Við frumbyggjarnir

Í síðustu viku þá leið mér í fyrsta skipti eins og útlendingi þó ég væri stödd á Íslandi og ég varð í fyrsta skipti verulega pirruð yfir að fá ekki þjónustu á íslensku og sömu þjónustulipurð og ég er orðin vön á Íslandi. Þannig var að ég ákvað að kaupa mér klippikort á kvikmyndahátíðina í Reykjavík. Ég keypti miðann auðvitað í gegnum Netið og eftir að hafa þaulesið upplýsingarnar á vefnum þá fann ég út að ég þyrfti að fá klippikortið afhent gegn netkóða sem ég fékk uppgefinn þegar ég borgaði kortið  í upplýsingamiðstöð hátíðarinnar í Hressingarskálanum. Ritið yfir kvikmyndasýningarnar var afar ruglingslegt, ágætar upplýsingar um myndirnar sjálfar en ekki gott yfirlit yfir praktísk atriði eins og hvaða myndir voru sýndar hvað á hvaða tíma. Vefsíðan riff.is var líka alls ekki í samhljómi við dagskrána þannig að allt var mjög ruglandi. 

Ég hringdi í upplýsingamiðstöðina og bað um upplýsingar bæði um myndir og  hvenær ég gæti nálgast klippikort þar. Viðkomandi sagði "I do not speak Icelandic" sem var nú bara pínulítið pirrandi, þó ég hafi verið búsett á námsárum mínum í enskumælandi landi og tali ágæta ensku þá tók smátíma að finna út titla myndana sem ég var að spyrja um á ensku því ég var bara búin að stúdera þá á íslensku.   Nema hvað að ég fæ þær upplýsingar í síma að upplýsingamiðstöðin sé bara opin til klukkan 20. Ég les mér líka til kvikmyndaskránni og þar er líka staðfest að opið sé til kl. 20.

Daginn eftir mætti ég svo kl. 19:45 í Hressó og spyr um þessa upplýsingamiðstöð. Eins og fyrri daginn er enginn sem talar íslensku en ein alúðleg enskumælandis starfstúlka á barnum segir mér að "they are gone". Mér líkar það stórilla og læt það í ljós við stúlkuna, hún sá aumur á mér og segist þekkja einhvern af þeim sem sjá um þessa kvikmyndahátíð og kemur mér í samband við hann í síma. Ég er að vonum ansi hvöss yfir að enginn sé við á auglýstum opnunartíma í upplýsingamiðstöð og það verður úr að viðkomandi kemur eftir korter og ég fæ klippikortið sem ég var að sækja.

Það sem mér fannst skrýtnast var að viðkomandi (sem talaði ensku með frönskum hreim) virtist vera sármóðgaður og lét það í ljósi við mig þegar hann afhenti mér miðann með einhverjum athugasemdum um að ég ætti ekkert með að æsa mig yfir þessu.  Mér finnst þetta broslegt, þarna fékk ég alveg einstaklega óeffektíva þjónustu, þar virtist algjört virðingarleysi ríkja við viðskiptavini kvikmyndahátíðarinnar og að það skipti engu máli að einhver afgreiðsla væri til staðar á auglýstum afgreiðslutíma.

Ég fór að hugsa um hvað við erum orðin góðu vön í þjónustu og þjónustulipurð hér á Íslandi, við búumst við að þeir sem selja okkur vörur og þjónustu vinni eftir  reglunni "viðskiptavinurinn hefur allt rétt fyrir sér"  og að þeir sjái um að við fáum fljótt og á auðveldan hátt það sem við erum að versla. Þannig þjónustustig er líka í USA. Hins vegar heyri ég oft hryllingssögur af þjónustu í ýmsum Evrópuríkjum, sérstaklega af þjónustu opinberra aðila.

En sem sagt, þá vil ég helst fá afgreiðslu hér á íslensku og alla vega afgreiðslu miðað við íslenskt þjónustustig.

Það fjarar alveg ótrúlega hratt undan íslenskunni þessa daganna. Það er orðið þannig hjá fjölmörgum sem ég þekki að aðalvinnumál þeirra er enska og skjölin eru vistuð á ensku. Ég hugsa að stærstur hluti af því efni sem ég les sé á ensku og örugglega stór hluti af því sem ég skrifa. Ég tek eftir að smán saman dettur íslenskan út, ég t.d. merki ekki myndirnar mínar í flickr.com lengur á íslensku og ég merki ekki bókamerkin mín á del.icio.us á íslensku. Ég set líka oft enska titla á myndefni. Það er þægilegra fyrir mig að merkja gögnin mín með enskum orðum ef ég held að ég muni einhvern tíma fletta upp þessum leitarorðum og það sparar umstang að hafa titla á ensku, þá þarf ég ekki alltaf vera svara einhverjum bréfum sem eru að spyrja af hverju þessar myndir séu. 

Það er hins vegar nauðsynlegt að fólk horfist í augu við framtíðina. Það bendir allt til þess að íslenskan verði eitthvað heimamál tvítyngdrar þjóðar, mál sem er talað á sunnudögum og þegar menn vilja vera skáldlegir og/eða minnast gamalla tíma.

Það er ekkert sem bendir til þess að íslenskan verði lifandi tungumál í íslensku þjóðlífi eftir 50 ár ef alþjóðavæðing og innflutningur fólks af erlendum uppruna heldur áfram með sama hraða og nú er.


mbl.is Verzló vill fá enska námsbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Quite interesting comments Salvor! You have a point there!

Júlíus Valsson, 7.10.2007 kl. 11:42

2 Smámynd: Árni Svanur Daníelsson

Ég tek undir það með þér að við höfum vanist góðu í þjónustu og samskiptum. Vildi annars leggja orð í belg varðandi kvikmyndahátíðina. Ég hef átt heilmikil samskipti við marga sjálfboðaliða í afgreiðslu og miðasölu meðan á hátíðinni hefur staðið. Hef allstaðar mætt mikilli lipurð og alúðleika. Mér þykir því leitt að heyra af raunum þínum í þessum samskiptum.

Sástu annars einhverjar spennandi myndir?

Árni Svanur Daníelsson, 7.10.2007 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband