Sex ára bloggafmæli - Hátíðarhöld í Texas og á Íslandi

Ég hélt upp á sex ára bloggafmæli mitt í gær, ég stofnaði mitt einkablogg 1. apríl árið 2001 og fyrsta bloggið var um fjölmiðla og hverjir búa til sannleikann. Árið 2003 hélt ég 1. apríl  upp á tveggja ára bloggafmælið með framhaldsstofnfundi Femínistafélags Íslands en einmitt þann  dag opnuðum við vefinn www.feministinn.is sem ég sá um fyrstu tvö árin. 

salvor-moggi Það var gaman að Morgunblaðið tók þátt í blogghátíðarhöldum mínum í gær með því að birta mynd af mér og viðtal sem Inga Rún tók við mig.  Viðtalið var nú reyndar ekki út af hinum glæsta bloggferli mínum heldur var þetta hluti af  umfjöllun um Wikipedia. Viðtalið við mig (ég hef ekki séð blaðið ennþá, bara á gagnasafni Mbl) var þrælgott og titillinn er  "Notandinn skapar verðmætin" og mér finnst vænst um eftirfarandi kafla:

Þekkingin á Wikipediu byggist upp með notandanum. "Notandinn skapar verðmætið. Þú ert aldrei bara neytandi eða framleiðandi þekkingarinnar. Þú setur inn grein og notar hana aftur einu eða tveimur árum seinna. Nám snýst ekki lengur um að nemendur lesi bara ákveðnar bækur heldur meiri þátttöku og sköpun. Endurblöndun er orð dagsins. Verkfæri til sköpunar og þátttöku þekkingarneytandans, eru orðin miklu fleiri. Hingað til opnaði neytandinn bara bókina og las hana. Eina sem hann gat stjórnað var kannski að gera hlé á lestrinum eða byrja í miðju. En núna getur hann líka bætt við bókina. Það er eitthvað sem er ekki hægt að gera í prentaðri bók," segir Salvör og útskýrir nánar: "Þetta minnir í raun meira á munnlega geymd. Eins og þekking var áður en hún var læst inni í helgum bókum. Eins og þekking hefur alltaf verið, hún flæðir og er síkvik og sívaxandi.

Moggaviðtalið er hérna á gagnasafni Mbl. (það þarf innskráningu)

 Hérna í Austin í Texas hélt ég með stæl upp á bloggafmælið. Ég þekki enga í borginni svo ég skráði mig í meetup og mætti á laugardagskvöldið í  veislu hjá hóp sem kannar saman næturlífið í Austin. Það voru eitthvað um tuttugu manns sem borðuðu saman á veitingastaðnum Vivo á Manor stræti og svo var farið saman á einhverja bari. Ég lagði nú ekki í barferðina því ég rata svo lítið hérna og vildi ekki vera rammvillt um miðja nótt. 

texas-salvor 005   texas-salvor 001

 Myndir úr fagnaði næturlífskönnuða 31. mars

Í gær fór ég svo á annað meetup en núna hjá hóp sem kannar saman kaffihús, Austin Coffee and Wine Meetup Group. Við hittumst á útikaffihúsinu Javahive í Hilton hótelinu kl. 10 á sunnudagsmorgni  og spjölluðum saman í um tvær klukkustundir. Þetta er í annað skipti sem ég fer í meetup hjá kaffihúsahópnum, ég fór fyrir rúmri viku með þeim á annað kaffihús á fimmta stræti í gamla verksmiðjuhverfinu, það var svona hipp og kúl kaffihús sem er innréttað í gömlu vöruhúsi. Öll þessi þrjú meetup sem ég hef farið í hérna í Austin hafa verið skemmtileg og ég hef kynnst og spjallað við fullt af fólki sem býr hérna. 

Ég hef farið í svona meetup líka í Barcelona og París og það hefur líka gengið vel. Þetta er fín leið fyrir þann sem er nýkominn í eitthvað samfélag eða gestkomandi um stund. Þeir sem sækja svona meetup eru fólk sem þegar er opið fyrir að hitta annað fólk með sömu áhugamál (já það er áhugamál að hanga á kaffihúsum og skoða næturlífið). Ég fékk nú reyndar upprunalega áhuga á svona meetup vegna þess að ég las að þetta væri notað með góðum árangri í bandarískum stjórnmálum, fólk sem hefur sameiginlegar skoðanir kemur saman og spjallar um mál sem eru þeim hugleikin. Sumir hóparnir eru nú einhvers konar sjálfshjálparhópar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæl og til lukku með ,,afmælið".....mannst að kíkja svo á okkur!

Sveinn Hjörtur , 2.4.2007 kl. 21:07

2 Smámynd: Hlynur Hallsson

Til hamingju og bestu kveðjur til Texas,

Hlynur Hallsson, 2.4.2007 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband