Dr. Gunni og dr. Guðbjörg, varúlfurinn Gummi og frú Kolbeins

frettabladid-doktor-gunni-8mars07

Það er áhugavert að fylgjast með viðbrögðum við greiningu Guðbjargar Kolbeins á forsíðu á fermingarbæklingi Smáralindar. Árni Svanur gerði ágæta samantekt á umræðunni hérna : Bloggað um myndlestur  Málið snýst um að fræðimaður í fjölmiðlun túlkar mynd á forsíðu í auglýsingabæklingi sem sendur er inn á heimili á Íslandi. Hún túlkar myndina sem þekkta uppstillingu úr klámmyndagerð. Ég þekki ekki nógu mikið til klámmyndauppstillinga til að ég geti dæmt um það.

Það er hins vegar augljóst þeim sem vill sjá að myndin er sviðsett þannig að líkami stúlkunnar er til sýnis (það er nú verið að auglýsa föt svo það er nú ekkert að því) og uppstillingin snýst  ekki um að miðla valdi og hugrekki - uppstillingin er frekar dúkkuleg og gínuleg, stúlkan er sýnd eins og leikfang - Manni finnst þetta eins og uppstilling á líflausri barbiedúkku það sem útlimum er baðað út í loftið svona til sýnis en þessi uppstilling minnir ekkert á aktion manninn sem strákarnir leika sér með. Reyndar minnir uppstillingin og klæðnaðurinn mig á margar teikningar og uppstillingar úr manga teiknimyndasögunum japönsku. 

Það er áhugavert að sjá hvernig bæði blaðamenn á Fréttablaðinu og bloggarar eins og Eyþór Arnalds reyna að hæðast að Guðbjörgu með því að kalla hana frú og doktor. Það eru nú ekki venjulega skammarorð en það er alveg augljóslega gert í þessu samhengi  til að gera lítið úr Guðbjörgu og sérfræðiþekkingu hennar.  dr. Gunni sem ritar hinn snjalla pistil dagsins Fagra kvenveröld hefur verið  nefndur doktor síðan elstu menn muna. Það er áhugaverður hæðnistónn í þessari frétt: Frú Kolbeins klagar Smáralind fyrir klám  og það má lesa milli línanna að gagnrýni Guðbjargar sé einhvers konar pempíuskapur hjá "frú". Myndi pistillinn hafa verið "Herra Þorbjörn klagar Smáralind" ef karlkyns fjölmiðlafræðingur hefði birt pistil með greiningu sem blaðamanni féll ekki?

gudbjorg-fru-kolbeins

gudbjorg-doktor

 Það er dáldið fyndið að fylgjast með því hve sterk viðbrögð pistill Guðbjargar vakti hjá sumum en ég er nú samt hrædd að vera mikið á ferli á næstunni á fullu tungli því pistillinn vakti upp varúlfinn í Guðmundi Steingrímssyni sem er núna stjórnmálamaður í atkvæðaleit og engir eru nú alla jafna viðmótþýðari og blíðari. Ekki Guðmundur þó þegar kvenkyns fjölmiðlafræðingar dirfast að lesa annað út úr myndum en hann sér. Hann segir:

Þetta er yfirgengilegt kjaftæði. Kryppan skýst upp. Mér vaxa vígtennur. Klær. Hár. Þið sjáið mig spangólandi uppi á Vífilfelli ef þetta heldur svona áfram. Ég meika þetta ekki.

Úff... fegin er ég að búa ekki nálægt Vífilfelli.  Þessi viðbrögð minna mig á viðbrögðin sem voru á málefnin.com um árið þegar ég dirfðist að telja hversu margar myndir voru af konum og körlum í dagblöðunum. Það var ekki nóg með það að ég dirfðist að telja heldur birti ég líka niðurstöðuna. Það kallaði á gusu alls konar fúkkyrða frá karlkyns málverjum sem breyttust í varúlfa eins og Guðmundur bara af því að aðrir sáu heiminn öðru vísi en þeir.

En mín prédikun til heimsins á þessum merkisdegi 8. mars er sú sama og ég hef sagt aftur og aftur og á eftir að segja oft í framtíðinni. Verum umburðarlynd fyrir skoðunum og heimsýn sem er ekki sú sama og við höfum.  Fögnum fjölbreytileikanum en hann felst líka í því að fólk sem hefur ekki sömu skoðun og viðhorf og við sjálf á líka rétt á að við sýnum því virðingu og kurteisi og helst að við reynum að hlusta á það en breytumst ekki strax í öskrandi varúlfa.

Frú Salvör 

 

 

 

 


Álag á stjórnmálamenn og kosningaskjálfti

Félagsmálaráðherra fékk aðsvif í dag og varð að gera hlé á ræðu sinni. Hann var að mæla fyrir þingsályktunartillögu um jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára. Ég vona að Magnús jafni sig sem fyrst en þetta atvik ætti að minna okkur á hve gífurlegt álag er núna á stjórnmálamenn, sérstaklega stjórnmálamenn sem eru í forsvari fyrir málaflokka og verða bæði að höfða til kjósenda og verja gerðir síns ráðuneytis. Það hefur nædd mikið um félagsmálaráðuneyti síðustu mánuði. Ég er líka á því að starf stjórnmálamanna í eldlínunni hafi orðið mun erfiðara með tilkomu svo margra fjölmiðla og hinni nýju tísku í fjölmiðlun sem er eins konar sambland af gerð heimildarefnis, söguritun og sakbendingu  sem og því að núna er bloggmenning í algleymingi á Íslandi - þættir eins og kompás og kastljós keppast við að toppa hvern annan í blörruðum böllum og afhjúpunum og krónikan, mannlíf og dv reyna að skúbba í hverju blaði með nýju hneyksli og nýjum uppljóstrunum. Margir  þættir enda með einhverjum sem grætur sárt og harmar örlög sín  og upp hefst leit að sökudólgunum.  Öll þessi yfirgengilega fjölmiðlun grefur og grefur - grefur undan valdinu og býr til nýtt vald.

 


mbl.is Ráðherra varð að gera hlé á ræðu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fermingarbæklingur Smáralindar og Bókamarkaðurinn

Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar myndræna lýsingu á forsíðu fermingarbæklingsins frá Smáralind. Ég þarf að sjá þessa forsíðu til að mynda mér skoðun.

Það er áhugavert að spá í hvaða fegurðarímynd er haldið að ungum stúlkum á þessum tímamótum í lífinu sem fermingin er. Ferming er manndómsvígsla á milli barnæsku og fullorðinsára. Það er líka áhugavert að spá í hvaða gjafir krakkar fá við þessi tímamót og hve kynlegar myndir þar eru á ferð. Fá krakkarnir fararskjóta sem eykur frelsi þeirra - í tíð mömmu minnar var það hestur eða reiðtygi eða hnakkur í tíð nútímabarna er það fararskjóti út í sýndarveröld tölvuleikja og út í hið viðfeðma Internet. Mig minnir að þegar ég fermdist hafi fermingarbörn fengið úr og skatthol og græjur. Hvers vegna úr? Hvers vegna er það veganesti við þessi tímamót að geta mælt tímann?

Nú kosta tímamælingar svo lítið að enginn gefur úr lengur. Eða tíminn er ekkert dýrmætur lengur.

En varðandi fegurðarímynd þá keypti ég á  Bókamarkaðnum um helgina  bókina Brosað gegnum tárin eftir Sæunni ólafsdóttur. Bókin fjallar um fegurðarsamkeppnir á Íslandi. Ég hlakka til að lesa hana, mér finnst fegurðarsamkeppnir últra flott fyrirbæri, það toppar þær ekkert nema þá helst mótmæli gegn fegurðarsamkeppnum.  Hér er listi yfir bækurnar sem ég keypti á bókamarkaðnum. Ég get ekki lesið neitt mynstur út úr þeim nema bara að ég held ennþá áfram að kaupa bækur þó að allir bókaskápar séu yfirfullir og ég hafi mjög lítinn tíma til að lesa.

  • Brosað gegnum tárin
  • Annað Ísland - Gullöld Vestur-Íslendinga í máli og myndum
  • Heimspeki á tuttugustu öld
  • Rómanska-Ameríka
  • Arfur og umbylting
  • Hlálegar ástir
  • List skáldsögunnar
  • Furðulegt háttalag hunds um hánótt

Klámkvöld karlahóps 7. mars

klamkvold-karlahopsHvet fólk til að mæta á klámkvöld karlahóps Femínistafélags Íslands 7. mars kl. 20 um klám í kynjuðu umhverfi. 

Hvað er klám og hvað er erótík?

Þessi fína skilgreining er eftir Dionnu Russels: "Klám er efni sem tengir kynlíf og/eða kynfæri við misnotkun eða vanvirðingu á hátt sem virðist styðja, afsaka eða ýta undir þess konar hegðun. Erótík er hins vegar kynferðislega örvandi efni sem er laust við kynjamismunun, kynþáttarfordóma og fordóma gegn samkynhneigðum og sýnir virðingu fyrir öllum manneskjum og dýrum sem þar birtast."

 

 


Ungdomshuset og Faderhuset

Það var skrýtin frétt sem ég las áðan á mbl.is um að Ungdomshuset í Kaupmannahöfn verði jafnað við jörðu og að eigendurnir ætli að tilkynna það. Þetta stangast mjög á við þær upplýsingar sem eru um þetta hús á Wikipedíu. Þar kemur nefnilega fram að húsið er friðað. Brugsen keðjan ætlaði að kaupa húsið til að rífa það á sínum tíma og byggja þarna stórmarkað en gat það ekki út af friðun. Það er stórmerkileg saga þessa húss og atburðir síðustu daga og mánaða  sýna að þetta hús  er ennþá snúningsás í dönsku samfélagi.  Það verður nú fyrst allt vitlaust fyrir alvöru ef þetta hús verður rifið, ég held svei mér þá að ég myndi bara mæta þarna í mótmælastöðu gegn því ef ég væri stödd í Kaupmannahöfn. Það var í þessu húsi sem hugmyndin um 8. mars sem alþjóðlegan baráttudag kvenna kom fram. 

Það er mikil gerjun í dönsku samfélagi og þessi barátta um húsið er myndræn birting á henni.  Það er kristinn bókstafstrúarsöfnuður sem heitir því skemmtilega nafni Faderhuset sem er núna eigandi hússins. Það er nú dáldið  skrýtið að þessi söfnuður hafi keypt húsið af borginni því íbúarnir og notendur hússins voru ekkert að létta söluna og voru hreinskilnir í út á hvað hún gengi, þeir auglýstu á stórum borða utan á húsinu á sínum tíma "Til salg sammen med 500 autonome, stenkastende voldspsykopater fra helvede."

Mér finnst myndrænt og kaldhæðið að lesa að borgarstjórinn í Kaupmannahöfn hefði verið í skíðafríi þegar uppþotin urðu, minnti mig svolítið á Bush bandaríkjaforseta sem líka er alltaf í alls konar fríum. Sérstaklega kaldhæðið þar sem það það er einmitt andstæðan við hina flötu Danmörku að stunda skíði og svo líka skrýtið að borgarstjórinn hafi verið svona óviðbúinn. 

Mér sýnist yfirvöld í Kaupmannahöfn ekki hafa sýnt neina sérstaka stjórnvisku í hvernig þau takla svona mál. Þó húsið yrði jafnað við jörðu þá mun ólgan vaxa og sá hópur sem skipulagði mótmælin og götubardaga mun skipuleggja eitthvað á stærri mælikvarða seinna. Það er eitt óskynsamlegasta sem stjórnvöld gera í svona aðstæðum að þjappa andstæðingum sínum saman um einhvern málstað - já næstum búa til málstað með gerðum sínum eða því sem þau gera ekki.  Ég held að það sé líka ekki góð stjórnvöld sem ekki geta séð fyrir eða alla vega spáð hvaða afleiðingar gerðir muni hafa.  Ég held nú reyndar að  ribbaldalýður og fólk í leit að fæting hafi dregist að Ungdomshuset og þetta sé eins konar barátta við fólk sem fylgir ekki leikreglum samfélagsins.

Um Ungdomshuset í dönsku wikipedíu 

 


mbl.is Ungdomshuset á Norðurbrú verður jafnað við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stelpa eins og ég

Hér er skemmtilegt 7. mín.  myndband "Girl like I" þar sem nokkrar blökkustúlkur segja frá hvernig þær fá sífellt skilaboð úr umhverfinu um að það sé ljótt að vera svartur, það sé ljótt að vera eins og þær. Þær segja hins vegar svo fjörlega frá að maður getur brosað með þeim - alveg þangað til sýnt er þegar blökkubörn eru látin velja hvernig dúkku þau vilji leika að og hver sé vonda dúkkan. Það er of sorglegt til að maður geti brosað yfir því.


Málum bæinn bleikan

19jun_banner_180pxHafmeyjan litla fær ekki að vera í friði. Einhverjir máluðu hana bleika í nótt.  Sumir grínast með að hér hafi skærufemínistar frá Íslandi verið á ferð, við höfum jú málað bæinn bleikan í nokkur ár og hvatt alla til að bera bleikt - líka styttur bæjarins. Ég hef sjálf   málað sveitina bleika, ég málaði bleikan stein fyrir nokkrum árum og setti hann við glæstan minnisvarða um nokkra bræður frá Víðivöllum í Blönduhlíð, ég kallaði bleika steininn minnisvarða um óþekktu systurina. En ég veit ekki um neinn femínista sem hefur skemmt eitthvað eða aðhafst eitthvað ólöglegt vegna málstaðarins.  En það stendur nú til halda bleika samkomu í Kaupmannahöfn 8. mars í Jónshúsi, það verður örugglega gaman þar. Rósa flytur þar ræðu.

Varðandi spellvirkin á styttunni þá minnir mig að það hafi verið hafmeyjustytta í tjörninni í Reykjavík en hún hafi verið afhausuð og listamaðurinn (var það Nína Tryggvadóttir?) hafi tekið það mjög nærri sér.

 


mbl.is Litla hafmeyjan máluð bleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera skráður í lífsins bók

Passar ekki vel að setja netlöggurnar sem hann  Steingrímur vill koma upp í að skanna í  íslensku bloggsvæðin svona eins og sagt er að  CIA sé að gera við  Facebook?

Facebook er vinsælt vefsvæði þar sem ungmenni skrá upplýsingar um sig en það er bara ekki alveg á hreinu hver geymir þær upplýsingar og hver notfærir sér þær upplýsingar. 

Annars er gaman að spá í hvernig það er stundum í tísku og mjög fínt að upplýsingar um mann séu skrásettar og nafn manns finnist, það þykir mjög flott að vera á skrá í Íslendingabók sem landnámsmaður og í opinberunarbók Jóhannesar þá er margstagað á því að þeir sem ekki eru skrásettir í lífsins bók fái enga fyrirgreiðslu.

Ástandið er þannig núna að það ættu að vera lög sem vernduðu á einhvern hátt fólk frá því að upplýsingar sem það setur inn á vefsvæði séu seldar eða notaðar í annarlegum tilgangi t.d. lög sem bönnuðu þeim sem veita slíka þjónustu að setja það sem skilyrði að þeim mættu gera hvað sem er við það sem inn er sett. Margar fríþjónustur á vefnum hafa einmitt svoleiðis skilyrði og fólk tekur oft ekki eftir því. Það er miður að í samfélagi þar sem miklu púðri er varið í að verja höfundarréttarhagsmuni  þá eru einstaklingar alveg berskjaldaðir gagnvart því að upplýsingar um þá séu seldar eða þeim dreift.


Reykkofi í Götusmiðjunni

ekki-reykjaÉg hélt að það væri 1. apríl eða einhver gabbfrétt  á síðu 4 í Mogganum í dag. Þar segir frá pólskum arkitekt sem vildi láta gott af sér leiða eftir dvöl hér á landi og þetta góða var að byggja fíkniefnaafdrep fyrir krakka sem eru vistuð í Götusmiðjunni. Þetta framtak var svo styrkt af Bykó og segist arkitektinn hafa haft samband við Barnaverndaryfirvöld til að komast að því hvar neyðin er stærst.

Er neyðin virkilega stærst varðandi það að koma upp aðstöðu til reykinga á meðferðarheimilum sem rekin eru af ríkisstyrk? Tóbak er hættulegt eitur og það er alveg forkastanlegt að því sé tekið vel og veitt aðstaða til að koma upp eiturefnaúðunarklefa á meðferðarheimilum sem rekin eru með ríkisstyrk.

Ég hvet fólk til að skrifa til Barnaverndarstofu og Götusmiðjunnar og lýsa andúð á þessu háttalagi.

Reykingar drepa.

Hmmm.... ég fór í smávegis rannsóknarbloggmennsku á Netinu og fann þá þetta á Netinu um rekstur Götusmiðjunnar á Akurhóli:

Þau 16 meðferðarrými sem til staðar eru á Akurhóli skiptast á eftirfarandi hátt:
- 12 rými fyrir ósjálfráða nemendur
- 2 rými fyrir 18 til 20 ára nemendur
- 2 rými fyrir neyðarinntöku og -endurkomu og vikudvalir

 Það er sem sagt þannig að langflest meðferðarrýmin eru fyrir ósjálfráða unglinga og það er forkastanlegt að það skuli vera unnið hörðum höndum að því að stuðla að því að þau séu í harðri neyslu stórhættulegra efna á meðan þau eru ósjálfráða vistuð á stofnun sem rekin er af ríkisstyrk. Þetta er skömm og svívirða.

 


Óðal fyrr og nú

ÓðalÞað er hægt að taka púlsinn á samtímanum með að skoða einn lítinn blett í Reykjavík og hvernig hann breytist. Einn af þeim blettum sem ég skoða er Óðal, skemmtistaðurinn sem ég hékk á þau ár sem ég taldi helgum best varið í að sitja að sumbli  á öldurhúsum. Núna er Óðal staður þar sem karlmenn koma til að "have some quality time with balanced music , soft lighting and fabulous ladies." eins og stendur á vefsíðu þessa staðar. Þessi mynd hérna er af vefsíðu þeirra og ég held hún segi til um hvernig þjónusta er veitt á staðnum.  Þar stendur líka:

Club Odal is proud to have hosted some of the hottest feature acts in the world. Our feature Entertainers have appeared in major men's magazines, films, videos, TV shows, and been the winners of many contests around the world, such as Miss Nude USA and Miss Nude World.


Saga Óðals er þyrnum stráð. Sú starfsemi sem þar fer fram núna er lítilsvirðing við konur. Fyrir aldarfjórðung tröðkuðu eigendur Óðals líka á mannréttindum en þá með því að meina samkynhneigðum aðgang að staðnum og vísa á dyr öllum sem sýndu af sér einhverja hegðun sem gæti túlkast sem samkynhneigð. Ég man vel eftir þessum tíma á Óðali og varð oftar en einu sinni vitni að því að fólki var vísað á dyr fyrir að faðmast og kyssast og halda hvort utan um annað. 

Guðrún Rögnvaldardóttir skrifar greinina "Ég er í Samtökunum '78" í Morgunblaðið í gær.  Hún byrjar greinina svona:

Kvöld eitt fyrir 25 árum stóð ég í biðröð til að komast inn í Óðal, sem þá var einn af helstu skemmtistöðum borgarinnar. Með mér í för var kærastinn minn, síðar eiginmaður. næstir á eftir okkur í röðinni voru þáverandi formaður Samtakanna '78 og sambýlismaður hans. Eftir um hálftíma tíðindalausa bið var röðin komin að okkur að vera hleypt inn. Ég og kærastinn gengum inn, en síðan hrintu dyraverðirnir sambýlismanni formannsins frá, kipptu formanninum inn fyrir, fleygðu honum á grúfu í góllfið, settust ofan á hann og lömdu hann og létu svívirðingarnar dynja á honum - sögðust ekki vilja sjá hans líka inni á staðnum, og honum væri fyrir bestu að hætta að reyna að sækja staðinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband