Húrra fyrir opnum aðgangi á vefbækur.is !

Það er frábært að íslenskir nemendur hafi núna aðgang að efninu á vefbækur.is

Það er miklu mikilvægara að nemendur hafi aðgang að efni á stafrænu formi heldur en að námsbókum. Við erum að fara inn í þann tíma að flestir nemendur eru nettengdir og sjálf tölvan kostar ekki mikið. Þannig er verkefni eins og  OLPC (one laptop per child  eða ein fartölva fyrir hvern nemanda) að vinna að því að börn í fátækari samfélögum hafi öll vefaðgang og eigin tölvu.  Það getur ekki verið mikið mál fyrir okkur í einu ríkasta landi heims að bjóða sams konar aðstæður fyrir íslensk börn og ungmenni. Reykjavík niðurgreiðir tómstundir barna um 12. þús á önn,  OLPC fartölvur eru hins vegar núna að komast undir $100 svo það  kostar kannski bráðum ekki nema um 7 þús á barn að kaupa fartölvur og slík tæki duga amk þrjú ár - þá er nú líklegt að tækninni hafi fleygt svo fram að tölva sem er fín í dag sé orðin úrelt.

Ég og nemendur mínir höfum verið að vinna í íslenskum wikibókum (is.wikibooks.org), það er líka efni sem er frítt fyrir alla og hver sem er getur skrifað þar námsefni og það má afrita að vild og breyta og aðlaga. Sem dæmi má nefna wikibók um listdanskennslu og hér námsefni um hvít blóðkorn og  námsefni um listamenn í Hveragerði og námsefni um vita á Íslandi.

Ég held að það sé miklu betra að skrifa námsefni í svoleiðis kerfi, kerfi þar sem auðvelt er fyrir aðra að taka upp þráðinn og bæta við efni og byggja á vinnu annarra.

Við verðum líka að fara að venja okkur af þeim hugsunarhætti að námsefni sé eitthvað sem nemendur fá í hendur og sem þeir eiga bara að skoða. Nemendur eiga líka að taka þátt í að skapa og endurskapa og endurraða efni - það má kannski líkja þessu við remix í tónlistinni, nemandinn þarf að draga að sér efni úr ýmsum áttum og setja það saman í eigin verk.

Námsefni í svoleiðis námsumhverfi verður að vera algjörlega opið, ekki aðeins opið til að nemendur geti skoðað það og afritað heldur líka opið til að nemendur geti  tætt það í sundur og notað einingar úr því í eigin verk. Því miður eru þau höfundarlög sem við búum við í dag ekki að taka mið af þeirri þróun sem núna er í netheimum.

Það er þó þannig að núna eru að þróast alveg ný höfundarréttarkerfi sem styðja betur vinnubrögð nútímans og næstu framtíðar. Ég mæli með að fólk kynni sér creative commons og hvernig eigi að leita að efni þar. Ég er einmitt með wikibók í smíðum um höfundarrétt og Internetið.

Takk fyrir þennan opna aðgang að vefbækur.is og vonandi kemur meira opið efni á Netið og vonandi verður það efni sem er opið, sem má afrita og kannski allra, allra mikilvægast að það sé efni sem nota má sem efnivið í önnur verk t.d. verk nemenda. 


mbl.is Íslenskir námsmenn fá aðgang að bókum á vefnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sannarlega orð í tíma töluð. Það var einmitt hugsun okkar hjá Netúgáfunni þegar við hófum að dæla texta þangað fyrir meira en tíu árum, að sem mest af bókum og bókmenntum væri aðgengilegt og ókeypis fyrir alla og að nota mætti bækurnar á allan mögulegan hátt. Viðtökurnar voru svolítið misjafnar og því miður tókst okkur ekki að halda þessu áfram nema rétt framyfir aldamótin.

Sæmundur Bjarnason, 5.9.2007 kl. 13:24

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Úps. Netútgáfunni átti þetta auðvitað að vera. Og svo ég auglýsi svolítið í leiðinni þá er slóðin þangað: snerpa.is/net

Sæmundur Bjarnason, 5.9.2007 kl. 13:26

3 identicon

Mjög gott mál. En ég velti því fyrir mér hvort þessi aðgangur takmarkist við tölvur skólanna, þ.e. hafa nemendur aðgang að þeim heima hjá sér t.d. við heimalærdóminn? 

Sigurður Fjalar Jónsson (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 17:20

4 identicon

Ég samgleðst, en enn og aftur gleymdust leikskólarnir. Öll skólastig voru tiltekin nema leikskólar.

Fjóla Þorvaldsdóttir (IP-tala skráð) 5.9.2007 kl. 21:30

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

því miður virkar þetta ekki nema í skólanum. það er mjög takmarkandi fyrir not á svona verkfærum. Ég hugsa að í framtíðinni muni okkur ekki þykja gott að hafa einhver verkfæri sem aðeins má nota á einhverjum landfræðilegum stað.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 6.9.2007 kl. 19:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband