Færsluflokkur: Menning og listir
21.9.2008 | 00:05
"Vendu þig á að vera stillt"
Aumingja Halldór heitinn Laxness. Hvers á hann að gjalda? Núna fullyrðir Mogginn að Halldór hafi ort þennan auma leirburð barn að aldri og skráð það inn í einhverja póesíbók á Vegamótastíg. Til allrar guðsblessunar þá stendur hann Guðmundur Magnússon gúglvaktina og hrekur þennan áburð af sinni snilld og nákvæmni sagnfræðings, sjá hérna Ekki eftir Halldór Laxness
Dóri litli hefur bara verið eins og ég á barnsaldri, í minni kynslóð gengu minningarbækur milli allra stelpna, á tímum Dóra litla hafa það verið póesíbækur. Sennilega hafa sams konar steríl og formúlukennd skrif verið einkenni póesíbókaskrifa og voru í minningarbókum minnar bernsku. Ég man að það tíðkaðist að teikna alltaf hjörtu og skrifa "Mundu mig - ég man þig" og svo var gjarnan skrifuð vísa. Ég man eftir einni vísu sem ég skrifaði og las oftsinnis. Hún er ekki eftir mig, hún sirkúleraði bara þarna í barnamenningu minningabókanna og hún er svona:
Vendu þig á að vera stillt,
vinnusöm og þrifin.
Annars færðu engan pilt,
ef þú gengur rifin.
Úff!!!... ég má ekki til þess hugsa að einhver moggarannsóknarblaðamennskugrúskari komist í minningarbækur sem ég skrifaði í sem barn og finni kannski þessa vísu og segi hana vera eftir skáldið Salvöru Gissurardóttur. Það gersamlega eyðileggur skáldferil minn, ég er stolt eins ljóðs skáld, ég yrki bara ljóð sem kveikir elda og enginn herskár femínisti vill sitja undir svona ekkisens leirburði og bulli um stilltar, vinnusamar, þrifnar og órifnar konur. Sem sagt, Dóri litli á samúð mína alla. Hann orti ekki frekar þetta bull sem honum er kennt fremur en ég orti barn um mikilvægi þess að vera engin tötruhypja.
Ólína er búin að uppgötva skandalinn og er ómyrk í máli: Nei, hættið nú!
Þetta stefnir í stórhneyksli. Við skáldkonur og bloggarar þessa lands finnum blóðið til skyldunnar, við viljum ekki að lítil börn eins og hann Dóri litli og við Ólína þegar við vorum litlar þurfum að gjalda þess á fullorðinsárum að hafa párað einhverja vitleysu inn í minningabækur.
Elsti varðveitti kveðskapur Halldórs Laxness í póesíbók á Vegamótastíg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 00:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2008 | 12:16
Blogglist
Fyrir fimm árum þá hvatti ég íslenska bloggara til að sækja um listamannalaun. Ég skrifaði þá þetta blogg:
Bloggarar athugið !!! Listamannalaun .... umsóknarfrestur að renna út!!!!
Er ekki ástæða til að minna alla orðlistamenn (eru ekki allir bloggarar orðlistamenn?) á að frestur til að sækja um listamannalaun rennur út klukkan 16 í dag. Nógur tími er samt til stefnu, bara að fylla út þetta eyðublað og senda í tvíriti. Í reitinn þar sem umsækjendur úr Listasjóði eru beðnir að tilgreina listgrein sína þá má reyna að skrifa orðið BLOGG og haka við að sótt sé um í launasjóð rithöfunda. Í stóra reitnum þar sem beðið er um "stutta og hnitmiðaða lýsingu á verkefni/verkefnum sem fyrirhugað er að vinna að á starfslaunatímanum" þá má reyna að gefa bara upp vefslóð á bloggið.
Svo þarf náttúrulega að fylgja með "Ýtarleg greinargerð um verkefnið sem liggur til grundvallar umsókninni". Hér má reyna að prenta allt blogg frá byrjun. Upplýsingar um listrænan feril, m.a. um helstu verk o.s.frv gætu verið svona setning: "Hefur bloggað í sautján mánuði. Aldrei orðið bloggfall." #Athugasemdir við þetta blogg voru þessar:
Frábær hugmynd en ég er ekki svo viss um að vinnuveitandi minn yrði jafn hrifinn!
Ég er ennþá sama sinnis og fyrir fimm árum. Blogg getur verið listaverk, ef til vill er það tengdast gjörningalist eða uppákomum því það er mun meira samband milli lesenda og skrifara á bloggi og lesendur taka á vissan hátt þátt í að skrifa bloggið. Bloggið er líka skrifað í samfélagi og endurómar viðhorf þar eins og bylgjur eða býr til nýja bylgjuhreyfingu sem er endurómuð af öðrum svona eins og memes. Tengingar í bloggi eru stundum eins og tengingar í bókmenntum, ég finn til skyldleika við Eliot í eyðilandinu þegar ég set tengingar í blogg.
Ég hef alltaf reynt að skrifa blogg eins og bókmenntatexta og það skiptir mig ekki miklu máli þá aðrir sjái það ekki. Þannig reyndi ég fyrstu árin að láta öll blogg hafa tvöfalda merkingu, eina sem bloggið virtist á yfirborðinu fjalla um og eina sem væri dýpri og tengdist eigin reynslu og lífi.
Ef ég lít yfir tvær síðustu bloggfærslur þá eru þær líka bókmenntatilraunir, tilraunir til að taka fréttir sem mér fannst ekki merkilegar og reyna að blása í þær einhverri merkingu og tengja saman hluti sem enginn hefur tengt saman.
Bloggarar vilja listamannalaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2008 | 07:31
Danaë í svarthvítu
Fanginn Elísabet Fritzl var lokuð inn í járnbendu neðarjarðarhýsi af föður sínum, þar er hún kynlífsfangi hans og elur honum börn.
Í grískri goðafræði er sagan af Danae sem var lokuð inni af föður sínum í bronsturni eða helli. Hún eignaðist í prísundinni barnið Perseif sem síðar varð Medúsu að bana og úr líkama hennar stukku Pegasus og Chrysaor
Danaë og örlög hennar hafa verið yrkisefni margra listamanna. Hér er eftirprentun af mynd Waterhouse af Danaë þegar hún bjargast úr kistu en þegar hún átti barnið þá lét faðir hennar setja hana og barnið inn kistu og fleygði kistunni í sjóinn. Mynd Waterhouse er glötuð, það var litmynd en henni var rænt. Ræningjar og skemmdarverkamenn og geðveikir menn hafa eins og listamenn dálæti á sögunni um Danaë. Árið 19885 og 1997 var myndin af Danaë eftir Rembrandt sem varðveitt er í Hermitage listasafninu í Pétursborg skemmd.
Sagan um kynlífsfangann Danae hefur fangað athygli heimsins í árþúsundir og margir frægustu listamenn heimsins spreytt sig á að lýsa henni. Í goðsögunni er hún vissulega ekki kynlífsfangi en túlkun listamannanna leikur sér að þessu stefi, þessu sadistíska sjónarhorni þar sem fanginn er kynvera þar sem aðdráttaraflið er einmitt fólgið í að hún er svipt frelsinu. Það er áhugavert að margt að bera þetta saman við lótusskó og reyrðar fætur.
Eða búninga kvenna í kynlífsþjónustu.
Danaë In Colour - John William Waterhouse
Elisabeth Fritzl ætlar að veita sjónvarpsviðtal | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2008 | 22:00
MUTO eftir Blue
Listasöfn, minjasöfn, skólar, bókasöfn, óperuhús, leikhús. Allt staðir sem eru menningarmusteri. En menningin er alls staðar, listin er alls staðar. ekki bara lokuð inn í byggingum sem hýsa stofnanir, listaverkin mara líka í hálfu kafi í Tjörninni og gatan er vettvangur sumra listamanna.
Hér er stuttmyndin MUTO eftir Blue (sjá blublu.org) Þetta er margslungin listaverk, bæði verkin sem máluð eru á götunni og svo hið stafræna verk.
MUTO a wall-painted animation by BLU from blu on Vimeo.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2008 | 09:50
Mín stafræna bókahilla
Í tilefni af viku bókarinnar kom ég mér upp bókahillu á shelfari. Slóðin á mína hillu er shelfari.com/salvor og svona lítur hillan út núna: Það er auðvelt að skrá sig inn og setja bækur í bókahillur,það er feiknaöflug leit, það þarf aðeins og slá inn höfund eða titil bókar eða IBSN númer og hægt er að merkkja bækurnar í hillunni eftir því hvort það eru bækur sem maður er búinn að lesa eða ætlar að lesa. Það er svo hægt að líma bókahilluna inn á blogg eða tengja beint við facebook og fleiri kerfi.
Þetta er sniðugt fyrir bókaklúbba og lestrarfélög og leshringi. Ég hef í gegnum tíðina öðru hverju verið í einhvers konar bókmenntaleshringjum og þá væri svona verkfæri alveg tilvalið. Eina sem ég er óánægð með er hvað hin stafræna forsíða á sumum íslensku bókunum sem ég fletti upp er fátækleg. Það vita allir bókaunnendur að það er hluti af gleðinni að hafa bækurnar í vönduðu og fallegu bandi upp í bókahillu, það gildir nú líka þegar bækurnar eru komnar í stafrænar hillur.
Í tilefni af viku bókarinnar er hægt að prenta út ávísanir sem gilda sem afsláttur fyrir prentaðar bækur. Ég held nú að smán saman muni bæði prentaðir peningar og prentaðar bækur hverfa og bókahillurnar færast inn í netheima. Reyndar mun bókaformð þá ef til vill leysast upp en við munum nú eftir sem áður segja sögur sem lýsa upp tilveru okkar og búa til skynfæri okkar.
Hvetja fólk til að prenta peninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.4.2008 | 17:06
Hallir nútímans eru óperuhús
Norðurlandaþjóðirnar sýna veldi sitt og dýrð með óperuhöllum sem staðsettar eru við sjó. Þetta eru íburðarmiklar byggingar, marmara og glerhallir þar sem einmitt íburðurinn er einkennið. Í íslenska húsinu verður glerhjúpur. Þessar hallir nútímans eru eins konar musteri eða gáttir inn í nútímann og framtíðina og alheiminn, ætlaðar á yfirborðinu til að óma söng. En hlutverk þessara halla er meira, þeim er ætlað að vera eins konar íkon eða kennileiti fyrir borgirnar, tákn um öflugt menningarlíf og ríkidæmi á öllum sviðum. Ég held að staðsetningin við sjó og áherslan á hvernig húsin líti út þegar komið er að landi sé táknræn fyrir alþjóðavæðinguna og þrá eftir að sýna umheiminum mátt sinn og megin.
Óska Norðmönnum til hamingju með hið nýja óperuhús sitt. Eins og allir listamenn vita þá er ferlið eins mikilvægt og afurðin og hér má sjá á 3 mínútu vídeói hvernig húsið spratt upp.
Hér eru fréttir og efni um hið nývígða óperuhús í Ósló og hið nýja operuhús Kaupmannahafnar:
Norway's king opens new opera house on the shores of Oslo Fjord
Copenhagen Opera House - Wikipedia, the free encyclopedia
New National Opera House (Oslo)
Mér virðast nútímalistasöfn vera líka svona musteri í borgum, næstum eins og húsin og arkítektúrinn á þeim og hughrifin sem gestir húsanna verða fyrir við að ganga um þau og horfa á þau skipti eins miklu máli og sýningarnar og iðjan sem í þeim er. Þessa tilfinningu fékk ég bæði í Kiasma í Helsinki og nýlistasafninu í Barcelona.
Á Íslandi er sama þróun. Nýja tónlistarhúsið í Reykjavík verður líka svona helgiskrín nútímans.
Heimsþekktir listamenn með íslensk tengsl voru fengnir til að hanna tónlistarhöllina í Reykjavík. Útlit hússins er að mestu leyti verk Ólafs Elíassonar en Vladimir Ashkenazy er sérlegur listrænn ráðgjafi. Hægt er að sjá teikningar af húsinu og umhverfi þess með því að smella hér og myndband af húsinu og meiri upplýsingar á www.tonlistarhusid.is/. og http://www.austurhofn.is
Austurhöfn er fyrirtæki sem er í eigu ríkisins (54%) og Reykjavíkurborgar (46%).
Skrifað undir samninga við Portus-hópinn um tónlistarhús
Ég held að veldisprotinn í Reykjavík sem fylgir óperuhúsinu sé nú samt ekki í höndum ríkisstjórnar eða borgarstjórnar, það er Portus sem á tónlistarhúsið, hinir eru bara leigendur þar:
Bygging og rekstur Tónlistar- og ráðstefnuhússins er svokölluð einkaframkvæmd samkvæmt samningi milli Eignarhaldsfélagsins Portus og Austurhafnar-TR. Austurhöfn- TR er fyrirtæki í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar. Íslenska ríkið á 54% í fyrirtækinu og Reykjavíkurborg 46%. Eigandi Tónlistar- og ráðstefnuhússins er Eignarhaldsfélagið Portus en ríki og borg greiða árlega ákveðið framlag samkvæmt samningi í 35 ár.
Hver á eignarhaldsfélagið Portus?
Ég fann upplýsingar um það á vefsíðu þeirra: Eignarhaldsfélagið Portus hf er félag um byggingu og rekstur Tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík. Félagið er að jöfnu í eigu Landsbankans og Nýsis hf.
Hver á eignarhaldsfélagið Portus eftir 35 ár?Verður það til þá?
Hver verður þá eigandi íslensku óperuhallarinnar?
Óperuhúsið vígt í Ósló | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.2.2008 | 17:46
Okkar á milli - Enginn vegur fær
Ég var í útvarpsviðtali í morgun á Rás 1 í þættinum Okkar á milli
Ef viðtalið spilast ekki (verður aðgengilegt næstu tvær vikur hérna á vef Rúv) þá vistaði ég það líka hérna. Þetta var spjall m.a. um félagsnet og tölvuleiki.
Viðmælandi átti að velja tvö lög til að spila í þættinum og ég valdi þau bæði af geisladisknum Loftmynd með Megasi. Það eru lögin Enginn vegur fær og Björt ljós, borgarljós
Hér er vídeo sem ég gerði um tónleika til heiðurs Megasi árið 2005:
2.2.2008 | 17:05
Vistmenning og rauðar íslenskar
Ég byrjaði áðan á greininni vistmenning á íslensku wikipedia. Ég tók saman núna um mánaðarmótin hvað ég hef skrifað margar greinar á íslensku wikipedia. Mér telst til að árin 2006 og 2007 hafi ég skrifað yfir 250 greinar. Hér er yfirlit yfir þær greinar. Það eru núna 19.729 greinar á íslensku wikipedia en á ensku wikipedia eru komnar 2.204.919 greinar sem er dáldið meira.
Það er sorglega lítill skilningur hérna á Íslandi á hvað lítil málsamfélög eins og hið íslenska hafa mikinn hag af því að byggja upp svona gagnasöfn eins og wikipedia. Allt starf á wikipedia er unnið í sjálfboðavinnu og enginn fær neina umbun fyrir það starf svo ég viti. Það er í engu mér eða öðrum til framdráttar að skrifa þar inn og oft heyri ég hnýtt í wikipedia og fundið að efni þar og hneykslast á því að þarna geti leikmenn skrifað um efni og þarna sé enginn áreiðanleiki upplýsinga. Það er nú eitthvað annað en þessi vísindalega þekking sem hleðst upp í ritrýndum gagnasöfnum.
Það er eiginlega furðulegt að ég og mörg þúsund aðrir í heiminum skuli skrifa inn í wikipedia, þar af nokkrir tugir á íslensku wikipedia. Hvað rekur okkur áfram að verja svona miklum tíma í svona forsmáða iðju?
Í janúar í ár skrifaði ég þessar greinar í íslensku wikipedia:
Ég hugsa að ég skrifi í íslensku wikipedia af því mér finnst miklu varða að fólk viti hvað hlutir eins og vistmenning er og viti hvaða menningarverðmæti er fólgin í rauðum íslenskum.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.12.2007 | 14:44
Börnin áður
Öldruð frænka mín sagði mér frá hvað allir voru hissa þegar drengirnir birtust, enginn hafði vitað af tilveru þeirra. Nágrannakona leyfði drengjunum að vera þegar maðurinn stjúpfaðir þeirra var heima. Hann koma alltaf heim í hádeginu og hann þoldi ekki drengina, þeir máttu ekki vera á heimilinu þegar hann var heima. Fengu þeir að koma inn til að sofa? Ég gleymdi að spyrja frænku mína að því. Alla vega voru þeir þarna á heimilinu þangað til móðirin kom þeim aftur í fóstur. Móðir drengjanna er löngu dáin og þeir eru líka dánir, hún fæddist fyrir meira en einni öld og ólst upp að ég held einhvers staðar á Austurlandi. Hún fór til Reykjavíkur og giftist þar. Einn daginn birtust drengirnir, sá yngri 8 ára held ég. Þeir voru sendir til konunnar frá æskuslóðum hennar, ég held þegar foreldrar hennar dóu og enginn var til að hugsa um þá lengur þar. Hún hafði ekki sagt manninum sem hún giftist frá drengjunum. Hún skildi og giftist seinna ekkjumanni og tók að sér að búa hans börnum heimili.
Ein af þeim jólabókum sem mig langar til að lesa er bók Péturs Gunnarssonar ÞÞ í fátækralandinu.Ég las ritdóm Þórdísar Það er líka hægt að búa sig til og umfjöllun Guðmundar Þórbergsbók: Á mærum skáldskapar og fræða og dóm Sigurðar Þórs Ævisaga Þórbergs: Sigurður Þór ósáttur
Rithöfundar skilja eftir sig mikið efni sem er saga um samtíma þeirra og viðhorf þeirra og lífstíl. Sumir rithöfundar eins og Þórbergur skrifa mikið um sjálfa sig og hann notar stundum fólk úr fjölskyldu sinni og umhverfi sem viðföng í list sinni. Ég skrifaði fyrir nokkrum árum (14.1.03) blogg um rit hans Sálmurinn um blómið, ég lími það inn hérna:
Sálmurinn um blómið
Þórbergur Þórðarsson skrifaði bókina Sálminn um blómið um litla stelpu. Eða kannski var hann bara að skrifa bók um sjálfan sig og barnið var þar sögupersóna til að uppgötvar veröldina í gegn um gamlan mann (Þórberg). Svo var bókin líka eins konar ritdeila á keppinautinn Halldór Laxness og skáldsöguformið. Þórbergur var mest fyrir sannar sögur. Þórbergur kallar stelpuna í sögunni alltaf litlu manneskjuna. Þessi stelpa var til í alvöru og heitir Helga Jóna Ásbjarnardóttir. Ég man eftir viðtali við hana fyrir mörgum árum í Morgunblaðinu. Það var víst ekkert skemmtilegt fyrir hana að vera þessi litla manneskja eftir að bókin kom út.
Ég veit ekki hvort hún hafi verið spurð hvort hún vildi vera þessi litla manneskja í þessari bók sem var um barn en var kannski mest fyrir fullorðna. Kannski er þetta það sama og raunveruleikasjónvarpið núna hálfri öld seinna. Í myndinni Hlemmur er brugðið upp svipmyndum af fastagestum á þessum áfangastað og fylgst með lífshlaupi þeirra um stund og reyndar líka dauða. Fyrir skömmu birtist í DV bréf frá móður og öðrum aðstandendum eins af Hlemmbúum í myndinni , titillinn var Niðurlæging út fyrir gröf og dauða og var þar deilt á upptökur og viðtöl við veikan mann.
Ég fór í fyrra á ljósmyndasýningu Mary Ellen Mark á Kjarvalsstöðum. Ég held að bók Þórbergs, kvikmyndin Hlemmur og ljósmyndir Mary Ellen eigi það sameiginlegt að vera ekki skrifaðar af og fyrir þann hóp sem er viðfang í þessum bókum, þetta eru verk sem eru skrifuð fyrir þá sem standa fyrir utan heim barnsins, flækingsins og fíkniefnaneytandans. Er þessi verk raunveruleiki eða einhvers konar sannleikur? Ég held að sá sannleikur sem felst í þessum verkum er kannski fyrst og fremst sannleikurinn um hvernig þeir sem skrifa söguna eða búa til myndverkin líta á þessa heima.
Annars er gaman að spá í hvernig fólk sér mismunandi hluti út úr skáldverkum, Birgir segir að Þögnin eftir Vigdísi Grímsdóttur sé Sálmurinn um blómið á hvolfi og segir: "Amma Lindu kallar hana í sífellu litlu manneskjuna en það er sem kunnugt er alþekkt hugtak úr bók Þórbergs Sálminum um blómið. Litla manneskjan gengur eins og eins konar leiðarstef gegnum bókina.." Svo segir Birgir að með þessu birtist rýni söguhöfundar á kynbundnum muni bókmenntanna, að karlar séu í eðli sínu sögumenn en konur upplifi án þess að miðla. Sobbeggi segir frá sálmi og blómi, Linda upplifir sálma og blóm gegnum ömmu sína og þögn hennar. Ég hlustaði einu sinni á Dagnýju Kristjánsdóttur segja frá Þögninni og þar túlkaði hún þetta sögu sem fjallar um illsku, valdbeitingu og geðklofa.
Held ég sé ekki er sammála Birgi um þessa túlkun á kynbundnum mun á bókmenntum, held hann sé eins og margir aðrir að leita að staðfestingu á sínum eigin viðhorfum í sögnum. Hér dettur mér í hug að ein umtalaðasta bókin í ár heitir RÖDDIN og er sakamálasaga eftir karlmann. Sakamálasögur eru eins konar óður til valdsins og kerfisins og viðhalds einhvers konar stjórnsýsluvaldakerfis, kannski er svoleiðis saga andstæða við bók eins og ÞÖGNIN sem er það innhverfasta af öllu innhverfu, píslarganga kraminnar sálar
Ég tek núna eftir að einmitt í ár eru þessir fjórir listamenn sem ég fjalla um í þessu gamla bloggi í sviðsljósinu, Þórbergur sem sögupersóna í bók Péturs, Mary Ellen með ljósmyndabók um fötluð börn á Íslandi og Arnaldur með bókina Harðskafl og Vigdís með bókina Bíbi. Ég ætti kannski að tengja þau aftur saman og spá í mynstrinu í þessum bókum.
En það sem ég hef mestan áhuga á að lesa um í fátækralandinu er hvaða áhrif fjölskylda Þórbergs, sérstaklega kona hans þroskar hann eða hamlar vexti hans sem listamanns og hvernig hann reyndist fjölskyldu sinni. Ég hef áhuga á því að vita hversu vel hann reyndist dóttur sinni og stjúpbörnum sínum.
19.11.2007 | 02:28
Copy
Þessi stuttmynd fjallar um manninn og tæknina. Mann sem reynir að gera afrit af stúlkunni sem hann elskar en það klúðrast. Það endar nú samt allt með eintómri sælu.