15.12.2008 | 11:57
Fjölmiðlar og eigendur þeirra
Núna er barist um yfirráð yfir fjölmiðlum á Íslandi. Sá sem á rödd þjóðarinnar og getur búið til sannleikann getur líka búið til þá ímynd að hann eigandinn sé góðmenni, nánast dýrlingur og það sem hann og þær kvarnir sem honum mala gull séu að vinna í þágu allrar þjóðarinnar. Á Íslandi í dag veit samt enginn neinn um hver á hvað, bæði vegna þess að krosseignatengslin liggja þvers og kruss og fyrirtæki sem á í fyrirtæki sem á í fyrirtæki sem á í .... sem er skráð á einhverri undarlegri eyju, ekki Íslandi. Eftir bankahrunið er það ekki einu sinni þannig að fjölmiðlarnir séu í eigu eigenda sinna því mestallt sem skráðir eigendur eiga er veðsett og það er þannig að raunverulegir eigendur eru lánadrottnarnir.

Það er ekkert nýtt að fjölmiðlar gangi erinda eigenda sinna sb. þetta nýja DV-mál. Þegar á reynir þá munu fjölmiðlar alltaf gæta hagsmuna eigenda sinna (eða þeirra sem eiga skuldir eigendanna), annars eru þeir bara lagðir af. Frægt er þegar Björgúlfur ætlaði að kaupa DV til þess eins að leggja það niður og ástæðan var umfjöllun sem honum gramdist um fjölskyldu hans.
Fjölmiðlar sem eiga lífsafkomu sína undir auglýsingum eru náttúrulega háðir þeim sem auglýsa og það er því augljós slagsíða á fjölmiðlum að að þeir hampa kaupmannastéttinni og þeim sem eiga fyrirtækin og hefur Morgunblaðið í gegnum árin gengið erinda þess hóps öðrum fremur. Líka erinda þeirra sem vilja viðhalda völdunum þar sem þau eru þegar. Þannig hefur Morgunblaðið í gegnum tíðina verið málgagn kaupmannastéttar, ættarveldis og fjármagnseigenda. Tíminn var málgagn Samvinnuhreyfingarinnar og Þjóðviljinn málgagn verkalýðshreyfingar og alþýðu. Þegar flokksblöðin lögðust af þá breyttist íslenska fjölmiðlaumhverfið en það breyttist þannig að næstum öll pressan varð málgagn þeirra sem spiluðu matador um allan heim með peninga sem þeir bjuggu til í eigin bönkum.
![]() |
Frétt DV stöðvuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2008 | 12:24
Fangar og frelsið
Hvað er besta leiðin í fangelsismálum? Er það að byggja sem mest við Litla-Hraun af rammgerðum, víggirtum fangageymslum einangruðum frá umheiminum með tvöföldum rafmagnsgirðingum og alls konar vöktunartækjum og afruglunartækjum? Er það að passa að engin fjarskipti og tjáskipti geti farið fram milli fangelsismúra og umhverfis?
Ég las tvær greinar um fangelsismál í blöðum áðan. Annars vegar grein um að blokkera eigi aðgang fanga að Netinu og hins vegar grein um að frestað hafi verið að byggja nýja viðbyggingu á Litla-Hrauni. Sú frétt var skrifuð frá sjónarhóli fangelsisyfirvalda og stjórnenda Litla-Hrauns.
Nú veit ég vel að Litla-Hraun er stór vinnuveitandi á Eyrarbakka og nærsveitum og það er viss stærðarhagkvæmni að hafa eitt stórt fangelsi. En ég held ekki að það sé best út frá sjónarmiðum Íslendinga og því að fangelsi virki sem betrunarhús að hafa eitt stórt öryggisfangelsi hérna og sleppa svo föngum beint út úr því út í heimili eins og áfangaheimili Verndar.
Það er nóg húsnæði á Íslandi í dag og allar líkur á að það verði ennþá meira af ónotuðu húsnæði. Það eru í því tækifæri til að reka annars konar fangelsi - fangelsi sem væru meiri betrunarhús en Litla-Hraun er. Það eru því miður margar sögur um að fangar skaddist mikið af dvöl sinni í fangelsum, fari inn sem þjófar og smákrimmar og komi út harðsvíraðir glæpamenn. Það er vissulega aðaltilgangur fangelsa að refsa fólki og auðvitað er það engin refsing ef fólk býr glaum og gleði í fangelsum og meiri lúxus en almenningur en þannig er bara ekki ástandið í dag.
Það er mikið af fólki sem glímir við eitulyfja- og drykkjufíkn í fangelsum og þessi fíkn er stundum líka höfuðorsakavaldur í afbrotum.
Það er ef til vill betra fyrir íslenskt samfélagið og tryggir meiri mannréttindi á Íslandi að fangelsi séu minni einingar og dreifðari og meira sé lagt upp úr að þau séu betrunarhús en ekki staður til að þrauka eins dofinn og hægt er. það er nú reyndar margt gott gert á Litla-Hrauni núna undir stjórn Margrétar. Ég vildi hins vegar sjá fleiri fangelsismódel og af hverju má samkeppni bara vera um eitthvað sem hægt er að mæla í peningum. Af hverju má ekki vera samkeppni um fangelsi þar sem árangur er ekki mældur í því hve litlu þarf að kosta til gæslunnar og hve örugg hún er - heldur í því hvernig fangarnir koma út úr fangelsinu - hvernig plumma þeir sig sem manneskjur, brjóta þeir af sér aftur?
Eitt af því sem mér skilst að sé mikilvægast fyrir fanga er að þeir hafi gott stuðningsnet af fjölskyldu sinni. Það auðvitað helgast af því að þeir eigi fjölskyldu og hafi ekki brotið svo á henni að allir hafi ekki snúið við þeim baki. Það er þannig hugsanlegt að einhvers konar fangelsismódel þar sem meira er langt upp úr fjölskyldutengslum sé hentugra. Það kann að vera að þessi einangrun og innilokun sé afar óheppileg leið til refsinga.
hér eru greinar sem ég hef skrifað um fangelsismál
Mannréttindi fanga á Íslandi
Bryggjutröllin og mannréttindi glæpamanna Metamorphoses
Hættulegir fangar í opnu fangelsi - Fangar á Vernd hafa oft brotið af sér
Rasphús Ríkisins
![]() |
Lokað fyrir netaðgang fanga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2008 | 10:27
Grýludagur - Lúsíudegur
Á morgunn laugardaginn 13. desember er Lúsíudagurinn sem vinir og okkar og nágrannar Svíar hafa gert að árlegum hátíðisdegi og ljósahátíð. Hér á Íslandi verður hátíðin með öðru sniði. Þannig hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli og kvatt til þess að göngumenn lúti höfði og þegi í nákvæmlega 17 mínútur. Mínúturnar eru jafnmargar og valdatími Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.
Lúsíuhátíðin sænska er ljósahátíð þar sem gyðja er tilbeðin og hátíðin er haldin í mesta skammdeginu. Svíarnir baka sólbrauð og dýrka sólina með ýmsum hætti. Saffran er sett í sólbrauðin sem kallast lusieklatter og sum þeirra eru formuð eins og snúðar en sum eru formuð með ævagömlu tákni, sólkrossinum. Sólkrossinn sem er bakaður í brauð er þó með mjúkar línur, ekki harðar beinar línur eins og Swastika Þriðja ríkisins.
Margir af þeim ritúölum sem tengjast myrkasta skammdeginu eru einhver konar hermigaldrar sem óma þrána eftir birtu, vori og gróanda, gjörningar þar sem hermt er á táknrænan hátt eftir sólinni með því að hengja upp í híbýlum jólaljósaseríur, skreyta sígræn tré og greinar og stilla þeim upp í stofum og svo rifja upp söguna um að allt endurfæðist, það sögð sagan um nýfædda barnið í jötunni um hver jól. Á Íslandi vaknar líka upp ný Grýla um hver jól.
Grýla er líka tengd ljósinu og skammdeginu og vetrinum. Hún birtist um sama leyti og Lúsía vitrast Svíum.
Hér eru nokkrir kaflar úr ritverkinu Grýla og jólasveinar sem ég gerði fyrir meira en einum áratug.
1. kafli | Grýla með poka og pott, aldur og útlit, afkomendur, breytingar á Grýlu gegnum aldirnar. |
2. kafli | Hvað tákna Grýlusögur? Grimm yfirvöld, náttúra og landslag, verri hliðar móður, uppeldistæki. |
3. kafli | Hvað tákna Grýlusögur? Hlutskipti kvenna, eiginkonur, ómegð, dyggðir og breyskleiki. |
4. kafli | Hvað tákna Grýlusögur? Fullorðinsár, lífsbarátta, atvinnulíf. Óður til óttans. |
5. kafli | Grýla á 20. öld Hefur Grýla mildast? Gamanmál og grá alvara |
6. kafli | Grýlukvæði á 20.öld |
Hér e Grýla, Grýlur, Grøleks and Skeklers (Terry Gunnell)
![]() |
Þögul mótmæli á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2008 | 14:04
Hátíðisdagur mannréttinda í dag - opinn fundur Mannréttindaráðs
Í morgun fór ég á morgunverðarfund hjá Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þetta var fundur sem er opinn öllum borgarbúum og vel til fundið að hafa hann sérstakan hátíðafund því einmitt í dag er 60 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindaskrifstofa Íslands verður svo með athöfn síðar í dag og Amnesty með tónleika í kvöld.
Þetta var mjög skemmtilegur og fræðandi fundur, siðfræðingarnir Vilhjálmur Árnason og Salvör Nordal fluttu erindi og svöruðu fyrirspurnum og Marta Guðjónsdóttir formaður Mannréttindaráðs stýrði fundinum og hún og Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri sögðu frá starfi Mannréttindaskrifstofu og Mannréttindanefndar í Reykjavík.
Ég er varaformaður Mannréttindaráðs og þó mér finnist alltaf mjög gaman og gefandi að vinna með ráðinu þá fannst mér þó þessi fundur sérlega skemmtilegur því áherslan hjá okkur vanalega er meira á praktísk viðfangsefni sem snúa að mannréttindum íbúa í Reykjavík en í morgun var fjallað um mannréttindi út frá heimspekilegu og siðfræðilegu sjónarhorni.
Ég er ekki búin að vera lengi í Mannréttindaráði, ég kom inn þegar síðustu stjórnarskipti voru í Reykjavík og Óskar Bergson fulltrúi okkar Framsóknarmanna og Hanna Birna mynduðu meirihluta. Ég hafði því enga reynslu af nefndastarfi í borginni en nú sit ég í tveimur nefndum, Mannréttindaráði og barnaverndarnefnd. Þó að hver höndin sé upp á móti annarri í þjóðmálunum á Íslandi í dag þá virðist mér að það sé allt öðru vísi unnið núna í Reykjavíkurborg. Mér virðist þar unnið í sátt og heilindum af bæði meirihluta og minnihluta að mæta þessari nýju gjörbreyttu stöðu sem við erum í núna í Reykjavík.
Annars eru hér hugleiðingar mínar úr fyrirlestrum siðfræðinganna um mannréttindi. Vilhjálmur sagði að það reyndi oft mest á mannréttindi þegar úrhrök eiga í hlut.
Hér fór ég að hugsa um að ef til vill ættum við að skoða núna hver við teljum mestu úrhrök samfélagsins og hvaða líf við teljum að þeim ætti að bjóðast. Hvernig mannréttindi viljum við að útrásarvíkingarnir hafi? Hvað með þá sem hafa framið viðurstyggileg brot og sitja fangaðir inn á Litla-Hrauni? Hvernig sjáum við mannréttindi þekktra barnaníðinga? Finnst okkur það eðlilegt að veikir menn séu hundeltir í fjölmiðlum og af íbúum, finnst okkur að það megi réttlæta af því að viðkomandi hefur framið afbrot sem okkur finnast viðurstyggileg og þjáist af veiki sem okkur finnst viðbjóðsleg og okkur grunar að viðkomandi gæti í framtíðinni framið önnur afbrot? Vissulega er það prófraun á okkur hvort við viljum að þessir aðilar njóti mannréttinda eða hvort við segjum - þeir gerðu þetta og þetta af sér, við skulum grilla þá á teini.
Vilhjálmur talaði um mannhelgi sem ímyndað rými - tjáningarrými eða griðland þar sem einstaklingurinn hefur til umráða og stjórnvöld geta ekki seilst í. Hann talaði líka um mannréttindi sem gæðarétt - það verða að vera til staðar efnislegar forsendur, fólk verður að vita hvaða valkosti það hefur og mannréttindi eru réttur til afskiptaleysis en byggjast líka á efnislegum bjargráðum þ.e. að fólk geti séð fyrir sér. Hann talaði líka um rétt mannréttinda við skyldur m.a. um griðarétt í tengslum við taumhaldsskyldur annarra (tók dæmi um líknarmorð), réttur til lífs kallar á aðhlynningu, frelsisréttur kallar á menntun. Vilhjálmur nefndi að sjónarhorn frjálshyggju væri þannig að einstaklingurinn væri í varnaraðstöðu gagnvart ríkisvaldi m.a. horft á skattheimtu þannig. Sjónarhornið væri þannig ekki á samtryggingu og jöfnun í gegnum skattheimtu.
Hann ræddi um forsendur samræðusamfélags, samræðan mætti ekki vera þannig að sumir gætu ekki tekið þátt af því þeir væru niðurlægðir. Siðfræðingarnir ræddu báðir um hlutverk tungumálsins hvernig það er notað í umræðunni. Salvör líkti mannréttindum við tromp á hendi (hmmm... spilamennsku og lottókassasamfélagið íslenska er svo gegnsýrt í umræðuna að myndlíkingar siðfræðinga koma úr spilamennsku - það er áhugavert að skoða hvernig þessi myndlíking hefur áhrif á umræðuna), hún talaði líka um hvernig réttindi kallast á við skyldur og útskýrði neikvæð réttindi eða griðaréttindi en það eru t.d. kröfur á aðra að láta okkur afskiptalaus. Hún fór líka yfir grundvallarréttindi sem væru forsenda þess að við gætum notið annarra mannréttinda - við yrðu að hafa rétt til líkamlegs öryggis, lágmarks lífsviðurværi og sum frelsisréttindi. Salvör nefndi skyldur sem kallast á við réttindi s.a. skylda til að vernda fólk við réttindabrotum, skylda til að aðstoað þá sem brotið er á. Hún ræddi um mannréttindi sem hugsjón eða kröfu um hegðun og hún ræddi um tjáningarfrelsi - bæði frelsi til að afla upplýsinga og frelsi til að birta upplýsingar. Salvör ræddi einnig um þöggun og rök fyrir tjáningarfrelsi. Hún tók sem dæmi tvö svið klám og kynþáttahatursumræðu og varpaði fram spurningum um hvernig og hvort ritskoðun og höft á slíkri umræðu væru höft á tjáningarfrelsi.
Hér er svo til upprifjunar Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Allir ættu að lesa hana vel því hún er eins og stjórnarskrá okkar í samfélagi þjóðanna.
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna
Samþykkt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 10. desember 1948.
Það ber að viðurkenna, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.
Mannréttindayfirlýsingin er ekki þjóðréttarsamningur og því ekki bindandi að lögum fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Sumir fræðimenn telja þó Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna bindandi að þjóðarétti því svo títt hafi verið til hennar vísað af leiðtogum þjóða heimsins að hún hafi öðlast vægi réttarvenju.
Inngangsorð
Hafi mannréttindi verið fyrir borð borin og lítilsvirt, hefur slíkt í för með sér siðlausar athafnir, er ofboðið hafa samvisku mannkynsins, enda hefur því verið yfir lýst, að æðsta markmið almennings um heim allan sé að skapa veröld, þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu.
Mannréttindi á að vernda með lögum. Að öðrum kosti hljóta menn að grípa til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn kúgun og ofbeldi.
Það er mikilsvert að efla vinsamleg samskipti þjóða í milli.
Í stofnskrá sinni hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst yfir trú sinni á grundvallaratriði mannréttinda, á göfgi og gildi mannsins og jafnrétti karla og kvenna, enda munu þær beita sér fyrir félagslegum framförum og betri lífsafkomu með auknu frelsi manna.
Aðildarríkin hafa bundist samtökum um að efla almenna virðingu fyrir og gæslu hinna mikilsverðustu mannréttinda í samráði við Sameinuðu þjóðirnar.
Til þess að slík samtök megi sem best takast, er það ákaflega mikilvægt, að almennur skilningur verði vakinn á eðli slíkra réttinda og frjálsræðis.
Fyrir því hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fallist á mannréttindayfirlýsingu þá, sem hér með er birt öllum þjóðum og ríkjum til fyrirmyndar. Skulu einstaklingar og yfirvöld jafnan hafa yfirlýsingu þessa í huga og kappkosta með fræðslu og uppeldi að efla virðingu fyrir réttindum þeim og frjálsræði, sem hér er að stefnt. Ber og hverjum einum að stuðla að þeim framförum, innan ríkis og ríkja í milli, er að markmiðum yfirlýsingarinnar stefna, tryggja almenna og virka viðurkenningu á grundvallaratriðum hennar og sjá um, að þau verði í heiðri höfð, bæði meðal þjóða aðildarríkjanna sjálfra og meðal þjóða á landsvæðum þeim, er hlíta lögsögu aðildarríkja.
1. grein
Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.
2. grein
1.Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
2.Eigi má heldur gera greinarmun á mönnum fyrir sakir stjórnskipulags lands þeirra eða landsvæðis, þjóðréttarstöðu þess eða lögsögu yfir því, hvort sem landið er sjálfstætt ríki, umráðasvæði, sjálfstjórnarlaust eða á annan hátt háð takmörkunum á fullveldi sínu.
3. grein
Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.
4. grein
Engan mann skal hneppa í þrældóm né nauðungarvinnu. Þrælahald og þrælaverslun, hverju nafni sem nefnist, skulu bönnuð.
5. grein
Enginn maður skal sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
6. grein
Allir menn skulu, hvar í heimi sem er, eiga kröfu á að vera viðurkenndir aðilar að lögum.
7. grein
Allir menn skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án manngreinarálits. Ber öllum mönnum réttur til verndar gegn hvers konar misrétti, sem í bága brýtur við yfirlýsingu þessa, svo og gagnvart hvers konar áróðri til þess að skapa slíkt misrétti.
8. grein
Nú sætir einhver maður meðferð, er brýtur í bága við grundvallarréttindi þau, sem tryggð eru í stjórnarskrá og lögum, og skal hann þá eiga athvarf hjá dómstólum landsins til þess að fá hlut sinn réttan.
9. grein
Ekki má eftir geðþótta taka menn fasta, hneppa þá í fangelsi eða varðhald né gera þá útlæga.
10. grein
Nú leikur vafi á um réttindi þegns og skyldur, eða hann er borinn sökum um glæpsamlegt athæfi, og skal hann þá njóta fulls jafnréttis við aðra menn um réttláta opinbera rannsókn fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.
11. grein
1.Hvern þann mann, sem borinn er sökum fyrir refsivert athæfi, skal telja saklausan, uns sök hans er sönnuð lögfullri sönnun fyrir opinberum dómstóli, enda hafi tryggilega verið búið um vörn sakbornings.
2.Engan skal telja sekan til refsingar, nema verknaður sá eða aðgerðarleysi, sem hann er borinn, varði refsingu að landslögum eða þjóðarétti á þeim tíma, er máli skiptir. Eigi má heldur dæma hann til þyngri refsingar en þeirrar, sem að lögum var leyfð, þegar
verknaðurinn var framinn.
12. grein
Eigi má eftir geðþótta raska heimilisfriði nokkurs manns, hnýsast í einkamál hans eða bréf, vanvirða hann eða spilla mannorði hans. Ber hverjum manni lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.
13. grein
1.Frjálsir skulu menn vera ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis.
2.Rétt skal mönnum vera að fara af landi burt, hvort sem er af sínu landi eða öðru, og eiga afturkvæmt til heimalands síns.
14. grein
1.Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.
2.Enginn má þó skírskota til slíkra réttinda, sem lögsóttur er með réttu fyrir ópólitísk afbrot eða atferli, er brýtur í bága við markmið og grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna.
15. grein
1.Allir menn hafa rétt til ríkisfangs.
2.Engan mann má eftir geðþótta svipta ríkisfangi né rétti til þess að skipta um ríkisfang.
16. grein
1.Konum og körlum, sem hafa aldur til þess að lögum, skal heimilt að stofna til hjúskapar og fjölskyldu, án tillits til kynþáttar, þjóðernis eða trúarbragða. Þau skulu njóta jafnréttis um stofnun og slit hjúskapar, svo og í hjónabandinu.
2.Eigi má hjúskap binda, nema bæði hjónaefnin samþykki fúsum vilja.
3.Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins, og ber þjóðfélagi og ríki að vernda hana.
17. grein
1.Hverjum manni skal heimilt að eiga eignir, einum sér eða í félagi við aðra.
2.Engan má eftir geðþótta svipta eign sinni.
18. grein
Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í þessu felst frjálsræði til að skipta um trú eða játningu og enn fremur til að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustum og helgihaldi.
19. grein
Hver maður skal vera frjáls skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur slíkt frjálsræði í sér réttindi til þess að leita, taka við og dreifa vitneskju og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.
20. grein
1.Hverjum manni skal frjálst að eiga þátt í friðsamlegum fundahöldum og félagsskap.
2.Engan mann má neyða til að vera í félagi.
21. grein
1.Hverjum manni er heimilt að taka þátt í stjórn lands síns, beinlínis eða með því að kjósa til þess fulltrúa frjálsum kosningum.
2.Hver maður á jafnan rétt til þess að gegna opinberum störfum í landi sínu.
3.Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvæðagreiðsla viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.
22. grein
Hver þjóðfélagsþegn skal fyrir atbeina hins opinbera eða alþjóðasamtaka og í samræmi við skipulag og efnahag hvers ríkis eiga kröfu á félagslegu öryggi og þeim efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, sem honum eru nauðsynleg til þess að virðing hans og þroski fái notið sín.
23. grein
1.Hver maður á rétt á atvinnu að frjálsu vali, á réttlátum og hagkvæmum vinnuskilyrðum og á vernd gegn atvinnuleysi.
2.Hverjum manni ber sama greiðsla fyrir sama verk, án manngreinarálits.
3.Allir menn, sem vinnu stunda, skulu bera úr býtum réttlátt og hagstætt endurgjald, er tryggi þeim og fjölskyldum þeirra mannsæmandi lífskjör. Þeim ber og önnur félagsleg vernd, ef
þörf krefur.
4.Hver maður má stofna til stéttarsamtaka og ganga í þau til verndar hagsmunum sínum.
24. grein
Hverjum manni ber réttur til hvíldar og tómstunda, og telst þar til hæfileg takmörkun vinnutíma og reglubundið orlof að óskertum launum.
25. grein
1.Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum, sem skorti valda og hann getur ekki við gert.
2.Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, skilgetin sem óskilgetin, skulu njóta sömu félagsverndar.
26. grein
1.Hver maður á rétt til menntunar. Skal hún veitt ókeypis, að minnsta kosti barnafræðsla og undirstöðumenntun. Börn skulu vera skólaskyld. Iðnaðar- og verknám skal öllum standa til boða og æðri menntun vera öllum jafnfrjáls, þeim er hæfileika hafa til að njóta hennar.
2.Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og innræta þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarflokka og að efla starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðarins.
3.Foreldrar skulu fremur öðrum ráða, hverrar menntunar börn þeirra skuli njóta.
27. grein
1.Hverjum manni ber réttur til þess að taka frjálsan þátt í menningarlífi þjóðfélagsins, njóta lista, eiga þátt í framförum á sviði vísinda og verða aðnjótandi þeirra gæða, er af þeim leiðir.
2.Hver maður skal njóta lögverndar þeirra hagsmuna, í andlegum og efnalegum skilningi, er leiðir af vísindaverki, ritverki eða listaverki, sem hann er höfundur að, hverju nafni sem nefnist.
28. grein
Hverjum manni ber réttur til þess þjóðfélags- og milliþjóðaskipulags, er virði og framkvæmi að fullu mannréttindi þau, sem í yfirlýsingu þessari eru upp talin.
29. grein
1.Hver maður hefur skyldur við þjóðfélagið, enda getur það eitt tryggt fullan og frjálsan persónuþroska einstaklingsins.
2.Þjóðfélagsþegnar skulu um réttindi og frjálsræði háðir þeim takmörkunum einum, sem settar eru með lögum í því skyni að tryggja viðurkenningu á og virðingu fyrir frelsi og réttindum annarra og til þess að fullnægja réttlátum kröfum um siðgæði, reglu og velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi.
3.Þessi mannréttindi má aldrei framkvæma svo, að í bága fari við markmið og grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna.
30. grein
Ekkert atriði þessarar yfirlýsingar má túlka á þann veg, að nokkru ríki, flokki manna eða einstaklingi sé heimilt að aðhafast nokkuð það, er stefni að því að gera að engu nokkur þeirra mannréttinda, sem hér hafa verið upp talin
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.12.2008 | 14:37
Krugman og kreppan
Paul Krugman spáir langri kreppu og hann sér ekki neinn stað í heiminum þar sem fólk er óhult fyrir áhrifum hennar. Hvernig mun kreppan leika Kína, landið þar sem unga fólkið heldur núna að gríðarlegur hagvöxtur sé náttúrulögmál, landið þar sem rekinn er einhvers konar kommúnískur markaðsbúskapur. Eða hvernig mun kreppan fara með stöðnuðu svæðin í Evrópu, svæðin þar sem er mikið atvinnuleysi, svo mikið að sums staðar hefur ekki nema helmingur af ungu fólki vinnu.
Ef til vill eru uppþotin sem núna eru í Grikklandi tengd ástandinu á þannig svæðum, ef til vill munu sams konar uppþot blossa upp á Spáni og færa sig eftir álfunni. Ef til vill mun kreppan brjóta upp samfélög Evrópu og Ameríku meira en okkar órar fyrir núna. Það er að verða snögg skerping á lífskjörum víða um lönd og öryggisleysi vofir yfir öllum. Það skiptir líka máli að þeir sem verða nú fyrir mestri skerðingu eru fólk sem hefur mikinn baráttuþrótt, það er ungt fólk sem annað hvort missir vinnu sína eða sér fram á að fá ekki vinnu og þar er oft fólk sem er vel menntað. Það er fólk sem hefur slagkraft til mótmæla ef það skipuleggur sig í hreyfingum. Það er ekki víst að öll mótmæli verði friðsamleg. Satt að segja þá eru mótmæli á Íslandi í dag tiltölulega friðsamleg. Borgarafundir og mótmælafundir eru friðsamlegir en þær aðgerðir sem minni hópar hafa efnt til eins og innrás í Seðlabankann og upphengingar á táknum virðast frekar vera einhvers konar listrænir gjörningar og meðvituð borgaraleg óhlýðni. Ég skynja ekki ennþá hérna þá spennu sem er sums staðar erlendis t.d. á innri Nörrebro í Kaupmannahöfn, þar getur soðið upp úr hvenær sem er.
En kreppan hefur valdið því að samfélagið hrundi á Íslandi. Þetta er ekki bara bankahrun, það voru ekki bara einhverjir þrír bankar sem fóru á hliðina. Það féll saman mestallt atvinnulíf á Íslandi og stjórnsýslan er einhvers staðar undir rústunum og allra neðst eru þeir sem mesti þunginn af hruninu lenti á, það er ungt skuldugt fólk á Íslandi, fólk sem hefur ekki mikinn hreyfanleika vegna þess að það er með ung börn og fólk sem missti vinnu eða hefur enga möguleika á að fá vinnu núna. Undir rústunum eru líka allir þjóðfélagsþegnar sem þurfa nú að taka á sig miklar skuldabyrði út af erlendum bankaskuldum sem þeir vissu ekki að væru til. "Við eigum fiskinn og við eigum orkuauðlindir, við reddum þessu" segja hinir bjartsýnu og átta sig ekki á því að leyfið til að veiða fisk við Íslandsstrendur hefur löngu verið framselt úr hendi íslenskrar alþýðu og er sennilega beint og óbeint núna í erlendri eigu og yfir orkuauðlindum hafa ginið þeir sem vildu breyta þeim í hf verðmiða svo hægt væri að selja sem fyrst í einkavæðingaræði. Það var bara skemmra komið í orkuauðlindum en í fiskinum og bönkunum. En jafnvel þó við ættum fisk til að selja og orku til að selja þá hefur heimsmarkaðsverð á báðu farið niður. Álverðið hefur hrapað og orkuverð hefur hrapað í heiminum.
það er alls staðar verðhjöðnun. Það hljómar kannski ekki illa, allt orðið ódýrara en það er miklu meira að óttast fyrir almenning að við taki langt tímabil verðhjöðnunar og kyrrstöðu. Kreppan er að sumu leyti búin til í huga fólks - fólks sem hegðar sér einst og allt annað fólk - og af því að allir halda að sér höndum, fresta því að kaupa bíla og dýra hluti og reyna að tempra eyðslu sína - þá verður svona keðjuverkum - ótti við kreppu veldur kreppu.
En út frá umhverfissjónarmiðum eru ljósir punktar í kreppunni. Neyslusamfélag og umbúðasamfélag víkur fyrir samfélagi þar sem fólk býr til hlutina sjálft, hugsar um nýtni, sparar og reynir að stunda vöruskipti. Ef til vill mun eiga sér stað einhver kerfisbreyting á hvernig viðskipti fara fram, peningakerfið sem við höfum búið við hefur hrunið, ekki síst þegar gjaldmiðillinn sjálfur varð að einvers konar froðu. Það er ekkert sérstaklega bundið við íslensku krónuna, hún er bara svo örsmár gjaldmiðill að við sjáum og finnum betur fyrir hve gjaldmiðillinn er fáránlegur hérna.
Það verða örugglega breytingar á við hvað Íslendingar starfa. Bankastarfsemi hefur snarminnkað og það er raunar ekkert sem bendir til annars en áfram muni fækka starfsfólki í bönkum. Það kom fram í fréttum í vikunni að það væri áætlað að um þúsund manns hefðu atvinnu sína af einhvers konar bílasölu og bílastússi. Það er fáránlegt tala og það mun aldrei koma aftur sá tími að bílasala verði atvinnuvegur sem veitir mörgum vinnu. Það er eitt sem við verðum að horfast í augu við, það er margs konar atvinna að hverfa núna og fólk verði að leita sér að atvinnu á öðrum sviðum, við iðju og þjónustu sem passar fyrir hið nýja samfélag. Við þurfum líka að endurskoða alla vinnu sem skattgreiðendur borga - er þetta vinnuframlag að nýtast? Af hverju þarf að halda uppi 64 manns og aðstoðarfólki á valdalausu þingi sem næstum eingöngu virðist hafa það hlutverk að stimpla lög sem koma frá Evrópusambandinu? Af hverju á smáríki eins og Ísland að halda úti sendiherrum og sendiráðsbústöðum út um allar trissur, sumum svo nálægt Íslandi að þangað eru margar ferðir á dag? Er gjaldeyri ekki ákaflega illa varið í gamaldags sendiráðsstarfsemi, að reka sendiráð sem einhver hvíldarhæli fyrir gamla pólítíkusa? Hvað með forsetaembættið? Þurfum við áfram að halda uppi einhverju batteríi sem núna síðustu ár hefur verið alfarið í þjónustu auðmanna? Forsetinn er svo sannarlega ekki sameiningartákn þjóðarinnar, Vigdís Finnbogadóttir var það vissulega og er það enn. En ekki Ólafur. Hann sem klifraði áfram í íslenskri pólitík inn í Alþýðubandalaginu gerðist lagsmaður þeirra sem nú hafa steypt okkur í glötun og hann gerðist trúboði þeirra og talsmaður. Forsætisembættið varð almannatengslaskrifstofa, ekki fyrir almenning heldur fyrir útrásarspilakassaauðjöfra til að tengjast háttsettum aðilum í fjarlægum löndum. Forsetinn var auk heldur sérstakur verndari þeirrar tegundar af fjölmiðlun sem er þannig að auðmenn sem spila með Ísland eigi alla fjölmiðla.
Er ekki betra að breyta forsetaembættinu? Annað hvort leggja það niður eða takmarka hvað forsetinn má gera í alþjóðamálum? Eða breyta því í embætti sem snýr alfarið inn á við, embætti sem þjónustar almenning á Íslandi og vinnur eingöngu að því sem sameinar íslenska þjóð. Er ekki betra að nýta starfsorku allra þeirra sem starfa í sendiráðum til að byggja upp aftur eftir hrunið hér á Íslandi og er ekki betra að nota gjaldeyrir sem fer núna í sendiherra og sendiráðsstarfsemi til að aðstoða þróunarlönd.
Allir á Íslandi í dag ættu að spá í hver þörf sé fyrir þá vinnu sem þeir vinna nú fyrir íslenskt samfélag, hvort þeir séu að vinna eitthvað sem á framtíð fyrir sér í gerbreyttu samfélagi og hvort hæfileikar þeirra og reynsla getur komið að betri notum við eitthvað annað - hugsanlega eitthvað nýtt viðfangsefni og iðju sem enginn stundar í dag.
Það má færa gild rök fyrir því að betra væri fyrir Ísland að listrænir hæfileikamenn eins og seðlabankastjórinn okkar fari úr því embætti sem hann er í núna og taki til við skriftir og leikritaskrif. Einn af þeim sem fyrir lifandis löngu söðlaði um er Ármann sem kenndur er við Ávöxtun, fjármálafyrirtæki sem fór á hausinn. Ármann var snjall fjármálamaður en nú er hann fagurkeri sem yrkir linjettur og selur sínar eigin ljóðabækur.
Það hefur verið kvartað yfir því að eftir hrunið sé enginn breyting, það sitji allir í sömu stólunum. Það er kannski lausnin að bjóða marga sem núna sitja sem fastast að um leið og þeir fari þá taki þeir með sér stóla sína og verði eins og Ármann sem fékk forstjórastóllinn sinn til baka. Þá gengur þeim kannski betur að yrkja eða gera annað sem auðgað getur hin nýja íslenska samfélag.
![]() |
Krugman óttast glataðan áratug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.12.2008 | 08:38
Hver vaktar þitt heimili? - Ekki íslenskir fjölmiðlar
Það eru engin teikn á lofti að nokkur breyting sé að verða á neinu kerfi. Það er engin trú á þeim sem þykjast nú vera að rannsaka hvað gerðist, nema sú trú að það sé verið að sópa undir teppin, verið að hylma yfir afglöp og vafasama fjármálagerninga. Það keyrir svo um þverbak að núna séu þeir fjárglæframenn sem ég get ekki séð annað en hafi aðhafst glæpsamlega og sviksamlega blekkingarstarfsemi, starfsemi sem er verri en versta Nígeríusvindl að reyna að kaupa brunarústir þess kerfis sem einkavæddi hagnaðinn og peningagerðarvélarnar en ríkisvæddi ábyrgðina og skuldafjötrana og lagði þær á öll fædd og ófædd börn á Íslandi.
Ég spyr eins og fávís kona - af hverju eru þessir menn ekki á Litla-Hrauni eða eftirlýstir af Interpól og hundeltir af lögreglu heimsins? Er sekt þeirra minni en Lalla Jóns? Eru fjármálaglæpir þeirra og afbrot gagnvart íslensku þjóðinni minni en afbrot hans?
Einu sinni var Lalli Jóns vélaður til að skreyta auglýsingu frá öryggisvörslufyrirtæki sem varaði við innbrotsþjófum. Fólki þótti þessi auglýsing ósiðleg, það væri verið að nýta sér aumar aðstæður Lalla sem þá dvaldi á Litla-Hrauni og vantaði aur. En væri ósiðlegt núna að vara okkur við fjárglæframönnunum og endurkomu þeirra? Af hverju eru ekki auglýsingar og fréttir í fjölmiðlum sem vara okkur við að fjárglæframenn Íslands liggi í leyni og geti brotist aftur inn í íslenskt athafnalíf og þjóðlíf þá og þegar?
Um svipað leyti og auglýsingin með Lalla Jóns var birt þá kostaði Jóhannes í Bónus heilsíðuauglýsingu í einum af fjölmiðlum Baugs þar sem hann varaði almenning á Íslandi við íslenska dómsmálaráðherranum og löggæslu á Íslandi. Svona var Ísland fyrir hrunið. Svona var sú fréttamennska og auglýsingamennska sem við bjuggum við þá. Þá.
En það eru einmitt svona tímar ennþá, núna hefur Hreinn Loftsson keypt DV, Hreinn var og er barón baugspressunnar og eins og alltaf þá gengur fréttamiðill fyrst og fremst erinda eigenda sinna og s býr til þá umgjörð og lýsingu sem eigandinn þarfnast til að athafna sig við þau innbrot sem hann hyggst fara í um íslenskt athafnalíf. Það gerist ekki oft að tímarnir séu eins hagstæðir og núna, það þarf varla neitt að brjótast inn, allir lásar eru mölbrotnir og allt eftirlitskerfi í molum.
Núna grunar okkur að barist um fjölmiðlana þannig að sömu blokkirnar og stýrðu þeim fyrir hrunið vildi halda áfram að stýra þeim. Fjölmiðlar á Íslandi voru og eru margir í eigu fjárglæframanna - fjárglæframanna sem fjötruðu heila þjóð. Það gerðist rétt eftir hrunið að geðshræring rann á nokkra fjölmiðlamenn og þeir fundu sekt sína sb greinina Við brugðumst ykkur
eftir Jón Trausta DV ritstjórna en fjölmiðlamenn og skáld geta á undraskömmum hætti snúið spegli sinnar samtíðar þannig að hann endurkasti því sem þeir vilja sjá og Illugi huggaði ritstjórann með greininni "Þetta er ekki þér að kenna, Jón Trausti!"
Svo kom Hreinn Loftsson og keypti DV í sínu nafni. Hvar er ritstjórinn sem einu sinni varð hrærður af geðshræringu yfir að hafa brugðist sinni þjóð? Hvaða tékk hefur hann á því hverjir eru þeir sem raunverulega ráða þeirri rödd sem hann ómar núna? Í gróðærinu vildi Jón Trausti setja alla þá Pólverja sem hingað þvældust í leit að betri lífskjörum í sérstakt Morðingjatékk
Af hverju vilja ekki hann og aðrir ritstjórar á íslenskum fjölmiðlum í dag rýna betur í hverjir raunverulega standa á bak við þá sem reyna að tryggja sér fjölmiðla á Íslandi í dag og hvað vakir fyrir þeim?
Hér til hliðar er dæmi um ruslfréttamennsku eins og hún er núna á forsíðu DV.is í þættinum Sandkorn. Það er mjög slæmt ef satt er að seðlabankastjóri standi fyrir einhverju fjölmiðlaplotti, það er gersamlega ekki við hæfi af þeim sem stýrir því embætti en það er ömurlegur vitnisburður um ástandið á Íslandi í dag að það fái maður helst fréttir um úr öðrum fjölmiðlum sem sennilega eru í eigu þeirra afla sem steyptu okkur í glötun og skildu okkur eftir með skuldirnar - afla sem ætla sér að koma aftur að borðinu til að einkavæða hagnaðinn næst þegar þeir tímar koma að athafnalíf á Íslandi rís undir sér. Þessi umfjöllun í DV sýnir líka berlega hvers konar miðill DV er og hvaða hagsmuna er gætt þar.
Annars átti þetta blogg að vera gagnrýni mín á moggafrétt um styrkingu krónunnar. Þessi efnahagsfrétt mbl.is er ekki eins mikið ruslfréttamennska eins og sandkornspistillinn "Náhirð leitar blárra blóma" en hún er akkúrat dæmi um þá grunnu og yfirborðslegu fréttamennsku sem hefur átt þátt í hruninu amk á þann hátt að leyna því fyrir okkur hvert stefndi. Það er þannig að það er tóm tjara að tala nú um einhverja styrkingu krónunnar, gjaldeyrismarkaður er bundinn höftum og viðskipti eru lítil en það er vitað að mikið fé mun leita úr landi og það er alls ekkert eftirsóknarvert fyrir Ísland að þegar gengi krónunnar er haldið uppi. Þannig myndu gjaldeyrisvarasjóðir þ.e. lán IMf verða fljótt uppurið. Vísa ég hér t.d. til umfjöllunar Jóns Daníelssonar hagfræðings. Þessi efnahagsfrétt um styrkingu krónunnar er eins og bara ennþá ein yfirhylmingin, að slá ryki í augu almennings - þetta sé allt að batna, gengið að styrkjast og allt að verða gott aftur, besta mál. Svona er staðan ekki. Því miður á ástandið eftir að verða verra.
![]() |
Eftirstöðvar gengistryggðra lána minnka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.12.2008 | 16:52
Nýja Rúgbrauðsgerðin
Við erum ekki fransbrauð, við erum rúgbrauð, sagði Gerður Kristný í ræðu á mótmælafundi á Austurvelli og benti á að við eigum fiskimiðin og auðlindirnar og annað sem við getum nýtt okkur til að koma okkur á rétta braut. En þetta er blekking. Hvorki ég né Gerður Kristný eigum neítt í fiskimiðunum þó um það séu fjálgleg orð í íslenskum lögum. Rétturinn til að nytja fiskimiðin var afhentur útgerðarmönnum og úr þessum rétti voru búnir til peningar sem skoppuðu til og frá um íslenskt hagkerfi og bólgnuðu upp og aftengjust við útgerðina og urðu bara ennþá ein peningabólugerðarvélin á Íslandi.
Hver á kvótann í dag? Eru það bankarnir í gegnum gjaldþrota útgerðir? Eru það þá ekki erlendir kröfuhafar bankanna sem raunverulega munu eiga íslenska útgerð ef þeim verður afhent þrotabú bankanna. Hvers vegna má ekki þjóðnýta fiskimiðin á Íslandi í dag á sama hátt og það mátti þjóðnýta banka á Íslandi og byggja upp áætlanir sem miða að endurreisn sams konar kasínókapítalisma kerfis með fulltingi IMF?
Og hvernig er það með aðrar auðlindir á Íslandi? Sannleikurinn er sá að undanfarna áratugi hafa fulltrúar peningaaflanna haft öll ítök í stjórnmálum á Íslandi m.a. með því að efla og styrkja sína kandidata og þá sem eru vænlegir hagsmunagæslumenn þeirra til stjórnmálabaráttu. Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa leynt og þó aðallega ljóst unnið í einhvers konar þráhyggju einkavæðingadýrkunar að því að breyta Íslandi í vettvang verðmiðanna þar sem væri verðmiðar á öllu sem ríkið ætti og allt væri falt og eins auðvelt væri að selja Ísland í bútum eins og að láta vatn falla niður í móti í fallvatnsvirkjunum. Það er tílviljun að ekki er lengra komið í því að selja burt íslenskar auðlindir á sviði orkumála eins og að láta burt kvótann og bankakerfið. Það er enginn ástæða til að treysta þeim sem töluðu eins og þeir byðu upp á trausta efnahagsstjórn (loforð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar). Þeir buðu bara upp á yfirhylmingu og hagsmunagæslu fyrir fjármagnseigendur og núna eftir hrunið þá botnlausa og örvæntingarfulla spillingu.
Ég er hvorki franskbrauð né rúgbrauð þó Gerður Krisný haldi því fram. Þær leiðir sem við Íslendingar getum farið núna eru ef til vill bara tvær. Annars vegar að verða þurfamenn sem haldið er uppi með bónbjörgum í jaðarsvæði eða nýlendu þar sem tappað er af orku og hráefnum fyrir vinnslu og neyslu annars staðar, þurfamenn sem séð er fyrir brauði til að þeir kjósi rétt svona svipað múgurinn í Róm til forna fékk mjöl svo hann væri þægur. Eða að taka til okkar ráða og búa sjálf til okkar brauðgerð. Nýja Rúgbrauðsgerð. Gerður Kristný og allir sem lesa þetta blogg, ég er ekki rúgbrauð en ég vil fá að stýra brauðgerðarvélum samfélagsins!
Það er engin raunveruleg verðmæti í peningagerðarvélum og braski sem er ekki í tengslum við raunverulega iðju fólks og framleiðslu.
Það er áhugavert að fylgjast með þróun borga, margir enduróma núna hina einföldu hagfræðikenningu um samband milli fjölda byggingarkrana og hruns fjármálakerfis. Núna þarf ekki annað en fara um viðskiptagötur í Reykjavík t.d. Ármúla og Síðumúla til að sjá hve illa er komið, alls staðar er tómt húsnæði og athafnalíf er lamað. Í fjármálahverfinu í Borgartúni voru fyrir nokkrum misserum mölvuð niður hús til að rýma til fyrir nýjum fjármálabyggingum. Núna eru þar margar byggingar ónotaðar. En það er smán saman að verða breyting á fjármálahverfinu og hún er sýnilegust við gömlu Rúgbrauðsgerðina. Vegfarandi sem þar gengur um sér mæður koma þarna með börnin sín, nú eru þar skólar þar sem kennd er list, þar eru dansskólar og sönglistarskólar og núna hafa ýmisr hópar sem vinna að umbætum og endurreisn á Íslandi eftir hrunið sett þar upp bækistöðvar. Þarna andspænis gömlu Rúgbrauðsgerðinni er núna Neyðarstjórn kvenna til húsa og þarna rétt hjá eru líka nýopnaðar bækistöðvar þeirrar borgarahreyfingar sem hefur gengist fyrir borgarafundum. Svo er Samhjálp með sína kaffistofu fyrir útigangsfólk þarna rétt hjá og Sjálfstæðiskonur voru líka á næstu grösum í tómri nýrri skrifstofubyggingu með ráðgjafastofu fyrir gjaldþrota Íslendinga.
Á þessum slóðum, við byrjun á því sem var fjármálahverfi gamla Íslands fyrir hrunið er nú frjósamur rúgakur þeirra sem munu byggja upp nýju Rúgbrauðsgerðina.
6.12.2008 | 20:45
Austurvöllur í dag
Ég var á Austurvelli í dag og tók myndir. Hér eru nokkrar þeirra en það má sjá fleiri í myndaalbúmi mínu á Flickr um þennan atburð. Svo var viðtal við mig og Jónas Kristjánsson í kvöldfréttum um hvernig Netið er að taka við sem vettvangur þjóðfélagsumræðu, sjá hérna Netið fjölmiðlar framtíðarinnar
Eftir mótmælafundinn kom ég við á nýju aðsetri borgarafundafundar í Reykjavík á Borgartúni 3. Það er sniðugt að núna eru ýmsar hreyfingar þarna nálægt hver annarri, Neyðarstjórn kvenna er í næsta húsi.
pereat
![]() |
Ábyrgðin er ekki okkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.12.2008 | 19:18
Siv og Óskar
Ég vona að Siv Friðleifsdóttur gefi aftur kost á sér sem formann Framsóknarflokksins. Ég vona líka að Óskar Bergsson oddviti okkar í Reykjavík gefi kost á sér til forustu. Hann er maður sátta og samvinnu í fllokknum og hann hefur sýnt að hann getur unnið með öllum. Óskar hefur vaxið verulega sem stjórnmálamaður þann ógnarerfiða tíma sem núverandi kjörtímabil í borginni hefur verið og sýnt að hann getur spilað vel úr afar þröngri stöðu. Siv er þingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi og það er raunar eðlilegt að formaður flokksins sé hluti af þingliði hans, það var einmitt ástæðan fyrir að Jón Sigurðsson sagði af sér að hann komst ekki inn á þing. Það er langeðlilegast að leitað sé að næsta formanni Framsóknarflokksins innan þingliðsins. Tveir þingmanna hafa nýlega hætt og Valgerður núverandi formaður hefur tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér. Siv er því eðlilegasti vakostur varðandi næsta formann Framsóknarflokksins.
Siv Friðleifsdóttir er baráttukona, hún gefst ekki upp í ágjöf og vex í erfiðleikum. Margir af þeim sem hafa gefið kost á sér til forustu í Framsóknarflokknum undanfarin misseri hafa horfið á braut, oft mæddir af andbyr en stundum af því að þeim hafa orðið á hrapaleg mistök.
Þannig hvarf Bjarni Harðarsson fyrrum þingmaður af vettvangi eftir að hafa sent út til fjölmiðla lúalegt og ósiðlegt tölvubréf, Guðni Ágústson fyrrum formaður missti sig í ræðu á miðstjórnarfundi og tók nærri sér hvassa gagnrýni flokksmanna og sagði af sér, Jón Sigurðsson fyrrum formaður vann ekki þingsæti í Reykjavík þrátt fyrir að háð væri kosningabarátta B-lista sem var persónugerð í honum og hann sagði af sér.
Björn Ingi oddviti okkar hér í höfuðborginni sigldi í meðbyr lengi vel og hafði einn gríðarleg völd en hann mætti þungum mótvindi og sagði af sér daginn sem hann missti öll völd, daginn sem Framsóknarflokkurinn var ekki lengur í stjórn Reykjavíkurborgar. Raunar er mikil eftirsjá að Birni Inga úr stjórnmálunum, hann hafði marga góða kosti. Guðjón Ólafur fyrrum þingmaður framsóknar í Reykjavík kubbaðist niður í sjónvarpi í frægu hnífasetta-jakkafata atriði, Árni Magnússon bróðir Páls Magnússonar sem nú býður sig fram til formanns sagði af sér sem félagsmálaráðherra. Svo hefur það líka gerst að Framsóknarforingjar hafa sagt af sér áður en þeir eru orðnir foringjar og komnir í kosningaslaginn en eftir að þeir eru búnir að láta birta við sig drottningarviðtöl. Þannig var um Finn Ingólfsson, hann var kallaður til formannsframboðs en burtkallaðist allsnarlega.
Þannig hefur hver Framsóknarforinginn fallið í valinn og það stundum fyrir eigin hendi, vegna eigin afglapa og mistaka en stundum vegna þess að þeim var ekki fylgt að málum og þeir fengu engan hljómgrunn. Ég er mjög leið yfir að Jón Sigurðsson sagði af sér á sínum tíma. Það er maður sem ég hefði treyst til allra góðra verka.
Mín fyrstu afskipti af málum í Framsóknarflokknum urðu í Freyjumálinu svokallaða. Það var þannig að flestir telja að það hafi verið eitthvað plott hjá Páli Magnússyni og bróður hans, eitthvað tengt því að ná undir sig öllum félögum og þar með fulltrúum á kjördæmaþing og liður í því var að gera innrás í kvenfélag Framsóknarkvenna í Kópavogi.
Þetta var engum þeim til sóma sem stóðu að þessu tilræði við kvenfélag í Kópavogi og það kemur því nokkuð á óvart núna að Páll Magnússon skuli núna segjast leggja á það höfuðáherslu að breyta vinnubrögðum í flokkstarfi og auka lýðræði.
Hvernig virkaði lýðræðið í Freyjumálinu í Kópavogi?
Er það þannig lýðræði sem við viljum á Íslandi?
En ég er ánægð að sjá að það skuli vera menn sem vilja bjóða sig fram til forustu í Framsóknarflokknum og ég þekki fólk sem ber Páli vel söguna.
Það eru hins vegar þrjú atriði sem mér finnst skipta nokkru máli.
Í fyrsta lagi var Páll Mangússon aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra og getur þannig ekki skotið sér undan ábyrgð á því hruni íslensks efnahagslífs sem nú er orðið að veruleika. Þótt hrunið verði haustið 2008 þá er það afleiðing óstjórnar og spillingar sem viðgengst í mörg, mörg ár.
Í öðru lagi þá tengist Páll Magnússon og Árni Magnússon innrásinni í kvenfélagið Freyju í Kópavogi og ýmsum öðrum aðgerðum í Framsóknarflokknum sem gefa okkur ekki tilefni til að halda að hann sé besti kandidatinn í að stýra flokki til breyttra vinnubragða og aukins lýðræðis.
Í þriðja lagi hefur Páll undanfarið verið bæjarritari í Kópavogi og staðgengill bæjarstjóra þar. Eftir því sem ég best veit stendur Kópavogskaupstaður ekki vel fjárhagslega og þar eru engar skrautfjaðrir sem þeir sem stýrðu geta státað sig af.
Á þeim tíma sem ég hef starfað í Framsóknarflokknum hef ég kynnst mörgu góðu fólki. Sérstaklega hef ég verið hrifin af því hve margar sterkar og öflugar stjórnmálakonur hafa vaxið þar upp.
Það er gaman að núna skuli kona vera formaður Framsóknarflokksins. Ég vona að næsti formaður Framsóknarflokksins verði líka kona. Ég held að Siv Friðleifsdóttir sé mun líklegri til að byggja upp umhverfi aukins lýðræðis í flokknum heldur en Páll Magnússon og ég hugsa að hún hafi meiri framsýni og skerpu en hann.
Það er líka miklu meiri töggur í Siv heldur en strákunum sem hurfu af vettvangi einn af öðrum.
Það eru miklir mæðutímar hjá Framsóknarflokknum núna. Staðan er hins vegar þannig núna hjá okkur í Reykjavík að það hefur aldrei verið eins gaman að vera í Framsóknarflokknum. Ég starfa núna með Framsóknarfélaginu í Reykjavík og með borgarstjórnarliði flokksins sem vinnur undir forustu Óskars Bergssonar og þar vinna menn saman á þann hátt sem Framsóknarmenn eiga að gera. Rífast töluvert og eru ekki alltaf sammála en standa saman að því að vinna að góðum málum í Reykjavík.
Óskar Bergsson og Siv Friðleifsdóttir eru stjórnmálamenn sem þola vel mótbyr. Óskari hefur tekist undravel að vinna úr þeirri stöðu sem kom upp í Reykjavík og hann hefur lagt áherslu á að byggja upp flokksstarfið og lýðræðislega stjórnarhætti. Óskar er líka maður skynsemishyggju eins og við Framsóknarmenn erum gjarna og hann barðist mikið á móti því að Bitruvirkjun væri fleygt út af kortinu eða settir milljarðar í húskofarugl.
Vonandi muna Reykvíkingar eftir því við næstu kosningar að það var Framsóknarflokkurinn undir forustu Óskars Bergssonar sem frelsaði borgina úr ómögulegu ástandi - úr ástandi þar sem Ólafur Magnússon hafði verið dubbaður upp sem borgarstjóri af Sjálfstæðismönnum - svona sambærilegu ástandi eins og ef Ástþór Magnússon væri dubbaður upp sem forsætisráðherra Íslands. Og það er undir forustu Óskar sem Framsóknarflokkurinn í Reykjavík vinnur fumlaust að málefnum Reykvíkinga og að því að styrkja innviði flokksstarfsins.
![]() |
Páll býður sig fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.12.2008 | 13:08
Krónuspil í krónubréfahagkerfi
Íslenska ríkið með fulltingi IMF stjórnar nú öllu peningamarkaðskerfi og athafnalífi á Íslandi með inngripum og ríkisforsjá sem minnir á Sovétið á tímum fimm ára áætlanabúskapar. Munurinn er hins vegar í fyrsta lagi sá að hér er engin fimm ára áætlun, hér eru bara krónufleytingar og skammtímareddingar frá degi til dags og í öðru lagi þá er þá er markmið efnahagsstjórnar á Íslandi í daga ekki að byggja upp styrkar stoðir undirstöðuatvinnuvega og ná meiri framlegð eins og Sovétstjórnin gerði í stáliðnaði á sínum tíma heldur er æðsta markmið í íslenskri peningastjórn núna að hafa áhrif á eigendur krónubréfa svo þeir æði ekki af stað úr landi eins og stormsveipur og skipti bréfum úr krónum yfir í aðrar myntir.
Hversu lengi getur svona gervihagkerfi haldist uppi?
Hver á þessi krónubréf?
Er ekki best fyrir Íslendinga til langs tíma að keyra gengið í botn núna og hafa vexti hér sem lægsta til að hrekja þetta fjármagn sem fyrst út úr íslensku efnahagslífi með sem mestu tapi fyrir þá sem eiga þessi krónubréf?
Þetta er kýli í íslensku hagkerfi sem er nauðsynlegt að stinga á sem fyrst.
Þá fyrst getum við farið að tala um alvöru uppbyggingu hérna, ekki uppbyggingu sem er byggð á bólupeningum sem þyrlað er til og frá svo verðmætin virki margfalt meiri en þau eru raunverulega.
Það er ekki slæmt í sjálfu sér að hingað komi erlend fjárfesting. Mörg verkefni t.d. virkjanir og önnur stór mannvirki eru svo stór að hin litla íslenska kerfi ræður ekki við að afla fjár á markaði innnanlands. Peningar sem notaðir eru til fjárfestinga á Íslandi eiga að vera fjárfestir hérna vegna þess að fjárfestingin sjálf gefur arð, ekki að arðurinn sé uppblásin bóla, tilkomin vegna gengismunaviðskipta og spákaupmennsku um þannig viðskipti.
Hér er ágæt grein í viðskiptablaðinu sem lýsir ástandinu og því að það er ekki gott að kætast um of vegna styrkingar á gengi núna, það getur verið mikið svikalogn.
En fyrir almenning á Íslandi þá er ömurlegt að búa í hagkerfi og samfélagi sem er miðstýrðara og niðurnjörvaðra en argasta kommúnistaríki og fjötrarnir og stýringin er tilkomin vegna þarfa og hagsmuna þeirra erlendu fjárfesta sem hér eiga fé.
Þegar lyga- og blekkingarvefur núverandi ríkisstjórnar er skoðaður fyrir hrunið þá sést vel við hverja forsætisráðherra var að tala þegar hann kom fram í íslenskum fjölmiðlum rétt fyrir hrunið og gerði lítið úr stóralvarlegri fjármálakreppu. Hann kallaði þá ástandið mótvind.
Han var ekki að tala við íslensku þjóðina.
Hann var að róa erlenda eigendur krónubréfa.
![]() |
Krónan styrkist áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)