Færsluflokkur: Menning og listir

Grýla Ómars Ragnarssonar

Grýla Ómars Ragnarssonar á heima við Kárahnjúka og ef hún greiðir á sér hárið þá er það reitt og rifið eins og ryðgað víradrasl. Ég náði að festa á mynd Kárahnjúkagrýluna þar sem hún er á ferð í einum af trukkum sínum fullum af grjóthnullungum sem hún er núna að bryðja niður í sinni stóru og miklu steypuhrærivél.

karahnjukagrjotbill
Salvör teiknaði Grýlu á mynd Friðriks Dýrfjörð af grjótflutningsbíl við Kárahnjúka

 

Hér er það sem ég skrifaði um Grýlu Ómars árið 1996:

Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar

Í næstelsta kvæðinu, Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar býr Grýla stórbúskap í helli, hefur mikið umleikis og notar sleggju, járnkarl og steypuhrærivél við matargerð og étur með skóflu. Hár hennar er eins og ryðgað víradrasl. Þessi Grýla sveltur ekki, hún hefur tekið tæknina í sína þjónustu, hún eldar og umbreytir einu efni í annað og framleiðir vörur ofan í hyski sitt. Endurspeglar þessi Grýla óttablandna lotningu á framkvæmdum, stóriðju, virkjun fallvatna og beislun manna á náttúrunni? Má þekkja óvættinn á ryðguðu víradrasli? 

Brot úr Grýlukvæði eftir Ómar Ragnarsson:

Já matseldin hjá Grýlu greyi
er geysimikið streð.
Hún hrærir deig, og stórri sleggju
slær hún buffið með.
Með járnkarli hún bryður bein
og brýtur þau í mél
og hrærir skyr í stórri og sterkri
steypuhrærivél.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

Mynd mín af Hallgrími Péturssyni

Ég ætlaði á sýninguna í Hallgrímskirkju á laugardaginn þar sem margir listamenn sýna myndir sínar af Hallgrími Péturssyni en ég fór dagavillt. Ég skóp því mína eigin mynd af Hallgrími Péturssyni í þann efnivið sem ég þekki. Þemað er holdsveiki og trú, líkami og sál.

Hér er myndin:

Myndin af Hallgrími

Myndin er  er remix mitt úr þremur myndum sem ég fann á Wikimedia Commons. Þema myndarinnar er innblásin trú, mót austurs og vesturs, þeir sem eru utan gátta, veikir afskæmdir og útskúfaðir.  Bakgrunnurinn er mynd úr kórani Al Andalus frá 11. öld og mynd af holdsveikrakapellu í Cambridge. Í forgrunni er máluð mynd af íslenskri holdsveikri konu úr Íslandsleiðangri fyrri tíma.  


Olíumálverk - Snerting, sjón og tjáning

Þrjár kisur

Einhvern tíma geri ég kannski flóknari olíumálverk en þetta er sem sagt mynd af þremur málverkum eftir mig sem ég var að klára.  Fyrsta myndin er um snertingu, næsta mynd um það sem maður sér og þriðja myndir er um tjáningu. Ég rúllaði bláa grunninn með lítilli málningarrúllu. Það kemur bara vel út, liturinn verður þynnri en ella.


Ekki frétt dagsins - Coldplay semur ný lög

Vá, hljómsveitin Coldplay mun flytja ný lög á hljómleikaferð sinni í Suður-Ameríku. Mogginn færir okkur þessa mögnuðu frétt.  Ásamt því að ástandið í Írak sé verra en borgarastyrjöld.  Ég geri góðlátlegt grín að Mogganum fyrir heimóttarlegar fréttir en ég vil miklu frekar búa í heimi þar sem það er helst í fréttum að skapandi  tónlistamenn haldi áfram að vera skapandi tónlistamenn og miðli list sinni heldur en að umsátursástand um óbreytta borgara, ringulreið og ótti sé meiri en orðaforði okkar þekur. Hvað kallast ástand sem er verra en borgarastyrjöld?
mbl.is Coldplay flytur ný lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menning heimsins er rituð í leir

Ég held að maður læri mest með að vinna að einhverju verkefni, að búa til eitthvað, að skapa eitthvað. Það skiptir ekki öllu máli hvað kemur út, það er ferlið sem skiptir mestu máli, að nota ferlið til að mennta sig  á sem víðustu sviði og opna hugsun sína. Það skiptir líka máli að vera í samræðu við sjálfan sig og skrásetja ferlið á einhvern hátt - í minnisbækur, í rissbækur, í nótissubækur eða í blogg. 

Í síbreytilegu samfélagi  skiptir líka máli að vera alltaf að læra eitthvað nýtt, eitthvað sem lætur hugsunina tengjast á annan hátt og eitthvað sem er "out of your comfort zone". Ég er núna á leirmótunarnámskeiði og ég nota sjálfa mig til að praktísera það sem ég prédika þ.e. að nota blogg sem leiðarbók við hugmyndavinnu og  persónulega þroskasögu tengt viðfangsefninu, ég reyni að skrá í blogg allt sem viðvíkur námskeiðinu og þær hugmyndir sem ég fæ.

Slóðin á bloggið er http://leirmotun.blogspot.com

Mér finnst gaman að nota þennan tíma sem ég er á námskeiðinu til að spá í sögu leirlistar sem hluta af tæknisögu heimsins og hvernig leir samtvinnast ritmáli og táknrófi en elstu menjar ritmáls eru  fleygrúnir Súmera.

Hér er mynd af mununum okkar, þetta eru einir fyrstu leirmunirnir sem við brenndum. Þeir eru unnir úr steinleir sem er hábrenndur og við notum glerunga sem Ásrún hefur búið til. Ég á vasann og blómapottinn til hægri.

Glerjaðir leirmunir

Ég vann þessa muni með plötuaðferð og svo þrykkti ég mynstrið með leirstimplum. Svo voru munirnir brenndir í lágbrennslu og þá voru þeir tilbúnir fyrir glerjun. Ég glerjaði að utan með svampi og reyndi að láta glerunginn fara ofan í mynstrið og svo hjálpaði Ásrún mér að glerja að innan með að hella glerung í mótið. Ég hef prófað bæði steinleir og rauðleir (terra cotta) og ýmsar aðferðir eins og að rista mynstur í leðurharðan leir.

 

 


Orð dagsins er Pískirís

"Tá eg smelti mars røri eg altíð við pískirísi, so sleppi eg undan klumpum."

Það er ótrúlega gaman að lesa færeysku, svo myndrænt og öðruvísi mál. Ég hélt að pískirís væri  sjálfspyndingatól svona eins og ég hef séð í útlenskum fréttaskotum þar sem píslarvottar og einsetumenn berja sig með svipum við hátíðlegar athafnir við skrúðgöngur í kringum föstudaginn langa svona til að sameinast Jesús síðusári. 

Svona sjálfspyntingarlosti er líka oft leiðarstefið í sögum  kvenna sem ganga út á fórnarlund og kvöl og  eru svona leiðbeiningar um hvernig á að kóa með ölkum og lifa lífinu í gegnum augu annarra. 

Já færeyskan er stórkostlegt tungumál. Það þarf ekki annað en að lesa setningarbrot úr matreiðsluuppskrift á færeysku um hvernig maður bræðir marens og hrærir í á meðan til að það hlaupi ekki allt í kekki  til að lyfta andanum í æðstu hæðir og fara að pæla í bókmenntun og kvöl heimsins og frelsarans og kvöl konunnar.


Ævisaga Hannesar

Fréttablaðið 21. nóv - Ævisaga HannesarÍ Fréttablaðinu í dag  (bls. 46) þá er umfjöllun um ævisögu Hannesar fyrsta bindi og er fátítt að bækur óþekkra ævisagnaritara eins og þetta ritverk Óttar Martins Norðfjörð fái svo mikla umfjöllun. Virðist umfjöllunin álíka mikil að vöxtum og stærð og bókin sjálf.  Þetta er náttúrulega líka meira í anda þeirra tískustrauma sem hafa verið í ævisagnaritun undanfarin ár, það eru miklu fleiri sem lesa og grufla í alls konar heimildarvinnu varðandi verkin og spá í hver sagði hvað og hver mátti afla upplýsinga um hvað og hver mátti vitna í hvað hver sagði við hvern og hvernig má hafa eftir orð annarra og hver ætti bara að halda kjafti.

Verk Óttars er sennilega listrænn gjörningur hans og óska ég honum alls hins besta á skáldbrautinni, hann hefur samið einnar blaðsíðu sögu og mun eflaust sækja um skáldalaun í opinbera sjóði til frekarri afreka á næstu árum.

En ég  vona að þessi umfjöllun í Fréttablaðinu sé ekki einhvers konar liður í því að klekkja frekar á Hannesi, mér sýnist það vera nóg komið og æði ójafn leikur. Auðmenn á Íslandi hafa möguleika á að tryggja að umfjöllun um sig og fjölskyldu sína sé þeim þóknanleg og það hefur meira segja komið fram í fjölmiðlum að þeir  hafa reynt að kaupa upp dagblöð beinlínis til að leggja þau niður vegna þess að þeir firrtust vegna umfjöllunar um fjölskyldusögu.

Eins hafa fjölskyldur þjóðþekktra rithöfunda sem stóran hluta af sínum starfsferli voru styrktir til skrifa sinna af almennafé gefið þjóðinni skjalasöfn þeirra við hátíðlega athöfn en svo hefur komið á daginn að þessi þjóð  var bara þeir sem fjölskyldan hafði velþóknun á og þetta var bara gjöf til fárra útvalinna.

Það hefur reyndar engin bók undanfarin ár fengið jafnmikla umfjöllun og fyrsta bindið af ævisögunni sem Hannes skrifaði um Halldór Laxness. Eftir einhverja áratugi verður þessi umræða eflaust notuð sem dæmi um tíðarandann á Íslandi rétt eftir árþúsundamótin.  

Myndin hér til hliðar er skjámynd af frétt Fréttablaðsins bls. 46 í dag 21. nóvember 2006. Um rétt minn (eða réttleysi) til að birta þessa mynd og vitna í þessa umræðu Fréttablaðsins þá má benda fólki á að lesa um höfundarétt á Internetinu

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband