Fyrsta prentaða bókin á íslensku

Þann 12. apríl  árið 1540  kom úr prentun  Nýja-testamenti sem Oddur Gottskálksson þýddi. Þetta er talin fyrsta bók sem prentuð var á íslensku. Sagan segir að Oddur hafi bardúsað við þýðinguna í laumi út í fjósi. Hann var skrifari hjá Ögmundi Pálssyni biskupi í Skálholti. Oddur var lútherstrúar þó hann væri skrifari hjá kaþólskum biskupi. Hann var reyndar líka biskupssonur, sonur Gottskálks grimma Nikulássonar sem var biskup á Hólum 1496- 1520. Hann var svo vinur Gissurs Einarssonar sem varð Skálholtssbiskup eftir siðskiptin og fékk til ábúðar Reyki í Ölfusi leigulaust og síðar Reykholt og svo Reynistað. Hann var þó ekki prestur.

 


Blogg og stjórnmál í Víðsjá

Ég var í viðtali um blogg og stjórnmál í Víðsjá áðan. Hér má hlusta á upptökuna (aftast í þættinum). Guðni spjallar þá við tvo moggabloggara mig og Eirík Bergmann um hvaða áhrif bloggið hefur á íslensk stjórnmál. Ég hef sjálf bloggað í sex ár og fylgst með þróun bloggs á Íslandi - frá því að vera tómstundagaman fámenns hóps nokkurra tölvunörda sem höfðu aðgang að réttum græjum upp í að vera algengur tjáningarmáti stórs hluta þeirra sem tjá sig um þjóðfélagsmál á Íslandi.

Gleðilega páska!

PáskaeggjamótÉg er komin til landsins og hef verið að dunda við að snúa sólarhringnum aftur til baka, það tekur nokkra daga að jafna sig á því að koma úr tímabelti sem er nokkrum klukkutímum á eftir okkur. Mér finnst nú ansi napurt á Íslandi en ég sé ýmis konar merki um vorið. Úti í garði er grasið farið að grænka og blöðin á páskaliljunum komin upp og svo flaggar öll Reykjavík eins og vanalega að vorlagi með plastdræsum við alla vegi, dræsum sem festast í limi trjána svo þau virka eins og í blóma - eins og blómstrandi plastblómum. 

Páskarnir eru vorhátíð, hátíð þar sem fagnað er því þegar jörðin vaknar af vetrardvala. Tákn páskanna í  bandarískum verslunum eru egg, ungar og kanínur. Allt er þetta frjósemistákn, merki um líf sem vex upp, merki um að bráðum kemur betri tíð með blóm í haga. Hér á Íslandi er eggjasiðurinn tengdur súkkulaðieggjum. Ég gerði   páskavef fyrir næstum áratug  þar sem ég fjallaði m.a. um páskaeggjaframleiðslu bæði í heimahúsi og verksmiðju, páskaföndur og fleira. Á hverju ári fæ ég fyrirspurnir um hvar sé hægt að kaupa svona páskaeggjamót. Ég hugsa að margir hafi áhuga á að gera sín páskaegg sjálfir. Þessi plastmót keypti mágkona mín fyrir áratug í einhverri föndurbúð og á hennar heimili hafa verið steypt mörg páskaegg á hverju ári og krakkarnir hafa sjálfir ákveðið fyllinguna. Þetta hefur verið miklu  ódýrara en tilbúnu páskaeggin en það hefur líka verið gaman og einfalt að búa til páskaeggin sjálfur.

Af fjölskyldunni er það að frétta að dætur mínar fóru vestur um páskana á skíði og  Aldrei fór ég suður hátíðina á Ísafirði og gistu í Heydölum, á Flateyri og heimsóttu systur mína á Hanhóli í Bolungarvík.  Þær komu í suður í dag. Sú yngri er komin með nýjan kærasta. Eldri bróðir minn hringdi áðan, hann er staddur í Ríó og er byrjaður að blogga á moggablogginu. Hann segist þó ekki vera bloggari og kallar bloggskrif sín "að setja inn greinar" en það er víst eitthvað virðulegra en við hin gerumWink Systir mín brá sér á ráðstefnu á Spáni fyrir viku síðan en mun væntanlega halda kyrru fyrir næstu vikurnar því hún á von á barni um miðjan maí.


Á ferð og flugi

Nú er ég á leið heim, þegar ég skrifa þetta þá er ég stödd á Logan flugvelli í Boston og flýg héðan í kvöld og kem á morgni föstudagsins langa til klakans. Þegar ég bókaði ferðina þá passaði ég að stilla ferðina þannig að ég kæmist nú örugglega í vinnu á föstudegi. Fattaði svo seinna að þetta var ekki sv sniðugt, ég hafði gleymt að föstudagurinn er helgidagur og  það er víst lítið hægt að útrétta á föstudaginn langa.

Í fyrradag heimsótti ég háskólann í Austin og skoðaði háskólasvæðið, ég hitti Dorothy frá Taiwan sem er hér í doktorsnámi  og sem ég kynntist á ráðstefnunni í San Antoníó og hún sýndi mér háskólann. Það var tilbreyting að ganga um í stað þess að vera alltaf á bíl. Það er nánast ómögulegt að vera á bíl á háskólasvæðinu, það er allt í lagi að keyra um en hvergi má leggja bíl nema hafa einhver sérstök leyfi og passa. Háskólinn rekur mikið almenningssamgöngukerfi sem er frítt fyrir háskólanema, það heitir UT shuttle og reyna háskólanemarnir að taka þessa strætisvagna í skólann þó þeir eigi bíla. Þetta léttir heilmikið á umferðinni í borginni og hefur Austin sérstöðu í USA að þessu leyti, almenningssamgöngukerfi stætisvagna er hér þróaðra en annars staðar. 

Það er brýn nauðsyn á því að pælt sé í samgöngumálum við þá háskóla sem núna eru í Reykjavík og allar líkur eru á að háskólarnir þjappist ennþá meira saman á minna svæði sem mun setja mikinn svip á Reykjavík - Háskóli Reykjavíkur í Vatnsmýrinni, Háskóli Íslands á melunum og Listaháskólinn niður við sjó.  Þó við getum verið sammála um að háskólamenntun eigi að vera ókeypis eða næstum ókeypis og aðgengi að háskólanámi gott þá ætti ekki endilega að gilda það sama um aðgengi að bílastæðum. Er einhver ástæða til að niðurgreiða bílastæði fyrir háskólanemendur? Er það ekki þvert á móti alveg á móti allri umhverfishyggju að stuðla á þann hátt að auknum umferðarþunga og nota peninga sem eru á fjárlögum eyrnamerktir fyrir menntun í eitthvað allt annað - eitthvað sem er frekar ekki-menntun þ.e. að venja nemendur við að gera ráð fyrir að þeir eigi rétt á ókeypis bílastæðum í miðbæ Reykjavíkur og það sé partur af skólagöngu þeirra að taka þátt í að byggja upp borg bílamenningar - í stað þess að niðurgreiða almenningssamgöngur og hafa sérstaka háskólastrætisvagna. Er ekki miklu skynsamlegra að það sé frítt í strætó fyrir háskólanema en þeir sem kjósa að koma á bíl greiði fyrir parkeringu eðlilegt verð.

Þ


The Secret

Ég fór í verslunarferð í gær, keypti tónlist og mynddisk. Það er viðeigandi að kaupa tónlist hérna í Austin, þetta er tónlistarhöfuðborg heimsins, hér eru árlega heimsþekktar tónlistarhátíðir og hér gekk Janis Joplin um garða. Ég  keypti mynddiskinn The Secret og svo keypti ég tónlist með Lila Downs. Ég vissi ekkert um þessa söngkonu en nafnið minnti mig á Lilju Eysteins svo ég valdi hana úr búnkanum og hlustaði á nokkur lög. Ég vildi kaupa spænska tónlist svo ég gæti æft mig í spænsku. Hér í Austin er þriðjungur íbúa spænskumælandi en í San Antonío snýst það við, þar eru tveir þriðju hlutar spænskumælandi.

Mynddiskurinn The Secret er með því heitasta í sjálfshjálpar- og nýaldarfræðum hérna. Hann tengist The Law af Attraction sem gengur út á að nota hugarorkuna á jákvæðan hátt. Bæði Larry King o og Oprah Winfrey hafa nýlega gert þætti um þessa speki og það er óbrigðult merki um að þetta er tískustraumurinn í Ameríku. Ég ætla að reyna að kynna mér þessar kenningar eða ráðleggingar án þess að ana beint í fordóma og afskrifa þetta sem trúarvingl. Sálfræðingar hafa lýst þessari bók eins og "pseudoscientific, psychospiritual babble." Ég  spái  í hvers vegna svona kenningar eru vinsælar og hvaða tómarúm þær fylla í sál þeirra sem aðhyllast þær. 

 

 


Sex ára bloggafmæli - Hátíðarhöld í Texas og á Íslandi

Ég hélt upp á sex ára bloggafmæli mitt í gær, ég stofnaði mitt einkablogg 1. apríl árið 2001 og fyrsta bloggið var um fjölmiðla og hverjir búa til sannleikann. Árið 2003 hélt ég 1. apríl  upp á tveggja ára bloggafmælið með framhaldsstofnfundi Femínistafélags Íslands en einmitt þann  dag opnuðum við vefinn www.feministinn.is sem ég sá um fyrstu tvö árin. 

salvor-moggi Það var gaman að Morgunblaðið tók þátt í blogghátíðarhöldum mínum í gær með því að birta mynd af mér og viðtal sem Inga Rún tók við mig.  Viðtalið var nú reyndar ekki út af hinum glæsta bloggferli mínum heldur var þetta hluti af  umfjöllun um Wikipedia. Viðtalið við mig (ég hef ekki séð blaðið ennþá, bara á gagnasafni Mbl) var þrælgott og titillinn er  "Notandinn skapar verðmætin" og mér finnst vænst um eftirfarandi kafla:

Þekkingin á Wikipediu byggist upp með notandanum. "Notandinn skapar verðmætið. Þú ert aldrei bara neytandi eða framleiðandi þekkingarinnar. Þú setur inn grein og notar hana aftur einu eða tveimur árum seinna. Nám snýst ekki lengur um að nemendur lesi bara ákveðnar bækur heldur meiri þátttöku og sköpun. Endurblöndun er orð dagsins. Verkfæri til sköpunar og þátttöku þekkingarneytandans, eru orðin miklu fleiri. Hingað til opnaði neytandinn bara bókina og las hana. Eina sem hann gat stjórnað var kannski að gera hlé á lestrinum eða byrja í miðju. En núna getur hann líka bætt við bókina. Það er eitthvað sem er ekki hægt að gera í prentaðri bók," segir Salvör og útskýrir nánar: "Þetta minnir í raun meira á munnlega geymd. Eins og þekking var áður en hún var læst inni í helgum bókum. Eins og þekking hefur alltaf verið, hún flæðir og er síkvik og sívaxandi.

Moggaviðtalið er hérna á gagnasafni Mbl. (það þarf innskráningu)

 Hérna í Austin í Texas hélt ég með stæl upp á bloggafmælið. Ég þekki enga í borginni svo ég skráði mig í meetup og mætti á laugardagskvöldið í  veislu hjá hóp sem kannar saman næturlífið í Austin. Það voru eitthvað um tuttugu manns sem borðuðu saman á veitingastaðnum Vivo á Manor stræti og svo var farið saman á einhverja bari. Ég lagði nú ekki í barferðina því ég rata svo lítið hérna og vildi ekki vera rammvillt um miðja nótt. 

texas-salvor 005   texas-salvor 001

 Myndir úr fagnaði næturlífskönnuða 31. mars

Í gær fór ég svo á annað meetup en núna hjá hóp sem kannar saman kaffihús, Austin Coffee and Wine Meetup Group. Við hittumst á útikaffihúsinu Javahive í Hilton hótelinu kl. 10 á sunnudagsmorgni  og spjölluðum saman í um tvær klukkustundir. Þetta er í annað skipti sem ég fer í meetup hjá kaffihúsahópnum, ég fór fyrir rúmri viku með þeim á annað kaffihús á fimmta stræti í gamla verksmiðjuhverfinu, það var svona hipp og kúl kaffihús sem er innréttað í gömlu vöruhúsi. Öll þessi þrjú meetup sem ég hef farið í hérna í Austin hafa verið skemmtileg og ég hef kynnst og spjallað við fullt af fólki sem býr hérna. 

Ég hef farið í svona meetup líka í Barcelona og París og það hefur líka gengið vel. Þetta er fín leið fyrir þann sem er nýkominn í eitthvað samfélag eða gestkomandi um stund. Þeir sem sækja svona meetup eru fólk sem þegar er opið fyrir að hitta annað fólk með sömu áhugamál (já það er áhugamál að hanga á kaffihúsum og skoða næturlífið). Ég fékk nú reyndar upprunalega áhuga á svona meetup vegna þess að ég las að þetta væri notað með góðum árangri í bandarískum stjórnmálum, fólk sem hefur sameiginlegar skoðanir kemur saman og spjallar um mál sem eru þeim hugleikin. Sumir hóparnir eru nú einhvers konar sjálfshjálparhópar. 


Keyrt eftir Google maps

Ráðstefnan er búin og ég keyrði til Austin frá San Antonio. Ég prófaði að fara eftir google maps, sló inn heimilisfangið sem ég fór frá í San Antonío og heimilisfangið sem ég fór til í Austin. Þá fær maður ansi nákvæmar leiðarlýsingar bæði lista yfir hvað maður á að gera og svo kort.

Það gekk alveg ágætlega þangað til ég kom til Austin, þá ruglaðist ég eitthvað og varð að keyra nokkra hringi þangð til ég fann út hvað ég átti að koma að mótelinu. 

Google maps leiðarkort frá San Antonio til Austin

Það verður flott þegar maður verður kominn með google maps í bílinn og sjálfvirk gps staðsetningartæki þannig að alltaf sé merkt inn á hvar maður er. Það getur ekki verið langt í það. Þá verður miklu einfaldara að ferðast á eigin vegum. En það er spurning um hvort þjóðfélagið er að fara í rétta átt með svona ofboðslegum bílakúltúr eins og hérna. En það er afar þægilegt að ferðast hérna um í bíl, það virðist allt gert frekar fyrir bíla og fólk í bílum, allar merkingar eru þannig að maður sér þær úr bílum og reyndar eru amerískir Interstate vegir mikið tækniundur og er ekki  hægt annað er hrífast af þessum umferðarslaufum sem spanna oft margar hæðir og búa til landslag og kennileiti. Reyndar er ljósadýrðin í kringum Interstate vegina líka falleg og heillandi ef maður gleymir því að þetta eru allt auglýsingar. 


Meira um San Antoníó

Hér er ég með fjórum konum sem ég kynntist á ráðstefnunni í San Antonió. Þær eru allar í doktorsnámi í upplýsingatækni og menntun, tvær í  Austin í Texas, ein í Illinois og ein í Florida. Tvær eru frá Suður Kóreu, ein frá Taiwan og ein frá Líbanon.  Í hádegishléinu gengum við meðfram ánni í miðbæ San Antonio, þar eru fallegir göngustígar, þetta er kallað Riverwalk. Seinni partinn fór ég með Hanidi  frá Líbanon í skoðunarferð, við keyrðum um borgina og skoðuðum gömlu hverfin  og fórum í Alamo sem er einn af sögustöðum Bandaríkjanna. Um kvöldið gengum við svo um uppljómaða göngustígana við ána og borðuðum á einum veitingastaðnum þar.

   

salvor-texas 189

 

 salvor-texas 197

salvor-texas 031

 

Hér er ég í Alamo við vöxtulega kaktusa. Fólk borðar svona kaktusa.

 

salvor-texas 019

San Antonio í Texas

Ég er núna á ráðstefnunni SITE 2007 í borginni San Antonio í Texas. Það er nú ekki neitt sérstaklega hlýtt hérna, reyndar alveg ískalt hérna í ráðstefnusölunum. Einmitt núna sit ég á fyrirlestri um "Digital storytelling".  Ég kom hingað í fyrradag, keyrði hingað frá Austin og lenti nú ekki í neinum sérstökum vandræðum á leiðinni nema þegar löggan stoppaði mig þegar ég var komin inn í miðborgina. Ég er ekki alveg viss um fyrir hvað, það var löggubíll við hliðina á mér á næstu akgrein og ég reyndi að halda mig eins fjarri honum og hægt var og hef sennilega yfirdrifið það eitthvað því lögreglan setti upp blikkljós og byrjaði að elta mig. Ég náttúrulega keyrði strax út í kant og löggan skipaði mér að vera í bílnum og það kom líka annar löggubíll á vettvang, þeir tóku ökuskírteinið mitt og voru óratíma að tékka og bardúsa en virtust svo komast að þeirri niðurstöðu að ég væri ekki ógn við almannaheill í borginni og kvöddu mig alúðlega. Það er alls ekki neitt þægilegt að vera ein á ferð í bíl í myrkri í niðurníddu verksmiðjuhverfi í ókunnri stórborg hundelt af löggum.

 

 


Gert grín að Hillary

Internetið hefur áhrif í kosningabaráttunni hér í USA. Frambjóðendur ná til yngri kjósenda sem sækja sína visku meira á Netið en úr dagblöðum og ljósvakamiðlum, frambjóðendur ná líka til þeirra hópa sem eru mestu aktívistarnir og hafa sterkustu skoðanirnar á þjóðmálum (málverjar og bloggarar allra landa sameinist!) en með þessari nýju einstaklingsbundnu tjáningu þá verður kosningabaráttan líka ruddalegri. Þetta seinasta er reyndar sérstakt áhyggjuefni hérna á Íslandi, það er skemmtilegur hluti af þjóðareðlinu að vera rustalegur og margir bloggarar og málverjar tjá sig á sinn séríslenska hátt í yfirgengilega groddalegum og rætnum árásum á nafngreinda einstaklinga og virðast aldrei velta fyrir sér ábyrgð sinna skrifa.

það hafa nú reyndar engin dómsmál sem ég man eftir verið háð, nema náttúrulega þegar auðmaðurinn Jón flutti sig til útlanda og fór í mál í Bretlandi. Jón mátti alveg reiðast, það er hreinn ótuktarskapur að bera dópsölu upp á fólk en það er hæpið að fleiri geti leikið það eftir að stóla á breska dómstóla að kenna Íslendingum kurteisi.  Talandi um æruleysi og pólitík þá er eitt fyrsta tilvikið sem ég man eftir af slíku mjög óvægin nafnlaus árás sem var á Hrannar forkólf í Reykjavíkurlistanum, það var sett upp nafnlaus vefsíða til að gera hann tortryggilegan vegna fjárhagserfiðleika . Ég vona að við eigum ekki eftir að sjá mikið af rætnu slúðri í framtíðinni en ég er næstum viss um að það gengur ekki eftir, það virðast allir fjölmiðlar keppast núna við einhvers konar uppljóstranir þar sem miklar sakir eru bornar á nafngreinda menn og reyndar allt samfélagið kóa með í þessu, hvað varð að réttarstöðu grunaðra?  

 Það er tímanna tákn að nú hefur  "negative advertisment" mest áhrif ef það sett upp á youtube. Hér er vídeó sem yfir tvær milljónir manna hafa skoðað sem hæðist að Hillary forsetaframbjóðenda. Annað vinsælt vídeóklipp er af  henni þar sem hún syngur falskt þjóðsöng Bandaríkjamanna.

 


Ég er náttúrulega mikill aðdáandi Hillarys og afar ósátt við þessa kaldhæðni, ég  tjáði mig um það í kommentunum en þau eru orðin yfir 5200 þannig að mín orð drukkna þar eins og annarra. Mér finnst þetta vídeóklip sem á að vera einhver skopstæling á Orwell 1984 vera frekar eins og kopía af revovling door auglýsingunni frá 1988 og ég vona að Bandaríkjamenn átti sig á því að það er ekki eðlilegt að fólki í fangelsum fjölgi og fjölgi og ímynd þeirra í heiminum sé tengd fangaflutningum og fangabúðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband