25.8.2011 | 12:38
Kínverjar í landakaupaham
Í blaðagreinum speglast núna hrifning varðandi fyrirhuguð kaup kínversks ríkisbubba á íslenskri jörð, jörðinni Grímstöðum á Fjöllum sem nær yfir 30 þúsund hektara, þar verði margra tuga milljarða uppbygging og fimm stjörnu hótel byggð , þar verði umhverfistengd ferðaþjónusta. Össur utanríkisráðherra sem sparaði ekki stóryrðin í útrásinni og sá gróðann bara detta ofan á okkur rétt áður en þjóðin varð gjaldþrota og Icesave og ástarbréfafarg bankanna skall á okkur(sjá t.d. hérna í október 2007) er mjög hrifinn, hann segist fagna erlendri fjárfestingu og uppbyggingu í ferðaþjónustu (halló Össur, það er verið að tala um JARÐAKAUP KÍNVERSKRA AÐILA, það sama og er að gerast út um allar álfur).
Það má vel vera að fyrirtækið Zhongkun Group sé eingöngu fyrirtæki í ferðaþjónustu sem hefur enga hulda stjórnmálahagsmuni eða samtvinnun við stefnu kínverskra stjórnvalda þegar það kaupir jarðir á Íslandi en það er satt að segja frekar ósennilegt. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að það eru ákaflega mikil umsvif kínverska sendiráðsins hérna og þetta fyrirtæki Zhongkun Group hefur fyrir ári síðan stofnað sjóð fyrir menningarsamskipti Íslands og Kína. Það þarf enga sérstaka ófreskigáfu til að líta á það sem lið í almannatengslum fyrir fyrirhuguð uppkaup hérlendis.
Í Kína er allt land í opinberri eigu eða eigu samyrkjufélaga, þeir sem yrkja landið hafa bara afnotarétt af því og geta verið reknir í burtu hvenær sem stjórnvöldum þóknast. Þannig voru milljónir manna reknir frá heimkynnum sínum þegar Þriggja gljúfra stíflan var byggð og nú stendur til að reka 2.8 milljónir manna úr heimkynnum sínum í Shaanxi héraði í Kína. Það er sagt vera til að bjarga íbúum þar úr sárri neyð en það getur vel verið að hagsmunir námafyrirtækja skipti hér líka máli (sjá þetta blogg China´s Largest Land Grab ). Útlendingar geta alls ekki keypt land í Kína, Kínverjar geta ekki sjálfir keypt land í Kína. En kínversk fyrirtæki, handbendi kínverskra stjórnvalda, handbendi til að tryggja Kína yfirráð yfir auðlindum og aðföngum til framleiðslu fara nú með brugðnum brandi yfir mörg lönd, ekki síst þar sem regluverk er veikt og engin gætir að hagsmunum þarlends almennings, ekki síst þar sem bæði stjórnvöld og fjármálakerfi er spillt.
Í lögum margra ríkja eru lagalegar hindranir á því að útlendingar eigi þar land. Í sumum löndum t.d. Noregi eru strangar reglur varðandi bújarðir, um ábúðarskyldu og nytjar eigenda. Margar fyrrum nýlenduþjóðir hafa verið í þeirri stöðu að allar helstu jarðeignir og framleiðslutæki voru í eigu fjarlægra aðila sem ekki einu sinni bjuggu á landareigninni heldur í eigu ríks fólks í fjarlægum löndum sem sugu til sín ágóðann af striti fólksins en lögðu ekkert til samfélagsins. Fátækir leiguliðar og þrælar sem höfðu engar aðstæður til að bæta líf sitt strituðu í fátækt fyrir ríka og fjarlæga landeigendur.
Núna er það sama að gerast á öðruvísi hátt. Nýlendukúgararnir og þrælahaldararnir koma núna fram undir merkjum hinar alþjóðlegu viðskiptahringekju, hringekju sem framleiðir pappíra og þyrlar þeim til og frá. Núna eru grimmu landeigendurnir með ágóðaglampa í augum ekki nýlenduherrar gömlu nýlenduveldanna heldur stjórnendur alls konar vogunarsjóða sem eru flæktir saman í einhverri bendu þannig að enginn veit haus eða sporð á. Ef til vill eru margir kaupendur jarðeigna og hráefnafyrirtækja í heiminum í dag kínversk stjórnvöld í gegnum alls konar fyrirtæki og fronta, og kannski er hugsunin á bak við kaupin sú að tryggja framtíðarhagsmuni Kína, hagsmuni sem við sjáum ekki alveg fyrir í dag. Við vitum að í dag er háð stríð út af aðgangi að orku og auðlindum og við vitum að ríki nálægt okkur hafa ekki svifist neins til að tryggja aðang sinn og fundið sér svo einhverja réttlætingu seinna. Við vitum líka að á Norðurslóðum, í nágrenni Íslands eru miklar orkulindir og mikilvægar framtíðar siglingaleiðir. Það má benda á að Kína er vaxandi herveldi og það er ekki víst að framtíðarstríð þess ríkis verði öll háð í Asíu. Og Bandaríkjamenn taka svo sem alveg eftir landakaupum og aðstöðusamningum Kínverja þó að hernaðarumsvif Kínverja séu ekki áberandi þegar þeir kaupa upp land í Idaho og innan Bandaríkjanna og Evrópu:
In the western hemisphere, China is relying largely on market forces and is not following up with its military. China is very aware that Brazil is America's backyard.
In Africa it's another story. China's quest to control resources is often followed up with military ties. This poses a challenge to the US, which has responded by stepping up its own military presence.
En Íslendingar eru varnarlausir og grandalausir og sjá ekki hvað er að gerast.
Hér eru nokkrar slóðir um landakaup, sérstaklega landbúnaðarlands.
- Outsourcing's third wave
- Fears of Chinese land grab as Beijing's billions buy up resources
- China land grab in Africa
- Concerns as Chinese company looks to buy land
- Farmlandgrab
- Chinas Interest in Farmland Makes Brazil Uneasy
- Meet The Millionaires And Billionaires Suddenly Buying Tons Of Land In Africa
- Land Rights
- Land Reform
- Whos who in $4.4 trillion foreign farmland spending spree
Tugmilljarða fjárfesting á Fjöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.7.2011 | 07:37
Myndir og vídeó frá bruna í Sundahöfn 12. júlí 2011
"Svífur yfir Esjunni sólgullið ský" segir í ljóði Reykjavíkurskáldsins og víst var fallegt í Reykjavík við sundin í nótt þegar mökkinn bar við fjallið eina og liðaðist eins kötlu eða heklu eða eyjafjallajökuls eða grímsvatna eða vatnafjallagos upp úr borginni sem kennd er við reyk í hverfi bernsku minnar, hverfinu sem ber nafn af gufunni og hitanum sem sprettur upp úr iðrum jarðar. En reykurinn í Reykjavík í morgun var mengunarbruni af manna völdum, sennilega íkveikja í dekkjaskógi á hafnarbakka en hann lagðist yfir hverfið mitt eins og fyrirboði um gosmökk og öskuský og minnti líka á brunann fyrir mörgum árum þar sem fólk var í hættu.
Við sáum reykjarmökkinn út um eldhúsgluggann hjá okkur í Sigtúni klukkan rúmlega þrjú í nótt og ég fór á vettvang og tók þessar myndir milli klukkan þrjú og fjögur. Ég tók líka nokkur vídeóklipp sem ég set síðar á vefinn:
http://www.youtube.com/watch?v=MZ1y4fQmK4E
Hafa náð tökum á eldinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2011 | 23:54
Keisarahallir og alþýðuhallir í Berlín og Reykjavík
Þegar ég var unglingur var ég í Myndlistaskólanum í Reykjavík í Ásmundarsal á kvöldnámskeiðum að vetri til. Ég þurfti að fara yfir myrkvað Skólavörðuholtið til og frá skólanum. Þá var Hallgrímskirkjan í smíðum, ég reyndar tók ekki eftir því, ég tók bara eftir dimmu og draugalegu byggingarsvæði sem ég skynjaði sem rústir, sem athvarf stigamanna og ribbaldalýðs. Frænka mín var rænd þarna einu sinni og ég heyrði mergjaða lýsingu af því hvernig hún varðist bófunum og sleppti ekki veskinu sínu, gott ef hún barði ekki bófana með veskinu og sveiflaði því með fimi í kringum sig.
En ég var ekki frænka mín og ég fór alltaf í huganum yfir hvernig ég ætti að verjast, eða öllu heldur flýja af vettvangi ef á mig yrði ráðist þarna í myrkrinu áður en ég lagði í að ganga gegnum svæðið niður að strætóstöðinni við Hlemm þar sem ég svo beið úti í kuldanum og hríðinni eftir strætó heim vegna þess að útigangsmenn höfðu lagt undir sig litla strætóbiðskýlið sem þá var á Hlemmi og voru illvígir og hættulegir unglingsstúlkum sem hættu sér þangað inn.
Svo liðu árin og rústasvæðið þarna á Skólavörðuholtinu breyttist í kirkju og ógnarfínt og dýrt orgel kom þar inn sem sagt var að væri stærst og fegursta hljóðfæri sem Íslendingar hafi eignast. Nú eru liðin mörg ár síðan Hallgrímskirkja var tekin í notkun og hún er eitt af kennileitum Reykjavíkur, oddhvass turn og risastórt grátt kirkjuskip blasa við af mörgum stöðum úr borginni. Ég hef tvisvar komið í kirkjuna. Í fyrra skiptið var það þegar dóttir mín fermdist þarna því við bjuggum í Þingholtunum og í seinna skiptið var það þegar snjóflóðin voru fyrir vestan og ennþá var leitað að fólki og um allt Ísland engdist fólk af sorg vegna þeirra sem höfðu fundist látnir og kvíða yfir afdrifum þeirra sem ennþá var leitað. Þá var samkoma í kirkjunni og kveikt á kertum og kirkjan veitti skjól þeim sem grétu.
Ég held að minningar mínar um Hallgrímskirkju þegar hún var í smíðum liti viðhorf mitt til fegurðar hennar í dag. Svona hversdags á ég mjög erfitt með að sjá eitthvað fallegt við kirkjuna en mér finnst hún þó falleg á gamlárskvöld um tólfleytið þegar turninn ber við himinn inn í miðju sprengjuregninu.
Vissulega er Hallgrímskirkja kennileiki og eitt af táknum Reykjavíkur eins og tómu hitaveitudúnkarnir í Öskjuhlíðinni með hattinum ofan á, eins og glerjaða ráðhúsið með mosaveggnum sem sett var niður í Tjörninni í Reykjavík. En ég held ekki að kirkjubyggingin hafi valdið straumhvörfum í kirkjustarfi á Íslandi og ekki hef ég tekið eftir að orgelið stóra og mikla hafi breytt miklu í kirkjutónlist. Reyndar sýnist mér að mikið hafi fjarað undan Þjóðkirkjunni á þeim tíma sem liðinn er frá því að Hallgrímskirkja var reist og sennilega er kirkjan núna tákn um veldi sem einu sinni var, um tilbeiðslu og hugmyndakerfi sem er á undanhaldi og kannski horfið hjá mörgum.
Smán saman tek ég Hallgrímskirkju í sátt og reyndi að segja við sjálfa mig að þetta sé hús með starfsemi sem þjónar samfélaginu en ekki rústasvæði, ekki athvarf bófa og ribbaldalýðs. Það er reyndar alveg sama hvað ég segi oft við sjálfa mig að starfsemin í Hallgrímskirkju þjóni samfélaginu, ég næ ekki að sannfæra sjálfa mig, ég trúi því ekki og ég sé það ekki þannig. Ég sé bara sama rústasvæðið og á unglingsárunum og ég sé líka núna sumt kirkjur og sumt í íslensku þjóðkirkjunni og raunar ýmsum öðrum trúfélögum sem skálkaskjól þar sem hilmt er yfir brotum gegn konum og börnum.
Þegar ég hugsa um Hallgrímskirkju þá hugsa ég ekki um hve öflugt þetta mikla hús hafi verið í trúarlífi Íslendinga eða mikil lyftistöng fyrir kristnihald og hve orgelið dýrmæta hafi göfgað kirkjutónlist í landinu. Hvað veit ég svo sem um það, ekki sæki ég kirkjur nema við jarðarfarir og fermingar. Ég hugsa hins vegar oft um hve mikið rými tómar tröllakirkjur hafa í borgum og hvers vegna ferðamenn skoða kirkjur og hvernig kirkjurnar merkja allt annað fyrir ferðamenn en heimamenn. Fyrir ferðamann í Reykjavík er Hallgrímskirkja ef til vill tákn fyrir borgina og menningu hennar, fyrir mér sem er fædd og uppalin í Reykjavík og hef búið þar nánast allt mitt líf er sama kirkja tákn fyrir framandleika og vald sem reynir að aga mig með því að skjóta upp í loftið táknum um mikilleik sinn.
Turnar og súlur og byggingar sem gnæfa yfir annað eru kennileiti og táknmyndir og stundum finnst mér kirkjuturnar vera risastór möstur eins og til að beina og safna saman allri þeirri orku sem býr í tilbeiðslu og trú margra saman í einn brennipunkt og senda og taka við boðum frá heimi handan heimsins. Í Austur Berlín horfði ég mörg kvöld hugfangin á sjónvarpsturninn á Alexsandertorgi, turninn sem er hæsta bygging Þýskalands og táknmynd Berlínarborgar og hugsaði um hversu mikið hann líktist kirkjuturni og hvort hann hefði ef til vill sömu merkingu og áhrif. Turninn var reistur í Alþýðulýðveldi Þýskalands, kommúnistaríki sem vildi sýna mátt sinn og megin í ríki sem ekki var byggt á trú heldur haldið saman af miðstýrðu valdi, valdi sem útvarpaði til fólksins þeim boðskap sem var stjórnvöldum þóknanlegur.
Glerhjúpurinn við höfnina sem vígður var 13. maí 2011 og hefur verið nefndur tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa er fyrir sumum langþráð menningarhús höfuðborgar. Fyrir mér er þetta klakaklumpur, frosinn í tíma og rúmi, minnisvarði um bankahrun og legsteinn yfir peningaveldi sem sá göfgi íslenskrar höfuðborgar glampa mest í glerhýsi sem sneri mót hafi umvafið lúxushótelum fyrir ráðstefnutúrista en líka musteri og grafhýsi fyrir menningu og lífssýn á mótum tveggja tíma, tákn um hrun einnar siðmenningar, ísblóm sem springur út einmitt þegar ein menning visnar upp og deyr.
Að byggja óperuhús er ekki séríslenskt fyrirbæri, svoleiðis hús eru einn af borgarstólpum nútíma evrópskra borga og það að hið íslenska standi við Atlantshafið og sé úr gleri er ekki tilviljun. Það er ekki staðsett upp á Skólavörðuholtinu þar sem fyrritíma menn sáu fyrir sér hina íslensku háborg og það er ekki steypa eða málmur sem einkennir þetta hús. Harpa er eins og innsiglingarviti í Reykjavíkurhöfn, þetta er hús alþjóðavæðingarinnar, hús þar sem ljósið að utan flæðir inn og það stirnir á glerið, húsið segir við umheiminn "sjáið okkur við erum gegndræp, við hleypum því sem er utan inn" og ef áætlanir ganga eftir þá verður Harpa með sínum sölum umkringt lúxushótelum sem ætlað er að gera út á hinn nýja aðal, erlenda ráðstefnutúrista og erlenda menn í viðskiptaerindum í höfuðborginni þar sem draumurinn fyrir hrun var að búa til alþjóðlega fjármálamiðstöð sem við vitum núna að er annað orð yfir aflandseyju og skjálkaskjól þeirra sem sem skjóta til og frá peningum og sölsa undir sig verðmæti með reiknikúnstum og peningafroðu. Hallgrímskirkja í byggingu var bara hættulegt óreiðusvæði í myrkri og skammdegi, staður þar sam maður gat átt á hættu að á mann væri ráðist af ógæfufólki. Harpa er hins vegar táknmynd fyrir allt sem hrundi og sigurbogi menningar sem trúði á peninga og galdra peningaþyrlunarmanna og alveg eins og sjónvarpsturninn í Austur-Berlín með sínum útsendingarmöguleikum og Hallgrímskirkja með sínu ofurfágaða orgeli er það musteri hljóða og eins konar sýningargluggi sem snýr að heiminum.
Hugurinn hvarflar aftur til Austur-Berlínar þar sem sjónvarpsturninn var byggður á tímum kalda stríðsins þegar Vestur-Berlín var innikróuð og það var metnaður Vesturlanda að tryggja öll aðföng þangað. Berlín er vettvangur og miðja í örlögum Evrópu á tuttugustu öld. Þar er verið að endurreisa gömlu keisarahöllina í Austur-Berlín, kannski er það búið núna. Það er ekki í frásögur færandi að hús hafi verið endurgerð eftir að Berlínarmúrinn féll en það sem er sérstakt við endurbyggingu keisarahallarinnar er þessi endurskrifun á sögunni, sögunni sem sögð er með minnismerkjum og táknum út um alla borg, táknum sem segja hver hefur valdið og hver skal lúta því.
Í Austur-Berlín háttaði nefnilega þannig til að það var ekki tangur eða teitur eftir af keisarahöllinni (Stadtschloss), hún var löngu horfin, hún eyðilagðist í seinni heimstyrjöldinni og leifarnar af henni voru svo fjarlægðar af stjórnvöldum og það sem meira var, það var annað hús þar. Húsið sem var fyrir var Alþingi kommúnistastjórnar, menningarhús GDR áranna, Alþýðuhöllin var það hús nefnt. Alþýðuhöllin var rifin til að koma að eftirlíkingu af keisarahöllinni, Alþýðuhöllin var byggð 1973-1977 og einkenni hennar var málmurinn kópar, gluggarnir voru spegilgler húðaðir úr bronsi. Fyrir mér er bronsið í Alþýðuhöllinni tákn um það iðnaðarsamfélag 20 aldar sem hugmyndafræði GDR byggði á, samfélag þar málmbræðslurnar voru tákn um styrk. Eftirlíkingin af keisarahöllinni er endurritun á sögunni og tilraun til að slétta yfir það sem minnir á kommúnistatímann. Þegar múrinn féll var Alþýðuhöllin dæmd eitruð og henni lokað. Eitrið var hreinsað út (asbest) en samt var ákveðið af hinu nýja sameinaða þýska þingi að rífa húsið og byggja endurgerð af keisarahöllinni, sem væri nákvæm eftirlíking á þrjá vegu að utan en innan frá væri það nýtískulegt hús.
Stórhýsi í borgum eru kennileiki og eru tákn um þann tíma sem þau eru byggð á og það hugmyndakerfi sem valdhafar á byggingartíma aðhylltust. Hús eru líka sigurtákn, valdatákn og stundum ein aðferð til að skrifa söguna. Hús eru ekki eingöngu sú starfsemi sem er í húsunum, hún getur líka breyst. Hvaða hús eru það í Reykjavík sem standa upp úr eins og kennileiti, hvenær eru þau byggð, af hverjum og hvernig endurspegla þau valdið, undir hvaða starfsemi og hvernig líta þau út, hvaða hugmyndafræði endurspegla þau og hvar eru þau staðsett og hvernig hefur hlutverk þeirra breyst?
Tilbeiðsluhúsin eða kirkjurnar eru áberandi en svo eru hótelin (hótel borg, hótel saga, grand hótel) og Moggahúsið gamla og Orkuveituhúsið nýja, Laugardalshöllin og Höfðatorgsturninn og Perlan efst á Öskjuhlíðinni og lengi vel gnæfði Stýrimannaskólinn yfir borginni. Nýlega kom ég til borgarinnar Riga í Lettlandi og sitt hvoru megin við borgarhliðið sá ég fallbyssur sem beint var niður. Leiðsögumaðurinn sagði að þessum fallbyssum hefði Pétur mikli látið koma fyrir eftir að hann hafði sigrað borgina, hann vildi að borgarbúar minntust þess í hvert skipti sem þeir færu um hliðið að þeir hefðu tapað, þeir væru hinir sigruðu og yfirbuguðu.
Ég unni tónlistarfólki á Íslandi alveg þess að hafa aðgang að góðum sölum til tónlistarflutnings í hinni nýju íslensku tónlistar- og ráðstefnuhöll Hörpu og ef ég tryði því að þetta hús væri gert fyrir íslenska menningu og yrði notað fyrir íslenska menningu og yrði alþýðuhöll Íslendinga þar sem allir sem hér eru búsettir eigi athvarf í listum þá myndi ég samgleðjast núna. En ég held ekki að þetta hús sé nein höll alþýðunnar, ég held að þetta sé tákn fyrir samfélag sem tilbiður einkaeignarétt og gróða af peningum sem þyrlað er upp og ég held að þetta sé og verði alltaf eins og fallbyssunar niðurlútu í Riga, til að minna okkur sigruðu á að við erum sigruð, byggt af þeim sem eru sigurvegarar, þeim sem trúa á og treysta í sessi samfélag sem hverfist um auðmagn og peninga. Ég veit ekki betur en standi til að selja þetta hús hæstbjóðanda strax og einhver vill kaupa. Svo er líka Perlan til sölu og ráðhúsið við Tjörnina skröltir hálftómt og eiginlega óþarft núna þegar nánast öll stjórnsýsla borgarinnar hefur flust upp í Höfðatún. Ástandið á Íslandi þremur árum eftir Hrun og Búsáhaldabyltingu er ekki að hér sé annað kerfi en var áður. Það er sjónarspil í gangi, Alþingi talar og talar og hér er margt "með þjóðfundarsniði" og hér er stjórnlagaþing/ráð í gangi, hér er vinstri stjórn. En það er ekki að merkja að neinar strúktúrbreytingar hafi orðið á íslensku samfélagi, það er sama hvað mikið alþingismennirnir tala og tala, þeir eru jafnvaldalausir og áður og stjórnlagaþingið er líka valdalaust. Það sem ræður för er tilbeiðsla á peningum og markaðskerfum sem hverfast um peninga sem hverfast svo og spinna alls konar aukahringi. Í íslensku samfélagi í dag er allt til sölu. Perlan er til sölu. Orkuveituhúsið er til sölu. Harpa er til sölu. Orkufyrirtæki eru til sölu. Fiskveiðifyrirtæki sem ráða yfir kvóta eru til sölu. Jarðir og landareignir eru til sölu. Vatnsréttindi eru til sölu. Eina sem hefur breyst er að nú er allt ódýrara fyrir "erlenda fjárfesta".
Það er í svona samfélagi sem mér finnst Harpa vera eins og fallbyssur úr stríði sem komið hefur verið upp til að minna þá sigruðu á ósigurinn.
Harpa tekin formlega í notkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.5.2011 kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.4.2011 | 14:48
Partur af stærra stríði eða 8340 Land Cruiser jeppar
Ég er þakklát forseta Íslands fyrir að vísa Icesave 3 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur orðið til þess að miklu fleiri tjá sig og setja sig inn í málið en auðvitað líka til að margir tala um málið af tilfinningu og slegið er á strengi múgæsingar. Ég hét sjálfri mér því að reyna hlusta á og skilja rök þeirra sem vilja segja JÁ þó ég hafi verið hatrammur andstæðingur seinasta Icesave samnings og farið með fjölskylduna í blysför til Bessastaða. Það gengur hins vegar ekkert hjá mér að sannfærast af rökum þeirra sem nú vilja segja Já, ennþá finnst mér falskur tónn í rökum um að við þurfum að ljúka samningum til að fá hér inn fjármagn (meiri lán), auka hagvöxt og skapa störf. Í þeirri orðræðu er undirliggjandi ofurtrú á hagvöxt og fjármálakerfi eins og við höfum hingað til búið við, líka bernsk hollusta við ráðamenn og ríkjandi kerfi, svona plástrahugsun og trú á að kerfið sem hrundi sé í eðli sínu gott, þetta sé spurning um að byggja það upp að nýju með minni hnökrum og besta leiðin til þess sé sú að ríkisstjórnir fái aðgang að sem mestum nýjum lánum með sem lægstum vöxtum.
Þegar fyrsti Icesave samningurinn var settur í þjóðaratkvæðagreiðslu 2010 þá var ráðamönnum tíðrætt um hvernig Ísland myndi einangrast í alþjóðasamfélaginu, "Skelfilegar afleiðingar" sagði forsætisráðherra, "Við verðum Kúba Norðursins" sagði þáverandi viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon eins og sjá má í þessu vídeó frá 2010:
Reyndin varð hins vegar önnur. Afstaða Íslendinga að snarfella samninginn vakti gríðarmikla athygli á alþjóðavettvangi og margir heimsfjölmiðlar fjölluðu um málið og útskýrðu frá sjónarhóli Íslendinga. Almenningur víða annars staðar horfði með aðdáun á viðspyrnu Íslendinga, fámennrar þjóðar sem reis upp gegn ofboðslegri kúgun voldugra grannþjóða, kúgun í formi skuldafjötra sem velta átti yfir á almenning eftir hrun fjármálakerfis. Eftir langan tíma varð til nýr samningur, samningur sem er tvímælalaus miklu hagstæðari en fyrri samningur sem stjórnvöld vildu knýja í gegn. Þessi nýi samningur fyrir Kúbu Norðursins er allrar skoðunar verður og ef þetta væri samningur um að Íslendingar greiddu 30 milljarða og þar með myndi þessu milliríkjamáli ljúka þá finndist mér alveg koma til greina að samþykkja hann, vissulega græddi íslenskt samfélag á bankabólunni í mörg ár og það er gott að halda frið við grannþjóðir þó þær noti hryðjuverkalög. Blómlegt atvinnulíf þrífst þar sem viðskipti eru og traust ríkir og við höfum vissulega hagsmuni í að halda áfram viðskiptum við Evrópuþjóðir og styrkja vinabönd þjóða þar. Það falla á ríkissjóð miklar skuldbindingar vegna Seðlabankans og ástarbréfaviðskipta, það eru miklu hærri upphæðir er Icesave.
En Icesave 4 samningurinn er ekki svona. Hann er samningur um að íslenska ríkið og þar með íslenskur almenningur taki áhættu og taki á sig skuldbindingar á því hvernig tekst að selja eigur fallinna banka í Bretlandi, alls konar viðskiptakeðjur sem keyptar voru í glórulausu floppi íslenskra fjárglæframanna sem stunduðu viðskipti með að búa til eigin peninga í pappírdóti sem þeir flæktu fram og til baka. Það er engin hemja að almenningur á Íslandi taki á sig áhættu af slíkum viðskiptum, leyfi afætum að nærast á sér og framlengi með því dauðahryglur kapítalístakerfis sem er í andaslitrunum, kerfis sem er að kafna í eigin spýju. Það væri hins vegar hið besta mál að skoða aftur þennan samning eftir að búið er að gera upp bú föllnu bankanna og ljóst er hvernig málið fer.
Þeir Íslendingar sem segja NEI eru ekki að velta því sem þeir eiga að borga fyrir á alþýðu annarra landa. Þvert á móti þá á ég von á því að NEI frá Íslendingum verði tekið fegins hendi af alþýðu í flestum löndum og þá sérstaklega þeim sem hvað mest sverfur að núna, löndum eins og Grikklandi, Portúgal, Írlandi og Lettlandi og verði þeim hvati til dáða. Það er einmitt það sem stjórnvöld allra ríkja í Evrópu eru hræddust við því þessar kosningar snúast einmitt að hluta til um það að færa völdin til fólksins - frá ríkisstjórnum, frá ríkisstjórnum sem eru svo samflæktar í málið að þær geta ekki leyst vandann, bara velt honum á undan sér, ríkisstjórnum sem reyna í örvæntingu núna að semja um endurfjármagnanir skulda í kerfi þar sem þeir sem skulda mest og þurfa mestan stuðning eru jafnframt þannig að þeir fá sem óhagkvæmust lán og sem hæsta vexti.
Alveg eins og Hrunið hjá okkur og önnur fjármálahrun annars staðar í heiminum koma á stað gríðarlegum tilfærslum á verðmætum þar sem hinir ríkari verða ríkari og hinir fátækari fátækari þá stefnir í það sama um ríki heims eins og einstaklinga - peningakerfið virkar þannig að peningaeignin sogast til þeirra þjóða sem eru ríkar fyrir og það er magnað upp af þeirri trú að það sem ríki sé í ábyrgð fyrir sé traust eign. Ríkin reyna að viðhalda þeirri blekkingu og það sem er núna að gerast í Evrópu er að sameiginlegur pottur Evrópulanda lengir í lánum einstakra ríkja og tekur lán fyrir þau af því þau hafa sjálf ekki lánstraust lengur. Ríkin gefa út ríkisskuldabréf í gríð og erg (íslenska ríkið ætlar einmitt að hemja jöklabréfin þannig) alveg bontlaust bara ef einhver vill kaupa, ríkisskuldabréf sem eru svo endurfjármögnuð reglulega og skuldin bara stækkar og stækkar og verður skattur á komandi kynslóðir.
Það er þessi vítahringur sem verður að rjúfa.
Það verður að horfast í augu við að peningakerfi heims er ekki að virka eins og hvati á viðskipti og velmegun heldur að búa til afætukerfi, kerfi sem skattleggur almenning, ekki bara í núinu heldur líka veltir vandanum á undan sér inn í framtíðina. Pappírar sem ganga kaupum og sölum í formi hlutabréfa, peninga og alls konar verðbréfa eru margfalt meiri og úr takti við raunveruleg verðmæti, gjaldmiðlar þjóða eru ekki tengdir í neitt lengur og sum ríki eins og USA prenta peninga í gríð og erg og eru ekki hótinu betri en bankamenn sem bjuggu til eigin peninga með að vingsa milli sín pappírum. Þetta bóluhagkerfi ríkjanna sem ennþá hefur ekki sprungið byggir á hagvexti, það virkar á meðan allt virðist vera að vaxa og virkar þannig svipað og bankabólan, bólan sem óx á meðan bankarnir uxu og virtust stækka en hjaðnaði og datt niður í ekki neitt þegar ekki var hægt að feika lengur að það var enginn vöxtur, það var ekki nein framleiðni á alvöru vörum og þjónustu að aukast, það voru bara pappírar sem poppuðu upp verðmæti skúffufyrirtækja.
Ég les núna nýjustu grein Gylfa Magnússonar (Kúbu norðursins) og núna eru myndlíkingar hans ekki sóttar einangrað kommúnistaríki eftir hrun heldur í fornöld, í Homer og greinin hans heitir Æseifskviða. Gylfi er þarna eins og í fyrri Icesave málum að reyna að sannfæra fólk um að jánka Icesave. Grein hans er einkar skynsamleg, ég kaupi alveg röksemdir um að lúkning málsins núna snúist aðallega um vexti og hann sannfærir mig um að Icesave sé ekki stórt samanborið við vexti sem Íslenska ríkið þarf að bera. Bara hvert prósentustig í hærri vöxtum þar þýði 30 milljarða. Svo segir hann að við fáum ekkert fé inn í landið til fjárfestinga og svo heldur hann áfram að reikna hvernig minni hagvöxtur mun valda töpuðum þjóðartekjum. Út frá sjónarmiði þeirra sem trúa á það kerfi sem féll og vilja endurreisa sem fyrst sams konar kerfi þá hljóma rök Gylfa ekki illa.
Ég hef hins vegar hér fyrir ofan gert grein fyrir að þetta er bóluhagkerfi sem getur sprungið í höndunum á okkur hvenær sem er, peningaleg verðmæti sem fjárfestar koma með hingað til lands til að komast yfir verðmæti hérna eru partur af öllum þeim bólupeningum sem eru á sveimi í heiminum, pappírum sem engin innistæða er fyrir en haldast í bólunni á meðan almenningur trúir blekkingunni um endalausan hagvöxt og baktryggingar ríkja.
Það eru hins vegar raunveruleg verðmæti hér á landi, náttúruauðlindir, orkuver og fiskimið sem ásókn er í af ýmsum aðilum. Ekki eingöngu af ágóðasjónarmiðum þó þau vegi þyngst heldur líka vegna langtíma öryggissjónarmiða ríkja sem vilja tryggja sér aðdrætti.
Á Íslandi hefur orðið gríðarleg eignaupptaka hjá almenningi í kjölfar Hrunsins og það gerðist ekki síst vegna hinna verðtryggðu og gegnistryggðu lána og á meðan stjórnvöld vörðu hag þeirra sem áttu innistæður í bönkum þá verðféllu raunverulegar eignir fólks bílar og íbúðir gríðarlega en skuldir stóðu í stað. Möguleikar fólks á tekjuöflun og laun lækkuðu líka gríðarlega. En okkur til furðu þá blómstra bankarnir og innlánseigendur raka saman fé gegnum vexti þó að peningar séu ekki settir í neitt. Það er bara einhver jöklakeðja í gangi sem getur ekki gengið nema einhver tíma, bankarnir setja peninga inn hjá Seðlabanka og vaxtastigi er haldið uppi út af hagsmunum jöklabréfaeigenda. Mér virðist þetta vera einhvers konar flétta til að skrapa saman peninga fyrir ríkið til að halda sér lengur á floti. Ef allt væri með felldu þá ættu vextir að hafa lækkað mikið. Vextir ættu að vera komnir nálægt núlli ef hér væri spurning um einhver raunveruleg verðmæti, ekki ennþá eina bóluna, ríkisbólu í stað bankabólu.
Þess vegna hrífa vaxtapælingar Gylfa mig ekki, það er verulega mikið bogið við hvernig fjármálabúskapur ríkja er um þessar mundir, ekki eingöngu Íslands. Ríki eru að búa sér til peninga úr öllu sem þau geta og velta á undan sér sístækkandi skuldaböggum, sum geta það lengur en önnur ef þau eru nógu stór eins og USA. Svona lítið ríki eins og Ísland getur það hins vegar nema í skamman tíma.
Gylfi segir að árið 2008 voru 8.340 Toyota Land Cruiser jeppar á landinu, sem myndu líklega kosta um 80 milljarða króna nýir og mér finnst eins það sé að hans mati ein röksemd fyrir að almenningur á Íslandi eigi að jánka Icesave. Hann nefnir líka tónlistarhús sem dæmi um verðmæti sem nýtast okkur og góðærið skildi eftir. En við erum mörg sem viljum hvorki þessa Land Cruiser jeppa né Tónlistarhúsið Hörpuna, mörg sem myndum ekki sýta það þó jepparnir og tónlistarhúsið væri tekið eignarnámi og boðið Bretum upp í Icesave. Ég sting upp á því sem fyrsta boði í Icesave 4:-) Við getum siglt með glerhýsið í pörtum til Bretlands og sett það upp einhvers staðar við Thames ána:-) Við sem viljum og höfum alltaf viljað öðruvísi lífsstíl en stóra jeppa og auðmannaráðstefnuhöll getum hvorki né viljum nýta þessa hluti til að byggja hér upp blómlegt atvinnulíf og samfélag.
Þetta blogg átti að vera um viðtalið við Michael Hudson sem var í Morgunblaðinu í dag. Það er best að koma sér á þá slóð. Það er alltaf gaman þegar útlendingar virtir í hagfræði segja það sem manni finnst sjálfum en stundum les ég greinar um ástandið á Íslandi eftir erlenda hagfræðinga sem virðast ekki átta sig á sérstökum aðstæðum hérna m.a. ekki á hver gríðarlegur baggi verðtryggingin er nú á skuldurum, þungt farg sem gerði einkaskuldir margra ennþá óbærilegri og hvernig áhættan af því hvað gat farið miður í fjármálakerfi var engin hjá þeim sem áttu að taka áhættuna þ.e. fjárfestum sem áttu einhver tilbúin félög sem gátu bara tapað 400 þúsund kalli þ.e. lágmarkshlutafé þó lánin væru milljarðar á milljarða ofan - en áhættan var öll hjá almenningi, bæði áhættan af því að verðtryggð lán hækkuðu einn daginn upp úr öllu valdi og svo núna á áhættan af því þegar hópur fjárglæframanna sem sjálfur tók enga áhættu að veltast yfir á skuldpíndan almenning sem vissi ekki einu sinni af hvað Icesave væri og þaðan af síður að hann bæri einhverja ábyrgð eða áhættu þar. Og það er vafamál um þessa ábyrgð, vafamál sem aðeins verður eytt með dómsmáli og það er ein röksemdin sem margir hafa fyrir JÁ að málið gæti farið illa, við ættum ekki að taka áhættu á því.
Ég hef alltaf forðast áhættu, ég hef alltaf verið tilbúin til að gera það sem skynsamlegast er í fjármálum en í þessu máli, máli þar sem áhættu af bankakerfi og áhættu á hruni efnahagskerfis var velt yfir á almenning og fólk er hneppt í óbærilega skuldafjötra þá er ég alveg tilbúin til að taka áhættu og hafna samningnum vitandi það að líklega höfði bresk og hollensk stjórnvöld mál. Ekki eingöngu fyrir mig, ekki eingöngu fyrir Íslendinga heldur líka fyrir almenning í öllum löndum, fólk sem er í sömu stöðu og Íslendingar. Þjóðir heims verða að ná samkomulagi um niðurfellingu skulda, ekki bara hjá einstaklingum heldur líka hjá ríkjum. Þetta er ekki eingöngu réttindamál, þetta er einfaldlega besta og raunar eina leiðin sem er fær til að byrja að byggja upp að nýju. Það þarf líka að horfa á "fjárfestingu" og hagvöxt með öðrum augum, með augum sjálfbærni og manneskjulegra samfélaga sem byggjast framleiðslu og virkni á samhjálp og samvinnu en hafna samkeppni og blekkingarleik bóluhagkerfa.
Afstaða Íslendinga í Icesave ætti ekki að mótast af sektarkennd yfir að á einhverjum tíma voru hér 8349 Land Cruiser jeppar. Afstaðan ætti að mótast af því að þetta er partur af stærra stríði og ég vil enda á að vitna í viðtalið við Hudson í Morgunblaðinu í dag. Hann segir:
Partur af stærra stríði
Hudson segir að enginn maður á bandarískum fjármálamörkuðum, sem hann hefur talað við, skilji af hverju íslensk stjórnvöld eru svo áfjáð í að borga háar fjárhæðir til Breta og Hollendinga sem þau skulda ekki. Ég hreinlega fæ ekki séð að ríkisstjórnin hafi haft hagsmuni íslensks almennings í huga þegar sest var við samningaborðið með Bretum og Hollendingum. Engin ríkisstjórn á að skuldsetja almenning og komandi kynslóðir svo mikið að efnahagslegri framtíð þjóðarinnar sé stefnt í voða. Eina skýringin, sem mér dettur í hug, er að einhverjir háttsettir í stjórnkerfinu hafi óhreint mjöl í pokahorninu sem ef til vill kæmi upp á yfirborðið við ítarlega rannsókn á því hvert Icesave-peningarnir fóru. Það er einfaldlega ekki hægt að skýra svo þrautseiga baráttu gegn hagsmunum þjóðarinnar með vanhæfni einni saman.
Hudson segir að illa hafi verið haldið á málum í deilunni við Breta og Hollendinga frá upphafi. Hvers vegna var ekki skipuð nefnd sérfræðinga til að meta greiðslugetu Íslands og íslenska ríkisins? Það er gott og blessað að tala um skuldir ríkja sem hlutfall af landsframleiðslu, en landsframleiðsla greiðir ekki erlendar skuldir. Afgangur á viðskiptum við útlönd greiðir niður erlendar skuldir og áður en samið er um að taka yfir hundraða milljarða króna ábyrgðir og skuldir verður að meta hver greiðslugetan er og haga samningum um endurgreiðslu í takt við hana. Þetta var ekki gert og ég hreinlega get ekki skilið af hverju.
Hvað varðar afleiðingar kosninganna fyrir orðspor Íslands erlendis segir Hudson að fleiri hafi skoðanir en stjórnmála- og embættismenn. Líta má á það sem er að gerast í Evrópu sem einhvers konar stríð sem snýst um það hvort skiptir meira máli, almenningur eða bankakerfið. Eiga ríkisstjórnir að fórna framtíð borgaranna fyrir banka og bankamenn, sem hafa keyrt fyrirtæki sín í gjaldþrot með óheiðarlegum hætti? Mér sýnist ekki fara á milli mála að almenningur í Bretlandi, Írlandi, Grikklandi, Spáni og Portúgal er á þeirri skoðun að óheiðarlegir bankamenn eigi ekki að fá að keyra heilu samfélögin í þrot. Deilan um Icesave er partur af þessu stærra stríði og ef Íslendingar hafna samkomulaginu munu þeir öðlast marga vini í Evrópu og stappa stálinu í þá sem vilja draga úr völdum fjármálakerfisins. Ef Íslendingar beygja sig hins vegar fyrir ósanngjörnum kröfum Breta og Hollendinga er allt eins líklegt að orðspor þeirra í Evrópu skaddist til mikilla muna. Athuga ber líka að mjög áhrifamikil dagblöð eins og hið breska Financial Times og hið bandaríska Wall Street Journal hafa tekið afstöðu með Íslendingum í þessu máli og telja ósanngjarnt að krefja þá um að greiða þessar háu kröfur Breta og Hollendinga. Íslendingar eru ekki vinalausir í þessari baráttu, en þeir gætu misst þá vini sem þeir hafa ef þeir samþykkja Icesave-samninginn.
Skuld sem ekki er hægt að borga verður aldrei borguð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.4.2011 | 23:56
Konan sem villtist í grennd Heklu
"I walked off, and I was taken to Werl after that. That was my trial in Düsseldorf, Mühlenstraße, on the 5th of April 1949. Exactly two years after I watched the fire on the flanks of the burning Mt. Hekla in Iceland, exactly two years."
Ég leitaði í tímarit.is að ummerkjum eftir konuna sem kom til Íslands. Það stendur hvergi neitt um Íslandsferðina nema að hún hafi séð Heklu gjósa. Eins og hún hefði komið gagngert til þess og gosið væri eitt af afrekum hennar. En konan kom hingað 14. nóvember árið áður og Heklugosið hófst ekki fyrr 29. mars. Þá hafði Hekla ekki gosið í meira en eina öld. Hún fer að gosinu 4. apríl. Hvað var hún að gera hingað til lands, ekki gat hún vitað að Hekla myndi gjósa? Kannski hélt hún að 5. apríl væri sérstakur Hekludagur? Því það var 5. apríl 1766 sem Hekla gaus og það var gos sem stóð í tvö ár og var næststærsta hraungos sem orðið hefur á Íslandi síðan landið byggðist, aðeins Skaftáreldagosið var stærra. Hraunin runnu til allra átta, það drundi í fjallinu og svona er gosinu lýst:
Það hófst með miklu vikurflugi og náðu vikursteinarnir, sem voru margir hverjir á stærð við björg, drjúgan spöl frá fjallinu. Vikurfallið var svo mikið að Ytri Rangá stíflaðist. Mikið af vikri barst til sjávar og var hann fiskibátum haustið eftir til mikillar tálmunar. Fiskur upfullur af vikri veiddist úr sæ allt fram á vor. Mest af öskunni barst yfir Norðurland allt vestan frá Hrútafirði og austur í Eyjafjörð. Svo mikil var hún að dimmt varð að dægurlagi og á Þingeyri sá fólk vart handa sinna skil. Búpeningur féll í hrönnum svo að við lá auðn í sumum sveitum.
En þetta er ekki gosið sem konan er komin til að skoða. Hún er er 181 ári seinna á ferð og hún segir ferðasögu sína 14. apríl á kvennasíðu Vísis við hliðina á uppskrift af súkkulaðiköku og haframjölsmakrónum og fyrirsögnin er: "Sólarhring að villast í grennd Heklu. Frásögn frú Mukherji."
Frú Mukherji segir frá því þegar hún fór frá Fellsmúla að Galtalæk og var ferjuð yfir Ytri Rangá og gekk þaðan upp að Næfurholti. Þaðan fór hún ein gangandi upp að hraunstraumnum. Það var bjart veður og Norðurljós blikuðu á himni. Um 11 að kvöldi kom hún að hraunstraumnum sem rann úr suðvestanverðri Heklu og við henni blasti stórkostlegasta sjón. Hún settist niður og skrifar bréf til mannsins sín til að lýsa fyrir honum þeim undrum sem hún er vitni að. Svo leggur hún á stað meðfram hraunstrauminum og ætlar að ganga upp fjallið á milli gíga. Hún var á gangi alla nóttina meðfram hrauninu. Í sjö klukkustundir hélt hún á 10 kílóa hraunsteini en varð að skilja hann við sig. Hún verður lokst að snúa við og eftir langa göngu kemur á veg og svo kom hún að á og stórri hlíð og sér til bæjar. Hún hélt að hún væri komin aftur í Næfurholt en þá var það einmitt í öfuga átt. Henni telst til að hún hafi verið á gangi þarna í 22 klukkustundir.
Í Vísir þann 14. apríl 1947 endar ferðasagan svona: " Þannig hljóðar frásögn Frú Mukherji, sem mun vera fyrsti Indverjinn, sem á Heklu gengur. Annars má geta þess, að frá Mukherji er sannkallaður heimsborgari. Faðir hennar var Grikki en móðir ens og önnur amma hennar ítölsk, sjálf er hún fædd í Frakklandi og nú indverskur borgari. Hún er mjög fróð kona, m.a. í tungumálum og tekur að sér kennslu í t.d. ensku, frönsku og ítölsku."
Og víst var konan heimsborgari. Hún var Savitri Devi. Hofgyðja Hitlers. Hindúatrúboði. Njósnari. Nasisti fram í rauðan dauðann. Prédikari arískrar heiðni. Hún var líka brautryðjandi í dýraverndunarmálum. Hún var fræðimaður, hafði skrifað margar bækur, lesið heimspeki og efnafræði, tekið tvær meistaragráður og svo lokið doktorsprófi í heimspeki. Hún var sannfærð um að FornGrikkir hefðu verið Aríar og það skýrði áhrif þeirra á heimsmenninguna. Hún fór í pílagrímsferð til Palestínu 1929 og kom þaðan sannfærður Nazisti (þjóðernissósíalisti). Árið 1932 fór hún til indlands að leita uppi lifandi aríamenningu. Það var reyndar í tísku frá dögum upplýsingannar að hafna bíblíusögum um uppruna siðmenningar og leita hennar í Indlandi, milli Indus og Gangres fljótanna. Málvísindamenn bjuggu líka til nýja sögu, sögu af menningu hvíts fólks af evrópskum uppruna sem kom frá fjallabyggðum í Asíu og lagt undir sig Evrópu og þýskir menntamenn smíðuðu kenningar um Aría, Hamíta, Mongóla og Gyðinga. Málvísindamaðurinn Parson sýndi að öll mál í Evrópu, Indlandi og Íran væru af sama stofni, stofni Indó-evrópskra mála. Áður hafði verið litið á hebresku sem upprunalega tungumálið.
Það gerðist hún hindúi og tók sér nafnið Savitri Devi sem þýðir gyðja sólargeisla. Hún vinnur við hindúatrúboðið í Kalkútta og verður síðla árs 1937 fyrirlesari á fyrirlestraferðum á vegum þess. Hún varð fyrir miklum áhrifum af Savarkar sem var foringi þjóðernissinnaðra hindúa sem vildu frelsa Indland undan yfirráðum Breta. Savarkar tengdi þjóðernishreyfingu við hugmyndafræði sem sótt var í arfðleifð hindúa. Hann var reyndar líka tengdur ýmis konar terrorisma og sprengjugerð og var ákærður fyrir að hafa lagt á ráðin um morðið á Gandhi 1938. Alla vega kom fram við réttarhöldin að hann sat á hljóðskrafi með morðingjanum daginn fyrir morðið. En rit Savarkar fjölluðu um gullna tíma í sögu Indverja, um Marattaveldið sem stóð 1674 to 1818, um tímann frá því að hinum indóarísku Maröttum undir stjórn ræningjaforingjans Sivaji tókst árið 1674 að brjótast undan yfirráðum múslima sem sátu í Delhi þangað til þeir voru yfirbugaðir af Bretum 1818. Bók Savitri "Warnings to the Hindus" kom út árið 1938. Bókin var þýdd á sex indversk tungumál. Í þessari bók segir Savitri að eina sem sameinar sé hindúismi, það sé ekki til nein sameiginleg indversk menning Árið 1940 giftist hún samherja í lífsskoðunum.
21. febrúar 1949 er Savitri Devi handtekin í Cologne í Þýskalandi. Hún er að dreifa nasistaáróðri. Hún fer fyrir dóm 5. apríl 1949 er dæmd í þriggja ára fangelsi en látin laus eftir nokkra mánuði að kröfu indverskra stjórnvalda og vísað úr Þýskalandi 18. ágúst 1949. Við réttarhöldin er hún ekki beint hógvær, hún ber eyrnalokka með sólkrossinum og heilsar með nasistakveðju.
Í apríl 1953 kemst hún aftur inn í Þýskaland, hún hafði orðið sér úti um grískt vegabréf með nafni sínu fyrir giftingu. Hún fer pílagrímsferð um helga staði í þýskalandi og næstu ár er hún á ferð og flugiog dvelur oft með nasistum.
Savitri Devi: The Woman against Time
Hitler's Priestess: Savitri Devi, the Hindu-Aryan Myth and Neo-Nazism, by Nicholas Goodrick-Clarke. New York, New York University Press, 1998. vii, 269 pp.
Þegar formaður íslenskra nasista og gjaldkeri í Landsbankanum Bernhard Haarde deyr árið 1962 þá skrifar hún undir minningarorð um hann. Hún þekkir líka vel Rockwell (fyrri mann Þóru konu Björgólfs eldri) og ritverkum hennar eru gerð góð skil í tímaritum bandarískra nasista.
Ég veit ekki ennþá hvað hún var að gera á Íslandi, kannski var hún að leita að leyndardómum arískrar menningar, kannski var hún að leita að heimkynnum Veda í heimskautabyggðum, kannski var hún á kafi í pýramídafræðum, hún skrifaði margar bækur um Akhenaten sem var faraó í Egyptalandi. Hún lauk einmitt við eina af þeim bókum þegar hún var á Íslandi. Akhenaten ríkti í 17 ár og er talinn hafa látist árið um 1334 f.kr. Hann reyndi að koma á eingyðistrú í Egyptalandi. Eftir fjögur ár í valdastóli hóf hann að byggja nýja höfuðborg Egyptalands sem helguð var sólguðinum Aten. Varðveist hefur óður til sólguðsins Aten frá þessum tíma. Akhenaten var gleymdur þar til grafhýsi hans fannst. Kannski hafði hún lesið verk Ruthenfords sem líka fór til Íslands (sjá Sólskífa og safngler í Egyptaland
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.4.2011 kl. 12:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.4.2011 | 23:59
Bloggað í tíu ár.
28.2.2011 | 13:46
Byggð á sprungusvæðum og kviksandi
Það hafa orðið stórir jarðskjálftar á höfuðborgarsvæðinu, það hafa orðið þar náttúruhamfarir og það munu verða þar jarðskjálftar og aðrar náttúruhamfarir. Það er raunar afar líklegt að eldgos verði einhvers staðar nálægt Reykjavík og hraun streymi yfir hraun. Það hefur gerst og það mun gerast. Við höfum reist byggð okkar á svæði sem er virkt eldgosasvæði, eyjan Ísland er raunar til orðin vegna möttulstróksins undir Íslandi.
Dýr og fólk geta lagað sig að taktföstum breytingum á umhverfi, að árstíðabreytingum sem koma á fyrirsjáanlegum tíma og á fyrirsjáanlegan hátt. Þannig eru náttúruhamfarir ekki. Það eru samt ýmis konar merki sem við getum notað til að greina að þær séu í nánd og við getum lært af reynslu annarra um hvað gerist og hvað er hættulegast og hvernig á að bregðast við.
Við höfum lært af reynslu hvernig á að styrkja hús þannig að þau þoli jarðskjálfta af ákveðinni stærð og hérlendar byggingarreglur taka mið af því. En því miður þá hefur ásókn í byggingarland verið svo mikið á síðustu áratugum á höfuðborgarsvæðinu að varfærnisraddir um að varasamt sé að byggja á landfyllingum og á sprungusvæðum hafa ekki heyrst. Í jarðskjálfum í Kaliforníu hefur komið í ljós að þeir staðir sem urðu verst úti voru staðir sem byggðir voru út í sjó á uppfyllingum. Það hafa komið fram hugmyndir hjá stjórnmálamönnum um stór byggingarsvæði við ströndina, sjávarsýn er vinsæl og eftirsóknarverð á íbúasvæðum og sum sveitarfélög hafa viljað reisa hafnarsvæði á uppfyllingum (stórskipahöfn á Kársnesi o.fl.) og í Reykjavík voru miklar hugmyndir um lúxusíbúðabyggð á uppfyllingu á Eiðsgranda út frá Ánanaustum.
Hér er blaðagrein úr DV 2000
Fyrirtækið Þyrping lét skipuleggja íbúðabyggð út í sjó, skipulagið minnir dálítið á eyjurnar í Dubai. En svona átti umhverfið að líta út, mökkur af lúxusíbúðum byggðum út í sjó á uppfyllingum þarna í samfloti við alla olíugeymana (hafnarblaðið apríl 2007). Hrunið kom í veg fyrir allar þessar fyrirætlanir.
Það eru samt töluvert miklar byggingar m.a. fjölbýlishús sem reist hafa verið á uppfyllingum við strandlengjuna frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Á jarðskjálftasvæðum erlendis eru slík uppfyllingasvæði eins og kviksandur í jarðskjálftum, eru einhverjar öðruvísi aðstæður hérna?
Það er líka skrýtið að á sínum tíma mátti ekki byggja við Rauðavatn á svæðinu í kringum Morgunblaðshöllina í Hádegismóum út af misgengi í jarðlögum, þetta væri sprungusvæði. Svo virðist af einhverjum ástæðum sem ég skil ekki sprungurnar hafa horfið úr umræðunni og svæðið skipulagt án nokkurrar umræðu um það. Þegar byggja átti Árbæjarlaugina kom í ljós 1 metra breið sprunga í klöppinni sem mun liggja í gegnum alla Reykjavík og var laugin færð til.Er einhvers staðar til kort af hvar þessi sprunga og aðrar sprungur sem vitað er um liggja?
Árið 1982 þegar Davíð Oddsson braust til valda í Reykjavík og sigraði þáverandi meirihluta var aðalkosningamál hans nýtt hverfi við Grafarvog í staðinn fyrir fyrirhugaða byggð á hinu hættulega sprungusvæði við Rauðavatn. Í blaðagrein 30. apríl 1981 segir Davíð það óðs manns æði að byggja á sprungusvæði. Það er því kaldhæðni örlaganna að núna vaki sami Davíð yfir Reykjavík í fjölmiðlamusteri sem byggt er á þessu sama sprungusvæði og í kring búa þúsundir manna í fjölbýlishúsum.
Það er líklegt að einhverjar byggingar í Reykjavík séu byggðar beint yfir sprungur og einhverjar byggingar eru byggðar á uppfyllingum sem munu fara á ferð ef mjög stór skjálfti verður. Það er hægt að koma í veg fyrir að fólk slasist og deyi í náttúruhamförum ef nógu vandaður undirbúningur er og upplýsingum er miðlað til fólks.
Jarðskjálfti í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.2.2011 | 12:58
Konur, kvóti og kæfð umræða
Í dag er haldin ráðstefna á vegum Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og Hafrannsóknarstofnunar, ráðstefna um lifandi auðlindir hafsins og langtíma stefnumótun og aflareglur. Það eru fjórtán fyrirlesarar á ráðstefnunni, allt eflaust valinkunnir sérfræðingar. En það er undarlegt í meira lagi að allir fjórtán fyrirlesararnir eru karlkyns. Eiginlega sérstaklega undarlegt vegna þess að núna er Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu stýrt af stjórnmálaflokk Vinstri-Grænna sem hefur í stefnuskrá sinni að vera femínískur flokkur. Rödd Steingríms J. Sigfússonar formanns VG hljómaði kraftmikil til mín af sjónvarpsskjá í gærkvöldi, hann var einmitt þá að lýsa því yfir hve femíniskur flokkur hans væri. Það er skrýtin útfærsla á femínisma, að ráðstefna sem hefur framtíðarsýn á annarri af stærstu auðlind þjóðarinnar sem þema í næstum öllum erindum skuli vera þannig skipuð að rödd helmings þjóðarinnar heyrist hvergi, sé þaggaður niður.
Á næstu misserum og árum verður vonandi hörð umræða og aðgerðir - vonandi aðgerðir stjórnvalda en ef stjórnvöld bregðast þá aðgerðir almennings - um hvernig ráðskast er með, hverjir ráðskast með og hvernig er dreift afrakstri af auðlindum í umhverfi okkar, auðlindum sjávar og auðlindum orku. Til langs tíma litið og miðað við nýtingu sem er í sátt við umhverfi og framtíðarhagsmuni íslensks samfélags sem og allra jarðarbúa er líklegt að samfélagseign og samfélagsyfirráð á auðlindum sé besta og sanngjarnasta leiðin. Samfélag er samsett af mörgum og mismunandi aðilum, konum og körlum á ýmsum aldri, börnum, fólki af mismunandi uppruna, með mismunandi menntun og reynslu og með mismunandi lífsýn. Það er styrkur í fjölbreytni, það er bæði réttlátara og skynsamara að ákvarðanir samfélags séu teknar í sameiningu af sem flestum vegna þess að því fleiri sem leggja í púkk með mismunandi framtíðarsýn og reynslu og sérþekkingu, þeim mun fylltri mynd næst af því sem hugsanlega mun gerast.
Það er þannig í samfélögum að rödd þeirra sterkari og valdameiri drynur hærra en hinna sem haldið er valdalausum meðal annars með að tryggja að þau þegi og geti ekki kynnt sér málefni né tjáð sig um þau eða eigi seturétt við samningaborð. Það er oft tilhneiging til þess að reyna að ná í kyrrþey samhljómi milli voldugra aðila um fyrirkomulag sem tryggir þeim sem eru valdamiklir í dag áfram sömu valdastöðu. Það er auðvelt að halda fólki utangarðs með því að veita því ekki aðgang að upplýsingum eða setja upplýsingar fram á svo flókinn hátt í þannig samhengi eða með aðferðum þar sem aðeins innvígðir geta skilið eða notfært sér gögn og aðeins rödd ákveðinna aðila fær rými.
Það skiptir ekki máli þá að umræðan og málþing séu kölluð áferðarfallegum tískuorðum og sögð vera til að upplýsa og virkja almenning ef engin innistæða er fyrir þeim orðum. Þannig er um marga viðburði sem haldnir hafa verið eftir Hrun, meðal annars á vegum stjórnvalda að þeir eru sagðir vera "með þjóðfundarsniði" og framkvæmdin líkist helst leikþátt sem var ágætlega fyrirfram æfður. "Spurningarnar" og "umræðan" fyrirfam æfð, fyrst voru opinberir aðilar að segja eitthvað svo komu fyrirfram undirbúnar spurningar frá þessum og hinum og svo var því svarað á fyrirframákveðinn hátt. Þannig eru atkvæðagreiðslur á Alþingi Íslendinga því miður oft, þær eru leikþáttur sem stjórnvöld spinna fyrir fólk, svona lýðræðissýning en stjórnvöld keyra mál í gegn og dettur ekki í hug að hafa atkvæðagreiðslu nema tryggt sé hvernig hún muni fara. Alþingi er einhvers konar stimplunarstofnun, mest fyrir lög sem hingað koma frá Evrópusambandinu en einstaka sinnum fyrir annað eins og Icesave. En þaðan á niðurstaðan líka að koma tilbúin frá Evrópusambandinu. Því er haldið fram að niðurstaða í Icesave sem þóknanleg sé EBE sé aðgöngumiði þangað inn. Alla vega er það augljóst að það er ekki þóknanlegt EBE að það sé gert opinbert í málaferlum að ríkisstuðningur við fjármálakerfi Evrópu sé á brauðfótum.
Ef stjórnvöldum á Íslandi er alvara með því að hér eigi almenningur að hafa einhver völd þá gerist það ekki nema með vökulu auga á því hvað raunverulega horfir til meira lýðræðis og með því að beita aðferðum til þess að virkja almenning til að taka þátt og tjá sig og koma að ákvörðunum um samfélagið. Það gerist ekki með því að kæfa allar gagnrýnisraddir, leyfa engar breytingar á hvernig ákvarðanir eru teknar og með því að vettvangar sem varða okkur öll eins og framtíðarsýn varðandi fiskveiðar séu skipaðir á einsleitan hátt og þar séu áfram þaggaðar raddir ákveðinna hópa.
Jóhanna forsætisráðherra notar oft orðatiltækið "skelfilegar afleiðingar". Núna þegar seinni þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave stendur fyrir dyrum þá notar hún það um hina miklu hættu á því að almenningur á Íslandi taki þátt í að vega og meta hvernig eða hvort hrun fjármálakerfis eigi að lenda á almenningi bara af því að breskir og hollenskar ríkisstjórnir í paníkástandi ákváðu að bjarga sínu bankakerfi- og að meiri hluti almennings á Íslandi komist að niðurstöðu sem Jóhönnu finnst óskynsamleg í ljósi upplýsinga sem hún hefur og almenningur hefur ekki. Við skulum ekki gleyma að Jóhanna sem vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu var sjálf þátttakandi í þeirri ákvörðun íslenskrar ríkisstjórnar að binda bankainnistæðugreiðslur við kennitölur (þ.e. Íslendinga) og þeirri ákvörðun að styðja við bankakerfið þannig að innistæðueigendur (ekki bara einstaklingar) héldu öllu sínu, meira segja þeir sem höfðu fé í áhættusjóðum (Sjóður 9) fengu mestanpartinn til baka. Jóhanna var þátttakandi í ríkisstjórn/um fyrir og eftir hrun sem hygluðu fjármagnseigendum og vernduðu hagsmuni þeirra en kipptu fótunum undan skuldurum, kipptu svo rækilega fótum undan heilli kynslóð af ungu fólki á Íslandi að núna eru margar barnafjölskyldur á vonarvöl, eiga ekkert nema skuldirnar og lifa á bónbjörgum frá opinberum aðilum og hafa ekki einu sinni tök á að búa í eigin húsnæði þó þær eigi þær að nafninu til. Það kann vel að vera að seinna verði í dómsmálum sem höfðuð verða af kennitöluleysingjum muni þessar stjórnvaldsákvarðanir verða dæmdar brot á stjórnarskrá og alþjóðlegum samningum. Ég tek þetta sem dæmi til að sýna hve valt er að treysta því að stjórnvöld taki réttar ákvarðanir, allra síst stjórnvöld sem reyndu hvað þau gátu að leyna ástandinu fyrir eigin þegnum og umheiminum, alveg fram á seinasta dag þegar ekki varð hjá því komið að grípa í skyndingu til neyðarráðstafana.
Það hefur ekki skelfilegar afleiðingar að hugsandi fólk taki þátt í ákvörðun sem varðar framtíð íslensks samfélags, taki þátt í því með ríkisstjórn og þingmönnum sem því miður hafa ekki verið þess megnugir að taka skynsamlegar ákvarðanir - fyrir hrun vegna þess að stjórnvöld voru klapplið og dráttardýr fyrir ófyrirleitna fjármálamenn sem óðu um lönd með gripdeildum - og eftir hrun vegna þess að stjórnvöld eru máttvana þrælar fjármálakerfis voldugra grannþjóða og voldugra fjölþjóðlegra viðskiptablokka - og meta en eins og fyrir Hrun - afrakstur vinnu sinnar í hvernig "credit rating" íslenska ríkið hefur og hversu vel gengur að laða hingað fé fjárfesta í gróðahug.
Þessi kóun íslenskra stjórnvalda eftir hrun með kerfi sem löngu er úrsérgengið hefur haft skelfilegar afleiðingar, það hefur skelfilegar afleiðingar að stjórnvöld stilli sér uppi með þeim sem eiga fjármagn á móti þeim fátæku, á móti þeim sem skulda og eru reyrðir í skuldafjötra. Það hefur hefur líka skelfilegar afleiðingar að einhverjir geti í krafti einhvers valds sem þeir taka sér með slægð og svikum slegið eign sinni á auðlindir samfélags og gert það með því að ferðast um myrkviði reglna og manngerðra völundarhúsa sem þeir hafa látið búa til fyrir sig þannig að þeir einir geti ratað um og komist þar áfram. Fjármálakerfi og lagalegt umhverfi, ekki síst hvað varðar eignarrétt og leyndarhyggju virka oft eins og stoðir undir gripdeildir og rán þar sem bjargráðum samfélags er stolið og völdin eru soguð burtu frá nærsamfélaginu.
Það hefur skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag ef ekki verður horfið af þeirri braut sem stjórnvöld hafa fylgt undanfarna áratugi, þeirri braut að hlusta aðeins á örfáa einstaklinga í samfélaginu og telja sig vera í vinnu hjá þeim við að greiða götu þeirra. Á sínum tíma voru þessir örfáu nokkur ættarveldi sem sendu fulltrúa sína á þing og/eða veittu fé til þeirra og til fjölmiðla til að tryggja að rödd þeirra heyrðist og hagsmunir þeirra væru varðir. Þetta var vont og óréttlátt í einangruðu eyríki en þetta var beinlínis feigðarflan í alþjóðlegu fjármálaumhverfi þar sem þessir örfáu döguðu uppi eins og þursaflokkur sem var bæði leiksoppar og leppar fyrir erlenda aðila sér margfalt voldugri og framsýnni.
17.2.2011 | 06:52
"Við á brún hengiflugsins"
Í gær var dómsdagur. Það var dæmt í máli níumenninganna sem ásökuð voru um að ráðast á Alþingi og innan Alþingis voru greidd atkvæði um síðustu útgáfu af Icesave "samningi". Atkvæðagreiðslan var viðhafnarsýning, útvarpað og sjónvarpað frá Alþingi og fjölmiðlar á vakt. Þetta var svona skrautathöfn þessi atkvæðagreiðsla, svona eins og til að sýna að hér væri gott stjórnarfar, hér væri hlustað á alla og lýðræðisleg umræða og þingmenn, fulltrúar almennings tækju ábyrgar og yfirvegaðar ákvarðanir. En umræðan skipti engu máli, það var löngu búin að ákveða hvernig þessi atkvæðagreiðsla átti að fara. Svona svipað og með allar eða flestallar atkvæðagreiðslur á Alþingi. Þær eru svona rútína, mestanpartinn stimplun á stöffi sem kemur frá Evrópusambandinu og svo restin það sem ríkisstjórnarmeirihluti hvers tíma keyrir í gegn, annað hvort með afli meirihluta sem kúgar minnihluta eða með hrossakaupum og möndli að tjaldabaki.
Atkvæðin fóru eftir flokkslínum. Sjálfstæðismenn, Vinstri grænir og Samfylking með, Framsóknarmenn og Hreyfingin á móti. Sumir gerðu grein fyrir atkvæði sínu. Einn Sjálfstæðisþingmaður að norðan, fyrrum aðstoðarmaður Geirs Haarde og sjálfur gerandi í bankakerfinu eins og margir aðrir Sjálfstæðismenn sagði að þetta væri samningur milli fullvalda þjóða. Svo voru nokkrir sem spáðu fyrir um hvernig dómsmál myndi fara og hættu á að tapa því. Forsætisráðherra talaði um "skelfilegar afleiðingar", sama orðalag og hún hafði notað um aðra Icesave samninga og Sjálfstæðisþingmaður úr Vestmannaeyjum taldi sig geta spáð fyrir um niðurstöðu dómsmáls, hún yrði ekki Íslendingum í hag . "Auðvitað mun Evrópubandalagið ekki leyfa það" sagði hann. Framsóknarþingmaður sagðist sitja hjá því hann mæti að ólíklegt væri að dómsmál myndi vinnast vegna þess að "allt fjármálakerfi í Evrópu sé undir". Einn Sjálfstæðisþingmaður notaði samlíkingu um að þó hann mæti áhættuna litla á að allt færi á versta veg þá væri þetta eins og að ganga með barnabarnið sitt á gljúfurbarmi, hann gæti ekki tekið þá áhættu.
Þessi myndræna málnotkun "Við á brún hengiflugsins" er liður af kreppumálfari valdhafa. En ég held að það hengiflug sé ekki til nema í huga þeirra sem hafa einhverju að tapa á því að núverandi valdakerfi leggist af. Með valdakerfi á ég ekki eingöngu við lögformlegt vald eins og stjórnvöld og dómstóla heldur kannski frekar reglur um hvernig verðmæti eigi að dreifast um samfélög og hvernig þær reglur og verkfæri til að framfylgja þeim eru farnar að lifa sjálfstæðu lífi, slitnar úr tengslum við raunveruleika. Þessar reglur og verkfæri sem oftast nær eru einhvers konar forskriftir um hvernig verðmæti mæld í peningum eigi að dreifast voru kannski skynsamlegar og hagnýtar á einum tíma en passa illa við þá heimsmynd og það framleiðslu- og athafnalíf sem við stefnum inn í. Sumar af þessum reglum eru helg vé, reglur um eignarrétt, heilög lögmál um framboð og eftirspurn og lífsgæði sem felast í neyslu, dýrkun á excelskjalahagvexti og reglur um punkta og umbunarkerfi í peningum sem þegnar þjóðfélagsins og framlag þeirra er metið eftir. Það er ef til vill skynsamlegt að horfast í augu við að þetta kerfi er komið að hruni og þar þjónar ekki hagsmunum neinna til langs tíma að endurbæta það.
Það er nú þannig í heiminum í dag að almenningur sem binst samtökum og tekur til sinna ráða og tekur yfir stjórn á sjálfum sér og sínu umhverfi er ekki á brún hengiflugsins. Öðru máli gegnir um stjórnvöld sem skynja ekki sína samtíð.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.2.2011 | 21:41
Sólskífa og safngler í Egyptalandi
Í 18 daga höfum við fylgst með upprisu alþýðu í Egyptalandi gegn stjórnvöldum og í dag berast fréttir af því að loksins hafi einræðisherrann Mubarak hrökklast frá völdum. Ég fylgist með fréttum á Egyptalandi, núna er Democracynow.org og margir aðrir fjölmiðlar með beina útsendingu. Þúsundir twitterskeyta þjóta um Internetið, í hvert skipti sem ég smelli á refresh þá eru tugir þúsunda nýrra skeyta. Allt hverfist um Tahrirtorgið, þar er táknræn miðja atburðanna í Egyptalandi. Ég held að það hafi alltaf verið ljóst að hverju stefndi en það er því miður frekar óljóst hvað nú tekur við. Margar kollsteypur stjórnvalda skilja eftir sig tómarúm þar sem stríðandi fylkingar sem voru bandamenn í að steypa stjórn berjast hver við aðra um völd. Svo hafa vandamál Egyptalands ekki horfið með Mubarak, það verður ekki til atvinna fyrir alla atvinnulausa á morgun og matur og lífsnauðsynjar lækka ekki í verði. En vonandi verður búið til umhverfi þar sem fólk getur sjálft unnið að því að byggja upp sína framtíð. En það gerist ekki þar sem er stríðsástand og því miður getur verið að ný veikburða stjórn standi ekki undir þeim háu væntingum sem Egyptar hafa núna til betri tíma.
Í dag 11. febrúar eru þáttaskil í sögu Egyptalands og sennilega markar dagurinn líka þáttaskil fyrir Austurlönd nær og allan hinn samtengda heim þar sem geislar frá Egyptalandi berast á örskotsstund á milli heimsálfa og ljósgeislar brotna inn á Internetið, baráttan var ekki háð eingöngu á torgum og með götuvirkjum heldur var líka í vefrýmum og liði var safnað og fylkingum stefnt saman með félagsnetum eins og Facebook og Twitter. Þetta var líka fyrsta baráttan þar sem stjórnvöld lokuðu Internetinu fyrir tugmilljónum og skipuðu samskiptafyrirtækjum að senda út boð og breyta þjónustu sinni. Það er áhugavert að bera saman egypsku byltinguna og frönsku byltinguna. Í báðum tilvikum var byltingin uppgjör við fortíð og liður í umbreytingu nýrra tíma þar sem völdin eru öðruvísi og á annarra herðum og framleiðsluhættir og dreifing verðmæta líka umbylt.
Í dag er hátíðadagur í Egyptalandi, landi sem byggir á fornri menningu og rekur sögu sína meira en 5000 ár aftur í tímann. Frá fornri tíð eru þar mikil mannvirki, pýramídarnir Það er hægt að skoða pýramídana og forna egypska menningu á ýmsan hátt en einn slíkur sjónarhóll er þeirra sem blanda saman dulhyggju og útreikningum, sjónarhóll pýramídafræðinga en ritverk þeirra sýna að ef maður vill komast að einhverri niðurstöðu þá er bara að leita nógu lengi, það er alltaf hægt að finna einhverja útreikninga og tákn og gögn í heiminum sem benda í þá átt sem maður vill og styðja mál manns.
Stærstu og þekktustu minnismerki fornar menningar í Egyptalandi eru pýramídarnir en þar eru líka minni mannvirki eins obeliskur sem voru súlur sem oft voru staðsettar við inngang mustera í Egyptalandi, kannski voru þær sólúr sem bæði sýndu eyktamörk dagsins og árstíðina. Kannski voru pýramídarnir líka risastórar sólskífur auk þess að vera grafhýsi faraóa.
Einn af pýramídafræðingunum sem blandaði saman spádómum og orðum úr biblíunni við útreikninga sína var Adam Rutherford. Hann hafði dálæti á Íslandi og tengdi það þessu grúski. Það er vel við hæfi að rifja upp kenningar hans í dag 11. febrúar, kenningar um sólskífur og geisla sem ná alla leið til Íslands frá Egyptalandi. Adam Ruthenford (1894 - 1974) var höfundur bókar sem kom úr árið 1937 og ber titilinn "Hin mikla arfleifð Íslands" en heitir á frummálinu Iceland's Great Inheritance)
Adam Rutherford kom til Íslands árið 1939 og með honum kom Willian P. Fraser sem mun hafa haft umsjón með bréfaskriftum hans varðandi Ísland. Rutherford mun hafa flutt tvö erindi hérna eitti í Iðnaðarmannahúsinu 25. maí og hitt í Fríkirkjunni á annan í hvítasunnu. Hann flutti Íslendingum líka boðskap sinn í útvarpi 2. júní 1939. Adam var pýramídafræðingur og hann hélt því fram að Íslendingar sem og Norðmenn væru komnir af Dakíum og þeir aftur komnir af Benjamínítum og Gotum sem bjuggu við Dóná en færðu sig norður á bóginn. Rutherford kallar íslenska ríkið frá 1918 Benjamín-Ísland og taldi að Ísland væri ætlað hlutverk sem ljósberi friðarríkis.
Rutherford reyndi að sannfæra samtímamenn sína með vísindarökum, með útreikningum og hann sagði:
"Vér lifum á vísindaöld, sem viðurkennir það eitt satt að vera, er staðist getur gagnrýni vísindanna...að oss skyldi veitast vísindaleg opinberun, þar á meðal vísindaleg birting á sannindum biblíunnar"
Þessa opinberun taldi Rutherford varðveitta í pýramídanum mikla í Egyptalandi. Hann taldi pýramídann ekki grafhýsi og taldi myndletur og inngang og handritið Akbar-Esseman skýra það. Pýramídinn hafi verið hirsla fyrir speki og kunnáttu í ýmsum listum og vísindum og sjálf byggingin spádómur og forspá sem sýni hvað muni gerast. Þannig telur Rutherford að pýramídinn hafi sýnt ýmis atriði í ævi Jesú og sé sá merkissteinn í Egyptalandi sem Biblían (Jesaja 19:19-20) fjallar um.
Rutherford taldi að pýramídinn mikli spái fyrir um marga óorðna hluti og táknmyndir þar sýni ævi Krists á jörðu. Þetta styður hann með það alls konar hornafræðiútreikningum m.a. um Messíasarhorn. Árið 1925 fannst vegvísir í pýramídanum og var Rutherford einn þeirra sem grófu hann upp. Rutherford túlkar hann þannig að ef línur vegvísisins eru framlengdar á yfirborði jarðars sem stefnulínur þá færast þær smán saman í sundur þangað til komið er í rúmlega 4827 km fjarlægð frá pýramídanum en þá hefur bilið milli þeirra náð hámarki sínu og úr því fer að draga saman með þeim þangað til þær að lokum mætast aftur á norðurskautinu.
Staðurinn þar sem bilið er breiðast, er samkvæmt kenningunni brennidepillinn sem vegvísinum er beint að. Með útreikningum má sjá hvernig línur þessar liggja og ef ferill þeirra er markaður á gott landabréf, liggur eyjan Ísland nákvæmlega í þessum brennidepli.
"Vegvísinum er því, líkt og í stóru landmælingaljósi, beint á Ísland" segir Rutherford og kallar vísirinn Íslandsvísirinn en ræmuna sem lendir á milli kallar hann Íslandsrákina. Hún liggur um Ísland um Langanes í austri og Reykjavík í vestri.
Lesa má um kenningar Rutherfords í þessari grein Benjamín í Norðurhöfum (Morgunblaðið 31. maí 1984 123. tölublað bls. 48). Sigrún Gunnarsdóttir reikimeistari birtir (að ég held) þýðingu á riti Rutherford frá 1939 á bloggi sínu, sjá hérna Hin mikla arfleifð Íslands og þar kemur fram kenning um að pýramídinn hafi verið eins konar ljósskífur sem sýndu árstíðirnar og bara tvisvar á ári, í dag 11. febrúar og svo 1. nóvember hafi sólargeislar lent þannig að frá inngangi pýramídans hafi þetta litið út sem stór skínandi vegvísir, hér er textinn:
"Með því að pýramídinn var upphaflega þakinn utan með sléttu og fægðu steinlagi, verkaði yfirborðið á hinum þríhyrndu hliðum pýramídans, öllum fjórum, hvert fyrir sig sem stór endurspeglari sólargeislanna, sannarlega gífurlegar skuggsjár, því að yfirborð þeirra hvers um sig var að flatarmáli hér um bil 22253 m2. Hreyfingar þessara stórkostlegu endurgeislana voru algerlega reglubundnar og gerðu því pýramídann að skínandi sólskífu, er sýndi árstíðirnar. Af þessu var pýramídinn kallaður á fornegypzku Khuti, sem þýðir Ljósin.20) Einn dag að vorinu (11. febrúar) ár hvert og einn dag að haustinu (1. nóvember) lenti endurkast hádegissólargeislanna frá austur- og vesturhliðum pýramídans alveg lóðrétt á norðurbrúnir þeirra, og frá inngangi pýramídans leit þetta út sem stór, skínandi vegvísari. Furðefnið er það, að einungis þá tvo daga ársins, er hádegisendugeislanirnar sýndu þetta vegvísarafyrirbrigði, lá lóðrétta Ijósrákin, er myndaðist út frá endurgeislunum á vesturhliðinni, nákvmlega langs eftir ferli Reykjavíkurgeislans, eins og hann er ákveðinn með landmælingum. Þannig urðu uptökin á ferli Reykjavíkurgeislans uppljómuð og sáust um mikinn hluta Norður-(Neðra-) Egyptalands."
Hér er meira um Rutherford:
Boðskapur Pýramídans mikla . Eftir Adam Rutherford
Rutherford hefði notið sér vel á þeim nýaldartímum sem við lifum á núna og það er gaman að velta fyrir sér hvort hann hefði sett pýramídageislann upp í googlemaps. En það voru margir af samtíðarmönnum hans sem hrifust af hinum dularfullu pýramídum og töldu þá hafa merkingu. Meðal þeirra voru Vottar Jehóva en pýramídafræðin var um tíma hluti af boðskap æðstupresta þar.
Steinarnir í pýramídunum eru núna máðir og hrjúfir og endurkasta engu ljósi í dag sem ljóstra upp um geislarákir sem beint er í eina átt. En ljósið sem berst frá Egyptalandi í dag getur samt orðið safngler sem nær að kveikja bál annars staðar í heiminum.
Milljón Egypta mótmælir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)