Fyndið fréttaskot hjá Rúv úr fréttum 1988

salvor-1988ruvÉg brosti þegar sjónvarpsréttirnar í kvöld enduðu með því að sýna upptöku frá tölvusýningu 1988. Reyndar skellihló ég þegar ég svo sá að inn í því var viðtal við mig sem tekið var fyrir 19 árum. Það er gaman að sjá hvað allt er eitthvað svo forneskjulegt, það má ekki á milli sjá hvort er forneskjulegra ég með permanent og risastór gleraugu og einhverja skrýtna hálsfesti með trédýrum eða tölvurnar fornu með græna letrinu. Þegar ég horfði á þáttinn fylltist ég sams konar nostalgíu og þegar ég horfi á  vídeobrot úr  kvikmyndinni "Síðasti bærinn í dalnum" eða frá hagyrðingamótunum sem sjónvarpið bauð okkur upp forðum daga. 

Ég vildi að ég ætti ennþá allar þær tölvur sem ég hef átt og losað mig við um dagana - sérstaklega væri nú gaman að eiga Sinclair Spectrum sem var mín fyrsta tölva, ég held ég hafi fengið hana árið 1982 eða 1983. Svo átti ég Apple IIe og síðar Macintosh og svo nokkrar PC tölvur. Ég hef nú ekki tengst neinum af þessum PC tölvum neinum tilfinningaböndum, þær hafa bara verið vinnujálkar sem koma og fara.

Sennilega þyrfti ég stóra geymslu fyrir allar þær tölvur sem ég hef átt um ævina og sem tæknibreytingar hafa gert undrafljótt úreldar, meðalendingartími tölvu er og hefur verið svona um þrjú ár, þá er hún orðin svo úrelt og seinvirk að það borgar sig ekki að lappa upp á hana. Reyndar gildir það sama um gemsa og stafrænar myndavélar, ég er núna með fjórðu stafrænu myndavélina um ævina. 

Núna eru aðstæður að verða þannig að það er bara tímaspursmál þangað til tölvur verða svo ódýrar að hvert einasta barn í grunnskóla getur haft sína eigin nettengdu fartölvu. Það eru reyndar mikil þróunarvinna núna lögð í alþjóðlega OLPC verkefnið (one laptop per child) - að framleiða fartölvu sem kostar innan við $100 sem myndi nýtast í þróunalöndum og fyrir fátæk börn. Hugbúnaður er einnig að verða ódýrari ekki síst vegna opins hugbúnaðar en samkeppni við hann hefur þvingað marga hugbúnaðarsala til að lækka verðið á sínum vörum. Það er erfitt að selja vöru rándýrt þegar allir geta hlaðið niður ókeypis sams konar eða betri vöru. 

En það er gaman að velta fyrir sér hvernig ástandið verður eftir tuttugu ár. Sennilega munum við líka brosa þegar við lítum á fréttaskot úr sjónvarpi frá árinu 2007 og þann búnað sem þá var notaður, við munum hlæja okkur máttlaus af því að einhverjir hafi nennt að horfa á pínkulítil og óskýr vídeó á Youtube og við munum brosa að blogg og netkynslóðinni sem notaðu jafneinföld verkfæri til samskipta og  moggabloggið og myspace-ið.  En það getur verið að eftir tuttugu ár þá þyki okkur allra broslegast að árið 2007 og áratugina á undan hafi fólk verið fast í þá ímynd að sjónvarp ætti að vera eitthvað miðstýrt stórt batterí í eigu ríkisins eða stórfyrirtækja og með heimkynni í musterum eins og RÚV kirkjunni í Ofanleiti. Líka að sjónvarp ætti að senda út straum á ákveðnum tímum til margra viðtakenda. Sennilega hefur eftir tuttugu ár þetta líkan brotnað upp,það verða ekki eins skýr mörk milli þess sem sendir út og þeirra sem hlusta. Ef til vill verður Þjóðarsálin þá í einhvers konar vídeóþingi þar sem margir taka þátt í útsendingu sem ekki hefur endilega neina miðju eða stjórnanda.

En svona til að geta hlegið aftur eftir tuttugu ár þá er hérna  lítið youtube vídeóblogg frá mér:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég held að flestir krakkar í dag visti niður tónlist og myndbönd af netinu á ipot og horfa svo á þegar þeim sýnist.  Sjónvarp og DVD er eitthvað sem þau eru ekki að nota.  Svo er þetta tengt við sjónvarp eða hátalara og svo er valið það efni sem þeim langar að hlusta eða horfa á í það og það skiptið.

Ester Sveinbjarnardóttir, 27.8.2007 kl. 10:41

2 Smámynd: Þorbjörn

Já þetta var svo krúttlegt viðtal við þig.

Þorbjörn, 27.8.2007 kl. 16:18

3 Smámynd: Þorbjörn

Ef þú vilt rifja upp sinclair spectrum þá er auðvelt að finna emulatora á netinu.

Þorbjörn, 27.8.2007 kl. 16:19

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Skemmti mér ekkert smá yfir því að sjá þig þarna, kunnuglega en samt í svo ótrúlega öðrum heimi. Þetta var um svipað leyti og ég keypti mér 11 kg ,,ferða"tölvuna mína. Reyndar voru komnar léttari ferðatölvur, en þæŕ kostuðu tífalt það sem 11 kólóa hlunkurinn minn gerði.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.8.2007 kl. 21:02

5 identicon

er enn að nota irkið ,er meira segja þar núna,mikið notað enn ;)

broskall (IP-tala skráð) 27.8.2007 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband