23.3.2007 | 07:06
Týndi síma og bíl í Texas
Á vorjafndægri flaug ég til Boston, ég kom þangað seint um kvöld og gisti þar eina nótt í Winthrop á hóteli rétt hjá flugvellinum. Eldsnemma í morgun flaug ég til Austin í Texas, það var reyndar dáldil seinkun á fluginu vegna þess að þegar vélin ætlaði að hefja sig til lofts þá fór rafmagnið af vélinni. Fólki fannst þetta ekkert allt of traustvekjandi en vélin lenti heilu og höldnu í Austin. Ég tók bílaleigubíl á flugvellinum og fór að nördast í nokkrum tölvubúðum. Fékk létt panikkast þegar ég uppgötvaði að ég hafði týnt símanum mínum, það er alls ekki þægilegt í útlöndum. Ennþá meira stress þegar ég uppgötvaði að ég hafði týnt bílnum í einhverju af þeim þúsundum stæða sem voru í verslunakeðjuþyrpingunni. Ég gat ómögulega munað hvernig bíl ég var á eða hvar ég hefði lagt honum, mundi ekkert nema að hann var eitthvað bláleitur tveggja dyra, eina kennileitið var að ég mundi að ég hafði sett bókina Paradís í framsætið. Paradís er sakamálasaga eftir Lísu Marklund. Ég var dágóða stund að skima inn í bíla í leit að Paradís. Þá mundi ég eftir að ég var með einhverja pappíra frá bílaleigunni og þegar ég skoðaði þá betur þá sá ég að númerið á bílnum var þar skráð. Þá fann ég strax bílinn aftur. Svo hafði ég týnt símanum einmitt í farþegasætinu við hliðina á Paradís svo gleði mín var tvöföld, ég fann síma og ég fann bíl. Svo tókst mér að staðsetja hvar ég væri í heiminum með því að kaupa risastórt götukort af Austin í Barnes og Nobles bókabúð og biðja afgreiðslumanninn að segja mér hvar ég væri stödd á kortinu. Það kom á hann og hann gerði mikið veður út af þessu, kallaði til samstarfsmann til að standa vaktina á kassanum af því hann þyrfti að sýna mér hvar ég væri.
Eftir að ég fann út hvað ég var og var komin með nákvæmt kort þá var auðvelt að rata, ég brunaði þjóðleiðina gegnum bæinn og villtist reyndar nokkrum sinnum eins og maður gerir jafnan á amerískum vegakrossunum en ég komst svo á leiðarenda. Ég sá nú lítið af Austin í dag annað en verslunarmiðstöðvar, flugvöllinn, Interstate vegina og mótelahótelin. Það var nú líka rigning á köflum og kannski ekki svo gott að vera í miðbænum.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.3.2007 | 08:43
Grátt og grænt er ótrúlega ljótt

Ég er alveg hugfangin af auglýsingunum frá mínu ágæta félagi Framtíðarlandinu, þær eru svo ljótar og stuðandi og þverbrjóta öll lögmál fagurfræði og formskyns að þær eru hoppandi flottar og gargandi snilld. Auglýsingarnar eru eins og einhver sem er nýbúinn að læra á fótósjopp hafi skannað inn gamalt ríkisskuldabréf og hafi ákveðið að setja alls konar krúsidúllur ofan á og alls konar lógó og tákn og sem flestar leturgerður og liti trúi alls ekki á "less is more". Ég kann vel við þessa ofgnótt.
Skjámyndin hér til hliðar er af sáttmálanum eins og hann birtist á vefsíðu Framtíðarlandsins, auglýsingin sem birtist í blöðunum er miklu, miklu yfirdrifnari með fullt af krúsídúllum.
Ég fæ snjóbirtu í augun út af sjónvarpsauglýsingunum frá Framtíðarlandinu og ég barasta sé ekki fólkið enda er náttúrulega sniðugast að láta athyglina beinast svona að því sem fólk segir. Ég tók nú samt ekkert eftir því þar sem ég var að pæla í hvers vegna auglýsingarnar væru svona óþægilegar og ljótar. Er þessi óþægilegi hvíti bakgrunnur vegna þess að það var ekki til mikið fé til að búa til auglýsingar eða kannski það sé verið að auglýsa upp Vatnajökulsþjóðgarð?
Ég hélt kannski að náttúra Íslands væri eitthvað meira en hvíttið, eitthvað meira en óþægilegt ekkert.
Annars var ég að skoða betur þessa herferð Framtíðarlandsins og það er margt sem stuðar mig. Það stuðar mig að það séu á vefsíðunni birt nöfn allra sem skrifa undir yfirlýsingu og það stuðar mig að það sé einhvers konar "gerðu þingmann grænan" leikur í gangi þannig að myndir (myndir sem teknar eru af alþingisvefnum- er það virkilega með samþykki þeirra sem sjá um þann vef?) af þingmönnum eru málaðar grænar eða gráar eftir því hvort þeir hafi verið svínbeygðir til að skrifa undir.
Mér finnst þessar aðferðir minna mig á það sem flokkur mannsins (flokkurinn hans Péturs sem varð fyrir vitrun á fjalli) stóð fyrir og það sem Scientology agentar gera. Það gengu menn um stræti og báðu mig að skrifa undir einhverja sjálfsagða hluti eins og hvort ég væri á móti atvinnuleysi og svo kom Pétur í fjölmiðla og veifaði undirskriftum sem stórkostlegum meðbyr. Ég er mjög efins um hvort það samræmist því sem ég tel felast í persónuvernd að það sé annars vegar nafnabirting og hins vegar einhvers konar þingmannalitabók í gangi. Vil nú samt taka fram að þó ég sé pirruð yfir þessum aðferðum þá finnst mér Framtíðalandið bara fínn félagsskapur og fínt að hamra á umhverfismálunum. Vonandi hafa þingmennirnir sem hafa verið málaðir grænir samþykkt þessa meðhöndlun.
Varðandi nafnabirtingar þá finnst mér líka fyrir neðan allar hellur þessar fjöldastuðningsmannayfirlýsingar sem hafa birst oft fyrir kosningar í dagblöðum (sérstaklega minnir mig að Reykavíkurlistinn hafi staðið fyrir þeim en allir tóku það upp) þar sem mörg hundruð Reykvíkingar lýsa yfir stuðningi við ákveðna aðila. Það eru margir í þannig störfum að það alls ekki rétt þeir skrifi undir svona yfirlýsingar (t.d. þeir sem gegna opinberum störfum í stjórnsýslunni) en ég geri ráð fyrir að það sé töluverð pressa á að fá sem flesta til að skrifa undir. Það er ekkert að því að fólk styðji opinberlega einhverja aðila m.a. með að lýsa yfir stuðningi við viðkomandi og bakka hann upp - en þegar þetta er orðið þannig að mörg þúsund nöfn eru birt sem stuðningsaðilar þá er þetta hætt að vera það - þá er þetta orðið eins og einhver fjöldaskráning og rafræn vöktun á skoðunum fólks og það eru þeir sem eiga mest undir sér og eru líklegir til að verða valdamestir sem hafa mesta möguleika á nafnasöfnun. Þeir hafa líka möguleika á að hegna þeim sem ekki vilja vera nöfn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.3.2007 | 03:07
Talfrelsi ?
Bloggarinn ötuli Stefán Friðrik er alveg að tapa áttum í Guðbjargar Kolbeins einelti sínu. Nokkur af hans seinustu bloggum eru blóðmjólkun á því máli.
Sjá hérna:
Bloggvefurinn horfni og umdeildu ummælin
Guðbjörg Hildur lokar bloggsíðu sinni
Af hverju biðst Guðbjörg Hildur ekki afsökunar?
Ég hef alltaf talið Stefán Friðrik einfalda og hrekklausa sál og verið hlýtt til hans vegna þess að hann hefur ekki hingað til lagt sig niður við að rakka fólk niður. En af því ég held að Stefán hafi ekki skilið málið almennilega þá gerði ég hérna þrjár skýringarmyndir sem sennilega geta skýrt fyrir Stefán Friðrik ef hann skoðar þær vel um hvað málið snýst. Ég hugsa að Eyþór Arnalds fyrrum talfrelsisstjóri og ýmsir spangólandi varúlfar sem hafa gert sér mat úr orðum Guðbjargar hafi líka gott af að skoða þessar þrjár skýringarmyndir.
Það má svo benda þessum ágætu Sjálfstæðismönnum á að bera saman orðræðu um brandara sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins segja á tyllidögum (sjá söguna hérna Dvergakast og femínisk fyndni ) við orðræðu fjölmiðlafræðings sem greinir forsíðumynd í vörulista sem ætlað er að selja fermingardót. Hvort er meiri ástæða til að biðjast afsökunar á klámbröndurum ráðherra eða lýsingu og greiningu Guðbjargar Kolbeins á því sem hún sá út úr myndefni í auglýsingum?
Ég vil þakka Guðbjörgu Kolbeins fyrir að hafa sýnt okkur hversu mikið talfrelsi er á Íslandi. Ég vil líka lýsa aðdáun minni á hönnun á þessari forsíðu og biðja hönnuðinn sem hugsanlega er miður sín núna að horfa á þetta með jákvæðum augum. Það er góð mynd sem hefur áhrif og þessi forsíða hafði svo sannarlega áhrif. Umræðan um myndina er vissulega leiðinleg fyrir fyrirsætuna og það er miður. En það er allt í lagi að fólk rýni í myndefni og segi hvað það sér út úr myndum. Þessi fáránlegu viðbrögð eru öllum til skammar sem tengja sig á einhvern hátt við málfrelsi og lýðræði.
Dr. Gunni og dr. Guðbjörg, varúlfurinn Gummi og frú Kolbeins
Fermingarbæklingur Smáralindar og Bókamarkaðurinn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
16.3.2007 | 22:59
Fangi Bandaríkjamanna og Geirfinnur
Ég fletti upp wikipedia greininni um fangann Khalid Sheikh Mohammed mér finnst játningar sem koma frá hrjáðum föngum úr Guantanamo ekki eiga endilega á að taka sem það sannasta og réttasta hér á jörðu, þó ég taki nú ekki undir með Hlyn þegar hann stingur upp á því að við fáum Khalid Sheikh til að játa á sig að vera höfuðpaurinn í Geirfinnsmálinu. Khalid kom sennilega ekki nálægt því, hann var bara tíu ára gamall þegar Geirfinnur hvarf.
Sennilega er hann nú samt hryðjuverkamaður. Kannski ekki svona ofboðslega umsvifamikill eins og játningalistinn gefur til kynna.
15.3.2007 | 20:16
Hvíta gullið í Mexíkó
Kona frá landamæraborginni Ciudad Juarez er nú stödd á Íslandi. Hún talar um kvennamorðin í borginni og hennar kenning er að morðin séu innvígsluaðferðir gengja. Juarez er eini staðurinn sem ég hef komið til í Mexíkó og ég ferðaðist þá einmitt um fátækrabyggðirnar í hlíðunum þar sem flestar hinar myrtu bjuggu. Það var að mig minnir árið 1996. Ég rifjaði upp þessa ferð í bloggpistli 28.11.03 og læt hann hér fylgja með:
Ég hef bara farið á einn stað í Mexíkó. Það er í landamæraborgina Ciudad Juarez og þar var ég bara í tvo daga. Ég hefði viljað vera þar lengur og rölta um hlíðar sem einu sinni voru beitarlönd fyrir stórar nautgripahjarðir. Hlíðar sem voru þaktar kofum og hreysum, þetta voru íbúahverfi í þessari borg en þarna var ekkert rafmagn og ekkert vatn, ég held að vatnið hafi komið í vatnsbílum. Vegarslóðar liðuðust um hlíðarnar eins og kimar í völundarhúsi, það voru engar vegamerkingar, engin merki um áhrif frá miðstýrðu borgarskipulagi, þessi byggð virtist reist utan við lög og rétt.
Ég hef oft komið í slömm í erlendum borgum þó sjaldan hafi þau verið fátæklegri. En þetta hverfi hreif mig - mér fannst hreysin vera dulbúnar hallir og það var eitthvað við landslagið - andstæður og fegurð - það var útsýni yfir Rio Grande ána og og yfir í Texas þar sem stjarnan stóra blikar öll kvöld. Þessi stjarna hefur logað frá 1940 og þekur heila fjallshlíð, hún var fyrst vörumerki rafveitunnar í El Placo en er núna orðið tákn borgarinnar og síðustu árin hefur hún blikað á hverju kvöldi, ekki bara um jólaleytið. En séð frá fátækrabyggðum í hlíðum Ciudad Juarez er stjarnan vonarstjarna. Eða villuljós.
Sitt hvorum megin við ána Río Grande standa borgirnar El Plaso og Ciudad Juarez. Önnur er í USA og hin er í Mexíkó. Ég veit ekki við hverju ég hafði búist þegar við fórum yfir ána. Alla vega ekki þessu. Ekki svona örtröð, svona óendanlegri bílalest, bílarnir voru líka skrýtnir, margir ævagamlir og illa útlítandi, svona eins og skröltandi brotajárnshaugar. Og svo margir bílarnir voru fullir af fólki. Réttara sagt fullir af karlmönnum í vinnugöllum. Einhvers konar farandverkamenn á leið til USA. Svo voru öll uppljómuðu vegaskiltin sem blöstu við þegar komið var yfir í Mexíkó. Mörg voru að auglýsa lyf og pillur það stóð alla vega víðast hvar Drugstore.
Svo síðdegis fylltust göturnar af verksmiðjustarfsfólki á heimleið. Mér sýndist það vera mest ungar stúlkur og ég tók eftir að þær voru í einföldum klæðnaði en með litskrúðug hárskraut og eyrnalokka og hálsfestar. Á mörgum gatnamótum í Ciudad Juarez voru Indjánar stundum voru það konur með fléttu á baki og barnahóp í togi sem fetuðu milli bílanna með tusku undna í vatni og buðust til að þurrka af framrúðunni fyrir smáaura. Ég skil ekki alveg hver er kallaður indjáni og hver ekki á þessum slóðum, ég held helst að þeir sem eru fátækir og nýkomnir úr sveitinni á mölina séu kallaðir indjánar. Þeir sem hafa staðfest sig í borginni og klæða sig og klippa hár sitt að sið borgarbúa eru ekki indjánar.
Það er einhver gullgrafarablær yfir Ciudad Juarez. Það sogast fólk að þessari borg og þessum landamærum í leit að betri framtíð og auðteknum gróða. En það er ekki málmurinn gull og þar er ekki jarðefnið olía sem er verðmætin og varningurinn. Þarna er hlið inn í vestrænt neyslusamfélag og skiptimyntin er vinna verkafólks. En í landamæraborginni Ciudad Juarez er dauðalínan. Það var grein um ástandið í Ciudad Juarez í Morgunblaðinu í dag (28.11.03). Þar hafa 263 konur verið myrtar frá því í janúar 1993.
Ég vona að þessi grein í Morgunblaðinu sé merki um að augu heimsins muni einhvern tíma opnast fyrir ástandinu í gullgrafarabæjum nútímans eins og Ciudad Juarez. Ég vona að fólk átti sig á að mannfallið og aftökurnar eru ekki mestar í skotbardögum þar sem bófagengi og góðu kúrekarnir plaffa hvern annan niður. Í þessari landamæraborg eru konur kyrktar og limlestar í svo stórum stíl að borgin hefur verið nefnd Ciudad Juarez: The Serial Killer´s Playground eða leikvangur raðmorðingja. Það er gífurlega víðfeðm leit að morðingjanum og löggæslumenn í borginni eru ásakaðir um spillingu og vanhæfni. En kannski er morðinginn ekki einn maður heldur margir og kannski eru morðin afleiðing af ástandi og spennu og viðhorfum á þessum stað. Um ástandið má lesa í þessari grein:
NPR : Curruption at the Gates (September, 2002).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.3.2007 | 16:25
Háskóli háloftanna
Það er örugglega gott svæði fyrir fræðasetur að vera nálægt alþjóðaflugvelli og í einhvers konar kallfæri við erlend fræðasamfélög og atvinnulíf. Það skiptir miklu fyrir háskóla að vera í góðu netsambandi en það skiptir líka máli að vera staðsettur um þjóðbraut þvera. Það er ekkert verra að hafa háskólarekstur á alþjóðaflugvelli, þá má byrja kennslustundirnar og fyrirlestrana í flugvélum. Það hefur augljóslega mikinn kost fyrir allar alþjóðlegar ráðstefnur að vera svona rétt hjá flugvelli. það er ekkert nýtt að það geti verið lyftistöng fyrir háskóla og listalíf þegar einhverjar stórar stjórnsýslueiningar flytja eða eru lagðar niður. Ég stundaði nám í háskólanum í Iowa City í USA en sá háskóli fékk einmitt allar opinberar byggingar stjórnsýslunnar þegar fylkisstjórnin var flutt frá Iowa City til Des Moines.
Það er áhugavert að spá í hvaða staðir eru helstu háskólasvæði og hátæknisvæði heimsins og hvað er það sem veldur. Það er vel þekkt hvernig Kísildalurinn óx upp í Kaliforníu sem einhvers konar frjóangar út frá samfélaginu í Stanford háskóla. Núna vilja mörg pláss fá til sín háskóla eða háskólasetur, það hefur sýnt sig hversu mikið það gerir fyrir samfélagið. Allir Akureyringar sem ég hef talað við eru sammála um að háskólinn þar sé lyftistöng fyrir samfélagið.
Annars er gaman að spá í útþenslu Háskóla Íslands, núna eru umræður í þinginu um sameiningu HÍ og KHÍ sem verður mjög sennilega að veruleika á næsta ári. Þá verður nú víst lítið hægt að tala um Melaklepp eða háskólann á Melunum því hann verður líka í Stakkahlíðinni og Þverholtinu og stóreflis byggingar verða þá undir HÍ á Laugarvatni.
![]() |
Viljayfirlýsing um háskólarekstur á Keflavíkurflugvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.3.2007 | 14:13
Ástandið í Bolungarvík
Ég hef fylgst með Vestfjörðum alveg frá því systir mín flutti þangað þá nýútskrifuð úr Kennaraháskólanum. Hún réði sig sem skólastjóra í Holt í Önundarfirði, þar var þá lítill sveitaskóli fyrir bændasamfélagið í firðinum. Svo kynntist hún Jóa sem bjó hinu megin við Breiðadalsheiðina á bóndabæ inn í Syðri Dal í Bolungarvík. Þetta var áður en göngin komu og tilhugalíf þeirra var svaðilfarir yfir heiðina á snjósleðum þegar ekki var fært. Sem var nú ansi oft... held ég alltaf nema á sérstökum mokstursdögum og þá voru snjómoksturstæki alltaf á ferðinni því annars lokaðist vegurinn strax aftur. Ég man hvað mér fannst ógnvekjandi að fara Breiðadalsheiði í fyrsta sinn - lærði að marga metra há ísbrúnin sem var höggvin þarna út var kölluð stálið. Það er hvergi eins og í vestfirskri náttúru og vetrarveðrum sem manni verður ljóst smæð mannsins og hve leikurinn er ójafn - leikur mannsins við náttúruna.
Ég hafði aldrei komið til Vestfjarða fyrr en ég heimsótti systur mína í Holt og ég man eftir að mér fannst í fyrstu allt varðandi Vestfirði fyrst og fremst hrikalegt og lífsbaráttan þar hrikalega hörð. Brjálaður veðurofsi, byggðin strjál og víða að fara í eyði, samgöngur erfiðar og fólkið að flytjast burt. Ég man í fyrsta skipti þegar ég kom til Flateyrar, við ókum eftir strandgötunni og þetta var rétt eftir ofsaveður af sjó og sums staðar höfðu rúður sem vísuðu að sjónum brotnað og sums staðar var nelgdar spýtur fyrir gluggana til að mæta hamförunum. Þetta var líka rétt eftir brunann í frystihúsinu og hluti af þorpinu var brunarúst. Það var samt einhver villta vestursbragur þarna og falleg húsalínan með gömlum tréhúsum. Síðan þá hef ég oft komið til Vestfjarða og hrífst alltaf meira og meira af náttúru og mannlífi þar, þetta er byggðalag sem er engu öðru líkt á Íslandi, þetta er heimskautaland okkar og hvergi eru fjöllin tignarlegri og brattari.
Frá því ég kom fyrst til Vestfjarða fyrir um fimmtán árum þá hefur margt breyst. Bjarta hliðin er að samgöngumál hafa batnað og munu batna með vegabótum og göngum í Bolungarvík. Vestfirðingar hafa líka eins og aðrir landsmenn fengið betra samband og aðgengi að þjónustu gegnum Internetið. Dökku hliðarnar eru margar. Þyngstu raunirnar eru sjóflóðin, snjóflóðið á Flateyri og Súðavík. En Vestfirðir er sjómannasamfélag og sums staðar eru búsetuskilyrðin orðin þannig að það annað hvort fiskast ekki eða aflaheimildir eru ekki lengur í byggðalaginu. Það eru margir mælikvarðar sem hægt er að nota um hvernig ástandið er - ein er sú að fylgjast með hvort fólk flytur á svæðið, hvernig aldursamsetning er, hvert er atvinnuleysið, hvað mörg hús standa tóm og hvort fólk flytur í burtu.
Það er sama hvaða mælikvarða maður notar - ef maður skoðar ástandið á Bolungarvík þá er ljóst að það byggðalag er í kreppu. Ég held ekki að það muni breytast þó það komi betri akvegur. Ég held heldur ekki að það muni breytast við meiri möguleika á menntun og háskólasetur. Ég held að fólk noti alveg eins betri samgöngur til að keyra í burtu frá stöðum þar sem allt er að hverfa og ég held að fólk noti alveg eins meiri menntun til að drífa sig í burtu. Til langs tíma verður ekki spornað við þeirri þróun að dagar fiskimannasamfélagsins eru horfnir eða að hverfa í plássum eins og Bolungarvík. Það er eins gott að horfast strax í augu við það. Og velta fyrir sér hvað kemur í staðinn.
![]() |
Ríkisstjórn samþykkir að skipa nefnd vegna ástands atvinnumála á Vestfjörðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.3.2007 | 13:13
Sögur úr Hafnarfirði
Á forsíðu Mbl. í dag er sakbending Ásu, roskinnar móður og Konráðs, miðaldra sonar hennar úr Hafnarfirði sem harma örlög fjölskyldu sinnar og kalla nafngreinda menn til saka fyrir að hafa sent soninn til vistunar á Breiðavík fyrir mörgum áratugum.
Orðalag greinarinnar er með sama hætti og þær greinar sem að undanförnu hafa birst um sama mál t.d. "hún er ómyrk í máli og hefur ekkert fyrirgefið", inngrip barnaverndarnefndar er kallað "aftaka fjölskyldu" og móðirin Ása kallar til saka marga aðila og segir:
Mér er mjög kalt til þeirra sem tóku drenginn og höfðu afskipti af mínu heimili þá og síðar. Ég man einkum eftir Val Ásmundssyni, Sveini Guðbjartssyni, Huldu Sigurðardótur og séra Braga Benedikssyni. Þetta fólk og raunar fleiri aðilar, sýndi mér valdníðslu að tilefnislausu....Það ruddist inn á heimili mitt, stjakaði við mér og lét eins og ég væri varla til, virti mig ekki frekar en gólfið sem það gekk á."
Ása segir líka "Það sem þetta barnaverndarfólk gerði drengnum mér og fjölskyldunni mun ég aldrei fyrirgefa - ekki heldur hinum megin.
Ég finn til með móðurinni og ég held að málefni fjölskyldu hennar hafi ekki verið leyst á farsælan hátt og það hafi verið valtað yfir hana vegna þess að hún var fátæk einstæð móðir sem gat ekki barist nógu mikið á móti.
En hver er réttur þeirra aðila sem vinna á vegum barnaverndaryfirvalda? Eg held að flest eða öll mál sem komast til barnaverndaryfirvalda séu viðkvæm og heitar tilfinningar og barnaverndaryfirvöld séu alltaf ásökuð af málsaðilum - annað hvort fyrir afskipti sín eða fyrir afskiptaleysi sitt. Barnaverndaryfirvöld eru bundin trúnaði og aldrei er í fjölmiðlum veittar upplýsingar um einstök mál jafnvel þótt aðilar að málinu (oftast foreldrar sem eru að missa forræði yfir börnum) segi sögu sína í örvæntingu augljóslega til að fegra sinn hlut og margt bendi til að sagan sem þar birtist sé röng.
En nú er ný lína - margir nafngreindir aðilar sem hafa unnið að barnaverndarmálum og starfi með börnum og ungmennum í erfiðum aðstæðum eru núna nafngreindir í hverri blaðagreininni á fætur annarri og bornar á þá þungar sakir um glæpsamlegt athæfi fyrir mörgum áratugum, ofbeldi og svik og yfirhilmingar með kynferðisofbeldi. Það er engu lagi líkt hvernig núna er í fjölmiðlum farið með þann hóp sem hefur undanfarna áratugi unnið að þessum málum og mér finnst nú verði að spyrna á móti. Það er eitthvað verulega gloppótt í íslensku réttarkerfi og íslensku samfélagi ef svona umræða getur endalaust haldið áfram - einhliða frá sjónarhóli þeirra aðila sem mega tala.
En sumt í þessari frásögn lýsir vel félagslegum veruleika á Íslandi eins og þetta brot úr frásögn sonarins:
Það er eins og með stéttaskiptinguna í Hafnarfirði. Hún var undarleg, svona þegar litið er til baka. Ein fjölskylda sem átti banka átti allan bæinn. Það þurfti að vera réttum megin í öllu mögulegu til að eiga séns. Vera í FH en ekki Haukum, manni var haldið niðri eins og mögulegt var, til að viðhalda stéttaskiptingunni......Og mér finnst undarnlegt til þess að hugsa að meðan barnaverndarnefndin var önnum kafin við að skipta sér af heimili okkar, þar sem hvorki var drykkjuskapur, ofbeldi né kynferðisleg misbeiting, þá gerði þessi sama nefnd ekkert til að hjálpa Thelmu Ásdísardóttur og systrum hennar, sem fjöldi fólks vissi að voru misnotaðar og höfðu reynt að gera aðvart þar um.
Ef mál þessara tveggja barna eru skoðuð - annars vegar afskipti af stráknum Konráð sem hnuplaði úr búðum og hins vegar afskiptaleysi af þægu stelpunni Thelmu þá er ef til vill skýringin að hluta sú að barnaverndaryfirvöld voru meira á vaktinni fyrir uppvexti þeirra barna einstæðra mæðra sem virtu ekki hin helgu vé einkaeignaréttarins heldur en uppvexti þeirra barna sem voru kúguð og misnotuð á heimilum þar sem báðir foreldrar voru.
![]() |
Ása Hjálmarsdóttir segist aldrei munu fyrirgefa, ekki heldur hinum megin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.3.2007 kl. 16:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.3.2007 | 22:55
Myndbrot frá baráttusamkomu
Hér er vídeóklipp frá baráttusamkomu Bríetar 8. mars. Ég kom ekki fyrr en ræðurnar voru búnar þannig að það er bara skemmtiatriðin. Ein aðalskemmtunin er náttúrulega að gera grín að bloggurum sem reyna að tala niður femínista. Í þessu myndbroti sem er 7. mín. að lengd þá er fyrst trúbatorinn Ólöf og svo troða upp tvær karlkyns ráðskonur Femínistafélagsins með reynslusögur úr baráttunni og svo er ljóðaupplestur og fjöldasöngur. Myndin er nú mjög óskýr en hljóðið er í lagi. Litla digital vélin mín er ekki sérlega ljósnæm og svo varð ég að klippa þetta til í camtasia sem gerði myndina svona óskýra. Það er pirrandi að geta ekki klippt til vídeóið beint á vefnum. Ég held reyndar að bráðum muni Adobe bjóða upp á svoleiðis þjónustu og þá væntanlega í gegnum Photobucket.com sb. þessa fréttatilkynningu frá þeim í febrúar: "Today, Adobe and Photobucket announced a partnership to integrate Adobe web-based video remix and editing technology directly into the Photobucket user experience, giving 35 million Photobucket users direct, free access to world-class digital video editing tools."
Set hérna líka inn tilraun með sama vídeó á jumpcut.com
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.3.2007 kl. 05:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.3.2007 | 11:18
Baráttukvöld Bríetar 8. mars - Konan með hýjunginn undir höndunum
Femínistar brugðu á leik á baráttukvöldi Bríetar í gærkvöldi á Laugaveg 22.
Hér eru myndir sem ég tók á gleðinni
Þær má líka skoða sem "slideshow" hérna
Ég tók líka myndir í fyrra:
Myndir frá 8. mars 2006
Margir voru í skemmtilegum búningum, skreyttir límmiðum og með svuntur. Mér fannst skemmtilegasti búningurinn um hinn loðna femínista en eins og allir vita þá verður maður kafloðinn og dýrslegur um leið og maður gengur femínismanum á hönd. Annars orti meistari Megas einu sinni ljóð "Konan með hýjunginn undir höndunum". Ég þarf að finna þann texta. Kannski það sé hægt að syngja hann á svona femínistablótum með klassískum femínistalögum eins og "Sísí saumar á Susuki" og Svarthvíta hetjan mín og "Þori, vil ég get ég".