Anno domini 2010 eða anno domino 2010

Það er viðkvæm staða í Evrulöndum núna. Það er ekki spurning um að verja evruna, það hjálpar til lengri tíma litið evrulöndum að hafa gengi evru sem lægst skráð gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Það veitir sams konar vernd og lágt gengi íslenskar krónu gerir núna. Evrópsk stjórnvöld skynja brýnast  að koma í veg fyrir algjöran glundroða og að forðast að fjárfestar og spákaupmenn meti stöðuna þannig að ríki eins og Grikkland og önnur ríki sem eru að sigla hraðbyri í sömu stöðu muni hvorki vilja né geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.

Það er raunar frekar ólíklegt að mati margra hagfræðinga að Evruland geti ráðið við vandann, vandinn er of risavaxinn. Löndin eru líka í vandræðum heima fyrir, Portúgal tekur þátt í björgunaraðgerðum fyrir Grikki og lánar Grikkjum á lægri vöxtum en það þarf  sjálft að greiða í vexti þegar það ríki fjármagnar sig með lánum.

Núna kaupir ECB þ.e. evrópski seðlabankinn ríkisskuldabréf af evruþjóðum. Þetta er einhvers konar fiff hjá þeim. Lög Evrópusambandsins banna beint inngrip þ.e. að kaupa skuldir beint af ríkisstjórnum eins og gert var bæði í Bretlandi og USA. Til þess að brjóta ekki þessi lög þá kaupir ECB þessi ríkisskuldabréf á markaði.

Það er ótrúlega villandi fréttaflutningur af þessum fjármálahræringum, látið eins og þetta sé til að verja evruna þ.e. halda gengi hennar háu. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst um að ríkisstjórnir Evrópu eru að skoppa í kringum spákaupmenn eins og Soros og halda að þau geti blekkt þá til að trúa því að Grikkland og fleiri ríki ætli og geti borgað ríkisskuldir og ríkisstjórnir Evrópu eru líka að skoppa í kringum lög sem þau sjálf settu þar sem sona inngrip voru bönnuð.

Ríkisstjórnir ganga hér eins og hvarvetna um heiminn erinda fjármagnseigenda og spákaupmanna og raunar skynja sig í helgreipum þeirra og eru það líka. Við búum í hagkerfi sem byggir á skuldum og þeir sem búa til peninga með því að búa til skuldir hafa sóst eftir að lána þeim stóru og öflugu og traustu, sem sé ríkisstjórnum og það hefur verið auðvelt fyrir ríki að sanka að sér skuldum. En núna er staðan sú að ríki eru mörg í sömu stöðu og skuldum vafnir bankar, ríki þurfa stöðugt að endurfjármagna sig með verri og verri kjörum og skuldabyrðin eykst sífellt.

Svona hagkerfi sem byggir á skuldum og þar sem allt er á fleygiferð nema það þarf að standa við skuldbindingar við fjárfesta hvað sem það kostar er ekki að leysa nein mál. Bara að velta undan sér vandanum.

En  til langs tíma þá blekkja svona gerningar ekki Soras eða aðra spákaupmenn og það er afar ólíklegt að ríkisstjórnir ósamstilltra landa sem skynja hagsmuni ekki fara saman geti stillt saman aðgerðir um meira flæði í atvinnulífi og fjármálum.

En stjórnvöld verða að láta þau boð berast til umheimsins að þau ráði við ástandið, þau skynja það sem verstu hugsanlegu stöðu að viðurkenna að vandinn sé þannig að fjármálastjórn ríkja og ríkjasambandi hafi þar lítið að segja.

Það má hérna rifja upp hina miklu hörku sem fjármálaráðherrar og forsætisráðherrar Evrópubandalagsríkja sýndu  þegar íslensk stjórnvöld vildu leita til dómsstóla um málefni innistæðutryggingasjóðs, hörku sem örugglega snerist um að það var meira undir en skuldir Íslands, það var undir tiltrú á fjármálakerfi Evrópu, fjármálakerfi sem riðaði þá og riðar ennþá til falls.

Sagan sem núna er sögð af fallinu mikla í vikunni á Wall Street er nútíma flökkusaga. Það er saga af því að einhver hafi óvart ýtt á billjarða takka þegar hann ætlaði að ýta á milljarða takka, þess vegna hafi markaðurinn fallið um 9 % á einum degi.  En þó sagan sé  ekki sannleikur þá er í henni það sannleikskorn að fjármálamarkaðir eru svo viðkvæmir í dag að einn putti á lyklaborði getur velt stórri skriðu, skriðu sem myndi velta hvort sem er vegna þess að traustið er farið.


mbl.is Stofnun neyðarsjóðs samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Það virðist komið að úrslita stund - annað hvort notar Evrópa þann frest sem Evrópa keypti með þessum peningum og bjargar Evrunni frá hruni - eða - að hún hrynur e-h seinna.

Á næstu vikum og mánuðum, má búast við miklum átökm innan ESB um framtíð Evrunnar, og sérstaklega um þær hugmyndir að taka upp sameiginlega hagstjórn innan Evrusvæðisins, sem margir telja frumforsendu ef Evran á að halda áfram.

En, augljóslega verða margir hikandi, við að taka svo stórt skref, í þá átt að auka völd Brussel.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 10.5.2010 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband