Flatt torg er ekki bautasteinn

Það var svo mikil rigning þegar minnisvarðinn um Bríeti var vígður að ég fór ekki í vígsluna  heldur bara í athöfnina á Hallveigarstöðum. Ég hef aðeins séð þetta torg á myndum. En ég er alls ekkert hrifin af því sem ég sé. Ef til vill er þetta tíska í gerð minnisvarða, svona tvívíð en ekki þrívíð minnismerki. Líka að fólk gangi á einhvern hátt inn í minnisverkið eða ofan á því.

Sú hugmynd  að hafa minningarsteina sem maður labbar á er nú samt fín. Ég hef séð í borgum í Póllandi  götur sem eru hellulagðar með hellum sem eru seldar þar merktar ákveðnu fólki, afkomendur styrkja endurgerð gatna með að kaupa hellur með ágröfnum nöfnum. Þetta tengir sögu borgarbúa við göturnar og götumyndina og þetta mun vera mjög vinsælt.

En það er barasta búið að vera baráttumál í fjöldamörg ár að einhver af styttum bæjarins væri kvenkyns og það er fyndið að þegar loksins var sett fé í minnisvarða um frumkvöðul kvenfrelsisbaráttunnar á Íslandi þá verði ávöxturinn af því útflatt torg, persónan sem minningin átti að vera um sé orðin ósýnileg, aðaláherslan er komin á eitthvað blómamynstur.  Það er gaman að spá i hvers konar minnisvarða við myndum reisa um Davíð Oddson í sama anda.  Eða Ólaf Ragnar Grímsson.  Kannski Íslendingar eigi einhvern tíma í framtíðinni eftir að trampa á torgum helguðum þeim eins og á Bríeti.  Spurning bara hvaða tákn verða í staðinn fyrir blómamynstrið.

Í ljóði sem ég samdi einu sinni um þær Fenju og Menju sem möluðu gull í kvörn sinni fyrir konunga þá eru þessar ljóðlínur:

Bautasteina
þá er standa brautu að
reisat man að mani.


mbl.is Minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur afhjúpaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nei, torg er ekki myndastytta - en í þessu sambandi er líka vert að huga að því hversu margar (eða fáar) myndastyttur hafa verið reistar á síðustu áratugum af nafngreindum einstaklingum (þ.e. körlum).

Mér sýnist að síðustu slíku stytturnar hafi verið settar upp um 1960 - og þóttu hálfgamaldags fyrirbæri á þeim tíma.

Á þeirri tæpu hálfri öld sem liðin er, hafa styttur af fólki (líkneskjur) einskorðast við sjómanna-minnisvarða Ragnars Kjartanssonar í höfnum landsins. Minnismerki um einstaklinga hafa verið brjóstmyndir, lágmyndir, skúlptúrar o.þ.h. - ekki styttur í líkamsstærð.

Myndastyttur af nafngreindum einstakingum eru einfaldlega búnar að vera úr tísku hér á landi í hálfa öld og eitthvað segir mér að listamaður sem yrði beðinn um að gera slíkt verk myndi taka afar dræmt í það og reyna að sannfæra verkkaupann um að betra sé að halda minningu viðkomandi á lofti með annars konar verki.

Stefán (IP-tala skráð) 9.11.2007 kl. 10:33

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þú hefur lög að mæla, það er gaman að fara ofan í hvernig tískan í styttum og minnismerkjum er. Ekki bara á Íslandi heldur í heiminum. Sennilega er það alls staðar sama sagan, sagan er ekki lengur skráð sem afreksverk sterkra einstaklinga heldur sem einhvers konar flæði hugmynda.

Í Búdapest fór ég í styttugarð sem var svona hvíldarheimili fyrir styttur sem hafði verið steypt af stalli svona eins og styttur af Stalín og Lenín. Þar fór ég líka í heimsókn í minjasafnið hryllingshúsið þar sem sagan var sögð með völdum minningum um kommúnistatímann og nasistatímann. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.11.2007 kl. 11:03

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

 Ég var alveg búin að gleyma því en listamannaferill minn spannar það að reisa svona minnisvarða þannig að ég get alveg tekið til máls og talað fyrir hönd okkar minnisvarðalistamanna.

Þó að það sé alveg úti að reistar séu líkneskjur af fólki þá  er nú reyndar samt þannig að ennþá eru reistir margir minnisvarðar um karla þó það sé ekki líkamsmynd. Einn nýlegur var reistur í Skagafirði við bæinn Víðivelli.

Það var minnisvarði um þrjá bræður. Þeir áttu eina systur. Hennar var ekki minnst. Ég reyndar reisti þarna minn eigin minnisvarða, minnisvarðann um óþekktu systurina. Hér er bloggið mitt um það 15.7.03

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.11.2007 kl. 11:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband