Einfríður og langan

vinnukona-student

"Það var ekkert sældarbrauð að stunda vistir í Reykjavík á þessum árum. Víða var hreinlega farið illa með vinnukonurnar. Þær fengu lágt kaup og slæma aðhlynningu. Þeim var þrælað út. Þær voru jafnvel seldar í ánauð. Þess voru dæmi, að þær voru látnar stunda fiskvinnu. Húsbóndinn tók af þeim kaupið, en greiddi þeim aftur vinnukonukaup, sem var mun lægra. Þetta munu hafa verið leifar af gamla vinnuhjúahaldinu til sveita.

Ég var óheppin með vistina. Ég fékk aldrei frí. Ég mátti ekki heimsækja unnusta minn og hann ekki mig. Ef hann þurfti að hafa tal af mér, varð hann að standa í forstofunni á meðan. Þar ræddum við saman, en ekki lengi, alls ekki lengi. Ég byrjaði að vinna klukkan átta á morganna og hætti ekki fyrr en um miðnættið. Frúin talaði eins lítið við mig og hún gat. Yfirleitt yrti hún ekki á mig nema til að segja mér fyrir verkum í hörkulegum fyrirlitningartón. Aðeins einu sinni sagði hún, að ég mætti eiga frí. Það var klukkan ellefu að kvöldi annars páskadags!

Þrátt fyrir þetta leið mér ekki illa. Það var eingöngu móður húsbóndans að þakka. Hún hjálpaði mér eftir föngum og reyndi að gera mér vistina bærilega. Mér þótti vænt um þá konu. Þegar ég ákvað að hætta 1. maí um vorið, útvegaði hún mér fiskvinnu hjá Kveldúlfi, en mjög erfitt var að fá slíka vinnu á þessum árum. Frúin kvaðst vera ánægð með mig, þegar ég hafði ákveðið að hætta. Líklega hefur hún aðeins verið full örvæntingar, því að hún hafði haft sjö vinnukonur frá hausti til áramóta. Hún greiddi mér hærra kaup en hún hafði lofað og bað mig að vera áfram. En ég var búin að fá nóg.

fiskur1925
Konur í fiskvinnslu um 1925 við Skúlagötu í Reykjavík (Wikipedia) 

Ekki tók betra við í Kveldúlfi. Ég þekkti varla þorsk frá ýsu. En ég var djörf og stórlát og vildi reyna sem flest. Verkstjórinn hafði spurt mig, hvort ég kynni að vaska fisk. Ég svaraði því játandi af ótta við, að ella fengi ég ekki vinnuna. Mér leist ekki á blikuna, þegar ég kom fyrsta morguninn. Ég hafði ekki haft vit á að búa mig þannig að ég gæti staðið við karið. Ég hafði til dæmis enga vaxdúkssvuntu, en fékk lánaða einhverja tusku framan á mig. Ég var svo heppin að lenda við hliðina á ágætri stúku, sem leiðbeindi mér. Hún hét Sigríður Guðmundsdóttir, og með okkur tókst þegar vinátta. Og þarna vann líka Rannveig Þorsteinsdóttir, sem síðar varð lögfræðingur og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn. Hún var lágvaxin, en ekki fisjað saman - og alltaf kát og fjörug.

Karlmenn óku fiskinum á hjólbörum til okkar, en Rannveig var svo harðdugleg, að hún var líka látin gera það stundum. Ég var eins og álfur út úr hól fyrstu dagana. En Sigríður kenndi mér handtökin, og brátt lærði ég þau. Verið var að vaska harðan togarafisk. Verkstjórinn hafði bannað okkur að leggja hann í bleyti. Ég ætlaði að sjálfsögðu að fara eftir fyrirmælum hans. En Sigríður aðvaraði mig og sagði, að þær gætu þetta ekki og færu ekki eftir því. Ég var líka þegar búin að fá stengi í handleggina. Ég hætti því að hlýða og fór að eins og hinar stúlkurnar.

 

En ég hafði dálítið samviskubit út af þessu. Ég óttaðist, að við gerðum fiskinn verðminni á erlendum markaði en ætlast var til. Við stúlkurnar urðum að keppast við, því að við vöskuðum í ákvæðisvinnu. Greiddar voru 2.10 fyrir hundraðið af þorskinum en 1.10 fyrir hundraðið af smáfiski. Ég náði ekki miklum hraða í fyrstu, og kaupið mitt var því lægra en hinna stúlknanna. Það þótti mér súrt í brotið, því að ég vildi ekki vera eftirbáturr annarra. Viðunandi þótti að vaska 400 þorska á dag, og þegar fram í sótti tókst mér að fá sæmileg daglaun. Best gekk mér að vaska labra, en fyrir hann fengum við 75 aura á hundraðið. Eina vikuna vaskaði ég 3500 stykki á dag til jafnaðar og fékk því yfir 150 kr. en tímakaup var um 41 kr. á viku.

Ein stúka var langafkastamest. Hún hét Einfríður og vaskaði um 1200 fiska á dag. Af þessum sökum maut hún sérstakrar hylli húsbænda sinna. Henni leyfðist sitthvað, sem við hinar hefðum fengið bágt fyrir. Stundum komu synir Thors Jensen í heimsókn. Einn þeirra hafði þann ósið að heilsa aldrei fólkinu. Ólafur Thors kom stöku sinnum, en hann heilsaði alltaf og gaf sig á tal við fólkið - enda stórbrotinn persónuleiki og alþýðlegur í besta máta eins og allir vita. Því var hins vegar ekki að heilsa um þennan bróður hans.

Dag nokkurn kemur hann, klæddur ljósum sumarfötum og spænskir gestir í fylgd með honum. Hann gengur um og sýnir þeim frystihúsið. Það þótti víst hið fullkomnasta í þá dag, þótt aðbúnaður starfsfólks væri fyrir neðan allar hellur. Hann kemur til Einfríðar, stansar fyrir aftan hana og sýnir gestunum, hvað hún er dugleg. Hún heldur áfram vinnu sinni á fullri ferð, eins og hún hafi ekki orðið hans vör. Allt í einu slengir hún gríðarstórri löngu beint í bakið á honum, þar sem hann bograr yfir körfunni. "Hvernig í ósköpunum átti ég að vita, að maður værið þarna - fyrst ekki var heilsað?" sagði Einfríður."

Þetta er frásögn í bókinni Íslenskar konur ævisögur, Helga Marín Níelsdóttir (1903-1986) lýsir hér kjörum sínum í Reykjavík sem ung stúlka um 1920.


Heilbrigðisþjónusta, brjóstapúðar og lífsstíll

Íslendingar og Evrópubúar sem hér hafa verið búsettir í ákveðið marga mánuði eru sjúkratryggðir. Þeir njóta aðhlynningar hjá læknum og sjúkrahúsum ef metið er af heilbrigðistarfólki að þess þurfi. Fólk sem hefur verið á vinnumarkaði og hlotið slys eða örkuml vegna mengunar eða slæmra aðstæðna á vinnustöðum nýtur sjúkratrygginga og fólk sem veiklast af eigin völdum t.d með reykingum og drykkjuskap fær líka þjónustu hjá sjúkrastofnunum.
 
Það er þörf fólks fyrir heilbrigðisþjónustu og mat á því hvaða árangri hún skilar og möguleikar á að veita þjónustu sem ræður því hverjir fá hvaða þjónustu. Það er mér vitanlega ekki rök í íslenskri heilbrigðisþjónustu að veikum manni sé vísað frá vegna þess að hann hafi sjálfur með breytni sinni stuðlað að veikindum sínum eða með því að vera í þannig vinnu að hann var útsettur fyrir einhvers konar geislun eða eitrun. Fólk sem er limlest  í ryskingum á veitingastöðum og fólk sem er nauðgað á klósettum á veitingahúsum fær aðstoð í heilbrigðiskerfi, því er ekki sagt að það verði bara að snúa sér til veitingasalans, hann hafi verið að selja því þjónustu og beri ábyrgð á því sem fer fram á sínum stað. Ef fjöldi fólks yrði fyrir matareitrun af því það hefði keypt mat einhvers staðar þá ætti það fólk líka rétt á heilbrigðisþjónustu og bráðaþjónustu ef ástand væri talið hættulegt heilsu þess. 

Sjúkratryggingar hafa hins vegar ekki greitt ónauðsynlegar fegrunaraðgerðir. Núna nýlega kom upp að stór hópur kvenna hefur fengið ígrædda brjóstapúða og kom í ljós að framleiðandi silikonfyllinga hafði notað í þær annað efni en var  gæðavottað og þessar fyllingar bæði falsaðar og gallaðar. Hvað sem okkur kann að finnast um þann lífsstíl og tísku að bæta silikoni í brjóst þá er ljóst að hópur kvenna er hugsanlega í bráðri hættu á að bíða heilsutjón vegna gallaðra fyllinga. 

Stjórnvöld hafa brugðist við og bjóða þessum hópi skimun og ef útkoma úr þeirri skimun sýnir lekar fyllingar þá verði þær fjarlægðar á kostnað íslenska ríkisins. Það er ekkert óeðlilegt við það, ekki nema að ekki sé gengið lengra, það væri öryggisatriði að bjóða öllum þeim konum sem hér eru sjúkratryggðar upp á að þessi hugsanlega gölluðu aðskotaefni í líkama þeirra verði fjarlægð - alveg án tillits til hvort skimun sýnir leka eða ekki.

En það sorglegt að lesa núna t.d. hjá bloggurum rætna, niðurlægjandi  og hálfklæmna umræðu um bráðan heilsuvanda þessa hóps og er ekki að sjá annað en sumir sem tjá sig telji að þær konur  sem létu setja í sig brjóstapúða hafi með því  sjálfkrafa gengið í björg og út úr íslensku velferðarkerfi og eigi engan rétt á að fá aðhlynningu í kerfinu.

Bloggpistlar Jóns Magnússonar og Lýðs Árnasonar stuða mjög mikið. Báðir eru þeir ákafamenn um íslensk stjórnmál og ýmis samfélagsmál og þungaviktarmenn í opinberri umræðu. Þess vegna skil ég ekki orðræðu þeirra, af hverju kallar læknirinn Lýður hóp kvenna sem hugsanlega býr við heilsuvanda "túttustelpur" og brjóst þeirra "túttur"? Lýður segist vona að heilbrigðisráðherra forði ríkiskassanum frá þeirri vitleysu að borga í þessum aðgerðum. Af hverju segir Lýður þetta? Hvað er að því að ríkissjóður borgi læknisaðgerð sem felur í sér að fjarlægja hættulega mengandi aðskotahluti úr líkama fólks? 
Og hvers vegna sér Jón Magnússon aðkallandi heilsuvandamál sem enginn veit hversu stór er sem pjattskap og segir: "Hvað svo með  þær sem  hafa flata eða feita rassinn, kartöflunefið, appelsínuhúð og litlu brjóstin. Fyrst velferðarráðherra telur eðlilegt að borga kostnað vegna gallaðra lýta- og fegrunaraðgerða eiga þá þær sem ákveða að þola útlit sitt ekkert að fá? ... og telur Jón fráleitt að bæta konunum neitt sem þær eiga ekki rétt á samkvæmt lögum frá seljendum vegna gallaðrar vöru eða þjónustu. Jón telur að hér sé sjúkratryggingakerfið að  borga fyrir mistök markaðarins á gallaðri söluvöru.  
 
Ég spyr þá Lýð og Jón hvort  þeir noti sama kvarða á  þetta bráða eitrunarmál stórs hóps fólks eins og á önnur eitrunarmál eða heilsumál sem koma út af lífsstíl. Á að taka súrefniskúta frá lungnasjúklingum og neita þeim um krabbameinsmeðferð af því þeir ullu veikindum sínum með sínum lífsstíl og segja þeim bara að láta reykingafyrirtækið borga? Af hverju er rætt um eina gerð heilsufarsvanda á þennan hátt, er það vegna þess að þetta er vandi kvenna sem voru með breytni sinni að þóknast tísku í samfélagi þar sem karlar ráða og þar sem konur eru til sýnis, kvengerðar sem undirgefin valdatákn og eins konar styttur, svo miklar styttur að í líkama þeirra er sprautað aðskotaefni sem þenur út ákveðna táknræna staði sem merkja hvað er kona og hvað er karl.

Hér eru bloggpistar þeirra Lýðs og Jóns:

http://www.dv.is/blogg/lydur-arnason/2012/1/10/tuttur/
Lýður Árnason 10. janúar 2011:

TÚTTUR.
Fegrunaraðgerðir eru mjög í tízku og fátt sem ekki má bæta.  Stórar túttur virðast eftirsóttari en smærri og varir sumra ungmeyja líkjast orðið sogskálum eða drullusokkum.  Læknar svara þessari eftirspurn og haldi fólk að einhver láti sér segjast er það sjaldnast svo:  Flestir vilja sitt og neiti einn er farið annað.  Útlits- og æzkudýrkun samfélagsins er gegndarlaus og ræður gildismati allt of margra.  Bezta ráðið er að sætta sig við Skaparann og fara reglulega í bað, það tryggir nógsamlega vellíðan.   Útlit er nefnilega líkt gölluðu kvoðupokunum, endist stutt og leiðir til málaferla við guð.  Vona auðvitað að allar túttustelpurnar fái bót sinna brjóstverkja og hafi vit á að hafna annarri áfyllingu.  Sömuleiðis vona ég að heilbrigðisráðherra forði ríkiskassanum frá þessari vitleysu því borgi hann brúsann má búast við holskeflu lítilla typpa.

http://jonmagnusson.blog.is/blog/jonmagnusson/entry/1215933/
Jón Magnússon 8. jan. 2012:
 
Gutti borgar biluð brjóst
Gutti velferðarráðherra lofar að borga konum sem hafa leka bjóstastækkunarpúða kostnað við lagfæringar á þeim.
Yfirlýsingin um greiðslur vegna gallaðra fegrunar- og lýtaaðgerða vekur upp ýmsar spurningar.
Hvað með mistök vegna rass- og magalagfæringar eða tatóveringa.
 
Hvað svo með  þær sem  hafa flata eða feita rassinn, kartöflunefið, appelsínuhúð og litlu brjóstin. Fyrst velferðarráðherra telur eðlilegt að borga kostnað vegna gallaðra lýta- og fegrunaraðgerða eiga þá þær sem ákveða að þola útlit sitt ekkert að fá?

Er ekki rétt að  Ríkið taki þá ábyrgð á öllum mistökum á markaðnum og bæti neytendum allar gallaðar vörur hverju nafni sem nefnast.

Hvar er þá ábyrgð neytandans við val á vöru og þjónustu?  Hver er þá ábyrgð seljenda?

Með greiðslum eins og þeim sem velferðarráðherra lofar, þá er hann ekki að bæta konunum neitt sem þær eiga ekki rétt á samkvæmt lögum frá seljendum vegna gallaðrar vöru eða þjónustu.  Velferðarráðherra ætlar í raun að borga fyrir mistök markaðarins á gallaðri söluvöru.

Þá verður líka allt í lagi að fá sér ódýrustu þjónustuna því Ríkið borgar ef eitthvað verður að.

Þegar ríkissjóður tekur 20 krónur af hverjum hundrað sem það eyðir að láni frá framtíðinni er þá ekkir rétt að skoða hvar setja á mörkin á greiðsluþáttöku ríkisins. Eiga brjóstastækkanir að vera þar í forgangsröð?

Aðrir skrifa af miklu meira innsæi og visku um þetta mál og vil ég þar sérstaklega nefna pistil læknisins Vilhjálms Ara Arasonar

http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2012/01/09/oasaettanleg-ahaetta-fyrir-flestar-konur/
Óásættanleg áhætta fyrir flestar konur
9. janúar 2011

og pistil Álfheiðar Ingadóttur 
http://blogg.smugan.is/alfheidur/2012/01/10/pip-hneysklid-a-islandi/
PIP-hneysklið á Íslandi

Ég hef ekki skoðun á hvort einhver yfirlæknir á að víkja, ég þekki það mál ekki nógu vel en það sem ég hef lesið og heyrt um þessar leku fyllingar bendir til þess að það sé eina skynsamlega að bjóða öllum sem fengu þessa gölluðu púða í líkama sinn upp á að þeir séu fjarlægðir, ekki miða eingöngu við þar sem sést að þeir leka. 

Þóra Kristín  skrifar ágæta grein á Smuguna, PIP-hneysklið á Íslandi http://blogg.smugan.is/alfheidur/2012/01/10/pip-hneysklid-a-islandi/

Eftirfarandi  finnst mér hins vegar afar einkennilegt hjá Þóru Kristínu:
"Umræðan snýst á öðrum þræði um hvort ríkið eigi ekki að bjóða konum uppá að láta fjarlægja slíka púða sér að kostnaðarlausu. Samt er aðgerðin ákveðin og framkvæmd af lækni á einkastofu og í flestum tilfellum greitt fyrir hana alfarið án aðkomu ríkisins."

Ég get ekki lesið þessi orð öðruvísi en Þóra Kristín telji það  rök eða álitamál fyrir að þessi hópur kvenna fái EKKI lögbundna sjúkraþjónustu á Íslandi að þær hafi greitt sjálfar fyrir gallaða vöru sem olli þeim heilsutjóni. Það felst í þessum orðum sú sýn að það skipti máli hvernig heilsuvanda þessa hóps bar að og hver borgaði fyrir að hann yrði hvernig þjónustu þessi hópur  eigi að fá hjá íslenska velferðarkerfinu.

mbl.is 440 konur með PIP-sílikonpúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppreisn í fiskiþorpinu Wukan í Kína

Sagan af því hvernig almenningar eru gerðir að einkaeign í kommúnistaríki

Hér á Íslandi taka margir  ráðamenn  fagnandi  hugmyndum  um uppkaup kínversks fjárfestingafélags á gríðarlegu landsvæði á Grímsstöðum á Fjöllum  og hefur forseti Íslands, forsætisráðherra, efnahagsráðherra, utanríkisráðherra og margir aðrir talað fyrir slíkum landauppkaupum og þá borið fyrir sig röksemdir eins og velvild til Kína, væntingar um ýmis konar viðskiptasambönd við  Kína  og svo að fyrirætlanir kínverska  fjárfestingafélagsins sé að byggja þarna golfvelli og lúxushótel, hér séu atvinnutækifæri í ferðaþjónustu.  Það er ekki landnauð á Íslandi og mörgum finnst golfvellir og lúxushótel  vera eftirsóknarverð fyrirtæki á strjálbýlum svæðum Íslands.  En mörgum, þar á meðal mér  finnst þessar hugmyndir grunsamlegar og einkennilegar og virka liður í einhverju öðru, liður í langtímaáætlun  vaxandi stórveldis að koma sér fyrir á nýjum slóðum.

Það er áhugavert að bera innrás kínverskra fjárfestingafélaga á Íslandi við uppkaup lands og fasteigna við hvað er að gerast á sama tíma í Kína í fiskimannasamfélögum þar og skoða hvað er líkt og hvort fólki þar tekst betur upp á Íslandi að hrinda af sér innrásum.   Það er miðstýrð stjórnsýsla í Kína og gagnrýni á stjórnvöld er ekki liðin en það er þannig að flestar óeirðir og uppþot og andspyrna sem þar er er einmitt vegna þess að land er tekið undir golfvelli og hótel og hús. 

wukan2

 Land í Kína er ekki í einkaeigu heldur umsjón þorpa eða samfélaga en þessi upptaka á landi er eins konar einkavæðing á almenningum/almenningseign en þeim sem áður nytjuðu landið og höfðu lífsafkomu sína af því eru borgaðar smánarbætur eða engar bætur.

"Illegal land seizures—often for golf courses, luxury villas and hotels—are seen by many Chinese and foreign experts as the single biggest threat to the Communist Party as it struggles to maintain legitimacy in a society that is becoming increasingly demanding and well-informed, thanks in large measure to the Internet, even as income disparities widen.

Such land disputes account for 65% of "mass incidents"—the government's euphemism for large protests—in rural areas, according to Yu Jianrong, a professor and expert on rural issues at the state-run Chinese Academy of Social Sciences. "

 

wutan1

Það sýður oft upp einmitt út af því að fólk er rekið burtu. Í fiskiþorpinu Wukan í Suður-Kína búa álíka margir og á Akureyri . Þar er núna uppreisn. Það stóð til að taka allt land sem tilheyrir þorpinu Wukan og leggja undir fasteignaverkefni á vegum  svínabúsins Lufeng Fengtian Livestock Products og   Country Garden sem   er eitt af stærstu fasteignafyrirtækjum í Kína og er staðsett í Guangdong og skráð í   Hong Kong. Það er í eigu fjölskyldu athafnamannsins Yang Guoqiang en dóttir hans  Yang Huiyuan var 11. ríkasti maður Kína árið 2011 skv. Forbes. Var ekki Íslandsvinurinn Nubo líka á þeim lista? 

Þorpsbúar eru mjög reiðir, telja að farið hafi verið bak við sig og land þeirra selt og þar brutust út mótmæli og uppreisn. Foringi uppreisnarmanna var handtekinn og  drepinn af lögreglu (sem reyndar heldur því fram að hann hafi dáið úr hjartaáfalli en fáir trúa því). Þorpsbúar hafa reist götuvirki og hrakið lögreglu og staðaryfirvöld á brott og leita nú ásjár hjá stjórnvöldum í Peking. Lögregla  hefur einangrað Wukan, stöðvað þar alla vistaflutninga á mat og vatni og fiskimenn geta ekki róið til sjávar. Fjölmiðlafólk fær ekki að komast þarna um. Stjórnvöld hafa lokað á allar nettengingar og fréttir fráWukan. Fréttir þaðan berast aðeins um Kína í gengum míkroblogg, svipað kerfi og Twitter. Svo virðist sem margir innan Kína hafi samúð með og styðji málstað þorpsbúa.

Í borginni Lufeng sem er nálægt Wukan taka margir undir málstað þorpsbúa því þar hefur land líka verið tekið af fólki sem lifir á landbúnaði og það þvingað til að samþykkja það og borgaðar smánarbætur. Hér er ein smásaga af því:

"The Cai family, for example, lived in a two-room stone house a few miles outside Lufeng for four generations, and earned a living from farming 3.3 hecatres of land.Last year, according to family members, property developers backed by the local government forced them to sell the land in exchange for roughly 1,000 yuan ($157) for each of their roughly six family members Cai family members said they resisted at first, but relented after a string of violent threats from the developer. Across the street from their home today, two or three dozen large pink houses with tiled roofs are under construction, surrounded by lush gardens and palm trees. Statues of copper horses stand outside the new complex's gates.The Cai family and others in Lufeng said they supported Wukan residents, but didn't believe they would be able to hold out for long against the town's heavily armed security forces. They have guns," said the Cai family's matriarch, pumping her fists as she spoke. "We have nothing."

Nú standa yfir viðræður milli stjórnvalda í Guangdong og uppreisnarmanna í Wukan. Þetta er talið alvarlegast uppþot og óeirðir í Kína í ár. Þorpið er einangrar, uppreisnarmenn hafa reist götuvirki og stjórnvöld einangra þorpið. Óeirðirnar breiðast út, þær hafa blossað upp  í þorpinu Haimen út af mengun af kolakyntu iðjuveri.  Þar tóku um 20 þúsund þátt í óeirðum í gær. Guangdong er eitt mikilvægasta útflutnings- og iðnaðarsvæði Kína.

Heimildir eru þessar greinar í Wall Street Journal
og twitter http://twitter.com/#!/bspegele

 

Myndir:
Villagers hold placards chanting slogans as they march around their village during a protest in Wukan village, in China's Guangdong province on Thursday. http://www.msnbc.msn.com/id/45706482

 

Svo virðist sem núna sé víða mikil ólga og tekist sé á um þessa gerð af hina kommúníski nýfrjálshyggju  með tilheyrandi samþjöppun auðs til fárra  (Guangdong model) og  annars konar nálgun, samfélagsendurbæta t.d.   Chongqing model

 

Inside Wukan: the Chinese village that fought back

http://www.telegraph.co.uk/news/worldnews/asia/china/8954315/Inside-Wukan-the-Chinese-village-that-fought-back.html 

Núna hafa þorpsbúar í Wukan samið við yfirvöld.  Hér er frétt frá CNN 21. des:


Sagan af Ásgeiri iðnnema árin 1668 til 1673

Snedker_i_arbejde2
Hér er frásögn af iðnnámi íslensks pilts á sautjándu öld, hann hét Ásgeir Sigurðsson og var 18 ára þegar hann sigldi út til Kaupmannahafnar árið 1668 og var þar í snikkaranámi en svo kallaðist trésmíði og því námi lauk hann 1673. Grípum niður í sögunni þegar Ásgeir er kominn til Kaupmannahafnar og hefur námið:

Þann 2. Januarii  fékk ég húsbóndaskipti. Kom ég þá til að læra snikkarahandverk, fyrir tilhlutan þessa kaupmanns, eptir  minni bón, því eg hafði lyst þar til. Þessi snikkari  hét Hans Hildebrand, en konan Margreta Byonings. Voru þá lesnar fyrir mér lífsreglur, hversu ég skyldi  halda mig á mínum læriárum, sem var  fyrst: 

ég skyldi læra í hálft fjórða ár, og gefa þar til 20 dali  slétta; ég skyldi gera allt það, sem minn húsbóndi,  eða mín matmóðir, befalaði mér; ég skyldi enga nótt vera út af þeirra húsi, annars skyldi sá tími engu reiknaöur vera, sem ég hefði þangað til  verið; ég skyldi ekki mega ganga út af húsinu, hvorki um sunnudaga né rúmhelga utan leyfis; ég skyldi ekkert kaup fá í það hálft fjórða ár, eður klæði, utan matinn alleina; ég skyldi ekki ganga í sæng fyr en mér væri skipað, en skyldi fara á fætur, þá klukkan væri  4 (2 stundum fyrir miðjan morgun), með þeim öðrum fleirum póstum, sem varla nenni skrifa. Þetta  mundu þykja hörð lög í voru landi við vinnufólk  sitt. 

Fotothek_df_tg_0008490_Ständebuch_^_Stand_^_Handwerk_^_Beruf_^_Zimmermann2
Þessum skilmálum varð eg öllum að játa, og  þar til lofaði Ísak Klomann að standa til rétta, ef ég hlypist um, sem hans handskript útvísar, og hjá mér liggur. Síðan tók mitt ánauðarok að vaxa dag frá degi. Ég hugsaði þá opt til foreldra minna, þó mig lítið stoðaði.  Eg fékk þá högg og slög upp á hvern dag, stundum af mínum tilverknaði, en stundum fyrir litla eður enga sök. Mat og drykk þóttist ég ekki hafa meir, en ég þurfti, en erfiði og ill orð nóg, lét þó ei mikið á mér festa, því eg þenkti að hefna, þá eg hefði útlært, en stór raun var mér að því, að ég mátti ekki slá, þegar ég var sleginn, og gerði eg það meir fyrir ísaks Klomanns orð og hans konu, en mitt stöðuglyndi, því þau báðu mig að é skyldi líða það með þolinmæði; þar með sendi mér  sú ehrugöfuga kvinna mat á laun, og lét segja mér, að ég skyldi koma til sín, þá eg kæmist út, hvað ég forsómaÖi. 

Anno 1670 varð ég hættulega krankur af köldu, svo að eg hélt mig deyja, hvar af ég gladdist, því  þá hefðu mínar eymdarstundir enda fengið, en drottinn vildi ei hafa það svo.Ég fraus aðra stundina, svo ég skalf upp og niður, þó ég sæti kringum kakalóninn, en aðra stundina svitnaði  ég; þó eg gengi út á strætinu á einni skyrtunni, þá rann vatn ofan eptir andlitinu. Ó, hvað undarlegur krankleiki er þetta!  Það veit gerst sá reynir. Þennan banvæna krankleika hafði ég heilar 14 vikur. En hvað eg hlaut að líða  á þeim tíma, er guði kunnugast, því þá eg lagði mig  fyrir, var eg sleginn á fætur aptur. Ég átti enga vini  eða náunga, sem ég kunni að klaga mína neyð fyrir. Það fleira, sem ég leið á þeim læriárum, sem ég var hjá þeim ómilda þjón, nenni eg ekki um að  skrifa, en það hans konu áhrærir, þá var hún í öllu því, hún gat, mér á móti, í tillögum og áeggingum, því ég vildi ei vel  parere (hlýðnast)  henni, þá hann var ei við.
 
Fotothek_df_tg_0008599_Ständebuch_^_Beruf_^_Handwerk_^_Tischler2
Anno 1671 þann 1. Martii lagðist þessi minn lærimeistari krankur, hvar við ég gladdi mig, að hann mundi deyja. Skipaði hann mér þá að smíða sæng fyrir einn herramann, og skyldi ég saga stólpana með þeim öðrum dreng, sem mér var samtíða hjá honum og hét Pé tur, hvað við og gerðum, og þá við vorum að saga, duttum við ofan af hefilbekknum  og brotnaði í sundur sængin. Þetta þrusk heyrði hann, þangað sem hann lá. Var eg þá kallaður fyrir hann.  Spurði hann mig þá að, hvað að gengi, en ég sagði, sængin hefði brotnað sundur. Hann sór þá, að nær sem hann kæmist á fætur aptur, skyldi hann brjóta  svo í okkur beinin, sem við hefðum brotið sængina. 

Eptir það báðum við af hjarta, að guð léti hann  ekki komast á fætur, hvað og skeði, að hann dó þann  5. Martii. Hafði ég þá verið hjá honum hálft þriðja ár, en átti eptir eitt. Var ég þá svo sem sloppinn úr fjötrum, því ég hafði þá ekki neitt að óttast.  Hún varð þá að líða og umbera, hvort ég erfiðaði henni eða mér, og launaði ég henni þá aptur það, sem hún hafði mér áður gert. Sex vikum síðar giptist hún aptur öðrum snikkara, sem hét Hans Jörgen Bakar, háþýzkur, ættaður úr Scopinlandi. Hann var mér góður meistari. Hann gaf mér mitt læribréf.

Fotothek_df_tg_0008600_Ständebuch_^_Handwerk_^_Beruf_^_Zimmerei_^_Zimmerer_^_Tischler2
Anno 1672 fékk eg bréf frá íslandi, frá móður minni, að faðir minn væri afgenginn (dáinn), hvað mér var lítil gleði að heyra. Þenkti ég þá að koma aldrei  til íslands meir. Anno 1673 var ég skrifaður laus úr mínum læriárum, og meðtók ég mitt læribréf. Anno 1673, þann 13. Apr (ilis) sór ég mig í stallbræðralag við einn danskan snikkarasvein, sem hét Matthías. Tókum okkur svo far hjá einum skipherra að Dantzig í Polen (Danzig var fríríki í tengslum við Pólland) Þessi skipherra hét Hans Fox, danskur að ætt og bjó í Kaupmannahöfn. 

1673 þann 28. Apr. gengum vér til segls frá  Kaupmannahöfn, höfðum þaðan góðan vind og komum 30. Apr. til Dantzig. Þar fékk eg meistara, sem hét Jacob Ef f e r t. Hjá honum var ég 3 vikur, og féll slétt á með okkur, því að ég flaugst á við hann, þá ég skyldi hafa haft mína peninga, og fékk þá svo með harðri hendi. Síðar fékk ég annan meistara, sem hét Pétur Kleinsorg. Hjá honum var eg 6 vikur og féll mér vel. Síðan kunni minn stallbróðir ekki að forlikast við sinn meistara. Reistum við svo báðir í burt og upp í Polen til eins staðar, sem heitir Stolps 7 mílur frá Dantzig. Þaðan reistum við að höfuðstaðnum í Polen, þar sem kóngurinn er sjálfur. Þar var ég í einu brullaupi, sem mér bar margt fáséð fyrir augu, bæði háttalag og hegðan fólksins. í þessum stað sá eg fyrst, að sagirnar söuðu sjálfar svo þykkt og þunnt, sem maður vildi hafa. Þar vorum við í 3 vikur, en höfðum þó engan húsbónda.
 
Landauer_I_142_r-klippt
 Heimild:

Ferðasaga  Asgeirs snikkara Sigurðssonar  frá 17. öld. Blanda, 15-18. Hefti (01.01.1932) http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000504803
 
Myndir eru úr Wikipedia Commons, myndir af snikkurum á sama tíma og Ásgeir var í snikkaranáminu. 

Íshúsaísak. Var hann ekki erlendur fjárfestir?

Hvernig berst verkþekking milli landa? Eru það kínversk ljóðskáld með fullar hendur fjár og kínversk fjárfestingafélag sem hér vilja kaupa upp land sem eru vonarljós Íslendinga eftir Hrunið? Þurfum við erlenda fjárfestingu vegna að með henn berist verkþekking og verðmætasköpun inn í íslenskt samfélag? Ráðherrann Árni Páll og margir aðrir íslenskir ráðamenn endurtaka í sífellu að við þurfum erlenda fjárfestingu, með henni komi áhættulaus uppbygging vegna þess að fjárfestir hætti eigið fé, þetta sé miklu sniðugra en fá fé að láni - og með henni komi verkþekking.  

Í  helsta þjóðmálaþætti landsins, í Silfri Egils síðasta laugardag talaði Árni Páll efnahagsráðherra af sannfæringakrafti um uppbyggingu fiskveiða Íslendinga fyrir meira en öld og nefndi það sem dæmi um hve vel erlendir fjárfestar reyndust okkur. Við hvað á Árni Páll? Hvaða Íslandssögu er hann að segja? Hverjir voru  þessir erlendu fjárfestar sem reyndust svona undravel?

Varla getur hann verið að tala um mesta arðræninga Íslandssögunnar  sem  alveg til ársins 2008 sem var hvalfangarinn á Sólbakka í Önundarfirði sem framdi arðránið árin 1889-1901. Fjármálastarfsemi var stór og mannfrek atvinnugrein á Íslandi fyrir Hrun og veittu mörgum atvinnu en árin sem hvalveiðistöðin starfaði þá var hún stærsta atvinnufyrirtæki á Íslandi, þar störfuðu 200 manns. Það voru margir í vinnu hjá Ellefsen og arðræninginn á Sólbakka framdi arðrán sitt í velvild íslenskra ráðamanna og Hannes Hafstein var vinur hvalfangaranna og lét þá skutlast með sig á milli fjarða á hvalbátunum alveg eins og forseti lýðveldisins Íslands fékk skutl í einkaþotum útrásarvíkinga sínum utanlandsferðum sem íslenskur þjóðhöfðingi  og var ásamt forsætisráðherra og fleiri ráðamönnum íslenskum iðinn fyrir Hrun að hvítþvo og blessa íslenska fjárglæfra og (hugsanlega) erlenda  glæpastarfsemi.

Ég veit ekki hvaða verkþekking fluttist til Íslands með arðráninu á Sólbakka, eflaust hafa margir orðið sérfræðingar í hvalskurði en hvaða gildi  hafði það fyrir íslenskt atvinnulíf  þegar búið var að ryksuga upp hvali á stóru svæði við Íslandsstrendur? Ég kann hvalfangaranum og erlenda fjárfestinum  Hans Ellefsen engar þakkir fyrir athafnalíf sitt og óafturkallanleg hervirki á íslenskri náttúru.

Áfram  um hvernig verkþekking berst til landsins. Með erlendum lánum frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum var fjármögnuð lokasmíði á hrunhúsinu Hörpu svo það starði ekki á okkur gluggalaust eins og augnstungið skrímsli í hjarta borgarinnar, heldur lýsti upp framtíð okkar.   Ríki og borg dældu fé, dældu lánsfé í að byggja hina íslensku versali og til verksins flaug mikill hópur sérfræðinga frá Kína því hérlendis var ekki til kunnátta til svona vandaverka.

Hvaða gagn höfum við af verkþekkingu hinna innfluttu kínverskra glersmiða og gleruppsetningafólks sem smíðaði forláta glugga og setti upp í  einkennishúsi íslenska efnahagshrunsins og reyndar efnahagshruni alls heimsins, Hörpunni? Vissulega eru þessir gluggar fagrir og mikið glerlistaverk og út um þá núna í vetrarskammdegi Íslands  ljóma dauft ljós sem samt lýsa ekki neitt upp í umhverfinu.  Og glersmiðirnir eru horfnir á braut og engin ummerki um þá nema járnið í umgjörð fagurra glugga, járnið rauða  sem er byrjað að ryðga og ryðtaumar sem  ég veit ekki hvort eru - hús sem er gráta eða hús sem er að blæða.   Ég held ekki að nein verkþekking hafi borist með þeim flokkum sem þar störfuðu og þó hún hefði verið einhver þá hefði hún ekki nýst okkur vel við þau viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir núna á Íslandi.

Er líklegt að fleiri skrauthýsi eins og Harpa verði byggð í bráð á Íslandi? Og þó við ættum allan heimsins auð, myndum við vilja fleiri svona hús? Þurfum við fleiri svona hús?

 En áfram með söguna um hvernig verkþekking  barst  til Íslands á þeim tíma fyrir einni öld sem Árni Páll dásamar sem tíma erlendra fjárfesta sem byggt hafi  upp fiskveiðar og fiskvinnslu á Íslandi.  Vissulega er það svo að sá sem hefur reynt eitthvað og séð eitthvað sem er leyst á betri hátt hefur möguleika á að segja hverju á að breyta og hvers vegna og hvernig. Það er það sem gerist í verkmenntun og það er það sem gerist þegar fólk sér hvernig aðrir leysa hlutina. Á þeim tímum þegar fólk hafði litla sem enga möguleika til að ferðast og litla sem enga möguleika til að fræðast nema um það sem var í nærumhverfi þeirra þá var eina skynsamlega leiðin að gera hlutina eins og eldri kynslóð hafði gert og endurbæta smán saman með hugkvæmni og þeim efnivið sem fólk hafði og út af þeirri þörf sem var í umhverfinu. Þannig þróuðust verkfæri og verkaðferðir gegnum aldirnar og pössuðu við umhverfið.  

En sum tækni og vinnulag sem okkur finnst einföld í dag barst ekki milli landa og samfélaga bara vegna þess að fólk vissi ekki af henni.  Einn maður sem ferðast milli menningarheima og samfélaga getur vel flutt með sér verkþekkingu og sú þekking kemur að mestu gagni ef hún passar inn í samfélagið. Það þarf ekki gríðarlega rikan auðjöfur með áform um golfvelli og 5 stjörnu hótel til að flytja verkþekkingu inn í samfélag.  Kannski þarf bara einn Íslending sem hefur flosnað upp hér á Íslandi og flust úr landi, Íslending sem sér að hlutirnir eru gerðir öðruvísi og vegna þess að hann þekkir sitt samfélag þá veit hann hvaða þýðingu það hefur að upplýsa og kenna löndum sínum hvað á að gera. 

Hér er saga um einn slíkan Íslending. Það er Ísak Jónsson. Hann var seinna kallaður ÍshúsaÍsak.  Hann fór til Ameríku 1888 og hann var ekkert ungur þá, hann var 45 ára. En hann var athugull og hann sá nýja verktækni í nýja heiminum, tækni við íshús, verktækni sem hann vissi að myndi breyta miklu á Íslandi. Og hann reyndi eins og hann gat að sannfæra fólkið í gamla landinu, hann skrifaði í heimahagana, hann skrifaði  Tryggva Gunnarssyni sem var forstjóri Gránufélagsins. Engin svör. Tryggvi Gunnarsson verður svo bankastjóri Íslandsbanka. Ísak Jónsson skrifar honum aftur. Engin svör.  

Ísak Jónsson skrifar þá konu  sem hann þekkti í Reykjavík ljósmóður sem hét Þorbjörg Sveinsdóttir og biður hana að tala við Tryggva og spyrja hann hvort hann hafi ekki fengið bréfin. Loksins þá druslast Tryggvi Gunnarsson í málið, biður um að fá tvo menn frá Ameríku til Íslands að byggja íshús. Ísak fer með öðrum manni aftur til Íslands og Tryggvi kemur af Fjöllum, segist ekki hafa átt von á þeim  en er byrjaður að bardúsa eitthvað í  málinu, búinn að ráða fólk í svona smíði og segist ekki geta ráðið nema annan þeirra og þá Ísak vegna þess að þetta sé hans hugmynd. Það er afar einkennilega böksuleg aðkoma Tryggva Gunnarssonar að þessu máli. Spurning hvort aðkoma hans að bankamálum var eins háttað. En í Reykjavík er sérstök gata skírð eftir honum, Tryggvagata og minning hans lifir sem frumkvöðuls í bankaheiminum. 

Ég veit ekki ástæðuna fyrir því að þögn ríkir  í sögubókum og sögugreiningu ráðamanna um víðförult og úrræðagott alþýðufólk sem skapar mikil verðmæti með því að miðla verkmenningu og innleiða nýja tækni  eins og  Ísak Jónsson gerði  á sinni tíð.  Þekkir jafnaðarforinginn og ráðherrann Árni Páll ekki til verka Ísaks Jónssonar? Heldur Árni Páll að  erlendir athafnamenn sem fluttust  til Íslands eins og Otto Wathne hafi komið hingað með alla þá verkmenningu sem byggði upp Seyðisfjörð og galdrað hingað síld í torfur.

Veit Árni Páll ekki af því að Alþingi synjaði Ísaki Jónssyni í tvígang um styrk til að ferðast Ísland og kenna fólki að byggja íshús? Eftir þá synjun fór hann til starfa hjá erfingjum Ottos Wathne og byggði fyrir þá stórt íshús á Akureyri.  Frumkvöðlinum Ísaki Jónssyni er enginn sómi sýndur á Íslandi á sinni tíð og framlag hans er eignað öðrum í atvinnusögu sem skrifuð er um og fyrir þá sem höfðu völd og eignir.  

Það eru þúsundir af frumkvöðlum eins og honum á Íslandi í dag og hluti þeirra hefur flúið Ísland en þekkir samfélagið hérna og þarfir þess og er líka að sjá umheiminn og öðruvísi tækni, öðruvísi verkþekkingu. Ef það fólk flytur aftur til Íslands og inn í samfélagið og athafnalíf  hérna  sína reynslu og sína sýn þá mun það gagnast íslensku samfélagi betur en fimm stjörnuhótel á fjöllum. Í þeim samfélögum þar sem margir nýbúar eru þá flytja þeir með sér menningu og verktækni frá heimahögum og auðga það samfélag sem þeir eru í.  Það er líklegt að innan skamms þá sjáum við að nýir Íslendingar sem hingað hafa komið úr annarri menningu breyta og bæta við þá menningu og verkþekkingu sem hér er fyrir.  Þau hafa þegar gert það en það eru sömu öfl í samfélaginu sem  þegja um og myrkva þeirra framlag eins og þau öfl sem þegja um og myrkva framlag  Ísaks Jónssonar í íslenskri verkþekkingu og gylla fyrir okkur aðstæður sem eru líklegar til að gera þá Íslendinga sem hér búa núna að valdalausum þrælum í eigin landi. Það er sorglegra en tárum taki að jafnaðarmenn  og foringar þeirra eins og núverandi efnahagsráðherra skuli vera talsmenn þeirra  sem kaupa upp völd yfir landi og lífsafkomu manna með pappírsræksnum sem kallast peningar sem hafa ekkert gildi í sjálfu sér nema af því við höldum að þau hafi gildi.  

Við skulum meta framlag manna eins og Ísaks Jónssonar og við skulum líka byggja upp samfélag sem hlúir að verkmenningu sem berst að neðan til og áfram til þeirra sem nú eru langt niðri, beygðir eða liggjandi eftir holskeflu fjármálahruns og hjálpar þeim við að standa á fætur . Við skulum ekki sækjast eftir menningu og samfélagi sem gerir marga að þrælum en fáa og fjarlæga menn ríkari og valdameiri.

 Hér er sagan í heild af Ísaki Jónssyni, honum sem kallaður var ÍshúsaÍsak:

Ísak Jónsson sem var fæddur og uppalinn Austurlandi, en flutti til Ameríku sumarið 1888. Var hann fæddur á Rima í Mjóafirði eystra árið l842. Hann byrjaði sjóróðra 17 ára og starfaði að þeim meira og minna á hverju ári, þangað til hann fór til Ameríku en þá var hann 45 ára. Hann þekkti því vel hvernig beituskorturinn hamlaði gengi fiskveiðanna og þau vandræði, sem það skapaði oft, að geta ekki geymt síld í nokkra daga, ef þess Þurfti með, og standa uppi beitulaus, ef síld fékkst ekki daglega. í bæklingi, sem ísak gaf út á Akureyri 1901 g nefnir Íshús og beitugeymsla, fullyrðir hann að fra Því a vorin að vertíð hófst og þar til á haustin, að hætta varð vegna beituleysis hefi helmingur tímans oft farið til einskis vegna beituskorts. ísak telur, að beituskorturinn hafi verið orsök þess að hann flutti til Ameríku og sömu sögu hafi margir Austfirðingar, er vestur flutt haft að segja.

Þegar Ísak kom til Nýja-íslands, var hagur gamla landsins honum því ofarlega í huga og hvað því mætti helzt að gagni verða af því, er hann sá og kynntist þar vestra. Af þeim tækninýjungum, sem hann kynntist vestra, hefir það greinilega vakið mesta athygli hans, hvernig ísinn var þar notaður til matvælageymslu. Um það segir hann í áður nefndum bæklingi sínum: ,,Þegar ég sá fyrsta íshúsið í West Selkirk og gaddfrosinn hvítfisk, er við þá keyptum út af því í sterkasta júlíhitanum í Canada, þá datt mér strax í hug: Þarna er ráðið til að geyma beituna heima á íslandi.

 

En ísak lét ekki þar við sitja. Hann skrifaði frændum sínum og vinum á Austfjörðum um málið, en fékk engin viðbrögð. Þegar hann var orðinn úrkula vonar um, að Austfirðingar vildu sinna hugmyndum sínum, skrifaði hann Tryggva Gunnarssyni, sem þá var kaupstjóri Gránufélagsins. En ekki fékk hann heldur svar úr þeirri átt og leið nú og beið. Þegar Tryggvi var orðinn bankastjóri Landsbankans, sendi Ísak honum langa og ítarlega skýrslu um málið, en allt fór á sömu leið og áður. Greip hann þá til þess ráðs að skrifa Þorbjörgu Sveinsdóttur, ljósmóður í Reykjavík, en bróðir hennar, Jón Sveinsson frá Elliðavatni, hafði verið félagi ísaks í útgerð fyrir austan og fluttist með honum vestur um haf árið 1888. Bað ísak Þorbjörgu að tala við Tryggva, grennslast eftir því, hvort hann hefði fengið bréf hans og skýra fyrir honum málavöxtu. Hvað Þorbjörgu og Tryggva hefir farið á milli er ókunnugt, en nokkru síðar bað hann Sigurðs skáld Jóhannesson, er var á leið vestur um haf, að útvega sér tvo menn að vestan, til þess að koma upp íshúsi í Reykjavík. Var það bundið fastmælum, að ísak tækist ferð á hendur til íslands og jafnframt réði hann Jóhannes Guðmundsson Nordal. Komu þeir til Seyðisfjarðar í september 1894 og héldu svo þaðan til Reykjavíkur.

Þegar þangað kom, gengu þeir þegar á fund Tryggva, sem tók þeim vel, en sagðist þó alls ekki hafa búizt við, að nokkur kæmi. Greindi hann þeim frá, að búið væri að kaupa efni i húsið og semja um smíði þess við menn í Reykjavík. Hann taldi sér því ekki fært að ráða nema annan þeirra og taldi eðlilegt, að ísak gengi fyrir, þar sem hann hefði fyrstur manna haft orð á þessu. Það varð þó úr, að Jóhannes varð kyrr í Reykjavík, en ísak fór austur til frænda sinna og vina á Austfjörðum, til að vinna að íshúsbyggingum þar.

Meðan þeir ísak og Jóhannes voru á leið til landsins, var haldinn fundur í verzlunarmannafélaginu í Reykjavík, og flutti Tryggvi Gunnarsson þar erindi um nauðsyn þess að koma upp klakageymsluhúsi í höfuðstaðnum, sem væri svo stórt og fullkomið, að það gæti séð gufuskipum, er flytja vildu ísvarinn fisk milli landa, fyrir is og jafnframt geymt kjöt og beitu.

ísfélagið við Faxaflóa var stofnað 5. nóv. 1894, og var Tryggvi Gunnarsson kosinn fyrsti formaður þess. Þegar stofnfundurinn var haldinn, var íshúsið næstum því fullbúið, en það tók til starfa fyrri hluta árs 1895, og var fyrsta síldin úr húsinu afgreidd um mánaðamótin maí og júní.

Það kom fljótt í ljós, að íshúsið hafði mikla þýðingu fyrir útveginn í höfuðstaðnum, auk þess sem það geymdi og seldi margvísleg matvæli. Stjórnaði Jóhannes Nordal því lengst af í þau 40 ár, sem það var í eigu ísfélagsins. Það komst síðar í eigu starfsmanna þess, en var jafnað við jörðu árið 1945.

Eins og áður er sagt, hélt ísak Jónsson austur í átthagana eftir stutta dvöl í Reykjavík. Fór hann vestur og norður um land og kynnti hugmyndir sínar á Sauðárkróki og Akureyri, "en enginn vildi neitt um það heyra.Þegar hann kom austur var honum vel tekið, og höfðu margir áhuga á hugmyndum hans. Héldu nokkrir útvegsbændur á Seyðisfirði fund með sér að Dvergasteini, og var þar ákveðið að koma upp íshúsi á Brimnesi. Þegar eftir fundinn var byrjað að gera tjörn á Brimnesi með ístöku fyrir augum.

Meðan Ísak var í suðurferðinni létu föðurbræður hans, Konráð kaupmaður og Vilhjálmur hreppstjóri Hjálmarssynir á Brekku í Mjóafirði gera tóft þar sem þeir hugðu að veita vatni og taka síðan ís.

Snemma næsta vor byrjuðu þeir að reisa íshús, og var því lokið 16. maí. Var það fyrsta íshúsið, er tók til starfa austanlands. Nokkru síðar var fulllokið við húsið á Brimnesi. Um miðjan júlí kom svo síld inn á Reyðarfjörð, og var hún flutt til frystingar í íshúsunum á Mjóafirði og Seyðisfirði.

íshúsmálin og Austri. Fyrsti maðurinn, sem ísak Jónsson hafði tal þegar hann kom til Seyðisfjarðar, var Skapti Jósepsson, ritstjóri Austra. Hann gerðist strax ötull talsmaður íshúsmálsins og kynnti það í blaði sínu.

í Austra 19. nóvember 1894 er skemmtileg og fróðleg lýsing á því, hvernig þessi íshús voru byggð og hvernig kuldinn var framleiddur. Lýsing Austa er þannig:

Lesendum Austra mun þykja gaman og fróðleikur leikur í að fá, þótt ekki sé nema litla hugmynd um, hvernig ís er notaður á sumrum eða í hitu til þess að geyma fisk og kjöt óskemmt. Skal því farið hér um það fáum orðum, mest eftir frásögn Ísaks sjálfs.

í Vesturheimi eru byggð til þess 2 hús, íshús og frosthús, hvort hjá öðru. í íshúsið er ísnum safnað og hann þar geymdur. ER til þessa hafður vatnaís, og er hann sagaður af ám eða vötnum í hæfilega stórum stykkjum, ferhyrndum og honum að því búnu hlaðið upp í húsinu sem rúmlegast. Til þess að varna því að ísinn bráðni að miklum mun i sumarhitunum þarf að vera utan með honum í húsinu og ofan á honum hey, hálmur eða eitthvað þesskonar. íshúsið er óvandað og kostar ekki mikið.

Aðakostnaðurinn við slíkt fyrirtæki sem þetta er frosthúsið. Vesturheimsmenn byggja það á sléttu, sem hvert annað timburhús; er höfð tvöföld grind i veggjunum og veggurinn um 10—12 þumlungar á þykkt. Gólf og lopt. e fyllt með sagi. Er tilgangurinn með þessu sá, að húsið verði þétt eða súglaust, og heita loptið úti fyrir geti verkað sem minnst á loptið inni í húsinu, þar sem geyma á fiskinn eða kjötið. Frosthúsið er eptir stærðinni þiljað sundur í fleiri eða færri klefa, og verður það, er skilur klefana, að vera tvöfalt, með sagi milli þiljanna. Innan á veggjunum í hverjum klefa eru negldir járnþykkukassar, litlu þykkri að ofan en neðan, eða 4 þumlungar, opnir að ofan og ná upp úr loptinu. Neðan á kössunum eru smáop og rennur undir, er ganga út úr kössunum, taka þær við vatninu sem rennur úr kössunum, en hátt er vatnið haft í rennunum, því af því leggur og kulda. Engir gluggar eru á húsinu; er haft ljós, er um er gengið, og frá dyrunum þarf að ganga mjög vandlega, hurð að falla sem bezt í stafi og vera tvöföld.

Allir sem þekkja nokkuð til efnafræði, vita, að þegar salti er blandað til þriðjunga saman við snjó eða mulinn ís, og þetta hvorttveggja rennur saman, framleiðist 18 stiga kuldi, miðað 1 Selsíus hitamæli. Þetta náttúrulögmál er nú notað hér.

Vilji menn leiða fram frost í frosthúsinu, er tekinn ís úr húsinu, hann mulinn, og kassarnir fylltir með honum eptir að nokkru af salti hefir blandað saman við, og er saltmagnið látið fara eptir því, hve mikið frost á að leiða fram, því minna salt Því minna frost. það sem á að láta frjósa og geyma óskemmt, er nú látið inn í klefann og er því jafnaðarlega hlaðið saman á gólfinu eða látið á hyllur. Eptir því sem lækkar í kössunum, er bætt við is- og saltblending í þá ofan uppi á loptinu yfir klefanum, en það sem þiðnað hefir, rennur burtur eptir rennunum.

Reglulegar gullkistur fyrir útvegsbændur og fiskimenn

Bygging þessara húsa ræður aldahvörfum í sögunni um vinnslu sjávarafurða. Um haustið 1895 skrifaði Axel V Tulinius, sýslumaður á Eskifirði skýrslu sem birtist í ísafold um íshússtarfsemina eystra og fer þar svofelldum orðum um íshúsbyggingarnar: "Það eru ekki færri en 8 íshús og frystihús, ýmist upp komin eða í smíðum á Austfjörðum frá því í fyrrahaust, — allt fyrir forgöngu og eptir fyrirsögn Isaks Jónssonar, er þangað kom í fyrra frá Ameríku.(Winnipeg).

Fyrsta húsið var byggt í fyrra vestur á Mjóafirði, og annað í vor á Brimnesi við Seyðisfjörð; þá hið þriðja og fjórða í haust sömuleiðis við Seyðisfjörð; há Wathne á Búðareyri og hitt á Þórarinsstaðaeyrum ennfremur eitt (hið 5.) á Vopnafirði, eitt (hið 6.) á Norðfirði og eitt (hið 7.) á Fá- skrúðsfirði; loks stendur til að hann byggi hið 8. á Eskifirði. Þetta óvanalega fjör í nýjum framfarafyrirtækjum hjer á landi er því að þakka, að þau 2 íshúsin, sem komin voru i gagn fyrir sumar- vertíðina eystra, hafa reynst reglulegar gullkistur fyrir útvegsbændur þar og fiskimenn."

ísak Jónsson byggði ishús og leiðbeindi með byggingu á íshúsum víða á Austur- og Norðurlandi næstu ár og gekk stundum undir nafninu íshúsaísak. Hann var fulltrúi nýs tíma og brautryðjandi merkilegra framfara og flutti líf og áræði inn i daufan og þröngan tíma. Enginn vafi er á þvi, að áhugi hans og dugnaður hratt af stað þeim framförum og framkvæmdum, sem urðu á þessu sviði næstu árin. Verður hans því lengi minnzt sem eins af brautryðjendum atvinnuuppbyggingarinnar hér á landi um síðustu aldamót. Ekki höfðu þó allir skilning á starfi ísaks Jónssonar. Hann sótti um 500 króna styrk í tvö ár til Alþingis árið 1897, til að ferðast um og leiðbeina mönnum við íshúsbygg-ingar og frystingu, en fékk neitun. Réðist hann þá til starfa hjá erfingjum Ottos Wathne og byggði fyrir þá stórt íshús á Akureyri og stýrði því í 6 ár. Árið 1905 fór hann að búa á Þönglabakka í Þorgeirsfirði. Þar drukknaði hann rúmlega ári síðar, 4. júlí 1906.

Þrátt fyrir erfitt árferði og þröngan efnahag á þessum árum, var ráðist í íshúsbyggingar víðsvegar um landið. Við Faxaflóa voru byggð nokkur hús næstu ár og eins hér á Vestfjörðum. Árið 1903 voru alls 40 íshús á landinu, aðallega ætluð til þess að frysta og geyma síld til beitu. Fjölgaði þeim ört á næstu árum og urðu jafnframt stærri og fullkomnari og hleyptu nýju blóði í sjávarútveg landsmanna.

 

Sagan um Ísak Jónsson  er tekin beint upp úr  grein
Höfundur Jón Pál Halldórsson,

Titill: Beitugeymsla og upphaf íshúsa á Íslandi, 

 

Ægir, 4. Tölublað (01.04.1983), Blaðsíða 170

 

http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=4882761

 

Myndir af íshúsum:

http://commons.wikimedia.org/wiki/Category:Icehouses 


Vitni að Hruni

Í gær fór ég í Hörpu í fyrsta sinn. Þar var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn með ráðstefnu, ráðstefnuna Iceland's Recovery. Ég fór vegna þess að ég vildi hlusta á Krugman og fleiri ágæta fræðimenn tjá sig um íslenskan veruleika og ég fór sem andófsmaður, í andófi  gegn kasínókapítalisma  og þeim hækjum sem hann styðst við.  Ég fór líka vegna þess að ég vil taka þátt í að afhjúpa blekkingu, blekkingu um að allt sé á uppleið á Íslandi og það hafi tekist að ná tökum á "vandanum" með aðferðum og hugmyndafræði IMF.  

Ráðstefnan eða sá hluti hennar sem ég sat (eftir hádegi) kom á óvart. Ekki glærusýningar með stöplaritum úr hagtölum, Ekki  heldur ávarp Steingríms Sigfússonar fjármálaráðherra,  þar kom ekkert á óvart nema hvað hann færði IMF miklar þakkir fyrir veitta aðstoð og hvað hann eyddi miklu púðri í að segja hvað honum þætti sárt að  allir kröfuhafar og innistæðueigendur hefðu ekki fengið bætt upp í topp og hvað Ísland ætti ekki að vera fordæmi því þetta mál væri allt svo leiðinlegt, menn sem ríki ættu að borga skuldir sínar. Orðræða Steingríms var eins og hann hefur talað síðan hann komst til valda nema hann er kokhraustari núna, í staðinn fyrir "við-í-miðju-björgunarstarfinu" er kominn tónninn "við-erum-búin-að-ná-tökum-á-vandanum".

En það kom á óvart hvernig sumir töluðu og orðræða þeirra endurómaði varnaðarorð yfir kerfi sem ekki er í lagi, kerfi sem getur sprungið þá og þegar með miklum hvelli. Og þá var ekki verið að tala um neitt íslenskt hrun. Þannig var Simon Johnson afar áhugaverður, hann áttar sig vel á stöðu Íslands og hefur fylgst vel með hvað hér er að gerast og hann áttar sig líka vel á stöðu  hagkerfa heimsins í dag. Það sem hann sagði var grafalvarlegt en hann sagði það með hárfínum húmor þannig að þau aðvörunarorð sem hann hrópaði út í salinn voru eins og glettni.

Hann sagði m.a. "Only the Paranoid will survive" í þeirri merkingu að það sé mikilvægt að gera ráð fyrir þeim möguleika að allt fari á versta veg (worst case scenario) og hann fór með salinn inn  í heim samtíðarmanna í    heimskreppunni miklu og  hvernig fólk hefði þá haldið að kreppan væri búin áður en hún skall á ennþá alvarlegri og hvernig það hefði verið vanmetið á þeim tíma hvernig hagsveiflurnar berast út um kerfið. Bæði  Simon Johnson og Paul Krugman lýstu áhyggjum á hvað gæti gerst ef brotlending yrði í evrulandi og hvaða áhrif sú brotlending gæti haft á USA og þar með heimshagkerfið.

Það var ekkert minnst á Kína á þessari ráðstefnu, nema það kom fram að allt benti til að IMF myndi flytja höfuðstöðvar sínar til Kína fyrr en seinna því sjóðurinn þarf skv. skipulagsskrá að vera staðsettur þar sem hagkerfið er stærst. Þó það hafi ekkert verið rætt þá velti ég fyrir mér hvaða áhrif það hefur fyrir kínverskt hagkerfi ef USA brotlendir. Gríðarlegir fjármunir frá Kína eru bundnir í USA og raunar fjármagna USA stjórnvöld sig núna á kínversku fé. 

Það var hollt að fá greiningu utanaðkomandi á Íslandi og m.a. kom fram hve lítið útflutningur frá Íslandi breytist þó aðstæður hafi verið útflutningi afar hagstæðar. Það sé vegna þess að  2/3 hlutar útflutning séu ál og fiskur og þar ráðist útflutt magn ekki af efnahagsaðstæðum hérna.  Þessi framleiðsla er þannig að það er ekki hægt að gera eins og sumum öðrum greinum, framleiða meira  og meira ef það er hagstætt verð (leyfilegur veiddur fiskur er fast magn og kvótinn ræðst ekki af því hvað fæst mikið í evrum eða dollurum fyrir fiskkílóið). 

Það var líka athyglisvert að sjá og finna hvað hagfræðingar lesa mismunandi í stöðuna og eru ekki allir á sama máli um aðferðir. Sumir  þeirra eru mjög arrogant og nefni ég þar t.d. Jón Daníelsson sem lítur á sjálfan sig og þær kenningar sem hann boðar eins og  web 2.0  módel í hagfræði (hann notaði sjálfur slíka samlíkingu), nýir og ferskir straumar í takt við tímann. En þegar ég hlusta á Jón Daníelsson þá hlusta ég á róbotahagfræðing úr smiðju þeirrar hagfræði sem aflandseyjan City of London er byggð á, hagfræði sem smellpassar við þannig samfélagsgerð, passar eins vel eins  ráðstjórnarríkjahagfræði passaði við járnbræðslur Sovétsins áður en það kerfi féll saman  í kringum 1989.  Ég gat ekki merkt annað en Krugman væri verulega á öndverðum meiði og ég held að Krugman átti sig miklu betur en Jón Danielsson í þeim brotalömum sem eru í því kerfi sem núna getur hrunið þá og þegar og átti sig líka á því að bak við tölur er fólk og samfélag fólks.

Það stakk mig verulega hve mikill samanburður var á þessari ráðstefnu í máli margra á Írlandi og Íslandi og látið í veðri vaka að Írland hefði gert mistök en Ísland gert það rétta, að láta bankana falla og sjáið bara hvernig fór fyrir Írlandi. Það er ekki svo, það var ekki mögulegt fyrir Ísland að gera annað í stöðunni og sú ástæða sem Bretar og Þjóðverjar hafa fyrir að vilja hneppa íslensku þjóðina í skuldafangelsi vegna netbanka er sú sama og  núna er alls staðar í fjármálakerfum heimsins. Eignir þínar eru sýndarpeningar á reikningum en það má fyrir alla muni ekki fréttast að það sé ekkert á bak við þessar tölur, það má ekki niðurskrifa tapaðar skuldir vegna þess að þá lítur bókhaldið ekki nógu vel út, þá er ekki hægt að blekkja lengur.

En margar skuldir í heiminum í dag eru sýndarskuldir, skuldir sem enginn borgunarmaður finnst að nema að með klókindum og bellibrögðum sé hægt að  koma einhverjum í þannig aðstöðu að honum sé þröngvað til að borga þessa skuld og allra best virkar blekkingin ef hann virkilega trúir sjálfur að hann eigi að borga. Það er því miður alltaf auðveldast að blekkja og hlekkja þá sem eru valdalausastir í orðræðu og þjóðfélagi og þá sem þegar eru í hlekkjum.  Þess vegna taka öflug stjórnvöld (og valdalaus stjórnvöld eins og hin íslensku) þátt í blekkingarleiknum og koma skuldafjötrum á almenning. 

 Vandamál Íra val ljóst alveg frá þeim tímum sem bankarnir féllu á Íslandi.  Í umrótinu þeirra daga sogaðist fé frá útjöðrum evrulands yfir í staði eins og þýskaland eða alls staðar sem peningamenn töldu að þeir væru í vari og mikið frásog var Írlandi og við lá hruni. Stjórnvöld þar brugðu á það ráð að tryggja allar innistæður í bönkum að fullu og höfðu á þeim tíma það traust að það tókst að hemja útflæðið og raunar streymdi fé sem rekið var á flótta annars staðar þá um skeið til Írlands. Það var alveg ljóst öllum sem á horfðu og um það var rætt á efnahagsvefsíðum að fyrr eða síðar kæmi að írskum skuldadögum.

Írar höfðu með þessari aðgerð keypt sér frið um stundarsakir og höfðu til þess traust. Smæð Íslands og stærð íslenskra banka var hins vegar þannig að það var engan hægt að blekkja og hugsanlega munum við sjá það í afturbliki sögunnar þegar lengra líður frá að íslenska hrunið varð á þessum tíma einfaldlega vegna smæðar landsins sem og þess hvernig það var staðsett á jaðrinum. Það var áhugavert og nýtt fyrir mig að einhver erlendu fyrirlesaranna (man ekki hver, minnir Johnson) taldi áhrif af gengismunaviðskipta (carry trade) sem sérstaklega tengdust Íslandi ofmetin, það hefði gerst allst staðar að peningar leituðu úr hinum gömlu miðju Evrópu (Þýskaland) þar sem vextir voru ofurlágir yfir í jaðrana og hann varaði við væntingum ríkja varðandi evruland, þjóðríkin héldu að með því að komast þangað inn þá fengju þau lága vexti en þannig yrði það ekki, þau yrðu þýskaland.

Fyrir utan varnaðarorð Simon Johnson og glögga sýn hans á hagsveiflu nútímans, myntir og  viðskipti landa á milli  þá fannst mér Gylfi Zoega bera af og lýsa vel þeirri tilfinningu sem ég hef gagnvart því sem gerðist og er að gerast  á Íslandi. Paul Krugman mæltist vel eins og ég átti reyndar von á en ég les oft  pistla hans á Nytimes.com  

Þegar íslensk stjórnvöld (já hinn sami Steingrímur og có) reyndu að tjónka við okkur og fá okkur til að kokgleypa Icesave þá var gjarnan notuð orðræða um að við værum á brún hengiflugsins.  Núna tala íslensk stjórnvöld (já hinn sami Steingrímur og có) um að núna séum við á uppleið og búin að ráða við vandann. En þannig var ekki tónninn í lok ráðstefnunnar í Hörpu. Það er alveg ljóst að það er alvarlegt ástand í efnahagsmálum í okkar heimshluta og það getur vel farið kollsteypur og dómínóáhrif þeirra geta orðið ófyrirsjáanlegar og svo stórar að okkur órar ekki fyrir því.  

Þetta var tilfinningin sem ég fékk eftir þessa ráðstefnu. Það getur verið að  þessi samkoma í Hörpu sé  punktur á tímalínu þess ástands sem varir núna,  punktur milli þess ástands sem setti á stað hrun á Íslandi og leysti upp það samfélag sem hér var þá og  þess ástands sem mun vara lengi og setja á stað öldur víða um lönd, öldur  sem höfum ekki aðstæður og tæki til að meta núna hvar muni fjara út. En ef það gerist þá fylgir þeim stóröldum "social disruption",  breytingar á samfélagi sem ekki eru hagfræðilegar og það getur verið byltingar og stríð og breyttar þjóðfélagsgerðir og allt þar á milli. Þó að IMF hafi óumdeilanlega farið mjúkari höndum um Ísland er það hefur gert í öðrum löndum þá er það að endurreisa sams konar hagkerfi og féll saman, hagkerfi sem virkar illa í þeirri samfélags- og framleiðslugerð sem við stefnum inn í.

 

Ef til vill erum við vitni. Vitni að því sem Slavoj Žižek kallar fjörbrot kerfis sem er að eyða sér sjálfu  og við getum í bjartsýni okkar vonað að við taki öðruvísi kerfi, kerfi almenninganna (commons). En það getur líka farið á verri veg.

Slavoj talaði um nýlega á Wall Street mótmælunum með manngerðum endurómi (human microphone) og þá sagði hann :

They tell you we are dreamers. The true dreamers are those who think things can go on indefinitely the way they are. We are not dreamers. We are awakening from a dream which is tuning into a nightmare. We are not destroying anything. We are only witnessing how the system is destroying itself. 

Hér er grein með torgávarp Slavoj á Wall Street

Orð hagfræðinga þegar þeir tala til almennings og tala mál sem fólk skilur geta verið áhrifarík. Þannig er slagorð þeirrar hreyfingar sem mestar vonir eru bundnar við í dag, hreyfingar sem hófst á Wall Street en sækir einnig rætur í evrópsk mótmæli og mótmæli í mið-austurlöndum og breiðist um heiminn sótt í orðræðu hagfræðingsins Stiglitz, sótt í grein sem hann skrifaði í Vanity fair um 1% fólkið.

Upp risu 99%. 

 


mbl.is Evran hefði ekki bjargað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin umsvif Skúla .... og sérbankaþjónustan

Í mörgum löndum sem sem bóla fjármagns hefur sprungið eins og gerðist á Íslandi þá er slagnum milli alþýðu (99 % fólksins) og fjármálaelítu (1% fólksins) ekki lokið við það heldur verður í kjölfarið gífurleg eignatilfærsla og það myndast ástand hamfarakapítalisma. Við á Íslandi ættum að skoða hvað gerist annars staðar við svipað galopið kapítalískt aflandseyjuhagkerfi og einnig að læra af hvað gerðist á Íslandi þegar Björgólfur kom frá Pétursborg með sitt fé inn í íslenskt bankakerfi og hvað skamman tíma tók að setja hér allt á hvolf og breyta samfélaginu, atvinnulífinu, stjórnmálalífinu og fjölmiðlum í skopparakringlur sem skoppuðu í kringum hans hagsmuni og sog afar fárra manna á auðlegð Íslands. Í þessu sogi voru bankarnir eins og háþrýstiryksugur. Í ljósi þessa þá er eðlilegt að við spyrjum spurninga um aðkomu og umsvif Skúla Mogesens núna í íslensku athafnalífi. Hann er skrifaður fyrir félagi, Títan en hrein eign þess mun ekki vera nema 35 milljónir en félagið hefur samt haft mikil umsvif, keypt hér upp eignir. Skúli hefur líka keypt sig inn í MP banka og keypt hús og jarðir og sitt hvað smálegt og stórt. Það er engin ástæða til annars en skoða aðkomu manna eins og Skúla og ráða í hver greiðir leið þeirra og hvort þeir eru að vinna að uppkaupum í ástandi hamfarakapítalisma og tryggja hagsmuni fjárfesta, hugsanlega sín sjálfs en hugsanlega líka annarra sem  eru ekki í sviðsljósinu en eru    vinir Íslands eða úlfar í sauðagæru?

Við vitum að erlendir fjárfestar eins og Endre Røsjø  og Joe Lewis  http://en.wikipedia.org/wiki/Joe_Lewis_(British_businessman)    hafa tengst MP banka og það er fróðlegt að fara yfir feril þeirra og velta fyrir sér hvort slíkir menn  og fjárfestingar þeirra eru það sem við viljum á Íslandi. Viljum við keppast  við að búa í haginn fyrir slíka fjárfesta, fjárfesta sem hafa sópað til sín fé með gjaldeyrisbraski eins og Joe Lewis eða fjárfesta sem hafa verið í vafasömu samkrulli til að komast yfir orkulindir í fjarlægum löndum eins o og Endre Rosjo. 

Kannski er besta leiðin til að komast yfir eignir á Íslandi í dag að vera tengdur í banka og ekki skaðar að hafa ýmis samband til að fá sérfyrirgreiðslu í bönkum. Bestu sérfyrirgreiðsluna fá þeir sem eiga bankana, þannig var það á björgólfatímanum og þannig virðist það vera núna. Það er margt sem bendir til að Skúli Mogesen hafi fengið sérstaka fyrirgreiðslu í  björgólfsbankanaum  fyrir hrun, afar sérstaka.

Ég vil hér benda á pistil Sigrúnar Davíðsdóttur  um sérbankaþjónustunaÞ

MP og endursýningin http://www.ruv.is/pistlar/sigrun-davidsdottir/mp-og-endursyningin

Ég lími hann hér inn:

MP og endursýningin

20.04.2011

 

Skúli Mogensen fer fyrir hópi fjárfesta sem eru að endurfjármagna og ná undirtökunum í MP banka. Spegillinn kannar viðskipti Skúla við Landsbankann 2003. Oz virtist framsækið fyrirtæki en draumarnir rættust ekki. Í kjölfarið lá svo skuldaslóð. Margir trúðu á að fyrirtækið ætti mikla möguleika, keyptu hlutabréf í Oz á gráa markaðnum og fóru illa út úr því. Landsbankinn hafði lánað Skúla Mogensen einn milljarð. Af því voru rúmlega 400 milljónir afskrifaðar, samkvæmt gögnum sem Spegillinn hefur undir höndum.

                                         ***

Margt af því sem gerðist í íslensku viðskiptalífi á 10. áratugnum varð eins og aðalæfing fyrir uppsveifluna og hrunið áratuginn á eftir. Það var mikið kapp og ekki alltaf mikil forsjá. Gullæði greip um sig, það var Oz og Íslensk erfðagreining. Það fóru margir flatt á viðskiptum með bréf þeirra á gráa markaðnum sem er, eins og nafnið bendir til, ógagnsær og ætti aðeins að vera fyrir fagfjárfesta. En ekki á Íslandi.

Oz var tæknifyrirtæki og eins og oft er með slík fyrirtæki reyndu menn fyrir sér með hitt og þetta, allt mjög snjallt en viðskiptamódelið gekk ekki upp. Samningur við Ericsson lofaði góðu en kom of seint, dotkom bólan sprakk.

Það sem einkennir oft frumkvöðla í tæknigeiranum er gríðarleg einbeiting á viðfangsefnið. Öðruvísi hefst þetta ekki. Þetta er þrotlaus vinna, menn uppskera iðulega lítið lengi framan af, endalaus barningur og öldungis óvíst hvort þetta verði nokkurn tíma barn í brók. Þetta er hin klassíska frumkvöðlasaga. Og oft sagt að besta leiðarljósið sé vonin um að skapa gott fyrirtæki, ekki gróðavonin.

Tilfinningin með Oz er að þar hafi gróðinn átt að vera heldur skjótfengnari. Og athyglin verið á öðru braski, ekki bara verið að byggja upp öflugt fyrirtæki. Lánasaga Skúla Mogensens hjá Landsbankanum bendir í þessa átt.

Spegillinn hefur undir höndum afskriftayfirliti Landsbankans frá 30. júní 2003. Þar segir að Skúli hafi gengið í Sérbankaþjónustu Landsbankans árið 2000 ,og tók veruleg lán í bankanum á því ári og setti að veði hlutabréf sín í Oz og önnur hlutabréf sem hann fjárfesti í. Skuldir Skúla urðu hæstar rúmar 1.000 milljónir króna árið 2001.’ Hækkuðu meðal annars það ár vegna gengislækkunar krónunnar.

En hvernig var þessi Sérbankaþjónustu Landsbankans?* Þetta var einkabankaþjónusta, átti að vera fyrir gulltryggða eignamenn og svo mikið einkamál að lán til þeirra voru ekki afgreidd í lánanefnd bankans. Það átti enginn að vita um lánin nema sá sem fór með málin í Sérbankaþjónustunni og auðvitað átti að velja viðskiptavinina vel. Það mistókst þó í tilfelli Skúla.

Skúli skuldaði persónulega rúman milljarð. Að veði voru að mestu óskráð hlutabréf. Í árslok 2001 yfirtók bankinn um helminginn af hlutabréfunum sem hann  hafði að veði en þau voru að hrapa niður í nánast ekkert. Hlutabréf Skúla í Oz voru metin á 2-3 milljarða en fóru niður í lítið. Þá stóð enn eftir 500 milljón króna skuld. Þegar kom fram á 2003 afskrifaði bankinn þetta allt. Setti 421 milljón króna til að mæta fyrirsjáanlegu útlánatapi í þessu máli og lagði til að afskrifaðar yrðu endanlega 400 milljónir króna.

Þetta er sagan úr afskriftaryfirlitinu. Árið 2004 afskrifaði Landsbankinn svo 45 milljónir á Oz Communications. Það lán var tryggingalausir tékkar.

En hvernig var þá staðan hjá Oz árið 2000 og 2001 þegar Skúli er að taka lán upp á milljarð til hlutabréfakaupa? Hún var reyndar ekki burðug. Heildartap Oz á fyrsta ársfjórðungi 2000 nam tæpum 100 milljónum sem var ríflegt tap miðað við að tapið allt árið 1999 var tæpar 70 milljónir króna. Veltan allt árið 1999 var um 70 milljónir, var 130 milljónir á þessum fyrsta ársfjórðungi 2000. Þetta eru ekki tölur sem virðast réttlæta lán út á bréf á gráa markaðnum upp á milljarð. Og það er varla rífandi jákvætt fyrir fyrirtæki að forstjórinn sé með hugann við eigið brask.

Sagan sem þarna er sögð er af umsvifamanni sem ætlar ekki að bíða eftir að fyrirtækið sem hann er að byggja upp skili arði heldur tekur lán til hlutabréfakaupa. Og þetta er líka kunnugleg saga um banka sem tekur léleg veð og þarf síðan að afskrifa eftir því. Þess má geta að í breskum bankaheimi og reyndar víðast á þroskuðum mörkuðum líta bankar ekki við óskráðum bréfum sem veðum. Bara alls ekki.

Bankinn afskrifar þarna yfir 400 milljónir króna. Á þessum tíma kostuðu meðal einbýlishús 20-24 milljónir svo afskriftin hefði dugað fyrir 17-20 einbýlishúsum, híbýli fyrir 80-100 manns. En bankinn fékk reyndar aldrei mikið af þessum milljarða láni sínu til baka. Hér er áhugavert að hafa í huga að lánin eru veitt áður en Björgólfsfeðgar koma að bankanum en afskriftirnar verða eftir aðkomu þeirra.

Það hefur áður verið nefnt að það er leiðinlegt að vera með stöðuga neikvæðni þegar menn taka til höndunum og byggja eitthvað upp. Það er ekkert útilokað að Skúli hafi lært af óförum Oz og óförunum sem Landsbankinn létti af honum. En sagan um endurreisn MP banka á sér kunnuglegar hliðstæður. Þarna kemur til sögunnar Íslendingur sem hefur selt fyrirtæki erlendis, þó ekki vitað hvort það eru þeir peningar eða lán, líkt og þegar Björgólfur Thor Björgólfsson og faðir hans keyptu Landsbankann. Samkvæmt heimildum Spegilsins þekkjast þeir Skúli og Björgólfur Thor vel frá fornu fari. Svo eru það erlendir fjárfestar sem eru engir fagfjárfestar í bankageiranum. Og fenginn mætur maður sem stjórnarformaður en sem hefur þó hvorki reynslu af né sérþekkingu á bankarekstri. Og menn stefna á 15-20 prósenta arðsemi eigin fjár sem er bratt í umhverfi með 1-5 prósenta vexti. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að þetta hljómi allt eins og endurflutningur á gömlu leikriti.

*Þessi lýsing á Sérbankaþjónustunni var höfð eftir heimildarmanni sem áður vann í Landsbankanum. Eftir flutning pistilsins fékk Spegillinn þær upplýsingar frá öðrum fyrrum starfsmanni að viðskiptavinir þjónustunnar hefðu verið sérvaldir, bestu viðskiptavinir bankans með að lágmarki 50 milljónir í reiðufé í eignastýringu. Þeir áttu að geta fengið skjóta lánafyrirgreiðslu en með samþykki lánanefndar 1 þar sem stjórnendur bankans sátu. Stjórnendur vissu því hverjir fengu lán í gegnum Sérbankaþjónustuna. - Það breytir því þó ekki að í tilfelli Skúla Mogensen tókst ekki vel til og mál hans ollu, samkvæmt heimildum Spegilsins, miklu hugarangri í Landsbankanum. 

 

 


mbl.is Stofna nýtt flugfélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greiningardeildir lögreglu, greiningardeildir bankanna og áhættusamfélagið

Á bólutímanum fyrir Hrun þá las ég stundum netpistla eða hlustaði á fjölmiðla í morgunssárið þar sem sagðar voru fjármálafréttir dagsins. Véfréttirnar sem birtu spádóma sína um stöðu í núinu og horfurnar í framtíðinni voru greiningardeildir bankanna. Núna er það spilavirki sem greiningardeildir bankanna rýndu í hrunið með brauki og bramli og enginn tekur lengur mark á bankaspeki, við vitum sem er að það sem kemur úr þeim ranni er lítið annað en veruleikablekking þeirra sem lifa á blöffi og braski.

Rétt áðan þá fannst mér ég vera komin aftur í tímann, mér fannst ég vera að rýna í sama textann, lesa fréttir frá greiningardeildum sem voru á vaktinni,  sem sáu óvinina sitja á fletjum fyrir og voru sjálfir í þjónustu bjargvættarins og kunnu best allra að greina og meta hvar væru hættur og ekki aðeins það, hversu mikil hætta væri á ferð á hverjum stað og stundu. 

Í tíma greiningardeilda bankanna þá var samfélagið sett fram eins og hringrás sem gengi fyrir peningum og út á að skúffa saman fé í hrúgur sem kallaðir voru sjóðir með því að vita hvaða hlutabréf í hvaða hlutafélögum og sjóðum  poppuðu upp og niður - að því er virtist út af því hvernig önnur bréf í einhverjum öðrum félögum poppuðu upp og niður og leikurinn gekk út á að geta sem nákvæmast greint hvað væri á leið upp og hvað væri á leið niður og hve mikið.

En tími greiningadeilda bankanna er liðinn og það sem fékk mig til að kippast við núna í morgun var lestur skýrslu sem vitnaði í greiningardeildir lögreglu. Það er skýrsla frá Ríkislögreglustjóra, skýrsla sem er bara til vegna þess að grunur var um að lögreglan hefði brotið lög eða farið í kringum lög með því að einstakir aðilar tengdir lögreglu væru í einkabisness við lögreglu, skýrsluna má sjá hérna:
http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2011/Aths.-rikislogreglustjora-4.10..pdf

Það er svo svipuð orðræða í þessari skýrslu og var fyrir Hrun í bankafréttunum að það læddist að mér sá grunur að kannski væri þetta eins, kannski væri þessar greiningardeildir lögreglu álíka merkilegar og greiningardeildir bankanna voru. Kannski væri mat þeirra og sýn á tilverunni álíka brenglað og sú sýn greiningardeilda bankanna sem lýsti heiminum sem risastóru kasínó var, sú sýn sem lýsti þeim sem sátu við fjárhættuspilin sem bjargvættum og stórmennum.

Greiningardeildir bankanna tóku þátt í og voru stórir gerendur í því ð spinna upp lygavef og breiða yfir samsæri gegn íslenskum og erlendum almenningi, samsæri sem fjölmargir tóku þátt í, ekki bara þrjátíu útrásarvíkingar heldur víðfeðmt net valdamanna í fyrirtækjum, bankastofnunum, stjórnsýslu og pólitík með mörgum hjálparkokkum sem hilmdu yfir og tóku þátt í blekkingarleiknum gegn broti af ránsfengnum.

Greiningardeild lögreglu leitar nú að ólgu, leitar að glæpamönnum áður en þeir fremja glæpina og leitar að hvar hún á að bera niður í leit sinni að óvininum. Þessa ólgu og þennan óvin finnur hún í æstum og örvæntingarfullum almenningi sem hennar hlutverk sé að hemja. Sérstök hætta er á hópamyndun, ekki síst hópum sem setja ekki fyrir sig almenningsálitið og hópum eins og hústökufólki. Svo virðist greiðsluvilji almennings vera að minnka og fréttir um stjórnarfarið fyrir hrun gætu leitt til þess sem greiningardeild bank... lögreglu  kallar öfgafull viðbrögð.

Það er eitthvað við þetta innblik í orðræðu lögreglu sem fær mann til að skynja hvernig lögreglan lítur á sig og hvernig hún lítur á okkur, almenning í landinu. Lögreglan eru vaktmenn og varðliðar sem hlusta á tikkið í tímanum og leita eftir hvar eitthvað gæti komið upp sem gæti umbylt þessu kerfi sem við búum við, þessu kerfi fanga og fangavarða þar sem fangarnir eru skuldaþrælar sem þarf að aðgæta að hegði sér vel, haldi áfram að vera með greiðsluvilja og passa upp á að safnist ekki saman í hópa, þá er voðinn vís. Allra hættulegast ef hóparnir kæra sig kollótta um almenningsálitið.

Grípum niður í skýrsluna með álitum frá greiningardeildum bank.... ég meina greiningardeildum lögreglu og skoðum orðfærið þar:

Þann 30. september 2009 gaf greiningardeild út nýtt hættumat þar sem varað var víð margvíslegri ógn. Sem fyrr var niðurstaða greiningardeildar sú að spenna myndi aukast í þjóðfélaginu á næstu vikum og mánuðum.

Óvænt rás atburða og nýjar upplýsinga tengdar hruni íslenska fjármálakerfisins gætu á skammri stundu raskað þeim viðkvæma stöðugleika sem ríkti. Boðað hafði verið að á næstu vikum yrði gerð opinber Rannsóknarskýrsla Alþingis um hrun íslenska fjármálakerfisins. Að hálfu nefndarinnar hafði verið upplýst að skýrslan myndi innihalda upplýsingar sem yrðu þjóðinni erfiðar.

Þann 7. október 2009 varaði greiningardeild við að margir óttuðust að missa húsnæði sitt á næstu vikum og mánuðum. Það kynni að kalla fram öfgafull viðbrögð. Umræðan í þjóðfélaginu gæfi til kynna að greiðsluvilji almennings færi minnkandi. Því ástandi kynnu að fylgja hópamyndanir og mótmæli. Örvænting innan vissra þjóðfélagshópa færi vaxandi og margvíslegir þættir gætu snögglega aukið ólgu í þjóðfélaginu.

Þegar ég les þennan texta þá er ég alltaf rugluð, þetta gæti verið skrifað af greiningardeildum dáinna banka og mér finnst ekkert sem skilur að lögreglu í núinu og banka sem hrundu, ekkert sem segir mér að þetta séu stofnanir sem ég eigi að treysta og vinna með.  Af hverju á ég að treysta þeim sem lítur á almenning sem óvininn og talar mál og talar máli þess kerfis sem hrundi yfir okkur? 

Svo leggur greiningardeild mat á sjálfa sig og réttlætir kaup lögreglu á búnaði af fyrirtækjum í eigu lögreglumanna. Halló, ég er ekki að lesa fréttir frá greinigardeildum bankanna fyrir Hrun, þetta er annað, þetta er eftirhruns Ísland sem nú kallar:

"Reynsla af hættumati greiningardeildar er sú að spár hennar hafa gengið eftir. Ákvarðanir lögreglu um ráðstafanir sem gripið hefur verið til, þar með talið kaup á búnaði, hafa tekið mið af þeim. Greiningardeild telur ennþá vera ríkjandi alvarlegt þjóðfélagsástand og lítið þurfi að gerast til þess að uppúr sjóði. Lögreglan starfar ennþá samkvæmt viðbúnaðarskipulagi lögreglu vegna alvarlegs þjóðfélagsástands..."

Sennilega eru báðar þessar  keimlíku stofnanir -  greiningardeildir banka og greiningardeildir lögreglu - afsprengi  þess áhættusamfélags sem við búum við og félagsfræðingar eins og Giddens og Rick hafa fjallað um.  Ég velti fyrir mér hvort einhver von sá að breyting verði á ástandinu og þegar ég lít aftur í tímann þá man ég áður eftir svona gríðarlega óréttlátu ástandi, það var þegar "við náðum tökum á verðbólgunni" og gerðum "þjóðarsátt".  

Það var á árunum þegar opinberir starfsmenn og margar starfsstéttir  bjuggu við föst laun og 70% verðbólgu og verðtryggðar skuldir. Sigurvegarnir skrifa söguna og þeir láta sinn sannleik koma fram, ekki sannleik þeirra sem misstu húsnæði sitt á misgengisárunum, ekki þeirra sem fluttu úr landi heldur valdamanna sem búa til þjóðarsátt úr hörmungum sumra. Heldur þeirra sem gerðu sátt við bankaheiminn og settu upp kerfið sem blóðsaug almenning 1985 og gerir það líka núna, kerfi sem virkaði um tíma og var alveg samkvæmt verðbólguhagfræðingum eins og Milton Friedman. Það er nú kannski kaldhæðni örlaganna að fréttamaður sem steig sín fyrstu  pólitísku spor á misgengisárunum þegar örvæntingarfullt ungt fólk sem var hneppt í skuldafangelsi vegna verðtryggingar á þessum árum og var í forsvari fyrir hóp sem fólkið stofnaði, Sigtúnshópinn - skuli núna vera æðsti yfirmaður þeirrar löggæslu sem þarf núna að hafa aðgætur á því að fólk sé að stofna hópa.

 


mbl.is Lögreglan fór að lögum við innkaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Facebook aðgangi mínum lokað

15okt-poster-99-minni

 Ég hef ásamt fjölda fólks staðið að undirbúningi að samstöðumótmælum 15. október á Lækjartorgi. Það kom í minn hlut að búa til facebook viðburð, kvaðningu til fólks að skrá sig og ég hef reynt að skrifa inn á vegg þar ýmislegt sem varðar viðburð okkar á Lækjartorgi og alheimsmótmælin ásamt því að setja upp vefsíðu fyrir Occupy Reykjavík.

Það hafa yfir 400 manns þegar skráð að þau muni mæta og mörg hundruð segjast kannski ætla að mæta. Seinast í morgun þá setti ég inn tengill þar í lítið myndband sem ég tók í gærkvöldi þegar fólk var að búa sig undir morgundaginn, mála skilti til að andæfa heimskapítalismanum og flauta til leiks og prófa tæknibúnað. Hér er það vídeóbrot:

 

 Svo ætlaði ég að setja inn nokkrar myndir af undirbúningnum en þá brá svo við að búið var að loka facebookaðgangi mínum. Ég kemst því ekki á facebook og  bregð því á að skrifa hér á moggabloggið  til að koma á framfæri því sem ég vildi setja á vegg viðburðarins í morgum og hvetja fólk til að mæta á alþjóðlegu samstöðumótmælin á Lækjartorgi kl. 15.

 Hér  fyrir neðan eru nokkrar myndir af undirbúningi okkar. Fleiri myndir má sjá á

http://www.flickr.com/photos/salvor/sets/72157627773365007/with/6245682035/

Skiltamálun 14 október Kapítalismi eða framtíð

Fundur 11. október. Umræður

Skiltamálun 14. október 99 %

Ég vil líka benda á  http://soundcloud.com/tokumtorgin  en þar setti ég inn nokkur viðtöl í útvarpi við þá sem hafa undirbúið mótmælin 15. október. Einnig vil ég benda á að við erum með twitter tokumtorgin (sjá hérna http://twitter.com/#!/tokumtorgin ) og vefsíðuna http://www.esjan.net/reykjavik/   

einnig verður vonandi hægt að senda út hvað er að gerast á Lækjartorgi á livestream. Slóðin þar er  
 
Ég ætla hér ekki að vera með neinar getgátur um hvernig stendur á því að facebook aðgangi mínum er lokað einmitt núna en læt fylgja með skjámyndir af viðmóti mínu við facebook:
 
facebook-laesing-a-reikningi
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
facebook-laesing-a-reikningi2 
 

mbl.is Mismunun víða mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrif og áhugi kínverskra stjórnvalda á Íslandi

Kínverskir athafnamenn hafa nú áhuga á að koma sér upp aðstöðu  og standa að ýmis konar uppbyggingu  á Íslandi, ekki síst á Norðausturlandi.  Það er vel líklegt að áhugi þeirra á aðstöðu og eignum sem tryggja aðstöðu hér á Íslandi sé tengdur langtímahagsmunum kínverskra stjórnvalda m.a. varðandi siglingaleiðir, orkuvinnslu og  hernað á Evrópu og Rússland. Allur fréttaflutningur íslenskra fjölmiðla af þessum væntanlegu umsvifum er undarlega gagnrýnislaus, minnir á hvernig fjölmiðlar mærðu Björgúlf  eldri eins og velgjörðarmann Íslendinga og viðskiptatöframann þegar hann kom, sá og sigraði og jós úr sjóðum til að styrkja alls konar menningarstarfsemi. Allir  sem komu til Björgólfs og báðu um styrk fengu styrk. Hann var góður, hann átti fjölmiðlana sem mærðu hann, hann átti bankana, hann átti flest öll fyrirtækin, hann stýrði pappírsfroðunni og réð um tíma í hvernig hvirfla og hvert hún feyktist.

Þeir sem muna lengra aftur muna eftir Marshallaðstoðinni sem kom til Íslendinga þó þeir hefðu grætt á stríðinu og fór m.a. í að byggja upp áburðarverksmiðju í Gufunesi sem  ýmsir  töldu að hefði margháttað hlutverk. Mörgum Íslendingum hefur verið boðið til Kína  ekki síst fólki í stjórnmálum og fjölmargar kínverskar sendinefndir hafa komið hingað. Það minnir nú líka á Pentagon ferðirnar hér í den, fóru ekki allir ungliðar Sjálfstæðisflokksins í slíkar boðsferðir til að drekka í sig hollustu við bandarísk hernaðarumsvif hérlendis? Hefur ef til vill öllum  íslenskum áhrifamenn í stjórnmálum verið boðið til Kína?

Það þarf frekar mikið ímyndunarafl  til að sjá fyrir sér að núna að áhugi eins kínversks fjárfestis á hótel og ferðaiðnaði á Íslandi sé partur af langtímaplotti kínverskra stjórnvalda til að knésetja Evrópu, innlima Ísland í  sem kínverska nýlendu, reka Íslendinga í burtu frá eigin landi og tryggja heimsyfirráð Kína:-) En það þarf ekkert ímyndunarafl, bara kalda rökhugsun til að tengja saman og skoða í stærra samhengi  umsvif kínverskra fjárfestingarfyrirtækja sem eru þessi misserin að kaupa upp aðstöðu víða um heim. Þessi fjárfestingarfyrirtæki eru gerð út af kínverskum stjórnvöldum.  Það mun örugglega koma sér vel fyrir Íslendinga amk ef friður helst í heiminum að vera í góðum viðskiptasamböndum við Kína sem og menningarsamskiptum. En það getur að  það þjóni ekki hagsmunum íslensks almennings til langs tíma að landið sé galopið fyrir erlendum fjárfestum sem eru að tryggja ítök og yfirráð yfir eignum og iðju sem gerir Ísland byggilegt. Það er nærtækt að sjá fyrir sér orkuiðnað og fiskveiðar.  Ef öll orkufyrirtæki og allur rekstur í kringum þau og allur útvegur og vinnsla fisks væri í eigu erlendra fjárfesta sem hefðu skálkaskjól á aflandeyjum (eða í Peking) og svolgruðu þaðan í sig öll verðmæti og virðisauka af iðju fólks hérlendis  þá væri Ísland ekki annað en það sem það var á eymdartíma þjóðarinnar, fátæk og valdalaus nýlenda, ofurseld ríku og öflugu stórveldi. 

Núna er staðan þannig að Kínverjar eiga mikla uppsafnaða sjóði í dollurum  og eru aðalkaupendur  hráefna og framleiðendur ýmissa iðnaðarvara t.d. áls.  Kínversk fyrirtæki með fulltingi kínverskra stjórnvalda eru þessi misseri  víða í heiminum á umfangsmiklu "shopping spree" í að kaupa og leigja land og aðstöðu til að tryggja hagsmuni Kína, bæði varðandi iðnaðarframleiðslu en ekki síður varðandi hagsmuni Kína sem voldugs heimsveldis.

Stjórnvöld sem nú sitja eru hrædd og auðsveip við alla sem eiga peninga og krjúpa fyrir  öllum sem sveifla seðlabúnkum,  erlendri fjárfestingu. Margir Íslendingar  hafa hag af að liðka til með slíka fjárfestingu, gylla hana fyrir almenningi á Íslandi og búa til velgerðarmenn og mannvini úr fjárfestum.  En það er ekki að sjá að stjórnvöld gæti langtíma hagsmuna almennings,hagsmuna sem eru fólgnir í að stjórnvöld eða aðrir aðilar láti ekki frá sér og semji burt allt það sem getur skapað auðsæld og farsæld á Íslandi í framtíðinni. 


mbl.is Byggir einnig upp í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband