Á Mogginn að ráða hvað má tala um?

Fjölmiðlar ganga alltaf erinda eigenda sinna. Það er bara blekking þegar fjölmiðlamenn segja að eigendurnir hafi engin áhrif, stundum held ég að þeir trúi því sjálfir, þetta sé einhvers konar sjálfdáleiðsla sem fjölmiðlamenn stunda til að finnast þeir ráða meiru en þeir raunverulega gera. Það getur verið að svona dags daglega þá telji eigendur sig ekki þurfa að skipta sér af rekstrinum og stundum er það þeim ágætlega í hag leyfa smásprikl blaðamanna til að skapa og viðhalda þeirri  ímynd að fjölmiðillinn sé óháður og frjáls og þeim ekki undirgefinn á neinn hátt. 

Það gildir það sama um  umræðuvettvanga á Netinu. Sá sem á vettvanginn og getur stjórnað boðleiðunum hann getur líka stjórnað umræðunni. Þannig hefur mogginn og moggabloggið verið að þróa ýmsar aðferðir til að lyfta upp umræðuefnum og lyfta um ákveðnum bloggurum. Það tryggir bloggara afar mikla lesningu að vera lyft til skýjanna á Moggablogginu, sérstaklega að vera settur í sviðsljósið á forsíðu mbl.is. 

Akkúrat í augnablikinu er kastljósið á kynlífssögur sjónvarpsþulunnar og frásögn af æðisgenginni leit Bjarna Harðarssonar að Framsóknarmönnum, leit sem núna stendur í fjallahéruðum í Perú.  Reyndar er það alveg óþarfi, íslenskir Framsóknarmenn eru ekki allir lagstir út og týndir og tröllum gefnir, þeir skila sér  af fjöllum í hefðbundna smalamennsku þegar féð rennur til byggða með haustinu. 

 Svo getur maður séð hvaða umræður eru heitar þ.e. með flestum athugasemdum. Ég tók stöðuna á því núna og það er heitast að taka um kynlíf eldri borgara, þvagleggjarmál og nauðgunarlyf og jagast yfir hvað bloggarar séu miklir hálfvitar að tala um vitlausa hluti.

Sniðugir bloggarar hafa náttúrulega lært á moggabloggið og hvernig megi tryggja vinsældir þar með því að enduróma það sem mogginn segir. Mogginn vill nefnilega náttúrulega láta moggabloggara tala sem mest um það sem stendur á mbl.is. Þannig hefur moggabloggið ýtt undir nýja listgrein á bloggi, svona bergmálsblogg sem gengur út á að endurtaka það sem stendur í fréttum mbl.is bara með pínulítið breyttu orðalagi.  Ef t.d. Mogginn flytur krassandi frétt eins og í dag Ljót heimkoma fjölskyldu í Garðabæ þá getur bergmálsblogglistamaður bloggar frétt eins og Ófögur heimkoma í Garðabæ. Reyndar er þessi bergmálum bloggsins farin að breiða sig yfir í aðra fjölmiðla  og margir búnir að læra kúnstina af Stebbafr, þannig sýnist mér Kastljósið á RÚV vera að verða daufur endurómur af umræðu sem hefur eða er að fjara út á moggablogginu.

Mogginn býður upp á blogg um fréttir og á forsíðunni þá má skoða það sérstaklega hvaða fréttir er bloggað um.  En mogginn leyfir ekki að það sé bloggað um allar fréttir. Stundum er slökkt á bloggafréttstakkanum. Sumir eru svo  ánægðir með það að þeir blogga  hrós til Moggavefsins en það er ég ekki.  Það er ákveðin ritstýring auðvitað í því hvaða fréttir mbl.is velur koma fram með og hvenær og hvernig fréttir eru orðaðar. Fréttirnar eru tilbúningur á þeim veruleika sem við búum við, einhvers konar uppteiknun á heimsmyndinni eins og sá sem skrifar fréttina vill sjá hana. Það er óþægilegt að mbl.is gefi sér fyrir fram að ekki megi hleypa bloggurum að einhverjum fréttum.  

ludvikEin nýjasta fréttin núna er frétt um faðernismál Lúðvíks Gizurarsonar en yfirgnæfandi likur eru á því að hann sé sonur fyrrum forsætisráðherra Íslands. Um þetta hefur verið fjallað í ótal mörgum blaðagreinum undanfarin ár. En það er áhugavert að mbl.is hefur stillt þessa frétt þannig að ekki er leyft að blogga um hana.

Það er umhugsunarefni hvers vegna mogginn kýs að beina bloggurum frá því að blogga um þessa frétt sem er mjög áhugaverð og hefur skírskotun langt út fyrir þetta einstaka mál.

Eru ef til vill til einhverjar reglur um hvaða fréttir eru bloggfréttstækar? 

 

 

 

 

 


Háskólar á fleygiferð

Ég var að sjá í þessari ræðu Einars Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ákvörðun hefur verið tekin um að  landbúnaðarháskólarnir flytjist undir menntamálaráðuneytið. Það er skynsamlegt og vonandi stuðlar það að meiri samvinnu og hugsanlegum samruna síðar meir milli  landbúnaðarskóla og annarra  háskólaskóla.

Það er mikið að gerast í háskólaumhverfi á Íslandi  akkúrat núna og á næstunni.

Heimamenn í öllum landhlutum leggja kapp á að það rísi öflugt háskólasetur á þeirra heimaslóð og Kennaraháskólinn mun formlega sameinast Háskóla Íslands á næsta ári. Núna var verið að taka fyrstu sköflustunguna að nýbyggingasvæði Háskóla Reykjavíkur í Öskjuhlíðinni. Í framtíðinni verður mikil þekkingarnýlenda í Vatnsmýrinni þar sem  háskólarnir tveir Háskóli Íslands og Háskóli Reykjavíkur ná yfir heljarmikið flæmi.  Svo er verið að setja upp háskólasetur á gamla varnarsvæðinu og akademíu í Keflavík og Biföst hefur vaxið mjög á undanförnum árum.

Skipulagsbreytingarnar á háskólum endurspegla þær samfélagsbreytingar sem núna ganga yfir, uppstokkun á háskólum þar sem þeir sundrast og sameinast á víxl er ekki bundin við Ísland, þetta er þróun sem við sjáum verða alls staðar í nálægum löndum Vesturlanda. Þetta er ennþá ein birtingarmynd þeirra  breytingatíma sem við erum að ganga í gegnum þar sem lykillinn að velgengni er þekkingin og sum þekking og færni verður úrelt áður en varði. 

Það er gaman að spá í söguna og framtíðina, spá í hvort þessar skipulagsbreytingar á háskólastiginu hafi áhrif í sjálfu sér eða hvort þær eru hluti af óhjákvæmilegri þróun, hvort að vinnubrögðin hafi ekki fyrst breyst og svo sé meira svona formlegt atriði að breyta opinberri formgerð og staðsetningu stofnunar í skipuritinu. 


Tónlistarnám, frístundakort og stafrænt föndur

e1b6c31e

Það er gott að búa í borg þar sem velmegun er  mikil. Það er ennþá  betra að búa í borg þar sem skilningur er á að styrkja menntun, menningu og listir. Það er ekkert að því að tónlistarnám sé niðurgreitt fyrir krakka í Reykjavík, það er þess eðlis að það er dýrt nám  og það þarf oft að hafa fáa nemendur í hóp eða jafnvel einkatíma. Svoleiðis nám er náttúrulega dýrara en þar sem hægt er að stafla nemendum inn í stórum hópum.

En er þetta sniðugasta og besta  og réttlátasta aðferðin til að styrkja börn í Reykjavík til listnáms? Ég held að svo sé ekki.

Í fyrsta lagi þá er listgreinum gert mjög mismunandi undir höfði, þannig fer afar hár styrkur til að styrkja nemendur í tónlistarnám en miklu minni styrkur til að styrkja nemendur í t.d. myndlistarnám.  Í öðru lagi þá er sumt af þessu tónlistarnámi mjög "selectivt", það eru ekki nema nokkrir nemendur sem komast í þetta nám og fremur óljóst hvernig staðið er að því að velja inn nemendur. Í þriðja lagi þá kostar það nemendur mikið að vera í þessu námi þó það sé svona mikið niðurgreitt.  Þetta þýðir að það eru einmitt foreldrar sem hafa aðstöðu þ.e. rúm fjárráð og áhuga á listum sem hafa mestu möguleikana að koma börnum sínum í svona nám. Það gildir það sama um niðurgreiðslu á menningu hvað varðar nám í tónlistarskólum og t.d. Symphoníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið, það er sennilega verið að niðurgreiða menningu og menningarnám fyrir þann hóp samfélagsins sem er best settur fyrir - það er verið að niðurgreiða elítumenningu fyrir elítuna.

Það eru aðrar aðferðir sem eru réttlátari gagnvart fátækum börnum og foreldrum sem hafa aðrar áherslur en tónlist í uppeldi barna sinna. Þar má nefna  frístundakortin sem við  Framsóknarmenn höfum á stefnuskrá okkar þ.e. að hvert barn fái upphæð sem foreldrarnir geta valið hvernig þeir nota fyrir frístundanám barna sinna. Mér skilst að þetta sé einmitt núna að komast í gagnið í Reykjavík. Þess má geta að hagfræðingurinn Milton Freedman hafði eimitt þessar hugmyndir í skólamálum. Hann stakk upp á slíkum kortum eða upphæð sem fylgdi barninu en ekki styrkjum til menntastofnana.

Það er skynsamlegt að láta meðgjöf frá opinberum aðilum  fylgja börnum  en setja hana ekki beint til stofnana m.a. til skólastarfs. Væri hægt að útfæra þetta fyrir meira en frístundir barna? Væri hægt að hugsa sér að hvert barn fengi ákveðna upphæð á hverju ári sem foreldrar gætu ráðstafað til skólahalds og námskostnaðar? Hugsanlega myndu einhverjir foreldrar kjósa að hafa börnin sín í fjarnámi og einhvers konar óhefðbundnu námi s.s. leshringjum eða jafnvel kjósa að mennta sjálfir börnin sín (home schooling) eða hafa þau í skólum þar sem öll kennsla fer fram á ensku? Væri það vont fyrir Reykjavík og Ísland?

Sennilega ekki. Sennilega eru upplýstir foreldrar - amk ef þeir eru ekki of krepptir í að leysa  pössunarvandamál fyrir börnin sín - bestu dómararnir í hvað kemur sér best fyrir börnin og það eru þeir sem eru hvað mest á vaktinni fyrir velferð barnanna sinna og vilja tryggja góðan hag þeirra og hamingju í framtíðinni. 

Sennilegra munu foreldrar velja fjölbreytilegri svið ef þau hefðu meira val um hvernig kostnaði vegna náms barna þeirra væri varið.  Hugsanlega myndu þeir velja annars konar listnám en klassískt tónlistarnám. Hugsanlega myndu einhverjir foreldrar velja einhvers konar stafrænt föndur eða listssköpun með rafrænum miðlum fyrir börnin sín ef þeir fengju að ráða - ég tala nú ekki um ef börnin sjálf hefðu eitthvað að segja um valið.

Myndin með þessu bloggi er af  tveimur vestfirskum bóndadætrum þeim Þorsteinu Þöll og Magneu Gná með Gísla Garðar frá Hvanneyri á milli sín. Ég vann þessa mynd í Fotoflexer, það er ennþá ein vefþjónustan sem breytir myndum. Þetta er dæmi um stafrænt föndur sem í dag er forsmáð og lítilsvirt listgrein, já reyndar svo lítilsvirt að sumir brosa kannski þegar einhver sem tekur stafrænar ljósmyndir og vinnur þær áfram tengir það eitthvað við listsköpun.

028

Ég lít á bloggskrif sem listsköpun og ég lít á stafræna ljósmyndun og stafræna myndvinnslu sem listsköpun. Ég held að  þeir sem líta svo á að þeir séu að sinna list blási öðru vísi lífi í verk sín, einhverju sem kemur ekki nema sá sem skapar trúi á list sína.

Járnsmiðurinn Kristján Jóhannsson frá Akureyri með röddina fögru og þróttmiklu sem síðar varð frægur óperusöngvari  sagði einu sinni  í víðtali, hann var að tala um fyrri konu sínu sem dó ung:
"Hún kenndi mér að líta á mig sem listamann".


mbl.is Borgin greiðir 274 þúsund með hverjum tónlistarnema
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndið fréttaskot hjá Rúv úr fréttum 1988

salvor-1988ruvÉg brosti þegar sjónvarpsréttirnar í kvöld enduðu með því að sýna upptöku frá tölvusýningu 1988. Reyndar skellihló ég þegar ég svo sá að inn í því var viðtal við mig sem tekið var fyrir 19 árum. Það er gaman að sjá hvað allt er eitthvað svo forneskjulegt, það má ekki á milli sjá hvort er forneskjulegra ég með permanent og risastór gleraugu og einhverja skrýtna hálsfesti með trédýrum eða tölvurnar fornu með græna letrinu. Þegar ég horfði á þáttinn fylltist ég sams konar nostalgíu og þegar ég horfi á  vídeobrot úr  kvikmyndinni "Síðasti bærinn í dalnum" eða frá hagyrðingamótunum sem sjónvarpið bauð okkur upp forðum daga. 

Ég vildi að ég ætti ennþá allar þær tölvur sem ég hef átt og losað mig við um dagana - sérstaklega væri nú gaman að eiga Sinclair Spectrum sem var mín fyrsta tölva, ég held ég hafi fengið hana árið 1982 eða 1983. Svo átti ég Apple IIe og síðar Macintosh og svo nokkrar PC tölvur. Ég hef nú ekki tengst neinum af þessum PC tölvum neinum tilfinningaböndum, þær hafa bara verið vinnujálkar sem koma og fara.

Sennilega þyrfti ég stóra geymslu fyrir allar þær tölvur sem ég hef átt um ævina og sem tæknibreytingar hafa gert undrafljótt úreldar, meðalendingartími tölvu er og hefur verið svona um þrjú ár, þá er hún orðin svo úrelt og seinvirk að það borgar sig ekki að lappa upp á hana. Reyndar gildir það sama um gemsa og stafrænar myndavélar, ég er núna með fjórðu stafrænu myndavélina um ævina. 

Núna eru aðstæður að verða þannig að það er bara tímaspursmál þangað til tölvur verða svo ódýrar að hvert einasta barn í grunnskóla getur haft sína eigin nettengdu fartölvu. Það eru reyndar mikil þróunarvinna núna lögð í alþjóðlega OLPC verkefnið (one laptop per child) - að framleiða fartölvu sem kostar innan við $100 sem myndi nýtast í þróunalöndum og fyrir fátæk börn. Hugbúnaður er einnig að verða ódýrari ekki síst vegna opins hugbúnaðar en samkeppni við hann hefur þvingað marga hugbúnaðarsala til að lækka verðið á sínum vörum. Það er erfitt að selja vöru rándýrt þegar allir geta hlaðið niður ókeypis sams konar eða betri vöru. 

En það er gaman að velta fyrir sér hvernig ástandið verður eftir tuttugu ár. Sennilega munum við líka brosa þegar við lítum á fréttaskot úr sjónvarpi frá árinu 2007 og þann búnað sem þá var notaður, við munum hlæja okkur máttlaus af því að einhverjir hafi nennt að horfa á pínkulítil og óskýr vídeó á Youtube og við munum brosa að blogg og netkynslóðinni sem notaðu jafneinföld verkfæri til samskipta og  moggabloggið og myspace-ið.  En það getur verið að eftir tuttugu ár þá þyki okkur allra broslegast að árið 2007 og áratugina á undan hafi fólk verið fast í þá ímynd að sjónvarp ætti að vera eitthvað miðstýrt stórt batterí í eigu ríkisins eða stórfyrirtækja og með heimkynni í musterum eins og RÚV kirkjunni í Ofanleiti. Líka að sjónvarp ætti að senda út straum á ákveðnum tímum til margra viðtakenda. Sennilega hefur eftir tuttugu ár þetta líkan brotnað upp,það verða ekki eins skýr mörk milli þess sem sendir út og þeirra sem hlusta. Ef til vill verður Þjóðarsálin þá í einhvers konar vídeóþingi þar sem margir taka þátt í útsendingu sem ekki hefur endilega neina miðju eða stjórnanda.

En svona til að geta hlegið aftur eftir tuttugu ár þá er hérna  lítið youtube vídeóblogg frá mér:


8 strákar og 5 stelpur

Fyrir hvað er borgin Lianyungang í Kína  fræg í dag... eða öllu heldur illræmdust allra borga í heiminum?

Þetta virðist nútímaleg borg sem ætlar sér að verða vinsæll alþjóðleg baðstrandarborg sem trekkir að túrista og fjármagn eins og segir í þessum texta:

Lianyungang is one of the first 14 coastal cities opening to the outside world, a perfect city for investment environment, one of ten port cities in China, a communication hub, an excellent tourist city in China and one of three trade centers in Jiangsu Province. Lianyungang has predominant location and enormous development potential, aiming to become an international seashore city, modern harbor city and a famous tourist city with mountains and sea gathering around.

En myrku hliðarnar á borginni eru ekki þessar háleitu fyrirætlanir heldur er það tölfræðin.  Það er eitthvað í meira lagi skrýtið þarna, hvergi nokkurs staðar er kynjahlutfallið ömurlega. Af börnum undir fjögurra ára aldri þá eru 163.5 strákar og 100 stelpur. 

Sjá nánar greinina China to act on gender inbalance og greinina China warned on gender imbalance

Þetta er sterk vísbending um að  meyfóstum sé eytt í milljóna tali og stúlkubörn séu myrt. Þetta er dæmi um hryllilega útrýmingarherferð á fólki á grundvelli kynferðis. Það er furðulegt hve litla eftirtekt þetta vekur í fréttum og umfjöllun hérlendis að víða um heim er konum og meybörnum mismunað mikið og svo hrottalega eingöngu vegna kynferðis og þær pyntingar og þau dráp byrja í móðurkviði.


Brúðkaupstollur og hreppaflutningar á Íslandi árið 1921

Eftirfarandi frásögn er  í bókinni "Ágúst á Hofi lætur flest flakka"  en þar segir frá konu og dóttur hennar sem komu í Vatnsdal árið 1921 og hvernig hreppurinn losnaði við þær. Þessi saga sem minnir mig á frásögnina í Sölku Völku af því þegar  Salka og Ólína móðir hennar koma til þorpsins Óseyri við Axlarfjörð:

Um miðjan ágúst þetta sumar vitum við Vatnsdælingar ekki fyrri til, en frú ein er flutt hreppaflutningi heim til hreppstjóra okkar með tólf ára dóttur sína. Þarna var farið alveg að gamalli hefð, og konan send frá einum hreppstjóra til annars, og hófst sú ferð austur í Rangárvallasýslu.

Fyrirmenn í Vatnsdal tóku nú að grennslast fyrir um, hverju þessi sending sætti. Þeir könnuðust ekki við konuna né vissu til, að hún ætti þar fæðingarsveit, og við athugun málsins kom í ljós, að svo var ekki. Oddviti varð að taka við konunni og sjá henni fyrir samastað. Konan var vanheil og örðug í vist. Bréfaskipti allmikil fóru nú á milli hreppa um þessi mál. og skýrðist það brátt. Þá kom í ljós, að beitt hefði verið allóvenjulegum klækibrögðum til þess að koma konunni á Áshrepp.

Hún átti sveitfesti í tilteknum hreppi í Rangárvallasýslu, og sá hreppsnefndin fram á, að af henni yrðu sveitarþyngsli. Kom henni þá það snjallræði í hug að fá staðfestulítinn mann, sem átti Áshrepp að fæðingar- og framfærslusveit, til þess að kvænast konunni. Sá maður var löngu farinn úr Vatnsdal en hafði víða dvalizt og hvegi svo lengi, að hann ynni sér sveitfesti.

Hin rangæska hreppsnefnd bauð nú þessum manni þúsund krónur fyrir að kvænast konunni. Skyldu 500 kr. greiðast við brúðkaupið  en 500 kr síðar. Auk þess lagði hreppsnefndin brúðgumanum til brúðkaupsföt en tók þau aftur að loknu brúðkaupi.

Hin nýgiftu hjón dvöldust þar eystra í nokkrar vikur, en brátt hlupu snurður á þráðinn, og sambúðin gerðist örðug enda var lítill auður í búi. Maðurinn taldi sig svikinn, því að hreppsnefndin borgaði ekki það, sem eftir stóð af brúðkaupstollinum, eins og heitið hafði verið. Þágu þau hjón nú af sveit áður en hjónabandið leystist upp. En þá hafði hreppsnefndin rangæska náð tilgangi sínum og komið konunni af sér. Hún taldi einboðið að senda konuna heim í framfærsluhrepp eiginmanns hennar, Áshrepp.

Nú þóttust Vatnsdælingar heldur en ekki grátt leiknir af þeim Rangvellingum en fengu enga leiðréttingu mála með bréfaskriftum. Rangvellingar töldu hjónabandið löglegt og einsætt, hvar konan ætti sveitfesti úr þessu. Málinu var loks skotið til sveitafundar í Vatnsdal upp úr áramótum, og þar þóttu þetta firn mikil. Fundurinn samþykkti einróma að leita réttar hreppsins eftir lagaleiðum, en það var allt annað en auðgert.

Dýrt þótti að senda oddvitann, sem þá var Eggert á Haukagili, suður á land til þess að reka mál hreppsins, en líklegra yrði enn dýrara að ráða lögfræðing til þess að taka málið að sér. Varð því úr ráði að kæra málið  til sýslumanns. Hann skrifaði síðan starfsbróður sínum í Rangárþingi, færði rök að því, að hjónavígslan hlyti að teljast ólögleg, þar sem brúðguminn hefði verið tældur til hennar með féboðum og teldi sig svikinn, og bað þess, að réttarpróf yrði haldið í málinu.

Skýrsla sýslumanns Rangæinga barst með vorinu, og gat þar að lesa, að ítarleg réttarrannsókn hefði farið fram, margir aðilar hefðu verið kallaðir fyrir, en ekkert hefði komið fram, sem benti til þess, að nokkrir meinbugir væru á hjónavígslunni eða nokkur nauðung hefði átt sér þar stað. Sýslumaðurinn sendi sem sönnunargagn ásamt öðrum málskjölum, konunglegt leyfisbréf til hjónabandsins, og er sá minjagripur enn til í skjölum Áshrepps.

Vatnsdælingar urðu því að sitja með sendingu Rangvellinga, og líkaði stórilla, sem vonlegt var, því ekki var auðséð fyrir konunni, og varð af töluverður kostnaður. Hún fór milli bæja og var stutt í stað, og varð meðgjöf að vera allnokkur. Gekk svo í ein þrjú ár, að tilraunir til þess að losna við hana báru ekki árangur. Reynt var að koma henni á ríkisframfæri vegna vanheilsu, enda lék grunur á, að hún væri berklaveik. Konan hafði fyrr á árum gengið sértrúarflokki á hönd, og lausn Vatnsdælinga varð sú að semja við trúarsystkin hennar í Hafnarfirði um að taka hana að sér fyrir hóflega meðgjöf, og þótti flestum sem vandræðamál þetta leystist vonum fremur. 


Tjóðraða stelpan

Ég er að taka til í dóti og fann eftirfarandi frásögn á ljósrituðum blöðum, frásögn manns sem rifjar upp minningar úr bernsku. Það var nýlega haldið upp á afmæli Kleppsspítalans. Þessi frásögn segir  frá lífi eins af fyrstu vistmönnum þar, konu sem dó á Kleppi:

Ekki er mér kunnugt um, hve mikla skatta faðir minn bar á þessum árum til ríkis og sveitarsjóðs. En hitt fellur mér aldrei úr minni, á hvern hátt hluti útsvars var á lagður í Seltjarnarneshreppi. Það var einn vetrardag, fyrsta árið okkar í Skildinganesi, að maður sást koma heim traðirnar og hafði konu í bandi, sem búin var kufli úr hessian-pokastriga, og allur var annar búnaður hennar eftir því. Á eftir konunni gekk unglingur og hottaði á hana, ef hún hægði á sér, rétt eins og þegar verið var að leiða kú, sem treg er í taumi. Kvatt var dyra hjá foreldrum mínum, og þeim afhent konan til varðveizlu ákveðinn tíma.

Kona þessi hét Guðný Einarsdóttir. Ekki er mér kunnugt um aldur hennar, en hún mun þá hafa verið eitthvað um fertugt. Hafði hún farið fimm ára telpa með foreldrum sínum út í Örfirirsey að morgni, en er á daginn leið þurftu hjónin að fara snöggvast í land. Var þá grandinn milli lands og eyjar undir sjó. Og með því að veður var hið bezta, telpan sofandi í sólskininu og ætlunin að koma strax aftur, tóku foreldrarnir það ráð að tjóðra telpuna, svo að hún færi sér ekki að voða, ef hún skyldi vakna, áður en þau kæmu aftur til eyjarinnar. 

En svo illa vildi til, að þegar hjónin ætluðu aftur úr bænum, var komið slíkt illveður, að ófært þótti öllum fleytum út til eyjarinnar. Það var ekki fyrr en að morgni næsta dags, að komizt varð út til barnsins. Var telpan þá enn lifandi og enn í tjóðrinu, en vitið hafði hún misst um nóttina af hræðslu, og aldrei fengið það aftur.

Þegar hreppurinn varð að taka við henni þótti hún svo erfiður ómagi, að enginn fékkst til að hafa hana að staðaldri, og var þá þetta snjallræði fundið upp, að jafna henni niður á bæina eftir efnum og ástæðum, á sama hátt og útsvarinu.

Víða var hún látin dvelja í fjósinu, bundin þar á bás með kúnum, með moði að sæng og einhverjum druslum að yfirbreiðslu. Skammtað var henni í dall eða ask, og át hún allar máltíðir með höndunum einum, hvort heldur um var að ræða fasta eða fljótandi fæðu, nema hvað hún drakk lög úr krúsum eða bollum.

Ég man hvað okkur öllum brá, er við sáum fyrst þennan vesaling, og móður minni þó mest. Er spurt var í hvaða bás ætti að binda hana, bauð móðir mín að hún skyldi færð í baðstofu sem annað fólk. Klæddi hún hana úr hverri spjór, bjó henni ullarnærföt og gekk svo frá sem hún væri með hvítvoðung á höndum sér. Henni var síðan fengið eitt af rúmunum til að sofa í, en binda varð hana þar, svo hún færi sér ekki að voða. Hjá okkur var hún þannig um hálfsmánaðartíma ár hvert, og var það jafnan móðir mín, sem annaðist hana að öllu leyti.

Guðný var þægt stórt barn, gerði engum mein, en hún skalf og nötraði í hvert sinn, sem hún var leidd fyrir gripahús, en í þeim hafði hún eytt mestri ævi sinni. Hún var alla tíð ákaflega myrkfælin, og þó að hún fengi ekki mælt, þá sást jafnan á svipbrigðum hennar, hvort henni bjó í huga gleði eða sorg, kvíði eða ánægja.

Það er fátt, sem ég hef blessað móður mína meira fyrir eftir að ég fór að hafa fullt vit, en það, hvernig hún hjúkraði Guðnýju og reyndi allt til að létta henni þann kross, sem lagður var á herðar henni í æsku. Þegar geðveikrahælið á Kleppi var reist, var hún með fyrstu sjúklingunum, sem þangað voru fluttir, og þar lauk hinni ömurlegu ævi hennar.

 


Opinn hugbúnaður í skólastarfi

Ég var í morgun í Eldborg í Bláa lóninu og flutti erindi um opinn hugbúnað í skólastarfi á Íslandi á fundi COSSNordic netsins en það  er verkefni styrkt af Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni og eru Samtök iðnaðarins þátttakendur þar. Á undan mér talaði Halla Björg sem stýrir verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu og hún talaði um stefnu stjórnvalda og opinn hugbúnað og hver reynslan hefði verið í stjórnsýslunni. Vonandi mun ríkisstjórnin sem fyrst samþykkja stefnu um opinn hugbúnað.

Það var gaman að hitta Höllu Björgu, hún var einu sinni framhaldsskólakennari eins og ég og skrifaði kennslubók í Basic sem ég kenndi einu sinni fyrir guð má vita hvað löngu. Svo er hún líka að vinna núna á sömu skrifstofu og ég vann hjá fyrir nokkrum árum í forsætisráðuneytinu. Ég á góðar minningar þaðan, það var frábær vinnustaður.

Eftir hádegi fór ég fund með tölvufólki hér í vinnunni um  uppsetningu hugbúnaðar í tölvuverum. Þaðer búið  að setja  nýjar tölvur í tölvuverin. Ég  er búið skrifa langan óskalista um það sem ætti að vera inn á öllum tölvum og geri allt sem ég get til að fá nemendur og starfsfólk til að nota opinn hugbúnað. 

Það er nú reyndar ekki allt sem er opinn hugbúnaður sem ég vil fá inn á nemendatölvur, það er líka ýmis ókeypis hugbúnaður. Hér er listi yfir nokkur af þeim forritum/búnaði sem ég bað um til viðbótar ð við þessa venjulega windows-office forritavöndla og photoshop. Mér finnst atriði að hafa líka Gimp inn á vélunum eins og photoshop jafnvel þó flestir noti photoshop.

 

*  Moviemaker  (ókeypis microsoft)

* Reaper (ókeypis óskráð útgáfa)

* Scratch (ókeypis)

* Skype (ókeypis)

* Winsnap (ókeypis)

* Inkscape (ókeypis, open source)

* Blender (ókeypis, open source)

* Pichasa  (ókeypis)

* Filezilla (ókeypis, open source)

* Audacity (ókeypis, open source)

* Freemind (ókeypis, open source)

* Paint.net (ókeypis, open source)

* tuxpaint  (ókeypis, open source)

* artrage (ókeypis útgáfan) 

* Camstudio (í staðinn fyrir camtasia)   (ókeypis, open source)

* jing (í staðinn fyrir camtasia) (ókeypis - tímabundið)

* photostory (ókeypis microsoft)

* hot potatos (http://hotpot.uvic.ca/) (ókeypis)

sketchup (ókeypis frá google) 

 Flest forrit sem ég nota eru reyndar vefþjónustur og þá þarf oftast ekki að hlaða neinu niður. Það getur verið að það sé vesen að setja ýmislegt inn. Það er nú frekar ólíklegt að skype verði sett um í tölvuverum, það er p2p kerfi sem erfitt að sýsla með í skólaumhverfi segja mér fróðari menn.


Skólarnir byrjaðir... tími fyrir krossapróf

Núna þegar skólarnir eru að byrja þá býð ég upp á örlítið krossapróf til að sýna hvernig við getum á auðveldan hátt búið til próf. Allir geta búið til svona krossapróf og límt kóða á vefsíðu eða blogg. Kerfið sem ég nota heitir http://www.proprofs.com/quiz-school  það þarf að skrá sig sem notanda og þá er auðvelt að búa til próf. Ég gerði þetta lauflétta próf með fjórum spurningum, endilega prófaðu að taka það. Því miður þá leyfir moggabloggið ekki að maður lími inn iframe kóða, slóðin á krossaprófið er hérna Vestmannaeyjar og fastalandið.

En þetta hefði átt að birtast á moggablogginu eins og á blogspot, sjá hérna : Próf á vefnum

Það eru alls konar öryggislokanir í svona bloggkerfum og því miður eru þær oft mjög hamlandi fyrir notendur, sérstaklega notendur sem nota efni og einingar víðs vegar frá. 

 


Bloggari talaði illa um bók, bókarhöfundur fer í mál

Þegar vísindamenn taka upp á að blogga um kóða lífsins og sköpunarkenningar og Darwinisma á þessum síðustu og verstu tímum þá verður allt vitlaust í bloggheimum. PZ Myers prófessor í líffræði skrifaði núna í júlí á bloggið sitt ansi snarpan ritdóm um bókina  LifeCode: The Theory of Biological Self Organization eftir S. Pivar. 

Bloggarinn reyndar hældi bókina fyrir góðan pappír og fagurt útlit og hafði ekki sama að segja um innihaldið. Hann sagði í bloggritdóminum:

I have to add another compliment for the book, though. In addition to the lovely artwork, it's an extremely high quality print; well bound, on heavy stock, and looking to last a thousand years. It seems no expense was spared getting it published, which is in contrast to the content, and is unusual for such flagrant crackpottery.

Svo fylgir með góðlátleg ábending til höfundar bókarinnar um vinnureglur við svona skrif:

To Mr Pivar, I would suggest a simple rule. Theories are supposed to explain observation and experiment. You don't come up with a theory first, and then invent the evidence to support it.

En tók bókarhöfundur þessu vel og þakkaði fyrir langan og ítarlegan ritdóm og bloggumfjöllun? Nei, aldeilis ekki. Pivar fór í fýlu og hefur höfðað mál gegn bloggaranum PZ Myers  fyrir rógburð og ærumeiðingar.

Bókin er til sölu á Amazon. Það er svo framsækið fyrirtæki að það leyfir notendum að skrifa umsagnir um bækur og merkja þær með leitarorðum (tagging) svo aðrir notendur geti fundið þær. Það er fyndið að sjá hvernig bókin hefur verið merkt á Amazon og maður spyr sjálfan sig hvenær fyrstu málaferlin verða vegna þess að einhverjum líkar ekki hvernig hans gögn séu merkt. Hér er skjámynd af  leitarorðunum sem tengd hafa verið við þessa bók:

junk-science

Ég hugsa að þetta sé hrekkur þeirra sem lesið hafa um þetta mál á digg eða boing  o.fl. vefsvæðum. 

 Writer sued for a negative review in a blog post

Hér er skilgreining á orðinu crackpottery.

Um hvaða Íslendinga gætum við notað það orð? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband