Glærugerð í Google

Nú er Google docs komið með gasalega smartan glærufídus þannig að fólk getur farið að leggja Powerpoint glærugerðarpakkanum. Það er miklu þægilegra að vinna glærurnar beint á vefnum og vista þær líka á vefnum þá losnar maður við allt umstangið að hafa ákveðinn hugbúnað settan upp.

Þetta er nú reyndar frekar einföld glærugerð núna, nokkurs konar leikskólaútgáfa af Powerpoint. En það stefnir allt í það að svona hugbúnaður fari á Netið. Þetta hefur miklu þýðingu fyrir skólanema, það er miklu einfaldara að búa til efni til að setja á vefinn ef maður þarf ekkert að spá í að vista hann neins staðar eða hlaða niður eða hlaða upp einhverjum skrám.

Það er ekki hægt að nota Google docs nema skrá sig inn á google og fá gmail netfang.Ég bjó til skjákennslu (4 mín og 7 mín um google presentations) og gerði líka leiðbeiningar um þetta kerfi. 

Hérna eru leiðbeiningarnar mínar um Google Presentations 

hér er dæmi um hvernig glærusýningu maður getur gert í Google presentations núna.

Hér er leiðbein um hvernig hægt er að setja google glærur inn á vefsíðu (iframe sem t.d. moggabloggið leyfir ekki) 

 


Sjokk kapítalismi

Það er margt sniðugt í skrifum Miltons Friedmans t.d. kenningum hans um verðbólgu og hugmyndir hans um skólanám sem  er svipuð hugmynd og frístundakortin sem núna eru hjá Reykjavíkurborg þ.e. að þeir sem njóti menntunarinnar ráðstafi sjálfir styrk eða niðurgreiðslu. En taumlaus frjálshyggja er  trúarbrögð hinna ríku eða þeirra sem halda að þeir séu í forréttindastöðu eða líklegir til að komast í forréttindastöðu í lífinu, trúarbrögð til að réttlæta að fátækt og umkomulaust fólk sé svipt mannréttindum og aðgangi að gæðum þessa heims.

Það er nýkomin út áhugaverð bók um sjokk kapítalisma. Þetta virðist áhrifamikil bók ef marka má þetta myndskeið um bókina:

 

 Sjá viðtal og upplýsingar um höfundinn Naomi Klein

The Shock Doctrine: Naomi Klein on the Rise of Disaster Capitalism

 

http://www.naomiklein.org/main


Fjölmiðlar og eigendur þeirra - Bestu auðmenn Íslands

Það er gaman að fylgjast með ólgunni í íslenskum fjölmiðlaheimi, stundum held ég að þúsundir manna séu að skrifa og tala lon og don, mörg hundruð þeirra á launum hjá einhverjum skrýtnum útgáfufyrirtækjum með tölur í nöfnunum, með nöfn sem minna mig á tvö hundruð þúsund naglbíta - en flestir eru þó eins og ég ekki á launum hjá neinum og skrifa af einhvers konar tjáningar- og samskiptaþörf. 

Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar ágætt blogg Af sjálfstæðum og óháðum miðlum þar sem  hún bendir á hversu innantóm þau orð eru þegar fjölmiðlar halda fram að þeir séu frjálsir og óháðir. Einn ritfærasti bloggari þessa lands Guðmundur Magnússon hefur núna gengið til liðs við DV og bloggar þar á nýjum vefmiðli dv.is tekur þetta óstinnt upp og kallar skrif Guðbjargar Fljótfærnisleg skrif

Guðmundur vill eins og aðrir fjölmiðlamenn sem eru á launum við að ganga erinda eigenda sinna halda í þá ímynd að þeir séu alveg óbundnir af því að skrifa um það sem eigendurnir hafa velþóknun á - já og geti skrifað alveg óhræddir um það sem eigendurnir vilja ekki að sé skrifað um.

Þetta veit  náttúrulega enginn betur en ritsnillingurinn Guðmundur enda hefur hann skrifað Sögu Thorsaranna en þeir sem höfðu fengið Guðmund í það verk og greiddu honum ritlaun töldu að hann hefði ekki sagt söguna eins og átti að gera og fyrsta upplaginu var hent og sagan prentuð aftur án frásagna sem stuðuðu þá sem greiddu verkið.

Frásögnin sem klippt var úr bókinni   kom í DV og varð til þess að einn afkomandi Thorsara vildi kaupa DV gagngert til að leggja það niður. Guðmundur Magnússon veit því  manna best hverjum klukkan glymur í íslenskri fjölmiðlum enda segir hann "Dv.is er sjálfstæður miðill í þeim skilningi að hann hefur eigin  ritstjórn og er rekinn sem sérstök eining  innan DV útgáfufélags ehf.". 

Við hin getum lika tekið undir með Guðmundi og öðrum fjölmiðlamönnum og talað mikið og oft um tjáningarfrelsi okkar til að dáleiða okkur sjálf til að halda að það sé sannleikur. Nú eða kannski það sem er skemmtilegra,  að stunda sjálfsefjunina með því að raula undir með Megasi í kvæðinu hans "Ég á mig sjálf".

Fyrsta erindið er svona:

Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf 
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
en Mammaboba
starfrækir mig. 


Dagur opins og frjáls hugbúnaðar

young-softwarefreedomÍ dag er Softwarefreedomday 2007 eða dagur þar sem vakin er athygli á frjálsum og opnum hugbúnaði. Það er mjög mikilvægt í skólastarfi að hafa aðgang að góðum hugbúnaði og ekki síst hugbúnaði sem er uppfærður og sem auðvelt og leyfilegt er að aðlaga að þörfum notenda. Það hættir mörgum við að einblína á að það verði að kaupa tölvur fyrir börnin en það er ekki nóg, það skiptir meira máli til hvers þau nota tölvuna. Það er ekki nóg að hafa fullkomin tæki  fyrir nemendur ef enginn hugbúnaður er til að nota þau. 

Einu sinni var hugbúnaður alveg fáránlega dýr. Núna bjóðast skólanemum Office forrit á mjög hagkvæmum kjörum. Það eru fín forrit. En það eru líka til opin og ókeypis útgáfa af sambærilegum forritum Open Office.  

Ég nota núna margs konar opinn hugbúnað með nemendum. Sérstaklega vil ég nefna Mediawiki, Moodle og Elgg. Það eru allt kerfi sem eru í mikilli þróun. 

Ég hélt upp á daginn með því að vera mest allan daginn að pæla í opnum hugbúnaði og setja upp nokkur vefsvæði með slíkum forritum þ.e. með Mediawiki, Wordpress og Moodle.

Sigurður Fjalar   og Fjóla  og Ella Jóna hafa nýlega skrifað  góðar blogggreinar um hvernig þau nota og sjá fyrir sér hvernig má nota opnar lausnir í skólastarfi. Við erum mörg sem notum opinn hugbúnað jafnt í háskóla, framhaldsskóla, grunnskóla og leikskóla.

Á Softwarefreedomday árið 2006 stofnuðum við félag um opinn hugbúnað í skólastarfi.

Ég setti í dag upp Wordpress vef fyrir það félag á isfoss.org

3F félag um upplýsingatækni og menntun er nýbúið að setja upp finan vef joomla vef  á 3F.is 

Það hefur orðin mikil breyting  á seinustu misserum  í viðhorfi þeirra sem sjá um tölvuumhverfið á mínum vinnustað til opins hugbúnaðar. Núna er skilningur og áhugi fyrir opnum hugbúnaði og ég og Sólveig höfum fengið aðstöðu til að prófa slíkan hugbúnað með nemendum. Vonandi vaknar áhugi hjá Námsgagnastofnun og fleiri aðilum í menntakerfinu á mikilvægi opins aðgangs bæði að hugbúnaði og námsgögnum.


mbl.is Verðið á „100 dollara fartölvunni“ komið í 188 dollara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morðinginn í næsta húsi

Á meðan borgarstjórinn í Reykjavík spáir í hvort bjórinn eigi að vera volgur eða ekki til að slá á rósturnar og ólætin í miðbæ Reykjavíkur á næturna þá er minn veruleiki annar. Ég fer sjaldan í miðbæinn en ég er stundum lengi að vinna frameftir á vinnustað mínum. Þegar ég fer þá er ég alltaf hrædd og það er ekki að ástæðulausu. Þar hefur oft verið brotist inn og núna nýlega gekk samstarfsmaður minn fram á hóp þjófa sem voru búnir að brjóta upp innganga og voru að leita að ránsfeng þegar hann kom til vinnu í morgunsárið. Þjófarnir leggja bílum bak við húsið í myrku porti einmitt þar sem er bílastæði starfsmanna eins og mín.

Ég bý í Teigahverfinu og úr bakgarðinum sem snýr að Laugateig þá er ég andspænis við Laugateig 19 sem er hús Verndar. Þar er nú fangelsi, ég held að allir sem þar sitja séu að afplána dóma. Það hefur aldrei verið borið undir íbúana í þessu íbúahverfi hvort þeir séu samþykkir því að hættulegir ofbeldismenn og fangar séu vistaðir þar. Við vitum ekki af því nema þegar þeir sleppa lausir.

Ég hef oft vakið athygli á þessu sjá m.a. þetta blogg: 

Hættulegir fangar í opnu fangelsi - Fangar á Vernd hafa oft brotið af sér

 

Við vitum ekki af því nema þegar þessir fangar brjóta af sér þegar þeir eru á Vernd. Þannig kom í fréttum að þarna hafa dvalið  Stóragerðismorðinginn, Sólbaðstofuræninginn og Gústi guðsmaður sem Kompás afhjúpaði þegar hann var að reyna að véla börn. Núna er frétt í DV "Harðsvíraður morðingi gekk laus" þar sem kemur fram núna á aðfaranótt sunnudagsins hafi strokið af heimili Verndar að Laugateig 19  annar tvíburanna sem myrtu mann á hrottafenginn hátt  í Heiðmörk og keyrðu yfir hann margoft.  

Þessi morðingi í hverfinu mínu mun hafa gengið laus í nokkra daga. Það kemur fram í DV að Valtýr Sigurðsson fangelsismálastjóri taldi ekki ástæðu til að auglýsa eftir tvíburamorðingjanum vegna þess að hann vildi vernda hinn tvíburann... 

En hver verndar mig og aðra íbúa hverfisins sem ég bý í og hver verndar mig og aðra starfsmenn í húsinu sem ég vinn í? 

 


Skrappblogg og skissublogg

Ég var að uppgötva að það er fjöldinn allur af íslenskum skrapp og skissubloggurum. Ég reyndar vissi ekki fyrr en í dag hvað skrapp merkir og að orðið að skrappa væri notað um það sem á ensku heitir scrap booking og stundum hefur líka verið þýtt með úrklippubækur.

Þessi tegund af alþýðulist árþúsundamótanna er mjög áhugaverð, það virðast margir fá útrás fyrir sköpun og list með því að útbúa og skreyta myndabækur. Þetta er örugglega fyrirboði þess að það stafrænt föndur verði vinsælt, það er upplagt að vinna svona skreytingar í tölvu. Reyndar er upplagt að búa til textaverk svona, ég þarf að prófa mig áfram með það. Ég bjó til þessa skrappmynd áðan úr nokkrum tölvubakgrunnum

skrapp1

Ég ákvað að skrappa með myndir sem ég tók einu sinni á 1. maí af femínistum svona til að minna á að meðan rapp er strákamenning þá er skrapp kvennamenning og það er iðja sem gjarnan er stunduð af konum með ung börn eða ömmum sem eru að búa til minningabækur um líf fjölskyldna sinna.

Hér eru nokkur skrapp- og skissublogg, það er margt hægt að læra um þessa nýju listgrein á því að lesa þau:

* http://skrappkelling.wordpress.com
* http://liljuskrapp.blogspot.com
* http://www.scrap.is/spjall/index.php Skrappspjallsvæði
* http://heijublogg.blogspot.com
* http://hannakjonsd.blogspot.com/
* http://saeunns.blogspot.com/
* http://thesketchplace.blogspot.com/
* http://skissublogg.blogspot.com/
* http://rosabjorgb.blogspot.com/

Ég sé að ég skrifaði fyrir fimm árum eða 23.8.02 blogg um skrapp. Þá kallaði ég þessa iðju klippibækur. Best ég lími það hérna inn: 

Klippibækur - Alþýðulist nútímans

Nú þegar svo margir hafa aðgang að tölvu og stafrænni myndavél þá má búast við að fólk noti þessa verkfæri fyrir það sem því finnst skemmtilegt og eitt af því er að búa til eigin minningabækur - safna saman og skrá og sýna efni um nánasta umhverfi. Mér finnst gaman að spá í hvernig eitt nýtt tómstundagaman scrapbooking hefur breiðst út. Þetta er að búa til eigin mynda- og textamöppur, gjarnan með ýmis konar pappírsklippi. Þetta gengur út á að búa sjálfur til skemmtilegar úrklippibækur. Sennilega mun þetta vera undanfari tómstundagamans þar sem fólk gerir svona stafrænar myndabækur og setur upp á Netinu.


Óshlíðarvegur er mesta mannvirkið

BolungarvíkurvegurÞað eru mörg mannvirki á Vestfjörðum sem eru stórvirki. En ég er ekki í vafa um hvað ég myndi telja mesta mannvirki Vestfjarða. Það er Óshlíðarvegurinn. Það er nú samt svo að þessi vegur verður ekki þjóðleið miklu lengur, honum verður væntanlega lokað þegar göngin koma til Bolungarvíkur.

Í framtíðinni mun fólk ganga um vegarsvæðið og undrast hve erfið skilyrði og hrikaleg Bolvíkingar bjuggu við, sjá alla vegaskálana, grjóttálmana, snarbratt fjallið fyrir ofan og sjóinn fyrir neðan.

Sums staðar fossar vatn niður, hér til hliðar er mynd sergio350d  af Óshlíðarvegi.

Ég myndi setja  Vestfjarðargöngin í annað sæti og svo nýja þorpið í Súðavík í þriðja sæti og í fjórða sæti myndi ég nefna Radarstöðina á Bolafjalli.

 

 


mbl.is Fjölmargar tilnefningar á sjö undrum Vestfjarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókakynningar og flugseinkanir

Er von að ég nenni ekkert að blogga um fréttir? Ég fékk samviskubit yfir að ég væri allt of mikið horfin inn í netheiminn og pældi ekki í öðru en veseni við að setja inn og tvinna saman módúla í mediawiki. Nema hvað ég ákvað að renna yfir fréttirnar til að fylgjast með hvað væri að gerast í heiminum. Það var þá stórfrétt á moggavefsíðunni að Ísland ætli að taka þátt í einhverri bókasýningu og svo mýgrútur af fréttum yfir að þessi og hinni flugvélinni seinkaði frá útlöndum vegna þess að helsti hasarinn á Íslandi í dag eru flugmenn sem fara sér að engu óðslega í mótmælaskyni. 

Jú og svo hefur það fréttnæma gerst í vikunni að utanríkisráðherra okkar kallaði íslenska herinn heim, hana Herdísi. Það er sennilega meiri þörf á henni núna hérlendis eftir að Rússarnir eru farnir að sveima hérna yfir háloftunum, það þarf að vera í viðbragðstöðu út af því og íslenski herinn verður að vera á vaktinni Smile

Svo eru fjölmiðlar fullir af einhverjum fréttum yfir þessu framboði Íslands til öryggisráðsins og að Microsoft vilji að hér sér netþjónabú. Sama hvað ég reyni að horfa víðsýnt á þetta þá finnst mér þetta hvort tveggja mjög skrýtið, ég sé engin haldbær rök fyrir því að Ísland - nú eða eitthvað annað örríki heimsins eigi að vera í þessu öryggisráði og mér finnst afar vafasamt að hafa einhver netþjónabú hérlendis á meðal það þarf ekki annað en klippa í sundur tvo víra og þá er landið sambandslaust.

En það er nú út af fyrir sig forréttindi að búa í ríki þar sem væntanlegar bókakynningar eftir eitt ár og seinkanir á flugi eru aðalfréttamálin - alla vega á tímum þar sem fréttamennska er einhvers konar frásagnarlist hrakfara og harmleikja og erfiðleika. 


mbl.is Menningarútrás í vændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vídeó, hljóð og krossapróf á wikisíðum

Ég er núna orðin sérfræðingur í mediawiki, ég er búin að setja upp sýnishorn af wikilexíu með vídeó, hljóði og gagnvirku krossaprófi

 

Sennilega kannast flestir   við alfræðiritið Wikipedia sem núna er orðið eitt stærsta alfræðirit heimsins. Flestir lenda einhvern tíma inn á wikipedia greinum þegar þeir nota leitarvélar á vefnum.  Wikipedia keyrir á kerfi sem heitir mediawiki og það er opinn hugbúnaður sem hægt er að sækja ókeypis á Netinu. Það er búið að þýða (að mestu leyti) þetta kerfi á flestar þjóðtungur og margir kunna á svona vefi.

Fyrst var wikipedia bara fyrir texta og svo komu myndir og nú eru margar wikipedia greinar ríkulega myndskreyttar, myndirnar eru geymdar á gagnagrunninum commons.wikimedia.org

En í dag nægir okkur ekki að hafa bara vefsetur sem eru texti og myndir og tengingar. Við viljum hafa möguleika á að spila hljóð, setja inn vídeómyndir og alls konar veftól (gadgets) t.d. landakort sem við getum skráð inn á.

Við sem kennarar viljum líka hafa einhverja gagnvirkni t.d. að nemendur geti prófað þekkingu sína.

Ég er að gera tilraunir með ýmsar aukaviðbætur í mediawiki á  wikisvæði sem ég er með erlendis. Þar setti ég upp viðbót við Mediawiki sem gerir kleift að spila hljóð  (á mp3 formi) og setja inn vídeó frá Youtube og Googlevideos. Ég setti líka upp sniðuga viðbót til að gera krossapróf þar sem nemandinn getur prófað kunnáttu sína og einnig viðbót til að setja inn hljóð.

 

Fyrir kennara og nema  er afar einfalt að setja inn vídeó og hljóð og krossaspurningar þegar svona wikiviðbætur eru komnar:

Hér er dæmi:

Hljóð er sett inn með einni skipun, þá kemur sjálfkrafa lítill spilari:

<mp3>nafn á hljóðskrá </mp3>


Vídeó (embedded video) er t.d. frá Youtube sett inn með svona skipun:

{{#ev:youtube|vídeónúmer}}

 

Krossaprófsspurningar   er settar inn með einfaldri skipun (sjá dæmi, + fyrir framan rétt svar)

Hér er dæmi um hvernig ég setti inn fyrstu spurningu, allar eru svo eins upp byggðar

 

<quiz>

{Spurning Hverjir stunduðu fálkaveiðar?

|type="()"}

- hansakaupmenn

+ konungur og aðalsmenn

- tyrkneskir sjóræningar

- bændur sem bjuggu í grennd við fálka

..... svo koma eins margar spurningar og maður vill .....

</quiz>

 

Þetta er miklu einfaldara en að nota önnur vefsmíðaverkfæri.

Það má sjá hvernig þetta þetta kemur út á þessari wikisíðu hjá mér:

http://www.esjan.net/wiki/index.php?title=Rj%C3%BApur_og_f%C3%A1lkar

 

Wiki er ótrúlega flott tækni, það má geta þess að hönnuður fyrsta wikikerfis hafði bakgrunn í kerfinu Hypercard frá Apple. Miklar vonir voru bundnar við það kerfi en þær gengu nú ekki eftir. Það er nú samt þannig að góðar hugmyndir lifa áfram og þróast og koma fram á öðruvísi hátt í öðrum umhverfum seinna.

Tæknin breytir landslagi samskipta okkar. Þeir sem nota wikikerfi og eru vanir að vinna í þannig umhverfi skipuleggja t.d. ráðstefnur öðruvísi. Það gegnur allt út á svona spuna á wiki, helst engin dagskrá fyrirfram og þetta er meira segja kallað "unconference".

Wiki er "disruptive technology" eða byltingartækni sem hefur þegar haft mikil áhrif á vinnubrögð á vef. 


Vefhýsing fátæka mannsins.. á linux

Ég er búin að vera núna í marga klukkutíma að baxa við að uppfæra Mediawiki vef sem ég er með til ýmissa tilrauna. Ég er með  lén og tilheyrandi vefsvæði á dreamhost.com vegna þess að það er svo ódýrt og þó aðallega vegna þess að þeir bjóða upp á það sem þeir kalla "one click installs".

Dreamhost er reyndar ekki með fantastico  og cpanel sem er innsetningarbúnaður sem margir vefhýsingaraðilar bjóða. Fantastico er mjög flott og afar einfalt að setja inn forrit, það er mjög einfalt t.d. að setja upp wordpress blogg þar eða moodle  vefi.  En því miður er Mediawiki ekki meðal forritana sem eru í Fantastico pakkanum og því valdi ég Dreamhost vegna þess að það á sem sagt að vera hægt að setja upp Mediawiki með einum músasmelli.Það er reyndar ekki erfitt að setja upp Mediawiki en það þarf alltaf öðru hverju að uppfæra forritin og ég var að uppfæra í dag. Þá krassaði allt og ég fann ekki út úr hvað hefði gerst þannig að ég setti inn svona hjálparmiðabeiðni í notendaþjónustu Dreamhost.

Ég fékk strax svar, þar sem stóð að það þyrfti alltaf að keyra eitthvað uppsetningardæmi þegar uppfært væri og ég yrði líka að passa að hafa sett upp php 5 ekki php 4. Ég var búin að því, ég var búin að lesa mér til um það. Svo stóð að ég ætti að fara í skeljaraðgang og skrifa inn einhverja skipun. Ég fann út úr því hvernig ég færi í þennan skeljaaðgang og hlóð niður einhverju telnet forriti Puffy til þess, komst inn og sló inn skipunina. Það gekk ekki. Svo ég skrifaði aftur. Fékk svar aftur um að prófa eitthvað annað, ég gerði það, virkaði ekki og ég skrifaði aftur út, fékk þá  að það væri hægt að velja um tvær skipanir og ég ætti að prófa að slá inn eitthvað svona:

/usr/local/php5/bin/php

/home/vefslodnet/vefslod.net/wiki/maintenance/update.php

Ég gerði það og  þetta virkaði ekki, ég skrifaði aftur til baka og sagði frá því og þá prófaði hinn það sjálfur og það gekk  og það kom bréf frá honum að þetta hefði gengið  og það yrði allt að vera í einni línu. 

Hmmm... ef þetta er dæmi um one click installs þá... Tæknimaðurinn sem ég var í bréfaskiptum við í dag virtist gefa sér að ég fyndi það á mér að einhver langloka sem hann skrifar í bréfi í tveimur línum ætti að setjast saman í eina línu. Þetta er líka dæmi sem skýrir út hvers vegna ég er komin yfir í þennan linux heim, hann er stundum svona eins og þetta dæmi. 

Annars talandi um Mediawiki þá er það sama kerfið og Wikipedia keyrir á og er bara ansi þjált wikikerfi, alla vega fyrir okkur sem erum orðin vön kerfinu. Allt á íslensku og mikið framþróun í því því að margt af fólkinu sem skrifar og setur upp wikipedia vinnur í framþróun Mediawiki. Það er auðvitað opinn hugbúnaður svo hver sem er getur tekið hann og notað.  Svo er ég búin að kynna mér að það er hægt að fá alls konar viðbætur t.d. til að hægt sé að spila youtube videó og hafa gagnvirk próf og ég er að reyna að setja það inn.

Hér er eru nokkrar spurningar sem ég gerði sem dæmi um prófaviðbótina sem hægt er að fá  á Mediawiki og hér er dæmi um viðbót til að setja vídeó inn á mediawiki. það er líka hægt að sækja sér viðbót til að krakkar geti teiknað saman eina mynd.

Það er reyndar pirrandi að kunna ekki sjálf nógu mikið í þessu php/linux uppsetningarmálum og þurfa að vera háð tæknifólki um það. Það virkar ekki vel og ég ætla því að finna sjálf út úr því hvað þarf að gera. 

Það er ekki nóg að það sé auðvelt að setja forrit upp í fyrsta skipti, það er mjög mikils virði að það sé auðvelt að uppfæra þau, það er nú einmitt meira í húfi því þá eru kannski komin mikilvæg gögn í gagnagrunn sem vera að virka og vera aðgengileg í nýju uppfærslunni. 

Flestar ókeypis vefhýsingar eru geymdar erlendis, einhvers staðar þar sem hýsing er ódýr. Þetta vefhotel.com sem bauð íslenska vefhýsingu var bara eitt svoleiðis dæmi, svoleiðis vefþjónustur eru gjarnan hýstar af stórum aðilum eins og dreamhost.

Það er ódýrt fyrir marga aðila að slá saman og vera með vef t.d. hjá dreamhost. Það má hafa mörg lén á hverju svæði þar og fyrsta lénið er frítt en næstu kosta svona 6 til 10 dollara á ári þannig að það er hverfandi kostnaður að vera með sitt  eigið .net lén á dreamhost. 

Ódýrar vefhýsingar eru t.d.

http://www.dreamhost.com 

http://www.site5.com/ 

http://www.mediatemple.net

 Það kostar mig ekki nema um 500 krónur íslenskar á mánuði að hafa svæði á Dreamhost þar sem ég get núna geymt allt að  250 Gígabyte. Sú heimild stækkar með hverri viku. Ég var reyndar að taka eftir að ég er ekki að nota nema 2% af því plássi sem ég má nota. Ég má setja upp eins marga Mysql gagnagrunna eins og ég vil, eins mörg lén og ég vil og ég get sett upp ftp aðgang.

Svo ef maður er blankur og vill ekki borga neitt fyrir vefhýsingu þá er hægt að fá ókeypis vefsvæði víða. Það er hægt að setja upp flotta vefi án auglýsinga á googlepages og svo er líka hægt að fá ókeypis vefsíður á http://www.freewebs.com/  og ókeypis wiki t.d.  á  PBwiki.com og  wikidot.com

Ef maður þarf bara geymslustað fyrir stafræna draslið sitt þá er hægt að koma sér upp geymslu á Box.net  það er ókeypis alla vega 1 GB og kostar ekki mikið að stækka svæðið.

Það er  oftast betra fyrir leikmenn að notfæra sér vefþjónustur sem bjóða upp á tæki til að setja upp sjálfvirkt þannig að maður þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af uppsetningu.  En þá hefur maður líka minna frelsi til að aðlaga umhverfið. Sérstaklega bagalegt er að þá er umhverfið yfirleitt á ensku og ekki hægt að íslenska.

 

Það er reyndar mjög áhugaverð grein um vefhýsingar á http://news.netcraft.com/ 

Þar má sjá að markaðshlutdeild Microsoft vefþjóna er að aukast

vefthjonar

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband