Fjölmiðlar og eigendur þeirra - Bestu auðmenn Íslands

Það er gaman að fylgjast með ólgunni í íslenskum fjölmiðlaheimi, stundum held ég að þúsundir manna séu að skrifa og tala lon og don, mörg hundruð þeirra á launum hjá einhverjum skrýtnum útgáfufyrirtækjum með tölur í nöfnunum, með nöfn sem minna mig á tvö hundruð þúsund naglbíta - en flestir eru þó eins og ég ekki á launum hjá neinum og skrifa af einhvers konar tjáningar- og samskiptaþörf. 

Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar ágætt blogg Af sjálfstæðum og óháðum miðlum þar sem  hún bendir á hversu innantóm þau orð eru þegar fjölmiðlar halda fram að þeir séu frjálsir og óháðir. Einn ritfærasti bloggari þessa lands Guðmundur Magnússon hefur núna gengið til liðs við DV og bloggar þar á nýjum vefmiðli dv.is tekur þetta óstinnt upp og kallar skrif Guðbjargar Fljótfærnisleg skrif

Guðmundur vill eins og aðrir fjölmiðlamenn sem eru á launum við að ganga erinda eigenda sinna halda í þá ímynd að þeir séu alveg óbundnir af því að skrifa um það sem eigendurnir hafa velþóknun á - já og geti skrifað alveg óhræddir um það sem eigendurnir vilja ekki að sé skrifað um.

Þetta veit  náttúrulega enginn betur en ritsnillingurinn Guðmundur enda hefur hann skrifað Sögu Thorsaranna en þeir sem höfðu fengið Guðmund í það verk og greiddu honum ritlaun töldu að hann hefði ekki sagt söguna eins og átti að gera og fyrsta upplaginu var hent og sagan prentuð aftur án frásagna sem stuðuðu þá sem greiddu verkið.

Frásögnin sem klippt var úr bókinni   kom í DV og varð til þess að einn afkomandi Thorsara vildi kaupa DV gagngert til að leggja það niður. Guðmundur Magnússon veit því  manna best hverjum klukkan glymur í íslenskri fjölmiðlum enda segir hann "Dv.is er sjálfstæður miðill í þeim skilningi að hann hefur eigin  ritstjórn og er rekinn sem sérstök eining  innan DV útgáfufélags ehf.". 

Við hin getum lika tekið undir með Guðmundi og öðrum fjölmiðlamönnum og talað mikið og oft um tjáningarfrelsi okkar til að dáleiða okkur sjálf til að halda að það sé sannleikur. Nú eða kannski það sem er skemmtilegra,  að stunda sjálfsefjunina með því að raula undir með Megasi í kvæðinu hans "Ég á mig sjálf".

Fyrsta erindið er svona:

Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf 
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
Ég á mig sjálf
en Mammaboba
starfrækir mig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hann Hjörsi sálugi á Gilsbakka í Asturdal var fluggáfaður bóndi og afdalabarn. Hann þjáðist af sjúklegri hræðslu við mýsnar sem hann varð þó að umgangast daglega við gegningar. Honum var ráðlagt að setjast niður oft á dag, tæma hugann og þylja í síbylju: mýs eru geðugust grey.

Að fáum dögum liðnum hvarf honum allur ótti við músagreyin.

Niðurstaða: Heilaþvottur er oft eina leiðin til að lifa sáttur við aðstæður. 

Árni Gunnarsson, 16.9.2007 kl. 13:18

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þetta er skemmtileg saga hjá þér Árni um músaheilaþvottinn. Sennilega er ekki svo mikil þörf til að sefja sjálfan sig til að hætta að vera hræddur við mýs í dag, það er annars konar sjálfsefjun sem við þurfum á að halda. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.9.2007 kl. 13:42

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Góður pistill Salvör og ekki síðri athugasemd frændi.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 16.9.2007 kl. 14:15

4 identicon

Pistill eins og þeir verða bestir.

Óli Ágústar (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 18:09

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Flottur pistill, Salvör.

Ég las bókina um Thorsarana fyrir stuttu og saknaði auðvitað kaflans sem ekki var þar. Reyndar las ég einhvers staðar að bókin hefði einfaldlega ekki komið út ef sá kafli hefði ekki verið felldur niður.

Vitanlega er best að skrifa bara fyrir sjálfan sig en ekki aðra, en hvenær er maður óháður og frjáls?  Getur maður vitað  það? 

Sæmundur Bjarnason, 16.9.2007 kl. 21:22

6 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Getur einhver sent mér þennan kafla?

Annars er frjáls markaður hrein útópía. Hann er ekki til. En Friedman ofl sem agitera fyrir honum eru talsmenn þröngs hóps þjóðfélagsþegna sem eru sjálfsskipaðir kóngar, og það í miðju lýðræðinu. Eithvað gefur eftir. 

Ólafur Þórðarson, 19.9.2007 kl. 12:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband