300 kýr í fjósi

Ég fór ekki í 1. maí gönguna í dag, ég hef samt oftast farið í þessa göngu, það hefur verið einn af árlegum ritúölum í lífi mínu. Ég hef haft gaman af því að velja mér skilti að ganga undir og svo vera með eigin skilti og spá í hvernig þau skilti sem fólk heldur á loft endurspegla tíðarandann. En ég fór heldur ekki í göngunni 1. maí fyrir tíu árum. Ég heyrði í fréttum í kvöld að það hefði verið tímamótadagur því þá hefði Tony Blair tekið við stjórnartaumum í Bretlandi. Það er samt ekki það sem mér er minnistæðast um þennan dag fyrir tíu árum heldur það að 1. maí þann dag þá var ég allan daginn í biðröð fyrir utan skrifstofu Borgarskipulags í Reykjavík.

Það var þannig að þá var lóðum í Reykjavík  úthlutað eftir reglunni "fyrstir koma, fyrstir fá" og það var verið að úthluta fyrstu lóðunum í Staðahverfinu í Reykjavík, hverfinu sem dregur nafn sitt af Korpúlfstöðum og er byggt út úr túnum þess býlis.

Þeir sem  eins og ég ætluðu sér að fá lóð á góðum stað tóku enga sjensa heldur biðu yfir einn sólarhring í biðröð þangað til skrifstofan opnaði 2. maí og það mátti skila inn lóðaumsókninni. Ég hafði mörgum árum áður heillast af fjörunni og strandlengjunni fyrir neðan Korpúlfsstaði og ennþá finnst mér þetta einn fallegasti staðurinn í Reykjavík. Ég var númer 2 í biðröðinni og fékk lóð. Það var engin brjáluð eftirspurn eftir lóðum í úthverfum Reykjavíkur þá, reyndar voru aðstæður þannig að það þótti snarbilað fólk sem sóttist eftir lóðum og vildi byggja sjálft því þá var verðlagið á húsum þannig að tilbúin hús í grónum hverfum voru svona helmingi ódýrari en áætlaður byggingarkostnaður. 

Það var því við hæfi að fara í dag í pílagrímsferð á jörðina Korpúlfsstaði og skoða vinnustofur listamanna sem voru opnar almenningi í dag.  Þar var í dag opnuð Sjónlistarmiðstöð. Fyrir tæpum áttatíu árum voru þarna 300 kýr í fjósi. En hér eru nokkrar myndir sem ég tók í dag á Korpúlfsstöðum. Myndaalbúmið er hérna með 27 myndum: http://salvor.blog.is/album/Korpulfsstadir/

 
Vinnustofurnar eru sumar með upprunalega gólfinu. Þetta hefur verið eldhús starfsmanna í fjósinu á Korpúlfsstöðum.

 Landslag bernskunnar

Þuríður myndlistarkona í vinnustofu sinni á Korpúlfsstöðum. Þar sýndi hún olíumálverk af hestskinnum og af jurtum í úthaga. Þuríður er alin upp á sömu  slóðum og ég, hún er alin upp á Laugarnesbýlinu þar sem við börnin í hverfinu lékum okkur og faðir hennar var þar með hesta og kindur.

Myndlistamennirnir útskýrðu fyrir gestum hvernig þeir unnu verkin sín, hér er Elli að segja frá því hvernig hann tekur ljósmyndir inn um glugga hjá fólki og listakona að segja frá hvernig hún blandar litina.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Anna Guðmundsdóttir

Útsýnið í Staðahverfinu er magnað! Vel þess virði að bíða í röð Saknaði þín annars í göngunni í dag... 

Katrín Anna Guðmundsdóttir, 2.5.2007 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband