Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Reykskynjarar, kerti og jólaskreytingar

Þetta var gleðileg frétt um fjölskylduna sem komst út úr húsinu vegna þess að reykskynjari fór í gang og aðvaraði þau.  Þarna voru þrjú ung börn. Því miður eru ekki allar fréttir af eldsvoðum um þetta leyti árs svona gleðilegar. Fólk uggir ekki að sér, sérstaklega varðandi kertaljós og hvað lítil börn sækja í að leika með eld og kveikja á kertum. Ég þekki marga sem hafa misst allt sitt út af eldsvoða. Einu sinni vann ég með konu sem sagði iðulega við mig "dóttir mín væri á þínum aldri ef hún hefði lifað", hún hafði misst börnin sín í eldsvoða á svipuðum aldri og börnin sem björguðust á Hvolsvelli í nótt. Maðurinn hennar var einn af börnunum sem voru á jólatrésskemmtuninni í Keflavík þegar kviknaði í jólatrénu og mörg börn dóu. Vinkona móður minnar missti allt sitt innbú í eldsvoða sem kviknaði út af litlu kertaljósi sem gleymdist. Vinur minn flutti inn í íbúð og á daginn sem þau fluttu og voru að fara að sofa þá vildi það þeim til happs að þau litu út um gluggann og sáu þá eldtungur tengja sig niður húsið. Íbúðin á hæðinni fyrir ofan skíðlogaði og maðurinn sem bjó þar dó. Talið var að það hafi kviknað þar í út frá eldavél sem gleymst hafi að slökkva á. Vinkona mín vaknaði við það  einn morgun að íbúðin sem hún bjó í skíðlogaði, það var risíbúð á fjörðu hæð og lengi vel vissi hún ekki betur en barnið hennar fimm ára væri inn í brennandi íbúðinni. Reykkafarar fundu ekki barnið en svo kom í ljós að hann fannst í hverfinu og hefur sennilega verið að leika sér með eldspýtur og hlaupið út.

Það er alla vega góð regla að hafa hvergi eldfæri eða kerti þar sem óvitar komast að, þau munu alltaf vilja gera tilraunir til að kveikja á kertum. En stundum er fullorðna fólkið líka óvitar og ég hef oft séð jólaskreytingar með logandi kertum sem eru líklegar til að fuðra upp hvenær sem er.  Ég geri alltaf athugasemd við það en fæ gjarnan það svar að fólk fylgist með því. En hvað ef sá timi kemur að maður fylgist ekki með? Hvað ef maður sofnar út frá kerti? 

Það er skynsamlegt að hafa kerti alltaf þannig að það muni ekkert gerast þó þau gleymist, þau brenni bara upp. Og hafa reykskynjara í svefnherbergjum. 

 


mbl.is Enginn vafi á að reykskynjarinn bjargaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendiherrann á Súfistanum

Í dag mun ég ekki fara niður í miðbæ. Ég mun ekki vera í Mál og menningu á Laugaveginum rétt fyrir lokun  á þorláksmessu að kaupa bækur í  jólagjafir eins og ég hef gert eins lengi og ég man.  Mér finnst það óþægilegt og það fyllir mig tómleika. Ég vil hafa hefðir, ég vil að jólin séu alltaf eins, ég vil hangikjöt á jóladag, ég vil samfélag þar sem gáfumenn þjóðarinnar ráða árlega í hinn mystiska texta "Upp á stól stendur mín kanna" og þar sem ný Grýla vaknar til lífsins í svartasta skammdeginu á hverju ári bara til að vera hrakin á brott eina ferðina enn af hetjum þessa lands og ég vil nýjar sögur og nýjar bækur á hverju ári sem lýsa upp heiminn í skammdegismyrkinu. Eg vil snjó og hvíta jörð, ég vil birtu. Ég veit að snjórinn lýsir ekki sjálfur, ég veit að það er sjónhverfing að allt sé bjartara þegar snjóar, ég veit að það er endurskin og ég veit  að birtan sem lýsir upp líf mitt núna er blekking.

Bókabúðir og bókasöfn eru orkustöðvar. Þar hanga hugsanir í loftinu og umlykja mann og þar eru stefnumót hugmynda og þar blandast menningarstraumar.

Nóttin er blá, mammaÉg fór í Mál og menningu og drakk kaffi á Súfistanum á laugardaginn var. Þegar ég kom inn þá sat þar fyrir dyrum undur maður að árita bók sína "Nóttin er blá Mamma". Þetta sló mig, kannski af því að mamman sem um ræðir er móðir mín, kannski út af því að þessi sena minnti mig á fallvaltleika lífsins. Minnti mig á að fyrir nokkrum árum hafði ég einmitt verið í útgáfuboði á þessum sama stað þar sem skálað var yfir nýútkominni bók, bókinni Halldór eftir bróðir minn. Þar voru samankomnir margir vinir hans, flestir samherjar hans í frjálshyggjuherferðinni og félagar úr menntaskóla og háskóla. Margir höfðu á orði að þeim myndu ekki hafa trúað því að þeir ættu eftir að fagna útgáfu bókverks eftir einn úr þeirra röðum í húsakynnum Mál og menningar og vísuðu þá til þess landslags bókmennta á Íslandi þegar pólitískar markalínur réðu hvaða sögur lýstu upp  heiminn í útgáfunum tveimur Almenna bókafélaginu og Mál og menningu.  Þessi áritunarsena og þetta ritverk Nóttin er blá mamma er háð um bróður minn og svíður undan því en á vissan hátt er þetta líka ljósmynd af bókaútgáfu á Íslandi árið 2006. Mér finnst þetta vera eins og sjóv þar sem bókaútgáfan er að gera grín að sjálfri sér og þeim örlögum sem munu mæta henni.  


Núðlur á Naustinu, engin skata

 Skata á Naustinu
Núna eru myndirnar mínar og frásögnin af skötuveislunni árlegu á Naustinu frá síðustu árþúsundamótum orðnar sögulegt efni. Ég tók þessar myndir fyrir jólavefinn minn árið 2000. Nu er Naustið lokað og þar mun koma kínverskt matsöluhús. Annars er gaman að velta fyrir sér hvernig menningarsaga íslands myndi líta út af hún væri sögð með því að lýsa samkomuhúsum á íslandi og veitingahúsasögu Íslands. Naustið var samkomustaður skálda og menningarvita sem sátu þar að sumbli. 

Hvernig ætli miðbær Reykjavíkur verði eftir 50 ár?  Verða einhver nöfn veitingahúsa á íslensku?  Verða flest veitingahúsin asísk?


Netið er dýrið

Í viðtali í DV í dag finnur Guðmundur í Byrginu óvininn. Hann er sjálft Internetið. Haft er eftir Guðmundi í viðtalinu: "Netið er það sem Guð kallar Dýrið í  Biblíunni. Með því er hægt að vekja upp svo mikla sundrungu eins og nú er verið að gera við fjölskyldu mína og Byrgið." 

Bubbi sem syngur á morgun og vonandi hlífir fjölskyldu minni þá við háðsglósum og dylgjum lýsir líka frati á netheiminn fussar og sveiar líka út af hinu slæma Interneti þar sem upp veður illa skrifandi og sjálfumglatt hyski. 

Tilvitkun í orri.org 22.des.: 

"Las Moggann áðan og sá þar stutt viðtal við minn gamla félaga, Bubba Morthens. Hann var spurður um bloggheiminn og hvort hann læsi þar eitthvað. Svarið var afskaplega dannað eins og við mátti búast:

Ég bara læt það algerlega fara framhjá mér. Mér leiðist bloggið. Þetta er yfirleitt illa skrifandi, sjálfumglatt hyski sem er að skrifa."

  


Heggur sá er hlífa skyldi

Það verður að  taka mjög alvarlega ásakanir á hendur trúarleiðtoga Byrgisins. Þetta eru ekki lengur skot úr launsátri og nafnlausar ásakanir. Ung kona kom fram undir nafni í Íslandi í dag og frásögn hennar af viðkynningu við trúarleiðtoga og forstöðumann Byrgisins er samhljóða því sem haldið var fram af öðrum konum í Kompásþættinum. Ef það er satt sem  haldið hefur verið fram í Kompás og sem frásögn konunnar studdi  þá er það reiðarslag fyrir ekki bara Byrgið heldur fyrir alla aðila sem reka meðferðarheimili byggð á trúarlegum grunni.

 


mbl.is Segist hafa átt í sambandi við Guðmund Jónsson í Byrginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljós fangavarðanna

Í Kastljósinu í kvöld var fjallað um fangelsið á Litla Hrauni. Ég kom seinast að fangelsinu  fyrir einu og hálfu ári  á jónsmessunótt en þá er hátíð á Eyrarbakka. Kona sem ég hitti þá sagði mér frá því að hún hefði oft  heimsótt son sinn í fangelsið, hann sat þar vegna fíkniefnadóms eins og raunar stór hluti af þeim sem eru í fangelsum á Íslandi. Sonur hennar er látinn. Hann dó kornungur og hann dó af völdum læknadópsins  Kontalgin

Kastljósið í kvöld var kastljós fangavarðanna. Umfjöllunin var mest um aðstöðu þeirra og umkvartanir.  Það var líka viðtal við fangann Þór Sigurðsson. Ég held að afbrot hans sé tengt fíkniefnaneyslu, hann braust inn í fyrrum vinnustað sinn í vímu til að fjármagna fíkniefnaneyslu og hann framdi voðaverk.

 

 


Vetrarsólhvörf og Afturelding

Ég fagnaði vetrarsólhvörfum í dag, ég er veik heima og má ekki sitja við tölvu. Sé reyndar heldur ekki mikið á tölvuskjáinn svo það er ekki erfitt að óhlýðnast því.  Ef til vill get ég lesið eitthvað. Það er samt ólíklegt, ég sé allt í móðu. Heimurinn sem ég lifi í er heimur sjónrænnar skynjunar og bók sem þó er upprunalega saga úr hljóðum endurrituð með táknum krefst þess að sjónin sé sé góð.  En ef ég gæti lesið, hvað ætti ég að lesa?  Ég fór að hugsa um bókina "Hvað er bak við myrkur lokaðra augna? sjálfsævisögu Yogaranda. Það væri viðeigandi lestur á svona degi. Nema bara það gengur ekki vegna þess að ég á ekki þessa bók og svo get ég sennilega ekki lesið.

Ég ætti kannski að ráðast á pakkann af sakamálasögunum sem ég keypti í Mál og menningu fyrir mörgum mánuðum á einhverju tveir fyrir einn tilboði. Þær eru ennþá í plastinu. Ég keypti bókina Paradís eftir Lisu Marklund og ég keypti bókina Afturelding eftir Viktor Arnar Ingólfsson sem reit Flateygjargátuna. Aftureldingu keypti ég  bara út af nafninu og höfundinum, mér finnst ekkert spennandi gæsaveiðimenn og raðmorðingi. 

Afturelding minnir mig út af nafninu á Aftureldingu Halldórs Laxness og Eldingu Torfhildar Hólms en ég skrifaði  um það í bloggfærslunni Albúm, Elding og Merkilegir draumar árið 2002.

Ég skrifaði bloggið Vetrarsólhvörf - stefnuljós - slepptu mér aldrei á vetrarsólhvörfum í fyrra. Það er sniðugt regla að skrifa svona íhugunarblogg á sama tíma á hverju ári. Annálar fyrri tíma voru oft veðurlýsingar og ég ætla líka að skrá hvernig veðrið er núna. Það er eilífur stormbeljandi, snjór og rok og flóð í ám og hamfaraveður sums staðar um landið. Í nótt feyktist upp glugginn hjá mér í einni stormhvinunni og í gærkvöldi, eða var það í nótt... ég veit varla skil dags og nætur núna í svartasta skammdeginu... þá skall ofsalegt haglél  hérna á stofugluggann hjá mér snögglega eins og árás þar sem skotfærin eru frosið vatn.  

Ef ég ætti bókina You are the Weather eftir Roni Horn þá myndi ég blaða í henni núna. En ég reyndi við Aftureldingu.

Sjálfsævisaga
Yogananda

Klikkað Kastljós

Annað hvort er ég skrýtin eða það er eitthvað verulega undarlegt við Kastljós-Kompás stríðið.  Núna treysti ég hvorki íslenskum læknum eða lögreglumönnum. Ég skil ekki hvernig læknir getur komið í sjónvarp og vitnað um lyfjasögu sjúklinga sinna og sérdeilis ekki læknir sem hefur harma að hefna gagnvart Kompási. Þessi læknir var alls ekki trúverðugur í þessum þætti og ég trúi ekki að þetta sé í samræmi við siðareglur lækna. Það kom alveg fram í þessum þætti um hvaða sjúklinga var um að ræða og það hafa margir fylgst með umfjöllun Kompás og fundið til með baráttu þessa fólks við fíkn sína. 

Svo kom seinna einhvers konar vitnaleiðsla yfir mann sem mér skildist að væri í lögreglunni og hann virtist alveg upptendrast í einhverjum nornaveiðum móður sem hafði þóst vera unglingur og vélað karl með strípihneigð til að bera sig, búið til powerpointsjov og sent út um allan bæ. Fulltrúi lögreglu tók alveg undir það að það gæti nú verið að löggan þyrfti að koma sér upp tálbeitum og gera eins og mamman. Þetta  var viðbjóður.  Trú mín á bæði læknum og lögreglu hefur minnkað stórum eftir þennan þátt. Ég hélt í einfeldni minni að aðalatriði hjá  læknum í svona málum væri að vernda sjúklinga sína en ekki nota þá sem skotspæni í sínu stríði við fjölmiðlamenn og ég hélt að lögregla gætti að því að grunaður er ekki sama og sekur og talandi um þetta powerpoint show þá má spyrja hver glæpurinn sé. Ef maðurinn beraði sig við fullorðna konu sem þóttist vera barn þá hefur hann klárlega ekki framið neitt sem flokkast undir perraskap við börn þrátt fyrir að allt bendi til að hann hafi haft fullan hug á því en það er bara  þannig  að fólk er ekki dæmt fyrir hugrenningasyndir, saknæmt athæfi þarf að hafa átt sér stað. Það er hins vegar klárlega saknæmt að senda þessar myndir um Netið.

Forstöðumaður Byrgisins kom vel fyrir og skýrði mál sitt á sannfærandi hátt. Orð stendur þar andspænis orði og myndir og tölvupóstar líka.  Það má minna á telja á fólk saklaust þar til sekt hefur verið sönnuð fyrir dómsstólum,

Er það ég sem er eitthvað skrýtin eða er þessi umfjöllun lögreglu og læknis í Kastljósi verulega klikkuð?


Siðferði á Netinu - Að skjóta fólk

Ég var í morgun á skemmtilegum hugflæðisfundi um siðferði á Netinu.  Akkúrat núna þá finnst mér mikilvægast í því samhengi vera hversu óvarðir margir netverjar - ekki síst börn og unglingar - eru fyrir alls konar aðilum sem nálgast þau af annarlegum hvötum. Þá á ég ekki eingöngu við einhverja netperra, ég á alveg eins við aðila sem eru að selja einhverja vöru eða þjónustu eða ánetja unglinga einhverri neyslu og gera það á lævísan og siðspilltan hátt eins og áfengisauglýsingarnar á pose.is og 69.is og einnig aðila sem selja kynlífsþjónustu eða beinlínis gera út á svik og pretti m.a. með því að búa til falska prófíla á myspace og þykjast vera manneskjur sem vilja vingast við einhverja en eru bara að reyna að selja sína vöru. Reyndar virkar þetta í báðar áttir, hljómlistarmenn á Myspace eru að reyna að kynna sig og selja tónlistina sína og  búa til aðdáendahópa og það er allt í lagi svo fremi sem tilgangur þeirra sé augljós og markaðssetningin heiðarleg.  

Það voru nokkrir bloggarar á fundinum og einn þeirra notaði góða líkingu um hvernig nú hinn almenni borgari hefur aðgang að sínum eigin fjölmiðli, sínu eigin bloggi og það fylgdi þessu vald , við höfum öll heyrt talað um fjölmiðla sem fjórða valdið og það mætti líkja þessu valdi við byssu og það væri ekki víst að sá sem hefði byssuna kynni að nota hana, það væri ekki víst að viðkomandi vissi og skildi að það er ljótt að skjóta fólk.

Það var líka umræða um það villta vesturs siðferði sem þessa daganna ríkir í netheimum á Íslandi. Svona siðferði þar sem almenningur veltir þeim  upp úr tjöru og fiðri sem hann dæmir þrjóta og hengir þá upp í gálga.  Ég sá á bloggi í morgun umfjöllun og vísun í powerpoint show sem ég veit að hefur gengið á Netinu. Þar eru nokkrar myndir af fullorðnum manni í ýmsum stellingum, andlitið er auðþekkjanlegt og með fylgir umræða sem sögð er hafa átt sér stað milli  unglingsstúlku og viðkomandi manns og sagt er að sendandi sé móðir hennar.  Þessi sena er sláandi lík þeirri gsm símasenu sem birt var í síðasta Kompás þætti.  Ég er ekki fylgjandi neinni linkind við þá sem fremja auvirðilegan verknað og mér finnst að brot þeirra sem fremja alvarlega glæpi ættu að vera vel auglýst og allt í lagi að birta nöfn og myndir af dæmdum sakamönnum ef telja má að það hindri einhverja glæpi í framtíðinni. Í þessu tilviki var ekki um það að ræða að  og ekki einu sinni víst að athæfi mannsins teljist saknæmt skv. íslenskum lögum.  Sá sem dreifir  þessu powerpoint showi eða birtir það á Netinu er eins og barn sem hefur fengið hríðskotabyssu og veit ekki og skilur ekki að það má ekki skjóta fólk.


Óskar og ofsóttir Framsóknarmenn

Flott hjá Óskari að biðja um að verktakasamningi hans við Faxaflóahafnir sé rift. Óskar tekur með þessu af allan vafa um að hann vill vera heiðarlegur stjórnmálamaður og vinna þar sem friður og sátt ríkir.  Ég hef engan sérstakan áhuga á að tjá mig um Kastljósviðtalið Björn Ingi versus Dagur en ég ætla samt að gera það til að vekja athygli á moggabloggspammara sem hefur ofsótt mig undanfarið með eftirfarandi athugasemd sem hefur verið skrifuð amk þrisvar sinnum í athugasemdir hjá mér á þessu bloggi. 

Svona er spammið: 

Mér finnst einkennileg þögn þín, Salvör, um atburði undanfarinna daga. Þeir aðilar sem þú hefur kappkostað að mæra í gegnum tíðina reynast vera spillingargæjar af verstu tegund. Síðan þegar reynt er að fá þá til að gangast við barninu byrjar ballið. Það er ekki gengist við einu né neinu og allt öðrum að kenna.

Það kemur líka fram í grein hjá Guðm Steingríms að téður Óskar Bergsson hefur orðið uppvís áður að þvílíkri spillingu. Nú sitja þessir menn við kjötkatlana og ausa úr þeim yfir vini og samflokksmenn. Fjármuni almennings.

Vertu nú sjálfri þér samkvæmt og láttu okkur vita hvað þér finnst!!!!

Óskráður (Alla)

Svar mitt til þessa óskráða moggabloggspammara Alla er þetta:

Í fyrsta lagi þá skrifa ég um það sem ég vil á þessu bloggi og vel sjálf umræðuefni og kappkosta að vera engum háð og mér bara finnst þetta efni ekki nógu áhugavert. Mér finnst hins vegar áhugavert að taka fyrir hvernig spammarar eins og þú og ýmis konar ómálefnaleg níðskrif í bloggum og athugasemdum við blogg ná að eyðileggja umræðuvettvanga á Netinu og það er ástæðan fyrir að ég svara þessu nú.

Í öðru lagi þá er ég enginn sérstakur skipaður verjandi borgarmálaarms Framsóknarflokksins og ég beini til þín að snúa þér beint til oddvita flokksins Björns Inga með athugasemdir.  Það að snúa sér til mín sem ekki einu sinni var á listanum né gegni neinum nefndarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík er alveg eins og þú bæðir mig að verja bramboltið með Hummerjeppann í kosningabaráttunni.

Í þriðja lagi þá hef ég einbeitt mér að málum sem mér þykja mun alvarlegri  en þetta  innan Framsóknarfélagsins í Reykjavík Norður undanfarið ár enda gekk ég í Framsóknarflokkinn til að vinna þar að siðbót og kvenréttindum og ég reyni að hafa það alltaf að leiðarljósi. Ég hef líka reynt að vinna að breytingum innan frá undanfarin ár og eitthvað þokast áfram þó ég sé nú ekkert sérstaklega ánægð með árangurinn. En ef maður ætlar að breyta stjórnmálaflokkum þá má maður ekki gefast upp þó hlutirnir gangi hægt. 

Í fjórða lagi þá er það svo að þú verður ekki sjálfkrafa gerspilltur við að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn og það sem Framsóknarflokkurinn aðhefst er ekki sjálfkrafa dæmi um spillingu bara út af því að það er runnið frá Framsóknarflokknum. Það að koma sínum sjónarmiðum og sinni stefnu að í Reykjavík  m.a. með því að láta gera úttektir á og vinna að framgangi á hönnun/handverki og kvikmyndaiðnaði og fá til þess fólk sem hefur starfað ötullega í flokknum er ekki dæmi um spillingu. Það er vel skiljanleg gremja annarra yfir því hversu mikil völd Framsóknarflokkurinn hefur um þessar mundir bæði í ríkisstjórn og borgarstjórn en það er ekki dæmi um spillingu að stjórnmálaafl noti þau völd sem það hefur til að ná fram stefnuskrá sinni. Þvert á móti þá ætlast kjósendur til að það sé gert.

Það er heldur ekki partur af spillingu að Framsóknarflokkurinn hafi þessi völd nema fólk telji það lýðræðisskipulag og kjördæmaskipulag sem leiddi til þessarar niðurstöðu í kosningum spillingu. Það eina sem mér fannst orka tvímælis af því sem fram kom í fréttum var verktakasamningur Óskars sem hann hefur nú óskað sjálfur að rifta. Hann sýnir með því að hann vill verja heiður sinn sem stjórnmálamanns og tekur mark á gagnrýni. Það er ekki skynsamlegt að búa til þær aðstæður að einhver sitji hugsanlega beggja vegna borðs. Annars skoðaði ég þetta blogg sem þú nefnir hjá Guðmundi þessum  Steingríms og athugasemdir þar. Það er bara sorglegt og svona málflutningur dæmir sig sjálfur. Þetta eru níðskrif af versta tagi og vegið ruddalega og með dylgjum bæði að Birni Inga og Óskari. Það er sorglegt dæmi um íslensk stjórnmál ef það er svona málflutningur sem menn vilja hafa í stjórnmálum

Hér er dæmi úr bloggi Guðmundar undir titlinum Brúnn Ingi sem ég hugsa að sé einhvers konar uppnefni á Birni Inga. Titilinn slær strax tóninn um hvers eðlis inntakið er. En hér er dæmi um orðræðuna:

"Aldrei hefur jafnaugljóslega verið reynt að maka krókinn. ...Siðleysið er yfirgengilegt ....Ég hef reyndar traustar heimildir fyrir því að sá listi sem þar birtist sé ekki tæmandi.... tti Björn skítadreifarann á fullt og dreifði í allar áttir og varð vitaskuld, eins og svo oft vill verða með þá aðferð, skítugastur sjálfur. Þarna birtist okkur smám saman réttnefndur Brúnn Ingi. Drullugur upp fyrir haus....nú lítur Björn Ingi greinlega svo á að hann sé kominn að kjötkötlunum og geti iðkað þessar aðferðir, að raða sínu fólki í stjórnsýslun...Björn Ingi Hrafnsson puðaðist inn í borgarstjórn á fullkomnum lágmarksfjölda atkvæða. Hann er sex prósent maðurinn í íslenskri pólitík. Er hann virkilega svo veruleikafirrtur og virðingarlaus gagnvart lýðræðinu...Ein skítapillan lenti á...Í lokin kom svo skítapilla ársins frá drullugum Brúni Inga upp fyrir haus...þennan skammarlega málflutning nafna síns um að sú stofnun sem hún veitti forstöðu hafi staðið í mútumálum....En þannig eru örlög skítadreifara í pólitík. Það er aldrei hægt að segja hvar skíturinn lendir."

Hér eru dæmi úr athugasemdunum:

"þetta lýsir framsóknarmönnum algerlega skítlegir upp til hópa. framsóknarflokkurinn er krabbamein í íslenskri pólitík og því þarf að útrýma......... ... Það er ótrúlegt hverju örfylgi getur skilað. Þar sem tveir Framsóknarmenn hittast þar er spegill.... skítlegt fés Björns Inga fékk mig til að skipta um rás....er það nú varla málið að taka af lífi eða meiða líkamlega framsóknarmenn. Hinsvegar mætti draga þá niður á Lækjartorg á meðan skíturinn á þeim er enn blautur, og velta þeim upp úr fiðri...Mannfýlan (BIH) er náttúrlega bara gerspilltur og siðlaus, valdasjúkur kjáni sem skeit svo langt upp á bak í yfirgenglegum málfllutningi sínum....já hversu mikið krabbamein Framsókn er í íslenskri pólitík! ...ar dónalegur frekjuhundur sem romsaði út úr sér eins mikilli vitleysu og hægt var.....Haha... 80 framsóknarmenn? Þeir hljóta að hafa fengið nokkra óháða lánaða...trúi ekki að til séu 80 Reykvíkingar sem skrifa undir þetta bull....Bingi er greinilega siðspilltasti stjórnmálamaðurinn sem við eigum í dag. Hann er samferðamaður  hinna ógeðfelldu stjórnmálamanna sem málefnin skipta engu...Þetta eru feitir kjötkatlar fyrir spillta stjórnmálamenn, Framsóknarmennina Björn Inga og Óskar Bergsson."

Ég spyr aftur. Er þetta málefnaleg umræða?
Er það svona sem menn vilja hafa umræðu um íslensk stjórnmál?
Er allt í lagi að kalla fylgjendur eins stjórnmálaflokks krabbamein og nota mjög niðrandi orðfæri um þá  og lítt dulbúnar hótanir um hvað væri réttast að gera við þá. Menn ættu næst þegar slík orðræða er notuð um Framsóknarmenn að prófa að setja önnur frjáls félagasamtök í staðinn og reyna þannig að skilja hve afkáraleg og afskæmandi svona orðræða er fyrir þann sem mælir fram svona níð.

Að lokum vil ég taka fram að ég fagna því að stjórnarandstaðan í borginni sé á vaktinni yfir það sem betur má fara í stjórnsýslunni. Ég harma að það var ekki vilji til að halda áfram því góða starfi sem R-listinn stóð að og sem Framsóknarflokkurinn stóð heilshugar á bak við. Því miður vildu Vinstri Grænir ekki halda því samstarfi áfram og töldu aðra kosti betri fyrir sinn málstað. Því varð til sú staða sem nú er í borgarstjórn. Svo vil ég líka taka fram að mér finnst ekki hægt að tengja Dag og einhverja kennslu hans í HR við lóðaúthlutun háskólans í Vatnsmýrinni, það var hart barist um staðsetningu HR og Reykjavík bauð fram svo góðan kost að HR gat ekki hafnað því.  Það vita þeir sem fylgdust með því máli.

Hins vegar fannst mér ágætis athugasemd hjá Birni Inga að benda á að Helgi Seljan hafi verið ráðinn í Kastljósið án auglýsingar. Það er ágætt að beina kastljósinu að Kastljósinu og öðrum þáttum sem útvarp allra landsmanna kostað af almennafé varpar út. Það er mjög einkennilegt hvernig fólk er ráðið á þá miðla og hverjir fá tækifæri inn í fréttamennsku og þáttagerð.  Þar má nefna kynjasjónarmið en það má líka nefna hversu ofurbláir margir fréttamenn eru og hafa verið síðan elstu menn muna.

Guðmundur Steingríms segir um Helga Seljan í Kastljósinu "Helgi Seljan var vissulega ráðinn auglýsingalaust. En um það snýst ekki debattið.... Einnig liggur munurinn vitaskuld í því Helgi var ráðinn vegna hæfileika sinna, mats á þeim, og ekki vegna neins annars."

Hvaða sérstaka hæfileika hefur Helgi Seljan og hver mat þá?
mbl.is Óskar biður um að samningi hans við Faxaflóahafnir verði rift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband