Hausahettur, nýjasta götutískan

headhoodsSmart þessar hettupeysur frá headhoods.com.

Mörg dýr eru í  einhvers konar dulbúning annað hvort til að felast eða til hræða eða villa fyrir andstæðingum sínum. Fiðrildi hafa stundum bletti á vængjunum sem líta út eins og augu og þá skýringu heyrði ég að það væri til að hræða önnur dýr sem héldu þá að þarna væri miklu stærra dýr á ferð.

Ég las einhvers staðar að indjánar teiknuðu stundum andlit aftan á föt og það virkar þrælvel, ég var einu sinni á ferð bíl í rökkri í eyðimerkum Nýju Mexíkó þar sem við allt í einu sáum tvær geimverur koma á móti okkur þarna í auðninni, þær voru eins og ég hef nú alltaf ímyndað mér að geimverur líta út, svona risastórt höfuð og litlir fætur. Ég stalst til að líta á bakhliðina á geimverunum þegar við brunuðum framhjá þeim og sá þá að þetta voru tveir indjánakrakkar, bakhliðin á úlpunum þeirra voru með stór teiknuð andlit.

Það er nú einn angi af nútímanum að taka upp mismunandi gervi og hanna sjálfan sig. Það getur maður auðvitað gert einna best með fötum og hvað er að því að fá sér nýjan haus sem horfir í aðra átt en maður sjálfur? 


Húrra fyrir opnum aðgangi á vefbækur.is !

Það er frábært að íslenskir nemendur hafi núna aðgang að efninu á vefbækur.is

Það er miklu mikilvægara að nemendur hafi aðgang að efni á stafrænu formi heldur en að námsbókum. Við erum að fara inn í þann tíma að flestir nemendur eru nettengdir og sjálf tölvan kostar ekki mikið. Þannig er verkefni eins og  OLPC (one laptop per child  eða ein fartölva fyrir hvern nemanda) að vinna að því að börn í fátækari samfélögum hafi öll vefaðgang og eigin tölvu.  Það getur ekki verið mikið mál fyrir okkur í einu ríkasta landi heims að bjóða sams konar aðstæður fyrir íslensk börn og ungmenni. Reykjavík niðurgreiðir tómstundir barna um 12. þús á önn,  OLPC fartölvur eru hins vegar núna að komast undir $100 svo það  kostar kannski bráðum ekki nema um 7 þús á barn að kaupa fartölvur og slík tæki duga amk þrjú ár - þá er nú líklegt að tækninni hafi fleygt svo fram að tölva sem er fín í dag sé orðin úrelt.

Ég og nemendur mínir höfum verið að vinna í íslenskum wikibókum (is.wikibooks.org), það er líka efni sem er frítt fyrir alla og hver sem er getur skrifað þar námsefni og það má afrita að vild og breyta og aðlaga. Sem dæmi má nefna wikibók um listdanskennslu og hér námsefni um hvít blóðkorn og  námsefni um listamenn í Hveragerði og námsefni um vita á Íslandi.

Ég held að það sé miklu betra að skrifa námsefni í svoleiðis kerfi, kerfi þar sem auðvelt er fyrir aðra að taka upp þráðinn og bæta við efni og byggja á vinnu annarra.

Við verðum líka að fara að venja okkur af þeim hugsunarhætti að námsefni sé eitthvað sem nemendur fá í hendur og sem þeir eiga bara að skoða. Nemendur eiga líka að taka þátt í að skapa og endurskapa og endurraða efni - það má kannski líkja þessu við remix í tónlistinni, nemandinn þarf að draga að sér efni úr ýmsum áttum og setja það saman í eigin verk.

Námsefni í svoleiðis námsumhverfi verður að vera algjörlega opið, ekki aðeins opið til að nemendur geti skoðað það og afritað heldur líka opið til að nemendur geti  tætt það í sundur og notað einingar úr því í eigin verk. Því miður eru þau höfundarlög sem við búum við í dag ekki að taka mið af þeirri þróun sem núna er í netheimum.

Það er þó þannig að núna eru að þróast alveg ný höfundarréttarkerfi sem styðja betur vinnubrögð nútímans og næstu framtíðar. Ég mæli með að fólk kynni sér creative commons og hvernig eigi að leita að efni þar. Ég er einmitt með wikibók í smíðum um höfundarrétt og Internetið.

Takk fyrir þennan opna aðgang að vefbækur.is og vonandi kemur meira opið efni á Netið og vonandi verður það efni sem er opið, sem má afrita og kannski allra, allra mikilvægast að það sé efni sem nota má sem efnivið í önnur verk t.d. verk nemenda. 


mbl.is Íslenskir námsmenn fá aðgang að bókum á vefnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jesúsbrandari Símans er þaulhugsuð auglýsing

Auglýsingaherferð Símans eru hönnuð af atvinnumönnum sem væntanlega fylgjast vel með hvaða viðbrögð auglýsingar vekja og hafa vakið hérlendis og erlendis. Auglýsing sem nær að skapa umtal og fangar athygli almennings svo mikið að það sé talað um hana hittir í mark. Það er sennilega ekki markmið auglýsenda að vekja andúð stórra og valdamikilla hópa en sumar auglýsingar m.a. auglýsingar sem beint er til ungs fólks eða karlmanna eru þannig að það er óbeint eða beint verið að gera lítið úr öðrum t.d. eldra fólki með hefðbundin lífsgildi og konum. Þannig er það markmið auglýsandans að hitta betur í mark hjá viðtakendum beinlínis með því að gera lítið úr öðrum. 

Auglýsingar og markaðssetning af þessum toga er t.d. súkkulaðið  Yorkie frá stórfyrirtækinu Nestle, hér er mynd af hvernig það er markaðsett, það er sérstaklega tekið fram að þetta sé ekki vara fyrir stelpur og margt í markaðssetningu gengur beinlínis út á að móðga stelpur og höfða þannig til unglingspilta sem finna til vanmáttar síns í heimi þar sem karlmennskugildi gærdagsins eru ekki mikils virði lengur.

543382448_a0f9d849ca

 Það er alveg sams konar markaðssetning í jesúauglýsingu Símans, hún endurspeglar það viðhorf að allt í lagi sé að grínast með trúna því auglýsingunni er ekki beint að trúuðu fólki heldur að fólki sem sækist eftir tækninýjungum í símtækjum og vestrænu fólki sem er ekki sátt við hvernig strangtrúarmúslimar hafa ibbað sig út úr margs konar teikningum af spámanninum Múhammeð. Þessi auglýsing frá Símanum er einmitt spuni í kringum það, hún segir "Sjáðu, ég þori alveg að gera grín af Jesú, ég er enginn strangtrúarmúslími, ég er frjálslyndur Vesturlandamaður sem notar nýjustu samskiptatækni". 

Þessi auglýsing talar til viðtakenda með því að gera lítið úr  strangtrúar- og bókstafstrúarfólki. Sennilega hefði svona auglýsing aldrei komið frá Símanum nema bara út af því sem undan hefur gengið varðandi þessi skopmyndateiknaramál af Múhammeð. 

Auglýsingin segir: "Við erum ekki eins og þeir sem við óttumst mest, við erum ekki brjálaður og blóðþyrstur skríll sem vill drepa þá sem gera grín af spámanninum,  nei við erum frjálslyndir og nútímalegir í stuði með Guði og gerum grín að okkar spámanni Jesú". 

Þessi auglýsing stuðar mig ekki nema að því leyti að hún kemur frá stóru fyrirtæki sem þjónustar allt landið og alla landsmenn. Samt vogar það fyrirtæki sér að móðga og særa að vísvitandi ákveðinn hluta landsmanna. Svona auglýsing myndi aldrei hafa komið frá Símanum meðan það var ríkisfyrirtæki. Núna er þetta einkafyrirtæki sem vílar ekki fyrir sér að móðga suma til að selja öðrum.

CagleJihad

En lifi tjáningarfrelsið og megi fólk um allan heim gera grín að því sem það vill. Hins vegar ættum við sem sjáum eitthvað athugavert við grínið og lesum milli línanna að láta í okkur heyra og mótmæla harðlega ef okkur finnst auglýsingarnar siðlausar. Við verðum samt að passa okkur að mótmæla ekki á þann hátt að við auglýsum upp vöruna sem sá sem er með siðlausa auglýsingu er að falbjóða.

Hér er umræða um sams konar auglýsingu sem olli styrr í Noregi. Þar var m.a. skrípó sem auglýsti handáburð fyrir Jesú á krossinum. Vonandi verður ástandið ekki svona hjá okkur í framtíðinni! 


mbl.is Biskup segir nýja auglýsingu Símans smekklausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stafrænar myndavélar eru ekki bara til að taka myndir

Ég hef átt þrjár stafrænar myndavélar og fjórðu átti pabbi minn.  Síðustu tvær eru einmitt af gerðinni Canon Ixus, núna tek á ég Canon Ixus 500 sem er með 5.0 megapixels.

Ég held að það sé ekkert verkfæri sem ég nota eins mikið og þessa myndavél. Ég tek aragrúa af myndum og margar myndanna hleð ég rakleiðis inn á myndasvæði mitt á Flickr.com. Ég nota sérstakan hugbúnað Flickr uploader til þess að vera fljót að því.

En ég nota myndavélina mína ekki bara sem ljósmyndavél til að taka myndir. Ég er eiginlega alltaf með myndavélina á mér, hún er svo pínulítil og nett. Núna nota ég myndavélina oft til að taka upp vídeó með hljóði. Það kemur sér oft vel að vera með upptökutæki á sér, stundum nota ég þetta bara sem minnisatriði en stundum set ég svona vídeóklipp inn á youtube. 

Ég nota líka stafrænu myndavélina mína oft sem ljósritunarvél og skanna, ég tek myndir af blöðum og reikningum, ég tek myndir af því sem stendur á skiltum o.s.frv. Ég tek stundum myndir af blaðagreinum sem ég ætla að halda upp á, þá get ég hent blaðinu en á myndina. 

Ég  nota myndavélina í margs konar praktískum tilgangi og ég er alltaf að finna nýja notkunarmöguleika. Eitt seinasta er að taka mynd af öllum tenglunum aftan á nýju tölvunni minni og hafa þá mynd aðgengilega á flickr með skýringum um hvað  er hvað því ég er orðin svo leið á því að skríða á gólfinu og reyna að plögga inn þessari og hinni snúrunni og sjá ekkert til hvað er hvaða tengill í hvert skipti sem ég er að skipta eitthvað um inntakstæki.

057

Svo tek ég líka myndir af ýmsu  í umhverfinu sem vekur athygli mínu. Ég var að taka eftir að núna er ég með 3.361 myndir á flickr. Þær eru flestar teknar á Digital Ixus myndavélina mína en reyndar eru sennilega líka þar margar skjámyndir sem ég tek beint af vefsíðum.

Það sem ég myndi óska mér væri að eiga ljósnæmari vél, ég er oft að taka myndir af viðburðum í slæmum ljósaskilyrðum. Einnig hef ég ekki fundið út hvernig ég stilli digital vélina mína til að vera vefmyndavél. Það gengur alveg að taka upp en ég get bara tekið upp eina mínútu í einu og get ekki horft beint á upptökuna þegar ég stilli það á "self-timer". 

En digital myndavél getur sem sagt auk þess að taka myndir, tekið upp vídeó og hljóð, verið ljósritunarvél og skanni og vefmyndavél. 


mbl.is Minni munur á gæðum en verði myndavéla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindi og tjáningarfrelsi í Kína

 Kínverska netlöggan
Kinversk stjórnvöld skemmta okkur í dag með sætu netlöggunum sínum (sjá þessa grein í Washington Post)  og þessa umfjöllun á Global Voices

Þetta eru miklu sætari myndir en sænska myndin af Múhammed spámanni sem líka er í pressunni í dag.

Þetta er samt engin barnaleikur hjá kínverskum stjórnvöldum né heldur stjórnvöldum annars staðar í heiminum sem reyna að hefta tjáningarfrelsi okkar og athafnafrelsi í Netheimum og nota oft sem átyllu að þar sé siðspillandi efni og lagt á ráðin um hryðjuverk. 

Það er mikilvægt að við setjum siðferðisreglur um Internetið og komum okkur saman um  umgengisreglur í þessum nýja heimi en það er líka mikilvægt að við séum á varðbergi gegn kyrkingargreipum öflugs ríkisvalds eða fjölþjóðlegra fyrirtækja sem vilja ráða orðræðu okkar og hvað við megum sjá og og lesa og hvað ekki.

Ég bendi fólk á að fylgjast með Global Voices, það er grasrótarsamtök og vefur sem margir bloggarar og fjölmiðlafólk stendur að og þar er fylgst með hvernig kreppt er að tjáningarfrelsinu víða um heim. Ég vek athygli á því að núna nýverið  hafa stjórnvöld í Tyrklandi lokað á bloggsvæðið wordpress.com og segir bloggari þetta um hve hættulegt er að einhver einn aðili hafi einokunaraðstöðu varðandi fjarskipti til landsins.

Turkey has banned WordPress, the blogging platform. This is not a move without precedent; the popular definitions site ekşisözlük and, more famously, YouTube have both been blocked in the past. Turk Telekom’s virtual monopoly on internet access in Turkey makes a ban an easy thing to enforce. There is, after all, just the one service provider to submit a court order to.

Reyndar geta sniðugir tyrkneskir bloggarar alveg komist framhjá þessari hallærislegu lokun, það hafa bloggarar gert lengi þegar Kína lokar  á blogger.com  sem hefur iðulega komð fyrir. Það er bara að láta eitthvað annað bloggsvæði taka rss strauminn  frá wordpress eða blogger blogginu (svipað og ég geri með salvor.tumblr.com sem tekur strauminn frá moggablogginu mínu. Þannig að ef fjarskiptafyrirtækin einhvers staðar í útlöndum lokuðu á moggabloggið  þá býð ég upp á  varaleiðSmile

Svo virkar opna hugbúnaðarsamfélagið alveg stórvel til að takast á við svona lokanir. Núna er t.d. komið sérstakt Firefox plögg til að komast framhjá síu á myndum frá myndasvæðinu Flickr. Flickr er af einhverjum undarlegum ástæðum á bannlista hjá kínverskum og arabískum stjórnvöldum.

Annað jafnmikilvægt mál og vera á varðbergi gagnvart svona höftum er að vera á varðbergi fyrir leitarvélum sem finna bara það sem stjórnandi leitarvélarinnar vill. Þannig hafa stjórnvöld í Kína engan skilning á leitarrútínum sem Google er með hér á Vesturlöndum og heimta að óþægilegir hlutir finnist ekki í leit. Eftir því sem ég best veit þá er Google fyrirtækið afar leiðitamt kínverskum stjórnvöldum. Það hefur líka vaknað grunur um að Google finni frekar þær vefsíður sem kaupa google auglýsingar. 


Mannréttindi og tjáningarfrelsi í Vestfjarðagöngum

Vestfjarðagöngin eru til margs nýtileg annars en spæna þar í gegn á bílum. Nú ætla Vestfirðingar að tappa af þeim vatni og selja í íslenskri útrás. Ég hef sjálf notað Vestfjarðagöngin til óvenjulegra hluta, ég var þar með fámenna ... já og lítið áberandi... tja eiginlega reyndar ósýnilega... mótmælastöðu fyrir nokkrum árum. Ég stóð inn í miðjum göngunum þar sem þau greinast inn í leiðina til Súgandafjarðar og Flateyrar. Ég stóð þar ásamt dóttur minni dágóða stund með mótmælaspjöld þar sem á stóðu slagorð eins og "Frá Tíbet til Tálknafjarðar - Mannréttindi alls staðar" og þetta var í tilefni þess að einmitt á sömu stundu þá tók forsætisráðherra okkar á móti varaforseta Kína en áður höfðu Falun Gong liðar fjölmennt til landsins og reynt að hafa hér uppi einhver mótmæli en því var víst kínverski höfðinginn óvanur og tók því illa og var þrengt að mótmælendum alls staðar. Þeir skreyttu bæinn í gulum búningum og iðkuðu leikfimi. Íslensk stjórnvöld kölluðu erlendu mótmælendurna "ýtið fólk".

Mér fannst á þessum tíma  mikilvægt að taka undir málstað tjáningarfrelsisins og mannréttinda þó enga hefði ég áheyrendur nema hulda vætti landsins, ég mótmælti víða þennan dag í víðáttu Vestfjarða, ég hélt mótmælaspjöldum og áróðursspjöldum fyrir tjáningarfrelsi og mannréttindum  á lofti í fjöllunum fyrir ofan Botn í Súgandafirði,  í þorpinu á Suðureyri, í Bolungarvík og á leiðinni upp á Breiðadalsheiði. Það er alls ekki þörf á því að hafa neina áhorfendur að mótmælum og svona gjörningum og mér fannst nú bara kynngimagnað að hrópa slagorð á fjöllum og inn í miðju fjalli, það er eins og að fremja galdur.

Ég er ánægð með þessi mótmæli og allt í lagi þó þau hafi verið ósýnileg og farið fram hjá flestum ... öllum.

Bloggarinn sem flytur fréttir frá sínu landi orðar svona ósýnileika vel í þessu bloggi:

"Í dag er ár síðan ég hafnaði orðinu blogg og hætti að nota það um eigin netskrif. Fór þessi uppreisn framhjá flestum en ég tel það ekki endilega rýra gildi uppreisna að vera ósýnilegar. "

Þetta finnst mér mikil speki hjá bloggaranum sem reis upp frá dauðum og dvelur nú í sínu landi.


mbl.is Ætla að flytja út vatn úr Vestfjarðagöngum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takið þátt í bloggdeginum í ár!

Minni fólk á að í dag 31. ágúst er alþjóðlegur bloggdagur. Allar upplýsingar má fá með að smella á borðann. Mér skilst að allir bloggarar séu beðnir um að vísa lesendum sínum á einhverja aðra fimm bloggara. Þar sem þetta er alþjóðlegt þá er sennilega átt við að maður vísi á einhverja bæði innlenda og erlenda.

Blog Day 2007

Hér er eitt dæmi um hvernig bloggari vísar á fimm önnur blogg og segir hvers vegna honum finnst þau sniðug: http://members.optusnet.com.au/rlubensky/elearningmoments.html

Svo er hægt að fylgjast með strauminum sem er merktur með  BlogDay2007 á Technorati:

http://technorati.com/tag/BlogDay2007 

Það er ekki víst að mörg íslensk blogg séu inn á technorati og þau fá ekki hátt í stigamati á tehcnorati (þ.e. hversu mikið er vísað í þau, hversu vinsæl þau eru, authority). Reyndar var ég að fletta áðan upp bloggum sem ég er með og komst að því mér til furðu að stigamat á salvor.blog.is var 24 en eitthvað eldgamalt msnspaces blogg sem ég nota ekkert var með stigatölu 66. Sjá hérna:

technorati1

 

 


Vinsælustu og mest lesnu moggabloggin

Það er áhugavert að skoða yfirlit yfir mest lesnu bloggin á moggablogginu með nokkurra mánaða millibili og spá í þróunina. Það fyrsta sem maður tekur núna eftir er að konur eru miklu meira áberandi á þessum lista. Einnig er áhugavert að af fjórum efstu bloggum þá fjalla þrjú um sára og erfiða lífsreynslu. 

fjölda IP talna á dag 



Hvar er andspyrnuhreyfingin á Íslandi?

Mesta fjörið og mesta andspyrnan á Íslandi í gær var á fundi Staðlaráðs Íslands í gær. Það þurfti ekki neinn speking til að sjá að fundarmenn þar voru ekki beinlínis í hollvinafélagi Microsoft fyrirtækisins. Þar var tekist á um OOXML staðalinn Það var múgur og margmenni á fundinum, áður hafði farið fram umræða á Netinu t.d. Sigurður Fjalar skrifað pistilinn Segjum nseei við OOXML! og heit umræða hefur verið á rgug póstlistanum.Á vefsíðunni noooxml.org  og víða á vefsíðum er hægt að lesa meira um gagnrýnina á OOXML.

Hér er 7. mín. vídeó sem ég tók á fundinum í gær.

 Athugasemd!!!

Ég fjarlægði vídeóið sem ég birti hér í morgun vegna sérstakrar beiðni og ábendingar (sjá athugasemdir með þessu bloggi) um að upptaka mín og birting á efninu  stangaðist á við persónuverndarlög. Ég hafði í framhaldi samband við Rakel lögfræðing hjá Persónuvernd og spurðist fyrir um það. Af svörum hennar get ég ekki ráðið að ég hafi gert neitt ólöglegt. Hér stangast á sjónarmið tjáningarfrelsis og persónuverndar og það er mat mitt eftir samtal við Rakel að ég sé í fullum rétti að birta þessa upptöku eftir að ég hef gert á henni þá breytingu að ég hef tekið út upptöku af þeim sem hafa lýst sig mótfallna birtingu þess. Það var náttúrulega sjálfsögð kurteisi hjá mér að gera það og ég mun verða við þannig óskum frá öllum þeim sem birtast á vídeóinu. Ég mun hins vegar ekki fjarlægja það eins og beðið var um því þetta vídeó er höfundarverk mitt og mín sýn á stemmingu á þessum fundi og skráning mín á samtímaatburði. Allt sem kemur fram á þessu vídeó er gert af virðingu við fólkið sem þar er sýnt og þetta fjallar ekki um nein einkamálefni. Þetta eru umræður á opinberum fundi og þeir sem taka til máls tala afar skynsamlega og segja frá hvernig til hafi tekist varðandi tæknileg mál og eða ræða rök með eða móti því að gagnasnið sem upprunnið er hjá Microsoft verði að alþjóðlegum staðli. Það er hins vegar ekkert launungarmál að ég reyni að draga taum þeirra sem tala fyrir opnum hugbúnaði og vinna í þannig umhverfi, ég reyni að sýna stöðu þeirra m.a. með að sýna hvernig á þessum opinbera fundi margar hendur voru á lofti og margir vildu tjá sig en fengu ekki tækifæri til þess. Ég er að leitast við að sýna þennan veruleika sem við búum við þar sem afar völdugir hugbúnaðarrisar eru í nánast einokunaraðstöðu  og ekki tekið tillit þeirra sem þó hafa þekkingu og færni og benda á aðrar leiðir. Ég tók einnig út vídeó sem var af fulltrúa frá Microsoft sem var á upprunalega myndbandinu þar sem ég var að leitast við að sýna báða málstaði. Það var allt skynsamlegt sem hann sagði. En af því að ég held að birting mín og öll opinber umræða um þetta mál sé Microsoft í óhag þá vil ég ekki draga viðkomandi starfsmann inn í þetta á neinn hátt. Það voru kurteislegar, upplýsandi og málefnalegar umræður á þessum fundi. Ég tel að almenningur eigi gjarnan að fá að fylgjast með slíkum fundum m.a. í gegnum skráningar þeirra sem eru á fundum. Það er hins vegar hætta á að frásagnir af svona fundum séu litaðar af viðhorfum þeirra sem vilja fá einhverja ákveðna niðurstöðu. Þannig er ekki gott að öll skráning á því hvað gerist á svona fundum komi frá stjórnvöldum eða stórum hagsmunaaðilum.

hér er frásögn Sigurðar Fjalar frá fundinum: Stál í stál á opnum fundi Staðlaráðs

 

það eru engir skæruliðar í hlíðum Esju og það eru engir liðsmenn Hróa hattar sem fela sig í skógarkjarrinu í Heiðmörk og það eru engir alþýðuherir hérna með fyrirsát og götuvirki á Reykjnesbrautinni. Það er meira segja allur vindur úr herstöðvarandstæðingum núna þegar herinn er farinn og allir hvort sem er á móti Bush og stríðinu í Írak, það er erfitt að halda uppi dampi með eitthvað baráttumál sem allir eru hvort sem er sammála um.

 

það er enginn grundvöllur fyrir Keflavíkurgöngum lengur og tímanna tákn að baráttujaxlinn Birna þórðardóttir er farin að leiða göngur túrísta um götur Reykjavíkur fyrir utan að klæða sig upp á einn dag á ári og berja svipur í Gaypride. Femínisminn er búinn að gjörsigra á Íslandi, margir yfirlýstir femínistar eru í ríkisstjórninni og búið að banna súlunektardansinn. Ég  get þessa daganna ekki fengið af mér að ráðast  mikið að andstæðingum okkar femínistanna því það er eins og að sparka í liggjandi fólk. Sennilega verður þess ekki langt að bíða að Keflavíkurgangan verður endurvakin sem heilsubótarganga fjölskyldunnar svona eins og súludans eða súlufitness er núna aðaltískan í heilsuræktinni.

En hvar er andspyrnuhreyfing nýrra tíma á Íslandi? Eru engir undirstraumar sem síðar munu renna saman í stórt fljót og brjóta sér leið upp á yfirborðið? Ég held að slík hreyfing muni vaxa upp í því net- og tölvuumhverfi sem umlykur okkur. Það er áhugavert að skoða hakkarasamfélög og  samfélög um opinn og frjálsan hugbúnað og samfélög um opið aðgengi að gögnum opg sjá hvernig smám saman eru þar að vaxa upp félagslegar hreyfingar. Wikipedia samfélagið er ekki bara samfélag þar sem saman kemur fólk sem vill endilega skrifa greinar í alfræðirit, það er líka samfélag þar sem að dregst fólk sem flest deilir þeirri sýn að þekking eigi að vera opin og frjáls til afnota fyrir hvern sem er en ekki sérstök gæði valdastétta til að tryggja áframhaldandi völd.

Búin að setja vídeóið aftur inn eftir ritskoðun!
Sjá efst í þessu bloggi


Minn gamli skóli býður grunnskólanemum fjarnám í framhaldsskóla

Það er frábært að lesa fréttina af því að Fjölbrautaskólinn í Ármúla bjóði grunnskólanemendum fjarnám og borgin styrki þetta. Ég hef fylgst með þessu undanfarin ár, það hafa verið gerðar tilraunir og það hefur gengið vel. Duglegir og áhugasamir grunnskólanemendur geta þannig flýtt fyrir sér í námi í framhaldsskóla, þeir hafa nóg fyrir stafni af námsviðfangsefnum sem hæfa þeim, þeir stíga fyrstu skref sín inn í framhaldsskóla án þess að vera alveg komin úr grunnskólanum og síðast en ekki síst þá býr þessi tegund af námi þá betur undir framtíðina - þá framtíð þegar vinnustaðir þeirra og ýmis konar samskipti verða í netheimum og það er bara gott að þeir læri sem fyrst að nota stafræn verkfæri.

Ég var framhaldskólakennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla fyrstu árin eftir að ég lauk háskólanámi. Þá voru fyrstu tölvurnar að koma í skólann og var ég tölvukennari. Ég skrifaði þetta í reynslusögu um fyrstu skrefin mín sem kennari á tölvur:

Að loknu háskólanámi gerðist ég tölvukennari í Fjölbrautaskólanum við Ármúla en þá höfðu verið keyptar tölvur í fyrsta skipti til skólans og skyldi ég m.a. kenna tölvubókhald. Fyrsta misserið gekk brösuglega, tölvukerfið hrundi oft í hverjum tíma eða tölvurnar frusu. Skrýtnast þótti mér þó þegar það kom í ljós að tölvubókhaldið var bara hægt að vinna á einni tölvu í einu en búnaðurinn var í fyrstu bara fjórir samtengdir skjáir og nemendur mörgum sinnum fleiri. Tölvusalinn reyndi að sannfæra mig um gildi þeirrar kennsluaðferðar að láta einn nemanda færa bókhald í tölvu og alla hina sitja þrjá til fjóra við hvern skjá og fylgjast aðgerðalausir með bókhaldsfærslum renna um skjáina. Ég lét ekki sannfærast og lagði tölvubókhaldskerfið snarlega á hilluna. Svo komu betri tölvur til skólans og ég byrjaði að kenna á notendaforrit eins og ritvinnslu og töflureikna.

Fyrir utan þessa fyrstu önn þar sem allt gekk á afturfótum, tölvurnar virkuðu bara ekki og svo dauðleiddist nemendunum að vera bara að horfa á bókhaldsfærslur líða um skjáina þá gekk kennslan bara vel og mér hefur alltaf fundist skemmtilegt og gefandi að kynna nýja tækni, ný vinnubrögð og nýjar hugmyndir fyrir nemendum. Sérstaklega eru nemendur á framhaldsskólaaldri móttækilegir og jákvæðir, sennilega af því flestir krakkar á þessum aldri eru ekki með stífar  fyrirfram mótaðar skoðanir á hvað sé praktískt og þau trúa líka gífurlega mikið á mátt sinn og megin.  

Reyndar finnst mér skipulag á fjarnámi á Íslandi í dag vera afar hefðbundið, það er eins og þessi klassíska skólastofa hafi flust inn í netheima, þessi umgjörð utan um skólastarf sem er þannig að skólastofan er lokuð bygging og flæðið er ekki mikið frá heiminum í kring. 

Það kerfi sem flestir nota - ég sem ég nota reyndar sjálf með nemendum mínum á þessari önn - er kerfið Web CT. Það er afar hefðbundin nálgun á fjarkennslu og fjarnámi. Ef til vill fellur kennurum og nemendum vel að vinna í því kerfi einmitt af því að það er svo líkt öðru skólanámi. En þó breytingar gerist hægt þá verður við að reyna að hugsa aðeins út fyrir verkfærin og spá í hvernig verkfærin, umgjörðin og byggingarnar móta skipulag stofnunar og vinnulag þar.

Ef öll borð og stólar nemenda eru boltuð niður í stórum fyrirlestrasölum og kennarinn getur hvergi verið nema fyrir framan hóp af nemendum sem allir horfa á kennarann og það er flott og fullkomið hátalarakerfi í pontu og skjávarpi með powerpointglærum og tvö hundruð nemendur í einu í kennslustundum þá er næstum öruggt hvernig kennarinn mun skipuleggja kennslustundir og námsreynslu nemenda, hann hefur ekki mikið val.

Á sama hátt verðum við að skilja að námsumhverfi á Internetinu getur líka verið fjötrandi og hvatt til einnar gerðar af kennslu, gerðar sem er kannski ekki sú albesta. Fjarkennsluumhverfin Web CT, Moodle og Blackboard eru öll alveg ágæt en þau endurspegla afar hefðbundna sín á hvernig nám á að fara fram. Ég hef reynt að tala fyrir því að nám sé byggt upp í kringum nemandann og m.a. reynt að tengja það hugmyndum um leiðarbækur og skilamöppur þar sem nemandinn skrásetur sjálfur sína þekkingarleit og byggir upp þekkingarnet, ekki einn og sér heldur í samvinnu við aðra, námssamfélagið sé eins og starfendafélag (communitiy of practice).

Til að það sé hægt að byggja upp slíkt námsumhverfi þá þurfa kerfi eins og web ct að þróast og bjóða upp á fjölbreytari námsreynslu og þekkingaruppbyggingu og taka meira mið af nemandanum. Eins og er þá þjóna þessi kerfi ágætlega kennurum sem vilja setja inn skjöl og glærur og verkefni og skrásetja árangur stórra nemendahópa. En þessi kerfi eru öll að þróast og verða aðgengilegri og ég er ekki í neinum vafa um að Moodle  og fleiri kerfi sem er opinn hugbúnaður hefur pínt áfram framþróun í þessum kennslukerfum, þessi rándýru kerfi verða að hafa eitthvað fram að færa ef fólk vill nota þau frekar en alíslenskuð ókeypis og góð kennslukerfi sem skrifuð eru í samvinnu við kennara og kennslufræðinga og sem eru í stöðugri þróun.

 


mbl.is Grunnskólanemum býðst ókeypis fjarnám í framhaldsskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband