Mannauður hjá orkuveitunni

Í umræðunni undanfarið er margoft rætt um þann mikla mannauð og þekkingu sem byggst hefur upp hjá Orkuveitu Reykjavíkur, um hugvitið sem fólgið er í starfsmönnum þar og þekkingu þeirra. Ég efast ekki um að þetta er satt en ég hef samt ekki ennþá fundið gögn sem sýna hvernig þessi mannauður sé metinn jafnvel þó hann sé tilbúin tala sem margir ráðamenn m.a. Össur iðnaðarráðherra og Vilhjálmur borgarstjóri hafa haft eftir til að sýna fram á hversu mikið Orkuveitan hafa grætt á samrunanum við Geysi Green Energy.  

Það er sumt sem vekur athygli mína varðandi stjórnsýslu hjá orkuveitunni.  Eitt er hversu fáar konur virðast koma að stjórnsýslu þar, það þarf ekki annað en skoða myndirnar á vefsíðunni til að sjá það.

Hér er mynd af stjórn orkuveitunnar sem var í árskýrslunni. Það stingur strax í augun að það Svandís Svavarsdóttir er eina konan í hópnum.

Stjórn OR

Hér er mynd ef því þegar tilkynnt er um stofnun 50 milljarða útrásarfyrirtækis í orkugeiranum.

8ffbef6f86453f48

 Hvar eru allar konurnar? Eru þær ekki hæfar? Eru þær ekki með þá hæfni og kunnáttu sem þarf fyrir svona öflugt tæknifyrirtæki? Eru þær ekki hæfar til að stýra svona fyrirtæki?

Hver er hæfni karlmannanna sem hafa valist til starfa og komist til metorða í OR og útrásarfyrirtækinu REI? Hvers vegna hafa þeir komist þar  til metorða? Hvers vegna eru þeir allir karlmenn? Það gefur augaleið að í sérhæfðu tæknifyrirtæki þá hljóta í stjórnunarhópnum að vera sérfræðingar sem hafa sérstaka reynslu og sérstaka þekkingu á jarðvarmavirkjunum. Maður myndi líka ætla að í ef svona fyrirtæki ætlaði sér í útrás í Kína, Filippseyjum eða Indónesíu þá væru líka meðal stjórnenda og lykilstarfsmanna menn sem hefðu sérþekkingu á viðskiptum og iðju og menningu/tungumálum sem tengjast þeim heimshlutum, viðskipta og framkvæmdaumhverfi þar er gerólíkt því sem við eigum að venjast. En ég hef nú reyndar ekki séð að þeir karlmenns sem hafi verið ráðnir til forustu í þessari útrás hafi einhverja slíka alþjóðlega reynslu eða þekkingu. Ég reyndar kannast við nokkra sem eru á þeim listum sem hafa verið birtir undanfarið og veit að þeir eru ágætir starfsmenn og hæfileikaríkir og ég geri ráð fyrir að allir sem hafa verið og eru núna dregnir fram í fjölmiðlaþætti eftir fjölmiðlaþátt - seinast í Kastljósinu núna áðan - hljóta að vera mjög leiðir yfir þessari umfjöllun.

En sumt verður bara að koma fram í dagsljósið varðandi ráðningamál og samningamál við starfsmenn. Fyrir utan að nánast allir virðast vera karlmenn þá hefur bloggin Orðið á götunni bent á annað sameiginlegt einkenni á mörgum lykilmönnum. Þeir eru fyrrverandi kosningastjórar valdamikilla manna í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Ég bendi fólki á að lesa Orðið  frá 8. október, 2007 Mikil auðlind í orku kosningastjóranna

Það  kemur fram hjá Orðinu að Haukur Leósson (fráfarandi stjórnarformaður OR)  fjármagnaði og stýrði prófkjörsbaráttu  Vilhjálms borgarstjóra gegn Gísla Marteini, Björn Ársæll Pétursson (stjórnarformaður REI) var kosningastjóri í prófkjöri Guðlaugs þórs gegn Birni Bjarnasyni og svo var Rúnar Hreinsson kosningastjóri (viðburðastjóri REI) í prófkjöri og borgarstjórnarkosningum Björns Inga.

 

 Orðið er meinfýsið að vanda og byrjar bloggið sitt svona:

 Orðið á götunni er að þótt enn sé eftir að virkja eitt einasta kílóvatt af jarðvarma í útlöndum á vegum Reykjavík Energy Invest sé fyrirtækið búið að gjörnýta alla helstu virkjunarkosti meðal kosningarstjóra.

Það er mikill mannauður hjá OR sem og hjá öðrum fyrirtækjum borgarinnar en það þarf greinilega ða fara betur ofan í starfsmannastefnu og hvers vegna svona einsleitur hópur velst þar í lykilstörf. 

Annars er gaman að sjá hvað mikill áhugi hefur vaknað á OR málum og það er nú ekki bara bundið við Íslendinga á Íslandi. Stefán Jón Hafstein fyrrum stjórnarmaður í OR leggur þetta til málanna frá Namibíu Eigum við ENN að trúa?

 

Hér verða kaflaskil

Hér bæti ég við að kvöldi 10. október þegar friðarsúlan í Viðey lýsir upp Reykavík.

Núna er umræðan á ýmsum Netmiðlum og í ljósvakamiðlum orðin afar illkvittin og raunar komin út fyrir öll mörk. Það er ljóst að bæði Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi hafa misstigið sig í þessu REI máli. Það er hins vegar engin ástæða til að bera staðreyndir og eða einhverjar vísbendingar um meinta spillingu fram með eins illgjörnum hætti og t.d. er gert í þessari umfjöllun á vísir.is

Það er nauðsynlegt að sýna andstæðingum sem og samherjum fulla virðingu.

Vísir.is er komið með með dramatíska frásögn með tímalínu 

REI - Hvað, hvenær, hvernig ... og hver

og svo myndaalbúmi yfir helstu persónur og leikendur ... þegar ég les þetta hjá visir.is  þá finnst mér umræðan vera komin út á ystu nöf. Þetta er orðin of mikil aðför að einstökum mönnum.

Mér finnst líka núna nóg komið í aðför að borgarstjóra, sjá hérna „Ég hef sagt fullkomlega satt“

Af einhverjum ástæðum er Vilhjálmi borgarstjóra missaga  og það veikir óneitanlega traust á honum. Það er hins vegar borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokksins sem velur foringja sinn, ekki við hin. Látum þau um að meta ástandið. Hann hefur ekkert ólöglegt gert. Honum lætur afar illa að vasast í þessum málum. Getur hann ekki snúið sér að því sem allir vilja, einhvers konar uppbyggingu og betri aðstöðu fyrir aldraða í borginni. Vilhjálmur er miklu betri í velferðarmálunum en í þessu útrásarbrölti með fjármálastofnunum.  Mér fannst hann afar viðkunnanlegur borgarstjóri þangað til þetta REI mál kom upp. Mér fannst hann taka myndarlega á málum eins og að vilja ekki spilasali og súlustaði og hafa áhuga á aðbúnaði aldraðra.

Það stefnir greinilega allt í bullandi fæting í Framsóknarflokknum, ég var að taka eftir fyrirsögninni Bjarni Harðarson vill að Vilhjálmur og Björn Ingi segi af sér

Ég tel að Björn Ingi verði að gera betur grein fyrir þessu máli. Honum hefur hins vegar að ég best veit ekki orðið margsaga eins og Vilhjálmi. Það var hins vegar ekki trúverðugt í viðtalinu við hann í kastljósi í gær þegar hann sagðist ekkert hafa komið að ráðningu Rúnars kosningastjóra síns.

Ég held að þetta REI mál og hvernig Björn Ingi spilar úr þeirri stöðu sem nú er komin upp hafi afdrífarík áhrif á stjórnmálaferil hans. Þau vinnubrögð sem virðast einkenna þetta mál eru sams konar vinnubrögð og ég hef séð einkenna stjórnmálastarf í Framsóknarflokknum í Reykjavík. Ég hef notað öll þau tækifæri sem ég hef getað til að benda á þetta og benda á að lýðræðisleg vinnubrögð eru vænlegri kostur.  


mbl.is Vilhjálmur segist ekki hafa séð lista yfir kaupréttarhafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Tek undir þínar pælingar Salvör og vísa til bloggs míns í kvöld um sama málefni.....

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 10.10.2007 kl. 01:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband