Bókasafnið í Alexandríu

Bókasafnið í Alexandríu var  stærsta og mikilvægasta bókasafn fornaldar. Það var miðstöð mennta frá 3. öld fyrir Krist þangað til Rómverjar sigruðu Egypta árið 48 fyrir Krist.  Eftir að það var eyðilagt  notuðu fræðimenn í borginni bókasafn í musteri guðsins Serapis og var það  kallað  Serapeum

Bókasafnið í Alexandríu var stofnað og opnað eitthvað  300 fyrir krist. Plútarkos skrifar að Júlíus Sesar hafi í ógáti brennt bókasafnið. Biskupinn af Alexandríu mun svo hafa fyrirskipað að Serapeum væri eyðilagt árið 391 fyrir Krist. Árið 2002 var vígt nýtt bókasafn nálægt staðnum þar sem hið forna konunglega bókasafn stóð.

Bókasafnið var upphaflega skipulagt af Demtrius af Phaleron en hann var lærisveinn Aristotelesar. Bókasafnið var í hverfi konungsins, þar var Peripatos samfélag, garðar, borðstofur, lesstofur, fyrirlestrasalir og fundarherbergi en ekki er vitað með vissu hvernig skipulagið var. 

Bækur í safninu voru upprúllaðir papýrusstrangar. Það var sagt að í bókasafninu í Alexandríu væri öll heimsins þekking samankomin.  Keyptar voru  til safnsins bækur á  bókamessum í Ródos og Aþenu og þekking var dregin af öllum skipum sem sigldu í höfnina, þaðan voru allar bækur teknar  og afritaðar og bókasafnið hélt orgínölunum en sendi afrit aftur til eigendanna. Alexandría var staðsett sem hafnarborg milli austurs og vesturs, alþjóðleg viðskiptaborg, stærsti framleiðandi Papýrus og seinna bóka.  Þarna voru afritaðar bækur fyrir önnur bókasöfn.

 Margir fræðimenn fornaldar komu til Alexandríu. Það er engin leið að vita hvað margar bækur voru í bókasafninu en það er sagt að  Ptolomedus 2 hafi stefnt að því að þar væru 500 þúsund papýrusrúllur.

Ekki er vitað með vissu hvað mikið af bókum safnsins brann árið 48 fyrir Krist en eftir þann tíma voru önnur söfn í borginni mikilvægari, bókasöfnin í musterunum í Mouseion og Serapeum.  Það var vernd á sínum tíma að vera í tengslum við musteri en þegar  Theodosius 1. keisari Rómarveldis bannaði önnur trúarbrögð en kristna trú árið 391 þá var musterunum í Alexandríu lokað.

Myndböndin á þessari síðu eru viðtal við  Brewster Kahle í íslenska sjónvarpinu  og fyrirlestur hans á Ted. Brewster Kahle  kom til Íslands nýlega en hugsjón hans er að þekking heimsins verði sem flestum aðgengileg, hugsjón um að byggja upp bókasafnið í Alexandríu í  tæknimiðla samfélagi nútímans. Ég hrifst af hugsjón hans en ég er ekki viss um að Alexandríubókasafn nútímans sé eingöngu safn af skönnuðum bókum sem settar hafa verið á stafrænt form. Ég held að þekkingu þurfi að brjóta meira upp, ég held að þekking sé í þekkingarsköpuninni sjálfri, í ferlinu,  í tengingum, ekki eingöngu í  afrakstrinum, afrakstri sem er oft eins og skyndimynd eða frosið augnablik af einhverju sem á sér stað í tíma og rúmi. Það er þess vegna sem ég hrífst af Wikipedia og Wikipedía samfélagi (Wikipedians), þar er þekking eins og lífrænn massi í litlum síkvikum einingum sem hægt er að tengja saman á óteljandi vegu með margs konar verkfærum.  

 


Letigarðurinn

Eventide

Þegar ég var barn og brann af útþrá og las í sögubókum um Íslendinga fyrri tíma sem fóru út í hinn stóra heim, heim sem takmarkaðist reyndar í margar aldir við borgina Kaupmannahöfn, þá fylgdi ég þeim í huganum, mig langaði til að drekka í mig visku heimsins undir lindinni á Gamla Garði við Kanúkastræti þangað sem höfðingjasynir frá Íslandi voru sendir en mig langaði líka að slást í för með þeim sem leiddir voru í böndum af yfirvöldum til Kaupmannahafnar til að afplána.

Verstu glæpamenn Íslands voru sendir  á Brimarhólm  og síðar Stokkhúsið  eða Rasphúsið þar sem flestir dóu. Fangelsin þá voru vinnuþrælkunarbúðir, fangar unnu við skipasmíðar, réru á galeiðum og sópuðu götur borgarinnar og voru leigðir út í alls konar erfiðisverk. Einstaka  fangi lifði af vistina og kom aftur til Íslands.

Hafliði sem sem dæmdur var til Brimarhólmsvistar fyrir aðild að Kambsráninu kom aftur til Íslands 1844  og hafði með sér kartöflur sem hann ræktaði í garði sínum á Eyrarbakka en hann hafði vanist þeim mat í fangelsinu því fangarnir  munu hafa haft fátt annað til matar en kartöflur.

fattighus.jpgMér fannst líka hlyti að vera spennandi að vera í Letigarðinum en það var nafn sem ég rakst einstaka sinnum á, oftast í dramatískum frásögnum af fólki sem fór illa fyrir. Nafnið hljómaði ekki svo illa, gat maður ekki legið þar í leti og verið í makindum að spóka sig í letigarðinum, kannski var í þeim garði líka linditré sem varpaði þægilegum skugga ef maður sat þarna við lestur  og reyndi  að ráða í heiminn, var þetta ekki athvarf fyrir þá sem ekki komust inn  á Íslendingakvótanum í lestrarsalina á Gamla Garði? Svo virtist þetta vera líka eitthvað sérúrræði fyrir konur, ekki voru þær á Garði, bara á Letigarði.

En Letigarðurinn var ekki eins og  Gamli Garður þar sem stúdentar gátu legið í leti og sukki í nokkur ár upp á kóngsins reikning heldur var hann vinnuþvingunarstofnun eða vinnuþrælkunarbúðir fyrir fátæka og samastaður í tilverunni fyrir umkomulausa sem ekki áttu í annað hús að venda.  Það er lenda á Letigarðinum var verra en að segja sig til sveitar  eða vera á vergangi.  Orðið er hljóðgerving frá danska orðinu " ladegaarden"  en uppruni þess mun vera landbúnaðarhús þ.e. ekki aðalhúsið á jörðum, kannski er uppruninn sama og orðið hlaða hjá okkur.  Ladegården  við Kaupmannahöfn var fyrst  búgarður við konungshöllina, seinna spítali fyrir sjúka og sára hermenn og svo fátækrahæli fyrir bæklaða hermenn og svo fangelsi og svo vinnuhæli fyrir fátæka og húsnæðislausa og enn síðar nauðungarvinnuhæli fyrir brotamenn.

von_herkomer_the_last_muster.jpgMyndir Hubert von Herkomer af breskum stofnunum sambærilegum og Letigarðurinn hrífa mig. Þær hrifu líka Vincent von Gogh en hann málaði undir áhrifum frá Herkomer og valdi líka að mála hina smáðu og hrjáðu. Hér fyrir ofan er myndin Eventide er frá St.James's Workhouse í Soho og hér til hliðar er The last muster  eftir  Hubert von Herkomer sem er mynd af gömlum uppgjafahermönnum  sem eru á fátækrahæli við sunnudagsmessu.

Letigarðarnir voru hæli þar sem hinum bjargarþrota var safnað saman.  Þannig voru spítalar líka t.d. fyrstu holdsveikraspítalarnir á Íslandi. Það voru fátækrahús þar sem fátækir og sjúkir voru teknir úr umferð. Síðan fórum við inn í tíma þar sem stofnanir voru settar upp í stórum stíl, stofnanir fyrir geðsjúka, stofnanir fyrir fatlaða, stofnanir fyrir aldraðra. Þannig hugsun er á undanhaldi en þó er eins og samfélagsvitundin nái ekki til aldraðra. Ennþá eru byggðar stofnanir og  byggðakjarnar fyrir aldraða, eins konar umönnunarsvæði þó þau séu með lúxús í dag sem var ekki í letigörðunum til forna.

En hvernig ætli lífið hafi verið hjá þeim ógæfusömu sem enduðu á letigörðunum? Komst einhver þaðan burtu? Vandist vistin?

pass_room_bridewell_microcosm.jpg

 Fangelsið á Litla-Hrauni hefur stundum verið uppnefnt  Letigarður  en kannski er meira við hæfi að kalla fangelsið Hafliðagarður eftir kartöflugarðinum á Eyrarbakka þar sem fanginn frá Brimarhólmi varð nýtur þegn og frumkvöðull í  samfélagi og ræktaði þar  kartöflur, færni sem hann bar með sér úr fangelsisvistinni.

Hinn eini sanni Letigarður í Reykjavík stendur við Arnarhól og var byggður á kóngsins kostnað.  Það var reist tugthús á Arnarhóli árið 1764 sem átti jafnframt að vera letigarður fyrir flækinga og landshornamenn.  Fangarnir voru í vinnu hér og þar um bæinn og voru meira segja látnir róa í verstöðvum og unnu fyrir stiftamtmanninn.

Í dag er eins og starfsemin í húsinu hafi aftur breyst í letigarð, ekki þannig letigarð að þar sé ekkert gert, heldur í vinnuþvingunarstofnun fyrir þá sem eru í þjónustu - ekki danska kóngsins, hér er  lýðræðisríki og sjálfstæð þjóð, heldur vinnuþvingun til að gæta hagsmuna alþjóðlegs fjármálakerfis sem löngu er komið að fótum fram. Fangarnir eru ennþá leigðir út í alls konar skítverk.

Meira um letigarða (sem voru reyndar frekar vinnuþrælkunarbúðir):

The Workhouse

Work house

 Poor house

Letigarðurinn í Osló

Bridewell Palace

 

 


 

 

 


Steingrímur þá og Steingrímur nú

Það  hafa verið verið fjórar samkomur/mótmæli eða gjörningar á Íslandi sem marka tímamót. Kryddsíldarmótmælin, Búsáhaldabyltingin, Blysförin að Bessastöðum og svo Tunnumótmælin. Laugardagsmótmælin á Austurvelli voru svo eins konar upphitun fyrir allan þennan aktívisma.

Fyrsta harða og heiftúðuga andspyrnan á Íslandi eftir Hrun voru kryddsíldarmótmælin, þegar hópur ungmenna braut sér leið inn á hótel Borg á gamlársdag 2008 gagngert til að trufla útsendingu á Kryddsíldarþætti sem Sigmundur Ernir stjórnaði og þar sem saman voru flokksleiðtogar að fara yfir stöðuna. þetta var hefðbundinn þáttur á Stöð 2, svona skemmtiþáttur þar sem orðhákur og mælskumaður eins  Steingrímur Sigfússon naut sín jafnan vel. Hér er myndband með smábroti af umræðunni í kryddsíldinni tveimur árum fyrir hrunið,  í árslok 2006 en ekki verður heyrt annað en allt leiki í lyndi, Steingrímur kokhraustur að prútta góðlátlega við Ingibjörgu Sólrúnu um hvort þeirra ætti að verða forsætisráðherra í rauðgrænni samsteypustjórn.

Svona var pólitísk umræða á Íslandi árið 2006, það er ekki laust við að maður fyllist eftirsjá og vilji hverfa til þeirra tíma þegar ágreiningsmálin eru þau ein, hver eigi að vera í brúnni.

En kryddsíldarmótmælin tveimur árum seinna  í árslok 2008 kæfðu rödd Steingríms því mótmælendur rufu útsendinguna enda var það tilgangurinn. Steingrímur var svolítið sár, ég man eftir viðtali við hann þar sem hann kvartaði yfir af hann hefði ekkert fengið að segja, kannski var hann með þrusugóðar og kjarnyrtar blammeringar og skammir á ríkisstjórnina (ríkisstjórn Geirs sem þá lafði ennþá) sem hann ætlaði að slengja fram þegar stradivariusarfiðlukonsertinn væri búinn og kryddsíldarveisluborðið uppdekkað. En kryddsíldin bara súrnaði meira en Sigmundur Ernir og  svo mögnuðust upp mótmæli á Austurvelli í  janúar strax eftir áramótin og það endaði með búsáhaldabyltingu þar sem eldar  brunnu á Austurvelli og norsk jólatré fuðraði upp.

Þá skildi Steingrímur vel fólkið og var einn af því. Hann var líka ansi duglegur fyrst eftir hrunið, stundum fannst mér hann vera sá eini á Alþingi sem var að gera eitthvað og berjast fyrir Íslendinga, hann fór í ferðir til Noregs og hann barðist gegn ofríki Breta og Hollendinga um Icesave gagnvart okkur, ofríki sem allar Evrópuþjóðir tóku þátt í. Steingrímur breyttist úr norðlenskum kjaftaski í hetju fólksins sem barðist og leitaði lausna á sama tíma Geir forsætisráðherra og ráðherrar hans lyppuðust niður og voru sem lömuð og niðurkýld og lúffuðu í stríði þar sem þau höfðu allt að vinna með sókn en engu að tapa.  Ég kunni ágætlega við Steingrím kjaftask, hann var skemmtilegur. Mér fannst hins vegar mikið koma til Steingríms hins hugrakka og athafnasama sem neitaði að taka þátt í að gera ekki neitt stefnu ríkisstjórnar Geirs, Steingríms sem stóð með fólkinu en ekki fjármálalífinu og hagsmunum þess.

En svo fór Steingrímur innanbúðar og varð það sem hann var að prútta um í kryddsíldinni tveimur árum áður, hann varð starfandi forustumaður í ríkisstjórn sinni. Reyndar var hann að nafninu til fjármálaráðherra en við sjáum ekki annað en allan þann tíma sem rauðgræna ríkisstjórnin hefur starfað þá hefur Steingrímur verið aðaldrifkrafturinn í þeirri stjórn. Ekki kemur krafturinn frá Jóhönnu, við höfum á tilfinningu að hún hafi verið á útleið úr stjórnmálum en tekið hið erfiða hlutverk forsætisráðherra að sér einfaldlega vegna þess að innan Samfylkingar var enginn annar sem naut trausts meðal almennings.  Jóhanna nýtur ennþá trausts okkar  og vil höldum að hún sé velmeinandi manneskja sem setur velferðarmál ofan öðru.  það hefur margt gerst til batnaðar með þeirri stjórn sem nú situr þó mér sér fyrirmunað að skilja af hverju hér var ekki strax við Hrunið sett upp þjóðstjórn, neyðarstjórn sem allir kjörnir flokkar/listar áttu fulltrúa í. Þjóðstjórn er líka eini vitræni kosturinn í stöðunni núna.

En það eru þrjú mál sem rauðgræna ríkisstjórnin hefur staðið sig eindæmis illa í. það eru icesave, magma og skuldavandi heimila og einstaklinga.  Það hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með Steingrími þá og Steingrími nú hvernig hann hefur tekið á hlutum. Hann umpólaðist í Icesave málinu og var spurður út í þessa breyttu afstöðu af fjölmiðlum, þá segist hann hafa skipt um skoðun "þegar ég fór að kynna mér málin". Þetta er skrýtið, við höfum líka reynt að kynna okkur málin og hvernig sem við reiknum og spáum og spekúlerum þá fáum við ekki annað séð en að yfir okkur venjulega Íslendinga hafi verið settar stríðsskaðabætur fyrir stríð sem við tókum ekkert þátt í og við eigum að greiða lausnargjald þannig að nokkrar kynslóðir Íslendinga eigi að vera í skuldafangelsi vegna erlendra skulda - á meðan við glímum við að allar eignir okkar gufa upp, atvinnan hverfur og lífskjör versna. Ofan á þetta bætist sú hroðalega aðför breskra stjórnvalda að setja Íslendinga undir hryðjuverkalög.

Svo var það Magma málið.  Steingrímur var soldið á ferðinni í því, ég var í einhverri óskhyggju að vona að hann væri í alvöru að vinna í því að erlend fjármagnsfyrirtæki fengju ekki að bora sig inn í íslenskan orkuiðnað og kaupa hér upp auðlindir íslensku þjóðarinnar. En Steingrímur gerði ekkert nema látast vera að gera eitthvað.  

Þriðja málið eru skuldamál heimilanna. Besta tillagan um hvernig ætti að fara með skuldir var róttæk tillaga okkar Framsóknarmanna sem sett var fram fyrir síðustu kosningar, tillaga um 20% niðurfellingu skulda.  Það hefði verið eins konar endurstilling á fjármálakerfinu. Þetta er tillaga margra hagfræðinga, svona flatur niðurskurður skulda, það var ekki síst nauðsynlegt til að virka sem hvati á hagkerfi sem var botnfrosið...og mikið hefðum við getað orðið stolt á alþjóðavettvangi af svoleiðis aðgerð, það hefði orðið fordæmi fyrir aðrar þjóðir, þetta er eitthvað sem verður að gerast víða um heim, það verður að endurstokka upp fjármálakerfi.

En hver var framkvæmdin? Tillögur Framsóknarmanna þóttu hneykslanlegar, fella niður skuldir!!! kæmi ekki til mála, það ætti að hjálpa hverjum einstökum og skoða málin. Reyndin hefur orðið sú að nánast engum er hjálpað. Aðeins rétt rúmlega hundrað fjölskyldum. Ekki þeim sem er burðarstólpinn í öllum samfélögum,ekki þeim sem voru millistétt í íslensku samfélagi, ungu barnafólki sem núna er öreigar. 

Æ, hvernig læt ég, það er ekki rétt þegar ég segi að engum var hjálpað. Ég gleymi að sumum var hjálpað, hjálpað mjög mikið.  Þannig var strikað yfir skuldir innherja í bönkum, þannig var kerfisbundið bara eins og rútína færðar niður skuldir hjá fyrirtækjum eins og sjávarútvegsfyrirtækjum (sb. nýlegt dæmi um sjávarútvegsfyrirtæki í eigu ættmenna Halldórs Ásgrimssonar) þrátt fyrir að það væri fyrirtæki rekið með miklum hagnaði ári áður. Svo má alls, alls ekki gleyma að  hlúð var að stofnfjárfestum í sparisjóðum og sumum fjármálafyrirtækjum bjargað, sumir segja að það hafi verið vegna pólitískra ástæðna, sumir segja að Steingrímur hafi beitt sér fyrir fyrirgreiðslu til Saga Capital til að bjarga fólki í sinni heimabyggð sem veðsett eigur sína (t.d. bújarðir) til að kaupa einhver bréf í þingeyskum sparisjóði. En Saga Capital fékk eindæma góð vaxtakjör og hefur núna á einhvern undarlegan hátt fært öll fémæti í skjól í annað félag sem heitir Hilda.  Mér skilst að ef Saga Capital hefði orðið gjaldþrota þó hefðu margir bændur og búalið þarna í heimabyggð Steingríms misst aleiguna. Sveitungar Steingríms hafa örugglega sett á hann mikla pressu í því máli, það er ekki spurning. Spurningin er hins vegar hvernig Steingrímur brást við þeirri pressu.   

En Steingrímur þá og Steingrímur nú er ekki bara Steingrímur sem núna ráðskast um Ísland. Annar Steingrímur skrifar samtímasöguna á pressunni, það er Steingrímur Sævarr Ólafsson. Hann skrifar  núna hjartnæman pistil um fjölskyldubyltinguna á Austurvelli, byltingu sem hann tók þátt í gær ásamt öllu hinu góða fólkinu. Kannski var hann að berja á tunnur við hliðina á Óla Birni Kárasyni. Mörgum verður hvelft við þennan pistil Steingríms Sævarss um hverjir séu góðu mótmælendurnir, Eiríkur skrifar blogg um fjölskyldufólk og fasista í frjálslynda flokknum  og segir Sigga pönk vera venjulegan fjölskyldumann, það vitum við nú öll sem höfum fylgst með bloggi anarkistans Sigga pönk, hann er hugsandi, heiðarlegur og góður maður. Svo er Jóhanna Sigurðar líka venjulegur fjölskyldumaður.  Egill Helga analýsar venjulegafjölskyldufólks mótmælabloggið hanns Steingríms Sævarrs  í pistli Hverjir voru að mótmæla?  og Davíð Stefánsson í VG rís upp fyrir sitt fólk og sína fjölskyldu og okkur öll hin Austurvellinga frá fornu fari og skrifar Um fjölskyldufólk á Austurvelli - af gefnu tilefni . Agnar sem er einn aðalaktívistinn fann sig ekki með fjölskyldufólkinu, hann fann reyndar ekki fjölskyldufólkið eins og Steingrímur og fannst bara hið illa hafa mætt til að mótmæla.  Reyndar skilst mér að anarkistar sem Steingrímur telur einhvers konar ekki-fólk hafi rifið fána og hent á eld.

En sá Steingrímur sem núna talar eins og sannur Austurvellingur og lazyboystólaunnandi er enginn stofukommi þó hann hafi lítt sést við mótmælin áður. Steingrímur Sævar var í einni tíð handgenginn þeim sem steyptu okkur í glötun. Hann var spunameistari Halldórs Ásgrímssonar og vann sem pólitískur starfsmaður og ráðgjafi Halldórs í forsætisráðuneytinu. Hann var líka innundir hjá fjölmiðlaveldi Baugspressunar, hann var fréttamaður á Ísland í dag og svo var hann fréttastjóri hjá Stöð 2 einmitt á þeim tíma þegar mesta óstjórnin var í samfélaginu og skarað var að þeim eldi sem brenndi upp Ísland. Hann varð  fréttastjóri stöðvar 2 1. ágúst árið 2007.  Engum sögum fer af því að Steingrímur Sævarr hafi þá stungið á kýlum bankabólunnar enda kannski ekki við því að búast, þú bítur ekki hendina sem fóðrar þig segir máltækið.  

Alveg eins og Steingrímur Sigfússon hafði og hefur mikla ábyrð í íslensku samfélagi þá hafði Steingrímur Sævarr mikla ábyrgð. Það er þannig að ekkert var eins árangursríkt í að hilma yfir að Hrun væri yfirvofandi og þetta væri stóreflis svikamylla og hið samansúrraða þagnarsamsæri og klórbandalag stjórnvalda, fjárglæframanna og fjölmiðla. Fjölmiðlarnir voru í eigu fjárglæframannanna sem hegðuðu sér vægast sagt illa, ráku umsvifalaust þá sem voguðu sér að gagnrýna.

Stjórnvöld höfðu lika spunameistara sem spunnu upp fréttir. Hinn orðhvati Jónas Kristjánsson segir um spunakerlingar og pólitíkska umræðu á mogganum þetta (jonas.is 30.05.2007):

Spunakerlingar
Pólitískur spuni felst í að taka fréttir og spinna þær inn á brautir, sem eru hagstæðar umbjóðandanum. Halldór Ásgrímsson hafði þrjár spunakerlingar til að spinna fyrir sig á vefnum, Björn Inga Hrafnsson, Pétur Gunnarsson og Steingrím Sævarr Ólafsson. Spunakerlingar prentmiðla hafa barizt um, hvort ný ríkisstjórn sé Baugsstjórn eða Þingvallastjórn. Feitasta spunakerling landsins er Morgunblaðið, sem framleiðir svonefndar fréttaskýringar, oft á forsíðu. Þær eiga að framleiða atburði, hanna atburðarásir, en ekki að segja fréttir. Mogginn hannar pólitík, en stundar ekki blaðamennsku.

En ég efa ekki að Óli Björn og Steingrímur Sævarr hafi núna bæst í hóp okkar mótmælenda á Austurvelli af því að þeir eru einlægir í þvi að koma á þjóðfélagsbreytingum og umbótum hérna. Ég hugsa að þeir hafi  tapað mjög miklum fjármunum, margir í þeim hópum sem þeir tilheyra voru þátttakendur í alls konar flækjufyrirtækjum í caymanneyjastíl og sumir verða að borga til baka af   fé sem þeir fengu út úr bönkum í hlutabréfagambl. 

Ég vona að þeir sem stunda einhvers konar fjölmiðlun á Íslandi verði vandari að virðingu sinni en þeir voru árin fyrir hrun en kannski verðum við alltaf að skoða hver á fjölmiðla og átta okkur á því að sagan eða spuninn í fjölmiðlum verður alltaf með hagsmuni eigandans eða þess sem skaffar fé í huga. Það er mjög erfitt fyrir fjölmiðlamenn að standa á móti því, þeir fá reisupassann samstundis. Hér vil ég rifja upp að Árni Snævarr var  rekinn sem fréttamaður frá Stöð 2 árið  2003 fyrir frétt um laxveiði Geirs Haarde í boði Kaupþings. 

Mikill sparnaður hefði verið að því fyrir íslenskt samfélag ef fjölmiðlar hefðu á þessum tíma haft tækifæri til að að rekja og segja frá þessi vægast sagt óeðlilega samkrulli stjórnvalda og fjármálafyrirtækja.  En þeir gátu það ekki. Þeir sem reyndu voru reknir.

Sumum finnst það dæmi um upplausn í íslensku samfélagi að fleiri og fleiri komi á Austurvöll og mótmæli. En ég held að svo sé ekki, ég held að það sé styrkleikamerki að sem flestir láti sig varða hvers konar samfélag við byggjum upp hérna. Við erum sum venjulegt fjölskyldufólk en málið er að það er styrkleiki í því að við virkjum og viðurkennum fjölbreytni í samfélaginu og þær lausnir sem henta fyrir íslenskt samfélag og sem munu koma okkur áfram eru ekki bara lausnir sem gerðar eru af og fyrir það sem Steingrímur Sævarr skilgreinir sem venjulegt fjölskyldufólk, hann lýsir svona í hrifningu hverjir voru við mótmælin í gær:

" Þetta voru ekki háskólanemar, anarkistar og iðjuleysingjar, hvað þá byltingarsinnaðir kommúnistar.  Nei, þetta var fjölskyldufólk.........þetta var vísitölufjölskyldan, fólkið sem kaupir áskrift að Stöð 2, finnst Spaugstofan skemmtileg og er spennt yfir Útsvari og man hvernig Ísland var áður en bjórinn var leyfður. Þetta var fólk sem er seinþreytt til vandræða, fólkið sem á Lazy-Boy stólana, sem á fjölskyldupassa í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn, á hvorki jeppa né smábíl heldur station-bíl, borgar skattana og hlustar á hádegisfréttir Ríkisútvarpsins.  Þetta var „venjulegt fólk“!  Hinn almenni borgari, ekki óróaseggurinn, skemmdarvargurinn, uppreisnarmaðurinn sem stjórnmálamenn geta kennt um ófrið í miðborginni"

Þessi analýsa hans Steingríms Sævarrs á fjölskyldufólki og bullandi fordómar fyrir sumum þegnum íslenskt samfélags er eiginlega bráðfyndin, hún er svo skemmtilega smáborgaraleg og gamaldags.  Ég er því miður búin að senda lazyboy stólinn minn vestur í land, annars sæti ég núna með bros á vör í stólnum og fílaði í tætlur að vera venjulegt fjölskyldufólk.

 


mbl.is Líta mótmælin öðrum augum nú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spólvitlaus Moggaleiðari og plott sem ekki gekk upp

Hér á Íslandi er verið að takast á við Hrun með stórum staf. Þegar bankakerfið brotnaði endanlega niður með látum þá var hokraði hér  ríkisstjórn sem ekki mun komast á spjöld sögunnar fyrir nein afrek, vanhæf ríkisstjórn  Geirs Haarde, spillt ríkistjórn undir forustu Sjálfstæðismanna sem höfðu áratugum saman verið ráðandi aðilinn í  samsteypustjórnum og breytt landinu  í ruslahauga fyrir siðblinda og gráðuga kapítalista. 

Frá því að bankakerfið hrundi hefur opnast fyrir okkur almenningi á Íslandi heimur sem við vissum ekki að væri til. Víst vissum við mörg að hér var ýmsu illa stjórnað og víst vissum við mörg að það er ekkert eðlilegt og það mundi ekki ganga nema um tíma að einhver fyrirtæki græddu einhver ósköp og fólk gæti orðið ríkt bara af því að höndla með bréf í svoleiðis fyrirtækum. Víst vissum við mörg að von væri á niðursveiflu eftir geysileg uppgrip árum saman.  

En aldrei hefði okkur grunað það sem kom upp á yfirborðið eftir að bankarnir féllu, öll sú óstjórn og spilling sem  samofin var  stjórnmálum og atvinnulífi á Íslandi og hafði verið árum saman, aldrei hefði okkur grunað að hér væri skrípalýðræði, að hér dingluðu við völd stjórnvöld   sem voru  handbendi og leiksoppur örfárra fjárglæframanna sem breyttu fjármálalífi og atvinnulífi hérna í spilavíti fyrir sjálfa sig.  

Þegar bankarnir féllu og næstu mánuði þar á eftir var Alþingi ekki með. Við okkur almenningi blasti vanmáttugt og firrt þing þar sem alþingismenn virtust ekki einu sinni vita hvað hvar að gerast. Alþingi Íslendinga hafði verið breytt fyrir löngu í  valdalausa stofnun,  var bara stimpilstofnun sem stimplaði lög sem hér verða að renna í gegn vegna þess að sams konar lög hafa farið í gegn í öðrum Evrópulöndum. Þingmenn á kaupi voru bara að dunda sér við að ræða um þessi lög, bara svona til að blekkja sjálfa sig og almenning á Íslandi þannig að fólk héldi að þingið hefði einhver völd. Það var ríkisstjórnin sem ákvað hvaða lög færu í gegn. Atkvæðagreiðslur voru bara ritúall, bara eins konar helgisamkomur til að láta almenning halda að hér væri einhvers konar fulltrúalýðræði.  En hér  var ráðherraræði undir forustu Sjálfstæðismanna, hér var stjórn sem taldi æðsta og göfugsta markmið að hlú að einstaklinghyggju og gróðafíkn. 

Það brenndist inn í hug okkar mynd af Alþingi Íslendinga   daginn sem almenningur tók stjórnina í sínar hendur, það brenndist inn myndin af einum ungum  Sjálfstæðisþingmanni í ræðustól að mæla ennþá einu sinni fyrir því eina máli sem hann virtist hafa áhuga á og hafði svo ótal oft talað um áður, því  hjartans máli hans að selja áfengi í kjörbúðum. Ríkisstjórnin var að falla, algjört upplausnarástand og stjórnleysi í landinu, atvinnulíf lamað og fjármálakerfi óvirkt.  Myndin af Sjálfstæðisþingmanninum í frelsisham, manninum sem gerir sér enga grein fyrir ástandinu og sem berst fyrir frelsi sem hann skilgreinir svo þröngt að það er bara frelsi borgaranna til að hafa aðgang að vímuefnum er eiginlega bara brosleg, bara fyndið að þegar almenningur loksins náði í gegn með því að berja í potta og pönnur og bjó sig undir að ráðast á Alþingi þá hafi einn Sjálfstæðisþingmaður bara tuðað og tuðað um að það þyrfti nú að fara að selja áfengi í búðum. 

Þingmenn sem berjast fyrir lítilfjörlegum málum á valdalausu þingi eru hins vegar ekki þeir aðilar sem mestum spjöllum ollu. Frá því að bankarnir hrundu hefur opnast fyrir okkur í gegnum fréttir hvað hér var að gerast, hvernig íslensk  samfélag var molað niður innan frá og mergsogið af litlum hópi manna í stjórnmálum og fjármálum. Því miður er það svo að margir sem komu að því eiga rætur í Sjálfstæðisflokknum. Það er raunar það sem við mátti búast, allt vald spillir og Sjálfstæðisflokkurinn var flokkur peningamanna og þeirra sem hafa auðsöfnun og einstaklingshyggju að leiðarljósi. En aldrei hefði okkur grunað að kjörnir fulltrúar fólks á Íslandi tækju með jafnbeinum og óeðlilegum hætti þátt í spilltu og firrtu fjármálalífi og svo margvíslegir valdaþræðir tengdu saman fjárglæframenn í  bankakerfi og þá sem áttu að vera að gæta að hagsmunum íslenskrar alþýðu. Það er því miður svo að aumurlegasta fúafenið þarna er hjá Sjálfstæðisflokknum, þar virðast  mjög margir þingmenn flokksins hafa verið í vægast sagt undarlegum tengslum. Má hér nefna að bæði formaður (Bjarni) og varaformaður (Þorgerður Katrín) og þingflokksformaður (Illugi) Sjálfstæðisflokksins og þáverandi efnahagsráðgjafi forsætisráðherra (Tryggvi þór) virðast öll hafa tengst fjárglæframönnum/bankastarfsemi á hátt sem gerir trúverðugleika þeirra í stjórnmálum að litlu hafandi.  Geir Haarde stýrði  Sjálfstæðisflokknum og Íslandi beint í glötun  og hann gerði það umvafinn af fólki sem hafði misst sjónar á öllu sem heitir siðgæði og ráðdeild.  Við okkur almenningi á Íslandi blasir óstjórnlegt vanhæfi og óstjórn sem ekki varð til á einni nóttu heldur á mörgum áratugum og það eru fleiri stjórnmálaflokkar sem líka bjuggu til hækjur undir stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þar má nefnda bæði Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna. En hvernig sem á málið er horft  þá  verður ekki séð annað en að það hafi verið einbeittur brotavilji Sjáflstæðisflokksins sem braut niður allar hömlur sem hefðu getað stöðvað eða hægt á því sem gerðist. Það er því ekkert að því að þegar við gerum upp hvað gerðist þá leitum við að ábyrgðinni hjá þeim sem hana báru augljóslega og þar er Geir Haarde. Og hann hafði ekki feykst til valda rétt fyrir hrun, fákunnandi um efnahagsmál og innviði samfélagsins. Hér er ferill Geirs Haarde að loknu hagfræðinámi:

Blaðamaður við Morgunblaðið á sumrum 1972-1977. Hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabanka Íslands 1977-1983. Aðstoðarmaður fjármálaráðherra 1983-1987. Skip. 16. apríl 1998 fjármálaráðherra, lausn 28. maí 1999. Skip. 28. maí 1999 fjármálaráðherra, lausn 23. maí 2003. Skip. 23. maí 2003 fjármálaráðherra, lausn 27. sept. 2005. Skip. 27. sept. 2005 utanríkisráðherra, lausn 15. júní 2006. Skip. á ný sama dag forsætisráðherra og jafnframt ráðherra Hagstofu Íslands, lausn 18. maí 2007 en gegndi störfum til 24. maí. Skip. á ný sama dag forsætisráðherra og jafnframt ráðherra Hagstofu Íslands. Gegndi störfum sem ráðherra Hagstofu Íslands til 1. jan. 2008 er hún varð sjálfstæð stofnun er heyrir undir forsætisráðherra. Lausn frá störfum forsætisráðherra 1. febr. 2009.
      Formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1981-1985. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1999-2005, formaður hans 2005-2009." 

Ég vona að Geir Haarde undirbúi málsvörn sína vel og nýti þetta tækifæri til að útskýra fyrir okkur hvers vegna hann varaði ekki við því sem var að gerast og spornaði gegn því löngu fyrr.   Ég held að málshöfðun fyrir landsdómi sé öðrum þræði mál á hendur Sjálfstæðisflokknum og ógnaröld hans sem skildi eftir sig sviðna jörð og málshöfðun gagnvart þeirri vanhæfu stjórnsýslu sem hér var.

Ég held að málsvörn Geirs geti líka verið málsvörn Sjálfstæðisflokksins og hluti af uppgjöri hans við fortíðina en viðbrögðin frá atkvæðagreiðslunni í dag lofa ekki góðu um að það gerist. Raunar finnst mér núna við ennþá lifa í einhvers konar kúgunarsamfélagi, samfélag þar sem skoðanakúgun er, skoðanakúgun þar sem auðmenn og hagsmunagæsluaðilar þeirra standa grimmir gagnvart öllum þeim sem ógna veldi þeirra og sem reyna að byggja sem fyrst upp sams konar kerfi og féll.

 Það er ömurlegt að lesa Morgunblaðið í dag. Það sem hefur gerst er að þingnefnd sem skipuð var eftir bankahrunið til að koma með tillögur um viðbrögð þingsins  lagði til að fjórir yrðu ákærðir og rökstuddi hvers vegna. Í meðförum þingsins var hins vegar greidd atkvæði svo að einungis einn verður ákærður þ.e. forsætisráðherra, sá sem mesta ábyrgð hafði. Hvað er að því?

Leiðarinn í Morgunblaðinu í dag er ótrúlega vondur og skrifaður af heift og blindni á aðstæður. Það er eins og einhvers konar ofsóknir á hendur þeim  Samfylkingar- og Framsóknarþingmönnum sem greiddu atkvæði með því að Geir yrði kallaður fyrir Landsdóm.  En hvað er að því að kalla Geir fyrir dóm? Er það verra en að ákæra 9-menningana fyrir að hafa verið í hópi þeirra þúsunda sem gerðu aðsúg að Alþingishúsinu í Búsáhaldabyltingunni?  Af hverju má ekki ákæra æðsta mann í stjórnsýslu, mann sem var við völd þegar bankarnir féllu? Vissulega hefðu bankarnir fallið, hjá því var ekki komist en af hverju var á tímabilinu 1996 til 1998 haldið áfram á fullu stími í fáránlegum skrípaleik, hvers konar stjórnvöld sem leyfa svoleiðis?

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er látið að því liggja að Samfylkingin hafi svikið með því að hanna ekki atkvæðagreiðsluna þannig að Geir rétt slippi við kæru. Þetta fréttamat Morgunblaðsins segir allt um á hvaða róli það blað er og hvernig atkvæðagreiðslu voru bara ritúall til að friða almenning og eins konar sýningar. Gervilýðræði. Nú vill Mogginn og Sjálfstæðismenn hefnd, rista á hol þá þingmenn sem ekki kusu eins og hefði komið Sjálfstæðisflokknum best.

"Eftir því sem best verður séð var atburðarásin þessi: Þegar Samfylkingunni höfðu borist áreiðanlegar upplýsingar úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að flokkurinn myndi halda sínu striki, hvað sem gerðist, út atkvæðagreiðslurnar um ákærurnar, sá hún sér ljótan leik á borði. Sjálfstæðisflokkurinn hafði tekið sína ákvörðun í ljósi upplýsinga um hvernig staðan væri í þingflokkum Samfylkingar og Framsóknarflokks og flokkurinn hafði treyst sínum heimildarmönnum. "

Þetta er alveg botnlaus leiðari og siðblindur og raunar skemmir heilmikið fyrir æru Sjálfstæðisþingmanna. Eina ljósið sem ég hef séð í nokkur ár hjá Sjálfstæðisflokknum er að þeir voru ekki svo lítilmótlegir að breyta og hagræða sínum atkvæðum eftir því sem kom þeirra mönnum best og nota þau í hrossakaupum. Satt að segja hefði ég búist við því frá Sjálfstæðisþingmönnum og það segir sína sögu um hve mikið álit ég hef á atkvæðagreiðslum og lýðræði í þeirra ranni.

Ég hafði ekki mikið álit á Sjálfstæðismönnum en mér fannst trúverðugt hversu staðfastir þeir voru í að vilja ekki sakfella neinn. Nú les ég hins vegar í leiðara Morgunblaðsins að þetta hafi bara verið plott sem ekki gekk upp.

 


mbl.is Ískalt viðmót á þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau voru í vinnu hjá mér og þér

 39aRikisstjornGHHII

Ég er ekki rekin áfram af hefndarþorsta og þórðargleði. Ég horfi ekki alltaf í baksýnisspegilinn. Ég held að Hrunið hafi verið óhjákvæmilegt og bara tímaspursmál hvernig það yrði hjá örsmáu ríki sem var leiksoppur í alþjóðlegu fjármálaspili, ríki  sem hafði enga  bakhjarla meðal voldugra þjóða og sem ekki gat prentað peninga sem tekið var mark á. Ég held að það sé mikilvægt að horfa til framtíðar og huga að uppbyggingu.

Það er hins vegar engin uppbygging að moka sig dýpra og dýpra ofan í skurði undir  sams konar kerfi og í mörgum tilvikum undir stjórn sömu aðila og hér stýrðu för  fyrir bankahrun  og sáu ekki fyrir hvað væri að gerast. Það verður að gera upp fortíðina til að skilja framtíðina, skilja hvað brást og hvers vegna og hvaða möguleikar eru í stöðunni.  Staðan er þannig að það er best að leggja niður sum kerfi sem brugðust og sem líklegt er að verði til trafala og bregði fyrir okkur fæti í framtíðinni. Þannig er um vinnubrögð og skipulag í stjórnmálum og samspil stjórnmála og athafnalífs. 

Stjórnvöld á Íslandi voru máttvana, fákunnandi  og andvaralaus gagnvart því sem var að gerast í fjármála- og athafnalífi  á misserunum fyrir Hrun og í sumum tilvikum samofin og samsek. Sumir af þeim sem voru ráðherrar þegar Hrunið varð höfðu verið ráðherrar í mörgum seinustu ríkisstjórnum og bera ábyrgð á því hömlulausa umhverfi sem hér var til staðar, umhverfi þar sem stjórnmálamenn dingluðu í spottum fjárglæframanna. Hér efst er mynd af þeirri ríkisstjórn sem hér sat þegar Hrunið varð en þegar skoðað hver ber ábyrgð á stöðunni og hve berskjaldað íslensk þjóðfélag var fyrir atburðum sem voru að hluta fyrirsjáanlegir af þeim sem höfðu sömu upplýsingar og stjórnvöld verður að skoða líka ábyrgð nokkurra síðustu ríkisstjórna, sérstaklega fyrsta ráðuneyti Geirs Haarde og ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar og raunar öll ráðuneyti sem hér hafa setið frá árþúsundamótum.

Stjórnvöld á Íslandi brugðust. Þau réðu ekki við stöðuna þegar fjármálafárviðri gekk yfir hinn vestræna heim. Þau höfðu ekki undirbúið íslenskt samfélag undir slíkt fárviðri og þegar bankarnir féllu og skömmu áður en þeir féllu  þá virðist mér sem áhersla stjórnvalda undir forustu Geirs hafi verið á að bjarga í skjól sem mestu af fjármálaeignum ákveðinna aðila (t.d. sjóður 9 klúðrið) og Geir hafði í forustu stjórnsýslunnar menn sem tengdust fjármálagerningum á hátt sem ekki sæmir embættismönnum (Baldur Guðlaugsson o.fl.)

Margir Sjálfstæðismenn sem sátu í ríkisstjórn þegar Hrunið varð eru svo flæktir inn í hagsmunatengsl og ýmis vensl við aðila í bönkum að trúverðugleiki þeirra er enginn og raunar furðulegt að þau skuli vera kosin á þing aftur.   Margir virðast gerðir út af gömlu ættarveldi til að gæta hagsmuna ættmenna sinna eða einhverra viðskiptablokka.  Íslenskar fjármálastofnanir voru síðustu misserin fyrir hrun  svikamyllur en margir íslenskir stjórnmálamenn voru á sama tíma líka talpípur fjárglæframanna sem settu upp þessar svikamyllur og gættu hagsmuna þeirra. 

Það er lagt til að fjórir ráðherrar verði ákærðir fyrir Landsdóm  og mér virðist það miða sérstaklega við hvaða ábyrgð þessir ráðherrar höfðu í starfi sínu þegar Hrunið varð. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún voru oddvitar tveggja fylkinga í þeirri samsteypustjórn sem hér var þá. Svo var Árni Matthiesen fjármálaráðherra og Björgvin viðskiptaráðherra þegar ósköpin gengu yfir. 

Það er rökstutt í þingtillögunni sem fer til atkvæða í dag hvers vegna og fyrir hvað lagt er til  þessir tilteknu fjórir ráðherrar verði ákærðir. Ég beygi mig undir þann rökstuðning þó ég skilji ekki hvers vegna augum var ekki beint að fleiri ráðherrum. Hvers vegna var t.d. ekki gerð tillaga um að Þorgerður Katrín yrði ákærð? Ég skil það ekki, hún var rétt eftir bankahrunið (á þeim tíma sem virðist hafa verið unnið að því að koma peningum í skjól fyrir ákveðna aðila) á krísufundum með ríkisstjórninni og svaraði m.a. fjölmiðlum (ég man sérstaklega eftir þótta hennar og mótþróa gegn því að hér yrði mynduð þjóðstjórn) en var á sama tíma gift manni sem var einn af stjórnendum í íslenskum banka og sem hafði tekið lán til að kaupa hlutafé í þessum banka. Það er mjög líklegt Þorgerður Katrín hafi búið yfir upplýsingum yfir hve rotið íslensk bankakerfi var og hve mikil svikamylla það var  m.a. í gegnum fjármál eiginmanns síns varðandi eignarhluti og svo var hún að víla og díla um fjármálalega framtíð íslensku þjóðarinnar á sama tíma og fjármál hennar fjölskyldu samslengdust því og mér virðist hún hafi í öllu gengið erinda fjölskyldumeðlima sinna og hafi á örlagastundu komið að ákvörðunum íslensku ríkisstjórnarinnar þegar hún var augsýnilega vanhæf  vegna hagsmunatengsla.

Mér finnst mjög sárt að ein af þeim sem lagt er til að verði ákærð er Ingibjög Sólrún. Það var alltaf draumur hjá mér og mörgum af okkur sem vorum í Kvennalistanum að einhver tíma myndi sú stund renna upp að Íslandi yrði undir forustu Ingibjargar Sólrúnar og við sem þekkjum til hennar og höfum fylgst með henni í stjórnmálum vitum að hún er einlæg hugsjónakona. Hún tiltölulega nýkomin til valda þegar Hrunið varð. En því verður ekki á móti mælt að hún var við völd og hún bjó yfir upplýsingum og var á þeirri vakt sem átti á þeim tíma að vaka yfir íslenskum almenningi.

Það segir sig sjálft að ef ætti að ákæra einhvern fyrir landsdóm fyrir athafnaleysi á þessum tíma þá voru það oddvitar flokkanna sem voru við völd og það eru  Geir og Ingibjörg Sólrún. Ég held að andrúmsloft stjórnmála á Íslandi hafi á þessum tíma verið þannig að stjórnmálamenn kóuðu með  bankakerfi í dauðarússi í örvæntingarfullri tilraun til að lengja líftíma þess og gerðu með því skellinn miklu stærri fyrir íslenskt samfélag.  

Ég held að það sé nauðsynlegt að ákæra þá sem voru í forsvari, vissulega varð kerfishrun sem rekja má til umhverfisaðstæðna sem Ísland réði ekki yfir en stjórnvöld bæði voru illa undirbúin, brugðust illa við og reyndu um langt skeið áður en bankarnir féllu að blekkja bæði íslenskan almenning og umheiminn. 

Við skulum ekki gleyma því að þau sem lagt er til að verði ákærð voru í vinnu hjá íslenskum almenningi einmitt við að stjórna landinu og vaka yfir velferð okkar. 


mbl.is Atkvæði um málshöfðun í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuxnet

 

Tölvuveiran Stuxnet  er í sviðsljósinu núna og hún markar tímamót í nethernaði. Ekki bara af því að umræða um hana er meme í samsæriskenningum sem dreifast um allt Internetið heldur líka af því þetta er flókin tölvuveira sem heldur sig ekki við að rugla og eyðileggja og stela tölvugögnum heldur teygir sig yfir í að stýra vélum og virðist hafa möguleika á að taka yfir tölvutengdar iðnstýringar og stýra þannig umhverfi okkar, stýra t.d.  hvernig orkuver og veitukerfi haga sér. Auðvitað væru yfirráð yfir slíkum vopnum óskatæki þeirra sem fara með hernaði á hendur öðrum, hugsa sér að geta tekið yfir umhverfi andstæðingsins, lamað veitukerfi hans og framleiðsluferli með kóða földum í tölvuormi. Óþarfi að eyða mannafla og sprengiefni í sprengja í loft brýr og jarðgöng, klippa sundur sæstrengi, eyðileggja vatnsból og sprengja upp veitustöðvar þegar hægt er að lauma inn með tölvuormi fyrirskipunum sem lama þessi kerfi og fá óvinina til að gefast upp.  

Þetta er kóði sem getur smitast af usb lyklum og fjöldi tölva með windows stýrikerfi sýktist, hlutfallslega flestar í Indónesíu og Íran. Veiran virkar á sérstakar iðntölvustýringar eða svokölluð    SCADA kerfi  WinCC þ.e. iðnstýringar sem vakta og stjórna ýmsum framleiðslukerfum t.d. orkuverum. Þess má geta að stjórnkerfi  Hellisheiðarvirkjunar er  einmitt Scada kerfi WinCC frá Siemens í Þýskalandi. 

 Nokkuð ljóst er að Stuxnet veiran er hönnuð af kunnáttumönnum sem kunna flóknari smíð en venjulegir hakkarar út í bæ. Samsæriskenningar blómstra um að þessari veira sé gerð að undirlagi ríkis, þetta sé nethernaður og Stuxnet veiran sé vopn í þeirri baráttu, því er t.d. haldið fram að Bushehr-kjarnorkuverið í Íran hafi  verið aðal skotmarkið.  Hellisheiðarvirkjun eða Landsnet voru örugglega ekki aðalskotmark þessa tölvuorms þó þar séu stjórnkerfi sem byggja á sams konar iðnstýringatækni. Það er þannig  reyndar í flestum stórum nýjum iðnverum, þar er allt tölvustýrt og fjarstýrt og alls konar sjálfvirk boð sem ganga á milli stöðva og eininga. Það er hægt að vinna mikinn skaða ef fjandsamlegir aðilar geta endurforritað eða breytt iðnkerfum og gert það án þess að skilja eftir sig spor. 

En það er þetta sambland af sýnileika og að þetta er flókin veira sem dreifir sér á flókinn hátt sem gerð af aðilum sem búa yfir mjög mikilli kunnáttu um hvernig iðnstýringakerfi hegða sér og veira sem sérstaklega miðar á iðnstýringar  sem gerir þessa veiru ógnvænlega og jafnframt áhugaverða.

Í Nytimes grein um veiruna A silent attack but not a subtle one  segir:  

"The malware was so skillfully designed that computer security specialists who have examined it were almost certain it had been created by a government and is a prime example of clandestine digital warfare. While there have been suspicions of other government uses of computer worms and viruses, Stuxnet is the first to go after industrial systems.....While much has been made in the news media of the sophistication of Stuxnet, it is likely that there have been many other attacks of similar or even greater sophistication by intelligence agencies from many countries in the past. What sets this one apart is that it became highly visible. "

Veiran virkar þannig að hún skoðar gagnablokk   DB 890 reglulega í  PLC stýringum sem hún tengist og getur breytt öðrum gagnablokkum án þess að það sjáist.  Veiran notfærir sér veilu í hvernig windows meðhöndlar .lnk skrár og getur smitast af usb lyklum. Hún notar sér líka veilur í "printer spoolers" til að smitast og dreifast milli tölva sem tengdar eru saman í net.  Veiran notar fjórar mismunandi óuppgötvaðar veilur (zero days vulnaribilities) í windows stýrikerfi til að troða sér inn. Hún notar líka  flókið   kerfi í mörgum liðum til að setjast upp í tölvukerfi og fölsuð öryggisskírteini.

Sjá m.a. hér:

Stuxnet Target Speculations

Stuxnet Whitepaper Updated

Stuxnet cleanup tool,  +

 Why the Stuxnet worm is like nothing seen before

 Computer virus in Iran actually targeted larger nuclear facility

IRAN: Speculation on Israeli involvement in malware computer attack

 


Dauðarósir

Dauðarósir er  titill á sakamálasögu eftir Arnald Indriðason,  sögu sem hefst á því að nakið lík af ungri stúlku finnst  á leiði Jóns Sigurðssonar eftir hátíðarhöldin 17. júní. Fjallkonan í þeirri sögu flytur ekki ávarp íklædd skautbúningi heldur er lífvana sprautufíkill sem myrt er af vini sínum sem vill ekki horfa upp á eymd hennar.

Dauðarósir eru líka  dregnar upp í ljóði eftir Jóhann Sigurjónsson, í ljóði hans um annað skáld, um Jónas Hallgrímsson:

Dregnar eru litmjúkar
dauðarósir
á hrungjörn lauf
í haustskógi.
Svo voru þínir dagar
sjúkir en fagrir,
þú óskabarn
ógæfunnar.

Reyndar er afmælisdagur Jóhanns Sigurjónssonar í dag 19. júní, hann fæddist fyrir 130 árum. Jóhann er þekktur fyrir leikrit sín Galdra-Loftur og Fjalla-Eyvindur og ljóð hans Sofðu unga ástin mín og bikarinn eru ennþá sungin og kveðin. Raunar minnir Jóhann með sínar "dauðadjúpu sprungur" og "hyldjúpan næturhiminn" mig á Steinar Braga og kannski er  sakamálasagan sem staðsetur sig á leiði Jóns Sigurðssonar á þjóðhátíðardaginn skrifuð undir sömu skýjaþoku og Himinninn yfir Þingvöllum. Alla vega eru þeir allir Jóhann Sigurjónsson, Arnaldur og Steinar Bragi ofsalega morbid og raunar rekur Arnaldur sögupersónur sínar jafnan á hol enda er sakamálasagan og dauðinn skáldsagnaminni nútímans og partur í þeim sögum er analýsa á líkinu með aðstoð meinalækna og alls konar líkrýna. En líka analýsa á samfélagi og líka speglun höfundar á sjálfum sér og sinni samtíð. Kannski eru höfundar alltaf að segja sögur af sjálfum sér eða fremja einhvers konar galdur og særingar með því að búa til sögur og ljóð af einhverjum staðgenglum sínum. Sögur skálda eru líka oft notuð af lesendum einmitt á þann hátt - til að búa til rými og staðsetja lesandann t.d. rifja upp hetjusögur af forfeðrum eða viðhalda hatri og beiskju í garð einhverra óvina. Kannski geta góðir rithöfundar og skáld líka afhjúpað það sem við eigum ekki orð eða hugtök yfir og getum ekki hugsað um eða talað um.

Það er áhugavert að skoða sögu og samtíma út frá því sem fangar skáldin og hvert sjónarhorn þeirra er eða sögusvið í gegnum verk þeirra. En það er líka hægt að rýna í hvers vegna sjónarhorn þeirra varð svona, hvernig var lífshlaup þeirra, úr hvaða umhverfi komu þau. Það er hægt að skoða sögu  í gegnum skáld og rithöfunda og það eru mikil gögn því þannig fólk skilur eftir sig alls konar pælingar og verk. En það er  líka hægt að skoða sérstaklega ákveðna staði, skoða hvernig sagan endurspeglaðist í staðnum, hvernig staðurinn varð fróakur fyrir einhverjar nýjar hugmyndir eða hvort þar breyttist ekkert öldum saman. Það hefur verið mikið gert af því að skrá sögu þéttbýlisstaða eins og Reykjavíkur.

Það getur  verið að skáldin séu frekar pródúkt af umhverfi sínu  frekar að vera einhverjir snillingar sem pompuðu upp úr grýttri jörð fyrir eigin innri drifkraft. Þannig getur verið að einmitt á mörkum borgarsambýlis og sveitar þ.e. í Mosfellssveit hafi verið frjóakur fyrir skáldjöfur eins og Halldór Laxness að vaxa upp og hann hafi orðið skáld en ekki smiður og bóndi vegna þess að hann drakk í sig skáldsögur Torfhildar Hólm og kannski líka út af því að það var ekki nóg til af smíðaverkfærum og góðu jarðnæði og samfélagið ýtti honum á þessa braut. Það er einkennilega margir af höfðingjasonum á Íslandi sem voru líka skáld. Skýringin er líkast til sú að þeir einir fóru út og til mennta og kynntust skáldskap heimsins og voru í umhverfi sem virti og ýtti undir skáldskap og listir. Þeirra menntun var líka að hluta orðalist og orðræðulist og vegna áhuga Dana og annarra Norðurlandabúa á norrænni menningu þá fengu Íslendingar forskot í að grafa upp fornaldarfrægð og frelsi og manndáð fyrri alda.

Þegar ég fór að pæla í Jóhanni Sigurjónssyni þá fór ég líka að velta fyrir mér uppvexti hans og bænum þar sem hann ólst upp. Hann kom frá Laxamýri í Þingeyjarsýslu. Það er ekki tilviljun að hann kemur frá einu ríkasta býlinu á Norðurlandi, hans meðgjöf inn í skáldheima var Laxamýrarauðurinn sem kom honum til mennta. Það var mikil hlunnindajörð, mikil dúntekja og mikil laxveiði. Á þessum slóðum var háð ein fyrsta umhverfisdeila um virkjanir á Íslandi þ.e. Laxárdeilan.

Annars var jörðin líka þekkt fyrir annað fyrr á öldum  og það var kálfadauðinn. Það væri fróðlegt að heyra álit læknisfróðra núna á þeim undrum. Mér sjálfri finnst líklegast að þarna hafi valdið það að hér var mikil fuglajörð og mikil lífríki og þar verið gróðrarstía ýmissa veira og baktería sem lifa á fuglum og að æðarhreinsun í gripahúsum hafi t.d. getað valdið þessu

Ég læt hér eftir frásögn af Guðmundar Friðjónssonar úr  Morgunblaðinu 1927 um það:

 

mbl. 17. 4. 1927.

Kálfadauðinn á laxamýri.

Vjer stöndum öðrum fæti í landi hjegiljanna eða inni á því svæði, sem kallað er  dulrænt. Landafræðin nær ekki þangað, nje heldur rökfræðin, þó að þær sjeu víðförular  og allskygnar. En stundum rofar í kynjamyndir, helst í ljósaskiftum, á þessum stöðvum.

Og þaðan berst bergmál stundum, sem lætur undarlega í eyrum hversdagsmanna. Vantrúaðir  menn á fyrirburði — jafnvel þeir hafa skemtun af frásögnum, sem heilbrigð skynsemi kallar hindurvitni. peir láta segja sjer þrem sinnum fáránlegar frjettir eins og Njáll gerði. En auðtrúa menn trúa í fyrsta kasti — eða láta liggja milli hluta. frásögnina, einkanlega, þær furðufrjettir,  sem vitnisburðir styðja.

Hjer verður nú sagt frá viðburðum, sem bæði eru furðulegir og sannir, og svo  merkilegir, að betur eru varðveittir frá gleymsku, en læstir niðri í glötunarkistunni. Sjerhver fulltíða íslendingur kannast við Laxamýri í pingeyjarsýslu. Aður en Sigurjón á  Laxamýri og Jú" hann leikritaskáldið, sonur hans, gerðu þenna garð frægan, var bærinn  natntogaður og jörðin annáluð. Bærinn dregur nafn af laxinum, sem þar veiðist í ánni.

Og æðarvarp er þar mjög mikið í eyjum, sem Laxá hefir í faðmi sínum. Þar er töfrafagurt  um að litast, einkanlega á vorin, þegar æðarvarpið er í blóma. Fegurð þess blasir við  augum frá bænum að líta. Og að öðru leyti er fögur útsýn um þessar slóðir. Gróið  heiðarland liggur heim að túninu, og nær niður að engjajaðri, sem liggur í faðmlögum  við túnið. — Engin skuggabjörg nje draugagil íll" heyra þessum stöðvum. Jörðin hefir  burði til þess að heita Sólheimar, Ljósaland eða þvílíku dýrðarnafni,svo bjart er yfir henni.

Þó hafa gerst atburðir að Laxamýri sífelt, næstliðin 100 ár, sem ætla mætti að borið  hefði við í einhverjum forsæludalnum eða undir -'kunp.v björgum hárra fjalla, og segir nú frá þeim í fáum orðum.

Þetta 100 ára tímabil hafa langfeðgar búið að Laxamýri, fyrst Jóhannes Kristjánsson, þá Sigurjón sonur hans og að lokum Egill og Jóhannes synir Sigurjóns, og nú fáein ár synir og ekkja Egils. — Alla þessa tíð, og þar áður um langt tímabil, hefir eigi tekist að ala upp kálfa að Laxamýri, nema einn, eítir því sem jeg hefi spurt. Reynt hefir verið oft, en eigi tekist. Aldurtili allra kálfanna er samskonar. Þeir  fá hrygn  á 1.    eða öðru dægri, froðuvella tekur til að renna úr vitum þeirra, eyrun verða afllaus og á 2. eða 3. sólarhring missa  þeir  líftóruna.

Þegar Jóhann skáld var heima í æsku, var að hans áeggjan alin kvíga, að vorlagi, þegar nóttin var björt. Jóhann batt um háls kvígunnar : ryfspjald, dró kross á spjaldið og letraði á það þessi orð: „Satans óvinirnir verndi þig." Þessi    kvíga    lifði    og   var   kölluð Krossa.  En eigi varð hún langlíf. Henni   var  lógað,   þegar   hún   var  að 2.   eða 3. kálfi. Kýrin var svo óyndisleg í háttum, að heimilisfólkið vildi eigi við hana tæta. Stundum bölvaði hún í básnum eins og blótneyti, krafsaði bælið sitt og reyndi til að slíta sig lausa. Fleiri óhemju kæki hafði Krossa í frammi og að öðru leyti Ijet hún  illum  látum.

Eitt sinn fjekk faðir minn kvígukálf hjá Sigurjóni á Laxamýri, til uppeldis. Sigurjón ljet flytja kálfinn á fyrsta dægri vestur yfir Laxá, í Mýrarselið, sem er beitarhúsakot frá Laxamýri. Það sagði Sigurjón er hann fann föður minn að máli: „Jeg þorði ekki annað en flytja kálfinn burt á fvrsta dægri, þvi það var farið að snörla  í honum." Þessi kvíga lifði nokkur ár, en gafst illa. Sífelt bar á óáti í henni.' Oft  hallaði  hún á í básnum, einkanlega undan gestkomu, ranghvolfdi augunum, bljes úr  nösum og gaulaði illilega. Þau urðu endalok hennar, að hún fanst lærbrotin í haganun, þar sem engin torfæra var nje nokkurskonar hætta — í sljettri mýri.

En hvað mundi hafa valdið þessum undrum? mundi sá segja, er þetta les eða heitir. Af hverju skyldu kálfarnir hafa drepist? Þar er hnúturinn, sem reyndar er lítt leysanlegur.

Jeg læt sögusögnina leysa hann — að því leyti sem henni er til þess trúandi.


Einu sinni var fjósadrengur á Laxamýri, sem ekki þótti letsa verk sín vel af hendi.  Sögusögnin sú, sem ,jeg styðst við, greinir ekki ártalið. Þess er getið, að hann hafi  fengið ákúrur harðar og jafnvel refsingu fyrir hirðingu á kálfi eða kálfum. Drengur tók sjer nærri aðbúðina, hafði í heitingum þessháttar, að svo kynni að fara, að framvegis myndi kálfauppeldi á Laxamýri takast ekki betur en sjer hefði  tekist. Að svo mæltu hengdi hann sig við fjósbitann eða fjóshlöðubitann.


í búskapartíð Sigurjóns á Laxamýri, var hjá honum fólk langvistum, t. d. hjón, er hjetu Jóhann og Jakobína og virðist mjer þeim bregða fyrir í leikritinu „Bóndinn á Hrauni". Þessi Jóhann var fjósamaður lengi á Laxamýri og Jakobína fjósakona. —

Fjármaður Sigurjóns gamall hjet Jósep. í búskapartíð sona Sigurjóns var þar á Laxamýri mörg ár vinnukona, er hjet Soffía, eldabuska. Allt þetta vinnufólk var „gamaldags", sem svo er kallað, þ. e. a. s. hafði enga nýjabrumsmentun hlotið. Þessi hjú sáu öll, sögðu svo frá, hlöðustrákinn. En svo var kallaður þessi sknggabaldur, sem ætla má að drepið hafi kálfana. — Þau lýstu honum svo, að hann væri í mórauðri peysu, lítill vexti og álútur, enda sáu þau hann helst þannig staddan, að hann var að bisa við kálfa og handleika á þeim granirnar. Að þeim fyrirburði sjeðum, tók að færast hrygla í kálfinn. Og að því búnu voru dagar kálfsins taldir.

Ýmsir mentamenn, sem komist hafa á snoðir um þessi „Fróðárundur", bera sjer i munn og hafa borið, að þessum fádæmum muni valda og valdið hafa sóttkveikjur, sem hafi oghrærist í fjósi eða hlöðu og borist hafi   í  vit  og líffœri kálfanna,  Sú lausn gátunnar er ósennileg. Fjósið og fjóshlaðan hafa verið rifin eins og gerist og gengur og öllu umturnað. Hey í hlöðunni hefir verið með ýmsu móti, stundun grænt, en oftar þó rauð ornað. Verður eigi sjeð að þar sje sóttkveikjuhæli. Gruudvöllur þeirra bygginga, er þokkalegur og umgengni öll í fjósi og hlöðu alla tíðina, sem um er að  ræða, í betra lagi, því að búhöldar hafa setið að höfuðbóli þessu um langan aldur. Kýr og naut á Laxamýri — alt að fengið — hafa verið viðlíka hraust og langlíf, sem nautpeningur annar staðar. Hvorki hefir berklaveiki nje taugaveiki legið þar í landi og ekki heldur aðrar sóttir í fólki nje fjenaði. Þær sögur eru gamalkunnar um allt land og gerast enn í dag — að sögn — að þeir bændur missa fjenað á undarlegan hátt, sem slá eða láta slá svokallaða bannbletti í engjum eða útjöðrum túna. Á þeim liggja þau ummæli, að víti liggi á, ef út af er brugðið banninu. Og sagt er, að þær vættir, sem banna þetta, láti hefndirnar koma fram. Það er jafnan örðugt að ákveða, hvers vegna fjennður verður fyrir vanhöldum, þegar ein skepna fellur frá eða fáeinar skepnur.

En öðru máli er að gegnir með þessi vanhöld á Laxamýrar kálfunum. Þau hafa haldist við í 100 ár að minsta kosti oft þó lengur. Engar þjóðsagnaýkjur eru að verki í þessum bæ. —
Engin skröksöguhula er breidd yfir atburðina frá minni hálfu. —

Heimildirnar eru þannig að taka má í hendurnar á þeim, öllum, að undanskildum sögusógnum gömlu hjúanna á Láxnniýri, sem þóttust hafa sjeð hlöðustrákinn. Sú heimild er ekki handföst. Þegar reynt var að ala kálf í Laxamýri, var honum skotið inn í gamla bæinn, sem var spölkorn frá fjósinu.

Svo sagði mjer Egill Sigurjónsson, sem var nð mestu leyti heimildarmaður minn að þessu æfintýri, að eitt sinn hefði karl i heimilinu spurt eftir því, hver kominn væri. Hann þóttist sjá, í ljósaskiftum, mann ganga inn í gamla bæinn, en þar var þá kálfur, sem átti að ala. Enginn maður hafði komið nje gengið inn í bæinn. En á þeim degi svarf að kálfinum svo að hann dó.

Þar mundi hlöðustrákurinn verið hafa að verki.

Guðm. Friðjónsson.

 

Leikminjasafn um Jóhann

ljóð.is 

 

 


Hvers vegna fékk Framsókn aðeins 2.7% fylgi í Reykjavík?

Úrslit borgarstjórakosninga í Reykjavík eru þannig að allir gömlu flokkarnir eru taparar, bara tapa mismiklu. Það er enda einfalt reikningsdæmi að ef til kemur nýtt afl eins og Besti flokkurinn sem hrifsar til sín 35% atkvæða þá fá aðrir færri atkvæði.  En hvers vegna fékk grínframboð svona gríðarmikið fylgi? Gamalreyndir stjórnmálamenn segja að galdur í stjórnmálum sé að toppa á réttum tíma.  Besti flokkurinn gerði það.  Hann byrjar sennilega sem gjörningur eins manns en kemur fram sem hreyfiafl stjórnmála í Reykjavík eftir að  vika eftir viku í þjóðmálaumræðu hefur farið í að velta sér upp úr Hrunskýrslunni, skýrslu sem er þungur áfellisdómur um íslenskt fjármálakerfi, fjölmiðla og stjórnmál á árunum fyrir Hrunið. Fólk er reitt, vonsvikið og vonlaust. Traust á stjórnmálamenn er þorrið, það er svo lítið að það er í lagi að veðja bara á djók. Besti flokkurinn fyllti ekki upp í tómarúm, það er ekki rétt líking, við erum þrúguð undir miklu fargi og við getum okkur lítið hreyft. Besti flokkurinn léttir okkur lundina á meðan við bíðum eftir einhverju björgunarliði sem aldrei kemur. Kannski verður hann til að við áttum okkur fyrr á því að við verðum að bjarga okkur sjálf og við það verðum við að grípa til óhefðbundinna leiða.

Jón Gnarr oddviti Æ-listans er  þjóðþekktur og vinsæll og fær fólk til að brosa. Hann getur sagt ekki neitt og bullað á skemmtilega fyndinn hátt. Það er betra en venjulegir stjórnmálamenn sem segja ekki neitt og meina ekki það sem þeir segja en gera það á hrútleiðinlegan hátt.

Athygli þjóðarinnar var ekki á þessum kosningum. Fólk bara gaf sér tíma til að spá aðeins í þetta meðfram Eurovision og þegar hlé varð á umfjöllun um Hrunskýrsluna. Margir vilja breytingar, nýja hugsun, nýja nálgun.  Seinasta kjörtímabil í Reykjavík hefur á köflum verið eins og leikhús fáránleikans, meirihlutar myndaðir í skjóli nætur og þegar fólk situr á fundi með einum er það að díla við annan og  REI málið var áfellisdómur fyrir fyrsta meirihluta og dýpra verður ekki sokkið hjá neinu stjórnmálaafli en að gera Ólaf Magnússon að borgarstjóra eins og gert var í þriðja meirihluta. Það var eingöngu í síðasta meirihluta sem ró var á stjórn borgarinnar og innleidd voru samvinnuvinnubrögð í stað átaka. Samvinna byggir á umræðu og yfirvegun og aðkomu margra og umræðu um rök og mótrök í hverju máli.

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 og á tíma fyrsta meirihlutans var eitt af slagorðum Framsóknar hugtakið athafnastjórnmál  og  helstu baráttumálin í  kosningabaráttunni voru að færa flugvöllinn á Löngusker og byggja jarðgöng fyrir Sundabraut. Þessi mál koðnuðu niður á kjörtímabilinu og núna í síðasta meirihluta sem var undir stjórn Óskars frá Framsókn og Hönnu Birnu frá Sjálfstæðisflokki var áherslan á velferðarmálin og samvinnu og samráð. Áherslan hafði færst frá framkvæmdagleði og athafnaþrá yfir  hvernig ætti að standa sem sársaukalausast að stjórn borgarinnar á samdráttartímum, draga úr umsvifun en samt reyna að sjá til þess að hér yrði ekki upplausnarástand og atvinna og uppbygging stöðvaðist. Það er mat mitt að Framsóknarflokknum hafi tekist best upp í síðasta meirihluta og komið með hógværð og samvinnu að leiðarljósi að því að stýra Reykjavíkurborg á erfiðum tímum.

Óskar lagði sig líka fram um að byggja upp Framsóknarflokkinn að nýju eftir hatrammar deilur og hnífaslagi.  Einar Skúlason bauð sig fram gegn Óskari á kjörfundi okkar í nóvember og vann með miklum yfirburðum. Einar er vinsæll og vel kynntur og maður sem nýtur trausts innan Framsóknar en er ekki mjög þekktur. Sennilegt er að margir sem kusu Einar hafi  viljað endurnýjun, viljað að þeir sem voru í framlínu á tímanum fyrir Hrunið og komust inn í stjórnmálin með þeim vinnubrögðum sem þá tíðkuðust ættu að stíga til hliðar. Hins vegar varð  þetta til þess að margir sem studdu Óskar urðu sárir og þessi oddvitaskipti í Reykjavík leiddu til þess að framboðið naut ekki þess meðbyrs sem t.d. Hanna Birna hafði af góðum verkum í Reykjavíkurborg þar sem henni og Óskari hafði tekist að snúa við blaðinu í stjórn borgarinna þannig að þar sem áður var upplausnarástand og sundrun var núna sátt og samvinna.  Einnig kom í ljós að  fyrirtæki í eigu aðila sem var í öðru sæti listans var nefnt í Hrunskýrslunni vegna 8 milljarða króna  sem það fyrirtæki hafði gengist í ábyrgð fyrir og var viðkomandi beðinn að víkja af listanum. Ég held að bæði oddvitaskiptin og útskipting á manni í 2. sæti hafi sundrað hluta Framsóknarmanna og þá sérstaklega oddvitaskiptin. En það gerðist reyndar líka árið 2006 að mikil sárindi urðu og Anna Kristinsdóttir sem var borgarfulltrúi og lenti í 2. sæti í prófkjöri tók ekki sæti á listanum og gekk síðar úr flokknum.  Þetta er því miður það sem gerist í prófkjörum, það er innbyggð í þau svona tvístrun á samherjum og þau ala á sundrungu. Við persónukjör mun verða lítil þörf á prófkjörum.

Á listanum var vel valinn hópur af áhugasömu hugsjónafólki. Engin þeirra var þó  þekkt andlit í þjóðlífinu og stefnumálin voru áþekk öðrum flokkum sem lögðu áherslu á velferð í borginni. Í því einkennilega andrúmslofti sem var núna þá bara náði stefna Framsóknarflokksins ekki í gegn og það var ekki neitt sem fangaði athygli kjósenda og sagði þeim hvers vegna þau ættu að kjósa Framsóknarflokkinn. Samfylkingin gaf sig út sem atvinnusköpunarflokk, soldið í sama fasa og Framsókn var árið 2006 og VG var velferðarkerfisflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn í gervi Hönnu Birnu birtist okkur sem alltumfaðmandi félagshyggjufaðmur með samvinnusniði.  Við þetta bættist að Einar sem er hvers manns hugljúfi er ekki sérstaklega vanur fjölmiðlamaður og átti ekki sams konar spretti í sjónvarpi og öðrum ljósvakamiðlum eins og Björn Ingi átti rétt fyrir kosningarnar 2006. Það verður reyndar að skrifast á ábyrgð fjölmiðla hve illa þeir gera stjórnmálastarfi skil og hve grunn og yfirborðsleg umræða er þar. Það sást sérstaklega vel núna eftir kosningarnar, það var ekki áhugi á því að kryfja stöðuna heldur að búa til tilfinningaþrungnar stundir og sjá tapara engjast.  Stjórnmálaleiðtogar fjórflokkanna fá núna margir hverjir spurningu um hvort þeir alli ekki að segja af sér, spurningu sem kemur áður en skoðað er hvað gerðist.  

Þetta framboð var heiðarlegt framboð þar sem ekki var borist mikið á, engir sterkir bakhjarlar með annarleg sjónarmið fjármögnuðu kosningabaráttuna og það var mjög þröngur fjárhagur og lítið svigrúm til auglýsinga og litlir möguleikar á að komast í fjölmiðla. Allt þetta gerði það að verkum að framboð Framsóknarflokksins var í bakgrunni og ekki inn í umræðunni.  Ef borið er saman árið 2006 þá einkenndist sá tími af heiftarlegum árásum á Framsóknarflokkinn, árásum sem Björn Ingi tók mjög fimlega á í orðræðu í fjölmiðlum.  Í síðustu Alþingiskosningum þá vann Framsóknarflokkurinn mikið á (eftir að hafa tapa áður) og þar hafði mikið að segja góð frammistaða þeirra í sjónvarpi og svo held ég að 20% niðurfelling skulda hafi slegið í gegn. Framsóknarframboðið var framboðið sem stóð með heimilum í landinu, tók stöðu með þeim sem skulda, ekki með lánadrottnunum. Einnig vissu allir að formaður og margir aðrir í Framsókn voru í fararbroddi í Indefence, í baráttu á móti hinum ósanngjörnu Icesave samningum. Þannig kom Framsóknarflokkurinn út í síðustu kosningum sem viðspyrnuafl bæði á móti innlendum lánadrottnum og erlendum og það var þetta einfalda tákn "20 % niðurfelling skulda" sem myndgerði það. Auk þess sem efnahagstillögur og stefna var ígrunduð, öfgalaus og yfirveguð. 

Ég held satt að segja að staðan hafi verið þannig í Reykjavík núna að ógerlegt hefði verið fyrir Einar að ná þeim hljómgrunni hjá kjósendum sem þurfti. Það hefði þurft bæði miklu hnitmiðaðri stefnuskrá sem sýndi hvað var öðruvísi hjá Framsókn en hjá öðrum flokkum, stefnuskrá sem var í samræmi við  samvinnuhugsjón sem setur manngildi ofar auðgildi en sýndi þá styrkleika Framsóknarflokks sem öflalauss miðjuafls sem sameinar en sundrar ekki og er jarðbundið og lausnamiðað. Ég held líka að það hafi verið of brött skil á milli Björn Inga/Óskars og svo Einars Skúlasonar, of  mikill biti fyrir kjósendur að sjá flokk sem höfðar til smáatvinnurekenda eins og iðnaðarmanna og bænda og leggur áherslu á fulla atvinnu hvað sem það kostar yfir í að vera umbótaflokkur sem leggur megináherslu á velferðarmálin.  Það líka skein ekki nógu vel í gegn því allir fjórir flokkarnir lögðu áherslu á velferðarmál og grunnþjónustu.  Ég veit að Einar stendur fyrir fjölbreytni, hann vann hjá Alþjóðahúsi og hefur beitt sér fyrir málefnum nýbúa og honum eru þau mál sérstaklega hugleikin. Ég velti fyrir mér hvort það hefði t.d. verið sterkt að þessi málaflokkur hefði verið gerður sýnilegri og lögð áhersla á borg fjölbreytileikans og þar sem fólk af mismunandi uppruna og alls konar ólíkt fólk lifir og starfar saman.  Það vantaði eitthvað í stefnuskrána til að höfða til fólks og boða nýja tíma. Það eru í henni setningar eins og "Við viljum sækja fram í atvinnumálum, umhverfis- og samgöngumálum" og "Við viljum tryggja velferð Reykvíkinga...". Hver vill það ekki? 

Það vantaði að segja  hvað Framsókn stendur fyrir sem hinir flokkarnir standa ekki fyrir.

Ég held líka að skondnir viðburðir eða nýjar hugmyndir um hvernig málstaðurinn er kynntur hefði unnið með framboðinu. Þar hafði Besti flokkurinn náttúrulega forskot enda er það nokkurs konar gjörningaframboð og Einar Ben. hefur nú reynslu af að plögga Bubba og Björk með góðum árangri.

Það getur líka verið að kjósendur í Reykjavík séu með þessu að segja "gefum Framsókn frí", ekki á sama kvikyndislega hátt og Vinstri grænir hafa sagt heldur bara svona góðlátlega "gefum Framsókn frí og leyfum núna öðrum að spreyta sig um hríð, Framsókn hefur vissulega breytt sér og er á góðri leið en undanfarin fjögur ár hefur hún ráðið allt of miklu í borginni miðað við flokksfylgi og það er því bara sanngjarnt að hún sitji núna hjá og komi eldspræk til leiks næst"

Ef  það er eitthvað sem við í Framsóknarflokknum getum lært af þessu þá er það að ekki er á vísan að róa um kjörfylgi og það er mikilvægt að hlú að innra starfi og þá sérstaklega því sem sameinar fremur en því sem sundrar. Einnig þarf meiri fókus og nafnaskoðun á því hvað flokkurinn stendur fyrir, ekki bara stefna heldur líka vinnubrögð.

 

 Alþingiskosningar 2007

Reykjavík suður 2081 (1. sæti  Jónína Bjartmarz)
Reykjavík norður  2186 (1. sæti Jón Sigurðsson formaður)

 

Alþingiskosningar 2009
Reykjavík suður 3635 (1. sæti Vigdís Hauksdóttir)
Reykjavík norður 3375  (1. sæti Sigmundur Davíð formaður)



mbl.is Gagnrýna þingmann sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarr og Goðmundur á Glæsivöllum

Ég  óska öllum þeim 15 borgarfulltrúum sem hlutu kosningu í nótt til hamingju og sérstaklega óska ég Besta flokknum til hamingju, þau lögðu Reykjavík að velli og vopn þeirra voru ekki kylfur eða byssur eða sprengjur, vopn þeirra voru breytingavilji, satíra, grín og háð og þekktur og vinsæll leikari, liðsmenn þeirra voru skapandi listamenn sem breyttu - eða öllu heldur afhjúpuðu - stjórnmálunum í farsa. Ég bjó til sérstakt myndverk til heiðurs þessum 15 nýkjörnu borgarfulltrúum, það er hérna:

Vantraust2 Auðvitað er ég samt undir niðri svolítið  súr yfir að Besta flokknum skuli ganga svona vel, hvaða réttlæti er í því að vinsæll grínleikari  skuli einn daginn segjast vera að leita að þægilegri innivinnu og svo næsta dag rusla sex með sér inn í borgarstjórn. Já svo súr að ég má til með að vitna í ljóðið hans Gríms Thomsen um Goðmund á Glæsivöllum  en svona lýsir Grímur senunni:

 Hjá Goðmundi á Glæsivöllum
gleði er í höll,
glymja hlátra sköll
og trúðar og leikarar leika þar um völl
en lítt er af setningi slegið.

Svo má náttúrulega reyna að sjá sömu  feiknstafi  í brosum Goðmunds Gríms og hins broshýra Gnarr sem er með fangelsi á heilanum og hefur það helsta baráttumál að gera Reykjavík að alþjóðlegri fanganýlendu. Svona lýsir Grímur Goðmundi konungi:

Goðmundur kóngur
er kurteis og hýr,
yfir köldu býr.
Fránar eru sjónir en fölur er hans hlýr
og feiknstafir svigna í brosi.

En það er best að tapa sér ekki í beisku og biturð yfir úrslitum og viðurkenna ósigur, viðurkenna að Gnarr hefur í magntölum mælt mun betri árangur en við hin, við sem höfum starfað innan stjórnmálaflokka af heiðarleika og hugsjón og reynt að breyta vinnulagi þar. En ég tek undir með Jóhönnu Sigurðardóttur, ég held að þessar kosningar marki endalok fjórflokksins og kannski endalok ákveðinnar gerðar af stjórnmálum. Ég held líka að nú ættu allir flokkar að íhuga mjög gaumgæfilega stöðu sína og vinnubrögð og hafa frumkvæði að  því að sameinast um ákveðin málefni þvert á hefðbundnar flokkslínur.  

Svona þegar beiskunni sleppir þá get ég alveg viðurkennt að  Besti flokkurinn er að mörgu leyti jákvætt afl í íslenskum stjórnmálum. Það eru margir listamenn og hugmyndasmiðir í þeirra sveit og ég held að það sé einmitt það sem Reykjavík vantar núna, svona andstæðu við excel-hugsunarhátt  og skrifræðisstjórn  sem þar að auki hefur undanfarin ár eða áratugi verið stjórn sem gætir betur að hagsmunum eignafólks og atvinnurekenda en almennings. Hérna nefni ég sérstaklega hvernig rústasvæðum eftir Hrunið er leyft að grotna niður og hvernig allt umhverfi er skipulagt með hagsmuni þeirra sem hafa tekjur af meiri neyslu í huga, þannig er miðbærinn fyrst og fremst settur upp með hagsmuni verslunareigenda, barrekenda og túristaiðnaðar í huga og  almenningur eins og rekinn í burtu út úr eigin borg - nema hann ætli að versla eitthvað. Svo hefur borgin sjálf verið í gegnum fyrirtæki eins og OR í vægast sagt einkennilegu bralli á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Ég tel hins vegar að varðandi ýmis konar velferðarmál hafi Reykjavíkurborg verið vel stjórnað, ekki síst núna eftir hrun og það hafi verið unnið í sátt allra aðila út úr mjög erfiðri stöðu sem upp kom eftir Hrunið. Því er hins vegar ekki að leyna að hluti af síðasta kjörtímabili var skrípaleikur og þar vil ég sérstaklega nefna endalok fyrsta meirihluta í kjölfar REI málsins og svo alla stjórnartíð Ólafs Magnússonar sem var  harmsaga ein. Ég held að það væri mikil afturför ef horfin verður frá þeim samvinnuvinnubrögðum sem einkenndu síðasta hluta kjörtímabilsins.

Það er von mín að nýir valdhafar í Reykjavík fari vel með auðæfi borgarinnar - auðæfi sem eru ekki nema að litlu leyti mæld í krónum, auðæfi sem eru ekki nema að litlu leyti sýnileg vegna þess að þau eru fólgin í tengslum og venslum og infrastrúktúr og því sem er svo smágert og handanheimslegt að það sést ekki ef sá sem skoðar er með gleraugu sem mæla bara gróða og tap.


mbl.is Besti flokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Soffía frænka með Stokkhólmsheilkenni

 Ríkisstjórn Íslands er eins og Soffía frænka með Stokkhólmsheilkenni í þessu Magma skúffufyrirtækis í Svíþjóð máli. Hún er eins og bandingi í skuldum sem er farin að kóa svo mikið með þeim sem fjötruðu hana að hún sér ekki lengur hvað er fyrir utan byrgið sem hún er króuð inn í og orðræða hennar er orðræða ræningjanna. 

Með vitund og  vilja  horfa stjórnvöld núna  á þegar almenningur á Íslandi er rændur, ekki bara einu sinni, ekki bara í Hruninu mikla sem svipti aleigu margra burtu og lífsviðurværi og kramdi okkur undir bankaskuldum útrásarvíkinga, skuldum sem við vissum ekki einu sinni að væru til hvað þá s að við þyrftum að bera ábyrgð á gripdeildum þeirra.

Við erum nefnilega rænd aftur og aftur og það er settur  upp fyrir okkur  einhvers konar fjármálafarsi þar sem persónur og leikendur þyrla í kringum sig pappírum sem þeir búa til sjálfir og sá vinnur mestu spilapeningahrúgu fyrir næsta leik sem getur látið strókinn í kringum sig birtast sem stærstan og hefur mestu ítök þannig að hann geti beint sem flestum minni strókum  inn í sinn eigin strók.Stöku sinnum slokknar á blæstrinum að neðan og þá detta allir spilapeningarnir niður  og hjaðna niður í næstum ekki neitt og verða bara að örsmáum pappírssnifsum  en þegar það gerist þá verður sá sigurvegari sem strax sópar að sér snifsunum og reynir að blása þau upp og líma saman.

Leiksviðið fyrir þetta absurdleikhús er lög og reglur sem Alþingi hefur sett til í sinni fjármálabræðslu, þeirri bræðslu sem stjórnvöld stýra,  bræðslu sem miðar að því  að búa til sem flesta strompa sem blásið geta upp pappírum og ketillinn sem knýr  blásturinn kemur að utan, kemur úr yfirhituðu fjármálakerfi heimsins og úr fjármálaumhverfi efnahagsbandalags þar sem lög og reglur eru útfærðar til að tryggja hagsmuni peningahöndlara, þar sem lög og reglur miða að því að þeir geti hvenær sem þeim þóknast skipt pappírsbúnkum í raunveruleg verðmæti,  veitt í háf  verðbréfabunka úr stróknum sínum og sagt það verðmæti, sagt að með því ætli þeir að greiða fyrir fiskikvóta og orkulindir, með því ætli þeir að leggja niður sjávarþorp á Ísland, með því ætli þeir að sölsa undir sig orkuver og lendur íslensku þjóðarinnar. 

 En þetta skrípa- og hryllingsleikhús er ekki bara leiksýning sem við förum í eitt kvöld til að skemmta okkur, ljósin eru aldrei slökkt í þessu leikhúsi fáránleikans og fjármálafarsinn heldur áfram. Bara með stærri og stærri leikurum, það sem hét grísk skuldabréf í gríska stróknum í gær heitir euro bonds á morgun og kannski veraldarbönd  á næsta misseri.  Skrípaleikurinn heldur áfram á meðan stjórnvöld trúa að hann sé ekki leikrit  eða eru svo óttaslegin um eigin stöðu að þau þora ekki að horfast í augu við það og á meðan almenningur allra landa hefur ekki áttað sig á að þetta  er blekking. 

Heimur okkar er vissulega byggður upp af mörgum blekkingum en sumar eru svo hagnýtar og nytsamlegar til að stýra ferðum okkar í hinum raunverulega heimi að við lítum á svoleiðis blekkingar sem  líkön og leiðarhnoð í öllum glundroðanum. En þannig er ekki um fjármálakerfi heimsins í dag. það er stórlaskað og passar engan veginn við raunverulega heiminn, heim framleiðslu og iðju, heim samskipta og tækni, heim siðmenningar og samhjálpar.

Í þeim farsa sem nú birtist okkur í sölu á íslenskum orkufyrirtækjum til kommóðuskúffunnar Magma energy í Svíþjóð er blóðugur slagur í gangi um yfirráð yfir íslenskum orkuauðlindum. Og við erum rænd um hábjartan dag af ræningjum sem eru miklu grimmari og verri en ræningjarnir úr Kardímoníubænum, þessir ræningjar eru engir Jasper, Kasper og Jónatan og það þýðir engin Soffíufrænkuvettlingatök til að taka á málum núna. Ríkisstjórn sem vissulega er í haldi ræningjanna eins og Soffía frænka var á sínum tíma getur ekki ráðið við málið með einhverju umli um að ætla að ræða um að breyta smávegis upphæðum í ránsfengnum, bara það að taka þátt í slíkum umræðum er sýnir vanmátt og firringu þannig stjórnar, sýnir að  ríkisstjórnin  er núna eins og  Soffía frænka með Stokkhólmsheilkenni. Ríkisstjórnir allra vestrænna ríkja eru reyndar svo flæktar í eigin veðbönd að þær geta sig hvergi hrært  til að koma þegnum sínum til aðstoðar, þær gefa bara frá sér hjáróma hvæs þegar veðköllin dynja á þeim.

Þessi Magma sjónleikur sem núna spinnst fram er dæmi um hvernig við erum rænd því sem umheimurinn og fjármálaheimurinn telur verðmæti í. Fyrst voru orkuverin og veiturnar almenningsfélög sem voru stolt  borgarbúa og bæjarbúa, samfélagsleg verðmæti og auðlegð til framtíðar. Við horfðum stolt á hvernig veiturnar uxu og döfnuðu og hér í Reykjavík hef ég verið ánægð að sjá hvernig Orkuveitan í Reykjavík  hefur keypt upp aðrar veitur og búið til stóran og hagkvæman rekstur og þjónað stórum hluta af þeim sem búa í nágrenni höfuðborgarinnar, okkur öllum og framtíðinni til hagsbóta. Orkuver eru dýr fyrirtæki sem borga sig upp á löngum tíma og það er ekki á færi nema stórra aðila að standa í svoleiðis framkvæmdum. Arðurinn kemur hins vegar á löngum tíma og mest þegar búið er að afskrifa alla stofnfjárfestingu. 

Það var tvennt stórhættulegt sem gerðist.

Annars vegar var það að reglugerðar og lögrammakerfi sem hingað var flutt að utan og fullnustað á Alþingi vegna Esb, lög og reglur sem ætlað var  að tryggja samkeppni og jöfnuð á markaði  voru notuð markvisst til að brjóta niður sameignir almennings á Íslandi og steypa Íslendingum ofan í svarthol kasínókapítalisma. Stjórnvöldum hefði verið í lófa lagið að umsnúa þeim lögum og setja eigin lög, það er aðferð sem EBE þjóðir hafa farið t.d. Frakkar en það var ekki gert hérna, sennilega vegna þess að stjórnvöld voru viljalaust gjörspillt verkfæri í höndum fjárglæframanna og raunar voru margir háttsettir menn í stjórnmálum hér á Íslandi svo mikið á bólakafi í undarlegum tengslum að þeir láta  Mafíuna í samanburði blikna og  líka út eins og róluvöll fyrir börn. Íslensk stjórnmál og íslensk fjölmiðlun var sparkvöllur siðblindingja þar sem sparkað var í og traðkað á almenningi á meðan spekúlantar eins og Björgólfsfeðgar og Bónusfeðgar áttu liðin og sátu í stúkusætum.

Hins vegar gerðist það að settir voru verðmiðar á hluti sem eðli málsins samkvæmt ættu ekki að vera til sölu og raunar stórhættulegt að hafa til sölu og almenningsfyrirtæki í opinberri eigu voru gerð að einhverju HF dæmi og smán saman rutt úr velli öllum girðingum og hömlum sem voru á að slík fyrirtæki gengu kaupum og sölum eins og dótið sem þú kaupir í Hagkaup eða Bónus. Svo var farið að selja úr þessu, byrjað að selja til stærri aðila (Reykjavíkurborg að selja til Landsvirkjunar), pólitískir aðilar að fegra reikningana rétt fyrir kosningar (eins og Árni Sigfússon gerir núna í Reykjanesbæ). Svo fór á stað eitthvað gulllgrafaragróðaorkuspil, búin til  froðufyrirtæki fólks sem var innvígt og innmúrað í   stjórnmál og bankamál og sett upp einhver sýndarviðskipti með hluta í orkuverum og stjórnmálamenn (var það ekki Ingibjörg Sólrún? eða var það Björn Ingi Hrafnsson) þóttust gleypa við þessu og létu eins og þessi viðskipti væru spurning um raunveruleg verðmæti og sögðu eitthvað á þessa leið: "Þetta sýnir hversu mikils virði þessi hlutur okkar er, mikið er gott að hafa þetta á markaði, þá er loks komin einhver verðmiði á þessa eign okkar, eign sem við eigum hérna í sveitarfélaginu en sem við erum ekkert að ávaxta".

Stjórnmálamenn sem svoleiðis mæla eru í besta falli flón sem ná að blekkja sjálfan sig en í versta falli skúrkar sem vilja blekkja almenning vegna þess að þeir eru í þjónustu annarra en almennings. Það er ekki hægt að setja verðmiða á almenningseigur og það þjónar engum tilgangi að setja verðmiða á eitthvað nema þú ætlir að selja það.  Og sumt má ekki selja, sumt er óskynsamlegt að selja sama hvaða verð er í boði og sumt er siðlaust að selja. Það gildir um ýmis konar almenningseigur, um eigur sem hafa verið byggðar upp af mörgum kynslóðum á undan okkur og sem eiga að gagnast mörgum á eftir okkar kynslóð.  Stjórnmálamenn sem skynja ekki að mælikvarðinn peningar er alls ekki hentugur mælikvarði um ýmis konar samfélagsleg verðmæti eru ekki að skilja hvernig á að búa til blómlegt samfélag í dag. Þeir eru stökk í fyrirhrunstíma, stökk í þeim hugsunarhætti frjálshyggju og græðgishugsunar sem speglast í að líta á arðræningja sem góða hirðirinn, hugsunarhátt sem ég útskýrði á sínum tíma í blogginu  Fé án hirðis, góði hirðirinn og þeir sem hirða allt af okkur

Það eru sem sagt bæði lög og reglur og stjórnmálastraumar sem bárust utan úr álfu og fengu meðbyr hér á landi  hjá stjórnvöldum og þingheimi sem og að hér var lítið samfélag þar sem fyrir var á velli hnignandi en þó voldugt ættarveldi sem yfirdekkti með gervigrasi frjálshyggjunnar þann sparkvöll sem liðsmenn feðgapara landsins notuðu til að trampa í svaðið undir sér íslenskan almenning. það verður framtíðarhagfræðinga að sjá stóru línurnar, sjá samsæriskenningar og plott úr fjármálamynstri nútímans á Íslandi en það blasir samt við öllum sem það vill sjá að hroðalegir atburðir eru núna að gerast og stjórnvöld eru lömuð. Lömuð í gíslingu lánardrottna og það eru einhverjir undarlegir fjarlægir lánadrottnar sem núna stjórna Íslandi og hvernig ríkisstjórn Íslands aktar. Það er máttlítil og rám rödd ríkisstjórnar sem segist ekkert geta gert í Magma málinu, ætli bara að tékka á hvort ekki sé hægt að hnika til með árin í samningunum. Samt var þessi ríkisstjórn mynduð með umboð frá fólki sem ruddi burtu hinni vanhæfu ríkisstjórn með búsáhaldabyltingu og hún hefur umboð sitt frá fólki, okkur sem köllum á breytingar, ekki nákvæmlega sömu vinnubrögðin og sömu svikamyllurnar. Núna er búið til kerfi þar sem skúffufyrirtæki gullgrafara er sett niður í Svíþjóð til að fara á svig við Evrópureglur, það grefur sig inn í íslenskar orkuauðlindir og landsvæði en með því fara yfirráðin úr íslenskri lögsögu og  eitthvað út í aflandseyjabuskann. En það koma sáralitlir peningar með þessu fyrirtæki, það fær meiripartinn að láni hjá íslenskum opinberum aðilum og svo ætlar fyrirtækið Magma (já, takk fyrir Netið, við lesum líka erlendar fréttatilkynningar frá Magma og vitum allt um hvað Magma samsteypan þ.e. þessi sem á skúffuna í Svíþjóð er að tapa miklu og hvernig hún ætlar en hefur ekki þegar að fjármagna sig) þe. kommóðan sem heldur utan um skúffuna í Svíþjóð að fjármagna sig eins og gullgrafarar gera, með því að selja hugmyndina og laða til sín fjárfesta og nota "bridge financing" þangað til orkugulgæsirnar byrja að verpa nóg.

Hvaða fáranlega sjónarspil er þetta? Hver hefur bundið ríkisstjórnina svo mikið niður að hún láti þetta viðgangast? Er það einhver vissa um að það komi ekkert nýtt álver nema orkuverið sé einkavætt svo í fyllingu tímans sömu aðilar og eiga álverið geti keypt orkuverin og réttindin? Er það boð sem hafa komið eftir óformlegri leiðum en við sjáum í fréttum um að engin fyrirgreiðsla fyrir skuldþjáða þjóð verði ef ekki verði hér búinn til einkavæðingarumhverfi fyrir orkuveitur og orkuverk svo hér sé hægt að virkja hverja sprænu og hvern hver og  búa svo til rafstreng sem tappar orkunni af landinu og sendir til orkuhungraðrar Evrópu, rafstreng sem  blóðmjólkar Ísland og Íslendinga og sýgur úr þeim orkuna.  

Arionbanki býður til morgunverðarfundar á morgun 20. maí um efnið "Er lagning sæstrengs frá Íslandi til Evrópu vænlegur kostur?". Halda menn að svarið sem komið verði fram með verði "Nei, alls ekki, það er best að bíða og doka við, Ísland situr á miklum auðlindum en hér er viðkvæm náttúra og virkjanir og orkusölu þarf að skoða út frá mörgum hliðum, ekki bara peningalegri hagkvæmni fjárfesta"? 

Svo þegar ríkisstjórnin kemur núna lúpulega fram og segist ekki geta gert neitt, það sé ekki hægt að rifta sölunni þá má rifja upp að það voru einmitt fulltrúar ríkisstjórnarinnar sem gerðu þessa sölu. Atorka er að selja. ATorka var tekin yfir af kröfuhöfum og hlutabréfin núlluð út. Ég var einn af þeim hluthöfum sem fengu sent heim bréf um að hlutabréfin væru orðin eitt stórt núll. En kröfuhafar sem urðu stærstu hluthafar Atorku eftir nauðasamninginn eru

NBI hf.            44,20%
Íslandsbanki hf. 15,25%
Arion Banki hf. 5,00%
Glitnir Banki hf. 4,86%
Drómi hf. 4,55%

Það vill svo til að þessi stærsti kröfuhafi er NBI hf sem er Landsbankinn og það eftir því sem ég best veit banki sem er ennþá í eigu ríkisins og stýrt af fulltrúum skipuðum af ríkisvaldinu. Það verður ekki betur séð en ríkisstjórnin sé núna í samkrulli með öðrum að selja skúffufyrirtæki í Svíþjóð yfirráð yfir íslenskum auðlindum en segi svo í fölskum og hjáróma tón að því miður geti þau ekki gert neitt að þessu...og það sé málið að díla um einhverja breytingu á árum í samningunum. 

Hvað er að gerast? Ekki verður með neinu móti séð að hér sé um gæfulegan samning að ræða. Þvert á móti, þetta er allt mjög skrýtið og furðulegt og mjög mikið sem ekki er á yfirborðinu. Er hér verið að reyna að hliðra til fyrir banka sem standa á brauðfótum?Eru hér aðrir og stærri hagsmunir, hagsmunir sem varða orkumál á Norðurslóðum og valdajafnvægi í þeim heimshluta og ítök til framtíðar? 


mbl.is Magma fær 14,7 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband