Gnarr og Goðmundur á Glæsivöllum

Ég  óska öllum þeim 15 borgarfulltrúum sem hlutu kosningu í nótt til hamingju og sérstaklega óska ég Besta flokknum til hamingju, þau lögðu Reykjavík að velli og vopn þeirra voru ekki kylfur eða byssur eða sprengjur, vopn þeirra voru breytingavilji, satíra, grín og háð og þekktur og vinsæll leikari, liðsmenn þeirra voru skapandi listamenn sem breyttu - eða öllu heldur afhjúpuðu - stjórnmálunum í farsa. Ég bjó til sérstakt myndverk til heiðurs þessum 15 nýkjörnu borgarfulltrúum, það er hérna:

Vantraust2 Auðvitað er ég samt undir niðri svolítið  súr yfir að Besta flokknum skuli ganga svona vel, hvaða réttlæti er í því að vinsæll grínleikari  skuli einn daginn segjast vera að leita að þægilegri innivinnu og svo næsta dag rusla sex með sér inn í borgarstjórn. Já svo súr að ég má til með að vitna í ljóðið hans Gríms Thomsen um Goðmund á Glæsivöllum  en svona lýsir Grímur senunni:

 Hjá Goðmundi á Glæsivöllum
gleði er í höll,
glymja hlátra sköll
og trúðar og leikarar leika þar um völl
en lítt er af setningi slegið.

Svo má náttúrulega reyna að sjá sömu  feiknstafi  í brosum Goðmunds Gríms og hins broshýra Gnarr sem er með fangelsi á heilanum og hefur það helsta baráttumál að gera Reykjavík að alþjóðlegri fanganýlendu. Svona lýsir Grímur Goðmundi konungi:

Goðmundur kóngur
er kurteis og hýr,
yfir köldu býr.
Fránar eru sjónir en fölur er hans hlýr
og feiknstafir svigna í brosi.

En það er best að tapa sér ekki í beisku og biturð yfir úrslitum og viðurkenna ósigur, viðurkenna að Gnarr hefur í magntölum mælt mun betri árangur en við hin, við sem höfum starfað innan stjórnmálaflokka af heiðarleika og hugsjón og reynt að breyta vinnulagi þar. En ég tek undir með Jóhönnu Sigurðardóttur, ég held að þessar kosningar marki endalok fjórflokksins og kannski endalok ákveðinnar gerðar af stjórnmálum. Ég held líka að nú ættu allir flokkar að íhuga mjög gaumgæfilega stöðu sína og vinnubrögð og hafa frumkvæði að  því að sameinast um ákveðin málefni þvert á hefðbundnar flokkslínur.  

Svona þegar beiskunni sleppir þá get ég alveg viðurkennt að  Besti flokkurinn er að mörgu leyti jákvætt afl í íslenskum stjórnmálum. Það eru margir listamenn og hugmyndasmiðir í þeirra sveit og ég held að það sé einmitt það sem Reykjavík vantar núna, svona andstæðu við excel-hugsunarhátt  og skrifræðisstjórn  sem þar að auki hefur undanfarin ár eða áratugi verið stjórn sem gætir betur að hagsmunum eignafólks og atvinnurekenda en almennings. Hérna nefni ég sérstaklega hvernig rústasvæðum eftir Hrunið er leyft að grotna niður og hvernig allt umhverfi er skipulagt með hagsmuni þeirra sem hafa tekjur af meiri neyslu í huga, þannig er miðbærinn fyrst og fremst settur upp með hagsmuni verslunareigenda, barrekenda og túristaiðnaðar í huga og  almenningur eins og rekinn í burtu út úr eigin borg - nema hann ætli að versla eitthvað. Svo hefur borgin sjálf verið í gegnum fyrirtæki eins og OR í vægast sagt einkennilegu bralli á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Ég tel hins vegar að varðandi ýmis konar velferðarmál hafi Reykjavíkurborg verið vel stjórnað, ekki síst núna eftir hrun og það hafi verið unnið í sátt allra aðila út úr mjög erfiðri stöðu sem upp kom eftir Hrunið. Því er hins vegar ekki að leyna að hluti af síðasta kjörtímabili var skrípaleikur og þar vil ég sérstaklega nefna endalok fyrsta meirihluta í kjölfar REI málsins og svo alla stjórnartíð Ólafs Magnússonar sem var  harmsaga ein. Ég held að það væri mikil afturför ef horfin verður frá þeim samvinnuvinnubrögðum sem einkenndu síðasta hluta kjörtímabilsins.

Það er von mín að nýir valdhafar í Reykjavík fari vel með auðæfi borgarinnar - auðæfi sem eru ekki nema að litlu leyti mæld í krónum, auðæfi sem eru ekki nema að litlu leyti sýnileg vegna þess að þau eru fólgin í tengslum og venslum og infrastrúktúr og því sem er svo smágert og handanheimslegt að það sést ekki ef sá sem skoðar er með gleraugu sem mæla bara gróða og tap.


mbl.is Besti flokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Eitt ætla ég að segja - ég vona innilega að Dagur og Jón, fari ekki í það af fúlustu alvöru, að innleiða atvinnustefnu Samfó skv. kosningaskrá Samfó í Rvk.

Ég held að Jón Gnarr, sé velviljaður einstaklingur, en hann hefur akkílesarhæl sem er alvarlegur skortur á menntun, þ.s. hann kláraði aldrei ekki einu sinni grunnskóla. Hættan er sú, að hann hafi ekki þá þekkingu sem þarf, til að sjá í gegnum yfirborðsmennsku og fagurgala Dags.

Nánar tiltekið, að hugmyndir borgarfl. Samfó, eru hreinlega stórhættulegar. Hætta, hröð vegferð í hreint gjaldþrot.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 31.5.2010 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband