Morðinginn í næsta húsi

Á meðan borgarstjórinn í Reykjavík spáir í hvort bjórinn eigi að vera volgur eða ekki til að slá á rósturnar og ólætin í miðbæ Reykjavíkur á næturna þá er minn veruleiki annar. Ég fer sjaldan í miðbæinn en ég er stundum lengi að vinna frameftir á vinnustað mínum. Þegar ég fer þá er ég alltaf hrædd og það er ekki að ástæðulausu. Þar hefur oft verið brotist inn og núna nýlega gekk samstarfsmaður minn fram á hóp þjófa sem voru búnir að brjóta upp innganga og voru að leita að ránsfeng þegar hann kom til vinnu í morgunsárið. Þjófarnir leggja bílum bak við húsið í myrku porti einmitt þar sem er bílastæði starfsmanna eins og mín.

Ég bý í Teigahverfinu og úr bakgarðinum sem snýr að Laugateig þá er ég andspænis við Laugateig 19 sem er hús Verndar. Þar er nú fangelsi, ég held að allir sem þar sitja séu að afplána dóma. Það hefur aldrei verið borið undir íbúana í þessu íbúahverfi hvort þeir séu samþykkir því að hættulegir ofbeldismenn og fangar séu vistaðir þar. Við vitum ekki af því nema þegar þeir sleppa lausir.

Ég hef oft vakið athygli á þessu sjá m.a. þetta blogg: 

Hættulegir fangar í opnu fangelsi - Fangar á Vernd hafa oft brotið af sér

 

Við vitum ekki af því nema þegar þessir fangar brjóta af sér þegar þeir eru á Vernd. Þannig kom í fréttum að þarna hafa dvalið  Stóragerðismorðinginn, Sólbaðstofuræninginn og Gústi guðsmaður sem Kompás afhjúpaði þegar hann var að reyna að véla börn. Núna er frétt í DV "Harðsvíraður morðingi gekk laus" þar sem kemur fram núna á aðfaranótt sunnudagsins hafi strokið af heimili Verndar að Laugateig 19  annar tvíburanna sem myrtu mann á hrottafenginn hátt  í Heiðmörk og keyrðu yfir hann margoft.  

Þessi morðingi í hverfinu mínu mun hafa gengið laus í nokkra daga. Það kemur fram í DV að Valtýr Sigurðsson fangelsismálastjóri taldi ekki ástæðu til að auglýsa eftir tvíburamorðingjanum vegna þess að hann vildi vernda hinn tvíburann... 

En hver verndar mig og aðra íbúa hverfisins sem ég bý í og hver verndar mig og aðra starfsmenn í húsinu sem ég vinn í? 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Stórum spurningum vilja menn helst ekki svara.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 14.9.2007 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband