Ástralíumenn hefja baráttu gegn hvalveiðum á Youtube

Ég vona að Íslendingar átti sig sem fyrst á því hversu gríðarleg andstaða er í heiminum á hvalveiðum og hve gífurlegir hagsmunir eru í húfi fyrir Ísland  að fá ekki þá ímynd að hér sé  unnið að því að útrýma dýrategundum og slátra öllu kvíku í sjónum.

Ástralíumenn hafa hafið áróðurstríð til að ná til barna í Japan og víðar. Umhverfisráðherra Ástralíu talar á móti hvalveiðum á þessu Youtube myndbandi. Áströlsk yfirvöld hafa líka opnað þennan hvalavef fyrir börn í hvalveiðilöndum, sérstaklega í Japan.

Við búum í  landi þar sem ferðamennska er sívaxandi atvinnugrein og landi þar sem náttúru landsins er eitt helsta tákn þess á erlendum vettvangi. Það er fáránlegt að fórna litlum hagsmunum hvalfangara fyrir gríðarmikla hagsmuni á öllum öðrum sviðum, bæði í ferðaþjónustu en ekki síður í allri útrás íslenskra fyrirtækja. Ég held að margar hvalategundir við Ísland séu ekki í útrýmingarhættu og hefðbundin veiðimannasamfélög sem byggja á nytjum dýrastofna eiga alveg eins mikinn tilverurétt og dýrategundirnar sem þær nytja. Þannig er hefð hjá mörgum norðurslóðahópum að nytja lífríki sjávar með hópveiðum t.d. veiðar eskimóa og grindhvalaveiðar Færeyinga. Þannig hefur þessu ekki verið háttað í hvalveiðum Íslendinga frá þeim tíma sem rányrkjan mikla hófst á Sóbakka.

Höldum áfram vísindarannsóknum á hvölum og höldum áfram að upplýsa  alþjóðasamfélagið um hvaða hvalastofnar eru í útrýmingarhættu og hvaða hvalastofnar eru það ekki. En vanmetum ekki hversu gríðarleg og vaxandi andstaða er í heiminum á móti hvalveiðum og áttum okkur á því að það er heimskulegt að hlusta ekki á rödd markaðarins og þess samfélags sem við sækjum tekjur í ferðaþjónustu og útrás til. Hættum að láta eins og hvalfriðungar séu einhver öfgahryðjuverkahópur sem bara vilji sökkva hérna hvalveiðibátum. Við ættum öll að vera hvalfriðungar eða alla vega hlýða rödd skynseminnar.

Núna hafa yfirvöld í Ástralíu hafið áróðurstríð til að ná til barna í Japan. Þau setja inn myndbönd á Youtube. Sjá þessa vefsíðu umhverfisráðherrans  Malcolm Turnbull. og fréttina á BBC Whaling battle moves to YouTube

Ég var áðan að leita að áströlsku myndböndunum og sló inn leitarorðið Whaling á Youtube. Það sem kom þar efst upp voru nokkur áróðursmyndbönd hvalfriðunga  af blóði drifnum hvalskurði Íslendinga. Þetta er verulega alvarlegt mál, það er alls ekki gott fyrir Íslendinga að vera tengdir við slæma nýtingu á auðlindum sjávar. Ég varpa þeirri hugmynd til sjávarútvegsráðuneytisins að það noti líka Youtube eins og Ástralir til að sýna hvernig sjávarnytjum er háttað á Íslandi.

Þessu myndbandi Ástrala er líka beint gegn Íslendingum, ekki bara Japönum.

Sjá þetta myndband http://www.youtube.com/DeptEnvironment

Vonandi vanmeta íslenskir stjórnmálamenn ekki þetta framtak Ástralíumanna. 

Það er afar óskynsamlegt að leyfa hvalveiðar á Íslandsmiðum. Það setur hagsmuni þúsunda Íslendinga í uppnám, það eyðileggur orðspor Íslendinga í alþjóðasamfélaginu og það bakar ómældan vanda.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er nú líka barátta á youtube fyrir íslenskum sjónarmiðum:

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 07:01

2 identicon

Það er athyglisvert að Ástralar hafa meiri áhuga á því að bjarga hvölum, en þeir hafa  á því að bjarga fólki í neyð. Dæmi um þetta var þegar norska skipið Tampa tók um borð um hundrað flóttamenn á Indlandshafi sem voru án matar og vatns, Ástralar neituðu að aðstoða fólkið þótt þetta gerðist innan þeirra lögsögu.

Það kemur líka á óvart að Ástralska þjóðin, sem er ein af þeim 5 þjóðum sem menga mest á hvern íbúa, skuli halda því fram að þeir séu einhverskonar verndarenglar umhverfisins með því að reyna að bjarga hvalnum.

Þetta byggir allt á potpúlisma, ofsatrú, vanþekkingu og af sjálfsögðu hentar það vel fyrir Áströlsku ríkisstjórnina að fá athyglina burt frá eigin vandamálum. 

Gunnlaugur Snær Ólafsson (IP-tala skráð) 10.10.2007 kl. 09:52

3 Smámynd: Sigurður Jökulsson

Það er hreinlega ekkert að því að veiða hval til að viðhalda stofnum. Ef að veiðar minnka stofn, þá á að minnka veiðar, eða banna. Þannig er það með þorskinn núna og þannig getur það verið með hval líka. Þessi dýrkun á hval er mestmegnis vegna fáfræðslu og áróðurs. Alltaf kallaðar spakar og gáfaðar og mikilfenglegar skepnur. Jájá, það má vel vera, en svín eru gáfaðari.. hvar er áróðurinn þeirra? Svo fremi sem að ekki er verið að stofna stofninum í hættu, þá á þetta ekki að vera vandamál, og ég tel að fræðsla á því sviði sé mikilvæg. Sjórinn var í jafnvægi áður en maðurinn fór að veiða í honum. Það þýðir ekki að taka bara eina sort úr sjónum, heldur þarf að viðhalda jafnvæginu í sjónum líka. Þessi dýrkun á hvalinn minnir á strangtrú að einhverju leiti, heitkristnu fólki sem að sér ljósið í messu og dansar og hoppar... og fordæmir alla aðra. 

Sigurður Jökulsson, 10.10.2007 kl. 12:51

4 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Íslendingar eiga bara að gera eins,af hverju koma þeir sér ekki upp myndbandi sem fræðir börn í Japan+ allri veröldinni  á því hvernig Átralir fara með frumbyggja landsins,eru á góðri leið með að útrýma þeim,um það þegja þjóðir heims,einnig mætti benda á að þeir eru bölvaðir umhverfissóðar og eru ofarlega á lista yfirþær þjóðir sem menga mest.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 10.10.2007 kl. 13:20

5 Smámynd: www.zordis.com

Gott að vekja athygli á því sem betur má fara í heiminum.  Kærleikskveðja inn í helgina.

www.zordis.com, 11.10.2007 kl. 07:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband