Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
29.11.2007 | 10:40
Hryllingur... myndefnasía ríkislögreglustjóra
Fyrst birt: 29.11.2007 08:58Síðast uppfært: 29.11.2007 09:02Vilja koma upp myndefnasíu á netinu
Embætti ríkislögreglustjóra vinnur að því, í samvinnu við aðra, að koma upp síu á myndefni sem dreift er á netinu til að koma í veg fyrir dreifingu á myndum sem tengjast barnaklámi og öðru ofbeldi gegn börnum.
Þetta kom fram í máli Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra á Alþingi í gær. Steingrímur J Sigfússon, formaður vinstri grænna, spurði Björn hvort til greina kæmi að beita forvirkum aðferðum gegn barnaníðingum og öðrum sem nota netið í glæpsamlegum tilgangi. Björn sagði að tryggja þyrfti örugg samskipti á þessu sviði sem öðrum.
Ríkislögreglustjóri mun jafnframt næsta haust taka við rekstri ábendingalínu sem Barnaheill komu á fót. Þar er hægt að koma á framfæri upplýsingum um ólöglegt efni.
Loks er til skoðunar að koma upp eins konar rauðum hnappi sem nota má til að tilkynna lögreglu um óeðlileg samskipti á netinu.
![]() |
Tæknin gerir hleranir erfiðari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
29.11.2007 | 09:15
Hmmm...getur vélin lent? Hótelárás í Manila
Mér líst ekkert allt of vel á þessa veðurspá fyrir kvöldið. Ég fer með vél frá Kaupmannahöfn kl. 20:30 til Keflavíkur. Ég er ekkert alltof hrifin af því að lenda á Íslandi í brjáluðu veðri.
Ég er sem sagt hérna núna í miðbæ Kaupmannahafnar að tékka á fréttunum og þessi stormfrétt er aðalfréttin á mbl.is. Ég fór nú reyndar á mbl.is til að tékka á því hvað væri að gerast í hótelárásinni á Manila á Filipseyjum , CNN er með stanslausar fréttir af því en hvorki mbl.is eða ruv.is virðast finnast þetta fréttnæmt.
Skrýtið.
CNN frétt um Manila hótelárásina
Ég var ekki fyrr búin að skrifa bloggið fyrir ofan en það er komin frétt um hótelárásina á mbl.is. Þeir hljóta að lesa bloggið mitt
![]() |
Varað við stormi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2007 | 20:02
Bloggfréttatími Salvarar - Fyrsti þáttur - Kauptu ekkert dagurinn
Það var svo hrikalega óspennandi efni í fréttum í dag á Íslandi að ég ákvað bara að setja í loftið minn eigin fréttatíma. Ég bjó mér til rás á ustream.tv og sendi út þátt þar. Það var enginn áhorfandi að þessum fyrsta fréttatíma mínum þar en sem betur fer fyrir heiminn og íslenska moggabloggsamfélagið þá gat ég smellt á upptöku og tekið þetta upp. hérna er sem sagt hægt að horfa á þáttinn.
Það eru betri hljóðgæði í ustream.tv en í öðrum kerfum sem ég hef verið að prófa. Myndgæðin eru nú ekkert sérstök, ég á eftir að athuga hvort ég geti stillt þau betur. Þessi þáttur er um 8. mínútur.
24.11.2007 | 17:16
Lögbýli með greiðslumark í mjólk
Árið 2006 voru 796 lögbýli með greiðslumark í mjólk og 1601 sauðfjárbú. Áhugavert. Það áhugaverðasta sem gerst hefur í íslensku þjóðlífi undanfarna daga ef mbl.is er góð heimild um það fréttnæma í samfélaginu. Forsíðufréttin í augnablikinu er ekki beint að kveikja í mér áhuga til að blogga. Hún er svona:
Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Fjárfestingafélagið Kristinn ehf. í Vestmannaeyjum hafa undirritað samning um kauprétt á öllum hlutum félaganna í eigu bræðranna Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Um er að ræða tæplega þriðjungshlut í Vinnslustöðinni.
Það var nú heldur ekkert nýtt í frétt nr. 2 Konur vinna enn flest húsverkin
Ég hefði nú getað sagt mér það sjálf.
Frétt nr. 3 um að nýbúar hafi komið á kynningu á íslenskum jólasiðum á bókasafnið í Reykjanesbæ er ekki heldur beint að kveikja áhuga. Nýbúar bragða á íslenskum jólum
Bless. Ég er farin aftur að nördast inn í myrkviðinu í netheimum.
![]() |
Lögbýli verða stöðugt færri og stærri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.11.2007 | 00:32
Jarðskjálfti í kennslustund
Ég var með tíma síðdegis í dag kl. 17:30-18:00 þegar einn nemandinn sagði okkur frá því að núna væri jarðskjálfti. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, ég man eftir að það hafi áður komið fyrir í kennslustund hjá mér að þá hafi jarðskjálfti dunið yfir og allt gengið í bylgjum. En það sem var öðruvísi í þessum tíma var að það var aðeins einn nemendanna sem fann jarðskjálftann og sagði okkur frá honum. Þessi nemandi var nefnilega staddur á Selfossi en hinir nemendurnir voru annars staðar á landinu. Hún var með vefmyndavél en við sáum nú samt ekki jarðskjálftann í beinni. Núna síðustu daga hef ég verið að prófa með nemendum netfundi með kerfum eins og operator11.com og mogulus.com og stickam.com, það er sennilegt að fjarkennsluumhverfi sem okkur býðst í náinni framtíð verði svona. Allir nemendurnir og kennarinn eru með vefmyndavél og það er hægt að svissa á milli. Kennarinn eða sá sem stjórnar útsendingunni gerir það. Bæði stjórnandinn og þeir sem taka þátt í fundinum geta hlaðið inn vídeóum til að spila. Svo er textaspjall fyrir neðan útsendingargluggann.
Í gær þá prófaði ég í fyrsta skipti að vera með beina útsendingu á moggablogginu mínu. Ég gerði það í kerfinu mogulus.com. Þar getur maður verið með sína eigin sjónvarpútsendingu, kannski er nú betra að kalla það netvarp. Mér virðist svona kerfi eins og þessar beinu útsendingar nýtast til ýmissa hluta, líka í viðfangsefni sem okkur hefur ekki dottið í hug ennþá. Það má líkja þessu við að með því að líma svona útsendingarglugga inn á bloggið okkar séum við að setja upp skráargöt sem við getum kíkt inn í ýmsar vistarverur í heiminum. Það er auðvitað möguleiki á alls konar rafrænni vöktun á þennan hátt. Það þarf ekki alltaf að vera neikvætt, það væri fínt að hafa myndavélaútsendingar víða t.d. til að fylgjast með jarðskjálfum. Ég hugsa að ég myndi fylgjast öðru hverju með myndavélum á Selfossi ef það væri bein útsending þar. Það eru nú margir staðir á Íslandi með vefmyndavélar. En hvernig virkar svona stafrænn Infrastrúktúr þegar náttúruhamfarir verða?
Ég set við þetta blogg skjámynd af stjórnborðinu í Mogulus þar sem ég sést hringja heim til að biðja dóttur mína að athuga bloggið hjá mér, hvort hún sæi beina útsendingu og hún sá það. Reyndar var ég hljóðlaus til að byrja með en svo tókst mér að fá talið með. Svo er hérna til hliðar hvernig þetta leit út á blogginu, þarna er ég á skrifstofunni minni að senda út á moggabloggið mitt.
Hmmm... ég ætti að fara að senda út reglulega svona bloggfréttir.
![]() |
Áframhaldandi skjálftar við Selfoss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.11.2007 | 23:54
Torrent lokunin og CreativeCommons
Það er aðeins ein lausn í sjónmáli á þessum átakapunktum gamallar lesmenningar og nýrrar les- og skrif- menningar og hún er sú að fleiri og fleiri taki upp höfundarleyfi eins og Creative Commons og dreifingarstaðir eins og torrent.is séu eingöngu með efni sem fylgir slíku höfundarleyfi. Sennilega fækkar og fækkar þeim sem ætla sér bara að hlusta óvirkir á eitthvað efni, fólk vill vinna áfram með efni, umbreyta því og senda það áfram. Svipað og við gerum við orð.
Það eru núna tveir andstæðir pólar í höfunarréttarmálium, annars vegar múgur sem virðir ekki lög og reglur samfélagsins og brýtur höfundarréttarlög með því að dreifa og fjölfalda efni á netinu. Hins vegar gæslumenn hagsmuna höfundarrétthafa sem eru að verja kerfi sem eru verulega hamlandi fyrir skapandi starf á Internetinu.
Höfundarréttarumhverfi sem við búum við í dag er miðað við aðra notkun en er á Internetinu í dag. Við verðum samt að virða lögin og við verðum að vinna að því að breyta leikreglunum þannig að þær séu meira í takt við tímann. CreativeCommons er ein lausn á þessu knýjandi vandamáli.
![]() |
Lögbannskrafa tekin til greina og Torrent vefnum lokað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.11.2007 | 21:34
Salvör í Mogulus
En ég sem sagt sendi beint út úr mogulus.com á bloggið mitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.11.2007 kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2007 | 13:09
Internetmessa á sunnudegi
Auðvitað ætti ég að fara alltaf á sunnudögum í messu í Laugarneskirkju, ég sé kirkjuturninn út um eldhúsgluggann hjá mér, ég var fermd í þessari kirkju og hef búið mestan minn aldur í þessu hverfi, mér finnst vænt um kirkjuna hérna og veit að þar er unnið gott starf.
En af því ég er algjör netfíkill þá sæki ég mínar messur á Internetið og ég er ekkert sértstaklega upptekin af því hvort messurnar eru auglýstar sem trúarathafnir. Ég er núna að hlusta á messu hjá Larry Lessig. Hann er minn æðstiprestur í netheimum. Ég er búin að hlusta þrisvar sinnum á messuna og á eftir að hlusta á hana oft aftur, Larry Lessig er svo seiðandi og orð hans eru svo áhrifarík. Það væri mikil blessun fyrir heiminn ef sem flestir hlustuðu á Lessig og frelsuðust.
Þessi messa hjá Lessig er vídeó sem er tuttugu mínútur í spilun og heitir
How creativity is being strangled by the law
15.11.2007 | 20:43
Raddþræðir
Ég er að prófa nýja græju hjá voicethread.com þar getur maður skráð sig inn (það er ókeypis) og byrjað að taka sjálfa sig upp. Það er líka hægt að hlaða inn myndum og ég hlóð inn tveimur myndum til að prófa það. Það á líka að vera hægt að hlaða inn vídeó en það virkaði nú ekki hjá mér.
Þessi græja er hugsun til nota með nemendur og fyrir kennara að ég held. Krakkarnir geta tekið upp sögurnar sínar. Þetta virðist mjög aðgengilegt og gæti ekki verið einfaldara.
Það virkaði þrælvel að líma þetta inn á blogg strax í fyrstu atrennu. Það fer sjálfkrafa á næstu mynd þegar þetta spilast. Þetta kom hins vegar risastórt á bloggið, best að prófa að setja þetta inn í minni útgáfu, best að velja "Put a small version on your site or blog":
Vonandi kemur þessi seinni í skaplegri stærð. Ég hugsa að sjálfgefna stærðin sé svona stór af því þetta er kerfi sem litlir krakkar geta unnið og þau eru að segja sögur.
Þetta voicethread.com er dæmigert fyrir þau verkfæri eða netþjónustur sem nú spretta upp. Ef maður er með ókeypis skráningu þá má maður mest geyma 75 mb og þrjá raddþræði og mest 30 mínútur af vídeó.
Ég rakst á þessa sniðugu græju þannig að á netnámskeiði sem ég er í Kanada þá voru þátttakendur beðnir að kynna sig þegar þeir byrjuðu námskeiðið með að taka upp eitthvað sem þeir sögðu og setja inn mynd.
Hérna fann ég svo dæmi um voicethread hjá notanda sem setti inn söguna sem litla stelpan hans talaði inn á. Mér sýnist hægt að nota þetta með ungum börnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2007 | 01:08
Kínversk stjórnvöld og Falun Gong - Bandarísk stjórnvöld og Guantanamo, Íslensk stjórnvöld og vítisenglar
Við ættum að vita það á Íslandi hve viðkvæm kínversk stjórnvöld eru fyrir Falun Gong. Árið 2002 þegar varaforsetinn kínverski kom í opinbera heimsókn hingað þá var af og frá að hann þyldi einhverja gagnrýni eða mótmæli frá Falun Gong en þau samtök nota svona opinberar heimsóknir til að vekja athygli á mannréttindabrotum gagnvart meðlimum samtakanna í Kína. Nú hafa kínversk stjórnvöld amast við heimildarmynd um Falun Gong og haft það upp úr krafsinu að Ríkissjónvarpið í Kanada hætti við að sýna heimildarmynd um samtökin.
Hvernig skyldi RÚV hegða sér við svipaðar aðstæður. Ég er ekki alltof bjartsýn, minnug þess að íslensk stjórnvöld fangelsuðu Falun Gong fólk við komuna til landsins árið 2002.
Svo brá við þegar Falun Gong fólkið kom í landið að það var sett í fangelsi í Njarðvík. Þetta er afar fátítt á Íslandi, fólk sem var með gild vegabréf til landsins og kom hingað í sumarfríinu sínu til að styðja á friðsamlegan hátt ákveðinn málstað var hneppt í fangelsi og sumum snúið frá landinu. Ég held að það hafi verið á grundvelli sama stjórnarskrárákvæðis og varð til þess að Vítisenglum var snúið frá landinu. Samkvæmt fréttum á þessum tíma þá réði lika miklu að íslensk stjórnvöld töldu sig ekki geta tryggt öryggi erlendra þjóðhöfðingja ef fjöldi mótmælenda streymdi til landsins. Mestu réði þá að kínversk stjórnvöld þoldu ekki á þessum tíma og þola sennilega ekki ennþá það sem við köllum lýðræðislega umræðu og tjáningarfrelsi - tjáningarfrelsi þeirra sem eru á móti einhverju eða telja sig vera órétti beitta.
Ég gat ekki mikið gert í þessu máli, eina sem ég gat var að fara til Njarðvíkur og reyna að fylgjast eins vel með þessu máli og ég gat sem almennur borgari. Ég tók myndir frá mótmælum við Njarðvíkurskóla (ég vann myndirnar þannig að mótmælendur þekktust ekki til að myndatakan ylli þeim ekki óþægindum í framtíðinni). Ég held að almennt hafi fólk á Íslandi verið mjög ósátt við hvernig komið var fram við gulklæddu Falun gong liðanna. Þetta leystist nú samt allt í friðsemd, þeir fengu að vera og settu svip á bæinn með skrýtnum leikfimisæfingum í nokkra daga. Ég skrifaði nokkur blogg um málið fyrir fimm árum:
Friðsamleg mótmæli við Narðvíkurskóla
Falun Gong í Njarðvíkurskóla 11. júní 2002
Það er mikilvægt að við pössum upp á mannréttindi, sérstaklega mannréttindi þeirra sem eiga undir högg að sækja og eru fyrirlitnir og smáðir af stjórnvöldum, sérstaklega þeirra sem eru hnepptir í fangelsi vegna skoðana sinna og vegna þess að stjórnvöld telja þá óæskilega. Það eru gífurlega mikilvæg mannréttindi að þeir sem eru settir í fangelsi njóti einhverra réttinda, alla vega þeirra réttinda að réttað sé í máli þeirra og þeir séu ákærðir og þeir viti hver glæpurinn er sem þeir eiga að hafa framið og fái tækifæri til að verja sig. Fangelsi án dóms og laga er einkenni á voðastjórn og alræðisríki. Núna í kvöld var ég að horfa á leikna heimildarmynd um Guantanamo fangabúðirnar. Ef það er satt sem kemur fram í þeirri mynd þá get ég ekki séð að bandarísk stjórnvöld sem eru ábyrg fyrir þeim fangabúðum séu neitt skárri en sú ógnarstjórn sem sendi fólk í Gulagið á sínum tíma.
Það sem ég hef kynnt mér um Falun Gong hefur nú eiginlega sannfært mig um að þetta eru skrýtin trúarbrögð og stórundarlegt að fólk heilt á geði aðhyllist þessa trúarstefnu. Það sem ég hef lesið um Vítisengla er alls ekki neitt gott, ég held að margir innan þeirra samtaka séu fólk sem ég hef ekki mikinn áhuga á að umgangast og það sem ég hef lesið um marga þeirra sem voru í fangageymslum Bandaríkjanna í Guantamo er að þar hafi verið margir hættulegir menn. Ég held að bresku fangarnir sem sögðu sögu sína í heimildarmyndinni hafi ekki verið neinir englar, einhverjir þeirra höfðu sakarferil í Bretlandi.
En hvort sem það gulklæddur Falun Gong liði að iðka leikfimi til að ná sambandi við almættið og vekja athygli á ofsóknum kínverskra stjórnvalda, leðurbrynjaður og ógnvekjandi Vítisengill sem tætir um á mótorhjólatryllitæki og reynir að hræða fólk með útliti sínu og viðmóti eða skikkjuklæddur ofsatrúarmúslími sem heldur að hann eigi í heilögu stríði gegn spillingu okkar á Vesturlöndum - þá á allt þetta fólk rétt á mannréttindum, rétt á sömu mannréttindum og þeir sem okkur þykja skynsamir, hófsamir og stunda fagurt líferni.
![]() |
Hætt var við sýningu heimildarmyndar um Falun Gong |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)