Orkulindir, miðhálendið, fiskimiðin

Ég var að fletta upp í Google lögum um stjórnun fiskveiða og rifja upp fyrir sjálfri mér fyrstu greinina. Þessa þið munið um að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar.

Nema hvað að það fyrsta sem ég fæ upp er ágæt þingræða frá okkar ágæta iðnaðarráðherra sem reyndar var þá ekki orðinn iðnaðarráðherra (umræðan er hérna)  þar sem hann er að benda á veilurnar í sambandi við miðhálendið. Össur bendir hér á að forsjáin með miðhálendinu hafi verið tekin frá okkur þó í orði kveðnu sé miðhálendið sameign þjóðarinnar.

Hann segir

Í þessu fólst að verið var að ganga frá því að þjóðin ætti miðhálendið. Þá gerist það skyndilega í lok þeirrar atlögu, þ.e. að ljúka landnáminu, að hér er lagt fram frv. sem tekur þessa nýfengnu eign í rauninni af landsmönnum. Það er gert með því að miðhálendinu er skipt upp á milli allra sveitarfélaganna í landinu sem að því liggja. Um leið er þeim fært vald til stjórnsýslunnar, fært hvers kyns vald samkvæmt þeim lögum sem eru í gildi um sveitarfélög og réttindi þeirra. Það þýðir með öðrum orðum, herra forseti, að verið var að taka miðhálendið frá okkur með nákvæmlega sama hætti og búið er að taka frá okkur fiskimiðin. Samsvörunin er þessi:

Til eru lög um stjórnkerfi fiskveiða þar sem segir í 1. gr. að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar. Síðan er örfámennum hópi færður rétturinn til að nýta þessi fiskimið. Með öðrum orðum, eignarrétturinn sem okkur er færður samkvæmt lögunum er einskis virði vegna þess að nýtingarrétturinn verður að einokunarrétti í hendi tiltölulega fámenns hóps.

Hið sama gerist með miðhálendið. Í lögum um þjóðlendur er sagt að það land sem enginn getur sannað beinan einkaeignarrétt á sé eign þjóðarinnar. En um leið og búið er að samþykkja þau lög er svo að segja í sama mánuðinum samþykkt önnur lög sem segja:

Þrátt fyrir að þjóðin eigi þetta land þá fær hún ekki að ráða því. Yfirráðin eru færð í hendur 44 sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu. Í þessum sveitarfélögum er að finna 4% íslensku þjóðarinnar. Með öðrum orðum. Dæmið er nákvæmlega hið sama varðandi miðhálendið og varðandi fiskimiðin. Lögin segja: Þjóðin á þetta sem sameign en önnur lög gera það að verkum að sameignin er ógild og ráðstöfunarrétturinn, hinn raunverulegi nytjaréttur er færður í hendur óskaplega fámenns minni hluta.

.......................... 

Hvers vegna er það þannig að langstærsti hluti þjóðarinnar, sem býr í tveimur þéttbýlustu kjördæmum landsins, Reykjavík og Reykjanesi, hefur einungis tvo fulltrúa, þ.e. hvort kjördæmi hefur einn fulltrúa. Hvað búa margir á þessu svæði? Ætli það séu ekki 67--69% þjóðarinnar? Og það hefur tvo fulltrúa.

 Þetta er kröftug ræða hjá Össuri og hún opnaði augu mín fyrir hversu mikið þessi þrjú stóru mál orkulindirnar, miðhálendið og fiskimiðin  eiga sameiginlegt og hvernig við getum lært af því  hvernig auðlindir sjávarins og nytjaréttur þeirra voru fengnar endurgjaldslaust í hendur á fámennum hópi útgerðarmanna sem hafa nú margir breytt þessari eign í "peninga sem þeir láta vinna fyrir sig" og hvernig forsjá miðhálendisins var tekin úr umsjá þjóðarinnar og yfirráð þeirra færð til sveitarfélaga þar sem búa 4% þjóðarinnar en íbúar þéttbýlisins þar sem flestir búa hafa hverfandi áhrif.

Það er ekkert núna sem hindrar að erlendir auðhringir kaupi upp aðganginn að íslenskum fiskimiðum í gegnum félög sem eru skráð á Íslandi sem eru í eigu félaga sem eru skráð einhvers staðar erlendis sem eru í eigu aðila sem hafa lögheimili sitt og skattasetur í einhverri skattaparadís .... þannig er hægt að búa til eignarhaldsfléttu félaga svo að enginn viti lengur hver á hvað. Svo sorglegt sem það nú er þá er tímapunkturinn þegar passar fyrir Íslendinga að sækja um inngöngu í Evrópusambandið sami tímapunktur þegar megnið af fiskveiðikvótanum við Íslandsstrendur verður kominn í hendur slíkra auðhringja. Á þeim tímapunkti verður ekkert lengur eftir til að verja.

Ég held að þó að stjórnmálamenn og áhrifamenn í viðskiptum og stjórn orkufyrirtækja tali fjálglega um þjóðareign þá eigum við að skoða vandlega hvernig framkvæmdin verður. Hvað á Össur við að orkulindir sem nú eru í samfélagslegri forsjá verði það áfram? Ef t.d. á að vinna olíu á Tjörnessvæðinu er það þá eitthvað sem á að vera í forsjá einhverra annarra? Hverra? 


mbl.is Orkulindir í samfélagslegri eigu verða það áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Ég rak sérstaklega augun í þetta nýja hugtak: samfélagsleg forsjá. Hvað merkir það?

María Kristjánsdóttir, 11.10.2007 kl. 12:47

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Alveg sammála hér þarf að stíga niður með gát. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.10.2007 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband