Sögur úr Hafnarfirði

Á forsíðu Mbl. í dag er sakbending Ásu, roskinnar móður og Konráðs, miðaldra  sonar hennar   úr Hafnarfirði sem harma örlög fjölskyldu sinnar og kalla nafngreinda menn til saka fyrir að hafa sent soninn til vistunar á Breiðavík fyrir mörgum áratugum. 

Orðalag greinarinnar er með sama hætti og þær greinar sem að undanförnu hafa birst um sama mál t.d. "hún er ómyrk í máli og hefur ekkert fyrirgefið", inngrip barnaverndarnefndar er kallað "aftaka fjölskyldu" og móðirin Ása kallar til saka marga aðila og segir:

Mér er mjög kalt til þeirra sem tóku drenginn og höfðu afskipti af mínu heimili þá og síðar. Ég man einkum eftir Val Ásmundssyni, Sveini Guðbjartssyni, Huldu Sigurðardótur og séra Braga Benedikssyni. Þetta fólk og raunar fleiri aðilar, sýndi mér valdníðslu að tilefnislausu....Það ruddist inn á heimili mitt, stjakaði við mér og lét eins og ég væri varla til, virti mig ekki frekar en gólfið sem það gekk á."

Ása segir líka "Það sem þetta barnaverndarfólk gerði drengnum mér og fjölskyldunni mun ég aldrei fyrirgefa - ekki heldur hinum megin.

Ég finn til með móðurinni og ég held að málefni fjölskyldu hennar hafi ekki verið leyst á farsælan hátt og það hafi verið valtað yfir hana vegna þess að hún var fátæk einstæð móðir sem gat ekki barist nógu mikið á móti.

En hver er réttur þeirra aðila sem vinna á vegum barnaverndaryfirvalda? Eg held að flest eða öll mál sem komast til barnaverndaryfirvalda séu viðkvæm og heitar tilfinningar og barnaverndaryfirvöld séu alltaf ásökuð af málsaðilum - annað hvort fyrir afskipti sín eða fyrir afskiptaleysi sitt. Barnaverndaryfirvöld eru bundin trúnaði og aldrei er í fjölmiðlum veittar upplýsingar um einstök mál jafnvel þótt aðilar að málinu (oftast foreldrar sem eru að missa forræði yfir börnum) segi sögu sína í örvæntingu augljóslega til að fegra sinn hlut og margt bendi til að sagan sem þar birtist sé röng.

En nú er ný lína - margir nafngreindir aðilar sem hafa unnið að barnaverndarmálum og starfi með börnum og ungmennum í erfiðum aðstæðum eru núna nafngreindir í hverri blaðagreininni á fætur annarri og bornar á þá þungar sakir um glæpsamlegt athæfi fyrir mörgum áratugum,  ofbeldi og svik og yfirhilmingar með kynferðisofbeldi.  Það er engu lagi líkt hvernig núna er í fjölmiðlum   farið með  þann hóp sem hefur undanfarna áratugi  unnið að þessum málum og mér finnst nú verði að spyrna á móti. Það er eitthvað verulega gloppótt í íslensku réttarkerfi og íslensku samfélagi ef svona umræða getur endalaust haldið áfram - einhliða frá sjónarhóli þeirra aðila sem mega tala.

En sumt í þessari frásögn lýsir vel félagslegum veruleika á Íslandi eins og þetta brot úr frásögn sonarins:

Það er eins og með stéttaskiptinguna í Hafnarfirði. Hún var undarleg, svona þegar litið er til baka. Ein fjölskylda sem átti banka átti allan bæinn. Það þurfti að vera réttum megin í öllu mögulegu til að eiga séns. Vera í FH en ekki Haukum, manni var haldið niðri eins og mögulegt var, til að viðhalda stéttaskiptingunni......Og mér finnst undarnlegt til þess að hugsa að meðan barnaverndarnefndin var önnum kafin við að skipta sér af heimili okkar, þar sem hvorki var drykkjuskapur, ofbeldi né kynferðisleg misbeiting, þá gerði þessi sama nefnd ekkert til að hjálpa Thelmu Ásdísardóttur og systrum hennar, sem fjöldi fólks vissi að voru misnotaðar og höfðu reynt að gera aðvart þar um.

Ef mál þessara tveggja barna eru skoðuð  - annars vegar afskipti af stráknum Konráð sem hnuplaði úr búðum og hins vegar afskiptaleysi af þægu stelpunni Thelmu  þá er ef til vill skýringin að hluta sú að barnaverndaryfirvöld voru meira á vaktinni fyrir  uppvexti þeirra barna einstæðra mæðra  sem virtu ekki hin helgu vé einkaeignaréttarins heldur en uppvexti þeirra barna sem voru kúguð og misnotuð á heimilum þar sem báðir foreldrar voru. 


mbl.is Ása Hjálmarsdóttir segist aldrei munu fyrirgefa, ekki heldur „hinum megin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Góð samantekt hjá þér.

Ragnar Bjarnason, 11.3.2007 kl. 13:29

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Það sem einkennir alla þessa umræðu er hún er ekki skoðuð í ljósi samtímans heldur í ljósi nútímans.
Maður hefur samúð með aðilum beggja vegna borðs svo mikið er víst en til hvers er að leita sökudólga sér í lagi þegar þú færð bara að heyra aðra hlið málsins.  Barnaverndarnefndir geta aldrei tjáð sig um einstök mál vegna þagnarskyldunnar.

Kolbrún Baldursdóttir, 11.3.2007 kl. 14:44

3 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Starfsfólk barnaverndar á ekki að þurfa að sæta svona nafnbirtingum, ábyrgð fjölmiðla ætti að vera öllum ljós í þessu máli. 

Öll þessi umræða fær mann til þess að hugsa um það hvað er verið að gera í velferðamálum barna nú.  Ég t.d. las viðtal við 15 ára dreng sem hafði verið langdvölum á meðferðarstofnunum.  Hann talaði um að hann langaði að læra iðngrein og það kom fram að jafnvel þó hann hafi dvalið langdvölum á meðferðarheimilinu hafði hann ekki fengið neina kennslu.  Ekki einu sinni í grunn fögum eins og íslensku og stærðfræði.  Ég var undrandi, átti barnið ekki að snúa aftur í skóla að meðferð lokinni?  Hvað býður þessa barna þegar þau koma út í samfélagið aftur?

Ester Sveinbjarnardóttir, 11.3.2007 kl. 15:19

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir góðan pistil

Jenný Anna Baldursdóttir, 11.3.2007 kl. 18:50

5 identicon

Það er enn verið að fjandast á nafngreindum dönskum mönnum sem sendu gyðinga til Þýskalands á stríðsárunum, vissu þeir hvað beið þeirra? Er þetta sambærilegt?

Kristján Sig Kristjánsson (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 13:57

6 identicon

Auðvitað var hér um mannrán að ræða, en konan sjálfsagt óflokksbundin og varnarlaus.Í Barnaverndarnefnd virðist hafa setið fólk sem vildi ráða og vissi allt og

kunni allt.Framkoma nefndarinnar er í takt við hugmyndir eigenda sveitarfélaga og

ríkisvalds um að hlutverk þeirra sé að berja á borgurunum;vér einir vitum.Samskipti

Barnaverndarnefndar við konuna  á sínum tíma, minna á t.d. samskipti Reykjavíkurborgar  í dag við íbúa sína  t.d. í skipulags og byggingarmálum, einelti

eigenda sveitarfélaga gagnvart t.d. kennurum og leikskólakennurum.Er að vísu viss um að framkoma barnaverndarnefnda hefur eitthvað batnað 

Kv.

Einar 

einar guðjónsson (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 12:04

7 identicon

p.s. Nafn konunnnar hefur misritast hjá þér salvör, hún heitir Ása.

kv.

Einar 

einar Guðjónsson (IP-tala skráð) 13.3.2007 kl. 12:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband