14.4.2018 | 16:32
Lögleysa að miða fasteignaskatta við 5 og 6 staf í kennitölunni
Það er alveg andstætt anda laga um skatta og jafnræðisreglur að sveitastjórnarmenn ákveði upp á sitt eindæmi að sumir íbúar eða fyrirtæki greiði skatta af eignum og sumir greiði enga skatta af eignum.
Sjálfstæðismenn í Reykjavík kynna það sem helsta kosningaloforð sitt að fólk sjötugt þurfi ekki að borga fasteignaskatta.
Það er með ólíkindum að stjórnmálaflokkur lofi að einn hópur sleppi við að borga skatta af því að er fimmta og sjötta tala í kennitölunni eru 48 eða lægri.
Það er enginn stoð í lögum fyrir svona hróplegri mismunun. í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er heimild til að leggja lægri tekjuskatta eða fella niður á efnalítið aldrað fólk. En það er enginn lagastoð fyrir svona hræðilegri ósvinnu. það er bent á í umfjöllun Stundarinnar að þetta kosningaloforð Sjálstæðislokksins nýtist fyrst og fremst ríku fólki. Það er að mínu mati ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að þetta er hræðileg stjórnsýsla og ólögleg og óréttmæt og sýnir hvaða straumar leika um framboð Sjálstæðisfokksins núna.
Eldri borgi ekki fasteignaskatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2018 | 16:39
Umskurðarbann á Íslandi er bæði heimóttarlegt og heimskulegt
Það gerist varla heimóttarlegra en að vilja halda til streitu á Íslandi að setja hér á landi lög sem hafa litla sem enga þýðingu fyrir íslenskar aðstæður, hafa ekkert að segja varðandi mannréttindi og ofbeldi en munu móðga 1.8 milljarða múslima og 17 milljónir gyðinga og skaða viðskiptahagsmuni íslenskra aðila um aldur og ævi. Ég efa það ekki að flytjandi umskurðarfrumvarpsins og þau sem eru sammála frumvarpinu telji að hér sé brýnt mannréttindamál.
Ég sé það ekki, eina sem ég sé er ónauðsynlegt inngrip varðandi líkama sveinbarna, inngrip sem á þó ekki að vera hættulegt heilbrigðum börnum ef það er gert við réttar heilbrigðisástæður en líka inngrip sem hefur trúarlega merkingu hjá stórum hópi (næstum tveir milljarðar) en þó ákaflega litlum hópi fólks sem búsett er á Íslandi. Almennt finnst mér löggjafi ætti að stíga varlega niður að banna atferli sem eru hluti af menningu (ekki síst menningu jaðarsettra hópa) og það verða að vera afar góð rök fyrir því.
Það getur verið að rökin séu fyrir hendi í þessu máli þó ég hafi ekki komið auga á það. Það getur verið að þetta skipti máli fyrir líf margra sveinbarna á Íslandi þó ég sjái það ekki. En ég sé ákaflega skýrt að slík lög myndu verða til að framandgera og jaðarsetja ákveðna menningu og þeir sem tilheyra þeim hópum sem slík lög beinast að munu telja lögin vera fokkmerki framan í sig, lög sem stjórnast af óbeit á ákveðnum hópi. Ég sé líka ákaflega skýrt að þær næstum 2 milljarðar manns sem tilheyra þessari menningu á heimsvísu munu telja slík lög stjórnast af hatri á þessum hópum vegna trúar og uppruna. Það hefur líka sýnt sig með þeim umsögnum sem hafa komið erlendis frá við umskurðarfrumvarpinu.
Ég dáist af hugsjónafólki sem lætur sig engu varða þó það hafi afleiðingar að standa með hugsjón sinni. En ég dáist ekki að fólki sem hefur ekki burði til að horfa fram fyrir sjálfa sig og það litla umhverfi sem við lifum við hérna á Íslandi þar sem við erum svo lík hvert öðru að við næstum hugsum eins og finnst það sama ætti að eiga við um heiminn utan Íslands. Það gerir það nefnilega ekki.
Það er ákveðið mál sem þeir sem ekki vilja horfast í augu við viðbrögð ytri aðila á því sem hér er samþykkt ættu að kynna sér. Björk Vilhelmsdóttir fyrrum borgarfulltrúi lagði fram tillögu á sínum síðasta fundi í borgarstjórn árið 2015, tillögu sem var samþykkt en það er gömul venja að samþykkja alltaf síðustu tillögu fráfarandi borgarfulltrúa.
Tillagan var svona:
"Borgarstjóri samþykkir að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir"
Það er skemmst frá að segja að þessi tillaga olli miklum úlfaþyt og varð til þess að aðilar af gyðingauppruna sem voru í viðskiptum við Ísland og ætluðu að fjárfesta hér brugðust afar illa við og ætluðu að hætta við viðskipti og fjárfestingar og komin var á stað herferð að sniðganga íslenskar vörur. Þetta var gríðarlega alvarlegt mál og borgarstjóri sá sér ekki fært annað en afturkalla áður samþykkta tillögu borgarstjórnar. Það er engin ástæða til að ætla annað en viðbrögð þess stóra alþjóðlega hóps sem telur þessu lagafrumvarpi beint gegn sér og endurspegli fordóma muni reyna að skaða hagsmuni Íslendinga sem mest.
Það hefur verið umræða um þetta umskurðarmál á ýmsum spjallþráðum. Ég reyndi einu sinni að blanda mér í umræðuna með að bera þetta mál saman við siði sem er við lýði í sumum löndum, sið sem fellst í því að gata eyru ungbarna, einkum meybarna. Ég læt fylgja hér með hluta af umræðunum, ekki undir nafni nema mínu nafni.
Salvör: Mér finnst algjörlega vanta að vekja athygli á pyntingum og líkamsmeiðingum á stúlkubörnum víða um heim sem tengjast því að það eru stungin göt á eyrnasnepla þeirra. Þetta virðist bara eiga við um stúlkubörn, ég held að það tíðkist ekki að pynta sveinbörn svona.
S: "Ég held að það ætti að ræða götun á eyrum barna bara á sér vettvangi. Þetta á ekki heima í umræðunni um umskurð drengja . Umskurður drengja á skilið sér umræðu og er nógu alvarlegt mál til að eiga að fá fullan fókus í þeirri umræðu. Við náum aldrei neinu fram ef við erum alltaf að fara út um víðan völl. Þú ættir að stofna til sér umræðu ef þú vilt ræða götun á eyrum ungra barna."
Salvör: "Af hverju er umskurður drengja eitthvað sem á "skilið sérumræðu" og má ekki blanda í annars konar líkamlegar pyntingar á börnum? Ég tel að það sé einmitt mjög gagnlegt að ræða og afhjúpa viðhorf okkar til ýmis konar pyntinga og líkamsbreytinga. Hvað með tatto, fegrunaraðgerðir, líkamlegar kynbreytiaðgerðir? Mér finnst þetta allt af sama meiði og hollt fyrir hvern mann að horfast í augu við eigin fordóma."
S: "Umskurður drengja er mun flóknara pólitískt fyrirbæri en eyrnagötun. Sjálf myndi ég aldrei gata eyrun á litlu barni, en eyrnasneplar eiga þó séns á að gróa en forhúðin ekki. Hvert og eitt þessara atriða sem þú nefnir á skilið sér umræðu vegna þess að þetta eru ólík atriði, mis umdeild, mis alvarleg, mis afturkræf og annað eftir því. Ef þú ætlar að ræða þetta allt saman á einum vettvangi nærðu engu fram. Það er ekki séns að ná í gegn frumvarpi gegn umskurði drengja ef þú ætlar að hafa eyrnagötun í sama frumvarpi. Stundum þarf maður að taka eitt skref í einu og ræða einn hlut í einu.
Þetta þýðir ekki að umræðan um eyrnagötun megi ekki fá að taka pláss og sé ekki nauðsynleg, þetta þýðir bara að þú græðir ekkert á að troða því inn í aðra umræðu um aðra hluti."
J: "Já Salvör það er hollt að horfast í augun við eigin fordóma. Til að ég skilji þig í samhengi þessarar umræðu, finnst mér það vera fordómar að vilja lögfesta bann við umskurði drengja?"
Salvör: "J nei, mér finnst það ekki fordómar að vilja setja lög sem banna pyntingar og meiðingar á ungbörnum. Það er hins vegar glerljóst í mínum huga að 1) múslímar og gyðingar líta á slíkt bann sem fordóma í garð sinnar menningar 2) umskurður er áhættulítil aðgerð ef hún er gerð á sjúkrahúsi og hefur hugsanlega einhverja heilsufarskosti (sb hér https://www.mayoclinic.org/.../circumc.../about/pac-20393550 ) 3) umskurður sveinbarna er ekki mikið vandamál hér einfaldlega vegna smæðar samfélagsins og ef slík lög væru sett hér í gildi þá væri þetta beint gegn örfáum fjölskyldum sem þegar eiga í vök að verjast vegna fordóma, þetta verður í augum þeirra (og í augum umheimsins þ.e. þeirra hundruða milljóna sem eru af þeirri menningu þar sem umskurður er hluti af hefð) merki um fjandsamlegt og púrítaniskt viðhorf íslensks samfélags gagnvart ákveðinni framandi menningu.
Almennt finnst mér löggjafi ætti að stíga varlega niður að banna atferli sem eru hluti af menningu (ekki síst menningu jaðarsettra hópa) og það verða að vera afar góð rök fyrir því og reyndar ætti Ísland þar að vera samstíga Norðurlöndum. Það er sumt sem hefur komið inn í íslensk lög t.d. bann við líkamlegum refsingum barna sem ennþá er stór hluti af menningu margra þjóða. Ég held að fáir Íslendingar vilja fara aftur til þess tíma að börn væru barin sundur og saman eins og harðfiskar. Er umskurður ofbeldi á sama hátt og að berja börn? Ég myndi vilja umræðu um það. Fyrir mér og miðað við það sem ég hef lesið um umskurð þá er um að ræða ónauðsynlega breytingu á líkama. Alveg á sama hátt og að gata eyrnasnepla eða setja húðflúr á börn. Eða fegrunaraðgerðir á börnum. Það er fyrir mér fínt ef það er í lögum að slíkt inngrip verði að gerast undir handleiðslu og samþykki og ráðleggingum heilbrigðistarfsfólks.
En að taka umskurð einn og sér getur verið tilraun til að framandgera og jaðarsetja ákveðna menningu og stjórnast af óbeit á ákveðnum hópum."
Hótanir og þrýstingur afþakkaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
20.3.2018 | 08:14
Presturinn sem fékk enga greiningu
Nútíminn er tími greininga. Margar frásagnir birtast í blöðum og miðlum um fólk sem er öðruvísi og gengur í gegnum margs konar lífsreynslu og erfiðleika þess vegna en fær svo greiningu, oftast þannig sérfræðingur að undangreindum margs konar rannsóknum setur fræðilega yfirskrift á það sem hrjáir viðkomandi.
En heimurinn fortíðar og nútímar líka er fullur af ógreindu fólki. Hér er saga af einum þeirra, íslenska prestinum Hallgrími. Hann hefur margar skrýtnar venjur sem sumar tengast mat og ýmsum rituölum og að hafa allt í föstum skorðum, ganga um allt og tékka á öllu, sanka að sér mat inn í kirkjuna og borða þar í laumi og þegar hann messaði leið honum best þegar söfnuðurinn fylgdi öllum rituolum í messunni, söng þegar hann átti að syngja, stóð upp þegar standa átti upp og sat svo kyrr þegar hann átti að sitja. Hallgrími leið svo illa þegar fólk fylgdi ekki rituölunum og var að stjákla til og frá um kirkjuna og út úr kirkjunni að hann greip til örþrifaráðs. Hann læsti fólkið inni í kirkjunni.
Hér er sagan af Hallgrími presti. Sem kallaður er "einn af þessum undarlegu mönnum". Hvaða stimpil hefði nútíminn sett á Hallgrím?
Séra Hallgrímur var einn af þessum undarlegu mönnum. Hann geymdi stundum peninga sína í veggjarholum í bænum. Vildi hann helzt ekki mjólk, nema úrvissri kú, er hann átti og svo framvegis. Siðavandur var hann með afbrigðum, og var svo mælt, að stundum gengi hann með ljós um fram baðstofuna til að ganga úr skugga um, að engin ósiðsemi væri í frammi höfð af vinnufólki hans, sem jafnan var margt.
Hið sama var um öll embættisverk hans. Fylgdi hann þar gömlum venjumm og siðum, og mátti þar í engu breyta. Var það þá einhverju sinni, að hann ræddi við meðhjálpara sinn í Hólum um það, að ekki sýndi söfnuðurinn sér tilhlýðilega virðingu, væri fólkið rápa út og inn meðan á messu stæði og skipaði svo fyrir að kirkjunni yrði iæst um leið og messa hæfist.
Sagði hann meðhjálpara að fólk væri svo purrkunarlaust" orðið af þessu rápi, að hætt væri það að hneigja sig og heykjast í hnjáliðunum, er það gengi hjá sér, meðan hann væri í stólnum en slíkt væri í mesta máta vítavert. Væri því bezt að það sæti kyrrt í sætum sínum. Þorði meðhjálpari ekki annað en fara að skipan prests og læsti kirkjunni er messa fór næst fram.
Svo hefur verið sagt, að séra Hallgrímur hafi verið matmaður mikill og það svo, að oft þyrfti hann að fá sér bita milli máltíða. en þá borðaði fólk þó jafnan þrímælt. Af þessum sökum lét prestur flytja dálitla kistu fram að Hólum. Lét hann kistuna standa í kórbekk í kirkjunni og geymdi í henni soðið hangikjöt, magála, og fleira hnossgæti; fékk hann sér jafnan bita úr kistunni eftir messugerð og lét meðhjálpara sinn, sem var trúnaðarmaður hans, standa vörð á meðan hann snæddi, því ekki vildi hann láta söfnuðinn vita að hann væri matgírugur.
18.3.2018 | 16:20
Maðurinn sem smíðaði peninga
Það hafa margir reynt að búa til peninga. Einföld og nokkuð óbrigðul nútíma aðferð til að búa til peninga er að komast yfir banka með því að kaupa hann á skuldum og lána svo sjálfum sér fyrir bankaskuldunum og lána öðrum í gríð og erg. Því það er með skuldum sem bankar búa til peninga eða búa til sjónhverfingar um að einhver raunveruleg verðmæti séu til staðar.
En Íslandssagan geymir nokkrar sögur af hagleiksmönnum sem voru svo óheppnir að fæðast á vitlausri öld og í staðinn fyrir að vera dáðir hugvitsmenn og völdundarsmiðir þá voru þeir sakfelldir fyrir sjálfsbjargarviðleitni sína - að steypa peninga. Einn þeirra var Tindala-Ími sem smíðaði eins og nafnið bendir til ekki spesíudali úr silfri heldur steypti sína tindali sem þóttu frekar ljótir á litinn og léttvægir. Annar´myntsláttumaður var hann Jón Andrésson í Fremra Skógkoti og ég rakst á frásögn af honum í blaði og læt flakka hérna með. Peningarnir hans Jóns voru dáldið stökkir og brotnuðu í sundur.
Hér á eftir er frásögn af Jóni sem birtist í Frjáls þjóð, 27. Tölublað (20.07.1967)
"J6n Andrésson hét maður. Hann var þjóðhagi mikill á flesta málma, sem tíðkað hefur verið að smíða hér á landi, og í sumum þessum smíðum var hann eftir því viðburðasamur, sem hann var hugvitssamur og þolinmóður. Hann bjó fyrst alllengi í Breiðafjarðardölum, í Fremra-Skógskoti, en síðast í öxl upp undan Búðakaupstað á Snæfellsnesi. Hann komst í málaferli 1817 vestur í Dölum, vegna falsaðra peninga, er talið var að hann hefði steypt. Var hann tekinn höndum og dæmdur þungum dómi í undirrétti Komu mál hans til Landsyfirréttar, og vegna skorts á fullgildum sönnunum slapp Jón furðuvel frá því bralli öllu. Um myntfölsunarmál þetta má lesa í Landsyfirréttardómum, II. bindi, bls. 6774 og 93105.
Af smíðum Jóns Andréssonar ganga ýmsar sögur, þar á meðal þessar:
Þegar Jón var lögsóttur fyrir að hafa smíðað peninga, er ekki þekktust frá hinum algengu, en reyndust vera úr einhverri stökkri samsetningu og brotnuðu sumir, þegar þeir duttu á gólf, var hahn tekinn fastur og hafður í haldi. Um skeið er sagt hann væri fangi hjá Magnúsi Stephensen í Viðey, sem þá var háyfirdómari. Magnús átti þá kíki, sem þurfti aðgerðar, og hann ætlaði að senda utan, en með því að hann hafði margt heyrt um hagleik Jóns, hugsaði hann sér að sýna fyrst Jóni og vita, hvort hann gæti ekki gert að honum.
Þegar Jón skoðaði kíkinn, segir hann ekkert um hann, en biður að mega fara út í smiðju með hann og vera þar einn. Það var þegar.látið eftir Jóni. Magnús vildi þó vita, hverjar tilraunir Jón hefði í frammi til að gera að kíkinum. Sendi hann því stúlku út að smiðju, til þess að taka eftir og segja sér síðan, hvað Jón hefðist að. Þegar Jón, sem ekki vildi láta neinn vita, hvað hann ætti við kíkinn, sá stúlkuna, sem var að vinkra í kringum hann, bað hann hana að fara inn í hus Magnúsar og útvega sér slæðu, til þess að strjúka af kíkisglerjunum. Hún fer og kemur bráðum aftur með slæðuna. En á meðan hafði Jón átt við kíkinn, það er honum sýndist og þegar stúlkan kom, stóð Jón upp, fór inn og færði Magnúsi kíkinn. Þegar Magnús nú fer að reyna kíkinn, hvort hann hafi nokkuð batnað, er sagt, að honum hafi þótt hann miklu betri en nokkurn tíma áður.
Hafi hann mjög dáðst að þessu viðviki og sagt, að ekki hæfði að slíkur maður sæti í varðhaldi. Hafi Magnús því áorkað, með viturleik sínum, að Jóni var sleppt úr varðhaldinu, og að mál hans, út af peningunum datt bráðlega niður. Hvað sem hæft er í þessu, þá er það vist, að dómurinn yfir Jóni varð mjög vægur, eftir því sem málsefni stóðu til, fébætur svo lágar, að auðsótt var Jóni að lúka.
Margir vildu oft vita, hvernig Jón hefði farið að búa til fyrrnefnda peninga. En fyrir því var ætíð lás hjá Jóni, enda játaði hann aldrei peningasmíðinni. Einhverju sinni, þegar Jón var hress af víni, sem honum þótti gott, þótt sjaldan vanrækti hann smíðar sínar þar við, hugsuðu menn sér til hreyfings að veiða smíðaaðferðina upp úr honum, en það vannst ekki, heldur en fyrri. Hann kvaðst alls ekki vita, hvernig ætti að fara að búa til peninga. Og hið frekasta, er hann sagði hér um, var þetta: "Þið getið, piltar, reyna að móta þá í krít og sjá, hvernig það tekst."
Þegar Jón bjó í Fremra-Skógskoti, vildi hann smíða byssu með koparhlaupi, er skaraði fram úr algengum byssum. Hann reyndi þá fyrst að steypa hlaupið utan um járn sívalning í einu lagi, en það misheppnaðist, því að þegar hann hellti bráðnum koparnum ofan með járninu í flöskurnar, kom vindur í, spýtti koparnum upp og út um smiðjuna, svo að lán var, að Jón sakaði ekki. Jón hætti þó ekki smíðinni, heldur steypti hlaupið í einlægum bútum, lóðaði þá síðan saman, gerði svo hlaupið að utan þráðbeint og sívalt og boraði loks pípuna í það. Byssulásinn varð honum ekkert fyrir að smíða. Þegar byssan var fullgerð, flutti hún afarlangt og vel, og seldi Jón hana seinna mörgum byssuverðum.
Þegar Jón bjó í öxl á efri árum sínum, brotnaði í Búðarverzlun reizluteinn úr stáli, sem boginn var og rétta átti við kné sér. Þessi reizla var sýnd Jóni og hann beðinn að setja hana saman. Hann tók lítt undir þetta, en fór þó heim með reizluna í tvennu lagi, sauð hann legginn síðan saman, svo að vart var unnt að sjá suðustaðinn og færði hana svo eigandanum. Var reizlan þá jafnviss sem áður. Er hún enn til sýnis hjá mér. (Fyrrgreindar sögur af Jóni á Öxl eru skráðar 1884 af séra Helga Sigurðssyni presti á Melum).
Gísli Konráðssón segir allmargt af Jóni í syrpum sínúm. Á einum stað kemst hann svo að orði: Dæmafátt var smíðavit Jóns, manns þess, er ekkert hefur slíkt af öðrum numið og enginn verkfæri, efni né tíma hefur frá búhnauki; hefur hann þó smíðað stundaklukku að öllu og fleira þess háttar. Oft var Jón í járnum í máli sínu, en gat alltaf losað sig úr þeim. Aldrei reyndi hann að strjúka. Jón var geðspektarmaður mikill, en kona hans svarri, tók hún fram hjá Jóni, en ekki hafði hann orð á því. Nokkru síðar henti hið sama Jón sjálfan. Var hann þá spurður, hvort honum hefði orðið það á að óvilja. Kvað hann því fjarri fara. Hitt kvað hann verið hafa vana sinn á ferðalagi, ef á hallaðist, að hengja kútkolu sína á léttara baggann. Ekki hafði hann fleiri orð um það."
Hér eru fleiri tenglar um Jón og Tindala-Íma:
- Frjáls þjóð, 27. Tölublað (20.07.1967)
- Kóngsins steðji og steðjinn í Fremra-Skógkoti Tíminn Sunnudagsblað, 30. tölublað (30.09.1962)
- Dómari og sakamaður á vog réttvísinnar Tíminn Sunnudagsblað, 31. tölublað (07.10.1962)
- Tindala-Imi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það hefur verið umræða í fjölmiðlum síðustu daga um aldraða sem hafa farið inn á spítala, komið út, eru ennþá veikir og farlama og staulast um heima hjá sér af litlum mætti og eiga erfitt með að fá næringarmikinn og góðan mat. Þetta er í kjölfar rannsóknar sem byggir á fólki sem allt er háaldrað og hefur flest lent á spítala vegna byltu eða falls og er svo lasið að ekkert þeirra getur farið út í búð. Þetta er hópur sem verður að reiða sig á aðstoð annarra og það er fróðlegt að sjá hvernig hún er veitt af nærþjónustunni og líka hvernig umfjöllun fjölmiðla er um þennan átakanlega heilsufarsvanda. Í stað þess að ráðast að rótum vandans, að því að skoða hvað veldur því að veikt fólk fær ekki aðstoð sem það þarf þá hefur núna í nokkrum fjölmiðlaviðtölum verið sagt oftast en einu sinni að þetta sé fólk sem sé ekki fært um að búa í sjálfstæðri búsetu, það þurfi að reisa fleiri hjúkrunarheimili til að skella fólki þar inn.
Hér er úrklippa úr fyrsta viðtalinu sem sýnir tóninn og skilningsleysi og fjölmiðlaumfjöllun þar sem fréttamaður virðist vera fyrirfram sannfærður um að lausnin sé að roskið fólk hætti að búa heima hjá sér.
Það er athyglisvert að fólk sem ekki hefur tök á að fara út í búð virðist ekki fá aðstoð og eina aðstoðin sem fólki býðst virðist vera þrif einu sinni eða tvisvar í mánuði. Hvort er hagkvæmara og eykur lífsgæði eldri borgara meira að byggja fleiri hjúkrunarheimili eða að veita meiri aðstoð á heimilum?
Hér er viðtal við formann landsambands eldri borgara þar sem þetta er sagt:
""Fólk sem ræður ekki við að fylla á ísskápinn sinn og ná sér í mat á ekki að búa eitt heldur flytja á hjúkrunarheimili"
Það er skrýtið að slíkt orðalag sé haft er eftir formanni landssambands eldri borgara.
Ég bara trúi því ekki upp á formann landssambands eldri borgara að hún hafi sagt að fólk sem ekki fyllir ísskápinn sinn eigi ekki rétt á að vera sjálfs síns, búa í sjálfstæðri búsetu. Í þessari frétt á RÚV kemur fram ákaflega einkennilegt viðhorf til aldraðs fólks sem ekki borðar nógu mikinn og næringarríkan mat. Eftir formanni eldri borgara eru höfð þessi orð "Fólk sem ræður ekki við að fylla á ísskápinn sinn og ná sér í mat á ekki að búa eitt heldur flytja á hjúkrunarheimili, að sögn formanns Félags eldri borgara."
Þetta er alveg fáránlegt. Ef það eru næringarvandamál hjá eldra fólki sem er nýkomið af spítala eftir að hafa verið flest lagt þar inn vegna byltu og falls, næringarvandamál sem stafa af því að fólk á erfitt með að ganga um, veigrar sér við að fara á klósett og fram í eldhús og glímir við ýmsa öldrunarsjúkdóma.
Lausnin er ALLS; ALLS EKKI að sparka í gamalt fólk og segja að það eigi ekki rétt á að vera sjálfs sín og nú þurfi að byggja fleiri hjúkrunarheimili til að pakka fólki þar saman. Vandamálið er ekki að fólk sé farlama og eigi erfitt með hreyfingar og aðdrætti. Vandamálið er samfélag og félagskerfi og hjálparkerfi við fólk sem býr heima hjá sér. Lausnin er ekki fleiri hjúkrunarheimili sem eru rándýr í rekstri og taka sjálfsákvörðunarrétt frá þeim sem þar dvelja. Það er engin þörf á fleiri stofnunum. Það er þörf á meiri aðstoð á þeim vettvangi sem aldraðir kjósa sem ég hugsa að sé oftast á heimilum.
Þeir aldraðir sem vilja ættu að eiga kost á því að fá inn á hjúkrunarheimili en ég held að flestir þó þeir verði lasnir og eigi erfitt með hreyfingar kjósi að búa sem lengst á heimilum sínum. Það er mikilvægt að greina hvað það er sem veldur því að fólk getur það ekki lengur og líka hvað þarf til að fólk geti það. Af hverju leyfir fólk sér að tala um aldrað fólk eins og böggla sem eigi að vista á stofnunum?
Sjá viðtölin hér:
http://www.ruv.is/spila/ruv/kastljos/20180314-0
http://www.ruv.is/frett/eldra-folk-byr-eitt-en-raedur-ekki-vid-thad
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2018 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.2.2017 | 07:45
Að drepa tré og túrista
Það er undarlegt að Þingvallanefnd grípi ekki strax til þess úrræðis að banna alla köfun í Silfru í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Það virðist stórhættulegt að kafa þarna og banaslys og alvarleg slys eru tíð. Ég hlustaði í sjónvarpsfréttum í gær á viðtal starfsmann þjóðgarðsins og mér skildist að úrræðið og viðbrögð við þessum slysum ætti að vera að takmarka fjölda sem fengi að kafa. Ég get ekki séð hvernig það getur verið lausn á svona alvarlegu máli, urðu þessi slys sem sum voru banaslys vegna þess að fólk við köfun þvældist hvert fyrir öðru?
Það verður líka að benda á að Þjóðgarðurinn er hagsmunaaðili sem hefur umtalsverðar tekjur af þessari köfun og fjöldi fólks í ferðaþjónustu hefur tekjur og lífsafkomu af því að ferðamenn kafi þarna. En það má ekki leggja fólk í óþörfu í lífshættu vegna þess að einhverjir græði á því. Það er athyglisvert að skoða þetta með hliðsjón af öðrum lokunum og takmörkunum af aðgengi. Ef enginn Íslendingur og engin íslensk stofnun hefði tekjur af þessari köfun myndi þá ekki fyrir löngu verið búið að banna þetta?
Hér er fréttaviðtalið á RÚV:
Ég vildi að Þingvallanefnd hefði meiri áhuga á að passa að fólk drepi sig ekki heldur en að drepa tré. Í grein í Bændablaðinu kemur fram að Þingvallanefnd hefur ákveðið að fella og uppræta áratuga gömul grenitré næst Valhallarreitnum. Helstu rökin fyrir því að fella trén eru að þau hafi slæm sjónræn áhrif á ásýnd þjóðgarðsins.
Það er líka athyglisvert að það er beinlínis ósatt það sem fært er til sem ástæða fyrir að þessi tré séu fellt. Því er haldið fram að það tengist eitthvað því að Þingvöllur sé núna á heimsminjaskrá UNESCO og sú stofnun mun ekki hafa gert neinar kröfur um tráfellingar.
Í Bændablaðinu er þessari trjáfellingu líkt við sögufölsun og það er nokkuð til í því. Í greininni segir:
Sú árátta að fjarlægja öll barrtré og tré sem teljast geta verið innflutt á Þingvöllum er stórfurðuleg og líkist einna helst sögufölsun náttúruminja. Barrtrén á Þingvöllum voru á sínum tíma gróðursett í góðri trú og hafa um áratugi glatt augu þjóðgarðsgesta og af og frá að þau hafi á nokkurn hátt haft slæm sjónræn áhrif á ásýnd garðsins. Slíkt er firra.
Tengill beint á grein eftir Vilmund Hansen í Bændablaðinu 8. febrúar 2017
Áratuga gamall greniskógur upprættur
Myndi er úr Commons myndasafninu
Þar eru gríðarlega margar myndir af Þingvöllum, allar um opnum höfundarleyfum
https://commons.wikimedia.org/wiki/Category:Þingvellir
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2016 | 18:18
Simpson tekur fyrir félagsmiðla og forritun "The Girl Code"
Simpsonþættir draga samtíma okkar sundur og saman í háði en skopast líka að framtíð og tækni. Nýlegur þáttur (season 27, Episode 10 )í teiknimyndasöguheimi Simpsons fjallar um samfélagsmiðla, gríska efnahagsharmleikinn og líka um stelpur sem forrita og gervigreind.
Söguþráðurinn er þessi:
Homer gleymir nestinu sínu heima og Marge fer með það til hans í kjarnorkuverið og þau fá sér ís fyrir framan verksmiðjuna og Marge póstar glaðbeitta mynd af Homer með ís sem er að bráðna á Facelook undir titlinum "Meltdown at the Nuclear Plant". Homer er rekinn úr vinnunni vegna þessa facelook statusar og hann ræður sig á í vinnu við uppþvott á grískum veitingastað.
Lísa í forritun, að þróa appið Conrad
Lisa er að læra forritun í skólanum og kennarinn sem er konan Quinn sem hvetur Lísu áfram. Hún spáir núna í afleiðingar af tjáningu á samfélagsmiðlum vegna þess að faðir hennar missti vinnuna út af brandaratexta með mynd sem póstað var á FaceLook. Lísa þróar ásamt Quinn og CBG (token male coder) app sem getur spáð fyrir um hvaða áhrif status á félagsmiðli muni hafa. En Lísa er líka hvött til að breyta ímynd sinni, taka upp staðalímynd punky coder girl eða eins og Quinn segir: Being tough comes from the inside. First stepchange your outside. Stelpugengið kennir vél að spá fyrir framtíðina og fyrir Homer er þetta óskiljanlega blanda af vísindaskáldsögu og vísindaþekkingu. Nýja appið fær heitið Connsequences Eradicator eða Conrad og talar með breskri karlmannsrödd sem fengin er fengin með upptökum á BBC.
Appið Conrad er tilbúið eftir 97 stunda kóðun. Bart er sá fyrsti sem valinn er til að prófa Conrad vegna þess hve hvatvís hann er. Conrad virkar og það rennur upp fyrir Lísu að Conrad lifir, hann veit af tilveru sinni, hann er lifandi vélvera. Quinn hugsað eingöngu um verða rík og Conrad talar ekki við hana.
Homer dansar gríska dansa og nýtur lífsins og kemur með gríska vini sína á barinn hjá Moe þar sem þeir faðmast og kyssast og dansa og eru kátir. Moe tekur heimsókninni fálega, barir séu ekki staður gleðinnar heldur staðir þar sem óhamingjan ræður ríkjum og fólk drekkir sorgum í áfengi.
Conrad er að fara í loftið á samkomunni AppCrush Expo (Where Dreams Are Monetized) í ráðstefnumiðstöð Springfield en þar eru líka önnur öpp sýnd eins og God Guide, app sem maður fóðrar á greindarvísitölu sinni og það finnur fyrir mann heppileg trúarbrögð og PaidPal sem segir manni hvort greiðsla hafi borist á Paypal og líka RIPCORD þar sem síminn hringir þegar rétt er að hætta í samtali og Zip Crayon til að leigja vaxliti, ekki kaupa og fleiri í þeim dúr. Conrad gengur rosalega vel að spá fyrir í beta prófunum sínum.
Conrad er taugaóstyrkur og vill ekki gleymast og enda eins og hver önnur uppfærsla á Adobe hugbúnaði. Conrad er hræddur við að verða söluvara í App Store og þurfa að ösla í gegnum alla vitleysuna á Internetinu. Hann er hræddur um að bugast ef hann verður gefinn út þar. Conrad hefur líka áhyggjur af ýmsu, svo sem að hann sé of feitur. Appið hennar Lísu vinnur verðlaunin "Crush Crunch Epic Hack Disruptor Dynamic Convergence Disrupting Award for Achievement in Disruption."
Lísa kemur í veg fyrir að Conrad verði gefinn út, nokkur önnur öpp hjálpa henni og Conrad á flótta frá ráðstefnunni en það eru öppin Here to There, Daze, Gulp, og Aviato. Þau eru stöðvuð á flóttanum af englafjárfestum og Lísa fær val um að setja hann út í skýið eða sanna að kvenkyns forritarar geti gert meistaraverk. Lísa velur að bjarga hinum viðkvæma vini sínum sem veit af tilveru sinni. Conrad svífur á braut inn í skýið og kveðjuorð hans eru "that Humanity is on the precipice of turning into complete and utter wankers. Its not the technology that needs an upgrade. Its you.
Homer kemst að því að hann fær diskaþvottinn útborgaðar með grískum drökmum eða algjörlega verðlausum gjaldmiðli. En Conrad beitir fjárkúgun og kemur Homer aftur í gamla starfið.
Þessi þáttur er snörp samfélagsádeila en líka grín sem fjallar um samfélagsmiðla, uppvaskara, miskiptingu auðs og vinnu, kynjavídd í heimi forritunar og um gervigreind, um vélveru sem sleppt er lausu út í skýið og hvað er líf og hvað er vitsmunalíf.
Sjá nánar:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2016 | 12:07
Bleikur bankadagur
Bankarnir voru auglýstir nýlega til sölu í smáauglýsingum svo lítið bar á. Frestur til að skila inn tilboðum rennur út í dag. Hér er auglýsingin.
Það er bleikur dagur í dag. En ég held að það sé frekar dagur til að skjóta upp bleikum neyðarblysum en dagur til að klæða sig í bleik föt.
Flest atvinnufyrirtæki á Íslandi eru í greipum bankanna og sá sem á skuldirnar ræður í raun rekstrinum og hefur örlög þeirra sem vinna hjá fyrirtækjunum í hendi sér. Íslensk athafnalíf er í höndum banka og fjármálastofnana og held að framleiðslutækin séu í flestum tilvikum eign fjármálafyrirtækja þó reksturinn á yfirborðinu virðist vera gamalgróin fyrirtæki. Fyrirsögnin í auglýsingunni er grábrosleg, þetta er ekki "Opið söluferli", þetta er mjög loðin og skrýtin auglýsing, svona eins verið væri að fullnægja einhverjum formkröfum svo hægt væri að gefa bankanna til kröfuhafanna. Já þeirra. Þeirra sem við vitum ekki hverjir eru en vitum að eru flestir ramlega flæktir í neti aflandsfyrirtækja sem eru ekki undantekningin heldur reglan í hinum vestræna heimi. Það getur líka verið að það hafi verið makkað bak við tjöldin að meðal bjóðenda verði íslenskir lífeyrissjóðir, þeir voru ábyggilega stórir kröfuhafar bankanna.
Sennilega er smáauglýsingunni laumulegu birt núna vegna þess að núverandi fjármálaráðherra ætlar að ganga frá sölunni á meðan hann er ennþá í embætti. Það er frekar einkennilegt að uppljóstrun Panamaskjalanna verði til þess að ríkisstjórn hrökklast frá og fjármálaráðherra sem var einn þeirra sem fjallað var um í Panamaskjölun og sem hefur tengst bæði sjálfur og gegnum ættingja sína ýmsum vafasömum alþjóðlegum fjármálavefningum sé sá aðili sem núna fær sjálfdæmi um að selja lífsbjörg Íslendinga.
30.8.2016 | 17:24
Grindhvalaveiðar í Laugarnesfjörunni fyrir fimmtíu árum
Það gerðist ekki oft að íbúar á æskustöðvum mínum í Laugarnesi færu þar á grindhvalaveiðar að færeyskum sið. En það gerðist einmitt fyrir fimmtíu árum eða 30. ágúst 1966. Þá ráku tvær trillur grindhvalavöðu inn á sundin og eltust við hana. í fjörunni í Laugarnesi greip drápseðlið einhverja sem þar söfnuðust saman og voru þrír hvalir drepnir. Við bjuggum á Laugarnesvegi og ég man að yngri bróðir minn sem þá hefur verið 8 ára kom hróðugur heim með kjöt af hval. Yfirvöld bönnuðu hvalskurðinn og að kjötið væri hirt. Hér er frásögn og ljósmynd sem var í Alþýðublaðinu daginn eftir. Aðrar myndir af grindhvalaveiðum eru úr Wikipedia.
Hér er íslenska wikipediagreinin um grindhval
Hér er íslenska wikipediagreinin um grindadráp. Þar er listi yfir þau skipti þar sem marsvínavaða hefur gengið á land á Íslandi.
Frásögn úr Alþýðublaðinu 31. ágúst 1966
"Gífurlegur mannfjöldi var saman kominn inn í Laugarnesi um hálftíu leytið í gærkvöldi þegar verið var að reyna að reka grindhvalavöðuna þar á land. Aðeins tókst að drepa þrjá hvali, enda lögðu yfirvöld bann við hvaldrápinu í borgarlandinu."
Reykjavík, EG.
"Í ljósaskiptunum í gærkveldi fylgdust hundruð, ef ekki þúsundir Reykvíkinga með því, er reynt var að reka grindhvalavöðu á land í smávík á Laugarnestanga. Þrír hvalir voru skornir í fjörunni, með smákutum, en hinir sennilega um 100 talsins sluppu og eiga Dýraverndunarfélaginu, hafnarstjóra og lögreglunni í Reykjavík líf að launa.
Um átta leytið í gærkveldi veittu menn því athygli, að þrjár trillur voru á ytri höfninni í Reykjavík og ráku á undan sér allstóra grindhvalavöðu. Barst leikurinn brátt inn á Rauðarárvíkina og olli þetta nær umferðarstöðvun á Skúlagötunni, en hundruð manna söfnuðust saman í Sætúni og fylgdust þaðan með viðureigninni. Voru myndavélar og sjónaukar víða á lofti. Bátunum sem ráku vöð una fjölgaði brátt og sama mátti segja um forvitna áhorfendur, sem flykktust að. Um níu leytið var vaðan komin inn undir Laugarnestanga, og ekki þótti viðstöddum Færeyingum íslendingum farast reksturinn kunnáttusamlega úr hendi því lengi var svo, aðhvorki gekk ná rak. Vaðan var stundum 100-200 metra frá landi og stundum fjær, og létu dýrin ófriðlega og voru stygg.
Þegar klukkan fór að halla í tíu var vaðan undan Laugarnestanga. Voru þá bátarnir orðnir fjórtán, sumt trillur, sumt hraðskreiðir plastbátar. Áhorfendur sennilega 1-2 þúsund og Laugarnesið var ein bílakös. Um hálf tíuleytið voru bátarnir komnir með vöðuna nær því upp í land í smávík yzt á Laugarnesinu. Var þar mikill bægslagangur. Þrjú dýr festust í fjöruborðinu og var böndum þá brugðið á sporð hvers á eftir öðru og leitast við að draga þau upp í fjöruna. Var ömurlegt að sjá umbrot dýranna í sjávarborðinu, en nokkrum sem nærri virtust komin á land, tókst að rífa sig laus. Nokkur hraust heljarmenni óðu sjóinn í mitti með smákuta að vopni og skáru þvert í bak hvalanna rétt fyrir aftan haus. Blöð hnífanna munu hafa verið 10 sm. löng, en Færeyingar stinga sína grind með löngum sveðjum, Vár sjór brátt blóði litaður í víkinni. Kvenfólk tiplaði háhælað í fjörugrjótinu og foreldrar héldu smábörnum á háhesti til þess að enginn missti af neinu. Leyndi sér ekki manngrúinn í fjörunni kom styggð á vöðuna,sem hélt nú frá landi. Var síðan elzt við hvalinn um skeið en lítið gekk.
Þá kom hafnsögubátur með tvo lögregluþjóna innanborðs og var skotið á ráðstefnu. Lögreglan taldi sig ekki hafa beina heimild tií að banma grindadrápið, en bað mennina að láta þetta gott heita. Munu þeir ekki hafa tekið illa í þau tilmæli en ekki allir verið ánægðir. Nokkru síðar kom lögregluþjónn á báti úr landi um borð í hafnsögubátinn með þau skilaboð að hafnarstjóri, legðiblátt bann við þvi að grindadrápið færi fram á landi Revkjavíkurhafnar. Þá höfðu lögreglunni borizt mjög eindregin tilmæli frá Dýraverndunarfélagi íslands um að komið yrði í veg fvrir grindadrápið Var bá eltingaleiknum hætt enda mvrkur að skella á og vaðan að tvístrast.
Þeir borsteinn Einarson íþróttafulltrúi og Þorbjörn Jóhannesson kaupmaður sem báðir eru í stjórn Dýraverndunarfélag Íslands komu á vettvanginn inn í Laugarnes. Þorsteinn tjáði Alþýðuhlaðinu að grindadráp yæri bannað hér á landi. Eina hvalveiðin sem hér væri levfð væri frá hvalstöðinni í Hvalfírði. Gömul lög væru til um hvalveiði. en þegar ný lög voru sett hefi gleymst að taka gömlu lögin með og því væru þau ekki í gildi. Þorsteinn hvað fjölda fólks hafa hringt til sín til að biðja Dýraverndunarfélagið um að skerast í leikinn og forða ónauðsynlegu blóðbaði og drápi engum til gagns.
Auðheyrt var í fjörunni í Laugarnesi í gærkveldi, að flestir voru fegnir að bann var lagt við grindardrápinu. Miðaldra konu heyrði ég þó segja. Ekkert má nú lengur! Nokkrar færeyskar konur stóðu í hnapp hjá einum hvalnum sem búið var að skera og áttu vart orð til að lýsa hneykslun sinni á drápinu, en almennt virtist fólk ekkert áfjáð í að drepa essa fallegu stórfiska. Reynslan frá Vopnafirði og Vestmannaeyjum var ýmsum í fersku minni; þar voru tugir hvalanna skornir, kjötið lítði nýtt og úldin hræin lágu lengi í fjörunni og voru síðan dregin á haf út með ærnum tilkostnaði. Var ástæðulaust að láta slíkt endurtaka sig í Reykjavík, og ennþá minni ástæða til að breyta borgarlandinu í blóðvöll algjörlega að nauðsynjalausu, og aðeins til að svala frumstæðri drápsfýsn.
Þau sáu vöðuna
Vestur við Ægisgarð hittum við í gærkvöld þau Geirarð Jónsson og Karítas Bjarnadóttur, en þau fundu grindhvalavöðuna um sjö leytið í gækvöld við róðrarbaujuna.
Fyrst rákum við hana ein, sagði Geirarður, og svo bættist önnur trilla við. Sú þriðja kom ekki fyrr en á ytri höfninni. Okkur gekk reksturinn prýðilega þangað til að bátunum fjölgaði.
Þetta er sá tími ársins sem hvalirnir verða nær algjörlega blindir, hélt Geirarður áfram, það vaxa einhverjir fitukleprar fyrir augun á þeim. Það var gaman að heyra í þeim, það er greinilegt að þeir tala alveg saman.
Við skruppum hérna út á Flóa til að reyna að ná okkur í lúðu í soðið og kannski fugl, og vorum á leið í land, þegar við sáum vöðuna. Það var ómögulegt að reka þá á land þarna í Laugarnesi, það var allt of grýtt, þeir verða helzt að fara í land á sléttri sand eða leirfjöru. Þá gengur allt eins og í sögu. Ekki var að heyra á þeim Geirarði og Karítas að þeim sárnaði sérstaklega, að ekki skyldi hafa orðið úr grindadrápinu."
Þessi frétt birtist í Alþýðublaðinu , 195. Tölublað (31.08.1966), Blaðsíða 1
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2402695
Sjá líka hérna http://timarit.is/files/31125321.jpg og hérna http://timarit.is/files/7668826.pdf
Frásögn í Morgunblaðinu 30. ágúst 1966.
"HÁTT á annað hundrað marsvín óðu á ytri höfninni í Reykjavík í gærkvöldi, rekin af fjölmörg- um hraðbátum og trillubátum, sem gerðu margítrekaðar og æsilegar tilraunir til að reka þau í land í vík við Laugarnestanga. Meðal þeirra, sem þátt tóku í eltingarleiknum við marsvínin voru tveir blaðamenn Mbl., á litlum hraðbát, sem eigandinn Sigfús Sveinsson stýrði. Sjómenn á tveimur trillubátum fundu marsvínin vaðandi á Sundunum og ráku þau í átt til lands, en þar bættust áhugasamir trillu- og hraðbátaeigendur í hópinn og háðu eltingarleik við marsvínin í tvær klukkustundir samfleytt. Eftirtekjan var heldur rýr: þrjú marsvín náðust á land á Laugarnestanga, en marsvínsvaðan skipti sér í tvo hópa, óð til hafs og komst undan í skjóli myrkurs.
Um kl. 8:30 bárust ritstjórn Mbl. þær fregnir, að trillubátar rækju á undan sér geysimikla marsvínsvöðu, er stefndi á ytri höfnina. Tveir fréttamenn blaðsins fóru þegar á stúfana og urðu sér úti um hraðbáta, sem á var þriggja manna áhöfn. Fer frásögn þeirra hér á eftir:Er okkur bar að vöðunni var hún 200 metra undan Héðinshöfða og virtist þá harla dösuð,
þótt síðar kæmi á daginn að marsvínin höfðu nægilegan þrótt til að stinga af" þá 12 báta, sem reyndu að hrekja þau á land. Eftir klukkutíma þóf voru marsvínin komin aðeins um 20 metra undan Héðinshöfða og stefndu þá enn á land. Hljómuðu þá heróp mikil frá áhöfnum smábátanna, sem þustu hver um annan þveran.
Hvað eftir annað stefndu bátarnir sér í beinan háska. Má þar til nefna ,að um 20 marsvín stungu sér upp við landið og komu undir hraðbátinn sem dansaði á hrygg eins marsvínsins og slapp naumlega við að hvolfa.
Þegar sýnt var, að dýpið var of mikið við Héðinshöfða til að unnt væri að reka marsvínin þar á land, voru ítrekaðar og misheppnaðar tilraunir gerðar til að koma þeim út fyrir Laugarnestanga og inn í Vatnagarða.
Tóku þá marsvínin upp á því, sem engan hafði órað fyrir: Þau skiptu sér í þrjá hópa, og stefndu sitt í hverja áttina, og barst leikurinn út um 300 metra undan landi. Sameinuðust tveir hóparnir og tóku stefnu með miklum hraða til hafs. Þá var sýnt að ógerlegt var að snúa þeim aftur til lands. Var og mjög farið að bregða birtu. Þess utan tók að kula og gaf yfir bátinn. Voru skipsmenn á bát Sigfúsar orðnir rennvotir, einkum þó blaðamennirnir, en annar þeirra færði sig í björgunarvesti og bjóst við hinu versta, enda var Sigfús óspar á benzíninngjöfina og fór oft ískyggilega nálægt blásandi marsvínsvöðunni.
Gífurlegur mannfjöldi hafði safnast saman á Héðinshöfða til að fylgjast með bardaganum svo einstæður atburður sem þetta var í Reykjavíkurhöfn. Umferðaröngþveiti skapaðist í Sætúni og hundruð manna þustu niður í fjöruna til að taka á móti marsvínunum á svipaðan hátt og frændur okkar í Færeyjum gera.
Áður en marsvínin sluppu, hafði þó tekizt að flæma fimm þeírra að landi við Laugarnes. Byltust þau á grynningum þar. Nokkrir vaskir Reykvíkingar tóku á móti þeim með sveðjur á lofti og barefli, þeir urðu þó frá að hverfa vegna aðdýpisins, sem er við nesið. Nokkur marsvínanna náðu að brjótast af grynningunum og geystust út á ytri höfn- ina, frelsinu fegin. Mikils spennings gætti hjá áhorfendum, ekki síður en hjá þeim sem eltingarleikinn þreyttu.
Heyrðum við glögglega siguróp áhorfenda, er tekizt hafði að hrekja hvalina að Iandi, auk þess mátti heyra einstaka menn syngja við raust á Höfðanum, hýra af lognhöfgi haustnæturkyrrðarinnar og ef til vill einhverju öðru.
Eftirför bátanna 12 við grindhvalina var frá upphafi illa skipulögð og stundum skipulagslaus, enda var eftirtekjan bág í hæsta máta. 3 marsvín náðust við Laugarnesið, en hin hurfu út í Flóann mót frelsinu og eiga vonandi langa lífdaga framundan. Það voru því ekki sigurglaðir menn, sem stigu úr hraðbát Sigfúsar í Rvíkurhöfn, kl. laust gengin 11, en ákaflega hásróma og heldur þrekaðir. Einu athugasemdina, sem gerð var í bátnum á heimleiðinni átti 11 ára gamall snáði, sem komst svo vitanlega að orði: "Guði sé lof að ekki var verra í sjóinn"."
Hér er fréttin sem birtist á baksíðu Morgunblaðsins: http://timarit.is/files/16196936.pdf
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2016 | 23:12
Riddarinn hugumprúði
um mann sem las yfir sig
Sagan er af miðalda manni riddaranum Don Kíkóta frá La Mancha sem hefur misst vitið af því hann las yfir sig af sögum um hina hugprúðu riddara. Hann fer nú í leiðangra á hesti sínum Rósant (Rocinante) og með skjaldsveini sínum Sancho Panza. Don Quixote er barinn og vegfarandi fer með hann heim. Vinir hans rakari og prestur ákveða að brenna allar bækurnar sem sviptu hann vitinu. Don Quixote fer á stjá að leita að sökudólgnum er aftur barinn. Sancho fer með hann á krá nokkra til að hann jafni sig. En Quioxe sér ekki krána heldur kastala og telur dóttur kráareigandans prinsessu. Hann barðist við vindmyllur og breytti eigin umhverfi í sagnaheim riddarasagna.
Rakskálin. Eða hjálmurinn
"Það er nefnilega ekkert víst í heimi hér: ekki hverjar persónurnar eru, ekki einu sinni hverjir hlutirnir eru, sem ætti þó að liggja í augum uppi. Don Kíkóti hirti rakskál af rakara vegna þess að hann hélt að hún væri hjálmur. Síðar rekst rakarinn fyrir hreina tilviljun inn á krá þar sem Don Kíkóti er staddur ásamt fleira fólki, hann kemur auga á skálina og vill fá hana til baka. En Don Kíkóti verður stórhneykslaður og þvertekur fyrir að hjálmurinn hans sé rakskál. Þannig snýst vera einfalds hlutar skyndilega upp í spurningu. Hvernig er annars hægt að sanna að rakskál sem sett er á höfuðið á manni sé ekki hjálmur? Glaðhlakkalegir kráargestirnir hafa stórgaman af þessu og finna einu raunhæfu leiðina til að fá botn í þetta mál: efna til leynilegrar atkvæðagreiðslu. Allir viðstaddir taka þátt í henni og niðurstaðan er afdráttarlaus: hluturinn er hjálmur."
Úr grein eftir Milan Kundera Töfrar hins óvænta Tímarit Máls og menningar, 3. tölublað (01.09.1999)
Hvernig sagan varð til
Hér er grein sem birtist í Timanum árið 1955 um höfund Don Kíkóta og tilurð sögunnar.
"Á miðjum Spáni, þeim hluta landsins, sem kallaður er La Mancha, liggur hásléttan eins og skrifað blað undir opnum himni. Víðáttan virðist auð og tóm, þegar frá eru skildir nokkrir fjárhirðar með hjarðir sínar og nokkur lágeist sveitaþorp. En ef þú hefir lesið langþekktasta skáldverk veraldarsögunnar, þá hlýtur þetta land að breyta um svip í augum þínum, og þá er ekki lengur tómlegt um að litast á þessum slóðum, því að á þessum slóðum lifðu þær rúmlega 600 persónur, sem um er getið í Don Kíkóta (Don Quixote).
Þarna gefur að líta vindmyllurnar, sem hinn aldni riddari skoðaði sem féndur sína og taldi að væru risar. Fullur af heilagri vandlætingu hvatti hann dróg sína sporum til þess að berjast við þá, til þess eins að detta ,af baki. Enn í dag köllum við það að berjast við vindmyllur, þegar einhver tekur að hamast á ósýnilegum, ímynduðum óvini. Einnig hefir nafn þessarar miðaldahetju fengið virðulegan sess í flestum tungumálum heimsins.
Sagan um vindmyllurnar er aðeins ein af hundruðum sagna, sumum
sorglega sönnum og sumum sannarlega sorglegum, er fylla þessa biblíu manngæzkunnar. Og gegnum öll þessi ævintýri liggur eins og rauður þráður sú heimspeki, er varð einu laun heimsins til höfundarins, Miguel de Cervantes.
Þú getur heyrt hláturinn í rödd hans, þegar hann var að skrifar þessa sjálfslýsingu: Svipurinn minnti á örn. Hárið var brúnt, ennið vel lagað og óhrukkótt og augun glaðleg. Nefið bjúgt og stórt. Skeggið orðið silfurgrátt, en var rauðgullið fyrir meira en tuttugu árum síðan. Yfirskeggið stórt og mikið, en munnurinn lítill. Tennurnar voru ekki nema sex og allar ljótar, en þó vel hirtar. Litarhátturinn var bjartur. Maðurinn var mikill vexti, en frekar seinn á fæti.
Höfundurinn var borinn í þennan heim 1547 í snotrum, gömlum háskólabæ, Alcalá de Henares, ekki langt frá Madrid. Fjölskyldan lagði þó fljótlega land undir fót til Valladolid, Seville og Madrid. Faðir hans átti nafnspjald, en lítið annað. Hann var læknir, en fékk
fáa sjúklinga, sem borguðu. Ein af fyrstu minningum Cervantes var, að hann sá föður sinn bera húsmuni fjölskyldunnar til veðlánara. Því næst minnist hann þess, þegar sýslumaðurinn kom til að hneppa föðurinn í skuldafangelsi.
Með einhverjum hætti tókst drengnum samt að afla sér menntunar. Það lítur út fyrir, að hann hafi stundað nám við háskólann í Salamanca, og hlýtur hann þá að hafa unnið fyrir sér sem herbergisþjónn hjá auðugum stúdentum. Skáldsagnahöfundur lærir ekki list sína af neinu nema lífinu sjálfu. Og á borgargötunum kynntist Miguel lífinu eins og það er í raun og veru, harðneskjulegt og óráðið, en ríkt af reynslu. Í leikhúsinu, þar sem hann eyddi hverjum skildingi, sem honum áskotnaðist, komst hann aftur á móti að þvi, hvernig lífið lítur út, þegar búið er að skapa úr því list. Hann uppgötvaði mátt lífslyginnar, og hann kom auga á hvernig hún getur skapað sannindi, sem enga stoð eiga í veruleikanum.
Það eina, sem hann átti rúmlega tvítugur voru hans eigin draumar, og allir voru þeir um frægð. Hann lagði leið sína til Ítalíu, þar sem Spánn í þá tíð átti mikil virki. Þarna gekk hann í herinn. Loks kom að því, að hann væri vel til fara. Þarna var hann í litríkum einkennisbúningi, og í fyrsta skipti á ævinni snæddi hann raunverulega máltíð. Þessi Ítalíuár varpa ljóma á margar blaðsíðurí verkum hans síðar, er hinn aldni stríðsmaður minnist með söknuði hinna glæstu öldurhúsa, Ijúffengu ítölsku vína og allra hinna fögru kvenna.
Einnig kynntist hann stríðinu af eigin raun. Það voru Tyrkir, sem upptökin áttu, og gjörvallt kristið mannkyn stóð á öndinni. Árið 1571 sigldi voldugur tyrkneskur floti vestur Miðjarðarhaf. Tyrkneski soldáninn Selmi II. hugðist rífa krossinn af Péturskirkjunni í Róm og reisa þar tákn Múhameðstrúarmanna. Spánn ákvað að veita Páfaríkinu og Feneyjum og sendi af stað mikinn flota undir stjórn Don Juans hálfbróður konungsins, Filippusar II. Á einu skipinu sigldi hinn ungi Miruel de Cervantes. Við Lepanto undan ströndum Grikklands mættu flotar bandamannanna flota Tyrkja í blóðugustu sjóorustu, sem enn hefir verið háð.
Átta þúsund kristnir fórust og tuttugu og fimm þúsund Tyrkir, og hvert skipið eftir annað hné í bárur hafsins, meðan hermenninir slógust með söxum á þiljum uppi.
Er orrustan hófst, lá Cerantes í hitasótt undir þiljum. En er gnýrinn óx, þaut hann upp til að berast. Hann fékk fljótlega tvö skot í brjóstið cg það þriðja hitti hann í handlegginn. Engu að síðir var hann fyrsti maður, sem réðst til uppgöngu á næstu tyrknesku freigátu. Er sólin sé í blóðstokkinn sæinn hörðu Spánverjar lifað einn stoltasta dag sögu sinnar, og sjaldan gat Cervantes verið hreyknari.
Er Miguel fór frá Ítalíu 1575, hélt hann af stað til Spánar fullur af björtum vonum. í vasa sínum hafði hann meðmælabréf mikið frá Don Juan til Filippusar kóngs, þar sem hann mæltist til, að hans hátign veitti þessum unga fullhuga og stríðshetju sæmilega launaða stöðu hjá stjórninni. Þessari sjóferð lauk þó þannig, að skipið var tekið af márískum sjóræningjum og Cervantes var fluttur i ánauð til Alsír.
Vegna þess, að sá handleggurinn, sem skotsárið hlaut í sjóorrustunni, var honum ónýtur, losnaði Cervantes við að sitja við árahlunnana á galeiðum sjóræningjanna. Hann var seldur Dali Mami sem var trúníðingur og ræningj. Þegar höfðingi sá las meðmælabréfið þótti honum einsýnt, að Cervantes væri hreint ekki ómerkileg persóna og skipaði svo fyrir, að maður skyldi sendur til Spánar, þar sem heimta skyldi fyrir hann mikið lausnargjald.
Mánuðir liðu og Miguel horfði á félaga sína tærast upp í fangelsunum. Hann var vitni að húðstrýkingum cg holdflettingum og horfði daglega á lík þeirra, sem hengdir voru fyrir tilraunir til undankomu. Engu að síður var hann leiðtogi og hjálparhella samfanga sinna. Hann reyndi að vinna bug á örvæntingu þeirra, og hvað eftir annað skipulagði hann uppþot í því skyni að afla þeim frelsis. Hann beið jafnan lægri hlut, en þegar að því kom, að hann var dæmdur til dauða, barg hugrekki hans honum. Þó að þessir sjóræningjar væru grimmir, dáðu þeir engu að síður karlmannlegt hugrekki andstæðinga sinna, og þegar Cervantes gekk fyrir húsbónda sinn og tók á sig einan alla ábyrgð af fangauppreisninni, þótti þeim svo til slíks eðallyndis koma, að honum var gefið líf.
Það var þó ekki fyrr en eftir fimm ára fangelsisvist, að ættingjum hans hafði tekizt að aura saman fyrir lausnargjaldinu. Þegar hann loks var látinn laus, var það viðurkennt, jafnt af Márum sem kristnum lýð, að aldrei hefði nokkur maður óbugaðri þolað fangelsun.
Árið 1580 sté Cervantes aftur á spánska mold og komst nú brátt að því, hve fljótt menn gleyma hetjuskap gamalla hermanna. Meðan hann beið árangurslaust eftir frama hjá stjórnarvöldunum, tók hann að dunda við skriftir. Bókin varð þó hvorki fugl né fiskur, Galatea hét hún og fjallaði um hraustbyggða hjarðmenn og léttúðugar hjarðstelpur.
Þessi bók færði þó höfundi sínum nægileg fjórráð til að kaupa brúðkaupsklæði og leggja brúði sinni 100 dúkata í búið. Stúlkan Catalina de Palacios Salazar y Vozmediano var bæði ung og falleg og hún hlaut í heimanmund nokkur ólífutré, víngarð, nokkrar býkúpur og dálítinn skika af landi fjölskyldu sinnar. Þetta hefði ekki verið svo afleit byrjun fyrir ungan bónda. En eiginmaðurinn var nærri helmingi eldri en hún var sjálf, og hann hafði meiri áhuga á skriftum en búskap. Hann flutti hana með sér til Madrid, þar sem hún lifði í óhamingjusömu hjónabandi meðal heimsglaðra leikara, rithöfunda og skálda.
Er hjónaband þeirra rann þannig út í sandinn, tók Cervantes aftur að halla sér að leikhúsunum, en honum tókst aldrei að skrifa neitt það leikrit, sem gæfi honum nokkra frægð. Þá kom allt í einu fram á sjónarsviðið ungur rithöfundur, Lope de Vega, sem á 24 klukkustundum samdi leikrit, sem gerði hann frægan á augabragði. Þá hvarf Cervantes frá leikritagerð og lagði ritstörf á hilluna. Nú sneri hann sér að skattheimtu, og ennfremur átti hann að sjá um að afla flotanum ósigrandi vista, en Filippus kóngur hugðist senda hann til að berja á Englendingum, sem nú voru teknir að gerast allbaldnir við spánska heimsveldið.
Gjörvallur Spánn kveður þegar við af sigursöngvum, skrifaði Cervantes um þessar mundir, er hann hamaðist við að safna kjötlærum og vínámum í þorpunum umhverfis Seville. En ekki leið á löngu unz Cervantes var á bak við lás og loku í fangelsi. Stærðfræði hafði aldrei verið hans sterka hlið, og bókhaldið yfir vistasöfnunina þótti í meira lagi tortryggilegt. Honum var að vísu fljótlega sleppt úr haldi, en var dæmdur í þyngstu sektir. Hann sneri sér nú aftur að skattheimtunni, og lagði þá skatta inn í banka í Seville.
Bankinn fór fljótlega á hausinn, og aftur var Cervantes kastað í fangelsi. Þarna gafst honum færi á að hlusta á hetjusögur alræmdra þjófa, og hann hlýddi á játningar gamalla morðingja. Meðan hann lá þarna geymdur á bak við slagbranda fangelsisins, lét hann hugann reika út yfir hvítar hæðir Andalúsíu. Fyrstu blaðsíðurnar í Don Kikóta voru að skapast í huga hans.
Þegar Cervantes var sleppt úr haldi, var hann loks fullfær að flytja boðskap sinn, og nú loks voru Spánverjar í standi til að hlusta á hann. Flotinn ósigrandi lá nú á hafsbotni, og ósigurinn hafði kennt Spánverjum þá lexíu, að sennilega myndu þeir aldrei verða til að bjarga heiminum einir sér. Nú var einmitt tíminn fyrir riddarann gamla að birtast úti við sjóndeildarhringinn í La Mancha, með sinn gamla þjón, Sancho Panza ríðandi á múlasna á eftir sér.
Don Kíkóti er gömul hetja. Reyndar ekki orðinn annað en skinnið og beinin og orðinn gjörsamlega ruglaður af lestri riddarasagna. Hann tekur að lokum að trúa þvi, að hann sé sjálfur hinn síðasti riddari kristinna þjóða og sé til þess kallaður að ríða fákl sínum til að rétta hlut lítilmagnans, frelsa fagrar meyjar og berja á tröllum.
Bókin um Don Kíkóta var fyrst gefin út 1605, þegar Cervantes var
58 ára, og frægð höfundarins varð brátt kunn um allt föðurland hans.
Lítið batnaði þó fjárhagur Cervantes, og þegar franskir stjórnarerindrekar komu til Madrid og spurðu eftir höfundi þessarar
frægu bókar, rak þá í rogastanz, er þeim var sagt, að hann væri
fátækur gamall hermaður og væri þekktur af fáum persónulega. Þeir fundu hann loksins í gömlu húsi í Calla del Leon þar sem hann kom til dyranna til að taka á móti hinum tignu gestum sínum í gamaldags bændakufli frá Kastilíu.
Hinn 23. apríl var það dauðinn sem barði að dyrum hans, og Cervanters var lagður í gröf sen enginn veit lengur hvar er. En allir þekkja riddarann gamla, sem enn mundar lensu sína gegn öllu því, sem óraunhæft er og skugga hans ber við loft, ekki aðeins á spánskri grund, heldur um gjörvallan heim."
Tenglar
Bækur og myndir um Don Quijote