Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
10.10.2007 | 06:33
Ástralíumenn hefja baráttu gegn hvalveiðum á Youtube
Ég vona að Íslendingar átti sig sem fyrst á því hversu gríðarleg andstaða er í heiminum á hvalveiðum og hve gífurlegir hagsmunir eru í húfi fyrir Ísland að fá ekki þá ímynd að hér sé unnið að því að útrýma dýrategundum og slátra öllu kvíku í sjónum.
Ástralíumenn hafa hafið áróðurstríð til að ná til barna í Japan og víðar. Umhverfisráðherra Ástralíu talar á móti hvalveiðum á þessu Youtube myndbandi. Áströlsk yfirvöld hafa líka opnað þennan hvalavef fyrir börn í hvalveiðilöndum, sérstaklega í Japan.
Við búum í landi þar sem ferðamennska er sívaxandi atvinnugrein og landi þar sem náttúru landsins er eitt helsta tákn þess á erlendum vettvangi. Það er fáránlegt að fórna litlum hagsmunum hvalfangara fyrir gríðarmikla hagsmuni á öllum öðrum sviðum, bæði í ferðaþjónustu en ekki síður í allri útrás íslenskra fyrirtækja. Ég held að margar hvalategundir við Ísland séu ekki í útrýmingarhættu og hefðbundin veiðimannasamfélög sem byggja á nytjum dýrastofna eiga alveg eins mikinn tilverurétt og dýrategundirnar sem þær nytja. Þannig er hefð hjá mörgum norðurslóðahópum að nytja lífríki sjávar með hópveiðum t.d. veiðar eskimóa og grindhvalaveiðar Færeyinga. Þannig hefur þessu ekki verið háttað í hvalveiðum Íslendinga frá þeim tíma sem rányrkjan mikla hófst á Sóbakka.
Höldum áfram vísindarannsóknum á hvölum og höldum áfram að upplýsa alþjóðasamfélagið um hvaða hvalastofnar eru í útrýmingarhættu og hvaða hvalastofnar eru það ekki. En vanmetum ekki hversu gríðarleg og vaxandi andstaða er í heiminum á móti hvalveiðum og áttum okkur á því að það er heimskulegt að hlusta ekki á rödd markaðarins og þess samfélags sem við sækjum tekjur í ferðaþjónustu og útrás til. Hættum að láta eins og hvalfriðungar séu einhver öfgahryðjuverkahópur sem bara vilji sökkva hérna hvalveiðibátum. Við ættum öll að vera hvalfriðungar eða alla vega hlýða rödd skynseminnar.
Núna hafa yfirvöld í Ástralíu hafið áróðurstríð til að ná til barna í Japan. Þau setja inn myndbönd á Youtube. Sjá þessa vefsíðu umhverfisráðherrans Malcolm Turnbull. og fréttina á BBC Whaling battle moves to YouTube
Ég var áðan að leita að áströlsku myndböndunum og sló inn leitarorðið Whaling á Youtube. Það sem kom þar efst upp voru nokkur áróðursmyndbönd hvalfriðunga af blóði drifnum hvalskurði Íslendinga. Þetta er verulega alvarlegt mál, það er alls ekki gott fyrir Íslendinga að vera tengdir við slæma nýtingu á auðlindum sjávar. Ég varpa þeirri hugmynd til sjávarútvegsráðuneytisins að það noti líka Youtube eins og Ástralir til að sýna hvernig sjávarnytjum er háttað á Íslandi.
Þessu myndbandi Ástrala er líka beint gegn Íslendingum, ekki bara Japönum.
Sjá þetta myndband http://www.youtube.com/DeptEnvironment
Vonandi vanmeta íslenskir stjórnmálamenn ekki þetta framtak Ástralíumanna.
Það er afar óskynsamlegt að leyfa hvalveiðar á Íslandsmiðum. Það setur hagsmuni þúsunda Íslendinga í uppnám, það eyðileggur orðspor Íslendinga í alþjóðasamfélaginu og það bakar ómældan vanda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.10.2007 | 20:02
Mannauður hjá orkuveitunni
Í umræðunni undanfarið er margoft rætt um þann mikla mannauð og þekkingu sem byggst hefur upp hjá Orkuveitu Reykjavíkur, um hugvitið sem fólgið er í starfsmönnum þar og þekkingu þeirra. Ég efast ekki um að þetta er satt en ég hef samt ekki ennþá fundið gögn sem sýna hvernig þessi mannauður sé metinn jafnvel þó hann sé tilbúin tala sem margir ráðamenn m.a. Össur iðnaðarráðherra og Vilhjálmur borgarstjóri hafa haft eftir til að sýna fram á hversu mikið Orkuveitan hafa grætt á samrunanum við Geysi Green Energy.
Það er sumt sem vekur athygli mína varðandi stjórnsýslu hjá orkuveitunni. Eitt er hversu fáar konur virðast koma að stjórnsýslu þar, það þarf ekki annað en skoða myndirnar á vefsíðunni til að sjá það.
Hér er mynd af stjórn orkuveitunnar sem var í árskýrslunni. Það stingur strax í augun að það Svandís Svavarsdóttir er eina konan í hópnum.
Hér er mynd ef því þegar tilkynnt er um stofnun 50 milljarða útrásarfyrirtækis í orkugeiranum.
Hvar eru allar konurnar? Eru þær ekki hæfar? Eru þær ekki með þá hæfni og kunnáttu sem þarf fyrir svona öflugt tæknifyrirtæki? Eru þær ekki hæfar til að stýra svona fyrirtæki?
Hver er hæfni karlmannanna sem hafa valist til starfa og komist til metorða í OR og útrásarfyrirtækinu REI? Hvers vegna hafa þeir komist þar til metorða? Hvers vegna eru þeir allir karlmenn? Það gefur augaleið að í sérhæfðu tæknifyrirtæki þá hljóta í stjórnunarhópnum að vera sérfræðingar sem hafa sérstaka reynslu og sérstaka þekkingu á jarðvarmavirkjunum. Maður myndi líka ætla að í ef svona fyrirtæki ætlaði sér í útrás í Kína, Filippseyjum eða Indónesíu þá væru líka meðal stjórnenda og lykilstarfsmanna menn sem hefðu sérþekkingu á viðskiptum og iðju og menningu/tungumálum sem tengjast þeim heimshlutum, viðskipta og framkvæmdaumhverfi þar er gerólíkt því sem við eigum að venjast. En ég hef nú reyndar ekki séð að þeir karlmenns sem hafi verið ráðnir til forustu í þessari útrás hafi einhverja slíka alþjóðlega reynslu eða þekkingu. Ég reyndar kannast við nokkra sem eru á þeim listum sem hafa verið birtir undanfarið og veit að þeir eru ágætir starfsmenn og hæfileikaríkir og ég geri ráð fyrir að allir sem hafa verið og eru núna dregnir fram í fjölmiðlaþætti eftir fjölmiðlaþátt - seinast í Kastljósinu núna áðan - hljóta að vera mjög leiðir yfir þessari umfjöllun.
En sumt verður bara að koma fram í dagsljósið varðandi ráðningamál og samningamál við starfsmenn. Fyrir utan að nánast allir virðast vera karlmenn þá hefur bloggin Orðið á götunni bent á annað sameiginlegt einkenni á mörgum lykilmönnum. Þeir eru fyrrverandi kosningastjórar valdamikilla manna í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Ég bendi fólki á að lesa Orðið frá 8. október, 2007 Mikil auðlind í orku kosningastjóranna
Það kemur fram hjá Orðinu að Haukur Leósson (fráfarandi stjórnarformaður OR) fjármagnaði og stýrði prófkjörsbaráttu Vilhjálms borgarstjóra gegn Gísla Marteini, Björn Ársæll Pétursson (stjórnarformaður REI) var kosningastjóri í prófkjöri Guðlaugs þórs gegn Birni Bjarnasyni og svo var Rúnar Hreinsson kosningastjóri (viðburðastjóri REI) í prófkjöri og borgarstjórnarkosningum Björns Inga.
Orðið er meinfýsið að vanda og byrjar bloggið sitt svona:
Orðið á götunni er að þótt enn sé eftir að virkja eitt einasta kílóvatt af jarðvarma í útlöndum á vegum Reykjavík Energy Invest sé fyrirtækið búið að gjörnýta alla helstu virkjunarkosti meðal kosningarstjóra.
Það er mikill mannauður hjá OR sem og hjá öðrum fyrirtækjum borgarinnar en það þarf greinilega ða fara betur ofan í starfsmannastefnu og hvers vegna svona einsleitur hópur velst þar í lykilstörf.
Annars er gaman að sjá hvað mikill áhugi hefur vaknað á OR málum og það er nú ekki bara bundið við Íslendinga á Íslandi. Stefán Jón Hafstein fyrrum stjórnarmaður í OR leggur þetta til málanna frá Namibíu Eigum við ENN að trúa?
Hér verða kaflaskil
Hér bæti ég við að kvöldi 10. október þegar friðarsúlan í Viðey lýsir upp Reykavík.
Núna er umræðan á ýmsum Netmiðlum og í ljósvakamiðlum orðin afar illkvittin og raunar komin út fyrir öll mörk. Það er ljóst að bæði Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi hafa misstigið sig í þessu REI máli. Það er hins vegar engin ástæða til að bera staðreyndir og eða einhverjar vísbendingar um meinta spillingu fram með eins illgjörnum hætti og t.d. er gert í þessari umfjöllun á vísir.is
Það er nauðsynlegt að sýna andstæðingum sem og samherjum fulla virðingu.
Vísir.is er komið með með dramatíska frásögn með tímalínu
REI - Hvað, hvenær, hvernig ... og hver
og svo myndaalbúmi yfir helstu persónur og leikendur ... þegar ég les þetta hjá visir.is þá finnst mér umræðan vera komin út á ystu nöf. Þetta er orðin of mikil aðför að einstökum mönnum.
Mér finnst líka núna nóg komið í aðför að borgarstjóra, sjá hérna Ég hef sagt fullkomlega satt
Af einhverjum ástæðum er Vilhjálmi borgarstjóra missaga og það veikir óneitanlega traust á honum. Það er hins vegar borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokksins sem velur foringja sinn, ekki við hin. Látum þau um að meta ástandið. Hann hefur ekkert ólöglegt gert. Honum lætur afar illa að vasast í þessum málum. Getur hann ekki snúið sér að því sem allir vilja, einhvers konar uppbyggingu og betri aðstöðu fyrir aldraða í borginni. Vilhjálmur er miklu betri í velferðarmálunum en í þessu útrásarbrölti með fjármálastofnunum. Mér fannst hann afar viðkunnanlegur borgarstjóri þangað til þetta REI mál kom upp. Mér fannst hann taka myndarlega á málum eins og að vilja ekki spilasali og súlustaði og hafa áhuga á aðbúnaði aldraðra.
Það stefnir greinilega allt í bullandi fæting í Framsóknarflokknum, ég var að taka eftir fyrirsögninni Bjarni Harðarson vill að Vilhjálmur og Björn Ingi segi af sér
Ég tel að Björn Ingi verði að gera betur grein fyrir þessu máli. Honum hefur hins vegar að ég best veit ekki orðið margsaga eins og Vilhjálmi. Það var hins vegar ekki trúverðugt í viðtalinu við hann í kastljósi í gær þegar hann sagðist ekkert hafa komið að ráðningu Rúnars kosningastjóra síns.
Ég held að þetta REI mál og hvernig Björn Ingi spilar úr þeirri stöðu sem nú er komin upp hafi afdrífarík áhrif á stjórnmálaferil hans. Þau vinnubrögð sem virðast einkenna þetta mál eru sams konar vinnubrögð og ég hef séð einkenna stjórnmálastarf í Framsóknarflokknum í Reykjavík. Ég hef notað öll þau tækifæri sem ég hef getað til að benda á þetta og benda á að lýðræðisleg vinnubrögð eru vænlegri kostur.
Vilhjálmur segist ekki hafa séð lista yfir kaupréttarhafa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.10.2007 | 12:44
Björn mælir skynsamlega... en hvað vakir fyrir Kínverjum.. eða er það olían á Tjörnesi?
Ég er nú oftast nær sammála Birni Bjarnasyni og ber mikla virðingu fyrir honum sem stjórnmálamanni. Ég man ekki eftir öðrum ráðherra sem hefur haft eins skarpa sýn á mikilvægi hins nýja þekkingarsamfélags og beitt sér eins mikið fyrir framförum á því sviði eins og Björn gerði í stjórnartíð sinni sem menntamálaráðherra.
Ég skil ekki frekar en Björn hvers vegna það skipti máli að aðeins sé eitt íslenskt útrásarfyrirtæki á sviði orkumála. Alla vega ekki miðað við þær upplýsingar sem við almenningur og borgarfulltrúar höfum fengið af útrásarbrallinu.
Hins vegar virðist mér allt benda til að einhverjar samningaþreifingar hafi farið fram milli útrásarfyrirtækja orkuveitunnar og kínverskra stjórnvalda. Forsetinn talar í hreykinn í sjónvarpsviðtali um að hann hafi komið á tengslum í heimsókn sinni í Kína fyrir tveimur árum og Valgerður Sverrisdóttir fyrrum iðnaðarráðherra var ansi drjúg með sig þegar hún sagði í sjónvarpsviðtali að nú væri að skila sér tengsl sem hún hefði komið á í ferð sinni til Kína fyrir fjórum árum. Það er búið að vera eilíft rennerí á kínverskum sendinefndum milli Íslands og Kína, mér skilst að á árinu 2007 hafi komið hingað til lands 17 sendinefndir. Eitthvað vakir nú fyrir þeim... nema náttúrulega að þetta sé kínverska útgáfan af túristaferðum á kostnað ríkisins.
Sennilega vilja stjórnvöld í Kína semja við stjórnvöld á Íslandi frekar en einkaaðila á Íslandi. Sennilega nýtur fyrirtæki sem talið er einhvers konar útvöxtur frá orkuveitu í eigu Reykjavíkurborgar miklu meiri velvildar í Kína en einkafyrirtæki í eigu alþjóðlegra fjármálamanna sem vinna með því "að láta peningana vinna fyrir sig". Það er eflaust í kommúnistaríkinu Kína eins mikil tortryggni gagnvart alþjóðlegum fjármálamönnum eins og á Íslandi.
Það hafa birst í fjölmiðlum undanfarna daga fjöldi af myndum þar sem Íslendingar eru í Kína að skrifa undir pappíra. Það kom fram í sambandi við einhverja gámahafnasamninga að Eimskip taldi mikils virði að hafa bara náð þessum samningi og það var látið fylgja með að amerísk fyrirtæki myndu hafa viljað borga stórfé fyrir slíka aðstöðu.
Það er augljóst að Kínverjar sækjast eftir ítökum og friðsamlegum samskiptum við íslensk stjórnvöld. Kínverjar eru í bullandi útrás, þeir vilja koma með meiri þunga inn á markaði Vesturlanda og það passar fyrir þá að herja í sinni útrás fyrst á jaðarsvæðin eins og Ísland sem hafa samninga við Evrópusambandið og skipaleiðin um Ísland er líka líkleg til að skipta máli fyrir Kínverja í framtíðinni. Ólafur forseti er alltaf að stússa eitthvað í Kína með fjármálamönnunum, ég held að Kínverjar meti það mikils, það segja mér allir sem þekkja til kínversks samfélags að þar sé mikil virðing borin fyrir mönnum í háttsettum opinberum embættum enda eru þarlendir vanir því að það séu þeir sem ráða.
Þeir eru reyndar líka vanir því að stjórnvöld þurfi ekki að þola gagnrýni og líta á mótmæli sem eitthvað óhugsandi svo það verður að koma burt öllu "ýtnu fólki" þegar háttsettir kínverjar eru á ferð. Það er nú önnur saga.
Miðstýrð kommúnistaríki sem ekki hafa viðskiptafrelsi hafa möguleika sem önnur ríki hafa ekki þ.e. á því að bjóða aðstöðu á móti aðstöðu. Þannig getur verið að viðskiptavild fyrirtækis sem eitthvað er bendlað við Orkuveituna eða aðra opinbera aðila sé mikil í kínverskjum viðskiptum m.a. að slíku fyrirtæki verði falið eitthvað verkefni í Kína eða fái einhverja fyrirgreiðslu fyrst og fremst til að styrkja tengsl landanna og ef til vill sem greiða á móti einhverri aðstöðu eða ítökum hérna. Þetta er sambærilegt við lendingarleyfið sem Loftleiðir fékk í Bandaríkjunum, lendingarleyfi sem varð til þess að fátækt íslenskt flugfélag sem byrjaði að leita að síld í lofti varð að stóru flugfélagi. Sambærileg flugfélög í Evrópu fengu ekki þetta tækifæri á kaldastríðsárunum.
Ég held að það geti vel verið að þeir sem hafa komið að þessu REI máli viti af einhvers konar mikilvægri fyrirgreiðslu sem það fyrirtæki á í vændum í Kína, ég hugsa að það hljóti að vera svo, annars mundu þeir alls ekki tala svona gáleysislega og með stjörnuglampa í augum út af einhverjum miklum framtíðargróða.
Það getur verið að það sé gríðarlegur mannauður og þekking og reynsla fólgin í Orkuveitunni þó mér hafi persónulega ekki tekist að koma auga á það í neinum gögnum sem borin eru á borð fyrir almenning. Þvert á máli þá virðist mér fremur einkennilega fálmkennd vinnubrögð hafa einkennd REI sameininguna og ég hef ekki komið auga á hvaða þekkingu og reynslu margir af þeim sem nefndir hafa verið seinustu daga hafa fært inn í fyrirtækið þó þeir hafi stýrt mjög stórum ákvörðunum. Mér sýnist aðkoma þeirra hafa stundum verið í gegnum kunningja- og vinatengsl.
Annars er skemmtilegasta samsæriskenningin þessi sem ég fann eftir einhvern sem nefnir sig Barða á málefnin.com. Hann segir þann 5. október:
"Þessi óhemju hamagangur einmitt nú í kringum orkumálin og endurspeglast sérstaklega í borgarstjórn Reykjavíkur þessa stundina er ekki tilviljunin ein.Framundan er mikil barátta að ná yfirráðum yfir væntanlegum auðlindum á sjávarbotni landgrunnsins við Ísland: nánar tiltekið á Tjörnessvæðinu, á Skjálfandaflóa og Öxarfirði, þar sem vitað er og mæld hafa verið feiknaþykk setlög sem Shell International fann með hljóðbylgjumælingum og fleiru árið 1971.
Þetta á ekkert skylt við blekkingarvef allra ríkisstjórna hér frá 1971 o g til þessa dags, að unnið sé að undirbúningi olíuleitar á svonefndu Drekasvæði við Jan Mayen!! Það mál er tilbúin blekking stjórnvalda og núna iðnaðarráðuneytis til að fela tilurð þessara setlaga við norðausturlandið.
Og um það er verið að berjast núna með pólitísku brölti Geysis Green Energy, Reykjavíik Energy Invest og Orkuveitu Reykavíkur. Þessir aðilar ætla sér að komast yfir réttinn til rannsókna á þessum setlögum - og síðar réttinn til að vinna olíu þarna eða framselja hann til öflugra erlendra olíufyrirtækja sem gjörþekkja vinnslu á olíu.
Furðulegast af öllu er, að núverandi iðnaðarráðherra skuli ekki hafa haft frumkvæði í því að gera hreint fyrir sínum dyrum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og játa að setlögin fyrir norðaustan land séu einmitt réttnefnd auðugasta auðlind Íslendinga finnist þar olía! En málið er að opnast núna, og tími til kominn."
Nú vantar bara að Össur steli senunni frá Valgerði fyrrum iðnaðarráðherra og Ólafi forseta sem bæði eigna sér þessa góðvild okkar hjá kínverjum í jarðvarmamálum og segi okkur frá því að við séum olíuþjóð. Ég myndi sofa betur, mér hefur alltaf fundist þetta grábölvað og óréttlátt að Færeyingar og Norðmenn vaði í olíu og við höfum bara hreint vatn hérna
Segist ekki skilja þörf á samruna útrásarfyrirtækja í jarðhitanýtingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2007 | 18:47
Full tortryggni
Þetta REI mál hefur gert mig mjög tortryggra á vinnubrögð þeirra sem fara með eign almennings í orkufyrirtækjum borgarinnar. Ljós í myrkrinu er að það kemur í ljós að margir eru sama sinnis og stjórnarandstaðan sérstaklega Svandís og Ögmundur hafa svo sannarlega sýnt góð tilþrif og hve gríðarlega mikilvæg stjórnarandstaða er. Þrátt fyrir að hafa ekkert vægi í atkvæðagreiðslunni þá hefur Svandísi tekist að halda uppi málefnalegri og snarpri umræðu og benda hve einkennilega og á skjön við lýðræðisleg vinnubrögð þetta mál ber að. Ég verð að segja að ég skil ekki alveg afstöðu Samfylkingarinnar (Dagur, Össur, Sigrún) þar virðast allir á því að þetta sé stórkostlegt tækifæri og mikil gróðalind (hvernig fá þeir þetta út, fá þeir einhverjar upplýsingar sem við almenningur fáum ekki?).
Ég held að þetta REI mál sé angi af því að fjármálafyrirtækin ásælast orkuauðlindirnar og vilja komast yfir völd á þeim.
Ég er algjörlega á móti því að auðlindir samfélagsins sem ég bý í séu seld til erlendra eða fjölþjóðlegra auðhringja bara af því þau pressa á að kaupa og bara af því að einhver flokkur hérna telur að einkavæðing sé trúarbrögð og vill einkavæða rekstur sem í eðli sínu verður alltaf einokunarrekstur eða fákeppni. Það er heldur engin efnahagsleg ástæða, það er velmegun hérna og þetta eru fyrirtæki sem skila hagnaði. OR hefur malað gull fyrir Reykvíkinga og heldur vonandi áfram að gera það. Það er þessi ódýra orka sem gerir byggðina hérna hagstæða og ég held að við sem búum hér í þessu samfélagi þ.e. borgarar í íslensku borgarsamfélagi - ekki eingöngu Reykjavík heldur á öllu atvinnusvæðinu milli Suðurnesja til Borgarfjarðar og í byggðinni hinum megin við Hellisheiðina - ég held að við borgarar í þessu samfélagi séum miklu betri vörslumenn þessara gæða heldur en ef þessi gæði verða einkavædd og yrkjuð gegnum alþjóðlega auðhringi og stór alþjóðleg hlutafélög og arðurinn ef til vill fluttur úr landi, látinn koma fram í einhverri skattaparadís og tilbúnu ríki hinna ríku. Ég held að það eigi almennt við um auðlindir heimsins, það er best að stjórn þeirra sé á hendi þeirra sem yrkja þær og sem búsettir eru á því svæði sem auðlindirnar eru á.
Ögmundur hefur skrifað tvær ágætar greinar
Nýlendustefnan í orkumálum
Þjófnaður aldarinnar
Það var líka ágætt að sjá hvernig Þorgerður Katrín varaformaður Sjálfstæðisflokksins og Júlíus Vífill og fleiri borgarfulltrúar D-listans hafa komið fram í þessu máli. Ég vona að ég geti alla vega treyst því að þau fari að leikreglum lýðræðisins og bjóði ekki borgarbúum framar upp á svona skrýtin vinnubrögð. Mér virðist að Guðlaugur Þór sé einn helsti einkavæðingarpostuli borgarstjórnar og það er rétt að halda því til haga að hann var einn aðalhvatamaður að stofnun REI.
Ég er mjög tortryggin á fjölmiðla, ég held að þeir sem vilja kaupa upp íslenskar auðlindir hafi reynt og reyni að tryggja ítök sín í fjölmiðlum. Ég held líka að þeir kaupi upp blaðamenn og heilu fjölmiðlanna (já og reyni að kaupa upp heilu stjórnmálaflokkana )til að básúna upp kosti einkavæðingarinnar í orkumálum og meira segja held ég að sum blogg (sérstaklega eyjan.is bloggin) séu beinlínis skrifuð til að þóknast þeim sem ásælast orkuauðlindirnar, það sé tönglast fram og til baka á einhverri framtíðarsýn sem er væntanlegum orkuauðlindakaupendum hliðhollar sb. blogg eins og þetta:
http://hallgrimur.eyjan.is/p/28
"Framleiðsla og sala á orku verður einkavædd hér sem annars staðar. Helmingurinn af Hitaveitu Suðurnesja er kominn yfir til REI og þarmeð í einkaeigu, verði REI selt útúr OR. Pólitíska verkefnið verður fyrst og fremst að búa svo um hnútana að almenningur missi ekki af veislunni og fái sanngjarnt verð fyrir eignirnar.
Framhald málsins verður þá væntanlega einhvern veginn svona: Pólitískt halda menn áfram að vega hverjir aðra, innan flokka og yfir flokkslínur, en nýja félagið heldur áfram að vaxa og dafna, hvort sem það verður selt frá Orkuveitunni eða ekki. Nú er bara að sjá hversu vel menn þola hitann.
Þegar við virðum fyrir okkur Orkuveitu Reykjavíkur eftir nokkur ár verður til staðar lítil (á heimsmælikvarða) og þekkileg almenningsveita, sem dreifir heitu og köldu vatni og rafmagni til höfuðborgarsvæðisins samkvæmt ströngum verðlagsákvæðum. Virkjanirnar verða hinsvegar í eigu alþjóðarisa eins og REI, sem greiða eigendum orkulindanna, oftast ríki og sveitarfélögum hóflegt auðlindagjald. Og hvar megi vikja og hversu mikið verður auk þess bundið ströngu aðhaldi. Þetta þarf ekkert að vera mjög flókið."
Stefnt að því að selja hlut Orkuveitunnar í REI | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.10.2007 | 16:02
Forsetinn með jarðsamband
Það er hið besta mál að forseti Íslands greiði framþróun íslenskra fyrirtækja á erlendri grundu og kynni íslenskar vörur (nema náttúrulega "íslenskar vörur" eins og reika vodkann, það er ekki við hæfi, sjá grein mínaVodkasala Íslands ) og hugvit og það er náttúrulega hið besta mál ef forsetaembættið vinnur að því að koma á samskiptum milli íslenskra aðila og erlendra aðila sem geta haft hag hver af öðrum og breitt út um heiminn mikilvæga þekkingu sem stuðlar að vistvænni borgum.
Ég efa ekki að hér hafi byggst upp mikil og góð þekking á jarðvarmanýtingu sem getur komið öðrum þjóðum til góða. Ég veit einmitt að nám í jarðhitaskóli sameinuðu skólanna hefur verið hér á landi.
Ég las fréttatilkynningu forsetans um jarðhitasamvinnu Íslands og Kína og ég hlustaði á forseta vorn tjá sig um það í þessu viðtali Loga Bergmanns við Ólaf forseta : Kína styður framboð Íslands til Öryggisráðsins
Ég vildi óska þess að framganga forseta Íslands um jarðhitann væri aðeins jarðbundnari. Mér finnst gaman að loftköstulum en mér finnst ekki trúverðugt tal forsetans (í lok viðtalsins) um eitthvað gríðarlega stórt verkefni... sem væri svo stórt að við gerðum ekkert annað en sinna því, orkufyrirtækin, bankar og fjármálastofnanir... ef það gengi eftir.
Forseti Íslands vinnur gott starf að koma á fót tengslum og það er auðvitað fengur fyrir íslensk útrásarfyrirtæki að geta skutlast svona með forsetann til Kína og fengið hann til að tala máli sínu við ráðamenn á erlendri grundu. En það vantar jarðsamband ef forsetinn fer að tala um einhver gríðarlega verkefni í Kína án þess að nokkuð sé í höfn með samninga og reyndar eins og staðan er í dag allt upp í lofti hér á Íslandi varðandi þetta mál.
Annars er hér góð grein á grapevine.is:Iceland-China Is Free-trade as Good as Claimed? sem er með ólíkt betra jarðsamband.
Viðbót:
Ég fann á vef or.is vitnisburð upp á 29 bls. frá Ólafi forseta Clean Energy for the Future
það virkar nú alveg ágætt rit
Kínverjar vilja stórefla samvinnu við Ísland um jarðnýtingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2007 | 11:14
Hvernig er verðmæti REI fengið út?
það eru ekki eingöngu kaupréttarsamningarnir sem eru skrýtnir varðandi REI samrunann. Það er afar skrýtið hvernig verðmat á fyrirtækinu er unnið, hvernig í ósköpunum menn geta fengið það út að nýstofnað pappírsfyrirtæki sem ekki hefur ennþá selt neina vöru eða þjónustu og raunar er í mínum huga afar óljóst hvað þetta fyrirtæki ætlar að gera. Það étur hver eftir öðrum um að það þurfi að taka þátt í útrásinni og það séu einhver gífurleg verðmæti fólgin í sérþekkingu og hugviti Íslendinga á sviði jarðvarmamála en eini mælikvarðinn er einhver tala sem var fundin út sem "goodwill" við samrunann og var að mér skilst hvergi metinn af utanaðkomandi aðilum. Svo virðast margir halda að þegar stjórnarformaðurinn Bjarni Ármannsson kaupi í fyrirtækinu tvisvar sinnum, fyrst á genginu 1,28 og síðan á genginu 2.77 þá hafi á einhvern dularfullan hátt allt markaðsverði fyrirtækisins hækkað.
Það er líka afar skrýtið að orkufyrirtæki í eigu borgarbúa í Reykjavík skuli vera að fara út í fjárfestingarstarfsemi í fjarlægum heimsálfum. Það er ömurlegt að heyra Vilhjálm borgarstjóra mæla því einhverra bót og líkja þessu saman við t.d. lina.net. Lagning kapla um Reykjavík til að tryggja infrastrúktúr upplýsingasamfélagsins er langt frá því sambærilegt við að fjármagna hitaveitur í Indónesíu og á Fillipseyjum. Það er infrastrúktúr sem gagnast því samfélagi sem er veitusvæði Orkuveitunnar. Á sama hátt hefði ég alveg verið sátt við að opinberir aðilar kæmu að því að fjármagna fleiri sæstrengi til Íslands, það er nauðsynleg forsenda og grunnstrúktúr fyrir borgarsamfélagið hérna. En það er afar óeðlilegt að opinber veitufyrirtæki leggi fé í áhættusöm fjárfestingarævintýri og tendrist upp í að "vera með í íslensku útrásinni". Vettvangur þeirra er hérna heima og þeirra umhverfi er borgarsamfélagið á Íslandi.
En þetta er allt of mikil skynding og lítið upplýsingastreymi til almenning þegar ráðskast er með eigur Reykvíkinga. Það er ætti að vera krafa okkar borgarbúa að geta fylgst með hvernig farið er með eigur okkar og að við megum gera athugasemdir. En það eru auðvitað fyrst og fremst löglega kjörnir fulltrúar borgarbúa sem eru okkar umbjóðendur. Það hefur komið í ljós að fulltrúar minnihlutans fengu bara þrjá klukkutíma fyrirvara um fund þar sem tekin var ákvörðun um að binda verulegt fé í áhætturekstri erlendis.
En voru þá þeir borgarfulltrúar þess stjórnmálaafls sem er við völd í borginni betur settir? Fengu þeir að taka þátt í umræðum og skoða málið nákvæmlega. Nú hefur komið í ljós að þeir voru boðaðir til skyndifundar á þriðjudagskvöld og þar heyrðu þeir fyrst af þessu máli:
Upphaf deilnanna má rekja til þess að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru boðaðir til skyndifundar" um málefni Orkuveitunnar í stöðvarstjórahúsinu í Elliðaárdalnum á þriðjudagskvöld og vissu aðeins Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson fundarefnið. Þar voru fulltrúar annarra sveitarfélaga sem sæti eiga í stjórn Orkuveitunnar, Borgarbyggðar og Akraness. Þá var þar Haukur Leósson, stjórnarformaður Orkuveitunnar og stjórnarmaður í REI, og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI. Eins og fundinum er lýst fyrir blaðamanni var fólk boðið velkomið og síðan brugðið upp glæru þar sem stóð: Samruni REI við Geysi Green Energy."
Það er margt meira athugavert í þessu máli annað en kaupréttarsamningarnir, þetta eru stjórnarhættir sem eru andstæðir lýðræðislegum vinnubrögðum í stjórnsýslu borgar.
Átti að vaða yfir okkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2007 | 18:46
Raufarhafnarstemming í Reykjavík
Reykvíkingar! Í guðanna bænum lærið af reynslu annarra sveitarfélaga og leyfið ekki að fjármunir borgarinnar séu notaðir sem spilapeningar í áhættufjárfestingum sem koma Reykvíkingum ekkert við. Kynnið ykkur hvernig fór fyrir Raufarhöfn. Fyrir aðeins níu árum var Raufarhöfn eitt efnaðasta sveitarfélag landsins, var með fullar hendur fjár eftir að hafa sent hlut sinn í útgerðarfyrirtækinu Jöklum til ÚA. Berið saman hvað sveitarstjórinn á Raufarhöfn sagði þá við það sem Vilhjálmur borgarstjóri okkar segir núna. Skoðið líka hvernig fór.
Sveitarstjórinn sagði:
"Við lítum á sölu hlutabréfa okkar til ÚA og Burðaráss, sem góðan kost fyrir atvinnulífið á staðnum. Annars værum við ekki að gera þetta," segir Gunnlaugur Júlíusson, sveitarstjóri Raufarhafnarhrepps. "ÚA er mjög öflugt landvinnslufyrirtæki og með þessu fæst tenging við þá reynslu og þekkingu, sem þeir búa yfir og aðgengi sjómanna að skipsrúmum hjá fyrirtækinu. Þá losar sveitarfélagið mikla peninga, sem verða eins konar baktryggingarsjóður og eignalega verður sveitarfélagið mjög sterkt."
úr morgunblaðsgreininnni ÚA og Burðarás kaupa meirihlutann í Jökli hf.
Skemmst er frá því að segja að Raufarhafnarhreppur fjárfesti grimmt á "gráa markaðinum" í hlutabréfum og keypti fyrir eignir sínar hlutabréf í íslensku fyrirtækjunum deCODE, Íslandssíma og OZ. Á árinu 1999 keypti Raufarhafnarhreppur í sjö tækni- og vaxtarsjóðum fyrir 20 milljónir króna. Þessir sjóðir eru China Opportunity Fund, European Growth Fund, International Global Growth Fund, International Asia Pacific Fund, International Japan Growth Fund, Technology Fund og UK Equity Income Fund.
Raufarhafnarhreppur tapaði öllu sínu fé í þessum fáránlegu og grunnhyggnu fjárfestingum. Hvað skyldi 6000 tonna þorskkvóti leggja sig á í dag? Það er kvótinn sem hvarf úr byggðalaginu með sölunni á Jökli.
Það var auðlind Raufarhafnar að hafa aðgang að fiskimiðum okkar. Það var og er fiskiþorp. Það varð ekkert úr þeim verðmætum sem Raufarhöfn seldi auðlind sína á þegar þeim var breytt í spilapeninga í einhverju fjármálalóttói.
Þorgerður Katrín: Of geyst farið í samruna GGE og REI | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2007 | 11:23
Við frumbyggjarnir
Í síðustu viku þá leið mér í fyrsta skipti eins og útlendingi þó ég væri stödd á Íslandi og ég varð í fyrsta skipti verulega pirruð yfir að fá ekki þjónustu á íslensku og sömu þjónustulipurð og ég er orðin vön á Íslandi. Þannig var að ég ákvað að kaupa mér klippikort á kvikmyndahátíðina í Reykjavík. Ég keypti miðann auðvitað í gegnum Netið og eftir að hafa þaulesið upplýsingarnar á vefnum þá fann ég út að ég þyrfti að fá klippikortið afhent gegn netkóða sem ég fékk uppgefinn þegar ég borgaði kortið í upplýsingamiðstöð hátíðarinnar í Hressingarskálanum. Ritið yfir kvikmyndasýningarnar var afar ruglingslegt, ágætar upplýsingar um myndirnar sjálfar en ekki gott yfirlit yfir praktísk atriði eins og hvaða myndir voru sýndar hvað á hvaða tíma. Vefsíðan riff.is var líka alls ekki í samhljómi við dagskrána þannig að allt var mjög ruglandi.
Ég hringdi í upplýsingamiðstöðina og bað um upplýsingar bæði um myndir og hvenær ég gæti nálgast klippikort þar. Viðkomandi sagði "I do not speak Icelandic" sem var nú bara pínulítið pirrandi, þó ég hafi verið búsett á námsárum mínum í enskumælandi landi og tali ágæta ensku þá tók smátíma að finna út titla myndana sem ég var að spyrja um á ensku því ég var bara búin að stúdera þá á íslensku. Nema hvað að ég fæ þær upplýsingar í síma að upplýsingamiðstöðin sé bara opin til klukkan 20. Ég les mér líka til kvikmyndaskránni og þar er líka staðfest að opið sé til kl. 20.
Daginn eftir mætti ég svo kl. 19:45 í Hressó og spyr um þessa upplýsingamiðstöð. Eins og fyrri daginn er enginn sem talar íslensku en ein alúðleg enskumælandis starfstúlka á barnum segir mér að "they are gone". Mér líkar það stórilla og læt það í ljós við stúlkuna, hún sá aumur á mér og segist þekkja einhvern af þeim sem sjá um þessa kvikmyndahátíð og kemur mér í samband við hann í síma. Ég er að vonum ansi hvöss yfir að enginn sé við á auglýstum opnunartíma í upplýsingamiðstöð og það verður úr að viðkomandi kemur eftir korter og ég fæ klippikortið sem ég var að sækja.
Það sem mér fannst skrýtnast var að viðkomandi (sem talaði ensku með frönskum hreim) virtist vera sármóðgaður og lét það í ljósi við mig þegar hann afhenti mér miðann með einhverjum athugasemdum um að ég ætti ekkert með að æsa mig yfir þessu. Mér finnst þetta broslegt, þarna fékk ég alveg einstaklega óeffektíva þjónustu, þar virtist algjört virðingarleysi ríkja við viðskiptavini kvikmyndahátíðarinnar og að það skipti engu máli að einhver afgreiðsla væri til staðar á auglýstum afgreiðslutíma.
Ég fór að hugsa um hvað við erum orðin góðu vön í þjónustu og þjónustulipurð hér á Íslandi, við búumst við að þeir sem selja okkur vörur og þjónustu vinni eftir reglunni "viðskiptavinurinn hefur allt rétt fyrir sér" og að þeir sjái um að við fáum fljótt og á auðveldan hátt það sem við erum að versla. Þannig þjónustustig er líka í USA. Hins vegar heyri ég oft hryllingssögur af þjónustu í ýmsum Evrópuríkjum, sérstaklega af þjónustu opinberra aðila.
En sem sagt, þá vil ég helst fá afgreiðslu hér á íslensku og alla vega afgreiðslu miðað við íslenskt þjónustustig.
Það fjarar alveg ótrúlega hratt undan íslenskunni þessa daganna. Það er orðið þannig hjá fjölmörgum sem ég þekki að aðalvinnumál þeirra er enska og skjölin eru vistuð á ensku. Ég hugsa að stærstur hluti af því efni sem ég les sé á ensku og örugglega stór hluti af því sem ég skrifa. Ég tek eftir að smán saman dettur íslenskan út, ég t.d. merki ekki myndirnar mínar í flickr.com lengur á íslensku og ég merki ekki bókamerkin mín á del.icio.us á íslensku. Ég set líka oft enska titla á myndefni. Það er þægilegra fyrir mig að merkja gögnin mín með enskum orðum ef ég held að ég muni einhvern tíma fletta upp þessum leitarorðum og það sparar umstang að hafa titla á ensku, þá þarf ég ekki alltaf vera svara einhverjum bréfum sem eru að spyrja af hverju þessar myndir séu.
Það er hins vegar nauðsynlegt að fólk horfist í augu við framtíðina. Það bendir allt til þess að íslenskan verði eitthvað heimamál tvítyngdrar þjóðar, mál sem er talað á sunnudögum og þegar menn vilja vera skáldlegir og/eða minnast gamalla tíma.
Það er ekkert sem bendir til þess að íslenskan verði lifandi tungumál í íslensku þjóðlífi eftir 50 ár ef alþjóðavæðing og innflutningur fólks af erlendum uppruna heldur áfram með sama hraða og nú er.
Verzló vill fá enska námsbraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.10.2007 | 18:18
Íslenski jólasveinninn og fararskjóti hans
Yfir 70% af þeim leikföngum sem framleidd eru í heiminum í dag koma frá Kína. Mörg börn á Vesturlöndum trúa því að jólasveinninn komi með gjafir til þeirra á jóladag akandi um loftin blá á sleða sem hreindýr draga. Þessar gjafir hafa önnum kafnir jólaálfar framleitt fyrir öll börnin á Vesturlöndum.
Hér eru myndir úr leikfangaverkstæðum í Kína til þar sem leikföngin fyrir börn á Vesturlöndum eru búin til. Svona líta álfarnir út sem framleiða leikföngin. Maður getur samt ekki annað en hugsað hvort það sé alltaf gaman að vera svona álfur á jólasveinaverkstæði, alla vega virðast þeir svolítið þreyttir á öllu puðinu á þessari mynd, þarna hafa þeir lagt sig undir framleiðsluborðinu.
Hvað skyldu álfar jólasveinsins hafa í tímakaup?
Margir halda að jólasveinninn noti ennþá svona gamaldags farartæki eins og hreindýrasleða. Sem betur fer þá erum við upplýst í þessari frétt um hvernig jólasveinninn þeysist milli landa. Hann gerir það með öðrum í þotuliðinu í boði Glitnis.
Að öllu gamni slepptu þá vil ég segja að mér finnst mjög óeðlilegt að forseti Íslands sé ferjaður á milli landa af stórfyrirtækjum og almennt að forsetaembættið eða önnur opinber embætti á Íslandi séu háð góðmennsku einkafyrirtækja um skutl milli staða. Mér finnst dáldið nöturlegt að forsetinn sem á sínum sokkabandsárum þeyttist um Ísland uppfullur af hugsjónaanda og flutti töluna "Hver á Ísland?" í hverju krummaskuði og talaði um fjölskyldurnar fjórtán eða hvað þær voru margar - hafi þegar hann sjálfur kemst í embætti ekki þá dómgreind til að bera að slá ekki hversu óviðeigandi þessi ferðamáti er.
Ólafur Ragnar flaug til Kína í boði Glitnis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.10.2007 | 13:51
Gullfiskaminni kjósenda
Ætli þeir stjórnmálamenn sem koma að REI-Geysir Green Energy hafi engan áhuga á framtíðarferli sínum í stjórnmálum? Eða treysta þeir á gullfiskaminni kjósenda og halda að kjósendur í Reykjavík séu heimskir og illa upplýstir og spái ekkert í hvernig kjörnir fulltrúar fari með fjármuni og eigur borgarbúa? Halda þeir að það þurfi ekki annað en smala grimmt og hóa kjósendum saman og gefa þeim nokkrar bjórdollur fyrir næstu kosningar til að þeir kjósi það sama? Ætli þeir telji að einu skyldur þeirra milli kosninga séu að gæta hagsmuna þeirra sem gáfu stórar upphæðir í kosningastjóði og styrktu þá til valda?
Ég er frekar vonlaus yfir stöðunni í íslensku samfélagi í dag, mörg plott og fléttuleikir eru í gangi til að reka almenning til og frá og slá ryki í augun á fólki. Flestir íslenskir fjölmiðlar eru í eigu örfárra áhrifamanna í viðskiptum og stundum virðast fjölmiðlar hérlendis beinlínis vera reknir með það í huga að tryggja hliðholla umfjöllun í stóru málunum þó þeim blekkingarleik sé haldið í gangi dags daglega að viðkomandi fjölmiðill sé frjáls og óháður og geti alveg gagnrýnt eigendur sína eins grimmilega aðra.
Ísland er ekki lengur heitur reitur í köldu stríði. Ráðstjórnarríkin hrundu innan frá og vígvöllur Bandaríkjamanna er fjarri okkur í Mið-Austurlöndum. En það eru aðrir hagsmunir hér núna, hagmunir sem tengjast orkuauðlindum landsins og hagsmunir sem tengjast legu landsins og siglingaleiðum og hagsmunir sem tengjast því að landið er fullvalda smáríki í samfélagi Evrópuþjóða. Stórveldi í austri eins og t.d. Kínverjar hafa því fullan hug á ítökum hér á landi.