Færsluflokkur: Menning og listir

Háttatal hið minna - Sá lipri limrusmiður

Ég er skáld. Ekkert sérstaklega afkastamikil enda eru gæði skáldskapar ekki mæld í orðaflóði. Ég er svona eins ljóðs skáld því ég hef bara birt eitt ljóð opinberlega og það er ljóðið Eldborg. Það er tileinkað þjóðskáldinu Davíð frá Fagraskógi og Rimahverfinu í Reykjavík og það  er skírt eftir loðnubræðsluskipinu Eldborg sem brann í Reykjavíkurhöfn.

En metnaður minn í skáldskap er eða var mikill og ákvað ég snemma að gera eins og Snorri Sturluson og fleiri andans stórmenni, ég ákvað að semja háttatal. Afköst mín í samningu háttatalsins eru jafnmikil og í skáldskapnum - það er sem sagt bara komið eitt erindi. Og ekki víst að þau verði fleiri. Hugmyndin var samt góð, ég ætlaði að gera háttatal þar sem ljóðmælandinn hrakyrti  og skammaðist út í einhvern annan bragarhátt og það gengi á með bölbænum milli bragarhátta með meiri ofsa en Siguður Breiðfjörð og Jónas Hallgrímsson í sínum rímnaslag.  En hér er sem sagt Háttatal hið minna, bara eitt erindi og það er ferskeytlan sem hefur orðið og bösótast út í hinn nýja sið, limruna sem hingað barst með engilsaxneskum og er að ryðja burt öðrum háttum. 

Sá ég lipran limrusmið
ljóða sníða glingur.
Brýna í hnipri hnífinn við
hnjóð, í níði syngur.

Það eru margir góðir limrusmiðir og skáld hér á Moggablogginu og í öðrum kimum íslenskra netheima, þjóðskáldin Þórarinn Eldjárn yrkir í dag afbragðslimru um þær stöllur Guð og Djöfulina og núna þegar fylgið veltur til og frá í skoðanakönnunum þá  kastar Jóna fram fyndnum og  sumarlegum limrum um landfundina hjá Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum og veltinginn á Kristni H. Gunnarssyni.

Þó ég yrki nú ekki mikið sjálf þá finnst mér feiknagaman af því að  lesa og fara með góð kvæði og frábært að lesa ljóðablogg. Ég ætti kannski að fara að læra meira um bragfræði, hér er   bragfræðivefur Halls og hér er háttatal Baggalúts. Þar eru margir nýjir bragarhættir svo sem aulaháttur, dólgsháttur og málsháttur. 


Ungdomshuset og Faderhuset

Það var skrýtin frétt sem ég las áðan á mbl.is um að Ungdomshuset í Kaupmannahöfn verði jafnað við jörðu og að eigendurnir ætli að tilkynna það. Þetta stangast mjög á við þær upplýsingar sem eru um þetta hús á Wikipedíu. Þar kemur nefnilega fram að húsið er friðað. Brugsen keðjan ætlaði að kaupa húsið til að rífa það á sínum tíma og byggja þarna stórmarkað en gat það ekki út af friðun. Það er stórmerkileg saga þessa húss og atburðir síðustu daga og mánaða  sýna að þetta hús  er ennþá snúningsás í dönsku samfélagi.  Það verður nú fyrst allt vitlaust fyrir alvöru ef þetta hús verður rifið, ég held svei mér þá að ég myndi bara mæta þarna í mótmælastöðu gegn því ef ég væri stödd í Kaupmannahöfn. Það var í þessu húsi sem hugmyndin um 8. mars sem alþjóðlegan baráttudag kvenna kom fram. 

Það er mikil gerjun í dönsku samfélagi og þessi barátta um húsið er myndræn birting á henni.  Það er kristinn bókstafstrúarsöfnuður sem heitir því skemmtilega nafni Faderhuset sem er núna eigandi hússins. Það er nú dáldið  skrýtið að þessi söfnuður hafi keypt húsið af borginni því íbúarnir og notendur hússins voru ekkert að létta söluna og voru hreinskilnir í út á hvað hún gengi, þeir auglýstu á stórum borða utan á húsinu á sínum tíma "Til salg sammen med 500 autonome, stenkastende voldspsykopater fra helvede."

Mér finnst myndrænt og kaldhæðið að lesa að borgarstjórinn í Kaupmannahöfn hefði verið í skíðafríi þegar uppþotin urðu, minnti mig svolítið á Bush bandaríkjaforseta sem líka er alltaf í alls konar fríum. Sérstaklega kaldhæðið þar sem það það er einmitt andstæðan við hina flötu Danmörku að stunda skíði og svo líka skrýtið að borgarstjórinn hafi verið svona óviðbúinn. 

Mér sýnist yfirvöld í Kaupmannahöfn ekki hafa sýnt neina sérstaka stjórnvisku í hvernig þau takla svona mál. Þó húsið yrði jafnað við jörðu þá mun ólgan vaxa og sá hópur sem skipulagði mótmælin og götubardaga mun skipuleggja eitthvað á stærri mælikvarða seinna. Það er eitt óskynsamlegasta sem stjórnvöld gera í svona aðstæðum að þjappa andstæðingum sínum saman um einhvern málstað - já næstum búa til málstað með gerðum sínum eða því sem þau gera ekki.  Ég held að það sé líka ekki góð stjórnvöld sem ekki geta séð fyrir eða alla vega spáð hvaða afleiðingar gerðir muni hafa.  Ég held nú reyndar að  ribbaldalýður og fólk í leit að fæting hafi dregist að Ungdomshuset og þetta sé eins konar barátta við fólk sem fylgir ekki leikreglum samfélagsins.

Um Ungdomshuset í dönsku wikipedíu 

 


mbl.is Ungdomshuset á Norðurbrú verður jafnað við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nornir og nútímagaldrar á safnanótt

Síldarþró við SjómannaskólannÉg reikaði um Reykjavíkurborg á safnanótt. Byrjaði  vestur á melum á  Fulbright afmælishátíð  í hátíðarsal háskólans, fór svo niður að höfn í  Hafnarhúsið á sýningu  Pierre Huyghe, horfði á  mynd hans um Streamside hátíðina, tilbúna hátíð listamannsins í nýju úthverfi í USA sem er " ætlað að fagna tilurð þessa nýja samfélags og verða árlegur viðburður í lífi íbúanna. Huyghe skapar viðburð fullan gleði og siðum sem verða munu raunverulegur þáttur í árlegum hátíðarhöldum bæjarbúa.  Í BEINNI - VIÐBURÐUR VERÐUR SÝNING er vettvangur þar sem leitast er við að skapa andrúm frelsis, fögnuðar og þátttöku." Skrýtið að vera á hátíð borgarsamfélagsins  eins og safnanótt að horfa á mynd um hátíð í öðru hverfissamfélagi. Leit líka inn á  Errósýninguna og þessi hluti úr stórri Errómynd minnti mig á klámþingsumræðuna nýhjöðnuðu.

Bókhaldsvélar hjá SÍSKirkjusandur 1952

Skoðaði óspennandi ljósmyndir af húsum séð með frönskum augum í ljósmyndasafni Reykjavíkur og var of fullorðin til að búa til pappírsbáta til að finna til fransk-íslenskra tengsla við sjómenn fyrri alda.

Fór í þjóðminjasafnið, hlýddi á  hljóðfæraslátt  og miðaldasöng og raulaði með viðlagið um Ólaf liljurós um blíðan byrinn sem lagði undan björgunum.

Skoðaði ljósmyndasýningu þar og hreifst af myndinni af síldarþrónni við Sjómannaskólann þar sem núna eru stúdentagarðar.  Það var líka ljósmynd úr frystihúsinu á Kirkjusandi 1952 og  af konum sem starfa við  bókhaldsvélar SÍS. Það er hægt að lesa atvinnu- og tæknisögu Íslands úr þessum myndum.

Svo reikaði ég í Norræna húsið og þar var sungið af gleði en söngurinn var engu lagi líkur.  Ég kunni vel við það , fólk á að syngja hvert með sínu lagi og  fagna fjölbreytninni.

Svo lá leiðin aftur í Grófarhúsið og nú á Borgarbókasafn og það rann ég á hljóðið, það var fjöldasöngur og ég söng með nokkur lög. Orti svo ljóð með því að setja saman orð, það var náttúrumynd eins og hæka um sólarlag þar sem sjórinn og landið mætist og kæfandi garg máva í forgrunni.  Svo hlýddi ég á erindi um nútímanornir og nútímagaldra hjá galdranorn sem rekur galdrabúð á Vesturgötu. Þetta var skemmtilegt og hvetjandi erindi og alveg í þeim anda sem mér finnst gefast vel í lífinu - að gæða lífið töfrum.

Það er nú líka miklu skemmtilegra að lífa í kynjaveröld þar sem margt getur gerst og fólk getur beitt verkfærum sem það skilur ekki vel - miklu skemmtilegra en heimta að horfa bara á heiminn frá sjónarhóli takmarkaðrar lífveru sem aðeins sér hluta af litrófinu og afneitar því að það geti verið til sem þessi lífvera getur ekki séð eða hugsað um með sínum takmörkuðu skynfærum og hugsanatækjum. 

Galdranornin var ekki í  öskudagsbúningi norna með svartan barðahatt með uppmjóan rana heldur hafði brugðið yfir sig ljóskugervi sem er sennilega felubúningur hjá nútímanornum svo engan gruni þær um græsku og gáfur.  Hún sagði að við hefðum öll framið galdur. Ég er nú alveg á því, fólk er alltaf að fremja einhvers konar seið  og hermigaldra og reyna að smætta andstæðing með því að koma einhverri mynd á hann. Ég hef í samantekt minni um Grýlu reynt að benda á það hvernig Grýlan í íslensku samfélagi er síbreytileg, hún er ógnin sem steðjar að hverju sinni og með því að líkamna hana í Grýlu þá er auðveldara að búa til hetjusögur þar sem Grýlan er kveðin niður með mögnuðum galdri. 

Annars rifjar þetta upp fyrir mér að ég orti einu sinni ljóð um galdur. Galdur sem ég sá framinn. Af mörgum í einu, af hundruðum. Og enginn horfði á annan en samt talaði fólk saman.  Það var magnað. Það var um hábjartan dag í brennandi sól á torgi í Jerúsalem. 

Ljóðið heitir Galdur hinna sigruðu og það byrjar svona:

Þegar hermennirnir
ganga fyrir hornið
deyr kliður götunnar út
og ekkert heyrist
nema snarkið í eldi götusalans.


Ljósagraffiti og götulist ljósanna

Það er ljósahátíð allt árið í Reykjavík, ekki bara á vetrarhátíð. Ég tók niður síðustu ljósaseríurnar um seinustu helgi en þar er samt  ljómi af ljósum allan sólarhringinn hjá mér. Það er aldrei dimmt því miðbærinn hefur teygt sig hingað og hótelið  stóra lýsir upp hverfið. Stóru gatnamótin í Reykjavík eru eins og  amerískur highway, flennistórar auglýsingar og ljósaskilti þar sem vörur eru falboðnar ökumenn í bílum. En það er enginn ástæða til að láta neyslumenningunni eftir sviðið og ljósasjóvið og núna geta götulistamenn glaðst yfir að það er að komin ný tækni frá graffitiresearchlab til að teikna ljósagraffiti á stór hús  með lasertækni eins og sérst í þessu myndbroti.  Hér er myndasyrpa á Flickr um svona ljósagraffiti. 

Það er líka miklu betra að kasta svona throwies heldur en sprengjum að fólki og byggingum. 

 


Leirmótun - steypt í mót

Ég er á leirmótunarnámskeiði hjá Ásrúnu og held sérstakt blogg um það leirmotun.blogspot.com

þar sem ég skrái hjá mér hugmyndir og pælingar og alls konar fróðleik um leir og leirvinnslu. Það er alveg hægt að nota svona nám til að læra margt annað en að móta leir í höndunum, ég reyni að læra það sem ég get um efnafræði, bæði mismun milli leirtegunda og hvernig ferlið er frá því leirinn er mótaður og þangað til maður tekur glerjaðan grip út úr ofni eftir hábrennslu. Ég velti fyrir mér hvort þessi möguleiki til að tvinna saman verklega kennslu og listsköpun við efnafræði og vísindi sé nógu mikið notaður í skólanámi. 

Í hverjum tíma þá geri ég lítil dýr úr leirklumpum sem verða afgangs. Það er markmiðið hjá mér að gera hundruð af svona dýrum með tíð og tíma og nota þau til að skrásetja framfarir mínar í leirmótun.

Akkúrat núna er ég að spá í hvort ég geti búið til mót til að steypa í - að prófa einhvers konar fjöldaframleiðslu. Það þarf að gerast í nokkrum þrepum, fyrst að búa til frummynd, síðan að búa til mót utan um frummyndina. Þá vonandi get ég notað það mót.  Fyrir jól þá prófuðum við að gera mót sem við helltum postulínsleir í og bjó ég til örþunna kertastjaka.  Ljósið sérst í gegnum þá.

Hér er vídeó af þegar við gerðum mótin:

Og hér er vídeó af því þegar hellt er í mótin:


Í gærkvöldi var ég að vinna með postulínsleir sem er eins og tyggjó og frekar erfitt efni að vinna í.  Í seinasta tíma var ég að vinna með grófan skúlptúrleir.


Hverskonar ást

Hverskonar ástKlámunnendur og femínistar skiptast á skeytum á umræðuþræðinum um viðskipti klámhópsins hjá Katrínu Önnu. Í tilefni af nýliðnum degi elskenda Valentínusardeginum og þessari klámumræðu þá hef ég tekið bút úr umræðuþræðinum upp í þetta vefskrípó. Það eru Ásdís, Aðalheiður og Beta sem hafa orðið.

Ég teiknaði þetta skrípó í Inkscape.

 


Föndur dagsins - Sjálfræðisafmæliskort

Föndrað 18 ára afmæliskort og gjafapakkningÞegar unglingarnir verða átján þá ráða þeir sér sjálfir og líkar þeim það allvel. Hér er föndurhugmynd að einkar smekklegu  18 ára afmæliskorti og gjafapakkningu sem rímar vel við lífsstíl þessarar kynslóðar. Efnið sem þarf er við hendina á öllum venjulegum heimilum, það er þarf bara að pitsuumbúðir frá Dominos (ættu að vera nóg af heima hjá þér núna á megavikunni) og svo eru klipptir út stafir úr einhverjum fríblöðum og auglýsingapésum og það þarf líka lím og límband. Úr þessu er hægt að gera fallegt lítið gjafahús og ef vill þá má nota bónus plastpoka sem undirlag og garð og tússa á hann garðskipulagið, blóm og gangstíga, tré og heita potta. Þessa föndurhugmynd má að sjálfsögðu nota fyrir önnur afmæli en 18 ára og er skemmtilegt að tengja efniviðinn við tilefnið, t.d. ef búið er til kort fyrir 17 ára afmælið þá er sniðugt að nota eitthvað sem minnir á rúntinn og bílprófið svo sem bílalúguauglýsingar, umbúðir frá Aktu  Taktu og frídót frá bensínstöðvum. 

Hönnun þessa korts/gjafapakkningar er frá Kristínu Helgu 

 


Vélar og bölvunarfræði, sigfræði, reikistofnun og menntagat

Ég var að skrifa punkta frá fundum og skrifaði óvart sigfræði í staðinn fyrir siðfræði og bölvunarfræði í staðinn fyrir tölvunarfræði. Þetta minnti mig á skemmtilegar ásláttarvillur eins og í einu plaggi frá Reiknistofnun háskólans var talað um reikistofnun og svo man ég eftir plaggi frá menntamálaráðuneyti fyrir þar sem talað var um menntagat.is en auðvitað var átt við Menntagáttina á menntagatt.is

Svona stafsetningarvillur geta verið skemmtilegar og dregið upp í huga okkar allt aðrar myndir en venjulega af  fyrirbærum. Gaman að spá í íslenskunni og sjá hana stundum gegnum spéspegil, Guðfríður Lilja er búin að  finna gömul og gleymd orð byrgisskapur og byrgismaður sem eru bara nokkuð fín í dag.  

Það er kannski viðeigandi að kalla tækninýjungafræði bölvunarfræði, það er í stíl vil orðið sem við notum fyrir maskínur en á íslensku heita þær vélar.   

 


Þorpið

Í gærkvöldi las ég aftur ljóðin í Þorpinu eftir Jón úr Vör.
Ég leitaði að sérstöku ljóði, ljóði um sorgina.
Það byrjar svona:

Börnin fæðast litlum systkinum sínum
eins og ljós sé kveikt,
eins og fyrstu blóm vorsins
vakni einn morgun.
   Ef þau deyja,
   hverfa þau til guðs,
   eins og draumur,
   sem aldrei gleymist.

Svo staðnæmdist ég við ljóðið um eilífðarfjöruna.
Það er svona:

Ef þú ert fæddur á malarkambi
eru steinar við fætur þína
hvar sem þú ferð,
grasið brýtur sér
leið milli steina.

Far þú heiminn á enda
að leita þér frama,
kom heim
og leik þér að brotinni skel.

Gakk aldinn
veg allrar veraldar,
og í eilífðarfjörunni
finnur þú gulnað strá
bak við sorfinn blágrýtisstein.


Tónlist límt inn í blogg

Ég er að prófa SongSpots frá   Sonific.com en það er eitt af mörgum svæðum þar sem maður getur látið spila tónlist á bloggum og Myspace. Mér tekst ekki að nota lagafídusinn í moggablogginu og get ekki hlaðið inn neinum hljóðskrám þar. Best að hlusta á latneska tónlist til að æfa mig í spænsku. Ég virðist ekki geta spilað nema eitt lag í einu. Það er nú ekki sérstaklega spennandi.

Hérna prófa ég að setja inn óperutónlist



Prófa einu sinni enn... núna keltneskt lag um álfakonung.


og stúlkuna á ströndinni 

Sniðug lög frá Smithsonianglobalsounds


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband