Brunakvæði

Það er einkennilegt að einmitt um þá mund að bruninn kom upp í miðbæ Reykjavíkur þá var ég  að skrifa blogg. Að skrifa blogg um bragfræði. Kveikjan að því bloggi var ágæt limra Þórarins Eldjárns um Guð og Djöfulina sem hann birti á moggablogginu. Það er kannski ekki mikið samband milli bragfræði og eldsvoða í Reykjavík, það samband er bara í mínum huga vegna þess að ég var að rifja upp ljóðið Eldborg, mitt eina birta ljóð, ég las það aftur og ætlaði að setja það á bloggið sem ég var að skrifa en hætti við. Ég rifjaði upp það sem ég hafði áður skrifað um þetta ljóð og tengdi í bloggfærsluna þegar ég birti ljóðið, ég birti það á bloggi út af því að það birtist ekki strax á ljod.is. En einmitt þegar ég hafði skrifað ljóðið á bloggið  þá varð mér litið út um gluggann, ég vann þá  í miðbænum og sá að það þyrlaðist reykjarmökkur upp úr Reykjavíkurhöfn og margir brunabílar voru á vettvangi. Ég sá svo í fréttavef stuttu síðar að það var loðnuskip að brenna, loðnuskip sem bar nafnið Eldborg. Ég breytti þá bloggfærslunni og bætti við athugasemd um brunann og endurskírði þetta eina ljóð mitt, ég skírði það Eldborg. 

Ljóðið Eldborg fjallar um eldsvoða og borg sem hrekkur upp við bruna. Ljóðið fjallar líka um brennuvarg og líka um hugmyndir sem kvikna og samfélagsbreytingar og  baráttu. Ef til vill fjallar það líka um hryðjuverk. En það var upphaflega samið um lítinn sex ára strák í Rimahverfinu sem kveikti í öllu, það var samið daginn sem hann byrjaði í skóla. Ég held að þetta sé galdraljóð sem kemur í huga minn án þess að ég stjórni því. Sérstaklega þegar eitthvað er að brenna upp. 


Háttatal hið minna - Sá lipri limrusmiður

Ég er skáld. Ekkert sérstaklega afkastamikil enda eru gæði skáldskapar ekki mæld í orðaflóði. Ég er svona eins ljóðs skáld því ég hef bara birt eitt ljóð opinberlega og það er ljóðið Eldborg. Það er tileinkað þjóðskáldinu Davíð frá Fagraskógi og Rimahverfinu í Reykjavík og það  er skírt eftir loðnubræðsluskipinu Eldborg sem brann í Reykjavíkurhöfn.

En metnaður minn í skáldskap er eða var mikill og ákvað ég snemma að gera eins og Snorri Sturluson og fleiri andans stórmenni, ég ákvað að semja háttatal. Afköst mín í samningu háttatalsins eru jafnmikil og í skáldskapnum - það er sem sagt bara komið eitt erindi. Og ekki víst að þau verði fleiri. Hugmyndin var samt góð, ég ætlaði að gera háttatal þar sem ljóðmælandinn hrakyrti  og skammaðist út í einhvern annan bragarhátt og það gengi á með bölbænum milli bragarhátta með meiri ofsa en Siguður Breiðfjörð og Jónas Hallgrímsson í sínum rímnaslag.  En hér er sem sagt Háttatal hið minna, bara eitt erindi og það er ferskeytlan sem hefur orðið og bösótast út í hinn nýja sið, limruna sem hingað barst með engilsaxneskum og er að ryðja burt öðrum háttum. 

Sá ég lipran limrusmið
ljóða sníða glingur.
Brýna í hnipri hnífinn við
hnjóð, í níði syngur.

Það eru margir góðir limrusmiðir og skáld hér á Moggablogginu og í öðrum kimum íslenskra netheima, þjóðskáldin Þórarinn Eldjárn yrkir í dag afbragðslimru um þær stöllur Guð og Djöfulina og núna þegar fylgið veltur til og frá í skoðanakönnunum þá  kastar Jóna fram fyndnum og  sumarlegum limrum um landfundina hjá Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum og veltinginn á Kristni H. Gunnarssyni.

Þó ég yrki nú ekki mikið sjálf þá finnst mér feiknagaman af því að  lesa og fara með góð kvæði og frábært að lesa ljóðablogg. Ég ætti kannski að fara að læra meira um bragfræði, hér er   bragfræðivefur Halls og hér er háttatal Baggalúts. Þar eru margir nýjir bragarhættir svo sem aulaháttur, dólgsháttur og málsháttur. 


Annað líf í Netheimum

Það gekk ekki þrautalaust að setja upp Second Life á vinnutölvunni. Ég var búin að hlaða því inn heima í gærkvöldi og búa til kall sem sprangaði um í sýndarheimi og það gekk bara vel. Svo puntaði ég kallinn og klæddi hann í bleika skó og hvítar nærbuxur og grænt vesti og gerði hann massaðan og álfslegan. Ég tók eftir að þeir sem voru að reika um í Second Life á sama tíma og ég í gær voru líka mikið að klæða upp kallana eða kellingarnar sínar og máta þau við  ýmis konar gervi í þessum gerviheimi. Stundum klæddu þeir verurnar úr fötunum og svo breytist karlmaður skyndilega í konu og kona í karl. Það tók dáldinn tíma að læra að hreyfa vélveruna (avatar) í þessum heimi og ég festist í gær inn í einhverjum hellisskúta.

Einn af þeim sem reikaði um gaf sig á tal við mig og það kom í ljós að við vorum bæði þarna í fyrsta skipti svo ég notaði bara tækifærið og gerði hann að vini mínum. Það er áríðandi í nýjum og framandi heimi að koma sér strax upp vinaneti og þeir sem eru í sömu sporum eru ágætir vinir - í fyrstu átti ég ekkert sameiginlegt með neinum nema vera bæði nýkomin inn í heiminn.  Svo gerði ég smátilraunir með eitthvað sem heitir Teleport en það þýðir að maður getur galdrað sig á milli staða. Ég gerði þessa tilraun með nýja Second Life vini mínum, vinir geta boðið manni á einhvern stað, það er sniðugt ef hópur ætlar að hittast og halda samkomur í netheimum.

Klukkan fimm í dag ætlaði ég í leiðangur í Second Life með öðrum áhugamönnum um netleiki í skólastarfi en það gekk illa því að ég fékk Second Life ekki til að tengjast á vinnutölvunni. Ég hélt fyrst að það væri út af Windows Vista en svo fann ég upplýsingar á Netinu um eitthvað sem heitir "proxy tunneling" og mig grunaði að það væri vandamálið að tengingarnar í háskólum hérna séu þannig að ekki gangi að tengjast netleikjum/netumhverfi eins og Second Life og World of Warcraft.  Ég  fann upplýsingar um Second Life through a proxy

og þegar ég var búin að hlaða niður öllu því dóti sem þarna er sagt , skrá mig inn á freedom.net og stilla alls konar dót þá ræsti ég Second Life aftur og þá virkaði það fínt. Reyndar ekki með miklum hraða því þessi hjáleið byggir á bandvíddinni hjá vélunum sem maður tengist og maður fær ekki nema litla bandvídd. 

Það er alltaf oftar og oftar sem lokaða tölvuumhverfið í skólunum er orðið til trafala.  


Vídeóblogg frá sextánda apríl - Netveröld og hópleikir á Netiu

Í vídeóblogginu segi ég frá námskeiði sem ég er í Virtual Worlds and Serious games, ég segi líka frá Tvitter og tvittervision.com og hvernig ég gerðist íbúi í Second Life í dag. Já og frá voðaverkunum í Virginíu háskólanum.

Allt sem er grænt, grænt finnst mér vera fallegt

From framsokn

Nú er kosningavélin að fara í gang hjá Framsókn.  Það er gaman að fylgjast með því hvað þar er vel og skipulega unnið. Ég mætti á opnun á kosningamiðstöðinni í Kópavogi á laugardaginn og á sunnudagskvöldið þá mætti ég á fund frambjóðenda Framsóknarflokksins í Reykjavík  enda tek ég það mjög hátíðlega að vera í framboði. Ég er nefnilega í sautjánda sæti á lista Framsóknar í Reykjavík suður sem með örlítilli bjartsýni má kalla baráttusætið Grin  

En hérna er myndasafn frá fundunum tveimur. Kosningamiðstöðin í Reykjavík verður opnuð á sumardaginn fyrsta.  Ég var að prófa að búa til myndaalbúm á vefnum í picasa en það er einkar handhægt kerfi til að laga til myndir og setja á vefinn. Google gefur manni líka 1 gígabæti af ókeypis vefsvæði fyrir svona myndaalbúm. Það er hægt að skoða myndirnar með því að smella á litlu myndina hér fyrir neðan. Mér finnst picasa hins vegar ekki neitt sérstaklega þægilegt kerfi til að setja myndir inn á blogg. 

From framsokn
framsokn

Teljarablogg: Abu Mohammad og kona hans

Ég er haldin einhvers konar teljaraþráhyggju á háu stigi. Ég þarf alltaf að vera að telja og mæla allt sem fyrir ber eða sem ég les í blöðum. Ég má ekki sjá svani á flugi, gæsir í túni eða lóur í móa án þess að byrja að áætla hvað það séu margir fuglar.

Svo hef ég oft þörf fyrir að telja það sem alls ekki er ætlast til að maður telji - svona eins og til að leita að földum mynstrum í orðræðu og skynjunarheimi okkar. Þetta háir mér verulega, ég gat til dæmis ekki alveg lifað mig að fullu inn  í raunir fjölskyldu Abu Mohammad sem stjörnublaðamaðurinn Davíð Logi segir okkur frá vegna þess að ég var alltaf að telja. Ég var að telja hversu oft Davíð Logi nefnir  heimilisfaðirinn á nafn og hversu hann nafngreinir  eiginkonuna. Í vídeóklippinu á mbl.is hef ég fundið það út að eiginmaðurinn  Abo Mohammad er er nafngreindur 5 sinnum  (að ég held á sömu mínútu) en eiginkonan  er einu sinni nefnd  og þá hefur hún ekkert nafn, til hennar er vísað með orðalaginu "kona hans".  

Svo mikil er þráhyggja mín að ég stóðst ekki mátið og taldi líka hversu oft  eiginmaðurinn og eiginkonan eru nefnd á nafn í Morgunblaðsgreininni á blaðsíðu 14.  Mér telst til að eiginmaðurinn Abu Mohammad sé þar nafngreindur 18 sinnum en eginkonan Abd Al-Yima einu sinni  í fyrirsögninni.  Síðan er þrisvar sinnum í löngu greininni vísað til hennar sem "konan hans". Svo mikið er lagt upp úr að nafngreina manninn að við fáum að vita um tvö nöfn á honum  við fáum að vita  "Dhia a Hammoodi sem jafnan er kallaður Abo Mohammad".

Þetta er ekki saga af írakskri fjölskyldu. Þetta er hetjusaga af karlmanninum Abu Mohammad og saga sögð út frá sjónarhóli hans og lýsir væntingum hans  og viðhorfum og hugsunum vel.

Þetta er ekkert verri saga fyrir það. Hinar sögurnar þarf bara að segja líka. Þær eru oftast ósagðar sögur.

 Mér líður miklu betur með þessa teljaraþráhyggju núna þegar ég er búin að sjá á moggablogginu að ég er ekki ein með þetta vandamál. Sérstaklega virðast aðrir femínistar líka vera í talningunum og svo eru einstaka aðrir farnir að telja.

blog-katrin

blog-herdis

 



mbl.is Tvær milljónir Íraka hafa flúið land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný tölva með Windows Vista

Ég var að fá nýja tölvu í vinnunni í dag og er núna búin að vera marga klukkutíma að setja upp dót og prófa upptökumöguleika. Þessi tölva er með Windows Vista og nú er ég í fyrsta skipti með tvo skjái, vinnuumhverfið er orðið svoleiðis núna að það þarf mikið rými á skjá því oftast er maður að vinna í mörgum kerfum á sama tíma. 

Það var búið að setja upp mörg forrit, allan office 2007 pakkann, photoshop, mind manager, camtasia og  macromedia og visual studio og expression.

Fyrsta forritið sem ég hlóð sjálf niður var náttúrulega Firefox 2. Ég hef ekkert á móti Internet Explorer og Windows umhverfinu en ég vil hafa val og vera ekki háð einum aðila. Svo finnst mér Firefox skemmtilegur vafri og það er til alls konar skemmtilegar viðbætur við hann því hann er opinn hugbúnaður með öflugt notendasamfélag.

Ég var heillengi að brölta við að fá  fréttaupptökurnar á Rúv.is og vídeóklippin á mbl.is  til að spilast rétt, það kom alltaf að það vantaði plug in (windows media player). Það var þrátt fyrir að ég var búin að virkja nýjasta Windows media player og allt spilaðist fínt í Internet Explorer.

Ég held að þetta sé eitthvað  plott hjá Microsoft til að gera fólki erfiðara um vik að nota Firefox, ef fólk fær ekki vídeóklipp til að spilast  í vafranum sínum þá nennir enginn að nota svoleiðis vafra. En ég fann lausnina hérna:

 http://kb.mozillazine.org/Windows_Media_Player#Missing_plugin

Það var nú ekki fyrir kristinn mann að botna í hvað ætti að gera en ég fylgdi bara leiðbeiningunum eins og páfagaukur. Það sem ég gerði var hlaða niður þessum þremur dll skrám:

Svo setti ég þessar þrjár skrár í möppuna C:\Program Files\Mozilla Firefox\plugins
Og allt virkar þrælvel núna, ég get horft á spaugstofuna á Rúv og ég get horft á fréttaskotin á Rúv.

Það eru sennilega margir í þessum sömu sporum núna - að skipta úr Windows XP í Windows Vista og það hjálpar kannski einhverjum sem lendir í sömu vandræðum og ég að sjá hvernig ég leysti málið.

Ég setti nokkrar viðbætur inn í Firefox. Þar á meðal þessar:

(ég sótti líka lítið forrit á netinu Winsnap til að taka svona skjámyndir. Útgáfunúmer minna en 2 af winsnap er ókeypis. Það má hlaða niður hérna

 firexox-addon

Svo fékk ég með nýju tölvunni svona vídeóauga sem ég hengi á skjáinn og svo get ég bara talað. Ég varð að prófa það.

Móðurmálið og föðurlandið

Orðalagið hjá Sahlin um að það þurfi konu til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum hreyfir við mörgum.  Skondið að lesa að sumir pirrast og taka þetta sem mógðun til allra karlmanna og segja sem svo að það hefði allt orðið vitlaust ef þetta hefði verið á hinn veginn - ef Sahlin hefði sagt að það þyrfti karlmann til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum. 

Ég veldi fyrir mér hvort það þeir sem pirrast yfir þessu orðalagi séu þeir sömu sem hafa eins lengi og elstu menn muna tekið þátt í að hylla karlveldið og halda karlmönnum við völd og hvort það séu þeir sömu og hafa skoðað lista yfir forsætisráðherra Islands og pælt í því hvort ekki sé soldið skrýtið að allir þeir 36 aðilar sem hafa leitt ríkisstjórnir á Íslandi eru karlmenn.... Já, nú man ég, þessir pirruðu hafa svar á reiðum höndum við því.  Það er svarið um að þetta sé nú allt að koma, þetta hafi verið voða slæmt í den áður en menn föttuðu jafnréttið en núna sé þetta allt að koma og þetta sé allt að jafna sig bara ef við látum markaðinn ráða og "hæfasti einstaklingurinn" muni þá sjálfkrafa veljast til forustu. 

Við þá sem ekki þola svona umbúðalaust tal um að það þurfi konur við stjórnvölinn til að einhvers konar jöfnuður ríki á Íslandi vil ég segja að það mun ekkert þokast áleiðis nema með baráttu og frekjulátum  femínista í orðum sem eiga að nota hvert tækifæri til að hamra á því að við búum í  óréttlátu samfélagi þar sem karlmenn hafa völdin og eiga landið  og konur hafa ekkert nema málið og engin völd nema að kalla eftir rými í orðræðunni. 

Ég er að skrifa þetta blogg til að prófa að senda sjálfkrafa afrit af moggablogginu mínu (rss feed)  inn á tumblr.com bloggkerfið en ég bjó til blogg þar  http://salvor.tumblr.com/

 


mbl.is „Það þarf konu til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki fallegt hjá Mogganum

Það er virkilega ótuktarlegt hjá Mogganum að skemma stemminguna á landsfundi Samfylkingarinnar sem núna stendur yfir með neyðarlegum fréttafyrirsögnum eins og þessari: "Fylgi Samfylkingarinnar minnkar enn".  Næsta frétt er svo stefnuræða Ingibjargar Sólrúnar formanns Samfylkingarinnar.  Þessi  samsetning frétta er mjög augljóslega til að draga úr kraftinum í orðum hennar. Það  er öðruvísi kastljós  hjá Morgunblaðinu - blaði allra landsmanna - á landsfundi Sjálfstæðisflokksins , þar er vefvarp og fyrirsögnin þar er "Bjartsýni sögð einkenna landsfund Sjálfstæðisflokksins" og í þeirri frétt er mærðarleg rulla sem endurtekur fyrirsögnina  eins og "Segja fundarmenn mikla stemningu vera á fundinum og bjartsýni og baráttuhug ríkjandi".  Merkileg ekki frétt. Veit einhver um stjórnmálaflokk þar sem ekki er stemming og bjartsýni og baráttuhugur  korter fyrir kosningar?

Mikið er gaman að sumt breytist ekkert í íslensku samfélagi, frá því að ég man eftir þá hefur Mogginn alltaf breytt svona í kringum kosningar og fengið þá á sig heiðbláa slikju þó hann geti verið fölbleikur og grár og ómarsumhverfisgrænn þess á milli. Annars get ég ekki betur séð en allt sé á niðurleið hjá Sjálfstæðisflokknum frá síðustu viku þegar ég rýni í þessu fínu og litríku súlurit, mér sýnist bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur pompa álíka mikið niður milli vikna (eitthvað tæp 10 %) í skoðanakönnunum þannig að það skýrir ekki þessa skrýtnu fjölmiðlun hjá mbl.is 

Vinstri grænir eru áfram á bullandi siglingu, þau eru nú óumdeilanlega senuþjófarnir í þessari kosningabaráttu með flott málefni eins og kvenfrelsi og náttúruvernd. Framsókn réttir mikið úr kútnum frá  síðustu skoðanakönnun - mælist núna með 9.9 % en mældist áður með 8.1%. Hafa verður í huga að Framsókn sækir jafnan á í sjálfum kosningunum - ólíkt Sjálfstæðisflokknum sem mælist jafnan með meira fylgi í skoðanakönnunum en hann hefur í kosningum. 

Það er  mjög áhugavert að skoða hve miklu munar á milli kynja  hvaða stjórnmálaflokka fólk styður. Sérstaklega er áhugavert að sjá að 33,1 % kvenna styðja Sjálfstæðisflokkinn. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér fyrir hvað? Sennilega eru þetta konur sem eru fæddar inn í  Sjálfstæðisfjölskyldur og hafa ekki mikið velt fyrir sér þeim möguleika að kjósa aðra flokkaSmile

Annars er gaman að spá í það að því meira sem Samfylkingin skreppur saman þeim mun líklegra er að hún komist til valda að loknum kosningum og þeim mun ólíklegra er að Vinstri Grænir komist í stjórn. Sá flokkur sem væntanlega mun leiða stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningar er Sjálfstæðisflokkurinn. Það eru nokkrir kostir í stöðunni að fá einhverja til fylgilags við sig. Það getur verið sama stjórn og áður þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, það er þekkt mynstur og það hefur gengið vel. En ef það er of naumur meirihluti þá er til í stöðunni hjá Sjálfstæðismönnum að leita samninga með Vinstri Grænum eða Samfylkingu. 

Ef þeit tveir kostir eru skoðaðir frá sjónarhóli Sjálfstæðismanna þá er ólíkt fýsilegra að mynda stjórn með Samfylkingu, sérstaklega ef það verður orðinn pínulítill flokkur sem hefur ekki ofurdramb þess sem telur að hann sé sigurvegari. Svo eru sjónarmið um hvernig eigi að standa að stjórn landsins og áhersla á atvinnumál miklu svipaðri hjá Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu heldur en hjá Sjálfstæðisflokk og Vinstri Grænum. Það þarf heldur ekkert að hafa áhyggjur af því að umhverfismálin verði ekki mál allra flokka á næstu misserum, sennilega munu Sjálfstæðismenn sem og aðrir flokkar vinna í því á næsta kjörtímabili að stela allri stefnu Vinstri Grænna og gera að sinni, svona eins og þeir gerði við stefnu Kvennalistans. Ég var svo ánægð með stefnu Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum síðasta vor þegar Villi vann með bleikum slagorðum og bleikri stefnuskrá. Þetta var bara alveg eins og að vera í Kvennalistanum í kringum 1980  og að vera í Sjálfstæðisflokknum í borgarmálum 2006. Það er nú líka eðli Sjálfstæðisflokksins að skynja ekki tíðarandann fyrr en svona aldarfjórðungi á eftir öðrum Grin

Ef stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokk versus með Vinstri grænum (og undir forustu Vinstri Grænna) er skoðuð frá sjónarhóli Samfylkingarinnar þá verða bara Samfylkingarmenn að horfast í augu við það fyrr eða síðar að aðalóvinur Samfylkingarinnar er Vinstri Grænir og ef menn eru ekki þeim mun trúaðri á að sameining þessara stjórnmálaafla verði að veruleika þá er fáránlega vitlaust af Samfylkingarfólki að efla óvin sinn til valda.

En það eru eins og allir vita bara málefnin sem ráða hvernig stjórn verður mynduð eftir kosningar, þar er enginn stjórnmálaleiðtogi neitt að spá í framtíð sinnar fylkingar heldur bara að spá í hvað er best fyrir Ísland Wink

 


mbl.is Fylgi Samfylkingar minnkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græn skref í Reykjavík

Mér líst vel á áætlunina Græn skref í Reykjavík. Vonandi halda stjórnendur borgarinnar áfram á sömu braut. Eina sem mér finnst orka tvímælis er að verðlauna þá sem eru með vistvæna bíla með því að leyfa þeim að parkera ókeypis. Það orkar tvímælis á sama hátt og ef tannlæknir verðlaunaði barn sem hefur enga skemmda tönn með því að gefa því sælgæti. Reykjavík er borg bílanna og sennilega breytist það ekki í bráð. Veðráttan hérna og fámennið og strjál byggðin veldur því að ekki er auðvelt að koma við tíðum ferðum almenningsfarartækja og velmegunin er svo mikil að það geta flestir átt bíla. En það er atriði að við byggjum upp griðastaði í borgarlandinu þar sem bílar eru ekki velkomnir og  styðjum ekki við bílismann og niðurgreiðum ekki  það val fólks að vera á einkabílum og taka upp pláss fyrir bíla á götum og parkeringsstæðum, nema náttúrulega það sé fólk sem er fatlað eða á erfitt með gang.  Það er víðáttuvitlaust að það sé ókeypis að leggja bílum við marga háskóla miðsvæðis í Reykjavík, það er engan veginn partur af menntun að sjá nemendum fyrir ókeypis  geymslusvæði fyrir bíla.

Ég fór að pæla í hvað mér þætti mikilvægast  til að gera Reykjavík að grænni borg. Eitt er  að mér ofbýður ruslið í Reykjavík að vorlagi þegar snjóa leysir. Reykjavík er mjög snyrtileg og fín borg yfir hásumarið þegar krakkarnir úr unglingavinnunni og vinnuflokkunum hafa puntað allt. En veðráttan er  þannig að hér er enginn snjór t.d. núna í apríl en engir eru til að tína ruslið sem alls staðar flýtur meðfram vegum. Ég bendi fólki sérstaklega á að keyra Ártúnsbrekkuna, eina fjölförnustu götu í Reykjavík og skoða vegakantana, þar flýtur allt í rusli. Ef ég væri að keyra erlendis á svona stöðum þá myndi ég verða dauðhrædd, það er alls staðar merki um að maður sé kominn inn í verslu slömmin þegar ruslið feykist svona á móti manni.  Það er núna þannig að það líður allt of langur tími þangað til krakkarnir í unglingavinnunni byrja og það verður einhver veginn að brúa þetta bil og það verður líka að virkja sem flesta borgarbúa í að taka þátt í þessu. Hvernig væri að virkja skólana og/eða félagasamtök í að hreinsa rusl meðfram vegum - væri ekki hægt að styrkja þetta á einhvern hátt t.d. að skólarnir fengju þannig fé í félagsmál/hverfahátíðir?

Annað sem myndi prýða Reykjavík mikið er fleiri trjálundir við iðnaðarsvæði og blokkarhverfi og skólalóðir og verslunarmiðstöðvar

Á þeim stöðum þar sem fólk býr í einbýlishúsum eða raðhúsum eru garðar víðast hvar fallegir og vinjar þar sem fólk getur notið sumarsins og góða veðursins. Hins vegar er það þannig að mjög víða eru garðar og svæði  við blokkir eru mjög óspennandi , engin tré heldur bara skjóllausar grasflatir og malbikuð bílastæði. Þannig eru útivistarsvæðin við skóla líka oft og í iðnaðarhverfum eru oft mjög nöturlegt og hvergi tré að sjá. Það sama á reyndar líka við um verslunarmiðstöðvar eins og Spöngina í Grafarvogi. Svona staðir væru miklu skemmtilegri ef það væru gróðursett tré sem verða með tímanum hávaxin eins og hlynur. Það myndi prýða borgina mikið ef núna strax væri hugað að því að búa til trjálundi eða einstök tré sem geta seinna myndað skjól og búið til fjölbreyttari götumynd á samgönguæðum gangandi fólks.

 Það vantar alveg að huga að því að gróðursetja tré sem verða stór - flest stór tré eru aspir sem eru alls ekki heppileg tré í þéttbýlu borgarlandi, alla vega ekki nálægt lögnum.  

Fegrun umferðarmannvirkja

Stór hluti af ásýnd borgar og rými í borg eins og Reykjavík er umferðarmannvirki - alls konar brýr, aðreinar og hraðbrautir. Það er ekkert náttúrulögmál að svona mannvirki þurfi að vera ljót og að þar megi ekki sjást neitt stingandi strá. Í hverfinu sem ég var í París fyrir tveimur sumrum þá man ég eftir að hafa séð gróður sérstaklega hannaðan fyrir brýr yfir hraðbrautir, þar voru gróðursett tré (t.d. birki) sem eins og uxu á brúnni og stærri tré slúttu yfir á endum brúnna þar sem var meiri jarðvegur.  Það er líka flott að sjá hvernig sums staðar eru listavirk á umferðarmannvirkjum sem gleðja alla sem aka um. 

 Ókeypis farartæki t.d. hjól

Í nokkrum evrópskum borgum t.d. Kaupmannahöfn er boðið upp á ókeypis hjól, það má taka hjól á ákveðnum stöðum og svo á maður að skilja þessi sömu hjól eftir á ákveðnum stöðum þegar maður er búin að nota þau. Þessi hjól eru sérmerkt og í ákveðnum skærum  litum þannig að allir sjá að þetta eru almenningshjól og það er bannað að geyma þau hjá sér. það mætti t.d. prófa svona hjólakerfi við einhverja fallega hljólaleið með ströndinni í Reykjavík, ég hugsa að aðkomufólk í Reykjavík, erlendir ferðamenn og fólk utan af landi sem ekki hefur tök á að koma með hjól með sér muni taka fegins hendi að geta hljólað einhverja leið eða hluta af einhverri leið - þó það gengi stóran part leiðarinnar. Mér fannst gaman sjálfri að nota svona hljól þegar ég var í Kaupmannahöfn. Þetta er líka tilraun í hvernig fólk gengur um sameign - að venja fólk á að ef einhverjir hlutir eiga að vera ókeypis þá verða að vera strangar reglur og fólk verður að hlýða þeim og taka tillit til að aðrir verða líka að fá að njóta gæðanna. Það væri gaman ef gerð væri tilraun með svona hljól í Reykjavík. 

Þetta minnir mig nú á að ég á núna ekki hjól. Ásta var með hjólið mitt í láni og því var stolið í vetur. Þetta var gott hjól með dempurum. Ég stefni að því að kaupa fljótlega annað hjól og hjóla í sumar um öll þessi fínu útivistarsvæði í Reykjavík.  Mér finnst Reykjavík mjög falleg borg. Sérstaklega finnst mér strandlengjan falleg og  Laugarnesið  langfallegast, þar er ég líka alin upp og lék mér í fjörunni sem barn og hef fylgst með breytingum þar í marga áratugi en svo finnst mér líka Öskjuhlíðin og Heiðmörk algjörar náttúruperlur og ströndin fyrir neðan Staðahverfi er engu öðru lík, þar er gífurlega fallegt og þar er fjölskrúðugt fuglalíf allan ársins hring og oftast þegar ég  geng þar sé ég líka hóp af selum. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband