Áfengi í matvörubúðum - vodkasala Íslands - vörumerkið Ísland REI og REYKA

Sigurður Kári alþingismaður og Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra eru í krossferð fyrir því mikla baráttumáli að selja skuli áfengi í matvörubúðum. Það er kostulegt að heyra Sigurð Kára tala um þetta eins og mikið frelsismál, hann talar eins og trúboði. Ekki það að mér finnist neitt óskynsamlegt sem hann segir, ég tek alveg undir það að almennt á frelsi að vera sem mest og það á ekki að refsa fjöldanum þó einhverjir fáir kunni ekki fótum sínum forráð og fari sér að voða, séu blindfullir og og sökkvi í sukk og óreglu ef aðgengi að vímuefnum verður frjálst. 

Það sem mér finnst hins vegar kostulegt er að Sigurður Kári skuli nenna að eyða orku sinni í svo lítilfjörlegt og ámátlegt mál þegar það eru mörg miklu stærri mál þar sem okkur fjöldanum er refsað vegna þess að einhverjir fáir kunna ekki fótum sínum forráð - eða eru glæponar sem brjóta lög.  Sérstaklega finnst mér ömurlegt hvernig vestræn ríki eru smám saman að breytast í lögregluríki og lögregluyfirvöld fá alltaf meira og meira vald til að njósna um þegnanna og takmarka ferðafrelsi þeirra, ekki síst í hinu stafræna rými  og í því skjóli að það sé verið að berjast gegn einhverjum örfáum hryðjuverkamönnum. Þannig er líf okkar allra hinna gert óþægilegt og erfitt og yfir samfélagið leggst lamandi krumla lögregluríkis.  Mikið vildi ég að Sigurður Kári nennti að berjast fyrir þannig frelsi, frelsi borgara til að ferðast og til athafna en einblíndi ekki á hvernig eitthvað vín og bjórgutl getur flætt inn í landið. 

Það er líka þannig að við berum ábyrgð á samferðafólki okkar og okkur sem vitum betur ber skylda til að passa að fólk detti ekki ofan í opna brunna og slasi sig og aðra í kringum sig, við sem förum varfærnislega um og kunnum fótum okkar forráð, við eigum ekki að hugsa bara um sjálfa okkur og ímynda okkur að við lifum í heimi þar sem hægt er að útiloka þá sem ekki fara þá leið sem er skynsamlegust og réttust. Við verðum að reikna með því að þegar höndlað er með svo hættulegt eitur eins og sumt áfengi er þá séu sumir sem kunni ekki  að umgangast það og það getur haft hryllilegar afleiðingar, ekki bara fyrir viðkomandi einstakling heldur einnig fyrir alla aðstandendur og börn viðkomandi.

Sumar afleiðingar þess að fólk kunni ekki að umgangast vín eru auk þess lífshættulegar og má þar nefna að sumt fólk missir svo mikið dómgreind við vínneyslu að það keyrir ölvað og stofnar lífi fjölda fólks í hættu. Þó ég og Sigurður Kári  og aðrir talsmenn fresisins séum sannfærð um að við getum alveg stjórnað áfengisneyslu okkar og best sé að ekkert standi í veginum fyrir því að við náum í áfengi hvað og hvenær sem við viljum þá verðum við að hugsa um hina  og þær afleiðingar sem óheft aðgengi að áfengi hefur neyslu.

Neyslan eykst með aðgengi og neyslan eykst líka mikið ef sterkustu raddir sem tjá sig um áfengi í íslensku samfélagi eru raddir áfengisseljenda og þeirra sem hafa hagsmuni af því að ánetja ungmenni áfengisneyslu og halda fullorðnari neytendum í stöðugri neyslu. 

Þannig er það í íslensku þjóðfélagi í dag. Hvergi er neysluþjóðfélagið risminna en þegar skoðað er hvernig áfengi er haldið að unglingum, hvernig bjórseljendur hamast við að bera bjór í ungt fólk og auglýsa upp vörumerki sín á skemmtunum og á Netinu. Botninn er hins vegar þegar útrásin íslenska felst í því að selja vodka í útlöndum og nota opinbert fé til að markaðssetja vörur í útlöndum sem bannað er að auglýsa hérna á Íslandi.

Össur hinn víghreifi Indíafari gyllti mjög fyrir okkur hvað Indónesar þættu við merkileg hér á skerinu og vörumerkið í orkuviðskiptunum væri ekki Orkuveitan og reynsla hennar, vörumerkið væri Ísland. Hann var svo sannarlega ekkert lítillátur þegar hann lýsti sínum hlut sem iðnaðarráðherra í að greiða fyrir viðskiptum.

Það er það lægsta sem íslenska útrásin hefur náð hingað til að taka þátt í að auglýsa vodka. Ég hef bloggað um þetta mál í blogginu Vodkasala Íslands

.

Það er ábyrgðarhluti hvernig vörur og þjónusta dreifast um íslenskt samfélag og hvaða reglur opinberir aðilar setja, líf og lífshamingja margra einstaklinga er undir því komin að stjórn sé á hvernig vímuefnadreifing er í landinu.

Það er líka ábyrgð sem fylgir því hvers konar starfsemi íslensk stjórnvöld styðja við á erlendri grund. Það er hræðilegt að hugsa sér vodkasölu Íslands. Vonandi nær þessi orkuútrás  ekki sams skonar botni. Ég vona svo sannarlega að íslenskir stjórnmálamenn séu með hreinan skjöld hvað varðar styrktaraðila og það sem þeir aðhafast sé ekki vegna þess að þeir séu talrör einhverra valdamiklilla einkaaðila. Ég vona að þeir hamist ekki við að fá bjór í kjörbúðir af því að bjórframleiðendur og eigendur stjórmarkaða studdu þá í kosningabaráttu og ég vona að þeir taki ekki þátt í undarlegum og vafasömum útrásarsamningum vegna þess að áhrifamiklir einkaaðilar sem hyggjast græða á orkuviðskiptum knýja á um slíka samninga.


mbl.is Skora á þingmenn að greiða atkvæði gegn áfengisfrumvarpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Tryggingastofnun ríkisins er eitt grátbroslegasta apparat stjórnsýslunnar. Vistunar-og hjúkrunarmál aldraðra eru í slíkum ólestri að það er þjóðarhneisa. Lífeyrissjóðirnir liggja á peningum fólks eins og ormar á gulli og mætti helst ætla að þeir væru að passa upp á sparibaukana sína.

Öll þessi mál og fjölmörg önnur þarf Alþingi að endurskoða og þau verkefni þola enga bið.

En þau tefjast vegna kjaftæðis um það hvar og hvernig eigi að selja brennivín! 

Árni Gunnarsson, 7.11.2007 kl. 00:26

2 identicon

Veruleikafyrring kalla ég það að ætla að selja vín í matvörubúðum. Það er nánast enginn eldri en 18 ára að afgreiða í matvöruverslunum eftir kl.16 á daginn. Dóttir mín hefur afgreitt í 11-11 síðan hún var 14.ára og í dag eru þau yfirleitt tvö og tvö á vakt á kvöldin, öll 16. ára. Eiga þau að selja vín. Ég veit að þau selja stundum síkarettur þó svo að þau megi það ekki. Viðskiptavinurinn heimtar sitt.

Kveðja,

Fjóla

Fjóla Þorvalds (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband