Kínversk stjórnvöld og Falun Gong - Bandarísk stjórnvöld og Guantanamo, Íslensk stjórnvöld og vítisenglar

 

Við ættum að vita það á Íslandi hve viðkvæm kínversk stjórnvöld eru fyrir Falun Gong. Árið 2002 þegar varaforsetinn kínverski kom í opinbera heimsókn hingað þá var af og frá að hann þyldi einhverja gagnrýni eða mótmæli frá Falun Gong en þau samtök nota svona opinberar heimsóknir til að vekja athygli á  mannréttindabrotum gagnvart meðlimum samtakanna í Kína. Nú hafa kínversk stjórnvöld amast við heimildarmynd um Falun Gong og haft það upp úr krafsinu að Ríkissjónvarpið í Kanada hætti við að sýna heimildarmynd um samtökin.

Hvernig skyldi RÚV hegða sér við svipaðar aðstæður. Ég er ekki alltof bjartsýn, minnug þess að íslensk stjórnvöld fangelsuðu Falun Gong fólk við komuna til landsins árið 2002.

Svo brá við þegar Falun Gong fólkið kom í landið að það var sett í fangelsi í Njarðvík. Þetta er afar fátítt á Íslandi, fólk sem var með gild vegabréf til landsins og kom hingað í sumarfríinu sínu til að styðja á friðsamlegan hátt ákveðinn málstað var hneppt í fangelsi og sumum snúið frá landinu. Ég held að það hafi verið á grundvelli sama stjórnarskrárákvæðis  og varð til þess að  Vítisenglum var snúið frá landinu. Samkvæmt fréttum á þessum tíma þá réði lika miklu að íslensk stjórnvöld töldu sig ekki geta tryggt öryggi erlendra þjóðhöfðingja ef fjöldi mótmælenda streymdi til landsins. Mestu réði þá að kínversk stjórnvöld þoldu ekki á þessum tíma og þola sennilega ekki ennþá það sem við köllum lýðræðislega umræðu og tjáningarfrelsi - tjáningarfrelsi þeirra sem eru á móti einhverju eða telja sig vera órétti beitta.

Ég gat ekki mikið gert í þessu máli, eina sem ég gat var að fara til Njarðvíkur og reyna að fylgjast eins vel með þessu máli og ég gat sem almennur borgari. Ég tók myndir frá mótmælum við Njarðvíkurskóla (ég vann myndirnar þannig að mótmælendur þekktust ekki til að myndatakan ylli þeim ekki óþægindum í framtíðinni). Ég held að almennt hafi fólk á Íslandi verið mjög ósátt við hvernig komið var fram við gulklæddu Falun gong liðanna. Þetta leystist nú samt allt í friðsemd, þeir fengu að vera og settu svip á bæinn með skrýtnum leikfimisæfingum í nokkra daga. Ég skrifaði nokkur blogg um málið fyrir fimm árum:

Gongóblíða - gjörningaveður 

 Friðsamleg mótmæli við Narðvíkurskóla

Falun Gong í Njarðvíkurskóla 11. júní 2002

Falun Gong 

Falun Gong í Njarðvíkurskóla

Það er mikilvægt að við pössum upp á mannréttindi, sérstaklega mannréttindi þeirra sem eiga undir högg að sækja og eru fyrirlitnir og smáðir af stjórnvöldum, sérstaklega þeirra sem eru hnepptir í fangelsi vegna skoðana sinna og vegna þess að stjórnvöld telja þá óæskilega. Það eru gífurlega mikilvæg mannréttindi að þeir sem eru settir í fangelsi njóti einhverra réttinda, alla vega þeirra réttinda að réttað sé í máli þeirra og þeir séu ákærðir og þeir viti hver glæpurinn er sem þeir eiga að hafa framið og fái tækifæri til að verja sig. Fangelsi án dóms og laga er einkenni á voðastjórn og alræðisríki. Núna í kvöld var ég að horfa á leikna heimildarmynd um Guantanamo fangabúðirnar. Ef það er satt sem kemur fram í þeirri mynd þá get ég ekki séð að bandarísk stjórnvöld sem eru ábyrg fyrir þeim fangabúðum séu neitt skárri en sú ógnarstjórn sem sendi fólk í Gulagið á sínum tíma.

Það sem ég hef kynnt mér um Falun Gong hefur nú eiginlega sannfært mig um að þetta eru skrýtin trúarbrögð og stórundarlegt að fólk heilt á geði aðhyllist þessa trúarstefnu. Það sem ég hef lesið um Vítisengla er alls ekki neitt gott, ég held að margir innan þeirra samtaka séu fólk sem ég hef ekki mikinn áhuga á að umgangast og það sem ég hef lesið um marga þeirra sem voru í fangageymslum Bandaríkjanna í Guantamo er að þar hafi verið margir hættulegir menn. Ég held að bresku fangarnir sem sögðu sögu sína í heimildarmyndinni hafi ekki verið neinir englar, einhverjir þeirra höfðu sakarferil í Bretlandi. 

En hvort sem það gulklæddur Falun Gong liði að iðka leikfimi til að ná sambandi við almættið og vekja athygli á ofsóknum kínverskra stjórnvalda, leðurbrynjaður og ógnvekjandi Vítisengill sem tætir um á mótorhjólatryllitæki og reynir að hræða fólk með útliti sínu og viðmóti eða skikkjuklæddur ofsatrúarmúslími sem heldur að hann eigi í heilögu stríði gegn spillingu okkar á Vesturlöndum - þá á allt þetta fólk rétt á mannréttindum, rétt á sömu mannréttindum og þeir sem okkur þykja skynsamir, hófsamir og stunda fagurt líferni.  


mbl.is Hætt var við sýningu heimildarmyndar um Falun Gong
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

 

Mér skilst reyndar að allir stjórnarerindrekar sem tala við kínverska embættismenn hafi orð á mannréttindabrotum þeirra, en að vísu á mjög diplómatískan og kurteisan hátt.

En það hefur ekkert að segja ef örfáar þjóðir hætta að sleikja á þeim rassgatið. Annars held ég að ef þeim er fleygt út í hnattvæðinguna af krafti þá lagist þetta smátt og smátt innan frá. Ef allir hunsuðu Kína þá yrði það skref afturábak í allri lýðræðislegri þróun í landinu. Frjáls viðskipti eru allra meina bót

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.11.2007 kl. 05:44

2 identicon

Ef menn hefðu ekki fíflast til að leggja niður varalögregluna árið 1995 hefði ekki þurft að snúa neinum einasta Falun Gong liða á brott.

Ástæðan var að lögreglan var svo fáliðuð að hún hefði engan vegin geta ráðið við allan þennan fólksfjölda án varaliðsins og þar með gat hún ekki ábyrgst öryggi erlenda gestsins. Þar með neyddust stjórnvöld til að brjóta á mannréttindum Falun Gong manna.

Ég get hinsvegar engan vegin séð hvernig hægt er að bera saman tiltölulega friðsöm félagasamtök eða trúarhóp við morðóðan glæpaflokk og enn morðóðari hryðjuverkaaðdáendur.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 11:39

3 identicon

Þetta er mikið rétt hjá þér Salvör. Mannréttindi eru fyrir alla. Hvort sem það eru ótýndir glæpamenn sem ég vil ekkert inn í landið og er hæstánægður með að voru sendir burt. Nú eða Falun Gong sem eru friðsamir mótmælendur.

Skúli: Mér finnst þú frekar yfirlýsingaglaður þegar þú talar um Gitmo. Eins og sást í myndinni sem Salvör minntist á voru þessir drengir á röngum stað á röngum tíma en saklausir. Sem og ótal dæmi um að Norðurbandalagið í Afganistan fékk borgun fyrir að skila inn talibönum og fylltu oft kvótann sinn með óbreyttum borgurum og karlmönnum sem vildu ekki selja konurnar sínar eða dætur í þrældóm. Þannig að þessir "glæpamenn" þar eru mis sekir ef sekir eru.

Gleymum ekki að brot á mannréttindum byrja ekkert í tómarúmi. Þó okkur líði betur með að vítisenglar komist ekki hér inn þá er mér spurn hver er næstur? Hvar drögum við línuna? Eða leyfum við henni að breytast þar til við búum í lögregluríki eins og BNA er að verða? Þar sem Patriot Act er svo rúmur að það má nota hann á venjulegt fólk án þess að nokkuð sé hægt að gera. Er það draumurinn?

Vitur maður sagði: Þeir sem fórna frelsi fyrir öryggi eiga hvorugt skilið.

Gissur Örn (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 16:12

4 identicon

Gaman og áhugavert að lesa alltaf hjá þér Salvör, takk fyrir mig. 

alva (IP-tala skráð) 14.11.2007 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband