Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
28.10.2007 | 18:29
Brot á friðhelgi - RÚV birti trúnaðargögn
Þegar fólk sækir um sérstakar undanþágur til stjórnvalda vegna aðstæðna sinna og rökstyður mál sitt með gögnum um einkalíf sitt þá er viðbúið að sum af þeim gögnum sem fólk leggur fram séu viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Þess vegna eru beinlínis ákvæði í lögum og reglum sem opinberir aðilar fara eftir um meðferð trúnaðarupplýsinga, persónuvernd og friðhelgi einkalífs.
Það er því gríðarlega einkennilegt að fólk sem hefur leitað til íslenskra stjórnvalda með umsókn um undanþágu eða einhvers konar afgreiðslu og sent með þeirri umsókn gögn skuli þurfa að búa við það að þessi sömu gögn séu lesin upp og gerð opinber í fjölmiðlum og fólkið sé í kjölfarið hundelt vikum saman af fjölmiðlum og þurfi að þola meiðandi og ruddalega umræðu og dóma og dylgjur um sig og aðstæður sína í ýmis konar opinberri umræðu - dóma og dylgjur sem byggjast á persónulegum gögnum sem gerð voru opinber án vitundar og samþykkis fólks sem í góðri trú fór að íslenskum lögum og sendi inn beiðni til einnar nefndar Alþingis.
Það er líka afar, afar einkennilegt og þarfnast rannsóknar hvers vegna opinber gögn og þar á meðal trúnaðarupplýsingar einstaklinga leka út frá Alþingi eins og það sé einhvers konar gatasigti.
Þau afgreiddu málið: Bjarni Ben., Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds
Ég er alveg sammála þeim sem segja að þessi afgreiðsla Allsherjarnefndar var stórfurðuleg og það er stórfurðulegt að fólk fái ríkisborgararétt út af veigalitlum ástæðum s.s. veseni við að ferðast milli landa vegna náms síns. Ríkisútvarpið hefði rækt eftirlitshlutverk með prýði ef það hefði bent á þessa skrýtnu afgreiðslu og látið kastljósið snúast um það sem var skrýtið og þá sem tóku ákvörðunina, þá sem voru í nefndinni. Það hefði hugsanlega verið nauðsynlegt í rannsóknarblaðamennsku að segja frá því að einhver sköl hefðu borist til Rúv og birta þau án þess að nafn einstaklinga kæmu fram. Það að uppljóstra um nafn og fjölskyldutengsl einhvers umsækjanda um undanþágu hjá opinberri nefnd án samþykki og vitundar viðkomandi og gera það að þungamiðju umfjöllunarinnar er hins vegar ámælisvert og það er gott að það kemur til dómstóla að taka á því.
Í þessu máli þá sýndi Ríkisútvarpið af öllum fjölmiðlum þá rustalegustu pólitísku aðför sem ég man eftir á seinni árum í fjölmiðlum. Í stað þess að beina athyglinni að því stjórnvaldi sem er ábyrgt fyrir skrýtnum embættisfærslum og undarlegum vinnubrögðum þá varð ekki annað séð en þetta væri aðför að Jónínu Bjartmarz alþingiskonu. Til þess að koma höggi á hana skömmu fyrir kosningar þá var ekkert til sparað af ríkisfjölmiðlinum RÚV og valtað í því augnamiði á sérlega siðlausan hátt yfir tengdadóttur hennar, stúlku sem ekkert hafði gert í þessu máli nema sótt um undanþágu til einnar nefndar Alþingis og fylgt öllum reglum sem venja er við slíkar beiðnir.
Ef fólk er búið að gleyma þessu máli þá er ágætt að rifja upp viðtal Helga Seljan við Jónínu Bjartmarz í Kastljósi sjónvarpsins þann 27. apríl 2007.
Hér er hljóðupptaka af því:
Ég rifja hérna líka upp það sem ég skrifaði um þetta mál á sínum tíma:
Sjö mínútur af Kastljósi Helgi Seljan versus Jónína
Rustalegt Kastljós hjá Helga Seljan
Í blogginu Skert ferðafrelsi þá beini ég athyglinni þar sem hún á heima, það er einkennilegt hvernig Alsherjarnefnd Alþingis tók á þessu máli. Þetta afgreiddu þrír þingmenn sem þá voru á þingi en enginn þeirra er núna á þingi nema Bjarni Benediktsson en hann ber náttúrulega mesta ábyrgð á afgreiðslunni, hann var formaður nefndarinnar. Hér er partur úr því bloggi:
Kastljósið upplýsti að stúlkan frá Guatemala hefði fengið ríkisborgararétt vegna umsóknar sem sagði frá veseni hennar við að fara í nám erlendis. Þetta vekur afar áleitnar spurningar um hvernig alsherjarnefnd þ.e. þingmennirnir Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Guðrún Ögmundsdóttir störfuðu þegar þau fóru yfir þessar umsóknir. Það hlýtur að vera krafa okkar að vinnureglur Alsherjarnefndar séu gegnsæjar og réttlátar. Ég vildi svo sannarlega búa í landi það sem svo auðvelt er fyrir útlendinga að setjast hér að og verða fullgildir ríkisborgarar en ég er nokkuð viss um að svona auðvelt er ekki að verða Íslendingur fyrir flesta útlendinga.
Ég vona svo sannarlega að enginn úr alsherjarnefnd hafi talið sig vera að gera Jónínu Bjartmarz pólitískan greiða með þessari afgreiðslu og trúi ekki svoleiðis flónsku upp á neinn sem þar situr. Það hefði nú heldur betur verið bjarnargreiði. En mér finnst upplagt að nota þetta tækifæri til að benda á að við Framsóknarmenn viljum heiðarleg og fagleg vinnubrögð í stjórnsýslunni. Ég hef sjálf reynt að starfa af alefli með það að leiðarljósi í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður en reyndar ekki orðið eins vel ágengt og ég vildi. Það er önnur saga.
![]() |
Ríkisútvarpinu stefnt fyrir ærumeiðingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.10.2007 | 18:30
Bloggvíglínan danska og bloggdvali íslenskra netdýra
Það er lenska hjá bandarískum bloggurum að vera á móti forseta sínum honum Bush. Ég man í svipinn ekki eftir neinum bandarískum bloggara sem ég les sem er ekki bullandi á móti Bush nema kannski Michelle Malkin
Danskir bloggarar reisa sín götuvígi á Netinu og herja á Fogh, sjá þessa grein Blog-front mod Fogh
Stjórnmálamennirnir dönsku blogga nú sem óðir væru og minna á íslensku frambjóðendurna í síðustu kosningum. Síðan lögðust margir hinna íslensku í dvala. Svoleiðis bloggdvalastjórnmálamenn er einhver ný tegund af lífi, netdýr sem vakna upp á fjögurra ára fresti í banastuði en leggjast svo í dvala - ekki þegar vetrar eins og birnir - heldur um leið og kosningin er yfirstaðin. Bara til að spretta upp, sprækari og háværari fyrir næstu kosningar. Sennilega verða þessi íslensku bloggdvalanetdýr að hamast inn á facebook og myspace í næstu kosningum, eins gott að þau sofi vært og safni þrótti fyrir það sprikl.
En þessir dönsku eru voða moderne og halda sumir út vídeódagbók.
Sjá greinina:
Valgkampen er i gang, også på bloggen
Ég held að stjórnmálamenn viti innst inni að einhvern tíma kemur að því að það verður þessi netheimabarátta sem ræður úrslitum. Sá tími er ekki ennþá kominn. En vonandi drepa stjórnmálamenn á blogginu mann ekki úr leiðindum með einhvers konar jákór og skjallbandalagi þeirra sem eru í sama liði og svo röð af fúkkyrðum til að nota um allt sem andstæðingar í pólitík gera. Þegar ég hugsa nú um kosningabaráttuna í netheimum þá man ég ekki svipinn eftir neinu eins leiðinlegu eins og bloggátakinu Raddir Röskvu hér um árið. Það var eitthvað gengi sem allt var að blogga um það sama, allir litu eins út, notuðu sömu orð og voru alveg víðáttuleiðinlegir og svona kópíur hver af öðrum. Ekki samt neitt meinlegir ef ég man rétt. Það er mesta lán fyrir fylgi sumra stjórnmálaflokka hvað fáir fylgjenda þeirra blogga, sérstaklega fyrir flokka þar sem hjarðhegðun er mikil og forustusauðum fylgt í blindni, blogg slíkra fylgenda eru dæmd til að vera afar svæfandi og leiðinleg.
23.10.2007 | 22:20
Össur í Indónesíu
Ég fékk svo mikinn áhuga á Indónesíu í dag út af þessu ferðalagi hans Össurar aðg ég skrifaði nokkrar greinar inn íslensku wikipedia. Fyrst bætti ég við byrjun á kafla um sögu Indónesíu við aðalgreinina og svo skrifaði ég grein um Borobudur og þá náttúrulega varð ég að skrifa greín um stúpur.
Um daginn byrjaði ég á grein um kryddið Múskat en það var einmitt sú vara sem Vesturlandabúa þyrsti mest í frá Indónesíu.
Seinustu greinarnar sem ég hef skrifað á is.wikipedia.org eru
- Ryð
- Ljóstvistur
- Flikruberg
- Allrahanda
- Fólínsýra
- Joseph Paul Gaimard
- Lýsi
- Lífdrísinn
- Aseton-peróxíð
- Safaspæta
- Hafþyrnir
- Tíbetreynir
- Vegemite
- Granatepli
Mér sýnist ég skrifa núna að jafnaði eina grein á dag. Það virðist nú samt ekki vera neitt kerfi í hvað ég skrifa um.
![]() |
Indónesar lýsa áhuga á samstarfi varðandi álframleiðslu og fiskveiðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.10.2007 | 13:25
Stefáni svelgist á
Vonandi færir Stefán Pálsson sig fljótlega yfir á Moggabloggið og byrjar að blogga um fréttir Moggans eins og við hin. En á meðan hann heldur sig á útskerum og annesjum íslenskra bloggheima þá veit almenningur ekki hvenær honum svelgist á. En Stefáni svelgdist á í gær og hann skrifaði bloggið Svelgst á um það og sagði:
"Svelgst á
Haag??? Nú nenni ég ekki að reikna út tímabelti - en í ljósi þess að Össur Skarphéðinsson var að blogga, reikna ég með að akkúratt núna sé klukkan hálf þrjú að nóttu í Indónesíu.
Þar skrifar ráðherrann: Það kemur í ljós á morgun, hvort REI, sem er með í för, hefur samningatækni til að standa í ístaðinu og halda sínu gagnvart keppinautum sextán þjóða eða hvort iðaðaráðuneytið þarf að taka málin í sínar hendur.
Muuu!!! Nákvæmlega hvernig á að skilja þessi orð? Í besta falli er þetta bara gorgeir í ráðherra á erlendu hóteli með aðgang að nettengdri tölvu og míní-bar. Í versta falli meinar maðurinn þetta og hefur einhverjar hugmyndir um að íslenska iðnaðarráðuneytið geti tekið málin í sínar hendur ef hópur íslenskra fjárfesta reynist ekki samkeppnisfær við erlenda kollega. Og nákvæmlega hvernig ætlar Össur Skarphéðinsson að taka málin í sínar hendur? Gaman væri að fá svar við því."
Ég tek undir með Stefáni.
Það væri gaman að fá svar við því.
![]() |
Össur: Gríðarlegur áhugi á samstarfi Indónesa og Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.10.2007 | 01:55
Svart á hvítu, Oz, Softís, REI
Það er freistandi að bera saman REI málið núna við þau útrásarfyrirtæki og þekkingarfyrirtæki sem menn trúðu mest á fyrir meira en áratug. Eitt þeirra fyrirtækja var fyrirtækið Softís. Annað slíkt fyrirtæki var fyrirtækið Oz. Ennþá eldra dæmi um þekkingarfyrirtæki var svo fyrirtækið Svart á hvítu sem var reyndar bókaútgáfa en fór út í að búa til þekkingarbrunn, gagnabrunn sem forseti vor Ólafur Ragnar Grímsson hafði svo mikla trú á að hann tók veð í gagnagrunninum þegar hann stýrði fjármálum þjóðarinnar og varð grunnurinn innlyksa hjá fjármálaráðuneytinu. Það er nú ekki talið mesta afrek Ólafs Ragnars á sviði fjármála þegar hann tók veð í þessum gagnagrunni, það var haft mikið í flimtingum á sinni tíð. Svart á Hvítu var nú bara með rekstur hérna innanlands, til allrar guðs mildi var það fyrirtæki ekki komið með neinn rekstur í Kína og Ólafur Ragnar forseti ekki orðinn eins upptendraður af útrásardraumum eins og hann er núna og farinn að stússa mikið með fjármálamönnum í útrásinni. En sem sagt þá mun gagnagrunnurinn vera til í fjármálaráðuneytinu... nú eða það sem er finnanlegt er af honum.
Það var mikill völlur á sínum tíma á fyrirtækinu Oz en það hneig eins og önnur netfyrirtæki þegar tiltrú á netfyrirtæki þvarr í kringum árþúsundamótin.
það var mikið hype á sínum tíma í kringum fyrirtækin Softís og ég sé að Aflvaki Reykjavíkur (sambærilegt fyrirtæki og núna er kallað útrásararmur Orkuveitunnar) hefur lagt töluvert hlutafé í Softís á sínum tíma, sjá þessa grein.
Spurning hvort það fé sem Alfvaki lagði á sínum tíma í Softís hafi rentað sig vel, hvað skyldi Aflvaki hafa grætt á þessu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2007 | 18:31
Moggabloggarasjónvarpsþáttur hjá Ólínu
Ég var fyrr í dag í upptöku á nýjum sjónvarpsþætti á sjónvarpsstöðinni ÍNN, þætti sem Ólína Þorvarðardóttir stýrir. Fyrsti þátturinn verður að ég held sendur út á föstudaginn. Það verður víst svo hægt að horfa á þáttinn á Netinu.
Ólína fékk þrjár konur með skoðanir til sín og leitaði náttúrulega ekki langt yfir skammt heldur kallaði til nokkra valinkunna moggabloggara. Það var ég, Marta og Jóna sem vorum í þessum fyrsta þætti. Það var mikill heiður að vera í þessum fyrsta þætti og við töluðum náttúrulega út í eitt. Vonandi verða bloggarar tíðir gestir í þættinum hennar, það er nú oftast fólk með sterkar skoðanir og viðhorf, fólk sem hefur frá einhverju að segja.
Hér er mynd af okkur eftir upptöku þáttarins.
Sitjandi Salvör og Ólína, standandi Marta og Jóna
Hér eru gamlar samstarfskonur Ólína og Maríanna og þær Jóna og Marta. Ólína og Maríanna unnu saman á RÚV í gamla daga undir stjórn Ingva Hrafns. Það er einmitt Ingvi Hrafn sem rekur sjónvarpsstöðina ÍNN. Ingvi Hrafn er femínisti eins og ég.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
16.10.2007 | 11:55
Sköpunarkenning og þróunarkenning
Í gær þá rölti ég um á bókasafninu í KHÍ, ég var ekki að leita að neinu sérstöku, bara svona að tékka á því hvort eitthvað nýtt væri komið í safnið og eitthvað sem gæti nýst mér í að skrifa greinar á íslensku wikipedíu, leita að einhverju flokkunarkerfi á heimsmynd okkar. Áður en varði þá var ég komin með tvær bækur, önnur bókin var "Á Hafnarslóð" og hin bókin var "Íslenskur jarðfræðilykill".
Svo blaðaði ég aðeins í þessum bókum samtímis og dett þá strax inn í ítarlega umfjöllun um Finn Magnússon leyndarskalavörð og rúnasérfræðing sem talinn var einn merkasti vísindamaður Íslendinga á sinni tíð, velgjörðarmann Jónasar Hallgrímssonar með meiru. Finnur hefur vitrast mér marg oft í lífinu, hann var viðstaddur við matborðið á bernskuheimili mínu, saga Finns var eftirlætissaga föður míns, sagan sem hann sagði margoft til að gera grín að fræðimönnum, sagan um manninn sem las heilu kvæðin út úr jökulrispum ísaldar. Finnur vitraðist mér líka árið 2001 þegar ég var að næturlagi í lest milli Kaupmannahafnar og Ronneby á þeim slóðum þar sem dularfullu táknin í Blekinge eru. Ég skrifaði þá þetta blogg:
Tina sagði í lestinni til Ronneby að rúnaristan sem Magnússon réð hafi verið nálægt næstu járnbrautarstöð við Ronneby en það er Bräkne-Hoby. Ég leitaði á Netinu að efni um Bräkne-Hoby og Magnússon en fann ekkert, breytti leitinni þá í Bräkne-Hoby og rúnasteina og eftir dálitla leit fann ég söguna um dularfullu táknin í Blekinge og hvernig Íslendingurinn Finnur Magnússon fór um þær sömu slóðir og ég núna árið 1833. Hann var í vísindaleiðangri og það var í ferðinni líka jarðfræðingur sem átti að ákvarða hvort táknin í Runemo væru mannanna verk eða náttúrunnar. Fræðimaðurinn Finnur Magnússon gerði uppgötvanir í Runemo og var næstu árin að ganga frá niðurstöðunum. Svo var það árið 1841 sem hann var loksins búinn með sitt mikla ritverk um rúnalesturinn, það var Runamo og runestenene og var verk upp á 742 blaðsíður. Finnur Magnússon var á sínum tíma heimsþekktur fræðimaður og saga hans er svo sérstök að það er hreint furðulegt að minningu hans og þessari skrýtnu sögu sé ekki haldið meira á lofti. Þetta er saga vísinda allra tíma, saga um hvernig manneskjan leitar að merkingu í umhverfi sínu og hvernig við erum öll rúnaspekingar í okkar fræðum. Þau fræði geta hins vegar haft mismunandi sjónarhorn og það sem einn sér sem kvæði fyrri kynslóða getur öðrum birst sem eyðingarkraftur náttúrunnar. Þetta er líka sagan um hin hverfulu mörk milli vísinda og skáldskapar og hvernig skáldskapur flæðir inn í vísindi og við skynjum að sannleikurinn er ekki ein uppsprettulind heldur gegnsætt flæði og straumur sem við sjálf berumst með.
Ég skrifaði grein um Finn Magnússon á íslensku wikipedíu. Ég byrjaði líka á grein þar um langfrægasta raunvísindamann Norðurlandanna á sinni tíð. Það er Tyche Brahe. Hann var heimsfrægur fyrir stjörnufræðikenningar sínar og athuganir, kenningar sem ekki er haldið mikið á lofti í dag. Ég byrjaði á greininni um Tyche í mars 2006 og skrifaði þá þetta:
Tycho Brahe ( 14. desember 1546 24 október 1601) var danskur stjörnufræðingur og gullgerðarmaður. Hann byggði stjörnuathugunarstöð sína Stjörnuborg og höllina Úraníuborg í eyjunni Hveðn og bjó þar.
Tycho Brahe fékk áhuga á gullgerðarlist þegar hann lenti sem ungur maður í ryskingum með þeim afleiðingum að hann missti nefið. Hann gekk eftir það með gullnef.
Ég var að skoða áðan hvort greinin hefði eitthvað breyst. Það hefur enginn fundið hjá sér neina hvöt til að fjalla um kenningar hans og fræðistörf, það hefur bara verið bætt við einhverju um þvagblöðru hans og salernisaðstöðu í veislum og svo hefur því verið breytt að í stað gullnefs þá hafi hann verið með nefbrodd úr kopar.
Vísindamennirnir Tyche Brahe og Finnur Magnússon hafa ekki sama stall og þeir höfðu á sínum tíma í fræðasamfélaginu. Aðrir hafa komið fram sem kollvarpa þeirra tilgátum. Þannig er gangur lífsins, þannig er gangur vísindalegrar þekkingar, þannig byggist samsöfnuð þekking heimsins upp. Hún byggist upp að hluta til með því að ráðast á fyrri þekkingu og kenningar.
Þannig kollvarpaði þróunarkenningin ýmsu sem haldið er fram um sköpun heimsins, ekki eingöngu í kristnum trúarbrögðum. Mér virðast öll trúarbrögð hafa einhvers konar sköpunarsögur, sögur sem gera hlut mannanna meiri og gera jarðvistinni aðeins bærilegri. Það er pínulítið óþægilegt að hugsa um okkur sem agnarlítil kríli á plánetunni jörðu sem sjálf er agnarlítið kríli í vetrarbraut sem er 100.000 ljósár í þvermál og þessi lífmassi sem hér flæðir um jörðu og við erum hluti af sé byggður á efnaferlum vatns. Það er nú miklu skemmtilegra að aðhyllast guðskenningar sem segja að maðurinn sé einhvers konar afrit af Guði, afrit sem hann hafi mikla velþóknun á.
Ég hef ekki myndað mér skoðun á hvort afstaða Guðfinnu var skynsamleg en vonandi skýrir hún viðhorf sitt betur. Ég var að lesa samþykkt líffræðiskorar
það er allt mjög skynsamlegt sem þar stendur og auðvitað er ég sammála líffræðingunum, ég er alin upp í þeirra hugmyndakerfi, þetta er mín heimsmynd í dag. En það er samt þannig að seinasta setningin stingur mig, setningin um hvað á erindi í umræðu og kennslu í vísindum.
Síðasta setningin er svona:
"Sköpunarkenningin" og "kenningin um vitræna hönnun" eru ekki prófanlegar tilgátur og eiga ekkert erindi í umræðu og kennslu í vísindum.
Hver er dómari yfir hvað á erindi í umræðu og kennslu í vísindum? Hafa allar vísindaframfarir síðustu árþúsunda byggst á prófanlegum tilgátum?
![]() |
Harma afstöðu Guðfinnu Bjarnadóttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
15.10.2007 | 18:51
Laumupukurslegur flumbrugangur
Ég ætlaði nú að hvíla mig svolítið á þessu orkuveituútrásaræði en þetta er góssentíð fyrir okkur almenna borgara í upplýsingastreymi. Það er sjaldan sem við fáum að fylgjast svona náið með hve mikilvægar ákvarðanir sem varða okkur almenna borgara í Reykjavík virðast teknar í laumupukurlegum flumbrugangi.
Mér finnst Vilhjálmur fyrrum borgarstjóri vægast sagt ekki koma vel út í þessu REI máli. Upplýsingastreymi um þessi mál til borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hefðu eðli málsins átt að koma í gegnum hann.
En það er svo sannarlega miklu meira athugavert við þetta REI mál heldur er hvernig borgarstjóri hefur komið að því.
![]() |
Borgarstjóri upplýstur um samning til 20 ára þann 23. september |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2007 | 14:04
Óefnislegar eignir
Mér finnst þetta mjög loðið og óskýrt hvað felst í þessum óefnislegum eignum og hvort fyrirtæki í eigu sveitarfélaga geti afsalað sér réttindum í hendur einkafyrirtækja sem engin trygging er fyrir því að þau geti ráðið yfir. Það var áhugaverð grein í 24 stundir í dag þar sem prófessor í jarðefnafræði heldur því fram að útrásarumræðan byggist á áróðri og að nánast allar framfarir í bortækni komi frá olíuiðnaðinum. Hvar er þessi íslenska sérþekking? Hvað felst í tíu milljarða matinu? Er það að Hitaveitan og Orkuveitan séu að styðja það að einkafyrirtæki geti fengið aðgang að auðlindum erlendis?
"Tuttugu ára samningur um að öll erlend verk Orkuveitunnar renni til Reykjavík Energy Invest var undirritaður daginn áður en samruni REI og Geysir Green Energy var samþykktur. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins í dag en Guðmundur Þóroddsson, forstjóri REI, staðfesti þetta þar.
Haft var eftir Guðmundi, að tíu miljarða króna mat á óefnislegum eignum Orkuveitu Reykjavíkur felist í þessum samningi, auk þekkingar OR á jarðvarma og samningur um þjónustu OR við REI."

![]() |
REI fær verk Orkuveitunnar erlendis í 20 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.10.2007 | 10:49
Hér á REI-ki er einhver óhreinn andinn...
Þessi íslensku valdarán eru frekar brosleg nema náttúrulega maður sé í þeim hópi sem völdunum er rænt frá. Þetta virðist vera orðin einhver tíska í íslenskum stjórnmálum að stjórnmálamenn plotta viðstöðulaust bak við tjöldin en hafa á meðan einhverja sýningu á yfirborðinu til að villa um fyrir andstæðingum. þetta er auðvitað margra árþúsunda stríðskúnstir - að koma andstæðingnum á óvart og koma bak við hann. Til langs tíma litið þá verður fólk að átta sig á því að samskipti manna á milli byggjast á trausti og þeim sem leikur oft svona leiki verður ekki treyst í framtíðinni.
Það er áhugavert að tveir sem nefndir eru til sögunnar í þessari atburðarás eru menn sem höfðu harma að hefna gagnvart Sjálfstæðismönnum - annar vegna þess að Sjálfstæðismenn í borginni þóttust hafa áhuga á samstarfi við hann þó þeir væru sennilega löngu búnir að gera samkomulag við Björn Inga og hinn vegna þess að honum hefur nýlega verið ýtt út úr starfi af Guðlaugi Þór.
Það er mjög áhugavert hvernig sagan mun meta áhrif Alfreðs Þorsteinssonar. Var það Alfreð sem kom Vilhjálmi til valda á sínum tíma og var það Alfreð sem kom Dag til valda núna? En eitt er víst og það er að það var R-listinn sem kom Alfreð til valda í Orkuveitunni.
Annars er líka soldið broslegt að heyra Margréti Sverrisdóttur útskýra hvers vegna hún er núna fulltrúi Frjálslynda flokksins í borgarstjórn þó hún sé löngu búin að segja sig úr þeim flokki. Það er nefnilega þannig segir hún að flokknum var rænt. Ég ætla bara rétt að vona að hefndarþyrstir Sjálfstæðismenn fái ekki einhverjar hugmyndir út af þessu, ég ætla að vona að þeim detti ekki í hug að ræna Framsóknarflokknum. Það er annar svona auðrænanlegur lítill flokkur. Hmmm... hvernig vitum við hvort Framsóknarflokknum hafi verið rænt??
![]() |
Vilhjálmur borgarstjóri og Björn Ingi féllust í faðma |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |