Sköpunarkenning og þróunarkenning

Í gær þá rölti ég um á bókasafninu í KHÍ, ég var ekki að leita að neinu sérstöku, bara svona að tékka á því hvort eitthvað nýtt væri komið í safnið og eitthvað sem gæti nýst mér í  að skrifa greinar á íslensku wikipedíu, leita að einhverju flokkunarkerfi  á heimsmynd okkar. Áður en varði þá var ég komin með tvær bækur, önnur bókin var "Á Hafnarslóð" og hin bókin var "Íslenskur jarðfræðilykill".

Svo blaðaði ég aðeins í þessum bókum samtímis og dett þá strax inn í ítarlega umfjöllun um Finn Magnússon leyndarskalavörð og rúnasérfræðing sem talinn var einn merkasti vísindamaður Íslendinga á sinni tíð, velgjörðarmann Jónasar Hallgrímssonar með meiru. Finnur hefur vitrast mér marg oft  í lífinu, hann var viðstaddur við matborðið á bernskuheimili mínu, saga Finns var eftirlætissaga föður míns, sagan sem hann sagði margoft til að gera grín að fræðimönnum, sagan um manninn sem las heilu kvæðin út úr jökulrispum ísaldar. Finnur vitraðist mér líka árið 2001 þegar ég var að næturlagi í lest milli Kaupmannahafnar og Ronneby á þeim slóðum þar sem dularfullu táknin í Blekinge eru. Ég skrifaði þá  þetta blogg:

Tina sagði í lestinni til Ronneby að rúnaristan sem Magnússon réð hafi verið nálægt næstu járnbrautarstöð við Ronneby en það er Bräkne-Hoby. Ég leitaði á Netinu að efni um Bräkne-Hoby og Magnússon en fann ekkert, breytti leitinni þá í Bräkne-Hoby og rúnasteina og eftir dálitla leit fann ég söguna um dularfullu táknin í Blekinge og hvernig Íslendingurinn Finnur Magnússon fór um þær sömu slóðir og ég núna árið 1833. Hann var í vísindaleiðangri og það var í ferðinni líka jarðfræðingur sem átti að ákvarða hvort táknin í Runemo væru mannanna verk eða náttúrunnar. Fræðimaðurinn Finnur Magnússon gerði uppgötvanir í Runemo og var næstu árin að ganga frá niðurstöðunum. Svo var það árið 1841 sem hann var loksins búinn með sitt mikla ritverk um rúnalesturinn, það var Runamo og runestenene og var verk upp á 742 blaðsíður. Finnur Magnússon var á sínum tíma heimsþekktur fræðimaður og saga hans er svo sérstök að það er hreint furðulegt að minningu hans og þessari skrýtnu sögu sé ekki haldið meira á lofti. Þetta er saga vísinda allra tíma, saga um hvernig manneskjan leitar að merkingu í umhverfi sínu og hvernig við erum öll rúnaspekingar í okkar fræðum. Þau fræði geta hins vegar haft mismunandi sjónarhorn og það sem einn sér sem kvæði fyrri kynslóða getur öðrum birst sem eyðingarkraftur náttúrunnar. Þetta er líka sagan um hin hverfulu mörk milli vísinda og skáldskapar og hvernig skáldskapur flæðir inn í vísindi og við skynjum að sannleikurinn er ekki ein uppsprettulind heldur gegnsætt flæði og straumur sem við sjálf berumst með.

Ég skrifaði grein um Finn Magnússon á íslensku wikipedíu. Ég byrjaði líka á grein þar um langfrægasta raunvísindamann Norðurlandanna á sinni tíð. Það er Tyche Brahe. Hann var heimsfrægur fyrir stjörnufræðikenningar sínar og athuganir, kenningar sem ekki er haldið mikið á lofti í dag.  Ég byrjaði á greininni um Tyche í mars 2006 og skrifaði þá þetta:

Tycho Brahe ( 14. desember 1546 – 24 október 1601) var danskur stjörnufræðingur og gullgerðarmaður. Hann byggði stjörnuathugunarstöð sína Stjörnuborg og höllina Úraníuborg í eyjunni Hveðn og bjó þar.

Tycho Brahe fékk áhuga á gullgerðarlist þegar hann lenti sem ungur maður í ryskingum með þeim afleiðingum að hann missti nefið. Hann gekk eftir það með gullnef.

Ég var að skoða áðan hvort greinin hefði eitthvað breyst. Það hefur enginn fundið hjá sér neina hvöt til að fjalla um kenningar hans og fræðistörf, það hefur bara verið bætt við einhverju um þvagblöðru hans og salernisaðstöðu í veislum og svo hefur því  verið breytt  að í stað gullnefs þá hafi hann verið með nefbrodd úr kopar.

Vísindamennirnir Tyche Brahe og Finnur  Magnússon hafa ekki sama stall og þeir höfðu á sínum tíma í fræðasamfélaginu. Aðrir hafa komið fram sem kollvarpa þeirra tilgátum. Þannig er gangur lífsins, þannig er gangur vísindalegrar þekkingar, þannig byggist samsöfnuð þekking heimsins upp. Hún byggist upp að hluta til með því að ráðast á fyrri þekkingu og kenningar.

Þannig kollvarpaði  þróunarkenningin ýmsu sem haldið er  fram um sköpun heimsins, ekki eingöngu í kristnum trúarbrögðum. Mér virðast öll trúarbrögð hafa einhvers konar sköpunarsögur, sögur sem gera hlut mannanna meiri  og gera jarðvistinni aðeins bærilegri. Það er pínulítið óþægilegt að hugsa um okkur sem agnarlítil kríli á plánetunni jörðu sem sjálf er agnarlítið kríli í vetrarbraut sem er 100.000 ljósár í þvermál og þessi lífmassi sem hér flæðir um jörðu  og við erum hluti af sé byggður á efnaferlum vatns. Það er nú miklu skemmtilegra að aðhyllast  guðskenningar sem segja að maðurinn sé einhvers konar afrit af Guði, afrit sem hann hafi mikla velþóknun á.

Ég hef ekki myndað mér skoðun á hvort afstaða Guðfinnu var skynsamleg en vonandi skýrir hún viðhorf sitt betur. Ég var að lesa samþykkt líffræðiskorar 

það er allt mjög skynsamlegt sem þar stendur og auðvitað er ég sammála líffræðingunum, ég er  alin upp í þeirra hugmyndakerfi, þetta er mín heimsmynd í dag. En það er samt þannig að seinasta setningin stingur mig, setningin um hvað   á erindi  í  umræðu og kennslu í vísindum.

Síðasta setningin er svona:

"Sköpunarkenningin" og "kenningin um vitræna hönnun"  eru ekki prófanlegar tilgátur og eiga ekkert erindi í umræðu og kennslu í vísindum.

Hver er dómari yfir hvað á erindi í umræðu og kennslu í vísindum? Hafa allar vísindaframfarir síðustu árþúsunda byggst á  prófanlegum tilgátum?


mbl.is Harma afstöðu Guðfinnu Bjarnadóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

"Hafa allar vísindaframfarir síðustu árþúsunda byggst á prófanlegum tilgátum?"
Það hefði ég haldið, ertu með eitthvað sérstakt í huga?

Matthías Ásgeirsson, 16.10.2007 kl. 13:39

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Ég held nú að inntakið í því að doktorinn góði vildi ekki skrifa undir var að með því hefði verið að skikka skólastofnanir í farveg sem er ekki hollt vísindasamfélaginu að vera sagt hvernig ber að vinna og hvað má ekki gera.

Í þessu sambandi má benda á að það hefur ekki reynst mögulegt að sanna vísindalega þróunarkenningu Darwins. Hún er því enn kenning, ekki vísindalega sönnuð. Steingervingafræðin rennir hins vegar stoðum undir það að þróunarkenningin hafi ekki við nein rök að styyðjast.Kenningarnar/tilgáturnar sanna vísindamenn með því að kalla fram, í þessu tilfelli þróun tegundanna, endurtekna "þróun" á sma hátt aftur og aftur.  Þetta hefur ekki tekist enn. Steingervingar sem hafa fundist forsögulegir segja þá sögu að flestar þær tegundir þekktar nú voru eins á forsögulegum tímum. Áður en menn stimpla þann sem hér ritar eitthvað þá skal á það bent að hér  er einfaldlega verið að benda á alvarlegt svarthol Darwinskenningarinnar um þróun tegundanna. Við lestur bókar Darwins þar um þá kemur nú í ljós að hann var sjálfur mesti efahyggjumaðurinn á þessi skrif sín.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 16.10.2007 kl. 16:51

3 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Ekkert svar kemur frá Salvöru en rugludallarnir eru mættir á svæðið !

Í þessu sambandi má benda á að það hefur ekki reynst mögulegt að sanna vísindalega þróunarkenningu Darwins. Hún er því enn kenning, ekki vísindalega sönnuð.

Hér eru þessu svarað ágætlega á vísindavefnum

Matthías Ásgeirsson, 16.10.2007 kl. 18:21

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Matthías !  Þú heldur því í alvöru fram að svar sem Steindór J. Erlingsson gefur sé hlutlaust ???????  

Skrif mín hér að ofan standa enn óhögguð. 

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 16.10.2007 kl. 21:55

5 Smámynd: Sveinn Ólafsson

Hvað eru vísindi sem ekki eru prófanlegar tilgátur?

Tilgátur sem eru prófanlegar leiða af sér kenningar sem eru afsannanlegar. Þannig verður til munur á vísindalegum kenningum og öðrum kenningum, til dæmis trúarlegum kenningum.

Kenning sem er afsannanleg er alltaf prófanleg en ekki endanlega sönnuð. Hún beygir sig fyrir nýrri kenningu sem skýrir betur það sem fengist er við, ef sú kenning er líka prófanleg.

Umræða um allt það sem er ekki prófanlegt á alveg heima hvar sem er, þess vegna í sölum háskóla, hvort sem það er í guðfræðideildinni eða öðrum deildum. Það þýðir ekki að umræðan verði að vísindum.

Endanlegur sannleikur á heima í trúarlegu kenningunum en ekki í vísindum. Vísindaleg kenning er afsannanleg.

Sveinn Ólafsson, 16.10.2007 kl. 22:43

6 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Þú heldur því í alvöru fram að svar sem Steindór J. Erlingsson gefur sé hlutlaust

Nei, en ég held því fram að svar sem birtist á Vísindavefnum sé hlutlaust.  Ég held því fram að svar Steindórs sé fróðlegt og vandað.

Hvaða hlutleysi ertu annars að tala um?  Hlutleysi um það hvort Þróunarkenningin sé kenning eða ekki?  Þetta er ósköp einfaldlega spurning um hugtök og skilgreiningar.  Þú hefur rangt fyrir þér.

Matthías Ásgeirsson, 16.10.2007 kl. 23:47

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Innilega sammála Matthíasi í öllum aðalatriðum. Athyglisvert að þessi sem kallar sig predikarann og ofnotar greinarmerki mikið, þorir ekki að koma fram undir nafni en bullar bara viðstöðulaust. Ég hef líka lesið greinar um fornleifafræði þar sem kenningum Finns Magnússonar um steinana í Runamo er andmælt mjög harkalega.

Sæmundur Bjarnason, 17.10.2007 kl. 02:38

8 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæmundur Bjarnason  "...og ofnotar greinarmerki mikið"  . Það væri fróðlegt fyir okkur öll, fyrst það er kominn fram svona mikill íslenskumaður, að fá að vita hvar þessi ofnotkun mín er á greinarmerjum.  Við munum vafalaust læra mikið af  framkomnum málsnillingi, það er næsta víst.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 17.10.2007 kl. 05:53

9 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég tók líka eftir þessu, Predikari. Flest er hey í harðindum.

Jón Valur Jensson, 17.10.2007 kl. 09:51

10 Smámynd: Eiríkur Ingvar Ingvarsson

Er virkilega til fólk sem trúir á þróun?

Það er hetjulegt að Guðfinna skuli greitt atkvæði gegn þessari tillögu. Hér sýnir hún svo ekki verði um villst að hún er verðugur fulltrúi háskólasamfélagsins á alþingi.

Það að kennarar og stjórnendur skulu vaða í slíkri villu að halda að þeir geti staðið gegn sköpun og í stað þess að verja hrip leka kenningu sem hefur ekki upphaf eða endir og því síður að eingin ríki um.

Ég er mest hissa á því að það sé til fólk á þessum upplýsinga og vísinda tímum sem hafna sköpun. Það sem er alvarlegra er að þeir eru að móta ungmenni okkar til framtíðar með ónýtri kenningu sem byggir á ég held og mér finnst.

Vel gert hjá Guðfinnu Bjarnadóttur

Eiríkur Ingvar Ingvarsson, 17.10.2007 kl. 10:36

11 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Predikarinn skrifar:

"Ég held nú að inntakið í því að doktorinn góði vildi ekki skrifa undir var að með því hefði verið að skikka skólastofnanir í farveg sem er ekki hollt vísindasamfélaginu að vera sagt hvernig ber að vinna og hvað má ekki gera."

Það er einfaldlega alrangt að Evrópuráðið sé að skikka skólastofnanir í einhvern farveg. Ráðið er einfaldlega að vara við þeirri tilhneigingu að kenna trúarskoðanir sem vísindi og hvetja aðildarríki til þess að verja vísindalega þekkingu.

Sjá texta ályktunarinnar hér: http://assembly.coe.int/Main.asp?link=/Documents/AdoptedText/ta07/ERES1580.htm

Svala Jónsdóttir, 17.10.2007 kl. 11:00

12 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Bara til að fyrirbyggja misskilning þá vil ég taka fram að þessir tveir vísindamenn Finnur Magnússon og Tyche Brahe eru aðallega þekktir fyrir að að hafa haft rangt fyrir sér. Finnur Magnússon var hæddur og smáður þegar nokkrum árum og varð að athlægi nokkrum árum eftir að hann gaf út mikinn doðrant um rúnalestur, hann las kvæði á rúnaletri þar sem jarðfræðingar telja að séu jökulruðningar sorfnir af náttúrukröftum. 

Tyche Brahe var voldugur og ríkur vísindamaður. Hann hafði bestu græjur á sinni tíð og kom sér upp feiknagóðri stjörnuathugunarstöð. Kenning hans var sú að sólin snerist í kringum jörðu. Hann reiknaði þetta allt nákvæmlega út. 

Þessir tveir menn eru merkilegastir fyrir það hvað þeim skjátlaðist mikið.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.10.2007 kl. 11:26

13 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég held að ef maður skilgreinir vísindi sem fræði hinna hrekjanlegu tilgátna  þá er mjög auðvelt að segja að framfarir í vísindum hljóti að byggjast á hrekjanlegum tilgátum.

Driffjöður framfara, framfara sem seitla inn í vísindin sem og aðra þætti samfélagsins er ekki bara sprottinn úr vísindum. Tækniframfarir spretta ekki alltaf úr farvegi sem okkur þykja æskilegir, þannig hafa miklar framfarir orðið í tengslum við hernað.

Viðhorf til hvað er rannsakað, hvað er styrkt af almannafé eða sjóðum auðjöfra og hvað má ekki rannsaka og hvað er þaggað niður eru oft byggð á sjónarmiðum sem hafa kannski ekki með vísinda að gera.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.10.2007 kl. 11:34

14 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Viðbrögð manna í þessum athugasemdum, fleiri blogg við þessa frétt og athugasemdir við þau sýna að það er full ástæða til að samþykkja umrædda ályktun. Það er umhugsunarefni að fyrrverandi háskólarektor (aðili að vísindasamfélagi !) skuli greiða atkvæði gegn þessu en ekki sitja hjá eins og eðlilegt hefði verið ef hún var ósammála Evrópuráðið tæki afstöðu til þessa.

Ég bíð eftir útskýringu Guðfinnu á þessu.

Kristjana Bjarnadóttir, 17.10.2007 kl. 12:05

15 Smámynd: Sveinn Ólafsson

Þegar sagt er að vísindi séu að prófa hrekjanlegar tilgátur er greinilega átt við aðferð til að prófa hugmyndir, og það eru engin takmörk á því hvaðan fólk getur fengið þær hugmyndir. Það þýðir ekki að allar hugmyndir séu jafnsettar.

Það er dauðanum mikilvægara að greina á milli vísinda og þess sem fólk trúir, í orðsins fyllstu merkingu. Allt of margir lifa við slæm kjör og allt of margir deyja án þess að þurfa þess, vegna þess að fólk neitar að horfast í augu við það sem haldbetra reynist.

Þetta er engin ógn við trúna. Það eru engin vísindi sem banna mér að trúa á æðri mátt, ganga til kirkju eða biðja til guðs.

Sveinn Ólafsson, 17.10.2007 kl. 18:36

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vísindamenn tala ekki né skrifa eins og Jón Frímann gerði í seinni klausu sinni hér ofar. Á fyrri klausu hans legg ég ekki mat, en eitt er víst, að ekki knýr hún mig til samsinnis.

Jón Valur Jensson, 17.10.2007 kl. 18:44

17 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Er kaþólikinn JVJ orðinn sköpunarsinni líka.

Lengi getur vont versnað.

Matthías Ásgeirsson, 17.10.2007 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband