Konan sem villtist í grennd Heklu

"I walked off, and I was taken to Werl after that. That was my trial in Düsseldorf, Mühlenstraße, on the 5th of April 1949. Exactly two years after I watched the fire on the flanks of the burning Mt. Hekla in Iceland, exactly two years."

 Ég leitaði í tímarit.is að  ummerkjum eftir konuna sem kom til Íslands. Það stendur hvergi neitt um Íslandsferðina nema að hún hafi séð Heklu gjósa. Eins og hún hefði komið gagngert til þess og gosið væri eitt af afrekum hennar. En konan kom hingað 14. nóvember árið áður og Heklugosið hófst ekki fyrr 29. mars. Þá hafði Hekla ekki gosið í meira en eina öld. Hún fer að gosinu 4. apríl.  Hvað var hún að gera hingað til lands, ekki gat hún vitað að Hekla myndi gjósa? Kannski hélt hún að 5. apríl væri sérstakur Hekludagur? Því það var 5. apríl 1766 sem Hekla gaus og það var gos sem stóð í tvö ár og var næststærsta hraungos sem orðið hefur á Íslandi síðan landið byggðist, aðeins Skaftáreldagosið var stærra. Hraunin runnu til allra átta, það drundi í fjallinu og svona er gosinu lýst:

Það hófst með miklu vikurflugi og náðu vikursteinarnir, sem voru margir hverjir á stærð við björg, drjúgan spöl frá fjallinu. Vikurfallið var svo mikið að Ytri Rangá stíflaðist. Mikið af vikri barst til sjávar og var hann fiskibátum haustið eftir til mikillar tálmunar. Fiskur upfullur af vikri veiddist úr sæ allt fram á vor. Mest af öskunni barst yfir Norðurland allt vestan frá Hrútafirði og austur í Eyjafjörð. Svo mikil var hún að dimmt varð að dægurlagi og á Þingeyri sá fólk vart handa sinna skil. Búpeningur féll í hrönnum svo að við lá auðn í sumum sveitum.

En þetta er ekki gosið sem konan er komin til að skoða. Hún er er 181  ári seinna  á ferð og hún segir ferðasögu sína  14. apríl á kvennasíðu Vísis við hliðina á uppskrift af súkkulaðiköku og haframjölsmakrónum og fyrirsögnin er: "Sólarhring að villast í grennd Heklu. Frásögn frú Mukherji."

Frú Mukherji  segir frá því þegar hún fór frá Fellsmúla að Galtalæk og var ferjuð yfir Ytri Rangá og gekk þaðan upp að Næfurholti. Þaðan fór hún ein gangandi upp að hraunstraumnum. Það var bjart veður og Norðurljós blikuðu á himni. Um 11 að kvöldi  kom hún að hraunstraumnum sem rann úr suðvestanverðri Heklu og við henni blasti  stórkostlegasta sjón. Hún settist niður og skrifar bréf til mannsins sín til að lýsa fyrir honum þeim undrum sem hún er vitni að. Svo leggur hún á stað meðfram hraunstrauminum og ætlar að ganga upp fjallið á milli gíga. Hún var á gangi alla nóttina meðfram hrauninu. Í sjö klukkustundir hélt hún á 10 kílóa hraunsteini en varð að skilja hann við sig. Hún verður lokst að snúa við og eftir langa göngu kemur  á veg og svo kom hún að á og stórri hlíð og sér til bæjar. Hún hélt að hún væri komin aftur í Næfurholt en þá var það einmitt í öfuga átt. Henni telst til að hún hafi verið á gangi þarna í 22 klukkustundir. 

Í Vísir þann 14. apríl 1947 endar ferðasagan svona: " Þannig hljóðar frásögn Frú Mukherji, sem mun vera fyrsti Indverjinn, sem á Heklu gengur. Annars má geta þess, að frá Mukherji er sannkallaður heimsborgari. Faðir hennar var Grikki en móðir ens og önnur amma hennar ítölsk, sjálf er hún fædd í Frakklandi og nú indverskur borgari. Hún er mjög fróð kona, m.a. í tungumálum og tekur að sér kennslu í t.d. ensku, frönsku og ítölsku."

Og víst var konan heimsborgari. Hún var Savitri Devi. Hofgyðja Hitlers. Hindúatrúboði. Njósnari. Nasisti fram í rauðan dauðann. Prédikari arískrar heiðni. Hún var líka brautryðjandi í dýraverndunarmálum. Hún var fræðimaður, hafði skrifað margar bækur, lesið heimspeki og efnafræði, tekið tvær meistaragráður og svo lokið  doktorsprófi í heimspeki. Hún var sannfærð um að FornGrikkir hefðu verið Aríar og það skýrði áhrif þeirra á heimsmenninguna. Hún fór í pílagrímsferð til Palestínu 1929 og kom þaðan sannfærður Nazisti (þjóðernissósíalisti). Árið 1932 fór hún til indlands að leita uppi lifandi aríamenningu. Það var reyndar í tísku frá dögum upplýsingannar að hafna bíblíusögum um uppruna siðmenningar og leita hennar í Indlandi, milli Indus og Gangres fljótanna. Málvísindamenn bjuggu líka til nýja sögu, sögu af menningu  hvíts fólks af evrópskum uppruna sem kom frá fjallabyggðum í Asíu og lagt undir sig Evrópu og þýskir menntamenn smíðuðu kenningar um Aría, Hamíta, Mongóla og Gyðinga. Málvísindamaðurinn Parson sýndi að öll mál í Evrópu, Indlandi og Íran væru af sama stofni, stofni Indó-evrópskra mála. Áður hafði verið litið á hebresku sem upprunalega tungumálið.

Það gerðist hún hindúi og tók sér nafnið Savitri Devi sem þýðir gyðja sólargeisla. Hún vinnur við hindúatrúboðið í Kalkútta og verður síðla árs 1937 fyrirlesari á fyrirlestraferðum á vegum þess.  Hún varð fyrir miklum áhrifum af Savarkar sem var foringi þjóðernissinnaðra hindúa sem vildu frelsa Indland undan yfirráðum Breta. Savarkar tengdi þjóðernishreyfingu við  hugmyndafræði sem sótt var í arfðleifð hindúa. Hann var reyndar líka tengdur ýmis konar terrorisma og sprengjugerð og var ákærður fyrir að hafa lagt á ráðin um morðið á Gandhi 1938. Alla vega kom fram við réttarhöldin að hann sat á hljóðskrafi með morðingjanum daginn fyrir morðið. En rit Savarkar fjölluðu um gullna tíma í sögu Indverja, um Marattaveldið sem stóð 1674 to 1818, um tímann frá því að hinum indóarísku Maröttum  undir stjórn ræningjaforingjans  Sivaji tókst árið 1674 að brjótast undan yfirráðum múslima  sem sátu í Delhi þangað til þeir voru yfirbugaðir af Bretum 1818.  Bók Savitri "Warnings to the Hindus" kom út árið 1938. Bókin var þýdd á sex indversk tungumál. Í þessari bók segir Savitri að eina sem sameinar sé hindúismi, það sé ekki til nein sameiginleg indversk menning  Árið 1940 giftist hún samherja í lífsskoðunum.

21. febrúar 1949 er Savitri Devi handtekin í Cologne í Þýskalandi. Hún er að dreifa nasistaáróðri. Hún fer fyrir dóm 5. apríl 1949 er dæmd í þriggja ára fangelsi en látin laus eftir nokkra mánuði að kröfu indverskra stjórnvalda og vísað úr Þýskalandi 18. ágúst 1949. Við réttarhöldin er hún ekki beint hógvær, hún ber eyrnalokka með sólkrossinum og heilsar með nasistakveðju.

Í apríl 1953 kemst hún aftur inn í Þýskaland, hún hafði orðið sér úti um grískt vegabréf með nafni sínu fyrir giftingu. Hún fer pílagrímsferð um helga staði í þýskalandi og næstu ár er hún á ferð og flugiog dvelur oft með nasistum.  

Savitri Devi: The  Woman against Time

Savitri Devi Archive

 

Hitler's Priestess: Savitri Devi, the Hindu-Aryan Myth and Neo-Nazism, by Nicholas Goodrick-Clarke. New York, New York University Press, 1998. vii, 269 pp.

Þegar formaður íslenskra nasista og gjaldkeri í Landsbankanum Bernhard Haarde deyr árið 1962 þá skrifar hún undir minningarorð um hann. Hún þekkir líka vel Rockwell (fyrri mann Þóru konu Björgólfs eldri) og ritverkum hennar eru gerð góð skil í tímaritum bandarískra nasista.

Ég veit ekki ennþá hvað hún var að gera á Íslandi, kannski var hún að leita að leyndardómum arískrar menningar, kannski var hún að leita að heimkynnum Veda í heimskautabyggðum,  kannski  var hún á kafi í pýramídafræðum, hún skrifaði margar bækur um Akhenaten sem var faraó í Egyptalandi. Hún lauk einmitt við eina af þeim bókum þegar hún var á Íslandi. Akhenaten   ríkti í 17 ár og er talinn hafa látist árið um 1334 f.kr. Hann reyndi að koma á eingyðistrú í Egyptalandi. Eftir fjögur ár í valdastóli hóf hann að byggja nýja höfuðborg Egyptalands sem helguð var sólguðinum Aten.  Varðveist hefur óður til sólguðsins  Aten frá þessum tíma. Akhenaten var gleymdur þar til grafhýsi hans fannst. Kannski hafði hún lesið verk Ruthenfords sem líka fór til Íslands (sjá  Sólskífa og safngler í Egyptaland


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Stutt samantekt: Snarrugluð kona. Þær eru líka til.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 6.4.2011 kl. 09:48

2 Smámynd: Árni Matthíasson

Í Vísi 16. nóvember 1946 má lesa að frú Mukherji hafi komið með e.s. Fjallfossi frá Hull.

Í Morgunblaðinu 8. desember 1946 er þessa auglýsingu að finna: Frú MUKHERJI D-litt tekur nemendur í ensku og frönsku. Annast einnig þýðingar. Upplýsingar í síma 2370.

Í Morgunblaðinu 9. júlí 1947 er svo sagt frá því að frú Mukherji Diðriksson hafi verið meðal farþega með leiguflugvél

Flugfélags Íslands til Prestwick og Kaupmannahafnar 8. júlí.

Árni Matthíasson , 6.4.2011 kl. 13:43

3 identicon

Hér er slóðin á frumsöguna á ensku:

http://www.savitridevi.org/PDF/ATRO_Ch1_Sec10.pdf

(Sagan öll var ekki sögð í Vísi ;)

Þórður Jónsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 14:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband