Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samningar RÚV við einkaaðila

Eru einhverjar reglur um hvernig samninga RÚV getur gert við einkaaðila? Geta t.d. einkaðilar sem vilja koma vörum sínum á framfæri gert samninga við RÚV um kostun á einhverjum sjónvarpsþáttum? Það er hið besta mál að fjársterkir einstaklingar styrki RÚV en eru það samningar? Ef þetta er fjárstyrkur þá þarf engan samning. Þá væri fréttin Björgólfur Guðmundsson styrkir íslenska dagskrárgerð um þetta margar krónur. Hann setur eftirfarandi skilyrði fyrir styrknum.... og svo myndi vera talið upp hver skilyrðin fyrir fjárstyrknum væru.   Ég vona að Björgólfi gangi gott eitt til með þessu, hann er áhrifamikill á íslenskum fjölmiðlamarkaði, svo árhrifamikill að það er erfitt fyrir fjölmiðlamenn sem og aðra að halda uppi umræðu sem honum er ekki þóknanleg.

Er það ekki rétt munað hjá mér að hann hafi viljað kaupa DV á sínum tíma til að leggja það niður vegna greinar sem birtist þar og fjallaði um fjölskyldumálefni hans á þann hátt sem honum líkaði ekki? 

Bendi líka á bloggið mitt frá því dag um RÚV :
Veruleikafirring hjá Rúv - útvarpsstjóralaun og kvenkynsþulur

 


mbl.is Björgólfur Guðmundsson leggur fram fé til framleiðslu sjónvarpmynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirring hjá Rúv - útvarpsstjóralaun og kvenkynsþulur

Það eru furðulegar fréttir  um laun útvarpsstjóra og það veitir svo sannarlega ekki af því að farið sé ofan í saumana á rekstri þar. Ég skora á stjórn RÚV að gæta hagsmuna almennings á Íslandi, það er hvergi nauðsynlegra en í fyrirtæki sem rukkar toll af öllum landsmönnum að hafa eftirlit með hvernig er farið með það fé. Reyndar finnst mér margt í rekstri RÚV vera afar steinrunnið og miðað við fjölmiðlalandslag sem er löngu fokið út í veður og vind með breyttri miðlunartækni m.a. vefmiðlun. 

Það er kannski skýrasta dæmið um hversu steinrunnið skipulagið er hjá RÚV þessi síðasta ráðning á þulum. Það voru fjórar konur ráðnar úr hópi 103 umsækjenda, þar af voru 18 karlmenn. Þó ég persónulega skilji alls ekki tilganginn í þulum, af hverju þarf einhver að þylja upp dagskrána þegar hún er hvort sem er prentuð í mörgum fjölmiðlum og auðvelt er að fara á Netið eða á textavarpið til að fá hana og kynningu á dagskránni (ég smelli bara á takkann I fyrir information á fjarstýringunni á sjónvarpinu)... en þó ég skilji ekki tilganginn með þulum þá ætla ég ekki að gerast neinn dómari yfir að það fyrirbæri eigi rétt á sér, það getur vel verið að  áhorfendur á RÚV séu mestmegnis aldrað fólk sem villstöðugleika í framsetningu og helst hafa dagskrána eins framreidda og hún var á þeim tíma sem sjónvarpið fór í frí á fimmtudögum og aðeins var sent út í sauðalitunum. Það er líka bara gaman að sumri forneskju og sjálfsagt að halda í siði eins og að baka kleinur, borða hangikjöt á jólunum og láta lögsögumann þylja upp lögin á alþingi, hafa þulur á Rúv, láta eins og ekkert hafi breyst, eins og ennþá sé ekki fundið upp ritmál eða einhvers konar önnur miðlunartækni.

 En látum nú vera þó það séu hafðar þulur, það er sennilega ódýrar útsendingamínútur, sennilega er ekkert ódýrara en að borga förðun á manneskju sem les texta úr lesvél og brosir,  hvað er ekki ódýrara en talandi hausar. En það sem stuðar mig er þessi kynjavídd sem hefur nánast alltaf verið í þessu, þulurnar hafa verið fallegar stúlkur sem maður hefur á tilfinningunni að hafi verið ráðnar í starfið til að vera fallegar og brosa.  Núna í dag kom það í Fréttblaðinu (bls44) að Þórhallur Gunnarsson dagskrárstjóri RÚV hefði ráðið fjórar nýjar þulur úr hópi 103 sem sóttu um. 

það sem er verulega stuðandi er hvernig viðhörf Þórhalls speglast í hvernig ráðið var í starfið. Það voru bara ráðnar konur. Þórhallur segir "Þessar fjórar voru þær hæfileikaríkustu". Hann segir tilviljun eina ráða því að hópinn skipi eingöngu konur.

"Það voru átján strákar í hópi umsækjenda. Stelpurnar voru einfaldlega betri og við völdum út frá hæfileikum og getu.  Þetta starf mun gefa möguleika á að koma að annarri dagskrárgerð og umsækjendur voru valdir með tilliti til þess"

Það er nú reyndar gleðilegt að þulastarfið sé hugsað sem stökkpallur í önnur störf hjá RÚV en það er einkennilegt ef í auglýsingu um starf er valið með tilliti til annarra starfa sem viðkomandi mun hugsanlega hafa möguleika á að komast í. Það er líka fáránlegt að velja á svona kynjabundinn hátt í starf þegar úr svona stórum hópi umsækjenda er að velja. Með þessum orðum dagskrárstjóra er hann að ulla framan í allt jafnréttisstarf og jafnréttisráð. 

Það er gríðarlega mikilvægt að störf í áberandi stofnun eins og Rúv virði þær leikreglur sem í gildi eru m.a. jafnréttislög og það sé ljóst eftir hverju er farið við mannaráðningar. Í þessu tilviki er það afar óljóst og það verður að spyrja dagskrárstjórann nánar út í þessa ráðningu. 

Ég skoða á stjórn Ríkisútvarpsins að gæta hagsmuna almennings varðandi hvernig farið er með fé hjá RÚV m.a. laun útvarpsstjóra og hvernig stendur á þessari slagsíðu í mannaráðningar varðandi kynhlutfall í starf sem hingað til hefur verið tengt við brosandi fallegar konur að lesa upp orð af lesvél.

Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. skipa:
Ómar Benediktsson
Kristín Edwald
Páll Magnússon
Svanhildur Kaaber
Svanfríður Jónasdóttir

Varastjórn skipa:
Signý Ormarsdóttir
Sigurður Aðils Guðmundsson
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Kjartan Eggertsson


Flatt torg er ekki bautasteinn

Það var svo mikil rigning þegar minnisvarðinn um Bríeti var vígður að ég fór ekki í vígsluna  heldur bara í athöfnina á Hallveigarstöðum. Ég hef aðeins séð þetta torg á myndum. En ég er alls ekkert hrifin af því sem ég sé. Ef til vill er þetta tíska í gerð minnisvarða, svona tvívíð en ekki þrívíð minnismerki. Líka að fólk gangi á einhvern hátt inn í minnisverkið eða ofan á því.

Sú hugmynd  að hafa minningarsteina sem maður labbar á er nú samt fín. Ég hef séð í borgum í Póllandi  götur sem eru hellulagðar með hellum sem eru seldar þar merktar ákveðnu fólki, afkomendur styrkja endurgerð gatna með að kaupa hellur með ágröfnum nöfnum. Þetta tengir sögu borgarbúa við göturnar og götumyndina og þetta mun vera mjög vinsælt.

En það er barasta búið að vera baráttumál í fjöldamörg ár að einhver af styttum bæjarins væri kvenkyns og það er fyndið að þegar loksins var sett fé í minnisvarða um frumkvöðul kvenfrelsisbaráttunnar á Íslandi þá verði ávöxturinn af því útflatt torg, persónan sem minningin átti að vera um sé orðin ósýnileg, aðaláherslan er komin á eitthvað blómamynstur.  Það er gaman að spá i hvers konar minnisvarða við myndum reisa um Davíð Oddson í sama anda.  Eða Ólaf Ragnar Grímsson.  Kannski Íslendingar eigi einhvern tíma í framtíðinni eftir að trampa á torgum helguðum þeim eins og á Bríeti.  Spurning bara hvaða tákn verða í staðinn fyrir blómamynstrið.

Í ljóði sem ég samdi einu sinni um þær Fenju og Menju sem möluðu gull í kvörn sinni fyrir konunga þá eru þessar ljóðlínur:

Bautasteina
þá er standa brautu að
reisat man að mani.


mbl.is Minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur afhjúpaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólamorð

Jokela-school-shooterFjöldamorðin í finnska menntaskólanum í dag eru átakanlega lík fjöldamorðunum í háskólanum í Virginia Tech og sálarástand og geðtruflun morðingjans eins slæmt. Því miður má búast við að því meiri umfjöllun sem svona morð fá, þeim mun líklegra er að sagan endurtaki sig og við munum sjá í framtíðinni einhvers konar útþynnta eftiröpun á svona morðum. Í báðum tilvikum er þessum veiku ungu voðamönnum mikið í mun að almenningur taki eftir voðaverkum þeirra og þeir taka sjálfa sig upp á band og dreifa. Í morðunum í dag mun morðinginn hafa sett inn vídeó á yotube, sjá þessa frétt:

The YouTube video, entitled "Jokela High School Massacre 11/7/2007", was posted by a user called Sturmgeist89. "I am prepared to fight and die for my cause," read a posting by a user of the same name. "I, as a natural selector, will eliminate all who I see unfit, disgraces of human race and failures of natural selection." "Sturmgeist" means storm ghost, or "intention of storming", in German.

 Það er komin lýsing á voðaverkunum í dag inn á Wikinews og það bætist í sívaxandi greinaflokk á Wikipedia um fjöldamorð í skólum

Það er átakanlegt að  sjá í wikipedia greininni hvernig voðaverkin eru sett fram eins og mælanleg niðurstaða í tölvuleik og kvarði í stigagjöf. Þar stendur: "Auvinen's killing spree holds the 27th highest kill count in modern history"

Þetta er eins og uppskrift og áskorun til einhverra í framtíðinni að ná hærra marki til að komast á næsta borð.


mbl.is Árásarmaðurinn í Finnlandi reyndi að fyrirfara sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er maturinn þinn búinn til? Ríkisstyrkt þrælahald á Íslandi?

Það skiptir vissulega máli hvað matur kostar en það skiptir líka miklu máli hvernig maturinn er búinn til, hvernig er farið með umhverfið og dýr og starfsfólk í fæðuframleiðslunni og hvaða efni og aðferðir eru notaðar við framleiðslu og dreifingu. Það er sennilega best að hverfa aftur til upprunans, það er vistvænast að nota sem mest vörur sem framleiddar eru í grennd við búsetusvæði okkar t.d. eins og hafragrjón og minna vörur  sem fluttar eru langt að. Það er líka sniðugra að elda sjálfur og kaupa landbúnaðarafurðir beint frá framleiðanda sem maður þekkir og treystir því að þá  getur maður fylgst betur með hráefnum og matreiðsluaðferðum.

Allir vita að það er hollt að borða sem mest af grænmeti og ávöxtum. En sumt (megnið?) af því grænmeti sem við borðum kemur frá Almeria héraðinu á Suður-Spáni. Á síðustu kvikmyndahátíð fór ég á sýningu á heimildarmynd um hvernig líf ólöglegra landbúnaðarverkamanna frá Marókkó er þarna í Almeria.

Hvað eru margir erlendir landbúnaðarverkamenn á Íslandi? Hvaða réttlæti er í því að niðurgreiða mjólkurframleiðslu á Íslandi fyrir kvótakónga og eigendur stórbúa sem gera út á erlent og innlent farandverkafólk? Ég held að fólk átti sig ekki á hvernig staðan er að verða í íslenskum landbúnaði á kúabúum, það er verið að taka upp ríkisstyrkt þrælahald í íslenskum landbúnaði ef ríkið er að greiða niður landbúnaðarvörur frá framleiðendum sem notast að miklu leyti við farandverkafólk.

Annars er hérna fyndið vídeó um stjörnustríð grænmetisins:

 

Heimildarmyndin á kvikmyndahátíð var nú alvarlegri en höfðar sennilega ekki til eins margra. Hér eru upplýsingar um þá mynd:

"El Ejido, lögmál hagnaðarins | El Ejido, la loi du profit

Almeria-svæðið á Suður-Spáni framleiðir þriðjung af vetrarneyslu Evrópubúa á grænmeti og ávöxtum. Þetta er ekkert kraftaverk. Í gróðurhúsaþyrpingunni vinna um 80,000 innflytjendur í ónýtu umhverfi þar sem loftið er skemmt af skordýraeitri og grunnvatn af skornum skammti. Lögmál hagnaðarins segir frá verkamönnum í þorpinu El Ejido sem hafa ekki séð fjölskyldur sínar í fjölda ára, búa í heimagerðum kofum úr plasti og pappa og njóta engra vinnuréttinda. Áhorfendur eyða með þeim stuttri stund sem gefur ómetanlega innsýn í daglegt líf verkafólks sem stritar fyrir skít og kanil svo við hin fáum matvörurnar ódýrt. Myndin er mikilvægt innlegg í umræðu um lífræna ræktun og sannskipti („fair trade“) og lifandi dæmi um hvernig þrælahald hefur ekki yfirgefið siðmenninguna, heldur aðeins skipt um yfirborðsmynd."

Það er nú ekki hægt annað en láta hugann reika til Bubba ef maður er kominn út í hugleiðingu um  matvælaframleiðslu og faraldverkafólk.

Þetta er  meitluðustu og dýpstu  ljóðlínur í  íslenskru dægurlagi: 

"Stál og hnífur  er merki mitt
merki farandverkamanna.
Þitt var mitt og mitt var þitt
meðan ég bjó á meðal manna. "

Svo finnst mér Bubbi alveg ná stemmingunni og slættinum og skarkalanum í íshúsinu þegar farandverkafólkið er í viðbragðstöðu að taka við aflanum:

"Hrognin eru að koma, gerið kerin klár,
Hrognin eru að koma, gerið kerin klár.
Setjið dælurnar í samband, takið svo seglin frá
Hrognin eru að koma gerið kerin klár.

Vinnið nógu mikið, peninga munuð þið fá,
vinnið nógu mikið, svo verki niður í stórutá.
Það er hagur þeirra að ykkur flökri
þegar hugsun ykkar fer á stjá.
Vinnið nógu mikið og peninga munuð þið fá.

Uppá verbúð blómstrar menningin,
komið og þið munuð sjá
slagsmál, ríðingar, fyllirí,
Jack London horfa á.
Engin pólitísk slagyrði, Maó myndir veggjum á
þá færðu reisupassann vinur minn,
staðnum verður, staðnum verður frystur frá.

Stæltur er skrokkur þinn, djöfull sljór hugurinn,
ykkar er jú hagurinn, hagurinn ekki hússins.
Það vita þeir og þjarma á ykkur refsibónusinn,
það er, - það er allur munurinn.

Stæltur er skrokkur þinn, djöfull sljór hugurinn"

Ég held að fólkið í verbúðum á Íslandi hafi ekki litið á sig sem þræla. En það fékk ekkert af kvótanum.


mbl.is Maturinn dýrari á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfengi í matvörubúðum - vodkasala Íslands - vörumerkið Ísland REI og REYKA

Sigurður Kári alþingismaður og Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra eru í krossferð fyrir því mikla baráttumáli að selja skuli áfengi í matvörubúðum. Það er kostulegt að heyra Sigurð Kára tala um þetta eins og mikið frelsismál, hann talar eins og trúboði. Ekki það að mér finnist neitt óskynsamlegt sem hann segir, ég tek alveg undir það að almennt á frelsi að vera sem mest og það á ekki að refsa fjöldanum þó einhverjir fáir kunni ekki fótum sínum forráð og fari sér að voða, séu blindfullir og og sökkvi í sukk og óreglu ef aðgengi að vímuefnum verður frjálst. 

Það sem mér finnst hins vegar kostulegt er að Sigurður Kári skuli nenna að eyða orku sinni í svo lítilfjörlegt og ámátlegt mál þegar það eru mörg miklu stærri mál þar sem okkur fjöldanum er refsað vegna þess að einhverjir fáir kunna ekki fótum sínum forráð - eða eru glæponar sem brjóta lög.  Sérstaklega finnst mér ömurlegt hvernig vestræn ríki eru smám saman að breytast í lögregluríki og lögregluyfirvöld fá alltaf meira og meira vald til að njósna um þegnanna og takmarka ferðafrelsi þeirra, ekki síst í hinu stafræna rými  og í því skjóli að það sé verið að berjast gegn einhverjum örfáum hryðjuverkamönnum. Þannig er líf okkar allra hinna gert óþægilegt og erfitt og yfir samfélagið leggst lamandi krumla lögregluríkis.  Mikið vildi ég að Sigurður Kári nennti að berjast fyrir þannig frelsi, frelsi borgara til að ferðast og til athafna en einblíndi ekki á hvernig eitthvað vín og bjórgutl getur flætt inn í landið. 

Það er líka þannig að við berum ábyrgð á samferðafólki okkar og okkur sem vitum betur ber skylda til að passa að fólk detti ekki ofan í opna brunna og slasi sig og aðra í kringum sig, við sem förum varfærnislega um og kunnum fótum okkar forráð, við eigum ekki að hugsa bara um sjálfa okkur og ímynda okkur að við lifum í heimi þar sem hægt er að útiloka þá sem ekki fara þá leið sem er skynsamlegust og réttust. Við verðum að reikna með því að þegar höndlað er með svo hættulegt eitur eins og sumt áfengi er þá séu sumir sem kunni ekki  að umgangast það og það getur haft hryllilegar afleiðingar, ekki bara fyrir viðkomandi einstakling heldur einnig fyrir alla aðstandendur og börn viðkomandi.

Sumar afleiðingar þess að fólk kunni ekki að umgangast vín eru auk þess lífshættulegar og má þar nefna að sumt fólk missir svo mikið dómgreind við vínneyslu að það keyrir ölvað og stofnar lífi fjölda fólks í hættu. Þó ég og Sigurður Kári  og aðrir talsmenn fresisins séum sannfærð um að við getum alveg stjórnað áfengisneyslu okkar og best sé að ekkert standi í veginum fyrir því að við náum í áfengi hvað og hvenær sem við viljum þá verðum við að hugsa um hina  og þær afleiðingar sem óheft aðgengi að áfengi hefur neyslu.

Neyslan eykst með aðgengi og neyslan eykst líka mikið ef sterkustu raddir sem tjá sig um áfengi í íslensku samfélagi eru raddir áfengisseljenda og þeirra sem hafa hagsmuni af því að ánetja ungmenni áfengisneyslu og halda fullorðnari neytendum í stöðugri neyslu. 

Þannig er það í íslensku þjóðfélagi í dag. Hvergi er neysluþjóðfélagið risminna en þegar skoðað er hvernig áfengi er haldið að unglingum, hvernig bjórseljendur hamast við að bera bjór í ungt fólk og auglýsa upp vörumerki sín á skemmtunum og á Netinu. Botninn er hins vegar þegar útrásin íslenska felst í því að selja vodka í útlöndum og nota opinbert fé til að markaðssetja vörur í útlöndum sem bannað er að auglýsa hérna á Íslandi.

Össur hinn víghreifi Indíafari gyllti mjög fyrir okkur hvað Indónesar þættu við merkileg hér á skerinu og vörumerkið í orkuviðskiptunum væri ekki Orkuveitan og reynsla hennar, vörumerkið væri Ísland. Hann var svo sannarlega ekkert lítillátur þegar hann lýsti sínum hlut sem iðnaðarráðherra í að greiða fyrir viðskiptum.

Það er það lægsta sem íslenska útrásin hefur náð hingað til að taka þátt í að auglýsa vodka. Ég hef bloggað um þetta mál í blogginu Vodkasala Íslands

.

Það er ábyrgðarhluti hvernig vörur og þjónusta dreifast um íslenskt samfélag og hvaða reglur opinberir aðilar setja, líf og lífshamingja margra einstaklinga er undir því komin að stjórn sé á hvernig vímuefnadreifing er í landinu.

Það er líka ábyrgð sem fylgir því hvers konar starfsemi íslensk stjórnvöld styðja við á erlendri grund. Það er hræðilegt að hugsa sér vodkasölu Íslands. Vonandi nær þessi orkuútrás  ekki sams skonar botni. Ég vona svo sannarlega að íslenskir stjórnmálamenn séu með hreinan skjöld hvað varðar styrktaraðila og það sem þeir aðhafast sé ekki vegna þess að þeir séu talrör einhverra valdamiklilla einkaaðila. Ég vona að þeir hamist ekki við að fá bjór í kjörbúðir af því að bjórframleiðendur og eigendur stjórmarkaða studdu þá í kosningabaráttu og ég vona að þeir taki ekki þátt í undarlegum og vafasömum útrásarsamningum vegna þess að áhrifamiklir einkaaðilar sem hyggjast græða á orkuviðskiptum knýja á um slíka samninga.


mbl.is Skora á þingmenn að greiða atkvæði gegn áfengisfrumvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Vítisenglar skipulögð glæpasamtök

Ég veit það ekki. Og ég tek ekki fullyrðingar íslenskrar lögreglu trúanlegar ef þeim fylgir ekki rökstutt greinargerð.  En fyrsta skrefið í að svara þessari spurningu  er að afla sér upplýsinga. Ég skrifaði  grein um Vítisengla og Vítisengla á Íslandi á íslensku wikipedia og skimaði Netið í upplýsingaleit.

Ég renndi líka yfir moggabloggið til að sjá hvað bloggarar segja um mál sem mér finnst varða mikilsverð mannréttindi. Þetta er spurning um mannréttindi og manngreinarálit. Ferðafrelsi er mannréttindi. Ferðafrelsi á ekki að vera aðeins fyrir útvalda, ekki aðeins fyrir þá sem eru eins og við og sem okkur finnst vera að ferðast í göfugum og góðum tilgangi. Ferðafrelsi á líka að vera fyrir skúrka og þá sem okkur finnst að ætti að loka inni og henda lyklinum. Ef við teljum að það megi takmarka ferðafrelsi skúrka meira en okkar þessarra göfugu og góðu sem förum bara í göfugar og fallegar ferðir milli landa til að sinna göfugum og fallegum og mannbætandi viðfangsefnum þá verðum við að rökstyðja sérlega vel hvers vegna svo sé. Lögin á Íslandi og lögin í Evrópu gilda líka fyrir vonda og ljóta fólkið, líka fyrir þá sem okkur líkar illa við, líka fyrir þá sem okkur finnst að ættu að éta það sem úti frýs.

Ég var frekar niðurdregin þegar ég las hvað moggabloggurum finnst um Vítisenglauppákomuna. Þar varð fyrst á vegi mínum bergmálsbloggið hans  Stebbifr en hann setur  nýtt persónulegt met í froðusnakki í blogginu sínu  Lögreglan heldur vel á málum í Leifsstöð 

Ég renndi yfir nokkra aðra minni (lesna) spámenn moggabloggsins og ég held barasta að fásinnið og molbúahátturinn  sé meiri á Íslandi en ég ímyndaði mér og ég veit ekki fyrir hvort barátta Voltaire eða annara mannréttindafrömuða sögunnar hefur nokkuð náð hér upp á skerið.

Vonandi finn ég einhverja vitræna umræðu á blogginu um þetta mál ef ég leita betur.

Hér eru nokkrar fréttir um málið 

Vítisenglar sendir heim í fylgd lögreglumanna

Fleiri Vítisenglar væntanlegir

 Vítisenglar sendir heim í fylgd lögreglumanna

Sjö vítisenglum synjað um leyfi til landgöngu

 Myndband: Vísir vitni að Vítisenglahandtöku 


mbl.is Vítisenglarnir farnir af landi brott
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fegin REI NEI

Mikið er ég fegin að stýrihópurinn skuli gera þessa tillögu. Það getur vel verið að REI sameiningin sé sniðug og það getur vel verið að útrásarævintýri Orkuveitunnar sé sniðugt og eðlilegt viðfangsefni fyrir orkuveitu Reykvíkinga. Það hefur hins vegar ekkert komið fram sem sannfærir mig um að svo sé, ekkert annað en glannalegar yfirlýsingar stjórnmálamanna sem tala um ofsagróða og láta eins og þeir séu sölumenn fyrir pýramídafyrirtæki. 

 Það geta vel verið þeir stjórnmálalegir hagsmunir sem valda því að aðkoma íslenskra stjórnvalda að svona verkefnum sé ábatasöm, ekki síst vegna traustsins sem slíkir aðilar hafa. Þannig er næsta öruggt að kínverskir kommúnistar vilja frekar gera viðskipti við fyrirtæki sem þeir telja að sé almenningsveita í borg í litlu landi á norðurhjara frekar en við alþjóðlega auðhringi. Það getur líka vel verið að stjórnvöld í löndum þar sem mikil tortryggni er gagnvart t.d. bandarískum fyrirtækjum og/eða ríkjum sem hafa einhverja hernaðarhagsmuni af íhlutun vilji fremur ganga til samninga við aðila sem tengjast stjórnvöldum í smáríkjum sem ekki eru í stríði við einn eða neinn. 

Stóru línurnar í þessu máli eru hins vegar mjög undarlegar, það er undarlegt  og þarfnast umræðu ef orkufyrirtæki  Reykvíkinga er allt í einu farið að skilgreina sig sem fjármögnunaraðila fyrir orkuveitur í Indónesíu og víðar. 


mbl.is Svandís: Næg tilefni til að taka allan gjörninginn upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töfratyppi

Ég held að þessar typpa ekki-fréttir í fjölmiðlum séu angi af frumstæðri frjósemisdýrkun, frjósemisdýrkun sem höfðar til fólks einmitt núna þegar allt er að sölna og vetrarhríðirnar að skella á. Það er fyndið að það  sé  haft sem  fréttaefni í virðulegasta og elsta dagblaði landsins  að búa til átrúnað um typpi á einhverjum leikara. Með þessu þá hefur Morgunblaðið hellt sér í typpaslaginn mikla sem hófst í fyrravetur og var þá aðallega á milli sjónvarpsstöðva þar sem Kastljós-Kompás baráttan var ekki háð með sverðum heldur blörruðum böllum sem dingluðu á báðum rásum og seiddu að áhorfendur. 

Í þessu sambandi má minna á að fram kom í fjölmiðlum í fyrravetur að trúarleiðtogi sá sem nú hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot af mörgum konum sem voru skjólstæðingar hans mun hafa talið að typpi sitt hefði sérstakan töframátt.

 


mbl.is Hilmir Snær nakinn í kvikmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei nóg af nördum!

Það er vinalegt að vita af þessum 700 nördum hérna í Laugarnesinu um helgina. Það er aldrei nóg af nördum og fólki sem finnst ekkert skemmtilegra en hanga á Netinu. Hvað getur svo sem verið skemmtilegra en spila tölvuleik með öðrum eða taka þátt í sameiginlegum skrifum á greinum um kúfskel (öðru nafni kúskel).  Ég er einn af þessum nördum og ég hugsa að heimurinn væri miklu betri ef nördar allra landa sameinuðust um einhvern málstað eða alla vega beina kröftum sínum í sömu hátt til að búa til skynsamlegt og mannbætandi samfélag en ekki svona skrímsli eins og í lýsingu I. O. Angell  í greininni Hinn hugrakki nýi heimur samrunans

Það samstarf og sú hugsun sem svífur yfir vötnum meðal þeirra sem útbreiða og nota opinn hugbúnað og vilja að þekking og stafræn gæði séu frjáls og ókeypis og aðgengileg er hluti af slíkum málstað. 

Ég prýddi eina af síðum dagblaðsins 24 stundir í dag. Það var smart mynd af mér sitjandi við fartölvu og álfkonumynd eftir Gunnellu í bakgrunni. Á fartölvunni glyttir í greinina um kúfskelina sem ég var þá að enda við að skrifa.  Ég var í viðtalinu vegna þess að núna á föstudaginn þá ætlum við að halda ráðstefnu  í Verslunarskóla Íslands um  upplýsingatækni og  menntun.  Vefsíða félagsins okkar er 3F.is og  dagskrá ráðstefnunnar er hérna.

 


mbl.is 700 nördar á leið til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband