Trump í kosningaham og kosningasigurvegarinn Boris Johnson

Ég horfi í skelfingu á loddarann ameríska þeysast inn í næstu amerísku kosningar þar í landi og fátt sem bendir til annars en hann muni halda völdum. Hinu megin Atlantsála fagnar annar loddari á Bretlandseyjum seinasta kosningasigri.Það er margt  líkt með þessum tveimur toppfígúrum, ekki bara að þær séu upplitaðar ljóskur heldur líka það sem þær segja. Og gera. Líka hvernig þær umgangast sannleikann og umhverfa sannleikanum eins og hentar þeim hverju sinni. Og komast upp með það.

Ekki einu sinni í okkar heimshluta erum við óhult. Hér á Trump sér formælendur sem mæra gjörðir hans og snúa sannleikanum á hvolf. Ég skoðaði áðan moggabloggið og fór að hugsa að kannski væri best að flýja Ísland. Kannski eru þetta orðnar viðteknar skoðanir á Íslandi. Skoðanir eins Gunnar Rögnvaldsson viðrar í þessu bloggi  og annar moggabloggari tekur undir í blogginu Sannleikurinn um Trump  Fyrir einhverjum misserum hugsaði ég og hló við að ég vissi ekki um neinn á Íslandi sem styddi Trump og hugsaði annað en hann væri botnlaus hallærisleg fígúra en núna eftir það loddarinn ameríski hefur sett nýjan botn æ ofan í gjörðum sínum og orðum  gengur maður undir mann á Íslandi að blessa Trump eins og mannkynsfrelsara sem bægir drepsóttum frá. Bæði þessi blogg eru dæmi um vaxandi öfgahyggju á Íslandi og líka dæmi um hve auðvelt er að búa til óvin og hagræða sannleikanum. 

 


Hundaflautustjórnmál

48490970081_9bf39495ce_z

Trump forseti Bandaríkjanna  kemur sífellt á óvart. Síðast með mynd af sér og frúnni skælbrosandi með munaðarlaust barn í El Peso. Í myndmáli þeirrar ljósmyndar skín sjálfhverfni og samúðarskortur forsetans út úr hverjum skugga.

En þolgæði bandarísku þjóðarinnar kemur ennþá meira á óvart. Hvernig er hægt að þola svo lengi á valdastóli persónu sem gerir nánast allt andstætt við það sem er siðleg vinnubrögð og virðing fyrir fólki og umhverfi. Persónu sem eys sjálfa sig lofi við hvert tækifæri og býr til eigin sannleika sem er alveg á skjön við gögn. Orðræða hans veldur hroll og viðbjóð hjá mörgum en hann hirðir ekki um það því hann er ekki að tala til fjöldans. Hans orðræða er eins og hundaflauta sem á ekki að ná til alls almennings heldur eingöngu þeirra sem hann veit að styðja hann fyrir og eru líklegir til að styðja hann í næstu kosningum. 

Orðræða Trumps er oft sjálfshól. En hún er líka oft áróður þar  sem  hamrað  er á að ákveðinn minnihlutahópur sé orsök glæpa og samfélagsupplausnar og fólk sem tilheyrir þeim hópi er líkt við einhvers konar óværu sem verði að uppræta og útrýma. Donald Trump notar oft orðið "infestation" þegar hann talar um fólk sem er dökkt á hörund og innflytjendur.

Margir benda á þetta og vara við hættu sem stafar af slíkri orðræðu:

“Donald Trump has tweeted more than 43,000 times. He’s insulted thousands of people, many different types of people. But when he tweets about infestation, it’s about black and brown people.”

 “When Trump speaks of immigrants ‘infesting’ America, he speaks in the language of genocide, not governance. By likening people to insects or vermin, even if he considers them criminals, he provides himself license to be an exterminator. We know that story.”

Það er áhugavert að bera orðræðu Trumps og þá miðla sem hún fer fram í saman við orðræðu á uppgangstíma nasista í Þýskalandi og orðræðu á tímum þjóðarmorðsins í Rúanda. Ekki af því að stjórn Trumps sé orðin slík ógnarstjórn núna heldur til að vara við hvað getur gerst ef slík orðræða valdhafa glymur yfir langan tíma. Í  Þýskalandi og Rúanda var útvarp ahrifamikill miðill. Nú er útvarp ekki áhrifamesti miðillinn, núna eru samfélagsmiðlar og sjónvarpsupptökur áhrifameiri. Sérstaklega virðast margir fylgjast með orðræðu forsetans á Twitter.

Fyrir tíu árum skrifaði ég bloggið Byltingartólið Twitter og morðið á Rodrigo Rosenberg og setti fram svona kenningu um byltingar framtíðar:

Ég held að hér eftir verði engin árangursrík  bylting framkvæmd í neinu landi nema með samhæfingu í gegnum svona tæknimiðla. Ég er þá ekki að tala um byltingu með blóðsúthellingum heldur byltingu sem er andóf og meira andóf og boðskipti gegnum ýmis konar tæknimiðla. Það skildi aldrei fara svo á næstu misserum að við vísum til byltinga með því að spyrja "Hvaða hash tag var á þeirri byltingu?"

Þegar ég lít yfir vettvanginn núna áratug seinna og reyni að meta hvaða byltingar hafa farið fram með aðstoð Twitters og tæknimiðla þá eru það ekki byltingar þar sem valdhöfum er steypt í ríkjum langt í burtu. Það eru byltingar eins og #metoo byltingin sem breytti orðræðunni í heiminum og þar er twitter byltingin í Bandaríkjunum undir merkjum Donald Trumps sem breytti bandarískri stjórnsýslu í eitthvað sem ég get ekki lýst og veit ekki hvar endar.

Nokkrir tenglar


Árið sem Lúlli litli var sex ára

Árið sem Lúlli litli var sex ára vildi Katrín taka að sér þriggja ára stelpu frá Austurríki en pabbi hans Lúlla sagði nei. Og hann réð öllu. Því hann var forsætisráðherra. Hét Hermann Jónasson. Fjölskylduaðstæður telpunnar voru eins og margra gyðingabarna á þessum tíma. Faðirinn kominn í fangabúðir og móðirin á leið í fangabúðir og leitaði nú í örvæntingu að koma barninu úr landi. Telpan átti að koma með hópi "hrakhólabarna" en mannvinir reyndu að koma svoleiðis flóttabörnum til ríkja sem ekki voru undir nazistastjórn, vitandi að þeim var bráður bani búinn í heimkynnum sínum. Hvergi nema á Íslandi tálmuðu stjórnvöld því að flóttabörn kæmu. Og á Íslandi var bara einn maður sem stóð í vegi fyrir því. Það var Hermann Jónasson. Hvað honum gekk til og hvers vegna hann sýndi svona mikla grimmd vitum við aldrei. En minning um Hermann lifir í gerðum hans eins og þær eru skráðar hérna í frásögn Katrínar frá 1939, Mannúð bönnuð:

mannud-bonnud

 

mannud-bonnud-kindertransport

 

Önnur lönd tóku við börnum sem eins var ástatt fyrir og litlu stúlkunni sem Katrín vildi veita skjól. Þetta er aðgerð sem nefnd hefur verið Kindertransport.

Hér eru tenglar og fræðsluefni um "hrakhólabörnin" eða Kindertransport


Heiðursborgari Torrevieja afheiðraður

suit-noun_4616_cc1

Nú er ég farin að fylgjast með stjórnmálum á Spáni og þá sérstaklega í bænum Torrevieja. Þar virðist ýmislegt hafa gengið á undanfarin ár.  Ég sá að á síðasta fundi borgarráðsins þar í bæ þá var heiðursborgari Torrevieja sviptur titlinum og mér sýnist þetta tengjast jakkafötum sem hann lét nokkuð alræmdan viðskiptajöfur borga fyrir sig. Ég kímdi nú með sjálfri mér því þessi jakkaföt minntu mig á fatakaupin hans Björns Inga sem hann skrifaði á Framsóknarflokkinn árið 2006. Þá var hann í framboði til borgarstjórnar og hann gallaði sig vel upp fyrir kosningabaráttuna. Hér er lýsing á innkaupum hans:

„Um er að ræða fimm jakkaföt, 26 skyrtur, 21 bindi, tíu peysur, fjögur skópör, fjögur belti, fernar gallabuxur, níu stuttermaboli, nítján sokkapör, tvo ermahnappa, frakka, leðurjakka, útijakka, langermabol, buxur og stakan jakka.”

Það getur verið að einhverjum finnist nýafstaðin kosningabarátta í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018 vera nokkuð sviplaus en það hefur alveg örugglega enginn frambjóðandi þar slitið 26 skyrtum og fimm jakkafötum sem hann borgaði ekki sjálfur.

Eftir borgarstjórnarkosningar 2006 tók svo hræðilegt kjörtímabil upplausnar og óreiðu í Reykjavík, tímabil þar sem Björn Ingi var í lykilhlutverki og tryggði Sjálfstæðisflokknum völd og borgarstjórastól. Kjörtímabilið byrjaði á því að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson  varð borgarstjóri  og Björn Ingi Hrafnsson  formaður borgarráðs. Það var svo í apríl 2007 sem kviknaði í. Það kviknaði í húsinu í Austurstræti þar sem Jörundur hundadagakóngur hafði haldið til árið sem hann ríkti á Íslandi hingað studdur af sápuframleiðenda nokkrum sem var að leita að aðföngum til efnagerðar sinnar. Bruninn var eins og fyrirboði um það sem koma skyldi í Reykjavík og kveikti hjá mér minningu um Rimahverfið og barn sem þar ólst upp eftir að hverfið stöðvaðist í byggingu. Um það hef ég ort ljóð.

Það var svo 11. október 2007 sem borgarstjórn féll út af REI-málinu og Dagur B. Eggertsson varð borgarstjóri . Björn Ingi  sagði af sér sem borgarfulltrúi í janúar 2008 eftir að mikil fjölmiðlaumræða varð um fatakaup hans og fleiri mál.

villan3

Þann 21. janúar 2008 skömmu eftir að  Ólafur Magnússon borgarfulltrúi kom úr veikindaleyfi þá tilkynntu hann og Vilhjálmur að þeir hefðu myndað meirihluta og yrði Ólafur borgarstjóri en Vilhjálmur formaður borgarráðs. Það var sannkölluð jarðarfararmynd sem birtist af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þegar Ólafur F. varð borgarstjóri, það var eins og þau væru öll mjög miður sín og skömmuðust sín mikið. Öll nema Vilhjálmur.

Ég skrifaði á sínum tíma tvö blogg um jarðarfarasvipinn á Sjálfstæðismönnum:
Jarðarfararsvipur 1

Jarðarfararsvipur 2

Ég skrifaði líka um daginn sem Ólafur varð borgarstjóri 21. janúar 2008 bloggið Svartur mánudagur en það sem var ekki vegna borgarstjóraskiptanna þó þau væru skrýtin heldur vegna fyrirboða sem ég skynjaði þá í fjármálalífi heimsins.  Ég skrifaði eftirfarandi:

"Alls staðar í heiminum fellur gengi hlutabréfa. Hlutabréf endurspegla væntingar og trú á framtíðina. Hlutabréfamarkaðir eru lokaðir í Bandaríkjunum í dag vegna fría og það verður spennandi að sjá hvað gerist þegar þeir opna á morgun. Það er bölsýni í lofti og fjárfestar hafa ekki trú á að áætlanir Bandarískra stjórnvalda bæti ástandið.

Sennilega er góðærið liðið hérna á Íslandi. Kannski stoppar allt í byggingu, svipað og gerðist með Rimahverfið á sínum tíma. Það var skrýtið að sjá þar heilu blokkirnar sem voru í byggingu og enginn vann lengur í því að engir keyptu. Smán saman fóru nýbyggingarnar sem aldrei neinn hafði flutt inn í að líkjast rústum."

 Ástandið var skrýtið, borgarfulltrúar misnotuðu veikindi Ólafs  Öllum sem þekkja til Ólafs er ljóst að hann er hæfileikamaður og hugsjónamaður og afar fær á mörgum sviðum en líka að sem borgarstjóri var hann ekki heppilegur og var hann borgarstjóri í rúma 200 daga en stjórn hans sprakk rétt fyrir Hrun.

Þá tók við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og var Hanna Birna borgarstjóri. Þá kom Hrun og ég held að allir flokkar hafi þá snúið bökum saman og síðasta tímabil þess kjörtímabils hafi verið farsælast.

Þegar ég horfi í baksýnisspegilinn þá sýnist mér að á því kjörtímabili 2006-2010 hafi sú upplausn sem núna einkennir stjórnmál hafist. Á því kjörtímabili voru tvö framboð með eingöngu einn fulltrúa í lykilaðstöðu þ.e. Björn Ingi og síðar Óskar hjá Framsóknarflokknum og Ólafur F. Magnússon hjá F-listanum. Ég held ekki að það gerist aftur. Einfaldlega vegna þess að það eru svo mörg lítil framboð og meirihlutinn núna er ekki sterkur og ekki minnihlutinn heldur. Það verður vonandi nær því að vera stjórn þar sem bæði meirihluti og minnihluti vinna saman og vilji kjósenda endurspeglast þannig í stjórnun borgarinnar.

 

En aftur að samlíkingunni við heiðursborgara Torrevieja og Reykjavíkur. Ég held ekki að það sé líklegt að Björn Ingi verði í bráð heiðursborgari í Reykjavík þó hann hafi leikið stórt hlutverk í einni tíð og hafi verið þurftafrekur á jakkaföt. Ég skoðaði lista yfir heiðursborgara í Reykjavík og mér sýnist ekki líklegt að það þurfi að afheiðra einhvern á næstu árum. 

  • Séra Bjarni Jónsson, dómprófastur og biskup 1961
  • Kristján Sveinsson, augnlæknir 1975
  • Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi Forseti Íslands 2010
  • Erró, myndlistarmaður 2012
  • Yoko Ono, myndlistarmaður 2013
  • Friðrik Ólafsson, stórmeistari í skák 2015
  • Þorgerður Ingólfsdóttir 2017

En ég fór að skoða meira þessi spillingarmál sem Fransisco Camps fyrrum heiðursborgari í Torrevieja tengist. Hann er stjórnmálamaður í flokki íhaldsmanna sem nefnist Partido Popular (PP) og  var forseti Valencia héraðs en þurfti að segja af sér vegna fjármálahneykslis sem kallað er Gürtel málið. Sá hluti af málinu sem snertir heiðurborgarann afheiðraða er kallað "jakkafatamálið":

"A case involving the Valencian branch of the alleged network went to court relatively quickly. It was known in the press as the "suitgate" affair, as it involved allegations regarding suits supposedly given to prominent Valencian politician Francisco Camps "

Hér er meira um spænska jakkafatamalið í El Pais. Þess má geta að í málaferlum var Fransisco Camps sýknaður en svo virðist sem jakkafatamálið hafi eyðilagt stjórnmálaferil hans.

Það hafa margar greinar birst í íslenskum blöðum um Gurtel málið, ég hafði bara ekki tekið eftir því fyrr en ég gúglaði jakkafata heiðursborgarann. Málið snýst um að kaup­sýslumaður­inn Francisco Cor­rea er sakaður um að hafa greitt mútu­greiðslur til að fyr­ir­tæki hans fengju samn­inga við hið op­in­bera víða um Spán. Orðið Gurtel er þýsk útgáfa af nafni höfuðpaursins Correa og það merkir belti og er sennilega skylt íslenska orðinu að "girða sig" og orðinu girðing, ég held að það hafi verið notað um belti sem er krækt saman og hafi þannig færst yfir þetta spillingarmál sem krækti saman víða um Spán mútuþæga stjórnmálamenn og þá sem vildu samninga við stjórnvöld.

Mér sýnist Gurtel málið móta spönsk stjórnmál núna og velta valdhöfum. Ríkisstjórn Spánar undir forustu Rajoy féll nýlega með bauki og bramli út af Gurtel málinu og fleiri slíkum. Það voru fulltrúar Baska sem höfðu úrslitaáhrif, þeir studdu vantraust á ríkisstjórnina vegna Gurtel  spillingarmálanna. Það þýddi  að andstæðingar Rajoy á þingi urðu 180 en það þurfti 176 til að fá í gegnum þingið  þá vantrausttillögu sem felldi hann.

Það er núna hagfræðingurinnn Pedro Sánchez sem er forsætisráðherra Spánar.


Hér eru nokkrar íslenskar greinar um málið:

Stærsta spillingamál Spánar um árabil

Lögðu fram tillögu um vantraust

Líklegt að sósialistinn Sánchez komist til valda í dag (Vísir, 1. júní 2018)

Spænska ríkisstjórnin fallin (vísir, 31. maí 2018)

Spillingarmál skekur stjórnarflokkana á Spáni (Vísir 27. maí 2018)

 

Það er líka heilmikið í spænskum blöðum en ég er nú ekki sleip í spænsku ennþá:

La trama Gürtel

La trama Gurtel echa el telón

 

Jakkafatamálið hans Camps fyrrum heiðursborgara virðist hafa skipt máli þó það sé ekki stærsta spillingarmálið. Hér er einhvers konar tímalína yfir Gurtel málið. 


Annars sýnist mér fjármálahneyksli halda áfram í nýju stjórninni. Maxim Huerta sem var menningarráðherra varð að segja af sér eftir viku í embætti vegna þess að hann hafði svikið undan skatti 2017 243.000 evrur

myndin af jakkafötum er frá nounproject eftir Adal Multin.


Eru píratar til í alvörunni? Hvernig líta þeir út? Eru þeir hættulegir?

Píratar og ungviðið
Það lítur út fyrir samkvæmt þeim skoðanakönnunum sem nú eru birtar að Píratar séu eina nýja umbreytingar og umbótaaflið í íslenskum stjórnmálum sem nær inn fulltrúa í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík. Því er spáð að Píratar fái tvo fulltrúa í Reykjavík. Hér er mynd af nokkrum af frambjóðendum Pírata í sveitarstjórnarkosningum og má þar sjá hvernig Alexandra Bríem sem er í þriðja sæti á lista Pírata í Reykjavík reynir að ná athygli unga fólksins og gengur það bara nokkuð vel.

Í áramótaskaupinu 2013 er eitt skets af þeim Sigmundi Davíð og Bjarna Ben sem þá voru forsætisráðherra og fjármálaráðherra þar sem Bjarni Ben spyr Sigmund "Eru píratar nokkuð til í alvörunni?" og Sigmundur Davíð sannfærir vin sinn þáverandi um að svo sér auðvitað ekki.

Margt hefur breyst frá þeim tíma í stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur klofnað í tvær flísar og heitir flísin sem brotnaði af Viðreisn og Framsóknarflokkurinn hefur líka klofnað í tvennt og heitir brotið sem brotnaði af Miðflokkur. Vinstri grænir hafa öllum að óvörum tekið upp fóstbræðralag við Sjálfstæðisflokkinn. 

Píratar eru til í alvörunni. Hér má lesa um framboð pírata í Reykjavík í ár. 

Hér má er mynd af oddvitum Pírata á fundi nýlega þar sem framboð voru kynnt.
piratar-oddvitar

Hér er svo Píratakóðinn:
piratakodinn


mbl.is Sjö flokkar fengju fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórundarleg framkvæmd á utankjörstaðakosningu í Reykjavík

kosning-dave-granlund

Kosningar eru núna seinast í maí um helgi  á tíma sem margir íbúar í Reykjavík nota til að fara í ferðalög. Það þurfa því margir sem ætla sér að vera utan Reykjavíkur á kjördegi að kjósa utankjörstaðar. Það berast hins vegar fréttir af stórundarlegum aðstæðum við utankjörstaðaratkvæðagreiðslu, aðstæðum sem eru þannig að það virðist vera gert allt til að gera sem erfiðast fyrir fólk að kjósa.

Það er fyrir það fyrsta afar undarlegt að kjósendur á kjörskrá í Reykjavík þurfi að gera sér ferð í annað bæjarfélag til að kjósa utankjörstaðar. Er það virkilega í samræmi við landslög?

En hvers konar aðstæður eru það sem þessi utankjörstaðakosning fer fram við?

Hér á eftir eru tvær lýsingar sjónarvotta sem hafa spreytt sig á því að reyna að kjósa. Mér sýnist þetta engan veginn boðlegt í lýðræðissamfélagi og að segja að þetta sé "undarlegt" er understatement. Egill Helgason segir að þetta jaðri við að vera "þumbaraskapur"
Þessi framkvæmd kosninga jaðrar ekki við að vera eitt eða neitt. Þetta virðist vera ósvífin tilraun til að gera fólki erfitt fyrir að nota atkvæðarétt sinn. 

Hér er  lýsing Ö.S.: 

"Ég kaus utankjörstaðar í Smáralindinni í kvöld. Hvergi var nokkrar leiðbeiningar að sjá um hvar fjandans kjörstaðinn væri að finna. Búið að draga rimla fyrir allar búðir. Meira að segja búið að slökkva á rúllustigunum. Í öllu þessu gímaldi voru fimm eða sex umkomulausar manneskjur sem allar virtust einsog stefnulaus skip í hafvillum. Smám saman kom í ljós að í allri Smáralindinni var enginn nema þessar örfáu hræður sem í dauðans angist voru að gefast upp á því að leita að stað til að kjósa. Ef einhver dauðleg vera sást gripu menn í hana dauðahaldi og spurðu með angistarsvip: „Veistu nokkuð hvar á að kjósa?“ Ég gat náttúrlega engum sagt það en bauð yfirleitt í staðinn að leiðbeina fólki um HVAÐ það ætti að kjósa. – Því var misjafnlega tekið. Um hríð var ég farinn að ganga í hringi og leið einsog ég væri aftur í framboði. Loksins á annarri hæð innarlega sá ég ljós leggja út um eitt búðarbilið. Þar fann ég loksins kjörstaðinn. – Sýslumaðurinn í Reykjavík er greinilega mjög kaldhæðinn húmoristi…" (sjá hér í pistli  í DV)

Hér er lýsing Þ.Þ.:

"Það að fara í Kópavog, Smáralind, til þess að kjósa borgarstjórn Reykjavíkur var hinsvegar skrítið og pirrandi. Kjörstaður (sem er á annarri hæð) er illa merktur. Kort með staðsetningu birtist aðeins á rafrænu auglýsingaskilti og þegar það loks birtist stóð auglýsingin aðeins í örfáar sekúntur. Gamaldags útprentað auglýsingaskilti með örvum hefði gert kraftaverk. Var leiðinlegi kjósandinn og kvartaði við kjörstjórn - á tveimur póstum.

 

Þessi framkvæmd utankjörstaðakosningar gerir mig ekki sérlega trúaða á að framkvæmd talningar og annað sem tengist kosningum á Íslandi sé í lagi. Það má segja að tiltrú mín á sýslumann í mínu kjördæmi sé ekki mikil og ég held að hann sé handbendi ákveðins stjórnmálaafls eins og raunar stór hluti þeirra sem starfar að kosningum á Íslandi. 

Það er rétt að rifja upp í þessu samhengi að það var sami sýslumaður sem mætti rétt fyrir seinustu alþingiskosningar á skrifstofu fjölmiðils með lögbann á fréttaflutning og hefti  þannig tjáningarfrelsi og kom í veg fyrir að almenningur fengi vitneskju um mikivæg gögn sem vörðuðu þá sem voru í framboði.

sjá þessar fréttir:

 


mbl.is Fulltrúar 8 framboða ná kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppeldi eða fangahald

palli-var-einn-i-heiminumthe-only-girl-in-the-worldStelpan sem var ein í heiminum er bók eftir franska konu að nafni Maude Julien. Það er ekki bók eins og vinsæla barnabókin Palli var einn í heiminum, bók um strák sem vaknar upp einn og hefur allt fyrir sig og ræður sér sjálfur og enginn skammast í honum og Palli uppgötvar hvað hann þarf mikið á félagsskap annarra að halda.

Stelpan sem var ein í heiminum er uppvaxtasaga höfundarins og segir frá fjölskyldu hennar. Faðir hennar Louis Didier var fæddur 1902, hann  hafði  efnast ágætlega á því að kaupa hlutabréf, hann var frímúrari og upptekinn af launhelgum því tengdu, hann var líka haldinn paranoju á háu stigi og taldi heiminn vera á leið til glötunar og bara tímaspursmál hvenær djöfullinn risi upp og hann  Lous bjó sig undir það,  hann bjó til barn sérstaklega til að vernda hann og leiða. Ef hann hefði verið uppi núna í kringum 2018  hefði hann örugglega verið kallaður "prepper" eða "survivalisti", hann var mjög upptekinn af því að móta barnið og búa það undir harðræði heimsins og lét það gangast undir margar þrautir sem áttu að herða það. Eitt var að sitja grafkjurr heila nótt í kjallara í myrkri með rottum og móðir saumaði sérstakar bjöllur inn í fötin svo það heyrðist ef barnið hreyfði sig.

Faðirin hafði þann hátt á til að búa til barnið að hann fékk sér fyrst barn sem skyldi ala barn. Hann tók í fóstur sex ára stelpu Jeannine árið 1936 og sendi hana til mennta í heimavistarskóla.  Henni var ætlað að giftast honum  í fyllingu tímans og ala honum barn. Árið 1957 fæðist  barnið og þá byrja tilraunir föður hennar, tilraunir til að búa til og herða ofurmenni og búa barnið undir og herða til að verða ofurmenni. 

Fjölskyldan faðirinn, móðirin og dótturin bjuggu einangrun á afskekktu sveitasetri. Eins og lítið einangrað ofsatrúarfélag með þremur meðlimum. Dýrin voru einu vinir barnsins. Flóttaleið dótturinnar kom á unglingsárunum í gegnum tónlistarkennara sem kom til að kenna henni á harmóníku og píanó. Faðirinn sem annars hélt henni í einangrun hafði trú á tónlistarkunnáttu sem bjargræði í heimi á heljarþröm. Hann taldi að sá sem kynni á hljóðfæri gæti bjargast ef hann yrði tekinn í einangrunarbúðir og það væri heppilegt að kunna á sem flest hljóðfæri eins og þessi texti ber með sér:

My father, who joined the Resistance during the Second World War and dug tunnels to help Jews flee to Belgium, believes music is the most important subject. One day he rings the bell to summon me to the verandah. ‘You’ll be seven soon, so you can understand what I am about to explain. When you arrive at a concentration camp everything is taken from you. Whether you’re rich and beautiful or poor and ugly, they put you in the same pyjamas and shave your head. The only people who make it out alive are musicians, so you need to know every type of music, but you will have a better chance of escaping with a musette waltz than a concerto. As for instruments, it’s hard to predict what will be most in demand so you will study several. We’re going to change your schooling schedule so you have extra time to practise. Off you go.’ .................
When studying Bach’s Two and Three Part Inventions on the piano, I make an even more exciting discovery: music has conversations of its own. The right hand starts with a phrase, the left responds, the right picks it up again, the left follows. And the two hands end up playing together. I’m thrilled by these dialogues. I play them over and over, never tiring of them.

Þetta textabrot um tónlistina minnir mig á skáldsöguna Þögnin eftir Vigdísi Grímsdóttur. Það er líka saga um andlegt ofbeldi og kúgun. Tónskáldið  Tchaikovsky er í miðju bókarinnar eins og sögupersónurnar Linda og amma hennar og nafna Linda. Þar er amman líka manneskja sem lokar sig frá umheiminum og Tchaikovsky og hann er fyrirmyndin sem hún vill endurskapa í Lindu yngri. Linda yngri vekur upp í hugarfylgsnum sínum elskhugann Tchaikovsky. 

Það eru margar hryllilegar frásagnir sem hafa komið fram í fréttum um fólk sem finnst í haldi, fólk sem er í einhvers konar ánauð eða þrælahaldi, fólk sem er ofurselt ofsatrúarleiðtogum og hefur ef til vill fæðst í þannig aðstæður. Líklega eru flestar slíkar aðstæður þannig að kúgararnir eru aðilar sem eru nákomnir þeim sem eru kúgaðir og tengjast honum fjölskylduböndum. 

Hér eru nokkrir tenglar með umfjöllun um þessa sögu

Maude Julien: 'How I escaped from my father's cult'

How Two Animals Helped Me Survive an Abusive Childhood

Girl’s father tortured her for a decade to make her ‘superhuman

I was my father's prisoner for 17 years


Þyri Danabúð

Saga af konu sem er meitluð í stein

Nýlega var tilkynnt um fjársjóð Haraldar blátannar, spennandi frétt eins og þessi Þrettán ára fann fjársjóð frá 10. öld. Það er nú ekki margt vitað með vissu  um Harald þennan en hann var uppi á mörkum kristni og heiðni og þegar hann gekk af trúnni og tók upp hinn nýja sið þá lét hann grafa upp lík föður síns sem var að heygður að höfðingjasið í stórum haug.

Jalangursteinarnir - skírnarvottorð Danmerkur

320px-Runensteine_Gorm_BlauzahnHaraldur reisti bautastein eftir foreldra sína og á þann stein er grafið með rúnaletri að hann Haraldur sem sameinaði Danmörku hafi reist steininn eftir foreldra sína þau Gorm hinn gamla og Þyri Danabúð. Þessi steinn er sem nefndur er Jalangursteinninn eða stóri Jalangursteinninn er annar tveggja rúnasteina sem eru djásn fortíðar og á Heimsminjaskrá og líka eins konar skírnarvottorð Danmerkur.

Á litla Jalangursteininum er texti á þessa leið: „Gormur kóngur gerði kumbl þessi eftir Þyri konu sína Danmarkar bót."

Þetta er í fyrsta skipti sem nafnið Danmörk kemur fyrir innan Danmarkar en nafnið hafði þó verið notað alla vega í 75 ár. Það kemur fyrir í landafræðibók Alfreðs mikla sem var kóngur í Wessex 871-899 en Alfreð þessi lét gera lýsingu á Norður-Evrópu og þar kemur fyrir "dene mearc". Reginos annállinn sem var skrifaður um 900 í klaustrinu Prum við Köln nefnir árið 884 Danimarca.

Gormur gamli dó veturinn 958-59. Þyri drottning hans mun hafa dáið fyrr. Gormur var fyrst heygður í Nordhøjen i Jelling (Jalangri á íslensku) en þegar sonur hans Haraldur blátönn hafði gerst kristinn um 960 þá lét hann byggja trékirkju í Jelling og flutti þangað lík Gorms föður síns og lét grafa undir kirkjunni. Lík Gorms fannst undir kirkjunni árið 1978 og var flutt í danska þjóðminjasafnið til skoðunar. Þar kom í ljós að Gormur var um 50 ára þegar hann lést og var 172 sm hár og þjáðist að slitgigt í neðsta lið hryggjar. Árið 2000 voru bein Gorms aftur jarðsett í kirkjunni í Jelling.

Það hafa myndast margar sagnir um Gorm og Þyri og þar hefur Þyri Danabót þótt bera af öðrum fyrir manngæsku og visku og útsjónarsemi. Hér er ein barnasaga sem endurómar það.

 

Gormur gamli og Þyri Danabót

Barnasaga í Vikunni nr. 14. 1949

Gormur gamli var konungur í Danmörku. Drottning hans hét Þyri, og var nefnd Danabót. Þetta auknefni fékk hún vegna þess að hún kom því í framkvæmd, að Danaríki var byggt til varnar gegn Þjóðverjum. Þeir vildu ráðast á Danmörku og láta greipar sópa. Danskir hermenn stóðu vörð, í eða við virkið, svo óvinirnir kæmu ekki að Dönum óviðbúnum.

Menn vita ekki margt um Gorm konung. Þó er það kunnugt, að hann gerði Danmörku að einu ríki. Hefur það verið þrekvirki. Konungur og drottning áttu tvo syni. Hétu þeir Knútur og Haraldur. Þá var það siður að gefa mönnum viðurnefni svo að þeir yrðu minnisstæðari. -
Knútur var nefndur Danaást, vegna þess að hann var svo vinsæll, að öllum Dönum þótti vænt um hann.
Viðurnefni Haralds var ekki fagurt. Hann var kallaður blátönn.
Það var vegna þess að ein tönn hans var svört. Tönn þessi hafði skemmst fengið þennan lit. Þá var ekki siður að bursta tennur eða gera við.
Það kunnu menn ekki á þeim dögum. Gormur kóngur unni Knúti syni sínum mjög. Hann var hraustur og hugrakkur. Fór hann til Englands i víking. Fjöldi Dana gerði hið sama um þær mundir. En þetta var hættusamt. Englendingar vörðust hinum villtu Dönum hraustlega. Gormur konungur sagði einhverju sinni, að hver sá, er segði sér andlát Knúts sonar síns, skyldi drepinn. Haraldur fór einnig í víking. Hann var gætnari en Knútur, og óttaðist faðir hans því minna um hann.

Gorm-the-old

Svo gerðust þau hörmulegu tíðindi, að Knútur Danaást var drepinn. Fréttin barst heim í konungsgarð, er nefndist Jellinge. Þar bjuggu þau
Gormur og Þyri. Enginn þorði að segi konungi lát Knúts. Allir voru fullvissir um það, að Gormur gamli myndi ekki ganga á bak orða sinna, heldur drepa sögumanninn.

En þyri drottning var mjög vitur kona. Og"hún fann ráð. Hún lét tjalda sal þann, í höllinni, er hermennirnir sátu í, með svörtum slæðum eða teppum. Hún skipaði öllum að klæðast sorgarklæðum. Var nú sorgarblær á öllu og öllum í höllinni.

Þegar Gormur konungur kom inn í salinn, sá hann hryggð á hverju andliti og hin svörtu tjöld. Hann skildi, hverju þetta gegndi.
Drottningin kom þá og mælti:
„Herra konungur! Þér áttuð tvo fálka, annar var grár, hinn hvítur. Yður þótti mjög vænt um hinn hvíta fálkann. Hann flaug um og veiddi marga fugla handa yður. En einhverju sinni kom hópur af hröfnum, krákum og öSrum fuglum. Ré3ust fuglar þessir á hvíta fálkann og drápu hann. En grái fálkinn komst heim, og getur veitt marga fugla hér eftir.
,,Svo! Er þú. Knútur sonur minn dáinn, þar sem öll Danmörk er í sorg," mælti konungur.
Hann skildi, að drottningin hafði haft bræðurna i huga er hún talaði um fálkana.
Þyri drottning svaraði: „Það eru yðar orð, herra, en eigi mín." »
Þannig skildi Gormur kóngur að Knútur var dáinn, án þess nokkur segði honum það. Hann gat því ekki líflátið boðbera helfregnarinnar.
Þannig fór drottningin Þyri að því að firra menn þeim vandræðum.
Sagt er að Gormur kóngur hafi syrgt son sinn svo mjög að leitt hafi hann til dauða. Var hann heygður í
Jellinge. Haugur sá, er hlaðinn var um kónginn, er afar mikill.
Í Jellinge eru tveir miklir haugar,og á þeim standa steinar með rúnum.
Annars fer tvennum sögum um endalok Gorms konungs.

Á öðrum rúnasteininum stendur:
„Gormur kóngur, reisti minnismerki þetta yfir Þyri konu sína, Danabót."
Þeir sem fróðir eru í sögu Danmerkur segja að Gormur gamli hafi lifað fimmtán ár eftir andlát Þyri drottningar, og var Haraldur sonur hans aðstoðarkóngur þann tíma.
Það er trúlegra, að Gormur konungur hafi ekki dáið af harmi vegna dauða sonar síns.

Ef þú kemur til Jellinge, skaltu fara og skoða þessa tvo stóru hauga. Í engu landi getur að líta svo risavaxna hauga.
Haugarnir minna á elzta, danska kónginn, og hina vitru drottningu hans. Þau voru fyrstu konungshjónin sem ríktu yfir allri Danmörku.


Kísilverksmiðjur Thorsil og Silicon í Helguvík og peningar frá lífeyrissjóðum

Hvaða hlutverk gegna íslenskir lífeyrissjóðir varðandi þær kísilverksmiðjur sem núna er verið að byggja á Íslandi? Ég get ekki svarað því núna en fljótt á litið sé ég ekki annað en að þetta kísilverksmiðjuæði sé leið til að blóðmjólka lífeyrissjóði og það sé viss áhætta á því að lífeyrissjóðir tapi miklu fé með því að leggja það í áhættusama og mengandi stóriðju sem fjárglæframenn ráðast í með því að blekkja og svindla.

Áhættufjárfestar verða auðvitað að búa sig undir að geta tapað fé en það er ömurlegt ef niðurstaðan verður mengandi og óstarfshæft fyrirtæki og rekstur sem eyðileggur lífsgæði íbúa á stóru svæði og svikahrappar sem hafa horfið á braut þegar það uppgötvast eða verið fangelsaðir þegar upp kemst um svik þeirra og pretti og blekkingar.

Fjárfestingar lífeyrissjóða munu vera í skoðun hjá Fjármálaeftirlitinu.

helguvik-silicon-thorsil

Ástandið í Helguvík á Suðurnesjum er núna ákaflega dapurt. Þar hafa verið í smíðum og bígerð tvær stórar kísilverksmiðjur sem eru nánast hlið við hlið og nærri íbúabyggð, önnur á vegum Silicor United og hin á vegum Thorsil. 

Verksmiðja Silicon hefur verið gangsett en allur rekstur þar er mikil sorgarsaga og er reksturinn kominn þrot (sjá þessa frétt) og svo mikil mengun frá verksmiðjunni að það er ekki stætt á öðru en að loka þar. Fyrrum forstjóri var handtekinn og er grunaður um auðgunarbrot og skjalafals og virðist að því er kemur fram í fjölmiðlum verar svikahrappur og fjárglæframaður af þeirri sort sem hér fór hæst á tímanum fyrir Hrunið mikla (sjá þessa frétt)

Núna er staðan þannig að banki sem hefur lánað í þessa verksmiðju þ.e. s Arionbanki hefur tekið yfir reksturinn og hefur afskrifað gríðarlegar upphæðir vegna þess (sjá þessa frétt). Það er ekki eingöngu gríðarlegt áfall fyrir bankann sem þegar hefur afskrifað mikið fé vegna þessa heldur hafa líka lífeyrissjóðir lagt mikið fé í þetta endasleppa ævintýri.

Þegar skoðaðar eru upplýsingar sem almenningur fékk um þessar fyrirhuguðu verksmiðjur fyrir nokkrum árum þá má sjá að þar er margt villandi og eiginlega hrein lygi.(sjá þessa frétt)Ég hef einnig séð að oft virðast magntölur út í loftið eða hugsanlega settar fram til að láta sem hér sé miklu minni framkvæmd en reyndin verður.

Það er hræðilegt að lesa það sem hefur komið fram í fréttum um ástandið varðandi verksmiðju Silicon bæði mengunina og grun sem þar hefur vaknað um  svik og skjalafals. Íslenskir bankar og lífeyrissjóðir munu án efa tapa þar miklu fé og skrýtið hvernig hve fúsir þessir aðilar voru til að fjármagna þessa verksmiðju. 

Silicon United verksmiðjan er eitt en hvaða staða er á hinni fyrirhuguðu verksmiðjunni sem á að vera miklu stærri, verksmiðju Thorsil? Er ekki rík ástæða til að skoða allt í kringum þá framkvæmd og þá ekki síst fjármögnun og fjárhagsmál núna þegar í ljós hefur komið að hvernig málum er háttað hjá kísilverksmiðjunni sem fyrr var reist?

Það eru margar  ástæður fyrir að  almenningur á heimtingu á að vita hvernig mál Thorsil standa.

  • Í fyrsta lagi er verið að taka áhættu með fé almennings sem bundið er í lífeyrissjóðum og bönkum.
  • Í öðru lagi er hér um að ræða rekstur sem sýnt hefur að sé mengandi og eyðileggi lífsgæði íbúa á svæðinu.
  • Í þriðja lagi þá er bæði fjölskylda fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar og Eyþór Arnalds efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík  meðal eigenda fyrirtækins Thorsil.

Það er glamúrfrétt sem birtist á árinu 2016 um fjárfestingu í Thorsil.(sjá þessa frétt) Þar kemur fram að lífeyrissjóðir ætli að fjárfesta í Thorsil. Hvernig er staðan núna? 

Í greininni frá 2016 kemur þetta fram:

"Núverandi eigendur Thorsil eru Northsil ehf. með 61% eignarhlut og Strokkur Silicon ehf. með 39%. Northsil er aftur í eigu John Fenger, stjórnarformanns Thorsil, Hákonar Björnssonar, forstjóra fyrirtækisins, Einars Sveinssonar, fjárfestis og föðurbróður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Strokkur er í eigu fjárfestisins Harðar Jónssonar en Eyþór Arnalds, fjárfestir og fyrrverandi oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg, er framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður í Thorsil."

Ég sé í fyrri fréttum um hlutafélagið Strokk að Eyþór er þar titlaður eigandi en ekki Hörður Jónsson. Er Hörður Jónsson sem hér er nefndur sem eigandi í Stokk sá sami og er fósturpabbi eiginkonu Eyþórs Arnalds og líka framkvæmdamaður í byggingariðnaði (sjá þessa frétt Eyþór Arnalds tengdur einum stærsta hagsmunaðilanum í byggingarframkvæmdum í Reykjavík)

Ég get ekki  dregið aðrar ályktanir af þessu en að Eyþór sé með þessu í einhvers konar samkrulli að reyna að fela aðkomu sína og eignartengsl varðandi fyrirhugaða kísilverksmiðju. Einnig er ákaflega einkennilegt ef menn eru hluthafar fyrir stórum hlut í félögum án þess að svo virðist að þeir hafi lagt neitt eigið fé í rekstur og engin merki séu um að þeir standi í rekstri sem skilar hagnaði.

Hver eru fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl Eyþórs Arnalds og fjölskyldu hans við þetta fyrirtæki Thorsil ?

 

Hér eru tenglar sem varða Thorsil og Stokk 

Raforkusamningur Thorsil í uppnámi út af skorti á fjármögnun

Kísilverksmiðja Thorsil í Helguvík úrskurðarnefn umhverfis og auðlindamála 33/2017

Kísilmálmverksmiðja Stokks í Þorlákshöfn  (grein frá 2010)

Undirrituðu fjárfestingarsamning um kísilver Thorsil

* Fjárfestingarsamningur við Thorsil ehf um kísilmálmverksmiðju (lög)

Vandræðin í Helguvík. Síendurtekinn greiðslufrestur

 


Óli skans


800px-Jitterbug_dancers_NYWTS

skansinnHver var þessi Óli skans og hvers vegna var Vala kona hans svona mikill vargur?

Óli skans mun fæðst á bæ við Bessastaðaskans sem var strandvirki sem Danakonungur kom upp þar. Óli skans fæddist um 1842 og foreldrar hans þau Eyjólfur og Málfríður bjuggu  í litlum bæ í Skansinum á Bessastöðum. Skansinn var upphlaðinn garður fyrir fallbyssur fógetanna á Bessastöðum og Óli skans þar alinn upp í torfbaðstofu  sem foreldrar Óla höfðu. Þau höfðu líka túnblett fyrir eina kú.

 Óla skans er lýst svo:

"Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, en allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt og sítt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans, og er við hann kennt hið alkunna danslag, sem allir þekkja, en vísan er svona:
Óli Skans, Óli Skans,
er nú hér á róli
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjólið.
Óla er kalt á kinnunum,
Fía vill ein orna honum
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.

Ólafur þessi var vinnumaður nokkur ár hjá móður minni, og var hann einn fyrsti háseti hjá mér, er ég byrjaði formennsku. Hann var liðlegur sjómaður, og féll mér ágætlega við hann. Ólafur varð síðar holdsveikur og dó á spítalanum í Laugarnesi."

Átti Óli skans  sem sagt enga konu sem hét Vala og var hann ekkert tengdur skansi nema að því leyti að hann ólst upp á litlum bæ í lendingunni á Bessastöðum? 

Óli skans virðist hafa vakið upp sköpunarkraft skálda og Stefán Jónsson yrkir um Óla og í kvæðum Stefáns hefur Fífa breytst í Völu. Svo hefur Loftur Guðmundsson líka vísun í Óla skans oftar en einu sinni í kvæðinu Réttarsamba. Ég giska á að fyrsta vísan um Óla skans þar sem hann vildi láta Fíu orna sér hafi verið sungin við ákveðið danslag og svo hafi það fylgt Óla eftir, dansarnir breytast með tímanum og ég man ekki hvað dansinn hét sem maður lærði í danstímum bernskunnar og undir var spilað og sungið lagið um Óla skans, hét dansinn skottís eða eitthvað annað? En þessi danstaktur tíðarfarsins sem fylgir Óla skans með nafn sem minnir á dans kveikir líka upp fylgikonur, Fía og Vala og Gunna. Fía hlýjar Óla, Vala ráðskast með hann en Gunna svíkur Jónka bónda þegar Jónki hoppar taktfastur  í Óla skans þá hleypur hún á brott með vegavinnustráki en samt á Jónki hana eiginlega, er hún ekki hans kaupakona? Í Réttarsamba er bóndinn sem dansar Óla skans ekki í takt við kaupakonuna, það eru komnir nýir tímar og nýr danstaktur. 

ÓLI SKANS
Óli skans, Óli skans,
ógnar vesalingur,
Vala hans, Vala hans
veit nú hvað hún syngur.
Óli, Óli, Óli skans.
Vissulega vildu fáir
vera í sporum hans.

Óli er mjór, Óli er mjór.
Óli er líkur fisi.
Vala er stór, Vala er stór.
Vala er eins og risi.
Óli, Óli, Óli skans.
Sjá hve þú ert sauðarlegur,
segir konan hans.

Þú ert naut, þú ert naut.
Þannig hóf hún tölu.
Óli gaut, Óli gaut
augunum til Völu.
Óli, Óli, Óli skans.
Ákaflega önuglynd
er eiginkonan hans.

Óli hlaut, Óli hlaut
auman reynsluskóla.
Vala braut, Vala braut
viðbeinið í Óla.
Óli, Óli, Óli skans.
Voðalegur vargur er hún
Vala, konan hans.

 

Réttasamba

Ljóð eftir Loft Guðmundsson
við lag Gunnars Guðjónssonar.

Á grundinni við réttarvegginn ganga þau í dans,
og Gunna stígur jitterbugg en Jónki Óla-skans;
Jónki bóndi í hjáleigunni og kaupakonan hans.
Brosljúf ástfús borgarmær, sem bregður ei við neitt,
ilmvatnsþvegin, uppmáluð og augnabrúnareitt, 
og Jónki hefur rakað sig og rauðan lubbann greitt.
Hæ-hæ og hó-hó, tóna töfra og kalla.
Hæ-hæ og hó-hó, hljóma klettar fjalla.

 
Og fullur máninn gægðist yfir grettið tindaskarð;
geislasindri fölvu stráir laut og döggvott barð.
Er það bara blær, sem pískrar bak við réttargarð?
Heitt að Jóni hallast Gunna, hvíslar: — Ég er þreytt ....
Hvaða fjas og vitleysa, — og Jónki brosir gleitt.
Ó, hann Jónki, það erkiflón, sem aldrei skilur neitt.
Hæ-hæ og hó-hó, grund við dansinn dynur.
Hæ-hæ og hó-hó, harmonikan stynur. 


Á grundinni við réttarvegginn gengið var í dans,
og þegar Jónki þreyttist á að þramma Óla-skans,
vegavinnustrákur stökk af stað með Gunnu hans
og fullur máninn gægðist yfir Grettistindaskarð
glottir þegar Jónki skimar út um laut og barð

hamingjan má vita hvað af henni Gunnu varð.
Hæ hó hæ hó, harmóníkkan stynur
Hæ hó hæ hó, dimmt í fjöllum dynur.

Ólafur Ragnar Grímsson var áhugasamur um sögu Óla skans nafna síns sem ólst upp í Bessastaðalendingunni. Hann fræddi oft gesti um Bessastaðaskansinn og tvinnaði þar Óla skans inn í söguna en tók eftir að krakkarnir þekktu þá ekki til þessa vinsæla danslags. Ólafur var hvatamaður að Óla skans hátíð Heiðaskóla og hér er viðtal og krakkarnir að dansa Óla skans.

Heimildir:

Kristinn Jóhannesson, Þættir úr landvarnasögu Íslendinga – Saga, 1. tölublað (01.01.1968), bls. 122-138

Kvæði Stefáns Jónssonar Harpan, 9-12. tölublað (01.12.1937), bls 186

Skansinn og Bessastaðastofa (ferlir.is)

Innfelld Youtube myndbönd eru með flutningi Megasar á Óli Skans og flutningi hljómsveitarinnar Lummurnar á Réttarsömbu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband