.:

"Engum kemur við, hvað  X gerir í svefnherberginu sínu, svo framarlega sem hann gerir það með lögráða einstaklingum, sem eru fúsir til verka."

Það kemur okkur bara víst við hvernig framkoma er í meðferðarúrræðum við fótum troðið fólk og langt leidda fíkla og það er óhugnanlegt og hryllilegt ef fólk í slíkri aðstöðu er notað sem kynlífsleikföng. Ennþá hryllilegri mynd er ef kynbundið ofbeldi inn á slíkum stofnunum einkennist af sams konar kvalalosta og samband viðskiptavinar og vændiskonu í neyðarvændi.


Trú, víma og umburðarlyndi

Ég fann eftirfarandi pistil sem ég skrifaði fyrir tveimur árum inn á malefnin.com en þar var þá mikil umræða um Byrgið.  Í kjölfar Kompásþáttarins sem sýndur var í kvöld þá geri ég ráð fyrir að fari í gang mikil umræða í samfélaginu um  meðferðarheimili sem trúfélög reka

 Einn málverji beindi til mín þessari spurningu:

Kannski er betra að vera í trú en vímu.  En er það lífsins ómöulega hægt að þurrka upp fólk án þess að dæla í það öfgatrú?

Finnst þér það bara allt í lagi ef mamma þín yrði hare krishna liði, vottur eða mormóni svo lengi sem það gerir hana þurra?  Þætti þér ekki betra að hún yrði bara þurr og héldi síðan áfram sínu lífi?

Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima... finnst þér það hið besta mál?

Ég svaraði svona:

Mér hefði fundist allt í fína þó mamma mín hefði verði í hare krishna liðinu - hefði reyndar verið  ótrúlega stolt af því - og ein mágkona mín er vottur og önnur sennilega ennþá innskráð ásamt sínum börnum í Klettinn. En því miður var mamma mín ekki í neinum sérstrúarsöfnuði nema Framsóknarflokknum og faðir minn trúði meira á sæluríki kommúnista en Guð.

Þú segir: "Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima..". Þessi orð þín bera vott um mikinn hroka og lítinn skilning á lífinu. Trúfélög sem trúa á eitthvað sem þú trúir ekki á og þar sem safnaðarmeðlimir kjósa að hegða lífi sínu öðru vísi en þú eru ekki öfgasamtök. Bara öðruvísi.

Og það er ekki til að afla fleiri meðlima sem trúarstofnanir reka meðferðarheimili. Það er frekar vegna þess að margt trúað fólk hefur samlíðan með öðru fólki og vill bjarga því frá glötun - ekki bara líkamanum heldur líka sálinni.

Ég held að fólk sem hefur ekki þörf fyrir trú og sem hefur ekki skilning á trúarþörf annarra sé eins farið og litlum börnum sem hafa ekki náð þroska - á vissu stigi (nokkurra mánaða) eru öll börn þannig að það sem er ekki fyrir framan augun á þeim er ekki til - jafnvel þó þau horfi á þegar maður tekur einhvern hlut og hylur hann - þá dettur þeim ekki í hug að leita að hlutinum þar sem hann er hulinn sjónum - hann er ekki til af því þau sjá hann ekki.

Ég held líka að fólk sem er ófært um að hafa samlíðan með öðru fólki eða skilning á að aðrir láti sig örlög samferðafólks varða hafi ekki náð þroska og dýpt sem manneskjur. Ef maður horfir á ógæfu annarra bara til að spegla sjálfan sig í henni og sér ekkert annað en að þar séu aumingjar sem hafi staðið sig illa, breytt rangt og eigi skilið að hafa ratað í raunir - þá er maður að horfa á aðstæður bara út frá sjálfum sér og eins og að hlakka yfir óförum annarra og dáðst að sjálfum sér fyrir að hafa ratað beina og breiða veginn.

Ég er ekki viss um að allir nái þeim þroska í lífinu að hafa samlíðan með öðrum eða skilning á því að það er eitthvað til æðra en þeirra eigin vitund. En ég held að umburðarlyndi og trú - alls konar trú - hjálpi fólki til þess þroska.


Drottningarviðtal við sjálfa mig sem mann ársins

bloggrjupanMér er mikill heiður að taka við þessari viðurkenningu sem maður ársins frá tímaritinu Times: "Til hamingju. Þú hefur verið valin(n) „maður ársins“ af tímaritinu Time. Það eru reyndar allir „borgarar hins stafræna lýðveldis“, sem orðið hafa fyrir valinu að þessu sinni, það er að segja, allir sem nota Veraldarvefinn eða búa til efni á hann. ".

Þetta kemur mjög á óvart. En ég er samt tilbúin með mynd af mér sem ég tók á heimili mínu í Sigtúni af mér sjálfri með útsaumaðan púða sem ég bróderaði sjálf og með rjúpur eftir Guðmund frá Miðdal. Það er náttúrulega ekki nógu heimsborgaralegt að sitja í Sigtúni en ekki út í hinum víða heimi í einhverri erlendri höfuðborg.

En hérna í Sigtúni  við borðstofuborði  á  ég  löngum mitt sæti þegar ég blogga og  úti við kvikar borgin sem einu sinni var sjávarpláss með gný sinn og læti. Og hálfvegis vakandi og hálfvegis sofandi eins og í draumi  hér við fartölvuna þá heyri ég þytinn í aldanna sígandi straumi því um gluggann sé ég amerísku öldina í íslensku þjóðlífi líða hjá og alþjóðavæðinguna byrgja útsýni til himinhvolfanna. 

Ég sé Blómaval þar sem einu sinni var gróðurhús og verslun en þar sem  núna er brunaútsala á dótinu sem ameriski herinn skildi eftir þegar hann fór og ég sé tvíburaturnana nýju í Reykjavík teygja sig til himins í hótelbyggingunni við Grand hótel.

 p.s. þetta með rjúpurnar og púðann er vísun í viðtal við Dorrit í Nýju lífi, þar er allt í útsaumi og hún faðmar leirrjúpur sem sagðar eru eftir Guðmund frá Miðdal og mér sýnist þær bara svipaðar og rjúpnastyttan sem ég keypti um árið af Marsibil á Skólavörðustígnum og sem ég hef alltaf haldið að séu frá Funa. Á mínum rjúpum stendur GE 1948 ISLAND.   Það er líka farið með ljóð eftir Jón Helgason í þessu bloggi, stemminguna frá því hann var í Kaupmannahöfn að skoða handritin í bókasafninu þar.


mbl.is Tímaritið Time velur „borgara stafræna lýðveldisins“ mann ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föndur dagsins - Framsóknarlokkar

Föndur - framsóknarlokkarFyrsta föndur dagsins er þessir eksótísku eyrnalokkar. Ég náði mér í tvo barmmerki á nítíuára afmælinu í gær og svo keypti ég festingarnar í föndurbúð neðarlega á Skólavörðustíg. Það tók innan við mínútu að föndra þetta og kostnaðurinn við festingarnar var hverfandi.  

Ég er að skrifa manifesto fyrir bloggföndrið mitt en það á að vera í diy anda, nota hluti sem eru auðfáanlegir, kosta lítið eða gefnir og nota þá alls ekki á þann hátt sem til var ætlast heldur búa til eitthvað nýtt sem hefur einhverja nýja merkingu eða boðskap.

Núna næstu mánuði muni föndrarar hafa mikinn aðgang að alls konar pólitísku hráefni, barmmerkjum, blöðrum, pappírsdóti og þess háttar og það er upplagt að föndra eitthvað nýtt úr þessu, jafnvel setja saman merki frá mismunandi stjórnmálaöflum í hálsfestar eða eðar list sem maður ber á sér eða klippimyndir  eftir því hvernig stjórnarmynstur  föndrarinn vill sjá eftir kosningar.

 


Keyrði yfir umferðareyju

Hér er æsispennandi og glæný frétt frá visir.is. Svo virðist sem maður hafi keyrt yfir umferðareyju. Hann var sem betur fer í bílbelti.  Rannsóknarblaðamenn hafa komist að því að þetta gerðist allt vegna þess að maðurinn skóf ekki rúðurnar á bílnum áður en hann settist undir stýri.

Ég er sæl að búa í landi þar sem svona frásagnir eru fréttir.


Fagnað með Framsókn

Framsókn hélt upp á 90 ára afmælið í dag og ber aldurinn vel. Hér eru myndir sem ég tók.

Sæunn og Jón

Utanríkisráðherra á afmælishátíð

Framsóknarafmæli

Framsóknarafmæli


Aumastir allra - Ólafía og vændiskonurnar

Ég hlakka til að lesa bók Sigríðar Dúnu um Ólafíu Jóhannsdóttur. Ólafía er ein af kvenhetjum okkar og hún barðist fyrir þá smáðu og hráðu í samfélaginu.  Stundum finnst mér heimurinn ekkert hafa breyst frá dögum Ólafíu. Alla vega eru þeir sömu aumastir allra og það eru vændiskonur og fíklar og ennþá eru þeir valdalausustu konur og ennþá fæðast og alast mörg börn upp á heimilum þar sem foreldrarnir eru fíklar og alkar. Hin hroðalegu morð  á vændiskonum í Ipswich eru í fréttum sögð eins og spennandi sakamálasaga og hryllingssaga þar sem framvindan er rakin í fréttum af morðum en jafnvel þó að fótum troðið fólk og verksumerki eftir ofbeldi sem það sætir út af því í hvaða stöðu það er í lífinu séu flennifyrirsagnir í dagblöðum þá  snýst kastljósið ekki að neyð fíkla og þeirra sem selja aðgang að líkama sínum heldur að því hversu kænn ofbeldismaðurinn er og hversu vel  og hversu lengi hann kann að dyljast og hversu snörp lögreglan er í að elta hann uppi.

Það er líka gengið út frá því að morðinginn sé einn maður en þannig þarf það ekki að vera þó að ofbeldið sé framið á líkan hátt í öllum morðunum. Það ofbeldi sem vændiskonurnar sem voru myrtar sættu í lífi sínu var ekki ofbeldi frá einum manni heldur frá fjölmörgum mönnum yfir langan tíma í samfélagi sem snýr blindu auga að neyðarvændi sem er ein  hryllilegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis.  

Ég skrifaði á blogg fyrir tveimur árum þennan pistil um Ólafíu: 

Aumastir allra
er nafnið á einu riti Ólafíu Jóhannsdóttur sem í öðru riti lýsti upp leiðina frá myrkri til ljóss. Hvað hefði Ólafía gert í Reykjavík nútímans, hún sem fyrir meira en öld stóð á peysufötunum fyrir utan rónastaðinn Svínastíuna og talaði um fyrir rónunum. Hún sem bjó meðal vændiskvenna og djúpt sokkinna fíkla í Kristjaníu og er núna kölluð Ólafía - Nordens Mor Theresa "den ulykkeliges ven".
Væri Ólafía ekki á fullu núna að trampa á viðskiptahugmyndum Geira í Maxims og hefði hún ekki norpað fyrir utan Kjallara Keisarans og Skipper á sínum tíma og væri núna að reyna snúa honum Bjössa og kúnnunum hans í Kaffi Austurstræti til betri vegar? Væri hún væri ekki að fylgjast með dílerunum á Netinu og vísitera e-pilluhallirnar í úthverfunum?

Mér finnst mikið til Ólafíu koma. Ekki bara af því að hún líknaði bágstöddum. Frekar út af því að hún gerði eitthvað til að breyta ástandinu.


mbl.is Ein vændiskvennanna sem myrt var í Ipswich var barnshafandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grýla á Bolafjalli

bolafjallsgrylaEins og allir vita þá heldur Grýla til um þessar mundir á Bolafjalli. Þar fer vel um Grýlu og fjölskyldu hennar og þau hafa komið sér vel fyrir í gömlu ratsjárstöðinni. Nú á tímum þykir ekki gott að hírast í helli og vera á vergangi og Grýla vill ekki vera annars staðar en þar sem hún kemst í rafmagn og getur notað alls konar tól og tæki til óhæfuverka og hefur sendibúnað og netsamband.  Hún sendir núna út á burðarbylgju  en hún er að gera tilraunir með útvarpssendingar til að geta hrætt marga í einu á sama tíma.  Sendingar hennar hafa náðst víða um lönd m.a. í Noregi enda hyggur hún á útrás til annarra landa eins og kemur fram í þessari frétt í dag á RÚV:

Landhelgisgæslan fékk í nótt fyrirspurn frá jarðstöð í Bodö í Noregi um hvort eitthvað óvanalegt væri á seyði, eftir að ratsjárstöðin á Bolafjalli við Bolungarvík fór að senda út merki á svokallaðri burðarbylgju. Gervihnöttur nam merkin frá Bolafjalli og sendi upplýsingarnar til Bodö.

Að beiðni Landhelgisgæslunnar voru menn sendir upp á Bolafjall til að kanna, hvort ekki væri allt með felldu. Stöðin hafði þá sent sjálfkrafa út á tveimur tækjum, sem þeir slökktu á. Þá var ljóst, að ekki var um neyðarkall að ræða. Ratsjárstöðin á Bolafjalli er ekki lengur mönnuð og þangað er ekki mokað lengur. Því urðu starfsmenn stöðvarinnar að fara á vélsleða upp á fjallið til að kanna málið. 
 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband