Björn mælir skynsamlega... en hvað vakir fyrir Kínverjum.. eða er það olían á Tjörnesi?

Ég er nú oftast nær sammála Birni Bjarnasyni   og ber mikla virðingu fyrir honum sem stjórnmálamanni. Ég man ekki eftir öðrum ráðherra sem hefur haft eins skarpa sýn á mikilvægi hins nýja þekkingarsamfélags og beitt sér eins mikið fyrir framförum á því sviði eins og Björn gerði í stjórnartíð sinni sem menntamálaráðherra. 

Ég skil ekki frekar en Björn hvers vegna það skipti máli að aðeins sé eitt íslenskt útrásarfyrirtæki  á sviði orkumála. Alla vega ekki miðað við þær upplýsingar sem við almenningur og borgarfulltrúar höfum  fengið af útrásarbrallinu. 

Hins vegar virðist mér allt benda til að einhverjar samningaþreifingar hafi farið fram milli útrásarfyrirtækja orkuveitunnar og  kínverskra stjórnvalda. Forsetinn talar í hreykinn í sjónvarpsviðtali um að hann hafi komið á tengslum í heimsókn sinni í Kína fyrir tveimur árum og Valgerður Sverrisdóttir fyrrum iðnaðarráðherra var ansi drjúg með sig þegar hún sagði í sjónvarpsviðtali að nú væri að skila sér tengsl sem hún hefði komið á í ferð sinni til Kína fyrir fjórum árum. Það er búið að vera eilíft rennerí á kínverskum sendinefndum milli Íslands og Kína, mér skilst að á árinu 2007 hafi komið hingað til lands 17 sendinefndir. Eitthvað vakir nú fyrir þeim... nema náttúrulega að þetta sé kínverska útgáfan af túristaferðum á kostnað ríkisins.

Sennilega vilja stjórnvöld í Kína semja við stjórnvöld á Íslandi frekar en einkaaðila á Íslandi.  Sennilega nýtur fyrirtæki sem talið er einhvers konar útvöxtur  frá orkuveitu í eigu Reykjavíkurborgar miklu meiri velvildar í Kína en einkafyrirtæki í eigu alþjóðlegra fjármálamanna sem vinna með því "að láta peningana vinna fyrir sig". Það er eflaust í kommúnistaríkinu Kína eins mikil tortryggni gagnvart alþjóðlegum fjármálamönnum eins og á Íslandi.

Það hafa birst í fjölmiðlum undanfarna daga fjöldi af myndum þar sem Íslendingar eru í Kína að skrifa undir pappíra. Það kom fram í sambandi við einhverja gámahafnasamninga að Eimskip taldi mikils virði að hafa bara náð þessum samningi og það var látið fylgja með að amerísk fyrirtæki myndu hafa viljað borga stórfé fyrir slíka aðstöðu.

Það er augljóst að Kínverjar sækjast eftir ítökum og friðsamlegum samskiptum við íslensk stjórnvöld. Kínverjar eru í bullandi útrás, þeir vilja koma með meiri þunga inn á markaði Vesturlanda og það passar fyrir þá að herja í sinni útrás fyrst á jaðarsvæðin eins og Ísland sem hafa samninga við Evrópusambandið og skipaleiðin um Ísland er líka líkleg til að skipta máli fyrir Kínverja í framtíðinni. Ólafur forseti er alltaf að stússa eitthvað í Kína með fjármálamönnunum, ég held að Kínverjar meti það mikils, það segja mér allir sem þekkja til kínversks samfélags að þar sé mikil virðing borin fyrir mönnum í háttsettum opinberum embættum enda eru þarlendir vanir því að það séu þeir sem ráða.

Þeir eru reyndar líka vanir því að stjórnvöld þurfi ekki að þola gagnrýni og líta á mótmæli sem eitthvað óhugsandi svo það verður að koma burt öllu "ýtnu fólki" þegar háttsettir kínverjar eru á ferð. Það er nú önnur saga.

Miðstýrð kommúnistaríki sem ekki hafa viðskiptafrelsi hafa möguleika sem önnur ríki hafa ekki þ.e. á því að bjóða aðstöðu á móti aðstöðu. Þannig getur verið að viðskiptavild fyrirtækis sem eitthvað er bendlað við Orkuveituna eða aðra opinbera aðila sé mikil í kínverskjum viðskiptum m.a. að slíku fyrirtæki verði falið eitthvað verkefni í Kína eða fái einhverja fyrirgreiðslu  fyrst og fremst til að styrkja tengsl landanna og ef til vill sem greiða á móti einhverri aðstöðu eða ítökum hérna. Þetta er sambærilegt við lendingarleyfið sem Loftleiðir fékk í Bandaríkjunum, lendingarleyfi sem varð til þess að fátækt íslenskt flugfélag sem byrjaði að leita að síld í lofti varð að stóru flugfélagi. Sambærileg flugfélög í Evrópu fengu ekki þetta tækifæri á kaldastríðsárunum. 

Ég held að það geti vel verið að þeir sem hafa komið að þessu  REI máli viti af einhvers konar mikilvægri fyrirgreiðslu sem það fyrirtæki á í vændum í Kína, ég hugsa að það hljóti að vera svo, annars mundu þeir alls ekki tala svona gáleysislega og með stjörnuglampa í augum út af einhverjum miklum framtíðargróða. 

Það getur verið að það sé gríðarlegur mannauður og þekking og reynsla fólgin í Orkuveitunni þó mér hafi persónulega ekki tekist að koma auga á það í neinum gögnum sem borin eru á borð fyrir almenning. Þvert á máli þá virðist mér fremur einkennilega fálmkennd vinnubrögð hafa einkennd REI sameininguna  og ég hef  ekki komið auga á hvaða þekkingu og reynslu margir af þeim sem nefndir hafa verið seinustu daga hafa fært inn í fyrirtækið þó þeir hafi  stýrt mjög stórum ákvörðunum. Mér sýnist aðkoma þeirra hafa stundum verið í gegnum kunningja- og vinatengsl.

 Annars er skemmtilegasta samsæriskenningin þessi sem ég fann eftir einhvern sem nefnir sig Barða á málefnin.com. Hann segir þann 5. október:


"Þessi óhemju hamagangur einmitt nú í kringum orkumálin og endurspeglast sérstaklega í borgarstjórn Reykjavíkur þessa stundina er ekki tilviljunin ein.Framundan er mikil barátta að ná yfirráðum yfir væntanlegum auðlindum á sjávarbotni landgrunnsins við Ísland: nánar tiltekið á Tjörnessvæðinu, á Skjálfandaflóa og Öxarfirði, þar sem vitað er og mæld hafa verið feiknaþykk setlög sem Shell International fann með hljóðbylgjumælingum og fleiru árið 1971.
Þetta á ekkert skylt við blekkingarvef allra ríkisstjórna hér frá 1971 o g til þessa dags, að unnið sé að undirbúningi olíuleitar á svonefndu Drekasvæði við Jan Mayen!! Það mál er tilbúin blekking stjórnvalda og núna iðnaðarráðuneytis til að fela tilurð þessara setlaga við norðausturlandið.
Og um það er verið að berjast núna með pólitísku brölti Geysis Green Energy, Reykjavíik Energy Invest og Orkuveitu Reykavíkur. Þessir aðilar ætla sér að komast yfir réttinn til rannsókna á þessum setlögum - og síðar réttinn til að vinna olíu þarna eða framselja hann til öflugra erlendra olíufyrirtækja sem gjörþekkja vinnslu á olíu.


Furðulegast af öllu er, að núverandi iðnaðarráðherra skuli ekki hafa haft frumkvæði í því að gera hreint fyrir sínum dyrum fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og játa að setlögin fyrir norðaustan land séu einmitt réttnefnd auðugasta auðlind Íslendinga finnist þar olía! En málið er að opnast núna, og tími til kominn."

Nú vantar bara að Össur steli senunni frá Valgerði fyrrum iðnaðarráðherra og Ólafi forseta sem bæði eigna sér þessa góðvild okkar hjá kínverjum í jarðvarmamálum og segi okkur frá því að við séum olíuþjóð. Ég myndi sofa betur, mér hefur alltaf fundist þetta grábölvað og óréttlátt að Færeyingar og Norðmenn vaði í olíu og við höfum bara hreint vatn hérna Grin


mbl.is Segist ekki skilja þörf á samruna útrásarfyrirtækja í jarðhitanýtingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband