Að drepa tré og túrista


Cañón_Silfra,_Parque_Nacional_de_Þingvellir,_Suðurland,_Islandia,_2014-08-16,_DD_055

Það er undarlegt að Þingvallanefnd grípi ekki strax til þess úrræðis að banna alla köfun í Silfru í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Það virðist stórhættulegt að kafa þarna og banaslys og alvarleg slys eru tíð. Ég hlustaði í sjónvarpsfréttum í gær á viðtal starfsmann þjóðgarðsins og mér skildist að úrræðið og viðbrögð við þessum slysum ætti að vera að takmarka fjölda sem fengi að kafa. Ég get ekki séð hvernig það getur verið lausn á svona alvarlegu máli, urðu þessi slys sem sum voru banaslys vegna þess að fólk við köfun þvældist hvert fyrir öðru?

Það verður líka að benda á að Þjóðgarðurinn er hagsmunaaðili sem hefur umtalsverðar tekjur af þessari köfun og fjöldi fólks í ferðaþjónustu hefur tekjur og lífsafkomu af því að ferðamenn kafi þarna. En það má ekki leggja fólk í óþörfu í lífshættu vegna þess að einhverjir græði á því. Það er athyglisvert að skoða þetta með hliðsjón af öðrum lokunum og takmörkunum af aðgengi. Ef enginn Íslendingur og engin íslensk stofnun hefði tekjur af þessari köfun myndi þá ekki fyrir löngu verið búið að banna þetta?

Hér er fréttaviðtalið á RÚV:

Ferðamaður lést í Silfru

Ég vildi að Þingvallanefnd hefði meiri áhuga á að passa að fólk drepi sig ekki heldur en að drepa tré. Í grein í Bændablaðinu kemur fram að  Þingvallanefnd hefur ákveðið að fella og uppræta áratuga gömul grenitré næst Valhallarreitnum. Helstu rökin fyrir því að fella trén eru að þau hafi „slæm sjónræn áhrif“ á ásýnd þjóðgarðsins.

 

Það er líka athyglisvert að það er beinlínis ósatt það sem fært er til sem ástæða fyrir að þessi tré séu fellt. Því er haldið fram að það tengist eitthvað því að Þingvöllur sé núna á heimsminjaskrá UNESCO og sú stofnun mun ekki hafa gert neinar kröfur um tráfellingar.

Í Bændablaðinu er þessari trjáfellingu líkt við sögufölsun og það er nokkuð til í því. Í greininni segir:

Sú árátta að fjarlægja öll barrtré og tré sem teljast geta verið innflutt á Þingvöllum er stórfurðuleg og líkist einna helst sögufölsun náttúruminja. Barrtrén á Þingvöllum voru á sínum tíma gróðursett í góðri trú og hafa um áratugi glatt augu þjóðgarðsgesta og af og frá að þau hafi á nokkurn hátt haft „slæm sjónræn áhrif“ á ásýnd garðsins. Slíkt er firra.

Tengill beint á grein eftir Vilmund Hansen í Bændablaðinu 8. febrúar 2017

Áratuga gamall greniskógur upprættur

Myndi er úr Commons myndasafninu
Þar eru gríðarlega margar myndir af Þingvöllum, allar um opnum höfundarleyfum
https://commons.wikimedia.org/wiki/Category:Þingvellir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þarf þá ekki líka að banna bíla, áfengi, vélsleða, mótorhjól, reiðhjól, fitu, sykur og jafnvel gönguferðir? Það er enginn neyddur til að kafa í Silfru. Öllum sem það vilja gera er mjög rækilega bent á hættur sem því fylgja. Banna, banna, banna upphrópanir eiga heinlega ekki við í þessu tilfelli, frekar en öðrum, þar sem slys verða. Það er sjálfsagt að hafa einhvern hemil á þeim fjölda sem stundar köfun í Silfru. Hinsvegar er ferðaþjónustan sem tengist köfun í Silfru til stakrar fyrirmyndar. Aðstaðan er góð, tekið er raunhæft og sanngjarnt gjald af köfunarfyrirtækjunum pr.haus og bæði fyrirtækin sem bjóða þessa upplifun og ekki síst þjóðgarðurinn, njóta góðs af. Mætti vera mun meira um þessa uppsetningu á vinsælum ferðamannastöðum. Vill síðuhafi skrúfa fyrir Dettifoss, eða loka veginum þangað, því einhver dauðsföll hafi átt sér stað við fossinn? Á að banna fólki að skoða Reynisfjöru? Á ekki bara að banna túrista og dægradvöl þeim tengdum, sökum hættu á slysum og dauðsföllum? 

Þetta með grenitrén er síðan kapítuli út af fyrir sig. Þingvallaþjóðgarð á að reyna að varðveita í sem mest sinni upprunalegu mynd. Vissulega eru vegir, hús og önnur mannvirki þar í veginum, en grenið má svo sannarlega höggva fyrir mér. Það er ekki nema nokkura áratuga gamalt og hefur ekkert sögulegt eða náttúrulegt gildi á Þingvöllum. Birkið á að fá að vera í friði og hvorki greni né ein einasta fjandans ösp að fá að vaxa innan Þingvallaþjóðgarðs.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 13.2.2017 kl. 15:09

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Halldór, þú gerir þér ekki grein fyrir að þetta er þjóðgarður og fjöldi dauðaslysa í Silfru eiga ekki að vera umræðuefni á fjölmiðlum um allan heim.Mitt einlæga álit!

Eyjólfur Jónsson, 13.2.2017 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband