Færsluflokkur: Menning og listir

Drjúptu höfði því að það er meinið, þú ert sjálfur Jónas inn við beinið..

Í dag er jónasarhátíð á þessu bloggi. 

Dagskráin er metnaðarfull, ég frumsýni tvær stuttmyndir eftir sjálfa mig  helgaða Jónasi, sú fyrri heitir Bein Jónasar Hallgrímssonar  (7 mínútur) og er eins konar jarðteiknasaga um dýrlinginn Jónas og hvernig hann vitrast nútímamönnum gegnum beinamálið.  Sögusviðið er náttúrulega Þingvellir, hvað annað, hvar gæti maður minnst beina Jónasar á fegurri hátt en á stekkjunum sem grænka af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að  leik.

Seinni stuttmyndin er svona stutt stuttmynd, bara ein mínúta og heitir Skjaldbreiður  og  fjallar um vísindamanninn Jónas og hvernig hann komst að kolvitlausri niðurstöðu um tilurði fjallsins Skjaldbreiður  og hvernig hann glæddi list sína með pælingum úr vísindum, úr jarðfræði. Það fara ekki miklar frægðarsögur af jarðfræðiafrekum Jónasar, hann var meira skáld en vísindamaður  og það er kannski ekki svo skrýtið vegna þess að hann var í Kaupmannahöfn í skjóli Finns Magnússonar rúnasérfræðings.

Í anda nútímans og remix tíðarandans og youtube kynslóðarinnar þá náttúrulega er sýningarsalur þessara kvikmynda Youtube og svo nýti ég mér sem leikendur fólk sem er að leika sjálfa sig á helgisamkomu um Jónas sem var á þingvöllum síðasta sumar. Titill bloggsins er svo útúrsnúningur á ljóðlínum eftir okkar núlífandi þjóðskáld hann Þórarinn Eldjárn þegar hann orti ungur um Guðjóninn sem býr í okkur öllum.

 Bein Jónasar (7 mínútur)

 

Fjallið Skjaldbreiður (1 mín)


mbl.is Ómetanlegar heimildir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tískan í Búrma - Andlitsmálun

andlitsmalun-burma-thanÉg var að skoða myndir á flickr merktar Búrna (Myanmar) og þá tók ég eftir að það er skemmtileg tegund af andlitsmálingu í tísku þar.  Það virðist vera vaninn að bera duft á nef og kinnar til varnar gegn sólinni en þetta er oft einhvers konar skreytingar.  Þetta er skemmtileg tíska, spurning hvenær svona meikup kemst í tísku hérna.  Íslenska sortin af svona meikupi væri náttúrulega að klippa mynstur á pappa og bera á sig brúnkukrem þannig að það kæmu svona dökk tákn á kinnarnar.

En hérna eru nokkrar andlitsmálunarmyndir frá Búrma:

Mynd af stúlku með laufblöð á kinnunum og mynd af litlu barni um jólaleytið með jólaskraut um höfuðið og mynd af fiskverkakonu með barðahatt sem líka er með málaðar kinnar til að hlífa sér við sólinni og svo myndir af stúlkum og börnum sem eru svona málaðar í framan.


Réttardagur á Suðurlandi - Reyðarvatnsrétt

Ég fór í Reyðarvatnsrétt í dag. Hér er stutt vídeó á þegar hjörðin er rekin inn í réttina.


Svo eru hérna nokkrar myndir af fólki í réttunum. Það var gaman að fylgjast með krökkunum spreyta sig á að draga í dilka. 

 

IMG_2667

IMG_2661

IMG_2654

Fullorðna fólkið var aðeins rólegra en krakkarnir: IMG_2636

Svo eru hérna dætur mínar

IMG_2659


Menningarnótt 2007

Ég skráði atburði menningarnætur með því að taka stutt vídeóklipp og setti saman í 4 mínútu skýrslu sem hér má sjá:


Ég fékk fiskisúpu á Skólavörðustíg, hlustaði á gospelrokk á Austurvelli, drakk rauðvín og borðaði osta við óm franskrar tónlistar í Hafnarhúsinu, tók út auða bók í Borgarbókasafninu, týndi henni strax, hlustaði á tónlistarflutning í krám og listagallerium á Laugaveg og Skólavörðustíg og í portinu við Tjörnina, hlustaði á flautuleik í Dómkirkjunni og ljóðaflutning á Austurvelli, klæddi mig í  hefðarfrúarbúning og setti upp hatt í ljósmyndasafni Reykjavíkur og horfði á skúturnar og flugeldasýninguna á hafnarbakkanum. Svo hlustaði ég á færeyskan kór og dansaði færeyska dansa í ráðhúsinu. Allt var friðsælt og alls staðar gleði og stuð og skipulag var til fyrirmyndar.

Þegar ég fór heim eitthvað um tvöleytið um nóttina þá var ég svo vitlaus að keyra gegnum Lækjargötu og þá lenti ég í eina háskanum um kvöldið. Drukkinn maður reif afturhurðina opna á bílnum mínum þar sem ég var á ferð og þurfti ég að keyra um stund með galopna hurðina. En allir sem skipulögðu þessa hátíð, unnu að henni  og styrktu hana  eiga þakkir skilið. Þetta heppnaðist frábærlega, það var gott að dreifa mannfjöldanum með því að bjóða líka upp á tónleika á Klambratúni. 

Ég setti inn á flickr  ljósmyndirnar mínar af menningarnóttinni

Hér er mynd af mér, Ástu og Emblu þegar við heimsóttum ljósmyndasafn Reykjavíkur og klæddum okkur uppá eins og fínar frúr á menningarrölti.

008b

Hér er mynd úr galleríi á Skólavörðustígnum

031

Hér er mynd af mér að byrja rithöfundarferil minn á Borgarbókasafninu. Það gekk ekki vel, ég týndi bókinni einhvers staðar á menningarröltinu. Ég var bara búin að skrifa eitt orð í hana.

 

015
mbl.is Nóttin gekk vel fyrir sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Esperanto lifir

Þegar ég var barn þá voru alltaf tungumálaþættir í barnablaðinu Æskunni sem kenndu manni tungumálið esperanto. Það er tilbúið tungumál og hér á Íslandi er þekktasti esperanto maðurinn rithöfundurinn Þórbergur Þórðarson. Ég var orðin nokkuð leikin í esperanto og nú langar mig til að fara að rifja þetta upp. Gallinn er bara sá að það er enginn á Íslandi sem ég veit um sem talar esperanto. Það er kannski hægt að nota netsamfélagið eitthvað, esperanto lifir þar góðu lífi og það er til wikipedia á esperanto.  Sennilega tala eins margir ef ekki fleiri esperanto eins og tala íslensku. En mjög fáir hafa esperanto sem fyrsta tungumál.

Er gagnlegt að tala esperanto? Ég veit ekki hvað skal segja, sennilega er það ekki sá lærdómur sem gagnsemin er gegnsæust í - en ég held að hugmyndafræðin bak við það tungumál og það að setja sig inn í þau mynstur sem nýtt tungumál krefst og það esperanto sem var búið til sem einfaldast og auðlærðast - gagnist öllum.  En esperantokunnáttan hefur komið sér vel hjá sumum og eitt besta dæmið um það er auðjöfurinn George Soros. Hann er af ungverskum ættum og alinn upp í Ungverjalandi en hann býr núna í USA og er talinn einn af auðugri mönnum heimsins. Hann veitir gífurlegu fé í uppbyggingarstarf í Austur-Evrópu og hefur meðal annars byggt þar háskóla fyrir framhaldsnám, háskólinn heitir Central European University. Ég er einmitt núna í Búdapest á ráðstefnu og hún er haldin í húsakynnum þessa háskóla. 

Hvernig gagnaðist esperantokunnáttan George Soros? Jú, hún gerði það á tvennan hátt. Í fyrsta lagi þá var það einmitt þessi kunnátta sem gerði það að verkum að honum tókst að flýja úr  Ungverjalandi á kommúnistatímanum árið 1946. Þá var landið lokað og ferðafrelsi ekkert en hann fékk að fara á ráðstefnu Esperanto sem haldin var erlendis og notaði tækifærið til að flýja. Í öðru lagi þá er Soros þekktur fyrir fjármálasnilli sína og það að sjá mynstur í fjármálaheiminum og það má vel hugsa sér að þessi mynsturleikfimi sem tungumál eins og esperanto er hafi styrkt innsæi yfir mynstrum á öðrum sviðum eins og í fjármálaheiminum.

Meira um esperanto

Hvenær var esperanto búið til og hvað eru til margir esperantistar ...

Heimasíða esperantosambandsins

 


Rakú brennsla í Borgarfirði

Á sunnudaginn fór ég í sumarbústað í Borgarfirði í Rakú brennslu til Ásrúnar Tryggvadóttur  sem hefur kennt okkur leirmótun í vetur. Hér er  45 sek. vídeóklipp af brennslunni og mununum okkar:


 

Við vorum að prófa rakú brennslu sem er gömul japönsk aðferð við glerungsbrennslu. Hún er þannig að fyrst eru leirmunir mótaðir og   leirmunirnir hrábrenndir í rafmagnsofni. Síðan eru rakúglerungar settir á  og þeir gljábrenndir í sérstökum ofni sem er hitaður upp með gasi.  Glóandi heitir leirmunirnir eru svo lagðir í málmílát ásamt eldsneyti t.d. viðarsagi. Eftir ca. 20 mín “reduction” er brennslan stöðvuð  með því að setja munina í vatn. Sótið er svo þegið af mununum.

Það kemur stundum skemmtileg áferð á glerunginn eins og hann sé allur sprunginn. 

Sjá hérna Raku ware - Wikipedia, the free encyclopedia

 

 

 

 


Veggjakrot - myndmál stórborgarinnar

Veggjakrot er margs konar. Það getur verið tákn sem aðeins innvígðir skilja t.d. tákn einhverra menningarhópa eða dulartákn um að hér sér einhver aðstaða eða þjónusta. Það tíðkaðist t.d. að merkja hvar væri hægt að komast í frítt Internetsamband með að stela bandvídd frá einhverjum. Stundum er graffiti liður í baráttu einhverra hópa, sennilega mun það færast í vöxt.

Oft hafa hús verið merkt og stundum hafa merkin verið þáttur í einhverjum ofsóknum. Ég tók þessa mynd í Austur-Berlín  fyrr í mánuðinum af stórri byggingu sem engin starfsemi var í. Ég skildi ekki  áletrunina fyrr en ég las skilti um sögu hússins. Þetta var hús sem var einu sinni banki í eigu gyðings Golluber að nafni. Hann flýði nasistanna og húsið varð miðstöð Hitlersæskunnar. Svo lenti það inn í kommúnistaríkinu Austur-Þýskalandi og var sennilega einhvers konar ungdómsmiðstöð. En núna hefur húsinu sennilega verið skilað til Golluber fjölskyldunnar og sá sem skrifar þetta graffiti lýsir andstöðu sinni með þróun hverfisins og fyrirhugaða notkun hússins. Þetta er líka ostalgia eða eftirsjá eftir kommúnistaríkinu og andstaða við peningaríki sem mismunar fólki, skrifarinn vill ekki sjá neina einkaklúbba og sundlaugar og lúxushótel og kallar eftir að húsið verði félagsmiðstöð ungs fólks.

Graffiti

Berlín var allt staðar útkrössuð alveg eins og Barcelona. En krassið er mismunandi flott og listrænt gildi þess segir heilmikið um hverfið og fegurðarmat fólksins sem þar býr. Hér er graffiti sem mér fannst svo flott að ég tók mynd af því, mér finnst flott þessi gróska, svona sambland af tæknihyggju og þrá eftir lífi og gróðri.

 

Mural

Mér finnst sumt graffiti í Reykjavík mjög flott, ég sá um daginn þessa þyrpingu fólks á húsvegg einhvers staðar nálægt Vatnsstíg. Svona listaverk gleðja alla og gera borgina fallegri:

Graffiti in downtown Reykjavik 020

Hér er svo vídeóklipp sem ég tók af graffitilistamanni í Barcelona fyrir tveimur árum, núna er listaverkið hans horfið.

 Til fróðleiks:

Graffiti is the newspaper of street gangs

Axel Thiel: Vocabulary of Graffiti Research

Graffiti - Wikipedia, the free encyclopedia

 

 

 


mbl.is Kona „graffar" í skjóli nætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hauslausa drottingin

Hauslausa drottninginÞað er illa farið með ljósmyndina af Alexandrínu drottningu Íslands og Danmerkur og manni hennar Kristján X sem tekin var á  á Þingvöllum árin 1926 að höggva svona hausinn af drottningunni með stóreflis exi. 

Þessi mynd er frá ljósmyndasafni Íslands og hana má sjá á vefsíðum þess. Ég birti þessa mynd hérna til að sýna hvað mér finnst afleitt í hvernig menningarstofnanir á Íslandi miðla stafrænu menningarefni.

Í fyrsta lagi þá setja menningarstofnanir afar lítið af efni sínu á stafrænt form og lúra á því eins og ormar á gulli. Ég hef heyrt ágætis fólk í söfnum segja frá því að það vilji ekki setja efni sem það hefur tekið saman á vefinn vegna þess að þýði að fólk komi ekki í safnið. Þess vegna hafa sum söfn tekið upp á að hafa einhvers konar margmiðlunarsýningar á safnsvæðinu sjálfu og sýna þar margmiðlunarefni sem ekki er hægt að skoða nema á sérstökum tölvum í safninu. 

Í öðru lagi þá setja þær menningarstofnanir sem þó eru svo framsýnar að þær birta efni á vefnum það út á hátt sem er mjög takmarkandi. það ber að þakka fyrir að hafa fengið að berja þessa mynd af Alexandrínu drottningu augum en út af hverju í ósköpunum þarf að skemma þessar myndir sem og allar myndir sem ljósmyndasafn Íslands setur á vefinn með svona exi? Hvaða notagildi eru af þessari mynd? Ég veit auðvitað að þessi blóðöx er einhvers konar merki til að tryggja að fólk afriti ekki myndirnar af vefsíðum ljósmyndasafnsins og birti þær annars staðar eða noti þær í öðrum verkum. En ég veit líka að þessi mynd er svo gömul að það er ekki lengur höfundarréttur að henni og ég velti fyrir mér hvers vegna í ósköpunum Ljósmyndasafn Íslands er að gera öllum sem hugsanlega vildu nota þessa mynd (t.d. nemendum í skólum) erfitt fyrir, af hverju í ósköpunum er myndin ekki sett á vefinn undir einhverju sem efni sem er til afnota fyrir alla.

Ég kenni nemendum mínum að búa til námsefni sem wikibækur, hér er námsefni sem þau eru með í vinnslu. Einn liður í því er að kenna þeim og þjálfa þau í að nota wikimedia commons og creative commons og nota myndefni annarra á löglegan hátt í sínum verkum og vita hvaða efni má afrita og endurnota og breyta. Sá hugsunarháttur sem einkennir þessar merktu og ónothæfu myndir frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur er alveg andstæðan við það sem einkennir þessi commons  samfélög/samvinnufélög þar sem allir geta tekið út eftir þörfum og notað að vild. Það eru nokkrar myndir af Kristjáni X konungi á Wikipedia Commons en enginn af drottningunni. Hér eru listi yfir danska kónga. 

með tengingum í vefsíður um þá á dönsku wikipedia. Það væri gaman að þýða þetta á íslensku wikipedia, vonandi gerir einhver það fyrir þá kónga sem teljast líka konungar Íslands. 

í nútíma netsamfélagi þá erum við þátttakendur, okkur nægir ekki að nota efni eins og myndir bara til að horfa á þær og sjá þær í einu samhengi (sem mynd sem hangir uppi á vefsíðu ljósmyndasafns Íslands) heldur viljum við nota svona myndir og annað vefefni í okkar eigin verkum og endurblöndun (remix) þannig að við búum til verk sem sett eru saman að hluta úr einingum frá öðrum og að hluta úr einingum frá okkur, verk sem eru síkvik og tengd við önnur verk. Blogg er notar myndir frá öðrum og tengir í efni frá öðrum er einmitt dæmi um þannig miðlun. 

Ég skrifaði á sínum tíma grein um Sigurð málara  og grein um Þjóðminjasafn Íslands á íslensku wikipedia. Mikið vildi ég óska að íslenskar menningarstofnanir kynntu sér wikipedia og creative commons og miðluðu stafrænu efni á þann hátt. Það myndi gera okkur sem störfum í skólakerfinu miklu auðveldara að nýta allt það góða efni sem þar er geymt og núna bara aðgengilegt sérfræðingum eða þeim sem koma sérstaklega í söfnin.

 


300 kýr í fjósi

Ég fór ekki í 1. maí gönguna í dag, ég hef samt oftast farið í þessa göngu, það hefur verið einn af árlegum ritúölum í lífi mínu. Ég hef haft gaman af því að velja mér skilti að ganga undir og svo vera með eigin skilti og spá í hvernig þau skilti sem fólk heldur á loft endurspegla tíðarandann. En ég fór heldur ekki í göngunni 1. maí fyrir tíu árum. Ég heyrði í fréttum í kvöld að það hefði verið tímamótadagur því þá hefði Tony Blair tekið við stjórnartaumum í Bretlandi. Það er samt ekki það sem mér er minnistæðast um þennan dag fyrir tíu árum heldur það að 1. maí þann dag þá var ég allan daginn í biðröð fyrir utan skrifstofu Borgarskipulags í Reykjavík.

Það var þannig að þá var lóðum í Reykjavík  úthlutað eftir reglunni "fyrstir koma, fyrstir fá" og það var verið að úthluta fyrstu lóðunum í Staðahverfinu í Reykjavík, hverfinu sem dregur nafn sitt af Korpúlfstöðum og er byggt út úr túnum þess býlis.

Þeir sem  eins og ég ætluðu sér að fá lóð á góðum stað tóku enga sjensa heldur biðu yfir einn sólarhring í biðröð þangað til skrifstofan opnaði 2. maí og það mátti skila inn lóðaumsókninni. Ég hafði mörgum árum áður heillast af fjörunni og strandlengjunni fyrir neðan Korpúlfsstaði og ennþá finnst mér þetta einn fallegasti staðurinn í Reykjavík. Ég var númer 2 í biðröðinni og fékk lóð. Það var engin brjáluð eftirspurn eftir lóðum í úthverfum Reykjavíkur þá, reyndar voru aðstæður þannig að það þótti snarbilað fólk sem sóttist eftir lóðum og vildi byggja sjálft því þá var verðlagið á húsum þannig að tilbúin hús í grónum hverfum voru svona helmingi ódýrari en áætlaður byggingarkostnaður. 

Það var því við hæfi að fara í dag í pílagrímsferð á jörðina Korpúlfsstaði og skoða vinnustofur listamanna sem voru opnar almenningi í dag.  Þar var í dag opnuð Sjónlistarmiðstöð. Fyrir tæpum áttatíu árum voru þarna 300 kýr í fjósi. En hér eru nokkrar myndir sem ég tók í dag á Korpúlfsstöðum. Myndaalbúmið er hérna með 27 myndum: http://salvor.blog.is/album/Korpulfsstadir/

 
Vinnustofurnar eru sumar með upprunalega gólfinu. Þetta hefur verið eldhús starfsmanna í fjósinu á Korpúlfsstöðum.

 Landslag bernskunnar

Þuríður myndlistarkona í vinnustofu sinni á Korpúlfsstöðum. Þar sýndi hún olíumálverk af hestskinnum og af jurtum í úthaga. Þuríður er alin upp á sömu  slóðum og ég, hún er alin upp á Laugarnesbýlinu þar sem við börnin í hverfinu lékum okkur og faðir hennar var þar með hesta og kindur.

Myndlistamennirnir útskýrðu fyrir gestum hvernig þeir unnu verkin sín, hér er Elli að segja frá því hvernig hann tekur ljósmyndir inn um glugga hjá fólki og listakona að segja frá hvernig hún blandar litina.

 


Brunakvæði

Það er einkennilegt að einmitt um þá mund að bruninn kom upp í miðbæ Reykjavíkur þá var ég  að skrifa blogg. Að skrifa blogg um bragfræði. Kveikjan að því bloggi var ágæt limra Þórarins Eldjárns um Guð og Djöfulina sem hann birti á moggablogginu. Það er kannski ekki mikið samband milli bragfræði og eldsvoða í Reykjavík, það samband er bara í mínum huga vegna þess að ég var að rifja upp ljóðið Eldborg, mitt eina birta ljóð, ég las það aftur og ætlaði að setja það á bloggið sem ég var að skrifa en hætti við. Ég rifjaði upp það sem ég hafði áður skrifað um þetta ljóð og tengdi í bloggfærsluna þegar ég birti ljóðið, ég birti það á bloggi út af því að það birtist ekki strax á ljod.is. En einmitt þegar ég hafði skrifað ljóðið á bloggið  þá varð mér litið út um gluggann, ég vann þá  í miðbænum og sá að það þyrlaðist reykjarmökkur upp úr Reykjavíkurhöfn og margir brunabílar voru á vettvangi. Ég sá svo í fréttavef stuttu síðar að það var loðnuskip að brenna, loðnuskip sem bar nafnið Eldborg. Ég breytti þá bloggfærslunni og bætti við athugasemd um brunann og endurskírði þetta eina ljóð mitt, ég skírði það Eldborg. 

Ljóðið Eldborg fjallar um eldsvoða og borg sem hrekkur upp við bruna. Ljóðið fjallar líka um brennuvarg og líka um hugmyndir sem kvikna og samfélagsbreytingar og  baráttu. Ef til vill fjallar það líka um hryðjuverk. En það var upphaflega samið um lítinn sex ára strák í Rimahverfinu sem kveikti í öllu, það var samið daginn sem hann byrjaði í skóla. Ég held að þetta sé galdraljóð sem kemur í huga minn án þess að ég stjórni því. Sérstaklega þegar eitthvað er að brenna upp. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband