Hættulegir fangar í opnu fangelsi - Fangar á Vernd hafa oft brotið af sér

Það er afar athyglisvert að hlusta á þetta  fréttaskot á Stöð 2 um fangelsið á Laugarteig

 Boðað til stjórnarfundar eftir Kompás

Hvernig getur fangelsismálastjóri verið forviða yfir að fangar brjóti af sér þegar þeir eru að afplána í Vernd? Það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem það gerist. Ég hef sjálf oftar en einu sinni á liðnum árum  haft samband við Fangelsismálastofnun og borið fram kvörtun sem íbúi í nærliggjandi húsi og beðið um upplýsingar vegna þess að birst hafa fréttir um að hættulegir glæpamenn í afplánun hafi verið vistaðir í húsi Verndar við Laugateig og brotið af sér á meðan og verið færðir í böndum aftur á Litla Hraun. 

Ég hef reynt bæði að vekja athygli Fangelsismálastofnunar og fjölmiðla á því að það er eitthvað bogið við það að í húsi í venjulegri íbúðargötu sé opið fangelsi þar sem hættulegir glæpamenn eru vistaðir en þessir sömu menn séu vistaðir í últra öryggisgæslufangelsi með tvöföldum rafgirðingum ef þeir eru hinum megin við Hellisheiðina, á Litla Hrauni.  Hvernig má það vera að það sé hægt að læða fangelsi inn í íbúðarhverfi og vista þar alls konar geðveila menn í opnu fangelsi án þess að nokkur íbúi í hverfinu  fái nokkuð um það að segja eða fái einu sinni nokkra vitneskju um að þarna sé fangelsi. Ég held að málin standi þannig í dag að heimili Verndar við Laugarteig sé bara fangelsi og ekkert nema fangelsi, þar eru sennilega engir núna nema fangar sem eru að afplána. Þannig var þetta heimili ekki hugsað, þetta átti að vera áfangaheimili fyrir fyrrum fanga.

En sem dæmi um hvað ég hef gert til að vekja athygli á þessu þá læt ég hérna með bréf sem ég sendi til fjölmiðlamanns fyrir tveimur árum en þá var umræða um fanga á Sólheimum. Ég vonaði að bréfið myndi verða til þess að einhver umræða yrði í fjölmiðlum um þetta mál en svo varð ekki. Geri ég því ráð fyrir að fjölmiðlafólki hafi ekki þótt málið þess vert að fjalla um það. 

Bréf sem ég sendi til fréttamanns á RÚV 1/30/05:

"En erindið var nú bara það að ég var að skoða fréttir á fimmtudaginn um fanga á Sólheimum. Mig langar í framhaldið til að benda á að hús Verndar hérna við Laugateig (ég bý í næstu götu) hefur a ég held árum saman verið notað sem fangelsi. Það voru mikil mótmæli þegar Vernd keypti húsið á sínum tíma en það var ætlað til búsetu fyrrverandi fanga sem eru að fóta sig í lífinu og eru búnir að afplána.

Það getur hins vegar auðvitað enginn sagt neitt um hverjir búa í hverfinu manns, ef það eru frjálsir menn en í rás tímans hefur Verndarheimilið þróast í aðra átt. Þarna eru menn sem eru að afplána dóma. Það væri nú bara hið besta mál ef það væru fangar sem vandlega eru valdir inn eins og forstjóri fangelsismálastofnunar sagði að væri með fangana á Sólheimum.

En svo virðist alls ekki alltaf vera. Í gegnum fréttir í DV hef ég séð (eða ályktað... ég reyndi að ræða þetta í símtali við fangelsismálastofnun á sínum tíma en fékk þau svör að það kæmi íbúum ekkert við hvort þarna væru menn í fangelsi) að mjög hættulegir og vitstola menn s.s. Sólbaðsstofuræninginn og Stóragerðismorðinginn hafa verið í húsi Verndar  sem staðsett er við venjulega íbúagötu. Það reyndar kom eingöngu í fréttum vegna þess að þeir brutu báðir af sér á meðan og voru sendir aftur á Litlahraun. Þetta var  fyrir einhverjum misserum þannig að þetta er ekki nýtt mál. Ég veit ekki í hvaða átt þetta hefur þróast. Reyndar sá ég líka sjálf Sólbaðsstofuræningjann einu sinni hér í búðinni á horninu, þekkti hann á myndum sem höfðu birst af honum í blöðum.

Þessi þróun er sem sagt að heimili sem upphaflega átti að vera áfangastöð fyrir frjálsa menn sem nýbúnir eru að afplána, breyttist fyrst í fangelsi fyrir hvítflippaafbrotamenn en virðist vera orðið fangelsi þar sem jafnvel stórhættulegir glæpamenn sem hafa framið mörg ofbeldisbrot eru vistaðir. Þessi þróun varð án þess að íbúarnir í götunni vissu nokkuð um þetta, ég geri fastlega ráð fyrir að mjög fáir viti að Verndarheimilið er kannski fyrst og fremst fangelsi (ég veit þetta vegna þess að ég þekkti fanga sem fékk að afplána þar á sínum tíma) og það er eitthvað bogið við það ef hægt er að læða fangelsi inn í kyrrláta íbúagötu án vitundar íbúa og smám saman með árunum eru gerðar minni kröfur til vistmanna þarna.

Ef það væri settur upp leikskóli eða einhver önnur stofnun í götunni þá held ég að það þyrfti að fara í einhvers konar kynningu og það þyrfti að gefa íbúum möguleika á að gera athugasemdir. Vegna þessarar reynslu okkar í Laugarneshverfi þá finnst mér full ástæða til að leggja ekki trúnað á þau orð fangelsismálastjóra sem komu fram í þættinum að það myndi verða vandað valið á föngum sem fengju að vera á Sólheimum. Við vitum ekki hvort að það sé gert núna í húsi Verndar við Laugarteig og íbúarnir í kring fá engar upplýsingar um hvort þarna séu vistaðir fangar sem hugsanlegt er að íbúum - sérstaklega börnum og unglingum - stafi hætta af.

Með von um að einhvern tíma verði fjölmiðlaumræða um fanga og afplánun það eru allt of fáir möguleikar í stöðunni og því miður koma margir skemmdari út úr afplánun.

bestu kveðjur

Salvör Gissurardóttir"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Það er með þetta eins og svo margt annað sem viðkemur geðsjúkum einstaklingum, eða þeim sem að eiga erfitt með að fóta sig í lífinu. Að birgja brunninn áður en barnið er ddottið, virðist ekki alltaf vera í hávegum haft. Menn er svo uppteknir af Kauphöllinni og genginu, á því hverjir eru að græða mest, að mannlegi þátturinn verður útundan. Markaðssetning hamyngjunnar í Krónum, eða kanski ætti ég að segja í Evrum glimur hátt og markmiðið að eiga sem mest í veraldlegum gæðum. Hin svarta hlið mannlífsins verður höfð í skugganum og margt gerist í mirkrinu. Ritningin segir að allt sem að kemur fram í ljósið verður ljós, ´þar er fyrirgefnigin og lækningin. Hættum að líta undan og mætum þörfum náungans, hvar sem hann er á veginum staddur og kanski er þá hamyngjan ekki svo langt undan.

G.Helga Ingadóttir, 23.1.2007 kl. 09:32

2 identicon

Heyr Heyr

Kristín (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 12:22

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Er sammála þér Salvör einu og öllu í þessum málum.Hef sjálfur vakið athygli á vandræðagangi yfirvalda í fangelsismálum í áratugi og ábyrgðarleysi þeirra á vistun og afplánun fanga.Er ekki mælirinn orðin fullur og dómsmálaráðhr.og fangelsismálastj.beri ábyrgð.Það þarf sýnilega að gera heildarúttekt á þessum málum og fara með þau inn á alþingi.

Kristján Pétursson, 23.1.2007 kl. 22:43

4 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Hér finnst mér fólk þurfi aðeins að gæta sín. Menn eru dæmdir í fangelsi í svo og svo langan eða stuttan tíma vegna ýmissa brota. Margir telja reyndar að dómar vegna ofbeldismála og enn frekar kynferðisafbrotamála séu allt of stuttir. Hvað sem því líður þá verður ekki fram hjá því litið að einhvern tíma kemst fólk út. Þá er auðvitað ekki hægt að tryggja eitt eða neitt NEMA vel hafi tekist til í endurhæfingu í fangelsinu. Þar held ég hins vegar að megi gera töluvert átak.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 24.1.2007 kl. 10:40

5 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Hér finnst mér fólk þurfi aðeins að gæta sín. Menn eru dæmdir í fangelsi í svo og svo langan eða stuttan tíma vegna ýmissa brota. Margir telja reyndar að dómar vegna ofbeldismála og enn frekar kynferðisafbrotamála séu allt of stuttir. Hvað sem því líður þá verður ekki fram hjá því litið að einhvern tíma kemst fólk út. Þá er auðvitað ekki hægt að tryggja eitt eða neitt NEMA vel hafi tekist til í endurhæfingu í fangelsinu. Þar held ég hins vegar að megi gera töluvert átak.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 24.1.2007 kl. 10:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband