Ekki fallegt hjá Mogganum

Það er virkilega ótuktarlegt hjá Mogganum að skemma stemminguna á landsfundi Samfylkingarinnar sem núna stendur yfir með neyðarlegum fréttafyrirsögnum eins og þessari: "Fylgi Samfylkingarinnar minnkar enn".  Næsta frétt er svo stefnuræða Ingibjargar Sólrúnar formanns Samfylkingarinnar.  Þessi  samsetning frétta er mjög augljóslega til að draga úr kraftinum í orðum hennar. Það  er öðruvísi kastljós  hjá Morgunblaðinu - blaði allra landsmanna - á landsfundi Sjálfstæðisflokksins , þar er vefvarp og fyrirsögnin þar er "Bjartsýni sögð einkenna landsfund Sjálfstæðisflokksins" og í þeirri frétt er mærðarleg rulla sem endurtekur fyrirsögnina  eins og "Segja fundarmenn mikla stemningu vera á fundinum og bjartsýni og baráttuhug ríkjandi".  Merkileg ekki frétt. Veit einhver um stjórnmálaflokk þar sem ekki er stemming og bjartsýni og baráttuhugur  korter fyrir kosningar?

Mikið er gaman að sumt breytist ekkert í íslensku samfélagi, frá því að ég man eftir þá hefur Mogginn alltaf breytt svona í kringum kosningar og fengið þá á sig heiðbláa slikju þó hann geti verið fölbleikur og grár og ómarsumhverfisgrænn þess á milli. Annars get ég ekki betur séð en allt sé á niðurleið hjá Sjálfstæðisflokknum frá síðustu viku þegar ég rýni í þessu fínu og litríku súlurit, mér sýnist bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur pompa álíka mikið niður milli vikna (eitthvað tæp 10 %) í skoðanakönnunum þannig að það skýrir ekki þessa skrýtnu fjölmiðlun hjá mbl.is 

Vinstri grænir eru áfram á bullandi siglingu, þau eru nú óumdeilanlega senuþjófarnir í þessari kosningabaráttu með flott málefni eins og kvenfrelsi og náttúruvernd. Framsókn réttir mikið úr kútnum frá  síðustu skoðanakönnun - mælist núna með 9.9 % en mældist áður með 8.1%. Hafa verður í huga að Framsókn sækir jafnan á í sjálfum kosningunum - ólíkt Sjálfstæðisflokknum sem mælist jafnan með meira fylgi í skoðanakönnunum en hann hefur í kosningum. 

Það er  mjög áhugavert að skoða hve miklu munar á milli kynja  hvaða stjórnmálaflokka fólk styður. Sérstaklega er áhugavert að sjá að 33,1 % kvenna styðja Sjálfstæðisflokkinn. Maður getur ekki annað en velt fyrir sér fyrir hvað? Sennilega eru þetta konur sem eru fæddar inn í  Sjálfstæðisfjölskyldur og hafa ekki mikið velt fyrir sér þeim möguleika að kjósa aðra flokkaSmile

Annars er gaman að spá í það að því meira sem Samfylkingin skreppur saman þeim mun líklegra er að hún komist til valda að loknum kosningum og þeim mun ólíklegra er að Vinstri Grænir komist í stjórn. Sá flokkur sem væntanlega mun leiða stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningar er Sjálfstæðisflokkurinn. Það eru nokkrir kostir í stöðunni að fá einhverja til fylgilags við sig. Það getur verið sama stjórn og áður þ.e. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, það er þekkt mynstur og það hefur gengið vel. En ef það er of naumur meirihluti þá er til í stöðunni hjá Sjálfstæðismönnum að leita samninga með Vinstri Grænum eða Samfylkingu. 

Ef þeit tveir kostir eru skoðaðir frá sjónarhóli Sjálfstæðismanna þá er ólíkt fýsilegra að mynda stjórn með Samfylkingu, sérstaklega ef það verður orðinn pínulítill flokkur sem hefur ekki ofurdramb þess sem telur að hann sé sigurvegari. Svo eru sjónarmið um hvernig eigi að standa að stjórn landsins og áhersla á atvinnumál miklu svipaðri hjá Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu heldur en hjá Sjálfstæðisflokk og Vinstri Grænum. Það þarf heldur ekkert að hafa áhyggjur af því að umhverfismálin verði ekki mál allra flokka á næstu misserum, sennilega munu Sjálfstæðismenn sem og aðrir flokkar vinna í því á næsta kjörtímabili að stela allri stefnu Vinstri Grænna og gera að sinni, svona eins og þeir gerði við stefnu Kvennalistans. Ég var svo ánægð með stefnu Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum síðasta vor þegar Villi vann með bleikum slagorðum og bleikri stefnuskrá. Þetta var bara alveg eins og að vera í Kvennalistanum í kringum 1980  og að vera í Sjálfstæðisflokknum í borgarmálum 2006. Það er nú líka eðli Sjálfstæðisflokksins að skynja ekki tíðarandann fyrr en svona aldarfjórðungi á eftir öðrum Grin

Ef stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokk versus með Vinstri grænum (og undir forustu Vinstri Grænna) er skoðuð frá sjónarhóli Samfylkingarinnar þá verða bara Samfylkingarmenn að horfast í augu við það fyrr eða síðar að aðalóvinur Samfylkingarinnar er Vinstri Grænir og ef menn eru ekki þeim mun trúaðri á að sameining þessara stjórnmálaafla verði að veruleika þá er fáránlega vitlaust af Samfylkingarfólki að efla óvin sinn til valda.

En það eru eins og allir vita bara málefnin sem ráða hvernig stjórn verður mynduð eftir kosningar, þar er enginn stjórnmálaleiðtogi neitt að spá í framtíð sinnar fylkingar heldur bara að spá í hvað er best fyrir Ísland Wink

 


mbl.is Fylgi Samfylkingar minnkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er hreint snilldarleg greining hjá þér. Þú segir allt sem ég hef verið að hugsa um aðferðafræði Moggans þegar líður að kosningum. Það væri líklega hámark bjartsýninnar að fara að ímynda sér að Mogginn myndi breyta um taktík í framsetningu á fréttum í aðdraganda kosninga. Svona hefur hann verið frá því ég man fyrst eftir mér og svona mun hann verða um ókomin ár. En það er fyrir löngu kominn tími til að Mogginn láti af þessari endalausu neikvæðu umfjöllun um Ingibjörgu Sólrúnu. Það er þekkt staðreynd að Mogginn mun alltaf mæra formann Sjálfstæðisflokksins og ég get alveg fyrirgefið honum það en að taka einn formann stjórnarandstöðuflokks fyrir með endalausri neikvæðri umfjöllun eins og hann gerir við Ingibjörgu Sólrúnu finnst mér orðið gjörsamlega óafsakanlegt og miðlinum til vansa.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 21:48

2 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæl Salvör.

Égheld að ég sé með skýringuna á þessu tapi! Voru þau ekki öll á þinginu þegar hringt var út þessa skoðanakönnun?

Bestu kveðjur og farðu að kíkja til okkar á kosningaskrifstofuna.

Sveinn Hjörtur , 13.4.2007 kl. 22:41

3 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Spurning hvort skýringin á slöku gengi framsóknar hafi þá verið að Sveinn Hjörtur hafi verið of upptekinn við að uppfæra brandrabókina sína til að svara í símann.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 14.4.2007 kl. 03:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband