Full tortryggni

Þetta REI mál hefur gert mig mjög  tortryggra á vinnubrögð þeirra  sem fara  með eign almennings í orkufyrirtækjum borgarinnar. Ljós í myrkrinu er að það kemur í ljós að margir eru sama sinnis og stjórnarandstaðan sérstaklega Svandís og Ögmundur hafa svo sannarlega sýnt góð tilþrif og hve gríðarlega mikilvæg stjórnarandstaða er. Þrátt fyrir að hafa ekkert vægi í atkvæðagreiðslunni þá hefur Svandísi tekist að halda uppi málefnalegri og snarpri umræðu og benda hve einkennilega og á skjön við lýðræðisleg vinnubrögð þetta mál ber að. Ég verð að segja að ég skil ekki alveg afstöðu Samfylkingarinnar (Dagur, Össur, Sigrún) þar virðast allir á því að þetta sé stórkostlegt tækifæri og mikil gróðalind (hvernig fá þeir þetta út, fá þeir einhverjar upplýsingar sem við almenningur fáum ekki?). 

Ég held að þetta REI mál sé angi af því að fjármálafyrirtækin ásælast orkuauðlindirnar og vilja komast yfir völd á þeim. 

Ég er algjörlega á móti því að auðlindir samfélagsins sem ég bý í séu seld til erlendra eða fjölþjóðlegra auðhringja bara af því þau pressa á að kaupa og bara af því að einhver flokkur hérna telur að einkavæðing sé trúarbrögð og vill einkavæða rekstur sem í eðli sínu verður alltaf einokunarrekstur eða fákeppni. Það er heldur engin efnahagsleg ástæða, það er velmegun hérna og þetta eru fyrirtæki sem skila hagnaði. OR hefur malað gull fyrir Reykvíkinga og heldur vonandi áfram að gera það. Það er þessi ódýra orka sem gerir byggðina hérna hagstæða og ég held að við sem búum hér í þessu samfélagi þ.e. borgarar í íslensku borgarsamfélagi - ekki eingöngu Reykjavík heldur á öllu atvinnusvæðinu milli Suðurnesja til Borgarfjarðar og í byggðinni hinum megin við Hellisheiðina - ég held að við borgarar í þessu samfélagi séum miklu betri vörslumenn þessara gæða heldur en ef þessi gæði verða einkavædd og yrkjuð gegnum alþjóðlega auðhringi og stór alþjóðleg hlutafélög og arðurinn ef til vill fluttur úr landi, látinn koma fram í einhverri skattaparadís og tilbúnu ríki hinna ríku. Ég held að það eigi almennt við um auðlindir heimsins, það er best að stjórn þeirra sé á hendi þeirra sem yrkja þær og sem búsettir eru á því svæði sem auðlindirnar eru á.  

Ögmundur hefur skrifað tvær ágætar greinar 

Nýlendustefnan í orkumálum
Þjófnaður aldarinnar

Það var  líka ágætt að sjá  hvernig Þorgerður Katrín varaformaður Sjálfstæðisflokksins og Júlíus Vífill og fleiri borgarfulltrúar D-listans hafa komið fram í þessu máli. Ég vona að ég geti alla vega treyst því að þau fari að leikreglum lýðræðisins og bjóði ekki borgarbúum framar upp á svona skrýtin vinnubrögð. Mér virðist að Guðlaugur Þór sé einn helsti einkavæðingarpostuli borgarstjórnar og það er rétt að halda því til haga að hann var einn aðalhvatamaður að stofnun REI.

Ég er mjög tortryggin á fjölmiðla, ég held að þeir sem vilja kaupa upp íslenskar auðlindir hafi reynt og reyni  að tryggja ítök sín í fjölmiðlum. Ég held líka að þeir kaupi upp blaðamenn  og heilu fjölmiðlanna (já og reyni að kaupa upp heilu stjórnmálaflokkana )til að básúna upp kosti einkavæðingarinnar í orkumálum og meira segja held ég að sum blogg (sérstaklega eyjan.is bloggin) séu beinlínis skrifuð til að þóknast þeim sem ásælast orkuauðlindirnar, það sé tönglast fram og til baka á einhverri framtíðarsýn sem er væntanlegum orkuauðlindakaupendum hliðhollar sb. blogg eins og þetta: 

http://hallgrimur.eyjan.is/p/28

"Framleiðsla og sala á orku verður einkavædd hér sem annars staðar. Helmingurinn af Hitaveitu Suðurnesja er kominn yfir til REI og þarmeð í einkaeigu, verði REI selt útúr OR. Pólitíska verkefnið verður fyrst og fremst að búa svo um hnútana að almenningur missi ekki af veislunni og fái sanngjarnt verð fyrir eignirnar.

Framhald málsins verður þá væntanlega einhvern veginn svona: Pólitískt halda menn áfram að vega hverjir aðra, innan flokka og yfir flokkslínur, en nýja félagið heldur áfram að vaxa og dafna, hvort sem það verður selt frá Orkuveitunni eða ekki. Nú er bara að sjá hversu vel menn þola hitann.

Þegar við virðum fyrir okkur Orkuveitu Reykjavíkur eftir nokkur ár verður til staðar lítil (á heimsmælikvarða) og þekkileg almenningsveita, sem dreifir heitu og köldu vatni og rafmagni til höfuðborgarsvæðisins samkvæmt ströngum verðlagsákvæðum. Virkjanirnar verða hinsvegar í eigu alþjóðarisa eins og REI, sem greiða eigendum orkulindanna, oftast ríki og sveitarfélögum hóflegt auðlindagjald. Og hvar megi vikja og hversu mikið verður auk þess bundið ströngu aðhaldi. Þetta þarf ekkert að vera mjög flókið."

 


mbl.is Stefnt að því að selja hlut Orkuveitunnar í REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bobotov

Það er því miður útlit fyrir það að Svandís hafi í góðri trú beint málinu í þann farveg sem það átti  að fara í.

Þeir sem standa að þessu máli eru engir aukvisar, og ættu að vita hvað þeir eru að gera. Þetta er búinn að vera einum of mikill sirkús undanfarna daga, eitt stórt leikrit með fullt af reykvélum  og misvísandi kastljósum sem mun enda á farsælan hátt fyrir leikstjóra og handritshöfund.

Bobotov , 8.10.2007 kl. 19:43

2 identicon

Hjartanlega sammála þér! Ég er algjörlega á móti því að auðlindir samfélagsins sem ég bý í séu seld til erlendra eða fjölþjóðlegra auðhringja! 

Ragnheiður Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 9.10.2007 kl. 10:24

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hæ Ragnheiður, er einhver svona auðlindaumræða í gangi í Katalóníu? 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.10.2007 kl. 13:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband