Gos, Twitter, náttúruhamfarir og byltingar

Myndband frá Eyjafjallajökli eftir  Sean Stiegemeier 

Þegar aðstæður breytast mjög hratt og þannig að hefðbundnir fjölmiðlar ná ekki á vettvang með fréttirnar þá  koma eiginleikar hinna nýju félagsneta og ýmis konar netmiðlunar í ljós og fréttir ferðast áfram, ekki í gegnum útsendingar heldur meira eins og rafboð sem seitla eða streyma áfram eftir tauganeti heimsins, tauganeti sem núna er samsett að hluta úr sjálfvirkum skynjunarbúnaði og sjálfvirkum sendibúnaði upplýsinga, upplýsinga um jarðskjálfta sem birtast á vef Veðurstofunnar, upplýsinga úr vefmyndavélum  eins og Míla o.fl. hafa sett upp og svo ýmis konar rýni fólks í þessar upplýsingar sem velur út hvaða upplýsingar eru sendar áfram um Netið og hvernig þær eru túlkaðar.

Það er sennilega í stríði og byltingum eða náttúruhamförum sem eiginleikar nýrra félagsmiðla á Netinu og annars konar netmiðlunar koma skýrast í ljós. Eiginleikar sem eru ekki bara tæknilegir heldur líka þannig að miðlunum er öðruvísi stýrt og sú ritskoðun sem þar á sér stað fylgir öðrum reglum en í hefðbundnum prent- og ljósvakamiðlum.

Oft er því haldið fram að hinir nýju miðlar séu óritstýrðir, þar sé fullkomið tjáningarfrelsi og þessir miðlar séu vettvangur hins smáða og hrjáða og  vettvangur þar sem þaggaðir hópar geta látið að sér kveða, hrópað og látið hlusta á sig og haft áhrif. Það er að sumu leyti satt en það er tímabundið ástand.

Ef við gefum okkur að  félagslegt landslag fjölmiðlunar sé þannig að það  skiptist í þá sem hafa rödd þ.e. ráða yfir fjölmiðlun og stýra þeim sannleika sem fjöldanum er birt og hafa í þjónustu sinni flestallt fjölmiðlafólk og bókmenntaelítu sem er þeim háð með lífsviðurværi  og svo hins vegar í  valdalausan og þaggaðan múg sem er eingöngu viðtakendur þess sannleika sem fjölmiðlaeigendur vilja að sé haldið á lofti, sannleika sem er þannig að fjölmiðlaeigendur eru á stalli og fréttaflutningi hagrætt þannig að það þjóni viðskiptahagsmunum þeirra þá getum við líka gefið okkur að eitt af hlutverkum fjölmiðla sé að viðhalda eimitt þannig valdastrúktúr. 

Ef við gefum okkur þannig ástand að allir hefðbundnir fjölmiðlar séu undir stjórn kúgara sem með hliðvörðum og sigturum sigta hvað kastljós fjölmiðla sér og miðlar þá tekur smátíma fyrir slíka fjölmiðlun að átta sig á að völdin eru að fjara undan slíku kerfi - einmitt af því að völdin eru að töluverði leyti fólgin í fjölmiðluninni sjálfri, í því að láta almenning trúa á það líkan sem dregið er upp í fjölmiðlum.  Þetta er svipað og völdin í hefðbundnu peningakerfi eru fólgin í trausti almennings á  því líkani af viðskiptum sem það kerfi byggir á og svo mikilli tiltrú að almenningur notar það kerfi og afneitar því ekki. Sama er um lög og reglur samfélagsins, það er líka líkan og völd laga- og dómskerfis  byggast á því að fólk hafi tiltrú á því kerfi (ekki bara tiltrú á þeim veruleika um réttlæti sem lögin miðla heldur líka tiltrú á að það eigi að hlýða lögunum og það hafi slæmar afleiðingar að það sé ekki gert). Raunar eru völd í margs konar kerfum fólgin í svona tiltrú á að kerfið virki, gott dæmi um þetta eru trúarbrögð og  alls konar sköpunarsögur og upprunasögur sem sagðar eru og endurteknar eins og leiðarstef til að halda hópum saman utan um eitthvað fyrirbæri. 

Ef almenningur hins vegar snýr sér annað t.d. fær boð um hvað er fréttnæmt að gerast ekki frá Mogganum og ekki frá BBC heldur beint frá uppsprettu frétta t.d. sjálfvirkum jarðskjálftamæli eða vefmyndavél frá eldgosi  eða frá símabloggara með vefmyndavél sem tekur upp götuóeirðir þá er þessi ritstýrða og túlkaða og miðlæga miðlun hefðbundins fjölmiðils  orðin minna virði og ef verkfærin (wikifréttir, twitter, blogg, facebook og margt fleira) vinna með þannig miðlun sem er meira eins og ótal fréttastraumar sem samtvinnast og rekjast sundur og eru sumu leyti vélrænir og sumu leyti túlkaðir af fólki þá kemur að þeim punkti að þeir sem stýra og þeir sem búa til og miðla fréttum í hinum hefðbundnu miðlum átta sig á því að þeir eru eins og strandaðir hvalir. 

Þannig er það í dag, þessi tegund af miðlun leikur grátt marga sem sótt hafa völd sín í að byggja í kringum sig hjúp þar sem þeirra eigin sannleikur er sá eini rétti, ríkisstjórnir hafa byggt tilveru sína á því,  stórfyrirtæki athafna sig með hliðsjón af  því og það fjármálakerfi sem umlykur allar vestrænar þjóðir er raunar svo mikið  afsprengi prentaldar að helsta táknmynd þess er einmitt peningaprent og þetta skiptimiðakerfi fyrir flæði í samfélögum er alfarið byggt á trausti almennings, trausti á að einhver raunveruleg verðmæti séu bak við tölur ritaðar á alls konar blöð svo sem hlutabréf, skuldabréf, verðbréf og peninga. 

Hin nýja blanda af félagsneta miðlun og sjálfvirkri miðlun og alls konar sjálfvirkni og vélvæðingu upplýsingaheimsins ógnar sífellt meira hefðbundinni miðlun og er  Disruptive technology sem ýtir burtu eldri aðferðum. Það  getur verið að um tíma hirði engir um að nota slíka miðla nema þeir sem komast ekki að í hefðbundnari miðlum. Þannig var bloggið um tíma og er hugsanlega ennþá miðill hinna áður þögguðu og kannski ein af fáum hugsanlegum leiðum til  að hafa áhrif. Hins vegar er líklegt að sömu öfl og höfðu hagsmuni af að ákveðinn gerð af þeirra sannleika hljómaði átti sig á að sá hljómur deyr út ef þau halda sig eingöngu við hefðbundna fjölmiðlun. Þess vegna sjáum við alls konar tilraunir í gangi að hefðbundnir miðlar (og þá með óbeinum hætti þeir sem að þeim standa) teygja sig yfir í þessa hlið miðlunar. Sumt hefur gengið illa, sumt betur. Á tímabili var bloggsamfélagið í kringum mbl.is einn öflugasti samræðuvettvangur Íslands en það er áberandi hve sá vettvangur var brotinn niður væntanlega  vegna þess að hann þjónaði ekki hagsmunum eigenda þess fjölmiðils.  Það er líka áhugavert í dag að  nokkrir af  áhrifamestu og mest lesnu bloggurum Íslands í dag eru menn sem eiga rætur sínar í gömlum fjölmiðlum t.d. eins og Jónas á jonas.is og Egill á silfri Egils á eyjan.is.   

En það var reyndar Twitter sem ég ætlaði að fjalla um í þessu bloggi og hvernig og hvaða áhrif sá vettvangur hefur núna. Ég hef skrifað áður blogg um Twitter, um hve mikilvægt baráttutæki Twitter getur verið í andspyrnuhreyfingum, sjá hérna Byltingartólið Twitter og morðið á Rodrigo Rosenberg

Twitter er mjög samanþjappaður fréttastraumur, allir geta orðið notendur og þetta er örbloggskerfi og hvert blogg má bara vera 144 stafir, svipað eins og statusuppfærslur í facebook. En twitter er meira en örblogg, það er samræða og samræðurnar fara fram í gegnum að notendur búa til hópa, gerast áskrifendur að fréttastraumum annara og það sem er mikilvægast, auðkenna fréttir sínar sérstaklega fyrir aðra með "tagging" t.d. ákveða að allar fréttir af eldgosunum á Íslandi eigi að merkja með taginu #icerupt og allar fréttir um öskuský eigi að merkja með taginu #ashcloud og allar fréttir um Icesave samningana eigi að merkja með #icesave.

Sem dæmi um  hvernig Twitter vinnur þá póstaði ég í gær í örvæntingu minni um hvernig ástandið væri á Íslandi þegar orkulindir Íslendinga eru að komast úr lögsögu Íslendinga ofan í kommóðuskúffu í Svíþjóð í kommóðu sem er í eigu kanadísks fyrirtækis sem stýrt er af manni sem auðgaðist á spákaupmennsku og viðskiptum með silfurnámur í Suður Ameríku.  Eitt að því sem ég póstaði var vísun í gamla grein um Magma og HS Orku. Svo sá ég í dag þegar ég sló inn leitarorðið Magma í search.twitter.com að einhver háskólamaður við háskóla í USA var að endurpósta (retweet) á twitter vísun í mína twitter sendingu frá því í gær. Þegar ég rakti þræðina áfram þá sá ég að hún hefur rekist á twitter straum frá rvkgrapevine en sá twitternotandi hefur rekist á mitt tvít og endurpóstað (retweet) hann. Sjá þessa skjámynd. Þannig geta sendingar á Twitter borist áfram, ekki bara til þeirra sem fylgjast með straumum (eru á áskriftarlista) heldur líka með leit. 

 magma-retweet.png

Twitter er skráningakerfi, twitter er samræður, twitter er samtvinnun á örstuttum umræðum margra og þannig er twitter líka leitarvél, ein besta leitarvélin til að leita af því nýjasta, því sem er mest í umræðunni, því sem vísar í annað. Margir nota reglubundið twitter til að gefa upp slóðir, segja frá að þeir hafi sett eitthvað nýtt út á vefinn, vísa í slóðir þar sem upplýsingar er að fá. Í öskuskýjafarinu á flugvélum varð til merkingin #ashcloud þar sem allt sem varðaði öskuskýið var sett inn. 

En margir nota twitter líka til að plögga vöru og þjónustu sem þeir eru að selja að afla málstað sínum liðsinnis. Ég og fleiri skráðum oft á twitter færslur þegar Icesave umræðan var í algleymingi. Núna reyna ýmsir aðilar í ferðamálum að plögga á twitter og fleiri netmiðlum að hér á Íslandi sé allt með kyrrum kjörum, að vísu gos en það sé voða meinlaust og sætt fyrir túrista. Ég tók eftir að í gosfréttunum þá voru öðru hverju illa dulbúnar auglýsingar frá hótelum merktar með #icerupt.

Hér er skjámynd af twitterstraum af taginu #icerupt

twitter-auglysingar-icerupt.png

 Þetta mun til lengri tíma eyðileggja þennan vettvang sem og aðra, raunar má segja að twitter komi núna í staðinn fyrir vefþjónustuna Technorati sem virkaði svipað. Auglýsingar verða hávaði á twitterstraumum og að því kemur að upplýsingarnar drukkna í hávaða.  En það er mikilvægt að átta sig á að twitter og svipuð kerfi eru öflug verkfæri þegar náttúruhörmungar ríða yfir og kannski eina sambandið sem næst við fólk er í gegnum gervihnetti og síma sem eru þeim tengdir. Það er mikilvægt fyrir aðila sem samhæfa björgunarstarf að læra á slík verkfæri þ.e. twittersendingar í gegnum símtæki og að lesa og vinna með slíka miðla og nota þá til að samhæfa aðgerðir, það sparar tíma ef til þess kemur að það þarf að nota slík boðkerfi.


 

 

 


mbl.is Mikið sprengigos í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullgrafarafyrirtæki sem stefnir að 1000% gróða

Engin orð fá lýst hve mikla fyrirlitningu ég hef á stjórnmálamönnum og athafnamönnum hérlendum sem nú véla um framtíð Íslands og auðlindir og stefna  til landsins hýenuhjörðum sem renna á blóðslóð skuldfangaðra þjóða.

Það eru núna í gangi dularfullir fjármálagjörningar milli  Geysis Green Energy og fyrirtækis sem er  kanadísk kauphallarkommóða þar sem ein skúffan er í Svíþjóð og upp úr þeirri skúffu hefur magnast upp fálmari sem teygir sig til Íslands. 

Þessir  dularfullu fjármálagjörningar hafa í för með sér að eina íslenska orkufyrirtækið sem er "einkavætt" er komið úr íslenskri lögsögu, komið á rek í heimi kauphallarfyrirtækja sem hvergi eru til nema á aflandseyjum þar sem eigendurnir taka út gróðann sem þeir búa til  fyrir sjálfa sig og flytjaí  fjármálaleg skúmaskot  heimsins.

Í besta falli er þessi dularfulli gjörningur ennþá eitt fjárhagslega sjónarspilið þar sem blankir barónar eru að reyna að búa til peninga með "hype-ið" einu að vopni og með peningasjónhverfingum. Það er skrýtið að lesa í Víkurfréttum svona setningu :

"Salan léttir verulega á skuldum Geysis og auðveldar félaginu til muna að styðja við aðrar eignir í eignasafninu.“"

Þetta er allt öðruvísi en það sem stendur í erlendum tilkynningum. Hvernig stendur á því að  í erlendum fréttatilkynningum segir að Magma muni fjármagna þess með því sem er kallað "Bridge financering" og ætli að fjármagna svona (er sem sagt ekki með neitt fast í hendi núna við undirritun samnings:

"The Company plans to finance this transaction by: bridge financing, conventional debt and/or equity financing, and/or sale of a minority stake in HS Orka to other Icelandic or offshore investors."

Þetta er svolítið öðruvísi hvort maður les ensku fréttatilkynningarnar sem Magma sendir til umheimsins eða þær sem sendar eru til fréttamiðla í Keflavík. Þetta minnir óneitanlega á feikið í Bjarna Ármannssyni þegar hann var að poppa upp gróðann af REI og hlutabréfin bara bólgnuðu út og hækkuðu eins og hendi (hendi Bjarna) væri veifað. Þetta eru einhvern veginn sömu vinnubrögðin.

Þessi brúarfjármögnun (Bridge financing) gengur út á að Magma ætlar  að taka lán (hjá íslenskum lífeyrissjóðum?, hjá Deutsche bank sem á helling af íslenskum krónum föstum hérna?? hjá Kínverjum sem eiga fullt af dollurum og eru að sanka að sér álverum?) þangað til tekjurnar fara að streyma inn. Oft eru bankar þátttakendur í svona brúarfjármögnun.

Það er umhugsunarvert hve margir íslenskir bankamenn fóru til Kanada og sumir eru þar í samstarfi við aðra sem voru í Deutsche bank og aðra aðila sem komu fótunum undir spreðið í Björgólfunum og Bónusfeðgunum, hugsanlega voru Björgúlfarnir allan tímann á mála hjá sér voldugri fjármálamógúlum. En alla vega er staðan þannig núna að hérlendis eru innlyksa mikið af fé svokölluðum jöklabréfum sem  eigendur (deutsche bank og holleskur banki) ráðslaga með (fyrir hverja þessir bankar eru díla, það er önnur spurning en alla vega er því fljótsvarað að það er ekki fyrir almenning í Þýskalandi eða Hollandi) og vilja ávaxta.

Núna eru þessir peningar bundnir í landinu og bankarnir útlensku fúlsa við húsum og fasteignum hérlendis, það er ekki arðvænleg fjárfesting... og er erfitt að breyta í peningaflæði í hverfulum heimi. 

Þess vegna er fjárfesting í orku það sem flestir sem spá fram í tímann telja arðvænlegast. 

Það er mikil hneisa og harmleikur sem nú á sér stað bak við tjöldin með íslenskar auðlindir og stjórnvöld standa ráðalaus  andspænis því að nákvæmlega sams konar vinnubrögð séu núna viðhöfð eins og var fyrir hrun, vinnubrögð sem voru ekki annað en risastór svikamylla. Stjórnvöld bera fyrir sig samevrópskar reglur, það hafi orðið að fullnusta einhverjar reglugerðir og lög frá Evrópusambandinu hérna, lög sem bönnuðu ríkisrekstur í orkugeiranum út frá einhverjum samkeppnissjónarmiðum.

En þessi lög snúast í andhverfu sína, þessi lög snúast núna  í það að verða verkfæri til að ræna almenning íslenskum auðlindum og búa til einokunaraðstöðu erlends einkafyrirtækis á íslenskum orkumarkaði. Mjög sennilega verður það líka til þess að sami eigandi verður á orkuveri og iðjuveri sem nýtir orku frá orkuveri. 

Það er skömm og hneisa fyrir ríkisstjórn Íslands að láta þetta viðgangast og taka þátt í þessu, annað hvort með því að sitja aðgerðarlaus hjá eða með því að segja þetta til að "skapa störf" og þátt í að "virkja okkur út úr vandanum" og "fá fjármagn inn í landið" þegar alls, alls ekkert fjármagn kemur inn í landið, þetta er bara blekkingarleikur til að fjárfesta jöklabréfadótið og soga fé frá lífeyrissjóðum. Fjárfesting í virkjunum er fjárfesting sem skilar ekki arði fyrr en eftir langan tíma og nú er sennilega vitlausasti tími í heimi fyrir Íslendinga stuðla að frekari virkjunum,  tímanum  er miklu betur varið í að knýja lánadrottna (deutche bank o.fl.) að samningaborði og gera þeim ljóst að það þarf að semja um skuldir og hóta því að annars muni framleiðslutækin hérna (virkjanir o.fl.) grotna niður engum til gangs og skálmöld ríkja. 

Þau stjórnvöld  sem bjóða lánadrottnum upp  á að virkja og hrifsa til sín auðlindir í staðinn fyrir skuldir eru eins og verkalýðsforusta sem  segir  vinnuveitendum að þeir þurfi ekki að óttast verkfall eða kauphækkanir eða múður og tekur vökustaurum sem kjarabót og  segir við  umbjóðendur sína, verkafólkið "sjáið hvað við höfum samið vel, við höfum samið um ókeypis vökustaura fyrir alla, allt árið!"


mbl.is Ræddu við lífeyrissjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilborg Dagbjartsdóttir á Austurvelli

Í góða veðrinu í gær fór ég í  árlega fjölmenningargöngu niður Skólavörðustíginn og Laugaveginn og Lækjargötu að Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem hátíðin hélt áfram.  Svo fór ég á Austurvöll og kom einmitt þegar Vilborg Dagbjartsdóttir flutti ávarp, þetta var baráttusamkoma fyrir þá níu sakborninga sem hafa verið ákærðir fyrir róstur við Alþingishúsið í janúar 2009, í búsáhaldabyltingunni.

Ég tók upp hluta af ræðu Vilborgar og setti á youtube, það má sjá hérna:

Vilborg líkti saman búsáhaldabyltingunni og róstunum 30. mars 1949 þegar óeirðir brutust út vegna mótmæla um að Ísland gengi í hernaðarbandalagið Nató.

Það er ágætt að íhuga hvað er sameiginlegt með því stríði og þeim hernaðarbandalögum sem í gangi voru í heiminum 1949 og því fjármálastríði sem núna er háð og þeim fjármálabandalögum sem þjóðir heims bindast í þeim stríðsátökum. Það er áhugavert að helstu röksemdir sem nú eru settar fyrir inngöngu Íslands í EBE eru efnahagslegar, efnahagslegur stöðugleiki með að geta hugsanlega tekið upp evru. Á sama tíma verður ekki beinlínis séð að efnahagslegur stöðugleiki né annars konar stöðugleiki sé helsta einkenni EBE ríkja. Það getur verið að við sjáum ennþá meiri grimmd ríkja eða ríkjasamband sem sjá tilveru sinni ógnað og horfast í augu við að hugsanlega munu þau liðast í sundur. 

Faðir minn var ári yngri en Vilborg og ég held að hann og allir vinir hans úr Þingholtunum hafi verið á Austurvelli þennan dag. Ég veit ekki hvort einhver af vinum hans var ákærður þá en ég veit að síminn heima hjá Haraldi tollverði var hleraður vegna stjórnmálaþáttöku sona hans. Þeir voru vinir föður míns.  Alla vega varð þessi reynsla og stjórnmálalandslagið á Íslandi til þess að þeir urðu flestir ákafir kommúnistar og störfuðu í Æskulýðsfylkingunni.

Óeirðirnar á Austurvelli 1949 - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið

Óeirðir á Austurvelli 30. mars 1949 - mbl.is

Borgarskjalasafn 30. mars minnst

Óli Águstar rifjar upp frá sjónarhorni strákanna á Grímsstaðaholtinu

 


Hanna Birna seldi Landsvirkjun, var það góður díll?

Við horfum þessa dagana agndofa  á hvernig   stjórnmálakerfi og bankakerfi Íslendinga brotlendir og splundrast í fallinu og veldur núna ógnartjóni þegar brotin spýtast í allar áttir og lenda á orkumannvirkjum og  útvegsfyrirtækjum. Það er  eins og stríðsþotur útrásarvíkinga með sína þægu stjórnmálamenn sem voru að snapa sér far með þotuliðinu hafi staðið fyrir sjálfsmorðsárás og stungið sér í  niður í Kárahnjúkavirkjun og frystitogara Hbgranda  og flest önnur frumiðjuver á og við Ísland  og mölbrotið  í fallinu allt sem getur gert landið  búvænlegt í framtíðinni og miðin gjöful.

En þó við almenningur horfum á þetta gerast fyrir framan augun á okkur þá er eins og við sjáum enga heildarmynd, við sjáum eingöngu skekkt og bjöguð spegilbrot sem glampa á móti okkur í fjölmiðlum. Fjölmiðlaspegillinn er gerður úr sama efni og spegill Snædrottningarinnar í ævintýrinu og flestum fjölmiðlum hérna er ennþá stýrt af og/eða í  eigu  útrásarvíkinga, útvegsmanna og  ættarveldis í dauðateygjunum.

Við sjáum heldur enga heildarmynd í gegnum augu þeirra stjórnmálamanna sem tifuðu í takt við markaðinn, stjórnmálamanna sem trúðu blint á frjálshyggju og markaðsvæðingu allra hluta. Stjórnmálamanna sem trúðu og trúa á ósýnilega hönd markaðarins og halda að raunveruleikinn séu verðmiðar á alla hluti og blind einkavæðing, stjórnmálamanna sem trúa á samkeppni en ekki samvinnu.

Margir stjórnmálamenn  spegluðu og spegla verðleika sína í gegnum skuldatryggingarálag og matkerfi Moodys og hve vel þeim tekst að þyrla upp fjármálafroðu til að hafa áhrif á slíka kvarða og  tryggja hagsmuni og renta fé  Deutshe Bank og annarra stórra og voldugra fjárfesta.  Þetta er ekkert séríslensk ástand. Stjórnmálamenn hvaðanæva um heiminn laga sig að markaðnum svo mikið að það  er fjármálamarkaðurinn sem stýrir stjórnmálum en ekki öfugt. Það sást vel um seinustu helgi þegar fjármálayfirvöld evrulanda komu saman á neyðarfundi til að setja saman björgunarpakka fyrir Grikkland, aðalmálið var ekki grískur almenningur, aðalmálið var að setja saman nógu trúverðugan pakka fyrir fjárfesta áður en kauphallir heimsins opnuðu.

Á meðan stjórnmálamenn og samtryggingarkerfi stjórnmálanna tifar frá mínútu til mínútu  í takt við kauphallarmarkað og kasínokapítalisk fjármálakerfi, kerfi sem núna afhjúpast núna fyrir okkur að er einn alsherjar blekkingarleikur og mjög hugsanlega saknæmt svindl  þá  þurfa stjórnmálamenn ekki að standa andspænis alþýðu landsins nema á fjögurra ára fresti, í kosningum.

Og það er hefð fyrir því að í kosningum alla vega á Íslandi að  gert sé út á gullfiskaminni kjósenda og séð til þess að kjósendur hafi engar forsendur til að kynna sér málin, ekki af því þau séu svo flókin heldur af því að upplýsingar einfaldlega eru ekki lagðar á borð fyrir fólk, þær eru beinlínis faldar og fólk hefur engin verkfæri til  bera saman gögn,  fylgjast með málum og spyrja og taka þátt í ákvarðanatöku eða amk segja stjórnmálamönnum hvenær þeir eru að taka óhemju áhættusamar ákvarðanir sem skuldbinda alla alþýðu og eru ekki í þágu fjöldans heldur einstakra aðila sem skara eld að eigin köku.

Þeirri blekkingu er haldið að okkur að einhvers konar lýðræðisfyrirkomulag sé í stjórnmálum ef við fáum að greiða atkvæði og tjá okkur um litlu málin sem engu máli skipta fyrir langtímahagsmuni borgarbúa. Hvaða máli skiptir hvort Reykvíkingum finnist að það eigi í sumar að mála leiktækin á leiksvæðinu við Laugarlæk þegar undir eru mál sem varða það hvort Reykvíkingar setji sig á vonarvöl og  afsali samansafnaðri auðlegð fyrri kynslóða, auðlegð sem fólgin er í landinu sjálfu, í lendum sem teknar voru undir virkjanir og fólgin var í eigum borgarinnar, setji verðmiða á eigur sem eðli málsins samkvæmt eru ekki söluvara á markaði og afhendi í snyrtilegum pökkum til einkaaðila, til fjárfesta sem reknir eru áfram af gróðahvöt, til þeirra sem spila og hafa spilað með  í fjárhættuspili vestrænna hagkerfa, til þeirra sem brjóta sér leið inn í almenningseigur með vafningum og fjárhagslegum svikamyllum?

Hanna Birna fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur  leggur stolt fram ársreikning borgarinnar núna í lok kjörtímabilsins. Það er mikilvægt núna rétt fyrir kosningar að reyna að ná til borgarbúa og fá þá til að halda að allt sé í lagi með fjármál borgarinnar. Enda kemur ársreikningurinn alveg ágætlega út, sýnir styrka efnahagsstjórn og við öll sem núna tökum þátt í borgarmálunum vitum að þar er vel unnið núna, unnið í sátt og samvinnu, unnið í anda Samvinnumanna. Þannig var það því miður ekki í stjórn Reykjavíkurborgar alltaf á þessu kjörtímabili.  Þegar upp er staðið og farið yfir þá fjóra meirihluta sem hafa verið í borgarstjórn Reykjavíkur á þessu kjörtímabili þá er það eingöngu meirihluti nr. 2 (undir forustu Dags Eggertssonar með þátttöku Óskars oddvita Framsóknarflokksins) og nr. 4 (undir forustu Hönnu Birnu og með þátttöku Óskars oddvita Framsóknarflokksins) sem hafa staðið af trúmennsku og áreiðanleika að málum og unnið í sátt og samvinnu við borgarbúa og af heilindum að hagsmunum þeirra.

En það hvernig Hanna Birna talar um ársreikning borgarinnar núna minnir óþægilega mikið á fyrri kosningaslagorð Sjálfstæðisflokksins, minnir mikið á þegar Geir Haarde og Þorgerður Katrín seldu kjósendum ímynd sína sem "Traust efnahagsstjórn - þegar öllu er á botninn hvolft". Málið var það að öllu var á botninn hvolt og þegar ausið var úr þeirri fötu kom í ljós að þeirra efnahagsstjórn minni en ekki nein og þau voru í yfirhilmingarreið yfir spilltu og sjúku fjármálakerfi og sök þeirra er svo mikil í þeirri yfirhilmingu að ég skil ekki  ennþá hvers vegna þau eru ekki kölluð fyrir Landsdóm. 

geir-og-katrin

Þess vegna finnst mér borgarbúar eiga kröfu á að vita hvernig staðan raunverulega er núna fyrir kosningarnar, hverjar eru þær skuldbindingar sem munu falla á borgarsjóð ef aðrir aðilar sem borgin er í ábyrgð fyrir munu ekki geta staðið við sínar skuldbindingar. Þá á ég sérstaklega við skuldbindingar  vegna skulda Landsvirkunar og hvernig standa málin út af sölu Landsvirkunar, sölu sem var fullnustuð í tíð 1. meirihluta, í byrjun þess kjörtímabils sem nú er að enda. Þeir borgarfulltrúar sem samþykktu þann samning samkvæmt fundargerð borgarráðs 11. nóvember 2006 voru:

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Jórunn Frímannsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson
Björn Ingi Hrafnsson.

Hver er staðan  í lok kjörtímabilsins?
Er líklegt að þessi samningur skelli á okkur, okkur að óvörum ei eins og gerðist með  Icesave? Hvernig var borgun háttað frá Landsvirkjun? Var það bara að taka yfir lífeyrisskuldbindingar? Var þessi samningur einhver díll til að byrja að koma orkuauðlindum Íslendinga til einkaaðila,  aðgerð sem raunar bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafa staðið að? Hvað ef Landsvirkjun getur ekki staðið við sínar skuldbindingar? Lenda lífeyrisskuldbindingar þá ekki hvort sem er á borginni? Ef allt fer á versta hugsanlega veg, þýðir það þá að borgin seldi Landsvirkjun gegn einhverjum skuldabréfum sem hugsanlega fæst ekkert fyrir og gegn yfirtöku lífeyrisgreiðsla sem munu koma hvort sem er koma í fangið á borginni?

Hvernig er samningurinn um söluna á Landsvirkjun? Getur verið að risastór hlutur í stærsta orkufyrirtæki Íslands hafi verið seldur fyrir spilapeninga og möndl og getur verið að sú staða komi upp að Reykjavíkurborg eigi ekkert í Landsvirkjun og engar forgangskröfur í eignir þar en standi uppi með ábyrgðir fyrir mikli stærri upphæð?

Þeir borgarfulltrúar sem skrifuðu undir samninginn um sölu á  Landsvirkjun á sínum tíma verða að hlíta því að fjárhagslegt innsæi þeirra og geta til að stýra stórum fyrirtækjum eins og Reykjavíkurborg séu metnir á grundvelli stærstu og afdrifaríkustu samninga sem þeir gera. 

Því spyr ég. Þegar Hanna Birna seldi Landsvirkjun fyrir fjórum árum, var það góður díll?


mbl.is Kaupþingsmenn fyrir dómara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Reykjavíkurborg í ábyrgð fyrir miklu af skuldum Landsvirkjunar?

Við horfum á fjármálakerfi Evrópu á heljarþröm. Hættan er ekki gengisfall evru heldur að öllum verði ljóst að einhver ríki munu hvorki vilja né geta staðið við skuldbindingar sínar. Hættunni á hruni í Evrópu var afstýrt um hríð með innspýtingu Evrópska seðlabankans sem lánar Grikkjum þannig að hann kaupir upp ríkisskuldabréf Grikklands og gefur sjálfur út euro bonds.  Því miður er líklegt að skuldavandi annarra Evrópuríkja komi fljótlega upp á yfirborðið. Það er skrýtið að lesa um stofnun neyðarsjóðs "sem ætlað er að koma í veg fyrir að skuldavandi Grikklands breiðist út til annarra evru-ríkja". 

Skuldir eru ekki smitandi en mörg ríki og raunar flest eru í þannig stöðu að þau hafa síðustu ár fjármagnað sig með sölu á ríkisskuldabréfum sem þau geta ekki borgað upp heldur verða að endurnýja og endurnýja, þau þurfa að endurfjármagna sig reglulega. Þetta viðskiptamódel nútíma ríkisfjármála  þekkjum vel  þegar bankakerfið hérna féll með bauki og bramli. Fjárfestar vildu ekki lengur lána bönkunum og mátu það mjög áhættusamt. Meiri áhætta, meiri vextir og himinhátt skuldatryggingarálag. Það var í skamman tíma hægt að leyna vandanum og nota ýmis konar skrýtna gjörninga til að halda uppi verðmæti banka og koma í veg fyrir að matsfyrirtækin lækkuðu matið. Það er verið að rannsaka suma þessa gjörninga sem sakamál núna. 

Tíminn leiðir í ljós hvort traust gufar upp á fjármálamörkuðum Evrópu eða hvort þetta síðasta útspil evrulanda bjargar kerfinu frá falli. Því miður er ekki líklegt að það verði annað en gálgafrestur en ríki  og ríkjasambönd hafa þó það fram yfir banka að þau geta breytt umgjörð fjármálakerfisins og gera það væntanlega sér í hag ef þannig ástæður skapast (sb. neyðarlögin hérna). Það eru sennilega þannig aðstæður núna að evruríki geta ekki hugað að strúktúrbreytingum heldur verða að tjasla saman kerfinu sem fyrir er, en fyrir okkur sem á horfum þá er einkennilegt að stór ríkjasambönd skuli svona lappa upp á kerfið fyrst og fremst frá sjónarhóli fjárfesta og spákaupmanna en ekki aftengja kerfið strax.

Í tilviki Íslendinga þá er það afar óréttmætt og fjandsamlegt almenningi að á svipstundu skuli vera hægt að lækka launin okkar um  tugi prósenta þegar gengi íslensku krónunnar fellur og á sama tíma verðtryggðar og gengistryggðar skuldir og ofan á þetta kemur að grunni undir margri alvöru atvinnustarfsemi var kippt í burtu og margir misstu vinnu og atvinnutæki. En á sama tíma hafi maður gengið undir manns stað í stjórnsýslunni að bjarga innlendum innistæðum í Sjóði 9 og þess háttar peningamarkaðssjóðum og að skuldsetja Íslendinga í margar kynslóðir fyrir skuldbindingum sem við vissum ekkert að við værum í ábyrgð fyrir vegna bankareksturs fjárglæframanna í útlöndum. Við greiddum þjóðaratkvæði um hvernig okkur leist á að taka yfir þær skuldir og gera að okkar skuldum og skuldum afkomenda okkar.  En það sem gerðist á Íslandi er að gerast í mörgum öðrum ríkjum heimsins.

Það er hroðaleg tilhugsun fyrir íbúa í ríki að ríkið verði gjaldþrota eða þurfi að ganga til samninga við þá sem eiga skuldirna? En er það eitthvað hroðalegra en að íbúarnir verði einhvers konar skuldaþrælar í margar kynslóðir?  Er eitthvað að því að horfast í augu við stöðuna, meta ástandið, meta hvað gerist ef við spilum ekki lengur með í fjármálapóker heimsins, spilum ekki með einfaldlega af því við eigum enga spilapeninga lengur og  reynum að sannfæra aðrar þjóðir um að það sem er núna verið að gera og kallað björgunarpakkar víða um lönd er spilaborg, ekki skjaldborg.

Bráðlega göngum við til kosninga hér í Reykjavík. Fjárhagur Reykjavíkur er ágætur samkvæmt þeim ársreikningi sem nú eru lagður fram og öllu er stýrt hér af ráðdeild eftir að síðasti meirihluti (meirihluti nr. 4) tók við.  Reyndar var ástandið líka ágætt í tíð meirihluta nr. 2. Það hefur ekki verið auðvelt verk  en hér í Reykjavík hefur aldrei áður verið eins mikil samvinna milli meirihluta og minnihluta og eins mikil sátt um hvaða leið skuli fara.  Þetta er kærkominn endir á þeim mikla skrípaleik  og fjölmiðlasirkus sem einkenndi borgarmálin á því kjörtímabili sem er að líða. Þar má nefna REI málið og borgarstjóratíð Ólafs Magnússonar og allan þann skrípaleik í kringum þegar meirihlutar féllu og mynduðust. Þetta voru miklir niðurlægingartímar fyrir borgarstjórn og kjörna fulltrúa.

En kjörtímabilið í Reykjavík endar á giftusamlegan hátt. Núna er  tími samvinnustjórnmála í borginni og vonandi verður sams konar sátt um stjórnun borgarinnar eftir kosningar hverjir sem þá koma til að sitja í borgarstjórn. Það er á ábyrgð borgarfulltrúa að sjá um að svo sé en það er á ábyrgð borgarbúa að breyta ekki kosningunum í skrípaleik þar sem sá sem segir mestu brandarana vinnur stærstu sigrana.

En núna þegar ég heyri borgarstjóra tala um góðan hag Reykjavíkurborgar, góðan hag sem vissulega endurspeglast í þeim ársreikningi sem lagður er fram í lok kjörtímabilsins þá get ég ekki gert að því að um mig læðist ótti og ég rifja upp nákvæmlega sams konar orðræðu og Geir Haarde viðhafði á sínum tíma, ég rifja upp áramótaræðu hans í byrjun ársins sem allt hrundi þegar hann sagði ríkissjóð skuldlausan og lýsti ástandinu sem góðu.

Svo kom í ljós að við vorum í ábyrgð fyrir hroðalega miklum skuldum sem til var stofnað í hroðalega einkennilegum gjörðum í hroðalega einkennilegu bankakerfi.

Hverjar eru ábyrgðir Reykvíkinga núna t.d. ef Landsvirkjun verður gjaldþrota eða getur ekki staðið við skuldbindingar sínar? 


mbl.is Gríðarlegar hækkanir á mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anno domini 2010 eða anno domino 2010

Það er viðkvæm staða í Evrulöndum núna. Það er ekki spurning um að verja evruna, það hjálpar til lengri tíma litið evrulöndum að hafa gengi evru sem lægst skráð gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það veitir sams konar vernd og lágt gengi íslenskar krónu gerir núna. Evrópsk stjórnvöld skynja brýnast  að koma í veg fyrir algjöran glundroða og að forðast að fjárfestar og spákaupmenn meti stöðuna þannig að ríki eins og Grikkland og önnur ríki sem eru að sigla hraðbyri í sömu stöðu muni hvorki vilja né geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.

Það er raunar frekar ólíklegt að mati margra hagfræðinga að Evruland geti ráðið við vandann, vandinn er of risavaxinn. Löndin eru líka í vandræðum heima fyrir, Portúgal tekur þátt í björgunaraðgerðum fyrir Grikki og lánar Grikkjum á lægri vöxtum en það þarf  sjálft að greiða í vexti þegar það ríki fjármagnar sig með lánum.

Núna kaupir ECB þ.e. evrópski seðlabankinn ríkisskuldabréf af evruþjóðum. Þetta er einhvers konar fiff hjá þeim. Lög Evrópusambandsins banna beint inngrip þ.e. að kaupa skuldir beint af ríkisstjórnum eins og gert var bæði í Bretlandi og USA. Til þess að brjóta ekki þessi lög þá kaupir ECB þessi ríkisskuldabréf á markaði.

Það er ótrúlega villandi fréttaflutningur af þessum fjármálahræringum, látið eins og þetta sé til að verja evruna þ.e. halda gengi hennar háu. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst um að ríkisstjórnir Evrópu eru að skoppa í kringum spákaupmenn eins og Soros og halda að þau geti blekkt þá til að trúa því að Grikkland og fleiri ríki ætli og geti borgað ríkisskuldir og ríkisstjórnir Evrópu eru líka að skoppa í kringum lög sem þau sjálf settu þar sem sona inngrip voru bönnuð.

Ríkisstjórnir ganga hér eins og hvarvetna um heiminn erinda fjármagnseigenda og spákaupmanna og raunar skynja sig í helgreipum þeirra og eru það líka. Við búum í hagkerfi sem byggir á skuldum og þeir sem búa til peninga með því að búa til skuldir hafa sóst eftir að lána þeim stóru og öflugu og traustu, sem sé ríkisstjórnum og það hefur verið auðvelt fyrir ríki að sanka að sér skuldum. En núna er staðan sú að ríki eru mörg í sömu stöðu og skuldum vafnir bankar, ríki þurfa stöðugt að endurfjármagna sig með verri og verri kjörum og skuldabyrðin eykst sífellt.

Svona hagkerfi sem byggir á skuldum og þar sem allt er á fleygiferð nema það þarf að standa við skuldbindingar við fjárfesta hvað sem það kostar er ekki að leysa nein mál. Bara að velta undan sér vandanum.

En  til langs tíma þá blekkja svona gerningar ekki Soras eða aðra spákaupmenn og það er afar ólíklegt að ríkisstjórnir ósamstilltra landa sem skynja hagsmuni ekki fara saman geti stillt saman aðgerðir um meira flæði í atvinnulífi og fjármálum.

En stjórnvöld verða að láta þau boð berast til umheimsins að þau ráði við ástandið, þau skynja það sem verstu hugsanlegu stöðu að viðurkenna að vandinn sé þannig að fjármálastjórn ríkja og ríkjasambandi hafi þar lítið að segja.

Það má hérna rifja upp hina miklu hörku sem fjármálaráðherrar og forsætisráðherrar Evrópubandalagsríkja sýndu  þegar íslensk stjórnvöld vildu leita til dómsstóla um málefni innistæðutryggingasjóðs, hörku sem örugglega snerist um að það var meira undir en skuldir Íslands, það var undir tiltrú á fjármálakerfi Evrópu, fjármálakerfi sem riðaði þá og riðar ennþá til falls.

Sagan sem núna er sögð af fallinu mikla í vikunni á Wall Street er nútíma flökkusaga. Það er saga af því að einhver hafi óvart ýtt á billjarða takka þegar hann ætlaði að ýta á milljarða takka, þess vegna hafi markaðurinn fallið um 9 % á einum degi.  En þó sagan sé  ekki sannleikur þá er í henni það sannleikskorn að fjármálamarkaðir eru svo viðkvæmir í dag að einn putti á lyklaborði getur velt stórri skriðu, skriðu sem myndi velta hvort sem er vegna þess að traustið er farið.


mbl.is Stofnun neyðarsjóðs samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalok evrunnar?

Það hriktir í fjármálakerfi Evrópu þessa daganna og ríkisstjórnir eru trúaðri (eða þykjast vera það) en hagfræðingar á því að þær megni að leysa vandann. Það eru því miður engar líkur á að þær nái að leysa vandann með þeim aðferðum sem hingað til hefur verið beitt við skuldum vafin ríki.

Í greininni The end of the Euro  þann 7. maí  rýnir  hagfræðingurinn Niall   Ferguson í stöðu evrunnar. Hér er endursögn á þeirri grein.  Feguson segir að stærsti gallinn í hönnun EMU þ.e. myntbandalagi Evrópu sé að það tengdi saman myntir Evrópulanda án þess að samhæfa fjármálastjórn landanna.

Stofnsamningur EMU hafi þannig birt okkur sannleika um manngerðar stofnanir, sem sagt það að þó hvergi sé skjalfest hvaða ferli eigi að grípa til þegar einhverjar mjög slæmar aðstæður koma upp hindri það ekki að þær aðstæður geti komið upp. (innskot:Við Íslendingar vitum vel hvernig er að lenda milli steins og sleggju í ófullkomnum evrópskum reglugerðum um skuldatryggingar banka, harka Evrópuríkja í því máli var einmitt að málið afhjúpaði veilurnar í regluverkinu og ef látið væri undan kröfum Íslands um dómstólaleiðina þá hefði það fellt Evrópu)

Ferguson segir það hafa verið eina af ástæðum fyrir að Bretland gekk ekki í EMU á sínum tíma. Það hafi verið í umferð  trúnaðarskjal  frá 1998 sem fór yfir hvað gæti gerst ef land  hefði miklu meiri fjárlagahalla/viðskiptahalla  en leyft væri. Það myndi valda miklum usla og ringulreið.  Ástæðan væri  að evrópski seðlabankinn ECB mætti ekki grípa inn í og lána beint til ríkisstjórnar slíks ríkis. Á sama tíma væri engir möguleikar fyrir ríkisstjórn slíks ríkis að ganga úr myntbandalaginu.

"A confidential Bank of England paper circulated in 1998 speculated about what would happen if a country—referred to only as "Country I"—ran much larger deficits than were allowed. The result, the bank warned, would be a colossal mess. Why? Because the new European Central Bank (ECB) was prohibited from bailing out a country with such an excess deficit by lending money directly to the government. Yet, at the same time, there was no mechanism for Country I to exit the monetary union. This rigidity was one reason Harvard economist Martin Feldstein foresaw the single currency leading not to greater harmony in Europe, but to conflict."

Grikkland gekk í EMU 2001. Fyrstu níu árin var evran á blússandi siglingu og allt virtist leika í lyndi og evran naut mikils trausts, mörg ríki (kannast einhver hér við umræðuna á Íslandi?) töldu sig hafa misst af lestinni að vera ekki meðal evruþjóða:

"Between 1999 and 2003, international banks issued more bonds priced in euros than in dollars. The countries that had stayed out began to wonder if they'd missed not just the bus but a luxury coach."

En í október 2009 eftir þingkosningar í Grikklandi upplýsti ný stjórn að fjárlagahalli þar væri  12.7 % af vergri þjóðarframleiðslu (GNP) og evrópski seðlabankinn  ECB  væri á óbeinan hátt að fjármagna þriðjung af lánum grísku ríkisstjórnarinnar í gegnum neyðarlán til grískra banka. Þetta olli einmitt þeirri keðjuverkun sem efasemdarmenn um evruna höfðu óttast. 

Álag á grísk skuldabréf  þaut upp og hafði það þó alltaf verið hátt. Þessi staða Grikklands að vera með mikill og vaxandi fjárlagahalla, miklar ríkisskuldir sem þurfti að endurfjármagna á afarkjörum varð til þess að Grikkland sneri sér til annarra EBE þjóða um neyðarlán. Þjóðverjar o.fl. voru tregir til enda fjármálakreppan í algleymingi. Í apríllok fengu Grikkir €110 billion lán og af því komu €30 billion frá vinum okkar í IMF alþjóðagjaldeyrissjóðnum.  Stjórn Grikklands átti hins vegar í staðinn að herða sultarólina og minnka fjárlagahallann í 3 % árið  2014 með því að draga saman útgjöld og hækka skatta.

Hefur vandamálið verið leyst?

Nei, það er ekki mögulegt að þjóð í mjög djúpri kreppu geti farið þessa leið. Grikkland mun ekki geta staðið við þetta og jafnvel þó að allt gangi eftir þá mun skuldin verða í hámarki 150 prósent af GDP og þar af eiga  7.5 prósent af  GDP að fara í vexti af lánum. Það er enginn vilji í grískum stjórnmálum eða meðal almennings að ganga að þessum kjörum. Ferguson spáir að ríkisstjórn George Papandreou muni falla og ný ríkisstjórn klippa 30 % af grískum skuldabréfum.

Þetta er þó ekki það hættulegasta. Það sem verra er segir Ferguson er að þetta er bráðsmitandi.  Fjárfestar átti sig á því að þar sem þetta gerist með grísk skuldabréf þá muni það einnig geta gerst með skuldabréf annarra þjóða.  Tvö evruríki Ítalía og Belgía eru skuldug og tvö eru á ystu nöf að fara sömu leið og Grikkland, það eru Portúgal og Spánn.

Moody's gaf  ríkisskuldabréfum Portúgals einkunnina Aa2 og að það myndi mögulega lækka. Vaxtaálag á ríkisskuldabréf Spánar hefur snarhækkað og sagt er að  þar þurfi menn ennþá stærri neyðarlán en Grikkland. En þetta er ekki bara eina vandamálið. Lán til annarra ríkja eru líka á efnahagsreikningi Grikklands og fall Grikklands tekur með sér ríki eins og Rúmenía og Búlgaríu sem fjármagna sín ríkisskuldabréf að miklu leyti gegnum lán frá grískum bönkum og þegar þau geta ekki endurfjármagnað þau lán og standa ekki í skilum þá kemur það sem keðjuverkun.

Ferguson telur að það líði meira en ár þangað til fjárfestar átta sig á því að USA er í ennþá verri stöðu en Evrusvæðið. Mismunur er að USA hefur opinbert fjármálakerfi sem nær yfir allt svæði. Ferguson endar greinina með þessum orðum:

"Europe now faces a much bigger decision than whether to bail out Greece. The real choice is between becoming a fully fledged United States of Europe, or remaining little more than a modern-day Holy Roman Empire, a gimcrack hodgepodge of "variable geometry" that will sooner or later fall apart. "

Sem sagt annað hvort verður Evrópa að verða eitt ríki með eina fjármálastjórn eða splundrast.  Ég er hugsi yfir hvort þetta sé rétt greining og raunar get ekki séð annað en hætta sé á að USA leysist upp í fleiri ríki ef það verður ekkert sem heldur því ríki saman nema skuldir og sameiginlegur hernaður. En þessi grein Ferguson sýnir í hve mikilli klemmu þjóðríkin eru og hvernig kasínókapítalísk hagkerfi eru að kafna í eigin spýju. Þjóðríkin og ríkisstjórnir fengu mestu lánin vegna þess að þar þótti áhættan minnst. Nú er svo komið að áhættan á greiðslufalli ríkja er mikil og fjármálakerfi ríkja eru í óleysanlegri skuldabólu sem engin leið er að standa við nema hneppa margar kynslóðir í skuldaánauð. Þessi veruleiki hefur reyndar verið veruleiki margra þróunarríkja, þar hafa óábyrgð stjórnvöld tekið lán og svo hrökklast frá völdum en lánin verða eftir fyrir komandi kynslóðir. Það virðist fátt í sjónmáli fyrir slík ríki og við Íslendingar erum í þessum sporum annað en gera uppreisn skuldsettra þjóða og bindast samtökum og reyna að knýja fram niðurfellingu skulda - eins konar nauðasamninga þjóða. Þetta heitir á latínu debt moratorium.


mbl.is Skuldabréfamarkaðir við suðumark
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannréttindi fanga

Núna þegar tveir menn hafa verið handteknir og er haldið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um fjármagnsglæpi, glæpi sem við íslenskur almenningur teljum að hafi átt mikinn þátt í hruninu á Íslandi þá skulum við hafa í huga að mannréttindi eru fyrir alla, líka bófa og ræningja og misyndismenn.  Það ættu allir að hafa í huga núna þegar fjölmiðlaumræða er mjög óvægin og nærgöngul um þá sem hafa verið hnepptir í varðhald.

Eru myndaseríur af handteknum mönnum í yfirheyrslu eitthvað annað en sýningar á föngum? Er ekki eitthvað athugavert við réttarkerfið í ríki þar sem forsætisráðherra tjáir sig um fanga sem ekki hafa verið ákærðir og  telur handtöku þeirra mikilvægan áfanga í uppgjöri og fjármálaráðherra tjáir sig líka um að hvað það sé gott ef handtakan geti sefað órólegan múginn?

Það er hollt fyrir alla núna að rifja upp alþjóðasamninga um fanga og hvernig þeir hafa verið þverbrotnir af vinaþjóðum okkar og hvernig Ísland hefur verið greiðvikið vinsamlegt ríki sem hér leyfði fangaflutninga og hvernig ríki heims eru smán saman að breytast í lögregluríki þar sem allt í lagi þykir að svipta fólk frelsinu án þess að því sé birt ákæra ef það er í nafni einhvers sem okkur þykir viðurstyggilegt og það breytast alltaf mörkin og viðmiðin og færast nær okkur sjálfum. Við óttumst öll hryðjuverkamenn en hvað er nú langt síðan vinaþjóðin Bretland notaði hryðjuverkalög á Íslendinga? 

En rifjum upp þessi lög í stjórnarskrá Íslands um gæsluvarðhald:

Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem þyngri refsing liggur við en fésekt eða varðhald. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur, en telji dómari fært að láta hann lausan gegn tryggingu skal ákveða í dómsúrskurði hver hún eigi að vera.

Sjá nánar um mannréttindi hjá Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Hér er myndabók um mannréttindi

Hér er mannréttindayfirlýsing Sameinu þjóðanna

Vek sérstaklega athygli á 9. grein mannréttindasáttmálans: "Enginn skal að geðþótta handtekinn, sviptur frelsi eða gerður útlægur." Vek einni athygli  á 10. og 11. grein.Það kann að vera nauðsynlegt vegna rannsóknar fjármálaglæpa að hneppa fólk í gæsluvarðhald en það má undir engum kringumstæðum vera til þess að sefa reiðan almenning. Það er líka alls ekki hægt að vísa fólki með íslenskan ríkisborgararétt úr landi. Púnktur.

 


mbl.is Jóhanna: Mikilvægur áfangi í uppgjörinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pínlegt og heimóttarlegt

Fréttaflutningur á mbl.is og reyndar líka í prentuðu útgáfunni af Morgunblaðinu er núna vægast sagt undarlegur. Hagsmunir rekstraraðila á Morgunblaðinu fara ekki saman við hagsmuni íslensks almennings. Morgunblaðið var keypt eftir hrun af aðilum sem eru nátengdir Sjálfstæðisflokknum, aðilum sem hafa gríðarlega hagsmuni af því að ekki sé hróflað við hvernig yfirráð yfir íslenskum auðlindum hafa sogast á eigu nokkurra örfárra aðila, aðilum sem hafa hagsmuni af því að segja söguna af því hvað gerðist á Íslandi á síðasta áratug og hvers vegna allt hrundi hér sem hrunið gat í  gegnum sín frjálshyggju- og einkavæðingargleraugu. Táknmynd þessa ástands er að Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra og fyrrum seðlabankastjóri er núna ritstjóri Morgunblaðsins.

Það voru tvær fréttir efst á forsíðu mbl.is áðan. Efst var fréttin "Hætt við kvikmyndatökur" , frétt um að hætt hafi verið við að nota Ísland sem tökustað fyrir kvikmyndir núna í miðjum öskustrókinum og eldgosi sem ekkert lát virðist vera á, öskustrókinum sem lamaði flugsamgöngur í Evrópu , öskustrókinum sem barst  víða um lönd og gerði milljónir manna hræddar um að sortinn á himni boðaði ógæfu og frekari náttúruhörmungar. Hin fréttin var slúðurfrétt um seðlabankastjóra og launakjör hans, hvernig samið hefði verið á bak við tjöldin um laun hans.

Það furðar engan að hætt hafi verið við tökur á kvikmyndum á meðan á ósköpunum í Eyjafjallajökli stendur. Ferðamenn hætta líka við ferðir til Íslands og ferðamenn hætta reyndar líka við ferðir í flugi á milli staða í Evrópu á meðan  eitthvað bendir til að þeir komist ekki leiðar sinnar snurðulaust. 

En Ísland verður til langs tíma  aftur eftirsóknarverður tökustaður kvikmynda, Ísland sem hefur verið í fréttum alls staðar í heiminum síðustu vikurnar, Ísland sem í huga heimsins í dag er órjúfanlega tengt svörtu öskuskýi og ógn. Því nær engin markaðsskrifstofa að breyta.

Fimmvörðuháls (wikipedia)

Það er frekar að vinna með þessa nýju ímynd Íslands, ímynd landsins sem er ekki lengur í augum heimsins land ófyrirleitinna útrásarvíkinga og fávísrar alþýðu sem lét þá plata út úr sér aleiguna og æruna, Ísland er samastaður þar sem náttúruöfl innri elds og ytri ísa takast á, Ísland er staðurinn þar sem maðurinn finnur smæð sína gagnvart náttúruöflunum. Mannkynið er ekki miklir gerendur í þeim heimi og þessi átök afhjúpa fyrir okkur hvernig heimsmynd okkar er byggð á blekkingum, byggð á þeim blekkingum að með því að gefa náttúrufyrirbærum nafn og búa til annars konar hugarlíkön af hvernig þau starfa og miðla þeim líkönum okkar á milli þá höfum við á einhvern hátt fellt þau undir okkar stjórn. 

Í frétt Morgunblaðsins stendur:

"Vonast fyrirtækin til þess að skaðinn verði ekki meiri en orðinn er og segja talsmenn þeirra ummæli forseta Íslands um Kötlugos ekki hafa bætt úr skák. Stjórnvöld þurfi að koma þeim skilaboðum skýrt til skila að lífið gangi að langmestu leyti sinn vanagang á Íslandi og óhætt sé að ferðast hingað á meðan flugumferð liggur ekki niðri."

Fréttamennska Morgunblaðsins er einstaklega pínleg varðandi þessa frétt. Auðvitað er og verður Ísland  ævintýraeyja þar sem allt getur gerst og allt virkar hættulegt ennþá svalari tökustaður þegar á annað borð tökumenn eru vissir um að geta komist til landsins og tekið upp myndir hérna. Forseti Íslands er ekki neinn gerandi í því hvort Ísland er tökustaður í kvikmyndum og hann ýtir ekki á takka á fjarstýringu og setur á stað Kötlugos til að fæla túrista frá.  

Eini maðurinn á Íslandi sem á fjarstýringu sem getur komið á stað gosum og látið hveri gjósa er Hrafn Gunnlaugsson. Hann er núna hættur að gjósa og er sestur í helgan stein hérna í Laugarnesinu og einbeitir sér að því að laða til sín álfa og huldufólk og punta í kringum sig.

Mættu fleiri Matthildingar taka sér hann til fyrirmyndar.

En fjarstýringin góða sem Hrafn notaði fyrir margt löngu í kvikmynd til að taka upp gos í Geysi var reyndar bara feik, feik eins og svo margt í hinum manngerða heimi. Hrafn setti sápu í hverinn og þá gaus hann. Það var bara sjónhverfing kvikmyndanna sem bjó til orsakasambandið milli fjarstýringarinnar og  gossins. Fjarstýringin var bara leikmunur.

Forsetinn með sína meintu fjarstýringu á eldgosum og tilheyrandi efnahagshruni Íslands er  bara leikmunur núna í eftirhrunssjónhverfingum Morgunblaðsins.

Þetta leikrit Morgunblaðsins sem kristallast í forsetaóvildinni og í því að aðalatriði sé að fréttirnar frá Íslandi séu túristafréttir um að hér sé allt með kyrrum kjörum   er heimóttarlegt og raunalegt á tímum þar sem allt traust er farið og þú byggir ekki upp traust aftir með því að ljúga meira og meira.

Þú byggir ekki upp lánstraust með því að velta undan þér skuldabolta og endurfjármagna þig hvenær sem tækifæri gefst með nýjum og stærri lánum á verri kjörum, verðleikar þínir í lífinu fara ekki eftir því hvaða lánsfjárseinkunn erlend matsfyrirtæki gefa þér. Þú byggir upp atvinnulíf aftur á Íslandi með því að búa til jarðtengingu, að tengja þig aftur við raunverulega áþreifanlega framleiðslu og afbaka ekki öll boð og vísbendingar um hvernig gengur heldur nota upplýsingar til að breyta og aðlaga sig að aðstæðum.

Þú lifir ekki í sátt við náttúruna á eldfjallaeyju nema hlusta á niðinn og drunurnar sem berast langt innan úr iðrum jarðar og nota vísindin og vitneskjuna til að spá fyrir um hvað mun gerast.  Eldgos mun koma innan tíðar aftur á Ísland og þar eru afar sterkar líkur á Kötlugosi og Heklugosi áður en langt um líður. Það getur líka gosið á Reykjanesi, það hafa mörg gos orðið þar á sögulegum tíma og raunar er það eldfjallakerfi komið á tíma fyrir annað gos.   

 


mbl.is Hætta við kvikmyndatökur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harmur almennings

Víst er almenningur á Íslandi í dag beygður og harmi sleginn, við horfum núna á íslenska þjóð liðast í sundur. Það gerist ekki í einni sviphendingu en það gerist hratt því  að á hverjum degi slitna fleiri og fleiri þræðir sem halda fólki hérna saman. Þessir þræðir eru margir hverjir snúnir saman af því trausti sem við höfðum á stjórnvöldum og athafnalífi hérna. Þeir þræðir eru  slitnir og tættir núna. Þó þeir sem mest tengjast spillingunni hafi hrakist frá völdum þá standa málin þannig að núverandi stjórnvöld hafa nánast engin völd, eru aðeins lítil peð í refskák stórvelda sem reyna að sópa vandamálum líðandi stundar undir teppi svo þau gleymist um stund, þetta teppi er hér á Íslandi kallað Icesave. 

En það er ekki harmur almennings á Íslandi varðandi Icesave sem ég ætlaði að fjalla um í þessu bloggi.  Þetta átti að vera afmælisblogg um sjö ára afmæli Creative Commons

Svona er staðan á Íslandi í dag, maður getur ekki tjáð sig nema byrja með harmakveinum.

Það er heldur ekki harmur heimsbyggðarinnar yfir mengun og lakari lífsskilyrðum sem stafa af manna völdum s.s. hlýnun jarðar sem ég ætla að fjalla um. En samt tengist umfjöllunarefni mitt heilmikið bæði umhverfi hins alheimsvædda fjármálasamfélags sem byggir á einkaeignarétti  og því umhverfi sameiginlegrar umhverfisvitunar sem nú er ráðslagað um á umhverfisráðstefnunni í Kaupmannahöfn.

Þessi fyrirsögn "Harmur almennings" er sóttur í rit heimspekingsins Whitehead Tragedy of the Commons og hugmyndafræði sem segir að takmörkuðum almannagæðum (auðlindum) sem eru aðgengileg til notkunar án  hindrana verði að öllum líkindum spillt eða eytt fyrr eða síðar. Þess vegna  þurfi að koma til auðlindastjórnun. Margir kapítalistar hafa notað þessa "Tragedy of the Commons" hugmyndafræði  sem röksemdir fyrir að það sé betra að auðlindir séu í einkaeigu en í almannaeigu. Þegar ég píndist í viðskiptafræðinni í Háskóla Íslands forðum daga þá vorum við látin lesa  greinar um sjávarútvegsmál sem einmitt var ætlað að útskýra og sýna fram á að miklu betra væri fyrir fiskveiðistjórnun að vera í einkaeign, það var mörgum árum áður  útgerðarmönnum voru færð  á silfurfati yfirráð yfir sjávarútvegsauðlind Íslendinga. Ég man sérstaklega eftir einni grein um álaveiðar fyrir ströndum Danmörkur sem útskýrði á sannfærandi hátt hvað allt hefði verið betra þegar landeigendur réðu líka yfir sjónum og stýrðu álaveiðunum.  Mig minnir að það íslenska námsefni sem við lásum á þessum tíma sem einhvers konar fræðiefni í háskólanámi í hagfræði hafi verið kostað af samtökum útgerðarmanna eða sölusamtökum með fisk.  

Það hefur aldrei verið meiri ástæða til að staldra við og spá í hvort að einkaeignaréttur sé betri en samfélagsleg eign. Þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir Íslendinga, hér er samfélag þar sem miklar auðlindir eru bæði auðlind sjávar og  orkuauðlindir sem og mikilvægur umráðaréttur yfir hafsvæðum á Norðurslóðum, á svæði þar sem verður hatrömm auðlindabarátta á næstu áratugum. 

Við lifum líka núna á hruntímum þar sem við sjáum hvernig engin fyrirstaða er við því að eignaréttur og yfirráð yfir verðmætum og auðlindum hér á Íslandi geti komist í  eigu fjarlægra aðila sem engan hag hafa af áframhaldandi blómlegri búsetu á Íslandi. Raunar stöndum við á þröskuldi tíma þar sem Íslendingar (þ.e. stjórnvöld og opinber fyrirtæki)  hafa eða eru að glata yfirráðarétti sínum á flestum auðlindum hér á Íslandi og við Ísland bæði vegna ofboðslegs skuldafargans og svo vegna þess að  allt stefnir í að Íslendingar gangi í ESB og framselji stjórnun fiskveiða  til þess.  Almenningur á Íslandi veit ekkert hver á og hver hefur yfirráð yfir íslenskum veiðiheimildum og verið getur að þær séu að stórum hluta í eigu erlendra vogunarsjóða í gegnum keðjunet skúffufyrirtækja.

Opinber orkufyrirtæki á Íslandi eru skuldum vafin og virðast geta riðað til falls og opnað hefur verið á lukkuriddara og gullgrafarafyrirtæki sem stefna að 1000% hagnaði fyrir eigendur sína. Einn stærsti stjórnmálaflokkur landsins Sjálfstæðisflokkurinn hefur leynt og ljóst reynt að selja íslensk orkufyrirtæki til einkaaðila í einhvers konar frjálshyggjutrúboði og virðist manni sem sú stefna sé rekin núna þar sem reynt sé að keyra orkufyrirtæki í opinberri eigu eins og hægt er í þrot svo auðvelt verði að réttlæta sölu þeirra síðar fyrir almenningi, almenningi sem áttar sig ekki á hver raunveruleg verðmæti eru fólgin í þessum fyrirtækjum sem við öll héldum að væru samfélagslegar veitustofnanir. Almenningi sem áttar sig ekki á því að ef fjárfestar í leit að ofsagróða vilja kaupa orkufyrirtæki hér þá er líklegt að það sé vegna þess að það er góð fjárfesting fyrir þann sem kaupir en afarkostir fyrir þann sem selur. 

Það er þannig aðstæður á Íslandi bæði hjá sveitarfélögum og ríki að það er látið eins og við lifum í núinu og aldrei komi að skuldadögum, þetta sé spurning um að "endurfjármagna sig" á nokkurra ára eða missera fresti og selja smán saman frá sér allt sem getur orðið að arði í framtíðinni - en passa vel að halda dauðahaldi í rekstur sem passaði fyrir 2007 samfélag útrásar eins og að byggja stásshús og kreppuhöll eins og tónlistarhúsið í Reykjavík sem kallar á mörg hundruð milljóna árleg útgjöld um aldur og ævi frá borginni, útgjöld sem  ekki verður með nokkru móti séð að lamað hrunsamfélag geti risið undir.

Á Íslandi er ástandið þannig núna að yfir íslenskum auðlindum voma núna hrægammar sem vilja komast yfir sem mest fyrir sem minnst og við erum í sömu sporum og Indjánaþjóðflokkar sem reknir voru frá heimkynnum sínum af því að aðrir og máttugri sáu þar hagnaðarvon. Það hefur aldrei verið vandamál fyrir sigurvegara og volduga aðila að finna réttlætingu gerða sinna og þagga niður sjónarmið þeirra undirokuðu. Íslendingar unnu í þorskastríðunum og bjuggu lengi að sínum sigri þar og úthlutuðu svo íslenskum útgerðarmönnum leyfum til að veiða fiskinn sem breskir veiddu áður.

En í því fjármálastríði sem nú hefur lagt Íslendinga að velli þá var stærsti taparinn almenningur á Íslandi og núna eru þar röksemdir þeirra erlendu aðila sem vilja viðhalda og byggja upp óbreytt fjármálakerfi kapítalisks einkaeignaréttarsamfélags sem hljóma hérna hæst og Íslendingar láta margir gleypjast  og leggja áherslu á að við séum að spila spil og við verðum að virða leikreglurnar. Spyrja ekki um hve fáránlegar þessar leikreglur eru og á skjön við veruleikann og hve mikið þessar leikreglur hygla fjármagnseigendum en íþyngja almenningi og þaðan af síður hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskt samfélag að búa við skuldafarg sem það getur ekki risið undir.

Það getur verið að það skipti ekki sköpum fyrir heiminn hvernig litlu eyríki norður í Atlantshafi reiðir af í fjármálastríði nútímans. En það eru ekki bara örsmá markaðshyggjusamfélög sem eru að brotna niður. Það eru mörg teikn á lofti að það sama sé að gerast í stórum samfélögum og að sá strúktúr sem núna er á flæði verðmæta um samfélög, sá strúktúr sem passaði ágætlega við iðnaðarsamfélagið og tryggði auðlegð þjóðanna, að sá strúktúr passi ekki núna og sé í versta falli kyrkingartök á framþróun. Í hinu samtengda og stafræna heimssamfélagi er annars konar vinnubrögð við framleiðslu og neyslu möguleg og raunar æskileg. Það er hollt að lesa skrif hugsuða um þetta samfélag sem við erum nú að fara inn í og skoða hvað er að gerast með því að skoða bæði hagræna þætti og tæknilega þætti. 

Hér eru tvær bækur um það efni, bækur sem að sjálfsögðu eru undir CC höfundarleyfi og hægt að hlaða niður

The Future of Ideas: the Fate of the Commons in a Connected World

 Wealth of Networks: How Social Production Transforms Markets and Freedom

Þeir sem fylgjast  vel með því hvað er að gerast í hinu netvædda og samtengda samfélagi ætti að vera ljóst að markaðs- og fjármálakerfi iðnaðarsamfélagsins er ekki að virka og það er þörf á annars konar leikreglum en við búum við núna og þessi gróðahyggja þar sem gengið er út frá einkaeignaréttinum sem helgasta vé samfélagsins og  því að hámarkságóðavon, framboð og eftirspurn og sem mest markaðsfrelsi  sé drifkraftur viðskipta- og athafnalífs er ekkert að virka sérstaklega vel. Eiginlega mjög illa í sumum tilvikum. Það hefur vaxið upp ný tegund af samvinnu og ný tegund af vinnumáta, vinnumáta þar sem allir leggja saman í púkk og allir græða á samlegðaráhrifum, líka þeir sem leggja mest inn. Eignaréttarskilgreinar okkar eru þrúgandi fyrir margs konar sköpun, sérstaklega eru eignaréttarlög og reglur sem lúta að efni sem hægt er að afrita og fjölfalda mjög þrúgandi og eiginlega þannig að  margir tapa á að halda sig í þannig kerfi.

Margir framleiðendur og höfundar efnis hafa því kosið að halda sig við annars konar kerfi og t.d. tekið þátt í að byggja upp höfundarréttarkerfi eins og Creative Commons. Þessir framleiðendur átta sig á því að efni má endurnota og endurblanda í önnur verk og við lifum ekki í samfélagi þar sem útgáfa á efni frá framleiðenda er endapunktur. Við erum flutt út úr prentsamfélaginu inn í netsamfélag. Efni er ekki lengur gefið út í endanlegu formi eins og prentverk, efni sem berst frá einum til annars er efniviður annars og er eins og orð og setningar og sögur í munnlegri geymd sem berast á milli og umbreytast og verða efniviður í nýjar sögur og nýjar samsetningar og ný form.

Þetta umbreyting frá prentsamfélagi, frá miðstýrðu samfélagi, frá iðnaðarsamfélagi yfir í síkvikt, samtengt netsamfélag sem er stýrt eins og starfendafélagi, stýrt af þeim sem taka þátt.

Creative Commons er meira en ein gerð af höfundarrétti. Þetta er einn liður í þjóðfélagshreyfingu, sömu þjóðfélagshreyfingu og núna leggst á árarnar og færir heiminum ókeypis aðgengilega þekkingu og forrit og verkfæri m.a. gegnum open source hreyfingu og wikipedia samfélög. Það er engin ástæða til annars en fylgjast vel með þessari þjóðfélagshreyfingu, hún mun í fyllingu tímans verða talin eins merkileg og Upplýsingin og raunar líkist henni á margan hátt. En eins og er þá er þessi hreyfing eins og undirstraumur sem ekki margir taka eftir nema þeir séu á kafi í pælingum um hvernig stafræn verðmæti og þekking flyst um heiminn.

Ég held að það sé kominn tími til að afneita harmleik almenningeignar  (tragedy of the commons) og horfast í augu við að það gagnast öllum vel að ná sátt um sameiginleg gæði og nýta sameiginleg gæði og byggja upp sameiginlega visku- , verkfæra og þekkingarbrunna  sem allir geta gengið í að vild.  Sérstaklega er brýnt að losa sem mest aðgangshömlur á þau gæði sem eru gætt þeirri náttúru að þau vaxa eftir því sem fleiri nýta sér þau. Spakmælið "Það eyðist sem af er tekið" á nefnilega alls ekki við framleiðslu  í heimi  þar sem tekin eru (eða afrituð/fjölfölduð)  verðmæti til að búa til önnur verðmæti. Það er öfugmæli að núna eru þeir tímar að hefðbundinn eignaréttur t.d. höfundarréttur  er oft eins og helsi sem hindrar aðgang og notkun og hindrar að viðkomandi eign verði efniviður í önnur verðmæti og skapi meiri verðmæti í samfélaginu. 

 

Hér koma slóðir og annað sem ég hef skrifað þessu tengt (ef ég finn það)

Ég skrifaði árið 2003 eftirfarandi blogg um almenningseign og lími það blogg inn hérna: 

 

Auðlindahagfræði, sjálfbær þróun, almenningseign og fullveldi


Einu sinni var Sahara skóglendi. Nú er þar eyðimörk. Þetta er víst út af ofbeit öldum saman. Sumir hagfræðingar telja að meinið liggi í því að það sem sé almenningseign hljóti alltaf að vera étið þangað til það er uppurið. Þeir bera fyrir sig ritið Tragedy of the Commons eftir Whitehead frá seinustu öld en í hann og Hardin er gjarnan vitnað með svona lífspeki:
A tragedy because of the "solemnity of the remorseless working of things" (Whitehead). "Ruin is the destination toward which all men rush, each pursuing his own best interest in a society that believes in the freedom of the commons. Freedom in a commons brings ruin to all." (Hardin)

Það er spurning hvort að hin sameiginlegu afréttarlönd hafa ekki gert Hálendi Íslands að þeirri auðn sem það er. Annars sá ég að Ísland var tekið sem dæmi á vef um sjálfbæra þróun, bæði þessar stærstu eyðimerkur í Evrópu sem eru í íslenskum óbyggðum og svo fiskimiðin. Þetta er borið saman við Price Edward eyju og bent á hve mikilvægt fullveldi er og sjálfákvörðunarvald þeirra sem búa hjá og yrkja auðlindir. :

"These examples show that concentrated, abstract ownership can drive a number of system trends relentlessly toward Whitehead’s “inevitable tragedy”. Sovereignty, properly understood, can be seen as a powerful counter force for self-sufficiency or sustainability. It is from that perspective that we need to view more carefully the trend in Newfoundland and Prince Edward Island toward reducing their sovereignty over the last hundred years, while Iceland moved in the other direction. Indeed, Iceland even endured the so-called “cod wars” with the United Kingdom in order to preserve the sovereignty of its fishery. We can see the same drives toward sovereignty at work now in the Faeroe and Aland islands, so that they too may assert a firmer hold upon their own political and economic space.

Now, of course, it is easy to romanticize the struggle and to become misled. One such way would be misread this exercise as simply a nostalgic call to return to the past. It is important to recognize at the outset that the subsistence model was itself no utopia. A visitor’s challenging introduction to the traditional Icelandic cuisine based on using all parts of an animal’s body tells us how hard and practical life must have been. Nor was the subsistence model free from ignorance. A first time visitor to Iceland is struck by the lack of trees and soil. The naïve assumption is that this lunar landscape is solely the result of it being a volcanic area. In fact, this desolate landscape is largely the result of generations of poor grazing and agronomic practice."

Ef fiskiskiptafloti Íslendinga og kvótaeign kemst mestallur í eigu ópersónulegra aðila innlendra og erlendra og stýringin verður kannski í höndum erlendra aðila sig eiga fyrirtæki sem eiga fyrirtæki sem eiga banka sem á fyrirtæki o.s.frv. er þá ekki hætta að við lendum í svona Tragedy of the Commons stöðu? Hér er ég að pæla hvort að svona abstrakt eignarhald eins og hlutabréfaeign í gegnum verðbréfamarkaði er ekki ákkúrat eins mikil ógnun við gjöful fiskimið og almenningseign á afréttarsvæðum...þarf að pæla betur í þessu. #

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband