Hvers vegna fékk Framsókn aðeins 2.7% fylgi í Reykjavík?

Úrslit borgarstjórakosninga í Reykjavík eru þannig að allir gömlu flokkarnir eru taparar, bara tapa mismiklu. Það er enda einfalt reikningsdæmi að ef til kemur nýtt afl eins og Besti flokkurinn sem hrifsar til sín 35% atkvæða þá fá aðrir færri atkvæði.  En hvers vegna fékk grínframboð svona gríðarmikið fylgi? Gamalreyndir stjórnmálamenn segja að galdur í stjórnmálum sé að toppa á réttum tíma.  Besti flokkurinn gerði það.  Hann byrjar sennilega sem gjörningur eins manns en kemur fram sem hreyfiafl stjórnmála í Reykjavík eftir að  vika eftir viku í þjóðmálaumræðu hefur farið í að velta sér upp úr Hrunskýrslunni, skýrslu sem er þungur áfellisdómur um íslenskt fjármálakerfi, fjölmiðla og stjórnmál á árunum fyrir Hrunið. Fólk er reitt, vonsvikið og vonlaust. Traust á stjórnmálamenn er þorrið, það er svo lítið að það er í lagi að veðja bara á djók. Besti flokkurinn fyllti ekki upp í tómarúm, það er ekki rétt líking, við erum þrúguð undir miklu fargi og við getum okkur lítið hreyft. Besti flokkurinn léttir okkur lundina á meðan við bíðum eftir einhverju björgunarliði sem aldrei kemur. Kannski verður hann til að við áttum okkur fyrr á því að við verðum að bjarga okkur sjálf og við það verðum við að grípa til óhefðbundinna leiða.

Jón Gnarr oddviti Æ-listans er  þjóðþekktur og vinsæll og fær fólk til að brosa. Hann getur sagt ekki neitt og bullað á skemmtilega fyndinn hátt. Það er betra en venjulegir stjórnmálamenn sem segja ekki neitt og meina ekki það sem þeir segja en gera það á hrútleiðinlegan hátt.

Athygli þjóðarinnar var ekki á þessum kosningum. Fólk bara gaf sér tíma til að spá aðeins í þetta meðfram Eurovision og þegar hlé varð á umfjöllun um Hrunskýrsluna. Margir vilja breytingar, nýja hugsun, nýja nálgun.  Seinasta kjörtímabil í Reykjavík hefur á köflum verið eins og leikhús fáránleikans, meirihlutar myndaðir í skjóli nætur og þegar fólk situr á fundi með einum er það að díla við annan og  REI málið var áfellisdómur fyrir fyrsta meirihluta og dýpra verður ekki sokkið hjá neinu stjórnmálaafli en að gera Ólaf Magnússon að borgarstjóra eins og gert var í þriðja meirihluta. Það var eingöngu í síðasta meirihluta sem ró var á stjórn borgarinnar og innleidd voru samvinnuvinnubrögð í stað átaka. Samvinna byggir á umræðu og yfirvegun og aðkomu margra og umræðu um rök og mótrök í hverju máli.

Fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 og á tíma fyrsta meirihlutans var eitt af slagorðum Framsóknar hugtakið athafnastjórnmál  og  helstu baráttumálin í  kosningabaráttunni voru að færa flugvöllinn á Löngusker og byggja jarðgöng fyrir Sundabraut. Þessi mál koðnuðu niður á kjörtímabilinu og núna í síðasta meirihluta sem var undir stjórn Óskars frá Framsókn og Hönnu Birnu frá Sjálfstæðisflokki var áherslan á velferðarmálin og samvinnu og samráð. Áherslan hafði færst frá framkvæmdagleði og athafnaþrá yfir  hvernig ætti að standa sem sársaukalausast að stjórn borgarinnar á samdráttartímum, draga úr umsvifun en samt reyna að sjá til þess að hér yrði ekki upplausnarástand og atvinna og uppbygging stöðvaðist. Það er mat mitt að Framsóknarflokknum hafi tekist best upp í síðasta meirihluta og komið með hógværð og samvinnu að leiðarljósi að því að stýra Reykjavíkurborg á erfiðum tímum.

Óskar lagði sig líka fram um að byggja upp Framsóknarflokkinn að nýju eftir hatrammar deilur og hnífaslagi.  Einar Skúlason bauð sig fram gegn Óskari á kjörfundi okkar í nóvember og vann með miklum yfirburðum. Einar er vinsæll og vel kynntur og maður sem nýtur trausts innan Framsóknar en er ekki mjög þekktur. Sennilegt er að margir sem kusu Einar hafi  viljað endurnýjun, viljað að þeir sem voru í framlínu á tímanum fyrir Hrunið og komust inn í stjórnmálin með þeim vinnubrögðum sem þá tíðkuðust ættu að stíga til hliðar. Hins vegar varð  þetta til þess að margir sem studdu Óskar urðu sárir og þessi oddvitaskipti í Reykjavík leiddu til þess að framboðið naut ekki þess meðbyrs sem t.d. Hanna Birna hafði af góðum verkum í Reykjavíkurborg þar sem henni og Óskari hafði tekist að snúa við blaðinu í stjórn borgarinna þannig að þar sem áður var upplausnarástand og sundrun var núna sátt og samvinna.  Einnig kom í ljós að  fyrirtæki í eigu aðila sem var í öðru sæti listans var nefnt í Hrunskýrslunni vegna 8 milljarða króna  sem það fyrirtæki hafði gengist í ábyrgð fyrir og var viðkomandi beðinn að víkja af listanum. Ég held að bæði oddvitaskiptin og útskipting á manni í 2. sæti hafi sundrað hluta Framsóknarmanna og þá sérstaklega oddvitaskiptin. En það gerðist reyndar líka árið 2006 að mikil sárindi urðu og Anna Kristinsdóttir sem var borgarfulltrúi og lenti í 2. sæti í prófkjöri tók ekki sæti á listanum og gekk síðar úr flokknum.  Þetta er því miður það sem gerist í prófkjörum, það er innbyggð í þau svona tvístrun á samherjum og þau ala á sundrungu. Við persónukjör mun verða lítil þörf á prófkjörum.

Á listanum var vel valinn hópur af áhugasömu hugsjónafólki. Engin þeirra var þó  þekkt andlit í þjóðlífinu og stefnumálin voru áþekk öðrum flokkum sem lögðu áherslu á velferð í borginni. Í því einkennilega andrúmslofti sem var núna þá bara náði stefna Framsóknarflokksins ekki í gegn og það var ekki neitt sem fangaði athygli kjósenda og sagði þeim hvers vegna þau ættu að kjósa Framsóknarflokkinn. Samfylkingin gaf sig út sem atvinnusköpunarflokk, soldið í sama fasa og Framsókn var árið 2006 og VG var velferðarkerfisflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn í gervi Hönnu Birnu birtist okkur sem alltumfaðmandi félagshyggjufaðmur með samvinnusniði.  Við þetta bættist að Einar sem er hvers manns hugljúfi er ekki sérstaklega vanur fjölmiðlamaður og átti ekki sams konar spretti í sjónvarpi og öðrum ljósvakamiðlum eins og Björn Ingi átti rétt fyrir kosningarnar 2006. Það verður reyndar að skrifast á ábyrgð fjölmiðla hve illa þeir gera stjórnmálastarfi skil og hve grunn og yfirborðsleg umræða er þar. Það sást sérstaklega vel núna eftir kosningarnar, það var ekki áhugi á því að kryfja stöðuna heldur að búa til tilfinningaþrungnar stundir og sjá tapara engjast.  Stjórnmálaleiðtogar fjórflokkanna fá núna margir hverjir spurningu um hvort þeir alli ekki að segja af sér, spurningu sem kemur áður en skoðað er hvað gerðist.  

Þetta framboð var heiðarlegt framboð þar sem ekki var borist mikið á, engir sterkir bakhjarlar með annarleg sjónarmið fjármögnuðu kosningabaráttuna og það var mjög þröngur fjárhagur og lítið svigrúm til auglýsinga og litlir möguleikar á að komast í fjölmiðla. Allt þetta gerði það að verkum að framboð Framsóknarflokksins var í bakgrunni og ekki inn í umræðunni.  Ef borið er saman árið 2006 þá einkenndist sá tími af heiftarlegum árásum á Framsóknarflokkinn, árásum sem Björn Ingi tók mjög fimlega á í orðræðu í fjölmiðlum.  Í síðustu Alþingiskosningum þá vann Framsóknarflokkurinn mikið á (eftir að hafa tapa áður) og þar hafði mikið að segja góð frammistaða þeirra í sjónvarpi og svo held ég að 20% niðurfelling skulda hafi slegið í gegn. Framsóknarframboðið var framboðið sem stóð með heimilum í landinu, tók stöðu með þeim sem skulda, ekki með lánadrottnunum. Einnig vissu allir að formaður og margir aðrir í Framsókn voru í fararbroddi í Indefence, í baráttu á móti hinum ósanngjörnu Icesave samningum. Þannig kom Framsóknarflokkurinn út í síðustu kosningum sem viðspyrnuafl bæði á móti innlendum lánadrottnum og erlendum og það var þetta einfalda tákn "20 % niðurfelling skulda" sem myndgerði það. Auk þess sem efnahagstillögur og stefna var ígrunduð, öfgalaus og yfirveguð. 

Ég held satt að segja að staðan hafi verið þannig í Reykjavík núna að ógerlegt hefði verið fyrir Einar að ná þeim hljómgrunni hjá kjósendum sem þurfti. Það hefði þurft bæði miklu hnitmiðaðri stefnuskrá sem sýndi hvað var öðruvísi hjá Framsókn en hjá öðrum flokkum, stefnuskrá sem var í samræmi við  samvinnuhugsjón sem setur manngildi ofar auðgildi en sýndi þá styrkleika Framsóknarflokks sem öflalauss miðjuafls sem sameinar en sundrar ekki og er jarðbundið og lausnamiðað. Ég held líka að það hafi verið of brött skil á milli Björn Inga/Óskars og svo Einars Skúlasonar, of  mikill biti fyrir kjósendur að sjá flokk sem höfðar til smáatvinnurekenda eins og iðnaðarmanna og bænda og leggur áherslu á fulla atvinnu hvað sem það kostar yfir í að vera umbótaflokkur sem leggur megináherslu á velferðarmálin.  Það líka skein ekki nógu vel í gegn því allir fjórir flokkarnir lögðu áherslu á velferðarmál og grunnþjónustu.  Ég veit að Einar stendur fyrir fjölbreytni, hann vann hjá Alþjóðahúsi og hefur beitt sér fyrir málefnum nýbúa og honum eru þau mál sérstaklega hugleikin. Ég velti fyrir mér hvort það hefði t.d. verið sterkt að þessi málaflokkur hefði verið gerður sýnilegri og lögð áhersla á borg fjölbreytileikans og þar sem fólk af mismunandi uppruna og alls konar ólíkt fólk lifir og starfar saman.  Það vantaði eitthvað í stefnuskrána til að höfða til fólks og boða nýja tíma. Það eru í henni setningar eins og "Við viljum sækja fram í atvinnumálum, umhverfis- og samgöngumálum" og "Við viljum tryggja velferð Reykvíkinga...". Hver vill það ekki? 

Það vantaði að segja  hvað Framsókn stendur fyrir sem hinir flokkarnir standa ekki fyrir.

Ég held líka að skondnir viðburðir eða nýjar hugmyndir um hvernig málstaðurinn er kynntur hefði unnið með framboðinu. Þar hafði Besti flokkurinn náttúrulega forskot enda er það nokkurs konar gjörningaframboð og Einar Ben. hefur nú reynslu af að plögga Bubba og Björk með góðum árangri.

Það getur líka verið að kjósendur í Reykjavík séu með þessu að segja "gefum Framsókn frí", ekki á sama kvikyndislega hátt og Vinstri grænir hafa sagt heldur bara svona góðlátlega "gefum Framsókn frí og leyfum núna öðrum að spreyta sig um hríð, Framsókn hefur vissulega breytt sér og er á góðri leið en undanfarin fjögur ár hefur hún ráðið allt of miklu í borginni miðað við flokksfylgi og það er því bara sanngjarnt að hún sitji núna hjá og komi eldspræk til leiks næst"

Ef  það er eitthvað sem við í Framsóknarflokknum getum lært af þessu þá er það að ekki er á vísan að róa um kjörfylgi og það er mikilvægt að hlú að innra starfi og þá sérstaklega því sem sameinar fremur en því sem sundrar. Einnig þarf meiri fókus og nafnaskoðun á því hvað flokkurinn stendur fyrir, ekki bara stefna heldur líka vinnubrögð.

 

 Alþingiskosningar 2007

Reykjavík suður 2081 (1. sæti  Jónína Bjartmarz)
Reykjavík norður  2186 (1. sæti Jón Sigurðsson formaður)

 

Alþingiskosningar 2009
Reykjavík suður 3635 (1. sæti Vigdís Hauksdóttir)
Reykjavík norður 3375  (1. sæti Sigmundur Davíð formaður)



mbl.is Gagnrýna þingmann sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Takk fyrir þetta, Salvör.

Eygló Þóra Harðardóttir, 31.5.2010 kl. 22:11

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Þú átt eftir að skilja Salvör! M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 31.5.2010 kl. 23:55

3 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Framsóknarflokkurinn var ekki, er ekki og verður væntanlega ekki þéttbýlisflokkur. Framsóknarflokkurinn er landsbyggðarflokkur fyrst og fremst og á að standa fyrir byggðamál. Þar hefur honum mistekist. Fólk skynjar flokkinn í Reykjavík angandi af innanflokksátökum (oftar en ekki tengd prófkjörum) og hnífasettum í ýmsum stærðum og gerðum. Svo hefur verið um nokkurra missera skeið. Nú síðast rís Guðmundur nokkur Steingrímsson og gerir atlögu að formanninum eftir að Einar Skúlason hafði gefið það sama í skyn. Þar birtast tvær fylkingar með og móti ESB (líklega vinstri miiðjumenn og hægri miðjumenn). Aðalskýrining á slöku gengi í Reykjavík tel ég þó þrátt fyrir allt framangreint þó vera þá að fólk er ennþá að refsa flokknum fyrir aðkomu að hruninu með einkavæðingu Búnaðarbankans og útrásarvíkingsins Finns Ingólfssonar. Það er arfur sem er fastur við flokkinn og grasrótin finnst að flokkurinn hafi ekki gert að fullu upp. Það skiptir ekki máli að skipta um fólk ef er áfram í sömu fötunum. Enginn framsóknarmaður mér vitanlega hefur þorað að gagnrýna Halldór og/eða Finn opinberlega og afdráttarlaust. Í staðinn koma klisjur um nýtt fólk. Afleiðingin er sú að flokkurinn er að þurrkast út á höfuðborgarsvæðinu. Flokkurinn mun alltaf lifa á landsbyggðinni einfaldlega vegna þess að það er í stefnuskrá flokksins að standa vörð um landsbyggðina þótt það hafi reyndar gengið fremur brösótt.

Guðmundur St Ragnarsson, 1.6.2010 kl. 01:10

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Má ekki heldur gleyma málefnum Orkuveitunnar - sem margir skilja sem glundroða Framsóknarmanna í Reykjavík.

Þetta var fyrsta tækifæri kjósenda í Rvk. að segja skamm við Framsókn, út af hruninu og öðrum málum tengdu því:

  • Orkuveitan!
  • Hrunið.
  • Þáttur Framsóknar í leikriti síðasta kjörtímabils í borginni.

-------------------------------

Ég ítreka, þ.s. ég hef sjálfur sagt. Framsóknarflokkurnn, þarf að gera betu - miklu betur, til að sannfæra kjósendur þeirra sannfæring sem mikið vantar upp á um að Framsókn sé nýr og betri flokkur undir stjórn nýs fólks.

Hvað sem forystan segir, er árangurinn áfellisdómur á hana einnig - og, hann Guðmundur Steingrímsson hefur um það rétt fyrir sér, og þ.e. ekki skynsamlegt að taka því sem einvhers konar persónulegri árás - menn verða að þola gagnrýni - en það var einmitt Halldórs heilkennið að taka allri gagnrýni persínulega og ráðast að þeim á stundinni svo þeir aldrei dirfðust að opna munninn á ný - eða að þeir þá hrökkluðust úr flokknum - þ.e. ekki e-h sem við viljum endurtaka eða hvað?

Þetta er þvert á móti, áskorun - gerum betur!

Flokkurinn getur raunverulega klofnað, ef farið verður í einhver ofsafengin viðbrögð gegn slíkum augljósum ábendingum.

Eg bendi aftur á mína færslu, og þá áskorun til flokksins, sem í henni felst.

Það gengur ekki það ástand, að flokkurinn geti ekki fengið neitt óánægjufylgi - hann ætti með réttu að mælast rúm 20%.

Þetta lagast ekki af sjálfu sér - átak er nauðsyn!

Pólitískur jarðskjálfti er staðreynd. Stjórnmálaflokkarnir, verða að bregðast við þessum rassskelli kjósenda, annars liggur beint við að Besti Flokkurinn mun endurtaka leik sinn í Reykjavík á landsvísu!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 1.6.2010 kl. 10:17

5 identicon

Ég held að það sé rétt lýsing hjá þér þegar þú segir að Óskar (ásamt Hönnu Birnu) hafi tekist að snúa við blaðinu í stjórn borgarinna þannig að þar sem áður var upplausnarástand og sundrun var sátt og samvinna. Þess vegna komu þessi oddvitaskipti hjá ykkur framsóknarmönnum mér á óvart. Þetta voru að mínu mati mistök númer eitt. Síðan kemur Einar, sem eflaust er ágætis maður, fram  og talar eins og hann OG Framsókn sé fyrst að koma að borgarmálum fyrir þessar kosningar. Af hverju talaði hann ekki um þau góðu mál sem flokkurinn hafði verið að vinna að í borginni á kjörtímabilinu? Af hverju í ósköpunum átti fólk að kjósa mann sem talaði ekki eins og framsóknarmaður heldur eins og Dagur B spilað hægt? Ef framsóknarmenn ætla sér að vinna með þessum hætti þá er alveg eins gott að leggja flokkinn niður og byrja alveg frá grunni.

Guðjón (IP-tala skráð) 1.6.2010 kl. 11:01

6 identicon

Þeir sem ekki vilja sjá að öfgafullur málflutningur Sigmundar og Höskuldar undanfarin misseri er ekki að hitta í mark.  Traust á Sigmund mælist t.d lítið sem ekkert í könnunum og er væntanlega ástæða fyrir því.  Viðbrögð Sigmundar í fréttum Rúv í gær voru hlægileg og full af hroka og engu líkara en Dóri Drumbur væri að tala í gegnum hann þ.e ef einhver dirfðist að gagnrýna leiðtogann hlyti það að vera gjörningur.   Framsóknarflokkurinn sem ég studdi var sá sem Steingrímur Hermannsson heitinn leiddi, flokkur sátta leiddur af manni sem var alþýðlegur og kunni að fá fólk til þess að vinna saman.  Sigmundur Davíð er ekki maður af því kaliberi og sést það best á því að hann þolir ekki hreinskilna umræðu ef hún snýr að honum sem formanni.  Er þetta endurnýjunin sem honum er tíðrætt um?  Að menn eigi að grjóthalda kjafti og ekki megi gagnrýna formanninn?  Þá verður bið á því að framsóknarflokkurinn fái aftur mitt atkvæði því ég styð ekki froðusnakkara eins og Sigmund og Höskuld en það er fólk í flokknum sem verður núna að standa uppa áður en skaðinn verður meiri af hálfu þeirra félaga.

Jóhann (IP-tala skráð) 1.6.2010 kl. 11:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband