Færsluflokkur: Menning og listir
29.12.2006 | 15:39
10 þúsund týndar skopmyndir eftir Sigmund - Veit einhver um þær?
Þann 15. desember 2004 keypti íslenska ríkið 10 þúsund teikningar eftir Sigmund og hugðist gera þær aðgengilegar á Netinu. Ég finn þær hvergi. Eða er það einhver misskilningur hjá mér? Ég er alveg sammála Guðmundi Magnússyni að það vantar uppsláttarrit um íslenska skopmyndateiknara en ég held ekki að það sé best að gera bók um þá. Ég held að Wikipedia og reyndar ýmis önnur wikikerfi sé besta verkfærið fyrir svoleiðis ritverk í dag og ég er reyndar byrjuð að skrifa greinar um fjóra íslenska skopmyndateiknara á Wikipedia. Hérna eru þessar greinar:
Svo bjó ég til flokkinn Íslenskir skopmyndateiknarar
Vonandi taka aðrir undir þetta framtak og bæta við greinarnar eða búa til nýjar greinar um skopmyndateiknara sem vantar. Hér eru leiðbeiningar frá mér um hvernig á að setja inn greinar um persónur á Wikipedia.
Ég vona að þess verði gætt að skopmyndirnar eftir Sigmund verði með einhverju höfundarleyfi CC þannig að það megi nota þær t.d. í Wikipedíu.
Hér er greinin hjá Guðmundi Magnússyni:
Við þurfum bók um sögu skopteikninga
Þess má geta að það sem sett er inn í Wikipedia er eitthvað sem allir mega nota og ekki þarf að spyrja neinn um leyfi. Ég skrifaði greinina um Sigmund eftir að hafa flett upp í gagnasafni Morgunblaðsins og fleiri ritum en svo sé ég að Vestmannaeyjavefurinn heimaslóð.is hefur tekið efni úr greininni minni á Wikipedíu inn á sinn vef. Þetta er skemmtilegt dæmi um notkunargildi Wikipedia, mér finnst gaman að það sem ég hef sett inn á Wikipedia um Vestmanneyinginn Sigmund sé tekið upp á upplýsingavef um Vestmannaeyjar.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2006 | 07:38
Úðuð list
Veggskreytingar og götulist er oft unnin með svona tækni þar sem lit er úðað yfir fleti úr úðabrúsum og notuð eru ýmis konar skapalón og tækni til að beina úðanum í ákveðnar áttir og svo er oft rispað eða þurrkað af síðasta litalag til að fá sérstaka áferð. Það væri gaman að prófa svona.
Hérna eru nokkur videóklipp frá Google video um svona úðun.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 07:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2006 | 16:26
Vetrarsólhvörf og Afturelding
Ég fagnaði vetrarsólhvörfum í dag, ég er veik heima og má ekki sitja við tölvu. Sé reyndar heldur ekki mikið á tölvuskjáinn svo það er ekki erfitt að óhlýðnast því. Ef til vill get ég lesið eitthvað. Það er samt ólíklegt, ég sé allt í móðu. Heimurinn sem ég lifi í er heimur sjónrænnar skynjunar og bók sem þó er upprunalega saga úr hljóðum endurrituð með táknum krefst þess að sjónin sé sé góð. En ef ég gæti lesið, hvað ætti ég að lesa? Ég fór að hugsa um bókina "Hvað er bak við myrkur lokaðra augna? sjálfsævisögu Yogaranda. Það væri viðeigandi lestur á svona degi. Nema bara það gengur ekki vegna þess að ég á ekki þessa bók og svo get ég sennilega ekki lesið.
Ég ætti kannski að ráðast á pakkann af sakamálasögunum sem ég keypti í Mál og menningu fyrir mörgum mánuðum á einhverju tveir fyrir einn tilboði. Þær eru ennþá í plastinu. Ég keypti bókina Paradís eftir Lisu Marklund og ég keypti bókina Afturelding eftir Viktor Arnar Ingólfsson sem reit Flateygjargátuna. Aftureldingu keypti ég bara út af nafninu og höfundinum, mér finnst ekkert spennandi gæsaveiðimenn og raðmorðingi.
Afturelding minnir mig út af nafninu á Aftureldingu Halldórs Laxness og Eldingu Torfhildar Hólms en ég skrifaði um það í bloggfærslunni Albúm, Elding og Merkilegir draumar árið 2002.
Ég skrifaði bloggið Vetrarsólhvörf - stefnuljós - slepptu mér aldrei á vetrarsólhvörfum í fyrra. Það er sniðugt regla að skrifa svona íhugunarblogg á sama tíma á hverju ári. Annálar fyrri tíma voru oft veðurlýsingar og ég ætla líka að skrá hvernig veðrið er núna. Það er eilífur stormbeljandi, snjór og rok og flóð í ám og hamfaraveður sums staðar um landið. Í nótt feyktist upp glugginn hjá mér í einni stormhvinunni og í gærkvöldi, eða var það í nótt... ég veit varla skil dags og nætur núna í svartasta skammdeginu... þá skall ofsalegt haglél hérna á stofugluggann hjá mér snögglega eins og árás þar sem skotfærin eru frosið vatn.
Ef ég ætti bókina You are the Weather eftir Roni Horn þá myndi ég blaða í henni núna. En ég reyndi við Aftureldingu.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2006 | 13:57
Föndur dagsins - Framsóknarlokkar
Fyrsta föndur dagsins er þessir eksótísku eyrnalokkar. Ég náði mér í tvo barmmerki á nítíuára afmælinu í gær og svo keypti ég festingarnar í föndurbúð neðarlega á Skólavörðustíg. Það tók innan við mínútu að föndra þetta og kostnaðurinn við festingarnar var hverfandi.
Ég er að skrifa manifesto fyrir bloggföndrið mitt en það á að vera í diy anda, nota hluti sem eru auðfáanlegir, kosta lítið eða gefnir og nota þá alls ekki á þann hátt sem til var ætlast heldur búa til eitthvað nýtt sem hefur einhverja nýja merkingu eða boðskap.
Núna næstu mánuði muni föndrarar hafa mikinn aðgang að alls konar pólitísku hráefni, barmmerkjum, blöðrum, pappírsdóti og þess háttar og það er upplagt að föndra eitthvað nýtt úr þessu, jafnvel setja saman merki frá mismunandi stjórnmálaöflum í hálsfestar eða eðar list sem maður ber á sér eða klippimyndir eftir því hvernig stjórnarmynstur föndrarinn vill sjá eftir kosningar.
Menning og listir | Breytt 27.10.2007 kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.12.2006 | 13:58
Aumastir allra - Ólafía og vændiskonurnar
Ég hlakka til að lesa bók Sigríðar Dúnu um Ólafíu Jóhannsdóttur. Ólafía er ein af kvenhetjum okkar og hún barðist fyrir þá smáðu og hráðu í samfélaginu. Stundum finnst mér heimurinn ekkert hafa breyst frá dögum Ólafíu. Alla vega eru þeir sömu aumastir allra og það eru vændiskonur og fíklar og ennþá eru þeir valdalausustu konur og ennþá fæðast og alast mörg börn upp á heimilum þar sem foreldrarnir eru fíklar og alkar. Hin hroðalegu morð á vændiskonum í Ipswich eru í fréttum sögð eins og spennandi sakamálasaga og hryllingssaga þar sem framvindan er rakin í fréttum af morðum en jafnvel þó að fótum troðið fólk og verksumerki eftir ofbeldi sem það sætir út af því í hvaða stöðu það er í lífinu séu flennifyrirsagnir í dagblöðum þá snýst kastljósið ekki að neyð fíkla og þeirra sem selja aðgang að líkama sínum heldur að því hversu kænn ofbeldismaðurinn er og hversu vel og hversu lengi hann kann að dyljast og hversu snörp lögreglan er í að elta hann uppi.
Það er líka gengið út frá því að morðinginn sé einn maður en þannig þarf það ekki að vera þó að ofbeldið sé framið á líkan hátt í öllum morðunum. Það ofbeldi sem vændiskonurnar sem voru myrtar sættu í lífi sínu var ekki ofbeldi frá einum manni heldur frá fjölmörgum mönnum yfir langan tíma í samfélagi sem snýr blindu auga að neyðarvændi sem er ein hryllilegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis.
Ég skrifaði á blogg fyrir tveimur árum þennan pistil um Ólafíu:
Aumastir allra
er nafnið á einu riti Ólafíu Jóhannsdóttur sem í öðru riti lýsti upp leiðina frá myrkri til ljóss. Hvað hefði Ólafía gert í Reykjavík nútímans, hún sem fyrir meira en öld stóð á peysufötunum fyrir utan rónastaðinn Svínastíuna og talaði um fyrir rónunum. Hún sem bjó meðal vændiskvenna og djúpt sokkinna fíkla í Kristjaníu og er núna kölluð Ólafía - Nordens Mor Theresa "den ulykkeliges ven".
Væri Ólafía ekki á fullu núna að trampa á viðskiptahugmyndum Geira í Maxims og hefði hún ekki norpað fyrir utan Kjallara Keisarans og Skipper á sínum tíma og væri núna að reyna snúa honum Bjössa og kúnnunum hans í Kaffi Austurstræti til betri vegar? Væri hún væri ekki að fylgjast með dílerunum á Netinu og vísitera e-pilluhallirnar í úthverfunum?
Mér finnst mikið til Ólafíu koma. Ekki bara af því að hún líknaði bágstöddum. Frekar út af því að hún gerði eitthvað til að breyta ástandinu.
Ein vændiskvennanna sem myrt var í Ipswich var barnshafandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.12.2006 | 18:59
Grýla á Bolafjalli
Eins og allir vita þá heldur Grýla til um þessar mundir á Bolafjalli. Þar fer vel um Grýlu og fjölskyldu hennar og þau hafa komið sér vel fyrir í gömlu ratsjárstöðinni. Nú á tímum þykir ekki gott að hírast í helli og vera á vergangi og Grýla vill ekki vera annars staðar en þar sem hún kemst í rafmagn og getur notað alls konar tól og tæki til óhæfuverka og hefur sendibúnað og netsamband. Hún sendir núna út á burðarbylgju en hún er að gera tilraunir með útvarpssendingar til að geta hrætt marga í einu á sama tíma. Sendingar hennar hafa náðst víða um lönd m.a. í Noregi enda hyggur hún á útrás til annarra landa eins og kemur fram í þessari frétt í dag á RÚV:
Landhelgisgæslan fékk í nótt fyrirspurn frá jarðstöð í Bodö í Noregi um hvort eitthvað óvanalegt væri á seyði, eftir að ratsjárstöðin á Bolafjalli við Bolungarvík fór að senda út merki á svokallaðri burðarbylgju. Gervihnöttur nam merkin frá Bolafjalli og sendi upplýsingarnar til Bodö.
Að beiðni Landhelgisgæslunnar voru menn sendir upp á Bolafjall til að kanna, hvort ekki væri allt með felldu. Stöðin hafði þá sent sjálfkrafa út á tveimur tækjum, sem þeir slökktu á. Þá var ljóst, að ekki var um neyðarkall að ræða. Ratsjárstöðin á Bolafjalli er ekki lengur mönnuð og þangað er ekki mokað lengur. Því urðu starfsmenn stöðvarinnar að fara á vélsleða upp á fjallið til að kanna málið.
11.12.2006 | 18:56
Jólaskraut truflar netsamband í þráðlausum heimi
Fyndin frétt um jólaskrautið sem veldur truflunum á fjarskiptum. Sannir jólaskrautaðdáendur ættu að skoða Holiday Ornament Swap síðuna á Flickr en það er nokkurs konar keðjuföndur sem gengur út á það að hver föndrari eða listamaður/handverksmaður býr til nokkur stykki af sínu jólaskrauti og sendir til annarra og fær svo jólaskrautsföndur sent frá jafnmörgum, þetta er góð hugmynd og sýnir okkur hvernig upp geta sprottið í netheimum ný tegund af vöruskiptum handverksmanna án þess að það sé neitt verið að meta hlutina til peninga.
Það að gefa gjafir er rituall sem tengir fólk saman. Það er sniðugt að tengja saman hópa þvert á lönd, hópa sem tengjast þannig að þeir hafa áhuga á handverki og svona diy lífstíl. Ég vildi gjarna taka þátt í að skiptast á svona litlum gjöfum og gera eitthvað sem tengist íslenskum jólum til að senda til annarra og fá svo eitthvað í staðinn sem tengist jólahátíðum og jólahefðum einhvers staðar á fjarlægum slóðum og sem ég vissi að einhver annar hefði búið til í höndunum og lagt sálina í verkið.
Jólaskrautið truflar netsambandið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 12.12.2006 kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2006 | 13:56
Frú Blair í bláum kjól, nakin
Listmálarinn Euan Uglow málaði nektarmynd þar sem Cherie sem síðar varð forsetafrú Breta er fyrirsætan. Þetta var á námsárum hennar.
Hér er ein af myndum Uglow, hann hefur málað margar nektarmyndir af konum en ekki get ég séð að nein þeirra vekti hneykslun, þvert á móti eru þetta falleg listaverk og samspil lita og forma sérstakt.
En þegar ég hugsa um það þá er kannski ekki svo mikill munur á listamanni sem upphefur kvenlíkamann og málar hann sem hluta af myndverki og auglýsanda sem notar kvenlíkamann til að stilla upp vörum sínum. Uglow málar kvenlíkama og hluta hans á sama hátt og hann málar ávexti. Ég hef ekki séð neinar myndir þar sem hann málar karlmenn á þennan hátt, svona eins og þroskaða ávexti, tilbúna til átu. Hér ein ein ávaxtamynd eftir Uglow:
Frú Blair sat nakin fyrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2006 | 09:23
Ég þekki Grýlu, ég hef hana séð..
Ég þekki Grýlu og ég hef hana séð en ég held hún birtist ekki alltaf eins og Grýlan í kvæði Stefáns í Vallanesi sem Ingólfur Sveinsson og Jón Guðmundsson syngja hér og krakkar úr Norðlingaskóla myndskreyta. Hér er textinn með þessu gamla kvæði.
Ég teiknaði þessa Grýlumynd í Inkscape og setti inn á Wikimedia Commons. Fyrirmyndin var Grýlumynd Halldórs Péturssonar en ekki hin þríhöfða Grýla sem lýst er í kvæði Stefáns frá Vallanesi.
Meira um Grýlu og jólasveina má lesa í vefriti mínu frá 1996.
Úr Grýlukvæði Stefáns í Vallanesi:
Eg þekki Grýlu
og eg hef hana séð,
:,:hún er sig svo ófríð
og illileg:,:með.
Hún er sig svo ófríð
að höfuðin ber hún þrjú,
:,:þó er ekkert minna
en á miðaldra: kú.
Þó er ekkert minna,
og það segja menn,
:að hún hafi augnaráðin
í hverju:,:þrenn.
Að hún hafi augnaráðin
eldsglóðum lík,
:,:kinnabeinin kolgrá
og kjaptinn eins og:,:tík.
Grýla komin í bæinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2006 | 00:17
Skrauthnappar - lítil listaverk
Ég pantaði mér skrauthnappa frá Prickie.com, ég keypti 10 hnappa og samtals kostuðu þeir um 2100 kr íslenskar. Hér er mynd af sex af hnöppunum sem ég valdi.
Mér finnst svona hnappar vera fallegir skartgripir og ég vona að einhvern tíma í framtíðinni verði svona hönnun vinsæl. Flestir tengja hnappa og barmmerki við baráttu stjórnmálafélaga og alls konar félagsskapa, þar sem fólk gefur til kynna samstöðu með einhverjum málstað sem tengist trú, stjórnmálaskoðunum eða lífsstíl. En barmmerki geta bara verið listaverk í sjálfu sér eins og þessir skrauthnappar. Listamenn geta hlaðið inn sinni hönnun og byrjað að selja.
Svona vefþjónustur spretta upp , þetta er andstæðan við verksmiðjuframleiðslu, það er samband milli hönnuðar og kaupanda og hluturinn er ekki fjöldaframleiddur heldur framleiddur beint eftir óskum viðskiptavinar. Viðskiptavinurinn getur annað hvort keypt hönnun annarra eða sjálfur orðið hönnuður. Ef þetta virkar vel þá ætla ég að hanna mín eigin barmmerki til að selja á prickie.com
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)